Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2021

A og B (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
E, F, G, H, I, J og K (Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Faðerni
  • Börn
  • Aðild
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

A og B kröfðust þess að viðurkennt yrði að C, sem er látinn, hafi verið faðir föður þeirra sem einnig er látinn. Ágreiningur í málinu laut að því hvort börn látins manns gætu haft uppi kröfu um viðurkenningu á faðerni hans með dómi þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að eingöngu barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns geti verið stefnendur faðernismáls. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 1. mgr. 10. gr. barnalaga hefði að geyma sérreglu um aðild til sóknar í faðernismálum sem gengi framar ákvæðum almennra réttarfarslaga. Skýr vilji löggjafans stæði til þess að einskorða málsaðild í faðernismálum við þá aðila sem taldir væru í umræddu ákvæði og af þeim sökum væri ókleift annað en að skýra það með þeim hætti að þar væru taldir með tæmandi hætti þeir sem geti höfðað dómsmál um viðurkenningu á faðerni barns. Hæstiréttur taldi þann greinarmun sem gerður væri á málsaðild barns og foreldra í slíkum málum annars vegar og afkomendum og öðrum ættingjum barns hins vegar hvíla á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum um að vernda hagsmuni barnsins og því tengt réttindi foreldra þess, en ekki annarra ættingja. Voru hagsmunir A og B ekki taldir slíkir að fallast bæri á að víkja til hliðar 1. mgr. 10. gr. barnalaga vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem í málinu reyndi á formreglur um aðild máls til sóknar var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2021. Þær krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að C, sem er látinn, hafi verið faðir D sem einnig er látinn og var faðir áfrýjenda. Þá krefjast þær málskostnaðar fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.

3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur geta krafist viðurkenningar á að C, sem lést árið 2016, hafi verið faðir D föður þeirra, sem lést árið 2006, þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að aðild til sóknar í faðernismálum sé takmörkuð við barnið sjálft, móður eða mann sem telur sig föður barns.

5. Niðurstaða héraðsdóms varð á þann veg að ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga gæti ekki, vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar og þess megintilgangs reglna um feðrun barna að faðerni væri rétt skráð, staðið því í vegi að áfrýjendur fengju efnislega úrlausn um sakarefnið. Jafnframt var viðurkennt að C hafi verið faðir D. Í dómi Landsréttar var vísað til röksemda að baki ákvæðum barnalaga um aðild í faðernismálum um ríka hagsmuni barns af því að vera réttilega feðrað og njóta réttar til umgengni við foreldra sína auk fjárhagslegra hagsmuna. Þótt dómur í málinu gæti skotið stoðum undir tilkall áfrýjenda til arfs væru þeir menn sem málið hverfðist um allir látnir og hagsmunir áfrýjenda ekki sambærilegir við hagsmuni barns af því að fá dóm um faðerni sitt. Voru stefndu því sýknuð af kröfum áfrýjenda vegna aðildarskorts.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. apríl 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um aðildarreglu 1. mgr. 10. gr. barnalaga og hvort hún fari að þessu leyti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að bera mál undir dómstóla.

Málsatvik

7. Stefndu eru lögerfingjar C sem lést […] apríl 2016 en áfrýjendur krefjast viðurkenningar á að C hafi verið faðir D föður þeirra. Amma áfrýjenda, L, höfðaði mál 21. september 2016 til vefengingar á faðerni sonar síns, D sem fæddist 1954 og lést 2006. Lagði hún fram yfirlýsingu um að M, sem lést árið 2003 og hún var komin í sambúð með við fæðingu D, hefði ekki verið líffræðilegur faðir hans heldur C. Í tengslum við vefengingarmálið fór fram mannerfðafræðileg rannsókn sem leiddi í ljós að meira en 99% líkur væru á því að C hefði verið faðir D. Með héraðsdómi 11. apríl 2017 var viðurkennt að M hefði ekki verið faðir D.

8. L höfðaði í kjölfarið, 28. apríl 2017, faðernismál gegn lögerfingjum C til viðurkenningar á því að C hefði verið faðir D. L lést hins vegar tveimur dögum eftir málshöfðunina, […] apríl sama ár. Í úrskurði héraðsdóms var ekki fallist á að lagaskilyrði væru til að dánarbú L gæti tekið við aðild málsins til sóknar og var málinu vísað frá dómi 31. október 2017. Hæstiréttur staðfesti þann frávísunarúrskurð með dómi 7. desember sama ár í máli nr. 722/2017.

9. Í gögnum málsins kemur fram að bú C hafi verið tekið til opinberra skipta en skiptum er ólokið. Í kröfu sýslumannsins á Vesturlandi 19. desember 2017 um opinber skipti eru taldir upp lögerfingjar C sem eru systkini hans og systkinabörn. Tekið er fram að áfrýjendur í máli þessu hafi gefið sig fram og telji að faðir þeirra D hafi í raun verið sonur C og þær séu því lögerfingjar hans. Er þar jafnframt vísað til fyrrgreindrar niðurstöðu héraðsdóms 11. apríl 2017 og álitsgerðar vegna mannerfðafræðilegrar rannsóknar um að líkurnar á að C hafi verið faðir D séu meiri en 99%. Loks segir í kröfu um opinber skipti að eignir dánarbúsins nemi um 16,8 milljónum króna.

10. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta á fyrri hluta árs 2018 gegn 16 lögerfingjum C og tóku sjö þeirra til varna og eru stefndu í máli þessu. Með úrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2019 var málinu vísað frá dómi þar sem aðilar faðernismáls væru tæmandi taldir í 1. mgr. 10. gr. barnalaga. Áfrýjendur kærðu þann úrskurð til Landsréttar. Með úrskurði 9. apríl 2019 í máli nr. 149/2019 felldi Landsréttur úrskurð héraðsdóms úr gildi á þeim grundvelli að væri aðildarskortur fyrir hendi leiddi það til sýknu en ekki frávísunar máls, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eins og áður greinir lauk nýrri meðferð málsins í héraði með dómi 11. nóvember 2019 þar sem sýknukröfu vegna aðildarskorts var hafnað og viðurkennt að C hefði verið faðir D. Stefndu áfrýjuðu dóminum til Landsréttar sem komst, sem fyrr segir, að öndverðri niðurstöðu.

Niðurstaða

11. Kjarni ágreinings í máli þessu lýtur að því hvort börn látins manns geta haft uppi kröfu um viðurkenningu á faðerni hans með dómi þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga um að eingöngu barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns geti verið stefnendur faðernismáls. Auk tilgreiningar á því hverjir geta átt aðild til sóknar faðernismáls er þar tekið fram að hafi móðir barns höfðað mál en andast áður en því er lokið, geti sá sem tekur við forsjá þess haldið málinu áfram.

12. Í II. kafla barnalaga eru sérreglur um dómsmál til feðrunar barna, þar á meðal 10. gr. um málsaðild. Samkvæmt 12. gr. laganna sæta faðernismál almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögunum. Fram kemur í 15. gr. að dómari geti, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barninu og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Þá er tekið fram í 17. gr. laganna að maður skuli talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til að hann sé faðir þess.

13. Reglur barnalaga um aðild að faðernismálum eiga sér nokkra forsögu sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi og þýðingu hefur fyrir skýringu þeirra. Álitaefni um hvort takmörkun á aðild til sóknar í slíkum málum samkvæmt eldri barnalögum nr. 20/1992 færi í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar kom til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 18. desember 2000 í máli nr. 419/2000 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 4394. Samkvæmt 43. gr. eldri barnalaga gátu eingöngu móðir og barn höfðað faðernismál en sá sem taldi sig föður barns gat ekki átt aðild að slíku máli. Í dóminum var vísað til þess að í 70. gr. stjórnarskrárinnar fælist sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál undir dómstóla og yrði að skýra lagaákvæði sem takmörkuðu þann rétt í því ljósi. Fæli 43. gr. barnalaga eftir orðanna hljóðan í sér tálmun þess að sóknaraðili í málinu gæti leitað dómsviðurkenningar á að hann væri faðir umrædds barns. Yrði ekki ráðið af lögskýringargögnum að sú mismunun kynjanna sem birtist í því ákvæði byggðist á málefnalegum rökum er hnigu sérstaklega að því að vernda hagsmuni kvenna í þessu tilliti fremur en karla. Þá var litið til þess að mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir væru fólgnir í að faðerni barna væri í ljós leitt og ákvarðað og ekki síst bæri að hafa í huga ríka hagsmuni barnsins sjálfs af því að vera réttilega feðrað. Nægði þar að nefna rétt barns til að njóta umgengni við foreldra sína og umsjár þeirra, auk fjárhagslegra hagsmuna sem þessu tengdust. Loks var vísað til lögskýringar¬gagna um að ætlunin með faðernismálum væri að leita sannleikans um hver væri faðir barns. Þar væri ekki síst hagur og heill barnsins í húfi og réttarfarsreglum yrði að haga svo að þær þjónuðu þeim tilgangi sem að væri stefnt um könnun á faðerni barns. Væri í þessu ljósi ekki unnt að fallast á að nægar málefnalegar forsendur stæðu til þeirrar mismununar sem birtist í reglum barnalaga um málsaðild í faðernismálum. Með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar var því ekki talið að fyrirmæli þágildandi 43. barnalaga gætu staðið í vegi fyrir því að sóknaraðili fengi efnisúrlausn dómstóla um kröfu sína.

14. Í tilefni af þessum dómi Hæstaréttar voru reglur um málsaðild í faðernismálum teknar til ítarlegrar endurskoðunar í frumvarpi til barnalaga sem varð að núgildandi lögum og lagt mat á þá hagsmuni sem slíkum reglum væri ætlað að vernda. Í athugasemdum um helstu nýmæli frumvarpsins var vísað til framangreinds dóms um að takmarkanir eldri barnalaga á sóknaraðild í faðernismálum brytu gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi svo og sjónarmiða sem reifuð voru í frumvarpinu um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína, svo sem mælt væri fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögð til sú breyting á reglum um aðild að faðernismálum að maður sem telur sig föður barns geti höfðað faðernismál. Einnig var tekið fram að þetta ákvæði frumvarpsins væri í samræmi við meginreglur sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um lagalega stöðu barnsins. Var viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál talin fallin til að styrkja þau réttindi barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Í frumvarpinu voru einnig rakin sjónarmið um mikilvægi þess að sporna við því að hinar nýju aðildarreglur sem opnuðu fyrir málshöfðun þess sem teldi sig föður barns gæfu tækifæri til tilhæfulausra málshöfðana. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins komu fram frekari skýringar á markmiðum þess nýmælis að maður sem teldi sig föður barns gæti átt aðild til sóknar. Tekið var fram að barnið væri sett í öndvegi og lögð áhersla á að það væru fyrst og fremst hagsmunir þess sem mörkuðu form og efni aðildarreglnanna, eins og annarra reglna barnalaga.

15. Áfrýjendur í máli þessu telja sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá staðfest með dómi að C hafi verið faðir föður þeirra og að slík skráning sé rétt. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 hafi þær almenna heimild til að leita viðurkenningar¬dóms um kröfur sínar sem 10. gr. barnalaga fái ekki breytt og ekki sé hægt að gagnálykta að aðrir en þeir sem taldir eru í 1. mgr. 10. gr. geti ekki átt aðild. Um sé að ræða viðurkenningarmál um faðerni á grundvelli almennra reglna en ekki samkvæmt barnalögum.

16. Ekki verður fallist á framangreinda málsástæðu áfrýjenda, enda geymir umrætt ákvæði barnalaga sérreglu um aðild til sóknar í faðernismálum sem gengur framar ákvæðum almennra réttarfarslaga og hefur um langt skeið verið í lögum. Auk þess er tekið fram í 12. gr. barnalaga að faðernismál sæti almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögunum, en dæmi slíks fráviks frá almennum reglum er einmitt í 10. gr. þeirra. Ef sérreglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum gengju ekki framar almennum fyrirmælum laga nr. 91/1991 um viðurkenningarmál væri tilvist slíkra reglna óþörf. Yrði þá jafnframt að engu það markmið fyrrgreindu laganna að tryggja hagsmuni barns og eftir atvikum foreldra í þessu tilliti. Engin mörk væru þá sett heimildum manna til að höfða faðernismál þegar bæði barn og foreldrar eru látnir. Til viðbótar þessu stendur skýr vilji löggjafans til að einskorða málsaðild í faðernismálum við þá aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. 10. gr. barnalaga svo sem fram kom í þeim lögskýringargögnum sem áður voru reifuð. Af þessu verður einnig ályktað að réttur aðila til sóknar í slíkum málum sé persónubundinn og færist hvorki á hendur dánarbúi né erfist við andlát hans. Verður sú niðurstaða einnig leidd af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 722/2017 þar sem meðal annars var tekið fram að sóknaraðilinn, dánarbú L, hefði ekki fært nein haldbær rök fyrir því að lög gætu staðið til þess að búið héldi áfram rekstri málsins eftir andlát hennar eða aðrir gætu tekið við rekstri þess. Að öllu framangreindu virtu er ókleift annað en að skýra 10. gr. barnalaga með þeim hætti að þar séu taldir með tæmandi hætti þeir sem geti höfðað dómsmál um viðurkenningu á faðerni barns.

17. Að þessu frágengnu þarf að skera úr um hvort fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga um aðild til sóknar í faðernismálum eru í andstöðu við stjórnarskrárvernduð mannréttindi áfrýjenda þannig að láta verði hjá líða að beita hinu setta lagaákvæði. Áfrýjendur vísa til grundvallarmannréttinda um aðgengi að dómstólum og réttar til að fá úrlausn um réttindi sín samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þeirri grein ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum og hefur ákvæðið verið skýrt í ljósi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hefur réttur þessi ekki verið talinn svo fortakslaus að honum verði ekki settar neinar skorður. Slíkar takmarkanir verða þó að hvíla á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og hvorki fela í sér mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar né önnur grundvallarréttindi, svo sem staðfest var í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000.

18. Þegar lagt er mat á þær forsendur sem reglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum hvíla á kemur glögglega í ljós að hagsmunir barnsins eru þar í fyrirrúmi eins og skilmerkilega er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Reglurnar byggðust upphaflega á því að eingöngu móðir og barn hefðu ákvörðunarvald um höfðun faðernismáls, ekki síst við aðstæður þar sem barn og móðir hefðu myndað fjölskyldutengsl með öðrum einstaklingi, og einnig að tryggja þyrfti friðhelgi þeirra gagnvart tilhæfulausum málsóknum. Þær aðstæður sem eru uppi í þessu máli eru í veigamiklum atriðum ólíkar þeim sem voru í máli nr. 419/2000. Sá greinarmunur sem gerður er á málsaðild barns og foreldra í faðernismálum annars vegar og afkomendum eða öðrum ættingjum barns hins vegar hvílir á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og hnígur sérstaklega að því að vernda hagsmuni barnsins og því tengt réttindi foreldra þess, en ekki annarra ættingja.

19. Réttur barns til að þekkja báða foreldra sína nýtur verndar 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þegar einstaklingur kemst á fullorðinsár telst réttur hans til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn og rétt faðerni áfram til mikilvægra persónulegra réttinda hans og er jafnframt þáttur í einkalífi hans sem nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því er rökrétt að sóknaraðild barns að faðernismálum haldist eftir að einstaklingur nær 18 ára aldri. Við meðferð slíks máls er einnig unnt að krefjast mannerfðafræðilegrar rannsóknar til að skera úr um faðerni samkvæmt 15. gr. barnalaga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 18. janúar 2017 í máli nr. 866/2016. Einnig ber að líta til sjálfsákvörðunarréttar einstaklings um hvort hann gerir reka að því að höfða mál til að fá faðerni sitt staðfest að lögum. Það undirstrikar einnig persónubundið eðli þessa réttar barns að hann færist ekki á hendur annarra eftir andlát. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að áfrýjendum og D föður þeirra hefði verið kunnugt um að hann væri ekki sonur M heldur C. Það hafi almennt verið vitað í fjölskyldunni og jafnframt að áfrýjendur hafi þekkt til C. Af því sést að faðir áfrýjenda nýtti sér ekki þann rétt að höfða mál til að leiða í ljós faðerni sitt.

20. Áfrýjendur hafa ekki fært skýr rök fyrir því í hverju hinir lögmætu hagsmunir þeirra eru fólgnir en vísa almennum orðum til réttar sem þær eigi að njóta sem barnabörn til að dæmt verði um réttindi látins föður þeirra auk þess sem borgarar hafi hagsmuni af því að fá skorið úr um ætterni sitt. Þeim er þó í reynd kunnugt um ætterni sitt vegna þeirrar mannerfðafræðilegu rannsóknar sem fram fór í tengslum við vefengingarmál um faðerni föður þeirra. Þannig verður ekki séð að hagsmunir þeirra lúti að þörf til að fá upplýsingar um uppruna sinn eða tengist á annan hátt stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífs þeirra eða fjölskyldu.

21. Af gögnum málsins verður ráðið að einu hagsmunir áfrýjenda af því að fá viðurkenningu á faðerni látins föður síns séu að þær hyggist reisa tilkall til arfs úr dánarbúi C á dómi þar um. Arfstilkall er ekki þáttur í þeim réttindum barns sem lýst er í barnalögum þótt faðernisviðurkenning samkvæmt lögunum renni stoðum undir kröfu um arf samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Þótt þessir hagsmunir búi að baki kröfu um faðernisviðurkenningu verður í ljósi framangreindra sjónarmiða um markmið aðildarreglna barnalaga í faðernismálum, sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til, ekki fallist á að slíkir hagsmunir leiði til þess að víkja beri til hliðar ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar.

22. Það athugast að skortur á að uppfylla lagaskilyrði um aðild að faðernismálum leiðir til frávísunar en ekki sýknu, eins og lagt var til grundvallar í fyrrgreindum úrskurði Landsréttar nr. 149/2019 og hinum áfrýjaða dómi. Er þannig ekki um aðildarskort að ræða í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 heldur reynir á formreglur um aðild máls til sóknar. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu vegna fyrirmæla 1. mgr. 10. gr. barnalaga.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.