Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2021

Dalseignir ehf. (Guðmundur Ágústsson lögmaður)
gegn
Fer fasteignum ehf. (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Lögvarðir hagsmunir

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með úrskurði héraðsdóms hefði verið fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði, ásamt öllu sem honum tilheyrði, borinn út úr tiltekinni fasteign og varnaraðila fengin umráð eignarinnar. Sóknaraðili hefði kært þann úrskurð til Landsréttar og krafist þess að hann yrði felldur úr gildi. Útburðargerð hefði farið fram í samræmi við hinn kærða úrskurð og henni hefði verið lokið 20. október 2021. Landsréttur hefði í kjölfarið vísað málinu sjálfkrafa frá réttinum með úrskurði 25. sama mánaðar. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að fyrir því væri löng dómvenja að áfrýjunardómstóll vísaði sjálfkrafa frá dómi máli sem skotið væri til hans með kæru í því skyni að fá fullnustugerð fellda úr gildi ef gerðinni væri lokið áður en unnt væri að ljúka efnislegri afgreiðslu kærumálsins. Við þessar aðstæður hefði kærandi ekki lengur verið talinn hafa lögvarða hagsmuni eða réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður kæmi til endurskoðunar. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 25. október 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Helstu málsatvik

5. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. september 2021 var fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði, ásamt öllu sem honum tilheyrði, borinn út úr fasteigninni að Dalvegi 16b í Kópavogi og varnaraðila fengin umráð eignarinnar. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi. Útburðargerð fór fram í samræmi við hinn kærða úrskurð og var henni lokið 20. október 2021. Landsréttur vísaði málinu sjálfkrafa frá réttinum með úrskurði 25. sama mánaðar.

Niðurstaða

6. Fyrir því er löng dómvenja að áfrýjunardómstóll vísi sjálfkrafa frá dómi máli sem skotið er til hans með kæru í því skyni að fá fullnustugerð fellda úr gildi ef gerðinni er lokið áður en unnt var að ljúka efnislegri afgreiðslu kærumálsins. Við þessar aðstæður hefur kærandi ekki lengur verið talinn hafa lögvarða hagsmuni eða réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður komi til endurskoðunar. Um þetta má vísa til dóms Hæstaréttar 30. apríl 2002 í máli nr. 185/2002, þar sem útburðargerð hafði þegar farið fram, en einnig dóma réttarins 2. september 2008 í máli nr. 388/2008 og 13. janúar 2012 í máli nr. 674/2011 sem lutu að annars konar gerðum.

7. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

8. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.