Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2021

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)

Lykilorð

 • Líkamstjón
 • Skaðabætur
 • Uppgjör
 • Fyrirvari
 • Matsgerð
 • Málsástæða
 • Meðdómsmaður
 • Hæfi dómara
 • Samning dóms
 • Ómerkingarkröfu hafnað
 • Sératkvæði

Reifun

A varð fyrir líkamstjóni á árinu 2013 við störf sín hjá Í sem háseti. Í viðurkenndi bótaskyldu og bótauppgjör fór fram í kjölfar kröfubréfs frá lögmanni A um bætur á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar. Lögmaður A gerði fyrirvara við uppgjörið um frekari bætur yrði varanleg örorka eða miski síðar metinn hærri. Fljótlega eftir uppgjörið aflaði A nýrra gagna um tjón sitt og krafðist frekari bóta en þeim kröfum hafnaði Í. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í. Hæstiréttur féllst ekki á kröfu A um að dómur Landsréttar yrði ómerktur sökum þess að hann hefði ekki verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, að einn dómari hefði verið vanhæfur eða að annmarki hefði verið á samningu dómsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar fyrirvari við bótaákvörðun fullnægir áskilnaði um að vera skýr og ótvíræður hafi hann gildi milli aðila. Í málinu lægju ekki fyrir gögn um nánari skýringar á fyrirvaranum, þar með talið tilefni hans eða hvort áfrýjandi teldi tilteknar forsendur í álitgerð örorkunefndar ekki standast. Þegar litið væri til orðalags fyrirvarans og þess sem lægi fyrir um aðdraganda uppgjörsins væri fyrirvarinn, að því leyti sem hann gat lotið að forsendum uppgjörsins, ekki nægilega ótvíræður til þess að geta orðið grundvöllur að frekari kröfum A um bætur. Taldi rétturinn að fyrirvarinn fæli ekki annað í sér en áskilnað um frekari bætur ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsu hans sem yllu því að varanlegur miski eða varanleg örorka yrði talin meiri en lagt hefði verið til grundvallar við fullnaðaruppgjör. Talið var ósannað að breytingar hefðu orðið á heilsufari A eftir að samkomulag um fullnaðaruppgjör hefði verið gert og að slíkar breytingar hefðu valdið því að varanlegar afleiðingar af völdum slyssins hefðu síðar verið metnar meiri en lagt var til grundvallar við gerð samkomulagsins. Þegar af þeirri ástæðu gæti A ekki haft uppi frekari kröfur á hendur Í hvorki á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga né fyrrgreinds fyrirvara. Hinn áfrýjaði dómur var því staðfestur um sýknu Í.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2021. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 25.197.356 krónur með 4,5% ársvöxtum af tilgreindum fjárhæðum frá […] 2013 til 7. janúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af höfuðstól kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 23. desember 2015 að fjárhæð 500.000 krónur og 20. júlí 2017 að fjárhæð 2.453.360 krónur. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 21.193.293 krónur en að því frágengnu 11.751.552 krónur í báðum tilvikum með sömu vöxtum og frádrætti og í varakröfu. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

3. Stefndi krefst aðallega staðfestingar á dómi Landsréttar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Ágreiningsefni

4. Mál þetta lýtur að líkamstjóni sem áfrýjandi varð fyrir […] 2013 í starfi sínu hjá stefnda sem háseti […]. Stefndi viðurkenndi bótaskyldu og greiddi áfrýjanda bætur á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015. Við það uppgjör gerði áfrýjandi fyrirvara um frekari bætur yrði varanlega örorka eða miski síðar metinn hærri. Eftir að hafa aflað nýrra gagna um tjónið krafðist áfrýjandi frekari bóta en þeim kröfum hafnaði stefndi.

5. Með héraðsdómi 2. október 2019 var stefndi sýknaður á þeim grunni að fyrirvari áfrýjanda við uppgjör bóta hefði ekki falið annað í sér en áskilnað um frekari bætur ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsu hans sem leiddu til frekari varanlegs miska eða varanlegrar örorku. Jafnframt komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri fullnægt skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til endurupptöku ákvörðunar um bætur. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 26. mars 2021 var þessi niðurstaða staðfest.

6. Með beiðni áfrýjanda 12. apríl 2021 var óskað eftir heimild Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Til stuðnings þeirri beiðni vísaði hann meðal annars til þess að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi og benti á að sama dag og hinn áfrýjaði dómur gekk hefði gengið annar dómur í Landsrétti í máli nr. 143/2020 þar sem sams konar fyrirvari við bótauppgjör hefði ekki verið talinn takmarkaður við þær aðstæður að ófyrirséðar breytingar yrðu á heilsu tjónþola. Þessir dómar væru því misvísandi og fyrir hendi óvissa um réttarframkvæmd. Með ákvörðun Hæstaréttar 14. maí 2021 var veitt heimild til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um þýðingu fyrirvara við bótauppgjör.

Málsatvik

7. Í […] 2013 var áfrýjandi ráðinn í skipsrúm sem háseti hjá […]. Hinn […] það ár varð hann fyrir vinnuslysi úti á sjó og hlaut líkamstjón. Í skipsbók var atvikinu lýst þannig að klukkan 7.15 um morguninn hefði tóg […] slitnað þegar […]. Við það hefði […] lent á brjóstkassa áfrýjanda og kastað honum aftur á bak svo að hann hefði skollið á bakið ofan á keðjulóð og með höfuðið á þil bobbingarennu bakborðsmegin og við það misst meðvitund. Tekið var fram að áfrýjandi hefði verið með öryggishjálm. Hlúð var að honum og skipið sett á fulla ferð í land til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann til Akureyrar en þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og á bráðamóttöku Landspítalans. Eftir að hafa dvalið á bráðamóttöku í tæpan sólahring var áfrýjandi lagður inn á almenna skurðdeild og útskrifaður þaðan […] 2013.

8. Samkvæmt læknisvottorði frá heilsugæslunni 7. september 2014 hlaut áfrýjandi við slysið brot á X. og XI. brjósthryggjarlið og rifbeinsbrot. Hann hefði komið til skoðunar á heilsugæslunni 2. ágúst 2013 og þá verið með mikla verki og átt erfitt með svefn. Hann hefði komið aftur til skoðunar 25. september sama ár og enn verið allaumur í síðu og baki. Næst hefði áfrýjandi komið 9. desember það ár og verið allaumur neðst í baki og á lendhryggjarsvæði. Í vottorðinu kom einnig fram að áfrýjandi hefði leitað á bráðamóttöku 20. maí 2014 vegna slæmra verkja í neðanverðu baki. Loks sagði í vottorðinu að áfrýjandi hefði í viðtali við lækni í júní það ár lýst viðvarandi bakverk og svefntruflunum af þeim sökum.

9. Með sameiginlegri beiðni aðila 2. október 2014 var óskað eftir áliti örorkunefndar á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins. Í álitsgerð nefndarinnar 28. janúar 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda hefði verið orðið stöðugt […] 2014 þegar ár var liðið frá slysinu. Á því tímabili hefði hann verið veikur, þar af rúmliggjandi í tvo daga, og tímabundið tjón hans verið 100%. Tekið var fram að þrátt fyrir hvíld frá vinnu frá slysinu, sjúkraþjálfun og bólgueyðandi verkjalyf hefðu „vandræði“ áfrýjanda orðið viðvarandi. Því næst segir svo:

Slæmir verkir í brjósthrygg um herðar og á milli herðablaða og út í vinstri síðu. Þrálátur höfuðverkur, þreyta, gleymska, skert einbeiting og minna úthald. Hann sefur illa vegna verkja, er endalaust að snúa sér og hann á erfitt með að klæða sig í og úr. Hann hefur reynt svefnlyf en varð að hætta því vegna fótapirrings. Hann hefur fundið fyrir eyrnasuði og svima og kveðst ekki ráða við erfiðari heimilisstörf, hann þoli illa langar stöður vegna bakverkja. [...], almenn vanlíðan og atvinnuleysi hafa valdið tjónþola félagslegri einangrun og andlegri vanlíðan.

10. Í umræddri álitsgerð örorkunefndar var tekið fram að við slys áfrýjanda hefðu þvertindar tveggja brjósthryggjarliða brotnað og jafnframt tvö rif vinstra megin. Hann hefði misst meðvitund við þungt högg og fallið á bakið ofan á keðjulóð. Að auki hefði hann að öllum líkindum hlotið vægan heilahristing og tognunaráverka á baki. Þá var talið að ekki yrði litið fram hjá fyrri áverkasögu áfrýjanda og var hún rakin í álitsgerðinni. Varanlegur miski hans var metin 15 stig án nánari sundurgreiningar. Um varanlega örorku áfrýjanda var tekið fram að hann væri menntaður [...] og hefði starfað á [...]. Hann gæti að einhverju marki sinnt slíkum störfum en telja yrði þó að afleiðingar slyssins hefðu gripið þar inn í og dregið úr möguleikum hans til að afla sér atvinnutekna. Að þessu virtu mat nefndin varanlega örorku áfrýjanda 15%.

11. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 13. mars 2015 var gerð krafa á hendur stefnda á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar sama ár og fylgdi útreikningur lögmanns áfrýjanda á bótakröfunni. Í kjölfarið gerðu aðilar með sér samkomulag 5. júní sama ár um fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta samkvæmt viðeigandi kjarasamningi. Tekið var fram að uppgjörið væri gert á grunni skaðabótalaga og álitsgerðar örorkunefndar og nam heildargreiðsla 9.367.477 krónum til samræmis við efni bréfs lögmanns áfrýjanda. Með áritun á samkomulagið gerði lögmaður áfrýjanda fyrirvara um rétt hans til frekari bóta yrði „varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“.

12. Í lok júlí 2015, eftir að bætur höfðu verið gerðar upp við áfrýjanda eftir samkomulaginu 5. júní 2015, fól áfrýjandi öðrum lögmanni að gæta hagsmuna sinna. Óskaði sá lögmaður eftir áliti C geðlæknis á afleiðingum slyssins á andlega heilsu áfrýjanda. Í vottorði læknisins 23. nóvember 2015 var vísað til álitsgerðar örorkunefndar um afleiðingar slyssins og tekið fram að áfrýjandi hefði sagt að einkennin hefðu lítið sem ekkert breyst. Um andlegar afleiðingar slyssins sagði að greinilegt væri að veruleg kvíða- og þunglyndiseinkenni hefðu komið fram í kjölfar þess og aðrir erfiðleikar auk áfengisvanda. Í kjölfarið aflaði lögmaðurinn frekari gagna um heilsufar áfrýjanda.

13. Áfrýjandi aflaði einhliða álitsgerðar G lögfræðings, I læknis og H geðlæknis 16. nóvember 2016 um líkamstjón sitt á grundvelli skaðabótalaga. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda teldist hafa orðið stöðugt 23. nóvember 2015 og miðaðist það tímamark við fyrrgreint mat C geðlæknis. Jafnframt að varanlegur miski hans væri 35 stig en af því væru 15 stig vegna geðeinkenna og 5 stig vegna heilataugaskaða. Þá var varanleg örorka metin 60%. Loks var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda hefði versnað í skilningi 11. gr. skaðabótalaga frá janúar 2015 þegar örorkunefnd skilaði sinni álitsgerð. Þetta yrði aðallega rakið til andlegra einkenna sem hefðu byrjað að þróast eftir slysið en ekkert tillit hefði verið tekið til þeirra í álitsgerð örorkunefndar. Tekið var fram að þunglyndi áfrýjanda væri alvarlegt og þyrfti meðferðar við. Varakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að höfuðstól 25.197.356 krónur, tekur mið af þessari álitsgerð.

14. Með bréfi 7. desember 2016 krafðist áfrýjandi frekari bóta úr hendi stefnda á grundvelli álitsgerðarinnar 16. nóvember 2016. Því erindi var svarað með bréfi 10. janúar 2017 þar sem kröfunni var hafnað. Í kjölfarið höfðaði áfrýjandi málið í héraði 10. maí 2017 á hendur stefnda.

Matsgerðir

15. Undir rekstri málsins í héraði fékk áfrýjandi 24. febrúar 2017 dómkvödd þau J lögmann og K taugalækni til að meta líkamstjón sem áfrýjandi varð fyrir í slysinu […] 2013. Matið laut að því að kanna afleiðingar slyssins og jafnframt hvort heilsufar áfrýjanda hefði versnað frá janúar 2015 eftir að örorkunefnd skilaði álitsgerð sinni. Í matsgerð 13. júní 2017 kom fram að afleiðingar slyssins hefðu verið nær ótilfærð brot á X. og XI. hryggjarlið vinstra megin og aftan til í XI. rifi vinstra megin, auk tognunaráverka á hálsi, brjóstbaki og lendhrygg. Áfrýjandi hefði síðar fengið bólgueinkenni í báðar axlir. Í kjölfar slyssins hefði hann orðið þunglyndur, kvíðinn og fengið áfallastreituröskun og hefði einkenni eftir heilahristing. Þá hefði komið í ljós vanstarfsemi í heiladingli sem matsmenn töldu afleiðingar slyssins. Um það atriði sagði í matsgerðinni að eftir matsfund hefði áfrýjandi leitað til N læknis til skoðunar á starfsemi heiladinguls. Í læknabréfi hans 29. maí 2017 kom fram að áfrýjandi væri með klínísk einkenni og breytingar á tveimur hormónaöxlum sem ekki væri hægt að útiloka að væru afleiðingar slyssins. Þó væri hugsanlegt að karlmenn lentu í hraðri niðursveiflu á testósteróngildum og gætu þar komið til álita aðrir orsakaþættir eins og ofþyngd og áfengi eða jafnvel minnkun […]. Læknirinn taldi sig ekki finna afgerandi skýringu á testósterónlækkun hjá áfrýjanda en tekið var fram í bréfinu að hann notaði áfengi að mestu leyti í hófi.

16. Í matsgerðinni 13. júní 2017 kom fram það álit að í heildina hefðu líkamleg einkenni frá mjóbaki og hægri öxl heldur aukist. Einnig hefðu geðræn einkenni aukist og haft neikvæð áhrif á hugræn einkenni. Að auki hefði komið í ljós vanstarfsemi í heiladingli. Líkamleg einkenni og geðræn og hugræn einkenni hefðu því versnað frá álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015. Matsmenn töldu varanlegan miska nema 35 stigum að teknu tilliti til einkenna áfrýjanda fyrir slysið. Þar af væru 10 stig vegna tognunareinkenna í hrygg, 20 stig vegna þunglyndis, kvíða- og áfallastreitueinkenna og heilkennis eftir heilahristing og 5 stig vegna […] af líkamlegum ástæðum. Loks töldu matsmenn að varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins væri 50%. Til stuðnings því var tekið fram að útilokað væri að áfrýjandi gæti unnið líkamlega krefjandi störf eins og sjómennsku sem hann hafði starfað við fyrir slysið. Einnig væri úthald hans til vinnu verulega skert, bæði vegna líkamlegra og andlegra einkenna. Þá væri ekki sjálfgefið að hann gæti vegna afleiðinga slyssins sinnt störfum sem hann hefði menntun til og áður gegnt á […]. Í því tilliti horfðu matsmenn ekki síður til andlegra afleiðinga slyssins en líkamlegra og tóku fram að til viðbótar auknu þunglyndi frá álitsgerð örorkunefndar væri áfrýjandi þjakaður af félagsfælni, kvíða og einangrun. Þrautavarakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að höfuðstól 21.193.293 krónur, tekur mið af þessari matsgerð.

17. Stefndi leitaði með beiðni 12. desember 2017 eftir yfirmati til að endurmeta þau atriði sem undirmat tók til auk þess sem óskað var eftir að matsmenn fjölluðu jafnframt um hvort breytingar á afleiðingum tjóns áfrýjanda, líkamlegra og andlegra, hefðu verið ófyrirsjáanlegar þegar þær voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015. Til að framkvæma matið voru dómkvaddir F lögmaður, E bæklunarlæknir og D heila- og taugalæknir og skiluðu þeir matsgerð 27. apríl 2018. Um það hvort heilsufar áfrýjanda hefði versnað verulega og ef svo væri hvort þær breytingar hefðu verið fyrirsjáanlegar, þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd, sagði svo í yfirmatinu:

Heilsufar yfirmatsþola hefur ekki versnað verulega frá janúar 2015. Í vottorði C geðlæknis, dags. 23.11.2015, kemur fram að einkennum yfirmatsþola sé nákvæmlega lýst í álitsgerð örorkunefndar og ástæðulaust sé að tíunda þau aftur. Yfirmatsþoli hafi við komu til læknisins þann 12.11.2015 sagt að einkennin hafi lítið sem ekkert breyst. Þeir áverkar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hægt að rekja til slyssins þann […] 2013 eru heilkenni eftir höfuðáverka og eftirstöðvar áverka á lendhrygg og neðri hluta brjósthryggjar. Að áliti yfirmatsmanna eru framangreindir áverkar þess eðlis að hægt er að slá því föstu að einkenni þeirra hafi verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd í janúar 2015 og hafi því ekki versnað eftir það.

18. Um afleiðingar slyssins var í yfirmatsgerðinni vísað til þess að í fyrrgreindri álitsgerð 16. nóvember 2016 væri lýst geðrænum einkennum og metinn varanlegur miski vegna þeirra. Tekið var fram að þau geðrænu einkenni og einkenni sem flokkuð væru sem heilkenni eftir höfuðáverka sköruðust verulega og því töldu yfirmatsmenn óeðlilegt að meta varanlegan miska vegna beggja atriðanna. Þess í stað var aðeins litið til þess ástands sem matsmenn töldu alvarlegra. Um varanlegan miska vegna heiladingulsbilunar töldu yfirmatsmenn að ekki hefðu legið fyrir réttar upplýsingar við undirmat eða hjá N lækni sem skoðaði áfrýjanda vegna þess. Í læknabréfi hans 29. maí 2017 kæmi fram að áfrýjandi hefði notað áfengi að mestu leyti í hófi en af upplýsingum úr sjúkraskrá geðdeildar Landspítalans væri ljóst að þar væri um verulegt vandamál að ræða. Vísuðu yfirmatsmenn til heimilda um áhrif áfengisneyslu á testósterón og tóku fram að ekki væri hægt að draga þá ályktun að orsakasamhengi væri á milli slyssins og lækkunar á testósteróni hjá áfrýjanda. Yfirmatsmenn töldu varanlegan miska áfrýjanda sem rekja mætti til höfuðáverka vera 5 stig og varanlegan miska vegna einkenna frá brjóst- og lendhrygg 15 stig. Til frádráttar kæmi miski vegna fyrri höfuðáverka 2 stig og vegna fyrri einkenna frá brjóst og lendhrygg 3 stig. Varanlegur miski vegna slyssins væri því samtals 15 stig. Þá töldu yfirmatsmenn að líkamstjón vegna slyssins væri ekki með þeim hætti að það ylli sérstökum erfiðleikum í lífi áfrýjanda sem ástæða væri til að meta til frekari miska.

19. Yfirmatsmenn mátu varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins 35% að teknu tilliti til þess að hann hefði ekki búið við óskerta starfsorku á slysdegi. Með hliðsjón af menntun og starfsreynslu áfrýjanda töldu matsmenn nærtækast að leggja til grundvallar getu hans til […] við mat á varanlegri örorku en taka yrði þó sérstakt tillit til getu hans til líkamlega erfiðra starfa, svo sem sjómennsku. Í ljósi þeirra áverka sem áfrýjandi hlaut, einkum á brjóst- og lendhrygg, töldu yfirmatsmenn að þeir hefðu haft þó nokkur áhrif á starfsgetu og tekjuöflunarhæfi hans til framtíðar litið. Á hinn bóginn yrði ekki fram hjá því litið að gögn málsins bentu ótvírætt til að meðal annars áfengisneysla hefði einnig haft umtalsverð áhrif á vinnufærni áfrýjanda eftir slysið. Við matið væri ekki hægt að líta á áfengisneysluna sem afleiðingu slyssins enda væru skilyrði um sennilega afleiðingu ekki fyrir hendi. Þess í stað yrði matið að taka mið af því hvernig einstaklingi í sömu sporum og áfrýjandi hefði reitt af eftir slysið hefði hann ekki glímt við vandamál tengd áfengisneyslu. Þá tóku yfirmatsmenn fram að áverkar og einkenni áfrýjanda eftir slysið væru tvímælalaust til þess fallin að hafa áhrif á getu hans til erfiðra starfa og ólíklegt að hann gæti unnið þau. Enn fremur töldu yfirmatsmenn að óþægindin myndu takmarka nokkuð getu áfrýjanda til að sinna […] sem hann hefði menntun til. Hann væri þó ekki með öllu ófær um að vinna sem […] og gæti sinnt léttari störfum. Síðari þrautavarakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að fjárhæð 11.751.552 krónur, tekur mið af yfirmatsgerðinni.

20. Áfrýjandi fékk 31. ágúst 2018 dómkvaddar þær L geðlækni og M taugasálfræðing til að meta hvort hann hefði orðið fyrir andlegu eða geðrænu tjóni og hvort hann hefði orðið fyrir höfuðáverkum eða heilaskaða í slysinu. Í matsgerð þeirra 5. apríl 2019 kom fram að áfrýjandi hefði orðið fyrir andlegu og geðrænu tjóni í því. Í kjölfar þess hefði þróast alvarlegur og langvinnur þunglyndis- og kvíðasjúkdómur ásamt einkennum um langvinna áfallastreituröskun sem hefði haft mikil áhrif á líf og lífsgæði hans. Tekið var fram að saga væri um þunglyndiseinkenni fyrir slysið, um 10 árum áður, og kvíða og einnig um fyrri áföll. Fyrri saga um geðrænan vanda væri áhættuþáttur fyrir öðrum veikindatímabilum en jafnframt væri löng saga um áfengisvanda. Þó svo að ákveðin viðkvæmni hefði verið fyrir hendi þegar slysið varð hefði eðli áfallsins og afleiðingar skipt miklu máli um þróun einkenna hans. Mjög líklegt væri að mikill vímuefnavandi áfrýjanda eftir slysið hefði átt þátt í því að geðræn einkenni þróuðust yfir í langvinnan vanda. Erfitt væri þó að leggja mat á umfang þess geðræna tjóns sem væri bein afleiðing slyssins. Jafnframt var talið að áfrýjandi hefði orðið fyrir höfuðáverka og heilaskaða í slysinu. Helstu einkenni skaðans væru veikleikar á sviði framkvæmdastjórnunar og vísbendingar um breytingar á persónuleika. Tekið var fram að áfrýjandi hefði fyrir slysið orðið fyrir höfuðáverkum en ekki væri líklegt að þeir hefðu áhrif á afleiðingar slyssins. Þá var tekið fram að erfitt væri að leggja mat á umfang þeirra einkenna sem fylgdu heilaskaðanum vegna langvinns neysluvanda fyrir og eftir slysið og vegna geðrænna einkenna.

Niðurstaða

Formhlið málsins

21. Krafa áfrýjanda um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur er í fyrsta lagi reist á því að dómendur hafi ekki haft næga sérfræðiþekkingu til að leysa úr málsástæðum áfrýjanda sem lutu að því geðræna tjóni sem hann hlaut í slysinu. Telur áfrýjandi að nauðsynlegt hefði verið að dómurinn yrði skipaður geðlækni en bent hafi verið á í greinargerð til Landsréttar að þörf væri á sérkunnáttu í dómi á sviði geð- og taugalæknisfræði.

22. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur héraðsdómari kvatt til einn meðdómsmann með viðeigandi kunnáttu ef deilt er um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og dómari telur þurfa slíka þekkingu til að leysa úr þeim. Einnig er heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef dómari telur þörf sérkunnáttu í dómi á fleiru en einu sviði. Í málinu reynir á fjölþættar afleiðingar þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir en aflað hefur verið undir- og yfirmats um tjónið auk viðbótarmatsgerðar sem lýtur sérstaklega að því andlega og geðræna tjóni sem áfrýjandi hlaut. Eins og hér hagar til verður að telja að héraðsdómi hafi verið heimilt að kveðja til setu í dómi tvo lækna þannig að dómurinn yrði skipaður sérfræðingum á fleiri en einu sviði læknisfræði, þar á meðal geðlæknisfræði. Er þess þá að gæta að játa verður héraðsdómi nokkurt svigrúm við þetta mat meðal annars vegna þeirra matsgerða sem fyrir lágu í málinu. Getur það því ekki skilyrðislaust varðað ómerkingu dóms án kröfu þótt gengið hafi verið lengra en ýtrustu efni voru til með því að kveðja til setu í dómi sérfræðinga á sitthvoru sviðinu. Ef þetta er hins vegar gert án nægjanlegs tilefnis verður dómur ómerktur, sbr. dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018.

23. Þegar sérfróður meðdómsmaður hefur tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi, sem fengið hefur efnislega úrlausn þar og enn er deilt um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður fyrir Landsrétti, og forseti réttarins telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, getur hann að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hefur slíka sérkunnáttu. Telji forseti þörf á sérkunnáttu á fleiri en einu sviði við úrlausn máls og ekki er völ á meðdómsmanni með sérþekkingu á báðum eða öllum sviðum getur hann kallað til tvo sérfróða meðdómsmenn, sbr. 2. gr. a laga nr. 91/1991. Eins og málið lá fyrir Landsrétti, að gengnum dómi í héraði skipuðum meðdómsmönnum með sérþekkingu á tveimur mismunandi sviðum læknisfræði, var eftir þeirri meginreglu sem fram kemur í 2. gr. a laga nr. 91/1991 fullnægjandi að kveðja til setu í Landsrétti einn sérfróðan meðdómsmann með sérþekkingu í taugalæknisfræði. Kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins á þeim grunni að rétturinn hafi ekki haft á að skipa dómendum með næga sérkunnáttu er því hafnað.

24. Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er í öðru lagi reist á því að einn af dómendum málsins í Landsrétti, Davíð Þór Björgvinsson, hafi verið vanhæfur til að fara með málið vegna fyrri starfa sinna fyrir stefnda. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að komið hafi fram í fjölmiðlum að dómarinn hafi fengið greiðslur frá ríkislögmanni fyrir aðstoð vegna flutnings tiltekins máls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Til stuðnings kröfu um ómerkingu á þessum grundvelli vísar áfrýjandi til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telur að þetta valdi ekki því að dómarinn hafi verið vanhæfur til að fara með málið en ráðgjöf hans við embætti ríkislögmanns hefði verið látin í té löngu áður en mál þetta var til meðferðar í Landsrétti og tengist því á engan hátt.

25. Í dómi Hæstaréttar 6. júní 2019 í máli nr. 24/2019 kom til úrlausnar hvort umræddur dómari væri vanhæfur til að fara með mál vegna starfa sinna í þágu embættis ríkislögmanns. Þar var því meðal annars haldið fram að umfangsmikil störf dómarans fyrir framkvæmdarvaldið samrýmdust ekki rétti sakbornings til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir sjálfstæðum og óháðum dómstóli, enda yrði í því sambandi að leggja mat á hvort dómstóll hefði almennt þá ásýnd að þau skilyrði gætu talist uppfyllt. Í umræddum dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að óumdeilt væri að dómarinn hefði fyrir 1. október 2018 lagt af mörkum vinnu við undirbúning varna í þágu íslenska ríkisins í tilteknu máli sem rekið var fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og þegið greiðslu fyrir. Taldi Hæstiréttur að það eitt að dómarinn hefði leyst þetta verk af hendi í þágu íslenska ríkisins, áður en hann tók við dómarastarfi, gæti ekki valdið því að hann yrði í bráð eða til lengdar talinn vanhæfur til að sitja í dómi í sérhverju einkamáli sem ríkið ætti aðild að eða sakamáli sem handhafi ríkisvalds höfðaði. Með vísan til þessa verður ekki fallist á með áfrýjanda að dómarinn hafi verið vanhæfur til að fara með málið en áfrýjandi hefur ekki bent á nein önnur atriði því til stuðnings en þau sem umræddur dómur tók til.

26. Loks reisir áfrýjandi kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að ekki hafi með viðhlítandi hætti verið leyst úr þeim málsástæðum sem hafðar voru uppi fyrir Landsrétti. Í því sambandi bendir hann á að þar hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu að fyrirvari við bótauppgjör með samkomulagi 5. júní 2015 hafi verið nægjanlega skýr og að á álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015 hafi verið annmarkar sem valdi því að hún verði ekki lögð til grundvallar. Enn fremur hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu áfrýjanda að yfirmatsgerð 27. apríl 2018 hafi verið ófullnægjandi þar sem niðurstaða hennar um að heilkenni eftir höfuðáverka rými burt geðrænu tjóni hafi verið í ósamræmi við gildandi rétt.

27. Í hinum áfrýjaða dómi var fjallað um yfirmatið og komist að þeirri niðurstöðu að á því væru engir þeir annmarkar sem leitt gætu til þess að það yrði ekki lagt til grundvallar dómi í málinu. Þá vísaði Landsréttur um önnur atriði til forsendna héraðsdóms og staðfesti dóminn, en þar var meðal annars leyst úr málsástæðum áfrýjanda sem lutu að áhrifum fyrirvara hans við bótauppgjör og þeim annmörkum sem hann taldi á álitsgerð örorkunefndar. Samkvæmt þessu var samning dómsins í samræmi við 3. og 4. mgr. 163. gr., sbr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um ómerkingu dómsins á þessum grunni er því haldlaus.

28. Samkvæmt öllu framansögðu verður hafnað kröfu áfrýjanda um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

Efnishlið málsins

29. Með málsaðilum var ágreiningslaust að stefndi bæri bótaábyrgð á vinnuslysinu sem áfrýjandi varð fyrir […] 2013. Til að gera upp tjónið öfluðu þeir sameiginlega álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015, eftir heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Á grundvelli álitsgerðarinnar gerðu aðilar með sér samkomulag 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör skaðabóta. Með áritun á samkomulagið gerði lögmaður áfrýjanda áðurgreindan fyrirvara um rétt hans til frekari bóta yrði „varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“.

30. Áfrýjandi heldur því fram að verulegir annmarkar hafi verið á álitsgerð örorkunefndar og því geti hún ekki haft áhrif í lögskiptum aðila. Í þeim efnum bendir hann á að álitsgerðin sé illa rökstudd svo að erfitt sé að greina hvað hefur ráðið niðurstöðum nefndarinnar. Eigi þetta bæði við um hvaða áhrif áverkar sem áfrýjandi hlaut fyrir slysið hafi haft á mat nefndarinnar og hvernig miski hans sundurliðist eftir miskatöflu. Tekur áfrýjandi fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um störf nefndarinnar og því beri að haga rökstuðningi í samræmi við 22. gr. þeirra laga. Loks bendir áfrýjandi á að formaður nefndarinnar hafi ekki verið viðstaddur matsfund.

31. Áfrýjandi ráðstafaði hagsmunum sínum með því að óska eftir og semja um fullnaðaruppgjör skaðabóta á grundvelli umræddrar álitsgerðar örorkunefndar. Hann getur því ekki borið fyrir sig að skort hafi á rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar þótt fallast megi á með honum að nokkuð hafi skort á í þeim efnum. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til að formaður nefndarinnar, sem er lögfræðingur, hafi ekki tekið þátt í matstörfum en í því tilliti breytir engu þótt hann hafi ekki verið viðstaddur þegar læknismenntaðir matsmenn ræddu við og skoðuðu áfrýjanda. Samkvæmt þessu er hafnað málsástæðum áfrýjanda sem lúta að álitsgerð örorkunefndar.

32. Um endurupptöku bótaákvörðunar gildir 11. gr. skaðabótalaga. Þar segir að tjónþola sé heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur ef fullnægt er því skilyrði að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þessi skilyrði endurupptöku bótaákvörðunar girða ekki fyrir að tjónþoli geti gert fyrirvara við bótauppgjör þannig að hann njóti rýmri réttar til endurupptöku bótaákvörðunar en leiðir af 11. gr. laganna. Tekur það bæði til fyrirvara er lúta að forsendum uppgjörs og ófyrirséðra breytinga á afleiðingum slyss. Hér verður þó að gera þann áskilnað að fyrirvari sé skýr og ótvíræður enda getur tjónþoli ekki með almennum og óljósum fyrirvara haggað bindandi gildi ákvörðunar um bætur sem aðilar hafa lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Þetta hefur verið staðfest í dómaframkvæmd og má í þeim efnum benda á dóma Hæstaréttar 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013 og 18. febrúar 2016 í máli nr. 391/2015. Í fyrri dóminum hafði tjónþoli gert fyrirvara „við mat á miska og varanlegri örorku“ en í þeim síðari við „mat á varanlegum afleiðingum“ líkamstjóns. Í báðum málunum var talið að fyrirvarinn gæti ekki talist hafa falið annað í sér en að tjónþoli áskildi sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski eða varanleg örorka af völdum slyss yrði talin meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjör. Einnig sagði í fyrri dóminum að eðli máls samkvæmt yrði fyrirvarinn ekki skýrður svo að tjónþoli hefði áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Yrði að gera þá kröfu að slíkir fyrirvarar og þeir sem lytu að tilteknum forsendum mats væru ótvíræðir.

33. Þegar fyrirvari við bótaákvörðun fullnægir á hinn bóginn áskilnaði um að vera skýr og ótvíræður hefur hann gildi milli aðila. Um það má vísa til dóms Hæstaréttar 18. janúar 2007 í máli nr. 300/2006, þar sem fyrirvari fól í sér áskilnað um endurmat kæmi til þess að tjónþoli þyrfti á nýjan leik að starfa á tilteknu sviði, dóms réttarins 1. mars 2018 í máli nr. 107/2017, þar sem fyrirvari beindist einkum að því hvort afleiðingar slyss yrðu verri en gert væri ráð fyrir vegna höfuðverkjakasta og dóms 26. júní 2018 í máli nr. 773/2017 þar sem fyrirvari beindist að því hvort varanleg örorka væri fyrir hendi en svo hafði ekki verið talið í áliti sem lagt var til grundvallar við bótauppgjör. Hér má einnig nefna dóm réttarins 24. október 2013 í máli nr. 273/2013 en þar hafði verið tekið við bótum með fyrirvara um að miskastig og varanleg örorka væri of lágt metin við uppgjör og síðan tekið fram að tjónþoli hygðist láta dómkveðja matsmenn til að meta afleiðingar slyssins. Þannig kom beinlínis fram í fyrirvaranum að mati á afleiðingum líkamstjóns væri ekki unað og að aflað yrði matsgerðar um það. Í þessum dómum voru fyrirvarar túlkaðir með hliðsjón af samskiptum aðila í aðdraganda bótauppgjörs og við uppgjörið sjálft.

34. Eins og greinir í héraðsdómi liggja ekki fyrir gögn um nánari skýringar á fyrirvaranum sem lögmaður áfrýjanda ritaði á samkomulagið um fullnaðaruppgjör 5. júní 2015, þar með talið um tilefni hans eða hvort áfrýjandi teldi tilteknar forsendur í álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015 ekki standast. Óhjákvæmilegt er að líta til þess að lögmaður áfrýjanda sendi stefnda kröfubréf á grundvelli álitsgerðarinnar og að bætur voru gerðar upp eftir þeirri kröfugerð. Þá er til þess að líta að áfrýjandi gerði fljótt reka að því að afla frekari gagna um tjón sitt eftir uppgjörið og hefði honum því verið í lófa lagið að gera nánari fyrirvara við þau atriði í álitsgerðinni sem hann taldi orka tvímælis eða eftir atvikum hafna því að ganga til uppgjörs á grundvelli hennar. Þegar litið er til orðalags fyrirvarans og þess sem fyrir liggur um aðdraganda uppgjörsins var fyrirvarinn að því leyti sem hann gat lotið að forsendum uppgjörsins ekki nægilega ótvíræður til þess að geta orðið grundvöllur að frekari kröfu áfrýjanda um bætur. Að þessu virtu verður ekki fallist á að fyrirvarinn geti falið annað og meira í sér en að áfrýjandi áskildi sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski og varanleg örorka hans af völdum slyssins yrði talin meiri en lagt var til grundvallar við samkomulag um fullnaðaruppgjör. Hér á því sama við um gildi fyrirvarans og lagt var til grundvallar í fyrrgreindum dómum réttarins í málum nr. 576/2013 og 391/2015.

35. Í yfirmatsgerðinni 27. apríl 2018, sem stefndi aflaði undir rekstri málsins í héraði, var komist að þeirri niðurstöðu að þeir áverkar sem rekja mætti til slyssins væru heilkenni eftir höfuðáverka og eftirstöðvar áverka á lendhrygg og neðri hluta brjósthryggjar. Töldu yfirmatsmenn áverkana þess eðlis að hægt væri að slá því föstu að einkenni þeirra hefðu verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015 og hefðu því ekki versnað eftir það. Að öllu jöfnu er sönnunargildi yfirmats ríkara en undirmats nema sýnt hafi verið fram á annmarka á yfirmati.

36. Í yfirmatsgerðinni eru tilgreind þau gögn sem yfirmatsmenn öfluðu sjálfir við matið en um var að ræða annars vegar sjúkraskrá áfrýjanda og hins vegar nánar tilgreind læknabréf. Í kjölfarið lagði áfrýjandi fram beiðni um viðbótarmat í þinghaldi 18. maí 2018 en í henni var gerð athugasemd við að áfrýjanda hefðu ekki verið kynnt þau gögn sem yfirmatsmenn öfluðu og því haldið fram að það rýrði verulega sönnunargildi yfirmatsins. Eftir að hafa aflað þessara gagna lagði áfrýjandi þau fram í þinghaldi og tók þá fram að honum hefðu ekki verið kynnt gögnin. Að þessu virtu verður talið að áfrýjandi hafi tímanlega hreyft mótmælum af þessu tilefni. Við mat á þessum andmælum hans er þess að gæta að þótt matsmönnum hafi verið heimilt eftir 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 að afla sjálfir gagna til afnota við matið bar þeim að réttu lagi að kynna honum gögnin ef þau gátu haft áhrif við það. Á hinn bóginn er til þess að líta að umrædd gögn varða öll heilsufar áfrýjanda og voru honum aðgengileg auk þess sem hann veitti yfirmatsmönnum skriflegt leyfi til öflunar þeirra. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki bent á neitt sem dregur úr gildi og áreiðanleika þessara gagna, þar með talið færslna í sjúkraskrá sem benda til að hann hafi misnotað áfengi fyrir slysið. Samkvæmt þessu verður ekki séð að andmæli áfrýjanda varðandi umrædd gögn sem yfirmatsmenn öfluðu hefðu breytt neinu við matið og því getur þessi annmarki ekki haft áhrif á sönnunargildi þess.

37. Skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku eru tvíþætt. Annars vegar að breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið og hins vegar að þessar breytingar hafi verið ófyrirsjáanlegar þegar uppgjör bóta fór fram. Eins og áður er rakið komust yfirmatsmenn að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að einkenni þeirra áverka sem áfrýjandi hlaut í slysinu hefðu verið komin fram þegar örorkunefnd mat afleiðingar slyssins í álitsgerð sinni 28. janúar 2015. Því hefði heilsu hans ekki hrakað eftir það. Að þessu leyti hefur yfirmatinu ekki verið hnekkt af áfrýjanda og í þeim efnum geta engu breytt þeir annmarkar sem hann telur á matinu í öðru tilliti. Þannig skiptir ekki máli þótt komist sé að þeirri niðurstöðu í yfirmati að meta eigi varanlegan miska með öðru móti en gert var í fyrrgreindri undirmatsgerð 13. júní 2017 eða álitsgerð 16. nóvember 2016 sem áfrýjandi aflaði einhliða. Jafnframt breytir hér engu hvernig yfirmatsmenn mátu áverka á öxlum áfrýjanda enda hefur mat á þeim engin tengsl við það hvort einkenni áfrýjanda hafa versnað eftir að örorkunefnd mat afleiðingar slyssins. Þá er þess að gæta að viðbótarmatsgerð 31. ágúst 2018 sem áfrýjandi aflaði um áhrif slyssins á geðheilsu hans fer ekki í bága við fyrrgreinda niðurstöðu yfirmatsmanna. Þvert á móti kemur þar fram að erfitt sé að leggja mat á umfang þeirra einkenna sem leiddu af heilaskaða áfrýjanda vegna langvinns neysluvanda fyrir og eftir slysið. Einnig töldu matsmenn erfitt að leggja mat á umfang þess geðræna tjóns sem væri bein afleiðing af slysinu. Þannig verður ekki ráðið af þessu að rakið verði til slyssins að andlegri heilsu áfrýjanda hafi hrakað eftir að örorkunefnd mat afleiðingar þess.

38. Samkvæmt framansögðu er ósannað að breytingar hafi orðið á heilsufari áfrýjanda eftir að samkomulagið 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör var gert og að slíkar breytingar hafi valdið því að varanlegar afleiðingar af völdum slyssins hafi síðar verið metnar meiri en lagt var til grundvallar við gerð samkomulagsins. Þegar af þeirri ástæðu getur áfrýjandi ekki haft uppi frekari kröfur á hendur stefnda hvorki á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga né fyrrgreinds fyrirvara sem skýra verður með þeim hætti sem greinir í 34. lið dómsins.

39. Áfrýjandi gerir í öllum tilvikum þá kröfu að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 króna í miskabætur þar sem tjónið verði rakið til stórfellds gáleysis, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Stefndi hefur ekki borið fyrir sig að áfrýjandi hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu á þessum grundvelli vegna samkomulagsins 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör. Aftur á móti liggur ekkert fyrir í málinu sem rennir stoðum undir að slysið verði rakið til stórfellds gáleysis og því er krafa á þessum grunni haldlaus.

40. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

41. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Dómur Landsréttar skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.000.000 króna.

Sératkvæði Bjargar Thorarensen og Ólafs Barkar Þorvaldssonar

1. Við erum sammála lýsingu á ágreiningsefni svo og niðurstöðu um ómerkingarkröfu áfrýjanda og gildi yfirmatsgerðar í atkvæði meirihluta dómenda. Við erum hins vegar ósammála niðurstöðu þeirra um gildi fyrirvara sem áfrýjandi gerði við fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta af eftirfarandi ástæðum.

2. Niðurstaða álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015 var að varanlegur miski áfrýjanda væri 15 stig og varanleg örorka 15%. Þegar aðilar málsins gerðu með sér samkomulag 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör skaðabóta á grundvelli hennar gerði áfrýjandi fyrirvara „um rétt A til frekari bóta verði varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“. Réttur tjónþola til að setja fram slíkan fyrirvara er ótvíræður svo sem einnig verður leitt af 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Áfrýjandi nýtti sér þennan rétt þegar uppgjör á bótagreiðslu fór fram. Honum hefði vissulega verið unnt að lýsa þeirri fyrirætlan að hann hygðist leita dómkvaðningar matsmanna til að láta fara fram nýtt mat á afleiðingum slyssins, sbr. dóm Hæstaréttar 24. október 2013 í máli nr. 273/2013. Það hefði þó ekki breytt eðli fyrirvarans og ræður ekki úrslitum um gildi hans, en í framangreindum dómi laut fyrirvari tjónþola einmitt að mati örorkunefndar á bæði miskastigi og varanlegri örorku án frekari tilgreiningar og taldist hann gildur. Ætla má að það hefði staðið stefnda nær að gefa áfrýjanda til kynna liti hann á fyrirvarann sem markleysu, svo sem ráðið verður af málatilbúnaði hans. Má í því sambandi líta til sterkrar stöðu stefnda við samningsgerðina. Einnig má hafa hliðsjón af dómi Hæstaréttar 26. júní 2018 í máli nr. 773/2017 þar sem tjónþoli hafði gert fullnaðaruppgjör um bótagreiðslu „með fyrirvara um varanlega örorku“, þegar fyrir lá mat sérfræðinga um að varanleg örorka væri engin, en síðara mat leiddi í ljós að hún væri 10%. Í dóminum var talið að fyrirvarinn væri ótvíræður og nægilega skýr, einkum í ljósi þess að í fyrra mati hefði varanleg örorka verið metin engin. Verður þó ekki séð að úrslitum skuli ráða um gildi fyrirvara hvort niðurstaða mats á varanlegri örorku er að hún sé engin eða mjög lítil.

3. Við skýringu á hvað fólst í fyrirvara áfrýjanda við bótauppgjörið hefur þýðingu að líta til eftirfarandi athafna hans til að fylgja fyrirvaranum eftir, en ekki aðeins til aðdragandans. Í því tilliti greina atvik þessa máls sig í veigamiklum atriðum frá þeim tveimur dómum Hæstaréttar sem meirihluti dómenda vísar í til stuðnings niðurstöðu sinni, 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013 og 18. febrúar 2016 í máli nr. 391/2015. Ólíkt þeim málum gerði áfrýjandi reka að því í beinu framhaldi af samkomulaginu við stefnda að hnekkja fyrrgreindu mati örorkunefndar á miskastigi og varanlegri örorku hans. Í október 2015 leitaði hann vottorðs geðlæknis um afleiðingar slyssins fyrir andlega heilsu sína og lá það vottorð fyrir í nóvember sama ár. Því næst leitaði áfrýjandi einhliða álitsgerðar tveggja lækna og lögfræðings í maí 2016 og niðurstaða þeirra lá fyrir í nóvember sama ár. Eftir að áfrýjandi höfðaði mál þetta var síðan aflað tveggja matsgerða. Annars vegar fékk áfrýjandi dómkvadda tvo menn sem luku álitsgerð 13. júní 2017. Hins vegar leitaði stefndi eftir yfirmati og lá yfirmatsgerðin fyrir 27. apríl 2018.

4. Í ljósi framangreinds ber að skýra fyrirvara áfrýjanda í samkomulagi við stefnda 5. júní 2015 þannig að áfrýjandi hafi talið miskastig og varanlega örorku af völdum slyssins of lágt metna og því áskilið sér rétt til frekari skaðabóta ef matið sem hún var reist á reyndist síðar vera rangt. Fyrirvarinn var að þessu leyti bæði ótvíræður og nægilega skýr og honum fylgt eftir af áfrýjanda sem fyrr var lýst. Er ókleift að skýra fyrirvarann eins og stefndi heldur fram að hann takmarkist við rétt áfrýjanda í samhengi við 11. gr. skaðabótalaga til frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að miskastig eða örorkustig yrði verulega hærra en lagt var til grundvallar við samkomulagið um fullnaðaruppgjör. Ef fallist yrði á þessi rök stefnda ætti áfrýjandi hvort eð er rétt á endurupptöku ákvörðunar samkvæmt beinum fyrirmælum 11. gr. skaðabótalaga og yrðu réttaráhrif slíks fyrirvara í reynd engin.

5. Af skoðun á fyrrgreindum álits- og matgerðum verður ráðið að efasemdir áfrýjanda um mat örorkunefndar í álitsgerðinni 5. júní 2015 hafi ekki verið að tilefnislausu og að nefndin hafi vanmetið afleiðingar slyssins fyrir heilsu hans. Þannig er verulegur munur á niðurstöðu nefndarinnar og síðari matgerðum um varanlega örorku áfrýjanda og einnig um varanlegan miska í undirmatsgerð. Þar sem sönnunargildi yfirmats er ríkara en undirmats og ekki verður séð að annmarkar hafi verið á yfirmatinu verður hér litið til yfirmatsgerðarinnar. Töldu yfirmatsmenn áverka áfrýjanda þess eðlis að hægt væri að slá því föstu að einkenni þeirra hefðu verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015 og hefðu ekki versnað verulega eftir það. Yfirmatsmenn mátu varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins 35% að teknu tilliti til þess að áfrýjandi hefði ekki búið við óskerta starfsorku á slysdegi, en hún hafði verið metin 15% í álitsgerð örorkunefndar sem fyrr segir.

6. Samkvæmt framansögðu og í ljósi þess fyrirvara sem áfrýjandi gerði við samkomulag um fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta 5. júní 2015 teljum við að taka eigi til greina síðari þrautavarakröfu hans sem reist er á yfirmatsgerðinni frá 27. apríl 2018 um rétt áfrýjanda til bóta sem miðast við 35% varanlega örorku. Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða áfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum, en við erum sammála ákvörðun meirihluta dómenda um gjafsóknarkostnað.