Print

Mál nr. 149/2017

A (sjálfur)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)
Lykilorð
  • Frelsissvipting
  • Nauðungarvistun
  • Mannréttindi
  • Stjórnarskrá
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun

A höfðaði máli gegn Í og krafðist meðal annars skaðabóta þar sem hann hafði verið fluttur gegn vilja sínum af lögreglu á bráðaþjónustu geðdeildar Landspítala en systir A hafði óskað eftir því að hann yrði nauðungarvistaður á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997. Við komuna höfðu læknar talið að ekki væru forsendur fyrir því að nauðungarvista A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ekki væru skilyrði til að dæma A bætur á grundvelli 1. mgr. 32. gr. lögræðislaga enda hefði að undangengnu viðtali hans við lækna á geðdeild ekki verið talin þörf á nauðungarvistun. Þá var talið með vísan til heildarmats á aðstæðum við frelsissviptinguna og aðdraganda hennar að A hefði ekki að ósekju verið fluttur nauðugur á sjúkrahús til nákvæmari greiningar á ástandi hans í skilningi 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar né að vistunin á sjúkrahúsinu hefði tekið óhæfilega langan tíma. Var Í því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2017. Hann krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt og að bótaskylda stefnda verði viðurkennd. Þá krefst hann að stefnda verði gert að greiða sér 90.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2015 til greiðsludags.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárhæð kröfu áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram leitaði systir áfrýjanda 3. mars 2014 til héraðsvaktar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að ábendingu geðlæknis er hún hafði áður ráðfært sig við, og óskaði eftir að áfrýjandi yrði nauðungarvistaður á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997. Taldi systir áfrýjanda hann hafa verið veikan undanfarnar tvær vikur og hefðu veikindin ágerst. Áfrýjandi hafði tveimur dögum áður farið sjálfviljugur í fylgd mágs síns í viðtal á geðdeild Landspítalans. Gert hefði verið ráð fyrir endurkomu 3. mars en áfrýjandi neitaði að mæta í bókaðan viðtalstíma. Væri ástand hans verra en tveimur dögum fyrr. Að fenginni staðfestingu geðdeildar Landspítala á fyrirhugaðri endurkomu þennan sama dag, tók læknir á héraðsvakt heilsugæslunnar ákvörðun um að vitja áfrýjanda og leggja mat á hvort nauðsynlegt væri að flytja hann á sjúkrahús til að meta hvort þyrfti að  nauðungarvista hann. Óskaði hann eftir að lögregla væri til taks til að flytja áfrýjanda á geðdeildina en talið var að hann færi ekki sjálfviljugur. Í kjölfar þess að læknirinn hitti áfrýjanda fyrir í töluverðu ójafnvægi tók hann ákvörðun um að áfrýjandi skyldi fluttur gegn vilja sínum af lögreglu á bráðaþjónustu geðdeildar Landspítala.

Niðurstaða tveggja lækna á geðdeildinni, er mátu ástand áfrýjanda við komuna þangað, var að áfrýjandi væri undir mikilli streitu en ekki væru klár merki um geðrof eða „maniu“ þótt slíkt gæti verið í uppsiglingu. Hann var ekki metinn í sjálfsvígshættu eða hættulegur sjálfum sér og því töldu læknarnir ekki forsendur fyrir því að nauðungarvista hann þó svo þeir hvettu hann, án árangurs, til að leggjast inn og taka lyf vegna ástands síns.

II

Í málinu gerir áfrýjandi bæði kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda og kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjanda nánar tiltekna fjárhæð í skaðabætur. Í kröfu um skaðabætur að tiltekinni fjárhæð felst krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Áfrýjandi hefur því ekki lögvarða hagsmuni af því að leyst sé sjálfstætt úr viðurkenningarkröfu hans og verður henni því vísað frá héraðsdómi.

III

Í 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur læknir þó ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögræðislögum var tekið fram að alvarlegur geðsjúkdómur í merkingu þessa ákvæðis væri samheiti yfir geðraskanir sem einkenndust af verulegum hugsanatruflunum og dómgreindarbresti og samsvaraði nokkurn veginn hugtakinu geðrof sem í íslensku máli væri einnig nefnt geðveiki. Fyrir utan hugtakið féllu hins vegar hugraskanir og streitutengdar raskanir sem einkennst gætu af kvíða, fælni og þráhyggju, enn fremur persónuleikaraskanir og þroskahefting. Hent gæti að sá sem haldinn væri hugröskun, persónuleikaröskun eða þroskaheftingu sýndi jafnframt sjúkdómseinkenni sem bent gætu til alvarlegs geðsjúkdóms og mætti þá vista hann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til rannsóknar og meðferðar ef læknir teldi það óhjákvæmilegt. Heimildin til að vista mann nauðugan á sjúkrahúsi ef verulegar líkur væru taldar á að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi væri á því byggð að oftar en ekki væri í tilfelli bráðageðveiki ógjörningur að koma við nákvæmri greiningu á ástandi viðkomandi áður en honum yrði komið á sjúkrahús.

Áfrýjandi hefur meðal annars byggt kröfur sínar á 1. mgr. 32. gr. lögræðislaga þar sem mælt er fyrir um að  dæma skuli bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar sjálfráða manns ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða að henni staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Fyrir liggur að áfrýjandi var fluttur gegn vilja sínum af lögreglu á geðdeild til mats á ástandi hans en lögreglu er samkvæmt 2. málslið 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að flytja mann nauðugan á sjúkrahús. Þótt áfrýjandi hafi þannig verið fluttur gegn vilja sínum á sjúkrahús var, að undangengnu viðtali hans við lækna á geðdeild og að fengnu mati yfirlæknis, ekki talin þörf á nauðungarvistun. Samkvæmt þessu eru því ekki skilyrði til að dæma áfrýjanda bætur á grundvelli 1. mgr. 32. gr. lögræðislaga.

Þá hefur áfrýjandi vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, megi engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá er svo fyrir mælt í 5. mgr. 67. gr. að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í málinu þarf að leysa úr því hvort áfrýjandi hafi verið sviptur frelsi að ósekju í umrætt skipti þannig að stefndi hafi af þeim sökum bakað sér bótaskyldu gagnvart honum.

Þótt  læknar á geðdeild hafi komist að þeirri niðurstöðu að ástand áfrýjanda væri ekki þess eðlis að það réttlætti að hann yrði nauðungarvistaður verður því ekki þar með slegið föstu að áfrýjandi hafi að ósekju verið sviptur frelsi sínu heldur verður að leggja heildarmat á aðstæður við frelsissviptinguna og í aðdraganda hennar. Leggja verður til grundvallar að hegðun áfrýjanda og líðan hafði breyst síðustu vikur áður en kom að því að hann var fluttur á geðdeild, eins og áður greinir, og að fjölskylda hans taldi sig hafa ástæðu til að óttast um heilsu hans. Af þeim sökum hafði mágur áfrýjanda talið hann á að fara í viðtal á geðdeild þann 1. mars. Við það tilefni hafnaði áfrýjandi lyfjagjöf en gert var ráð fyrir endurkomu hans eftir tvo daga eða sama dag og áfrýjandi var fluttur á geðdeildina. Systir áfrýjanda og mágur héldu því bæði fram að ástand áfrýjanda hefði versnað á þeim tveimur dögum. Læknir á héraðsvakt heilsugæslunnar, sem kom fyrir héraðsdóm, bar að erfitt gæti verið að meta hvort einstaklingur væri í geðrofi. Ekki væri unnt að leggja fyrir hann einfalt próf sem greindi hvort um slíkt væri að ræða. Hann staðfesti jafnframt að í ljósi sögu áfrýjanda, frásagna fjölskyldunnar af breyttri hegðun hans og ætluðum ranghugmyndum og því að geðdeild hefði ráðlagt endurkomu á deildina í viðtali tveimur dögum fyrr, hefði það verið mat hans að áfrýjandi gæti verið í geðrofi. Hann greindi jafnframt frá því að þegar hann hitti áfrýjanda fyrir 3. mars 2014 hafi áfrýjandi verið í ójafnvægi og því hefði hann tekið ákvörðun um að láta flytja hann nauðugan á geðdeild svo ástand hans yrði metið. Þá verður til þess að líta að í göngudeildarnótu geðlæknis, er tók á móti áfrýjanda við komuna á geðdeild, kemur fram að áfrýjandi væri augljóslega haldinn mikilli streitu þó ekki væru klár merki um geðrof eða „maniu“ þótt slíkt gæti verið í uppsiglingu. Þá var hann ekki talin vera í sjálfsvígshættu. Allt að einu var áfrýjandi hvattur til að þiggja lyfjagjöf og jafnframt til þess að leggjast inn á deildina sjálfviljugur sem hann hafnaði. Með vísan til þess sem nú var rakið, verður ekki talið að áfrýjandi hafi að ósekju verið fluttur nauðugur á sjúkrahús til nákvæmari greiningar á ástandi hans. Jafnframt verður talið að vistunin á sjúkrahúsinu hafi ekki tekið óhæfilega langan tíma. Læknir á geðdeild, er mat ástand áfrýjanda við komuna þangað, taldi við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi, að viðtalið við áfrýjanda hefði tekið innan við klukkutíma. Áfrýjandi hefur ekki mótmælt því mati vitnisins. Þá verður staðfest, með vísan til forsendna, sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms, að engir aðrir þeir annmarkar hafi verið á framkvæmd frelsissviptingar áfrýjanda umræddan dag eða undirbúningi hennar að lögum, sem varðað geti því að hún teljist hafa verið ólögmæt. Framkvæmd flutnings áfrýjanda á geðdeild Landspítala var því í fullu samræmi við áskilnað 19. gr. lögræðislaga og hún ekki að ósekju í skilningi 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu áfrýjanda, A um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins.

Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2017

Mál þetta, sem var höfðað 15. september 2015, var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 12. janúar 2017.

Stefnandi er A, [...], Kópavogi og stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, vegna ólöglegrar frelsissviptingar sem stefnandi sætti í mars 2014, þegar hann var færður nauðugur af lögreglu, frá heimili sínu niður á geðdeild Landspítalans og haldið þar nauðugum.

Þess er jafnframt krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda, 90.000.000 króna í bætur, vegna miska og skaða.

Þá er krafist dráttarvaxta frá stefnubirtingardegi til greiðsludags, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Gögn málsins gefa að mati dómsins ótvírætt til kynna að það hafi verið þann 3. mars 2014, sem B, systir stefnanda, muni hafa haft samband við C, lækni við Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, og óskað eftir því að stefnandi yrði nauðungarvistaður, en heilsugæslan starfrækir svokallaða héraðsvakt sem sinnir beiðnum um bráða nauðungarvistun einstaklinga utan sjúkrahúsa. Ástæða beiðninnar þennan dag var sögð sú að B taldi stefnanda vera veikan og hafa verið það a.m.k. undanfarnar tvær vikur. Stefnandi, sem er verkfræðingur, hafði ekki skilað sér til vinnu síðustu daga, en það sagði hann við aðalmeðferð málsins að hefði verið að áeggjan systur hans. Stefnandi heldur því fram að atvik málsins hafi gerst 2. mars en ekki daginn eftir.

Tveimur dögum fyrr eða 1. mars 2014 hafði eiginmaður B fengið stefnanda til að fara með sér til læknis og þeir farið á geðdeild. Stefnandi undraðist þetta en beið rólegur á biðstofunni í drykklanga stund eftir að komast inn. Stefnanda voru ráðlögð lyf til að bæta svefn og draga úr spennu sem hann þáði ekki. Þegar ósk um nauðungarvistun var sett fram hafði stefnanda hrakað mjög á tveimur dögum að sögn systur hans. C mat það svo að lýsingar systur stefnanda og eiginmanns hennar á ástandi stefnanda gætu bent til þess að hann væri í geðrofi.

C læknir hringdi á Landspítala og ræddi við deildarlækni á geðdeild sem greindi frá því að á morgunfundi þann dag hefði verið rætt um að stefnandi kæmi mögulega í mat aftur. Deildarlæknir var upplýstur um að aðstandendur hans bæðu um nauðungarvistunarmat og teldu að hann yrði að koma í lögreglufylgd þar sem hann færi ekki sjálfviljugur. Deildarlæknir upplýsti að gert hefði verið ráð fyrir honum aftur í viðtal þennan dag.

Ákveðið var að óska eftir aðstoð lögreglu sem kom að heimili stefnanda sama dag ásamt C lækni sem spurði stefnanda hvort hann hygðist mæta til viðtals þann dag. Þegar stefnandi neitaði því tilkynnti C honum að hann yrði þá færður nauðugur á geðdeildina. Stefnandi lýsti sig ósáttan við að fara og mótmælti, en kom þó mótþróalaust í lögreglubifreiðina og kom með á geðdeild.

Stefnandi var, samkvæmt vottorði yfirlæknis, metinn ítarlega á bráðaþjónustunni og mátu læknar það svo að stefnandi væri undir miklu álagi. Var hann hvattur til að þiggja lyf og leggjast inn á geðdeild sjálfviljugur, en hann hafnaði því. Engin merki komu fram um alvarlega geðhæð þótt grunur væri um að slíkt gæti verið í uppsiglingu. Engin merki voru um geðrof eða sjálfsvígshugleiðingar. Ekki voru því taldar forsendur fyrir nauðungarvistun og stefnandi fór heim. 

Stefndi áréttar að allir læknar sem starfi á Héraðsvakt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins séu bærir til að taka ákvarðanir samkvæmt skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.

Stefndi lýsir því svo, að vaktinni sé falið að sinna óskum um nauðungarvistun einstaklinga utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Komi fram ósk frá einstaklingi eða fjölskyldu sem álíti nákominn ættingja í þannig andlegu ástandi að það jafnist á við alvarlegan geðsjúkdóm en viðkomandi vill ekki leita læknis eða fellst ekki á læknismeðferð sem honum hefur verið ráðlagt, sé oft vísað á héraðsvaktina til að fá aðstoð. Venjulega hafi þá fjölskyldan áður leitað ráða á geðdeild Landspítalans eða hjá geðlækni. Sé leitað til vaktarinnar afli læknir á vakt þá upplýsinga um sjúkdómsástand einstaklingsins frá ættingjum sem hafa haft samband svo og hjá læknum sem viðkomandi hefur leitað til ef um slíkt ræðir. Ef ættingjar lýsi hátterni einstaklingsins til orðs og æðis fyrir lækni vaktarinnar þannig að læknirinn telji það líklegt að viðkomandi sé í geðrofi fallist læknir á að hitta hann. Áður kynni hann sér hvort viðkomandi ættingjar hafi ráðfært sig við geðlækna eða geðdeild Landspítalans um hvað sé best að gera fyrir þann sem talinn er veikur. Þegar læknir á héraðsvaktinni fari til að hitta einstaklinginn fari hann í fylgd lögreglu. Áður hafi hann haft samband við lögregluna og óskað eftir aðstoð við að flytja sjúkling nauðugan á sjúkrahús samkvæmt 19. gr. lögræðislaganna. Sé það gert þar sem allar líkur standi til þess að hinn meinti sjúklingur neiti að fara sjálfviljugur í viðtal á geðdeildina þó að læknir leggi að honum að gera það. Einnig hafi læknirinn samband við vakthafandi lækni á geðdeildinni til að láta vita að það gæti komið til geðlæknismats á viðkomandi einstaklingi með tilliti til nauðungarvistunar eins og ættingjar hafi beðið um. Ef læknir telji, eftir að hafa hitt meintan sjúkling og fengið sögu um hátterni hans, að það þurfi að fá álit geðlæknis til að meta hvort þörf sé á nauðungarvistun fyrir hann á sjúkrahúsi þá tilkynnir læknirinn sjúklingnum um það. Ef hann fellst ekki á að fara sjálfviljugur í viðtalið sé beiðnin um aðstoð lögreglu virkjuð og lögreglan flytji hann í viðtal við geðlækni á Landspítalanum. Starfsfólk geðdeildar sé þá látið vita að von sé á lögreglu með viðkomandi einstakling til mats m.t.t. nauðungarvistunar. Svo hafi verið í tilviki stefnanda.

Skýrslur fyrir dómi gáfu C læknir, D yfirlæknir, E yfirlæknir, F sérfræðilæknir G læknir, H læknanemi og lögreglumennirnir I og J.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að íslenska ríkið hafi, á grundvelli húsbóndaábyrgðar á athöfnum starfsmanna sinna, bakað sér bótaskyldu gagnvart honum samkvæmt 32. gr lögræðislaga nr. 71/1997, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. 

Stefnandi bendir á að ákvörðun C læknis hafi verið byggð á 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, en þar komi fram að 18. gr. stjórnsýslulaga, um að stytta tíma til andmæla, gildi ekki um meðferð mála samkvæmt umræddri grein. Löggjafinn sé með þessu að styrkja andmælarétt málsaðila gagnvart stjórnvaldsákvörðun sem tekin er á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Stjórnvald verði því að gefa málsaðila óskertan tíma til andmæla, en að öðrum kosti geti stjórnvald eingöngu byggt ákvörðun á grundvelli greinarinnar á gögnum/sjónarmiðum þar sem andmæli málsaðila séu augljóslega óþörf, samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Það sé ósannað að sú staða hafi verið uppi í tilviki stefnanda.

Stefnandi byggir á því að ákvörðun um nauðungarvistun sé stjórnvaldsákvörðun. Það sé því ekki heimild í lögum fyrir aðra lækna en þá sem hafa stjórnsýsluvald að beita 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. C héraðslæknir hafi ekki stjórnsýsluvald til að taka stjórnvaldsákvörðun samkvæmt ákvæðinu, gagnvart stefnanda.

Stefnandi byggir á því að C héraðslæknir hafi safnað persónuupplýsingum um stefnanda án þess að hafa til þess nokkra rannsóknarheimild samkvæmt lögum. Vísar stefnandi til þess að læknirinn hafi hringt í geðdeild og eiginmann systur stefnanda án nokkurrar lagaheimildar, auk þess að skrifa minnispunkta á kennitölu stefnanda, án heimildar.

Stefnandi telur að engin heimild sé til þess að ættingjar aðila óski eftir nauðungarvistun á grundvelli 2. mgr. 19. gr. Samkvæmt 20. gr. lögræðislaga geti ættingjar, nánar skilgreint í 2. mgr. 7 gr. sömu laga, sent beiðni með ósk um nauðungarvistun manns samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Slík beiðni skuli samkvæmt 21. gr. laganna vera skrifleg og berast til innanríkisráðuneytisins. Stefnandi byggir á því að ekki skipti máli hver tilkynnir stjórnvaldi í málum sem þessum, stjórnvald taki ákvörðun um það í hvaða farveg mál er sett og beri alfarið ábyrgð á því að farið sé að lögum. Byggt er á því að sú framkoma heilbrigðisstarfsmanna að bera ættingja stefnanda fyrir ákvörðunum sínum í málinu, sé mannréttindabrot gagnvart stefnanda og fjölskyldu hans.

Stefnandi byggir á því að þar sem hann hafi verið fluttur nauðugur á sjúkrahús og haldið þar, samkvæmt 18. gr. lögræðislaga, falli það undir nauðungarvistun. Stefnandi hafi verið sjálfráða maður, nauðungarvistaður samkvæmt skilgreiningu lögræðislaga og hafi því átt að njóta allra réttinda samkvæmt lögum, sem nauðungarvistaður sjálfráða maður.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi óskað eftir lögmanni, bæði við lögreglu og einnig hafi hann í upphafi viðtals á geðdeild Landspítalans óskað eftir lögmanni, enda haldið þar nauðugum, en honum hafi verið synjað um það. Stefnandi byggir á því að, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lögræðislaga, beri að tilkynna nauðungarvistuðum manni tafarlaust um rétt hans til að njóta stuðnings ráðgjafa, samkvæmt 27. gr. lögræðislaga. Stefnandi bendir á að ekki hafi verið gefnar út reglur samkvæmt, 5. mgr. 27. gr. lögræðislaga, sem m.a. eigi að taka á skyldum slíks ráðgjafa. Stefnandi byggir á því að hér hafi verið brotið gróflega á réttindum hans en það geti stafað af því að framangreindar reglur hafi ekki verið gefnar út.

Loks byggir stefnandi á því að geðdeild Landspítalans hafi ekki lagaheimild til að nauðungarvista sjálfráða menn. Reglugerð samkvæmt 5. mgr. 19. gr. lögræðislaga hafi ekki verið gefin út. Þar af leiðandi hafi Landspítalinn enga heimild til að nauðungarvista sjálfráða menn. Byggt sé á reynslu stefnanda, um að geðdeild Landspítalans sé með öllu ófær um að gæta réttarstöðu sjálfráða einstaklinga sem sæta nauðungarvistun þar og sé þar með óhæf til að sinna slíkum verkefnum.

III.

Stefndi segir að við úrvinnslu máls stefnanda hafi verið fylgt 3. kafla lögræðislaga nr. 71/1997 og vísar í því sambandi til 2. mgr. 19. gr., sbr. 4. mgr. 19. gr. s.l., og byggir á því að fullnægt hafi verið skilyrðum greinarinnar fyrir aðgerðum þeim sem mál þetta fjallar um. Aðgerðin hafi verið lögmæt í alla staði.

Óhjákvæmilegt hafi verið að koma stefnanda til nánari skoðunar á geðdeild. Geri 19. grein laganna beinlínis ráð fyrir því og ekki sé hægt að sjá hvernig hægt hefði verið að standa að málum með öðrum hætti. Ákvörðunin hafi falið í sér bráðabirgðaákvörðun sem staðfesta yrði á sjúkrahúsinu af þar til bærum sérfræðingi/yfirlækni.

Stefnandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við aðkomu lögreglu að málinu en stefndi bendir í þessum efnum á það sem hann telur skyldu lögreglu skv. 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sbr. e-lið 2. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Aðkoma lögreglu í málinu hafi verið lögmæt í alla staði.

Stefndi telur það vafa undirorpið en kveðst telja að sé hægt að líta svo á að í kröfugerð stefnanda felist bótakrafa vegna starfa starfsfólks Landspítala sé þeim kröfum mótmælt en engin skilyrði séu til að dæma bætur vegna þeirrar starfsemi. Aðkoma Landspítala hafi verið lögmæt í alla staði.

Stefndi kveðst benda á að stefnandi hafi skömmu áður leitað til bráðaþjónustu geðsviðs í fylgd ættingja þar sem grunur var um byrjandi örlyndisástand.

Lýsing systur stefnanda og eiginmanns hennar á hátterni stefnanda síðustu daga fyrir umræddan atburð, auk upplýsinga frá geðdeild Landspítalans, hafi verið þannig að það hafi getað jafnast á við að stefnandi væri í geðrofi eða þannig andlega veikur að hann gæti verið hættulegur sjálfum sér og öðrum. Ákvörðun skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sé ákvörðun læknis. Saga stefnanda ein og sér hafi getað leitt til þess að læknir vildi fá álit sérfræðings á geðdeild, en erfitt geti verið að greina geðrof. Þegar C læknir hafi hitt stefnanda hafi hann talið það einu leiðina til að fá úr því skorið hvort hann væri í geðrofi og þyrfti að vistast á sjúkrahúsi, að fá álit geðlæknis. Byggt sé á því að þetta hafi verið rétt mat. 

Stefnandi byggi á því í stefnu að eingöngu dómarar geti fjallað um sjálfræðissviptingu samkvæmt lögræðislögum. Stefndi kveðst ekki átta sig á þessari málsástæðu en ítrekar að 2. mgr. 19. gr. heimili lækni þá aðgerð sem ákveðin hafi verið og hafi hún verið fyllilega lögmæt og læknirinn bær til að taka hana.

Stefndi kveðst mótmæla því sem fram kemur í stefnu að læknirinn hafi verið búinn að ákveða að stefnandi yrði færður á geðdeild Landspítala áður en hann hitti stefnanda fyrir framan heimili hans á [...]. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi verið handtekinn.

Stefndi telur og ósannað og mótmælir því að stefnanda hafi verið haldið nauðugum í viðtali á geðdeild. Í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi ekki verið beittur neinni nauðung eða frelsissviptingu af hálfu geðdeildar.

Stefnandi byggi á því að íslenska ríkið hafi á grundvelli húsbóndaábyrgðarreglu á athöfnum starfsmanna sinna bakað sér bótaskyldu gagnvart honum samkvæmt 32. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda og byggir á því að ekki sé fullnægt skilyrðum ákvæðis umræddra lagaákvæða í þessu máli fyrir bótaskyldu. Í 32. gr. lögræðislaga sé kveðið á um skaðabætur ef lögmæt skilyrði vegna nauðungarvistunar hafa brostið. Nauðungarvistun var aldrei ákveðin endanlega í þessu tilviki. Ekki sé heldur hægt að vefengja það læknisfræðilega mat C að senda stefnanda á sjúkrahús til frekari rannsóknar og ákvarðanatöku.

Stefndi vísar á bug sjónarmiðum stefnanda um 18. gr. stjórnsýslulaga og tengslum hennar við 19. gr. lögræðislaga og telur þau illskiljanleg. Vísar stefnandi um aðra niðurstöðu til athugasemda við frumvarp það er varð að lögræðislögum 

Stefndi telur ljóst að lækni, sem fái erindi líkt og C fékk, beri að kynna sér málið og persónulegar upplýsingar um viðkomandi einstakling. Læknirinn hafi haft fullar heimildir til að kanna mál stefnanda.

Stefndi kveðst benda á, að komi fram ábending til læknis sem hann metur trúverðuga, þurfi að fylgja slíku eftir og kanna betur, þótt ekki sé bein heimild í lögræðislögum um að ættingjar geti sent inn beiðni um nauðungarvistun í tilvikum sem 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga tekur til. Ekkert sé ólögmætt eða athugavert við það. Þá mótmælir stefndi sjónarmiðum stefnanda um meint mannréttindabrot.

Stefndi telur ósannað að stefnandi hafi óskað eftir lögmanni á geðdeild. Því sé og mótmælt af hálfu stefnda að stefnandi hafi átt rétt á lögmanni.  Þá telur stefndi rangt að það hafi verið hlutverk C læknis að benda stefnanda á réttindi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lögræðislaga enda þar talað um vakthafandi sjúkrahúslækni og sjúkrahúsdvöl og meðferð þar. C hafi einungis látið flytja stefnanda á geðdeild til mats en honum hafi ekki verið haldið þar. Og sé á því byggt að ekki hafi verið um nauðungarvistun að ræða enda þurfi tvennt að koma til skv. 18. gr. lögræðislaga, bæði að vera fluttur og haldið þar. Síðara atriði sé ekki uppfyllt. 

Stefndi mótmælir því að ekki sé heimild í lögum til að nauðungarvista sjálfráða menn og vísar til lögræðislaga því til stuðnings. Auk þess vísar hann til þess að stefnandi hafi ekki verið nauðungarvistaður á spítalanum.

Stefndi telur bótakröfu stefnanda með öllu vanreifaða. Meint fjártjón sé með öllu ósannað enda ekki minnst á það einu orði í stefnu.  Kröfum stefnanda sé mótmælt að öllu leyti.

Á því sé byggt að upphafsgreining C og ákvörðun hans um flutning og allar þær aðgerðir sem til skoðunar eru í þessu máli hafi verið fullkomlega lögmætar og málefnalegar. Ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár né öðrum réttarheimildum.

Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Stefndi vísar varðandi varakröfu sína til sömu málsástæðna og sjónarmiða og fram koma í umfjöllun um aðalkröfu um sýknu.  Dómkröfur stefnanda séu allt of háar og í raun fjarstæðukenndar og sé krafist stórkostlegrar lækkunar þeirra.

IV.

Stefnandi byggir á því að atvik málsins, þ.e. þegar C læknir kom í fylgd lögreglu til hans og færði hann til viðtals á geðdeild, hafi átt sér stað sunnudaginn 2. mars 2014 en ekki mánudaginn 3. mars 2014. Stefnandi gat að mati dómsins ekki útskýrt hvaða þýðingu þetta hefði fyrir málið ef þessi væri raunin. Í stefnu heldur hann því þó fram að þetta sýni að einhvers konar annarleg sjónarmið hafi búið að baki öllu málinu. Dómurinn telur hins vegar ljóst, án þess að það verði talið skipta máli við úrlausn málsins, að atvikin hafi gerst 3. mars. Allar skýrslur lækna vegna málsins staðfesta það, sem og dagbókarfærsla lögreglu. Að auki átti stefnandi að koma til viðtals aftur á geðdeild síðar þann dag samkvæmt forskrift frá lækni í viðtali 1. mars, en hafði neitað að mæta, en sú neitun mun m.a. hafa kallað á þá aðgerð sem ráðist var í. 

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, er lækni falið það vald að ákveða að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Frelsisskerðing má ekki standa lengur en 72 klukkustundir nema til komi samþykki sýslumanns. Ákvæði þetta er undantekning frá meginreglu 1. mgr. um að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur á sjúkrahúsi.

Í ákvæðinu er ekki skilgreint hvaða eða hvernig lækni sé átt við og ekki gerð krafa um sérstaka menntun eða embættisheiti eins og stefnandi hefur ýjað að. Því verður ekki séð að það fyrirkomulag sem stjórn heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið, um að vakthafandi læknar á svokallaðri héraðsvakt heilsugæslunnar skuli sinna óskum um nauðungarvistun, sé andstætt ákvæðinu.

Því er ekkert sem stendur í vegi þess að læknir sem fær upplýsingar um að einstaklingur sé hugsanlega í slíku ástandi sem lýst er í ákvæðinu, kanni málið frekar og má jafnvel tala um skyldu hans í þeim efnum. Engu máli getur skipt hvaðan slíkar upplýsingar koma, hvort það er frá aðstandanda, nágrönnum, lögreglu o.s.frv.

Grundvallaratriði er þó að viðkomandi læknir meti það sjálfur, áður en hann grípur til aðgerða samkvæmt ákvæðinu, hvort ástand viðkomandi einstaklings gefi tilefni til frekari rannsóknar til ákvörðunar eftir atvikum um nauðungarvistun viðkomandi, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna.

Í framburði C borgarlæknis fyrir dómi kom það enda fram að þetta væri ætíð gert og þetta hefði hann gert þegar hann hitti stefnanda 3. mars 2014  og metið það svo að frekari rannsóknar væri þörf. Ekkert bendir til þess að þetta mat læknisins á þessari stundu hafi verið rangt. Í framburði læknisins fyrir dómi kom og fram að erfitt gæti oft verið að meta hvort um væri að ræða geðrof og slík greining kallaði oft á ítarlegri skoðun.

Því er hafnað, sem stefnandi heldur fram, að á honum hafi verið brotinn réttur með því að lögreglan hafi, áður en hún kom með C lækni á vettvang, fyllt út eyðublað til að staðfesta beiðni um aðstoð lögreglu, og C hefði skrifað undir það skjal. Ekkert er heldur komið fram um, og er það ósannað, að C hafi verið búinn að mynda sér skoðun í málinu áður en hann hitti stefnanda fyrir.

Stefnandi fór, eins og að framan greinir, án mótþróa með lögreglunni á geðdeild til viðtals. F, sérfræðilæknir á geðdeild, stjórnaði viðtalinu við stefnanda. Hún mundi ekki eftir því hvað viðtalið hefði staðið lengi en sagði svona viðtöl yfirleitt taka frá 20 mínútum til 60 mínútna. Stefnandi sjálfur telur að viðtalið hafi tekið nálægt einni klukkustund. Í göngudeildarnótu er ástæða fyrir komu stefnanda sögð m.a. sú að óregla hafi verið á hegðun undanfarnar vikur og grunur um maníu. Einnig að fjölskyldan hefði haft áhyggjur af hátterni hans og reynt að fá hann til læknis en án árangurs. Það var álit læknisins að stefnandi væri undir miklu streituálagi  en ekki væru klár merki um geðrof eða maníu. Slíkt gæti þó verið í uppsiglingu. Stefnanda var ráðlögð innlögn og lyfjataka en hann vildi ekki þiggja það. Undir lok viðtalsins kallaði F til E yfirlækni til að fá annað álit á þá skoðun sína að ekki væri ástæða til nauðungarvistunar. Eftir að E hafði rætt við stefnanda samþykkti hann það mat F. Stefnandi var sagður hafa farið sáttur og rólegur.   

Stefnandi byggir á því að honum hafi borið ríkari andmælaréttur og vísar um það til þess að í 2. mgr. 19. gr. segir að 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi ekki við í málum sem þessu. Hafna verður því að þessi tilvísun í 18. gr. hafi eitthvað með andmælarétt að gera. Þvert á móti endurspeglar hún þá staðreynd að mál samkvæmt ákvæðinu eru þess eðlis að oftar en ekki þarf að hafa skjótar hendur. Því er ekki gert ráð fyrir því að sá sem fyrir verður fái frest til að kynna sér gögn málsins til að undirbúa einhvers konar andsvör. Sömu rök leiða til þess að ekki verður að jafnaði veittur frestur til andmæla.

Þá verður hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að löggjafanum hafi ekki verið heimilt að fela læknum það vald sem gert er með 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Sú  málsástæða er ekki rökstudd sérstaklega, en telja verður að löggjafinn hafi án nokkurs vafa þetta vald, enda um mjög afmarkað tilvik að ræða og bráðaaðstæður og þeim er fyrir verður tryggður víðtækur bótaréttur ef vikið er með einhverjum hætti frá lagaskilyrðum.

Ekki verður séð að það hafi sjálfstæða þýðingu fyrir málið hvort C hafi safnað persónuupplýsingum um stefnanda ef sú er raunin. Ganga verður enda út frá því að þar sé þá um að ræða gögn er varða heilsufar stefnanda og þeim þá haldið til haga vegna hagsmuna stefnanda sjálfs.

Þá verður það ekki heldur talið hafa þýðingu að stefnanda hafi verið neitað um aðstoð lögmanns þegar hann kom til viðtals á geðdeild og engin lagaskylda sem kveður á um slíkan rétt. Einnig er það haldlaust hjá stefnanda að það geti skipt máli við úrlausn á sakarefninu, einkum sjálfum bótagrundvellinum, að ekki ekki hafi verið settar reglugerðir samkvæmt 5. mgr. 27. gr. og 5. mgr. 19. gr. lögræðislaga.

-------

Stefnandi vísar um bótakröfu sína m.a. til lögræðislaga, nr. 71/1997, en í 1. mgr. 32. gr. þeirra kemur fram að dæma skuli bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar sjálfráða manns ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða að henni staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki verið nauðungarvistaður. Stefnandi, hins vegar, bendir á að hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að verða við tilmælum lögreglu en það hafi hins vegar verið í óþökk hans. Því hafi hann komið til viðtals gegn vilja sínum. Dómurinn telur að ekki þurfi að skilgreina þessa stöðu í málinu með það í huga hvort 32. gr. skapi stefnanda rétt til bóta því samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að þær aðgerðir sem ráðist var í 3. mars 2014 gagnvart stefnanda hafi verið lögmætar og uppfyllt öll skilyrði laga. Stefnandi eigi því ekki rétt til bóta samkvæmt ákvæðinu.

Dómurinn telur með sama hætti að ekki séu uppfyllt skilyrði í málinu til að dæma stefnanda bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða annarra réttarheimilda sem stefnandi tilgreinir í stefnu málsins, þar sem skilyrði um saknæmi og ólögmæti skortir.

-------

Með vísan til framangreinds verður því stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Dómurinn telur rétt, með vísan til eðlis málsins og þeirra hagsmuna sem um ræðir, að málskostnaður falli niður.

Stefnandi, sem er ólöglærður, flutti mál sitt sjálfur og af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen hæstaréttarlögmaður.  

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                              D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.