Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2022

Arnfríður Jóhannsdóttir (Ólafur Björnsson lögmaður)
gegn
Kristjönu Sigmundsdóttur, Klettholti ehf., Magnúsi Páli Brynjólfssyni, Rut Sigurðardóttur og Önnu Brynjólfsdóttur (Óskar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Jörð
  • Fasteign
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli AJ á hendur K, K ehf., M, R og AB var vísað frá héraðsdómi. Ágreiningur málsins laut einkum að afmörkun jarðarinnar Dalbæjar 1, sem er í eigu AJ, gagnvart jörðunum Dalbær 2 og Dalbær 3 og nýtingu jarðarinnar. Með fyrri kröfu sinni krafðist AJ viðurkenningar á því að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyrði leiguland úr Dalbæ 1 innan nánar tilgreindra merkja og beindi kröfunni að öllum varnaraðilum. Með seinni viðurkenningarkröfu AJ á hendur sömu aðilum var þess krafist að nánar tiltekið landsvæði tilheyrði Dalbæ 1 en að Dalbær 2 og Dalbær 3 ættu þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1, í samræmi við byggingarbréf 12. desember 1950. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem krafa AJ á hendur hverjum varnaraðila væri samhljóða hafi verið ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers væri krafist með endurtekningu sömu orða fyrir hvern varnaraðila um sig. Var því ekki fallist á að 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiddi til frávísunar kröfunnar á þeim grundvelli. Hins vegar var talið að kröfugerð AJ uppfyllti ekki áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um ákveðna og skýra kröfugerð. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 10. júní 2022 þar sem kröfum sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum hverjum fyrir sig kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur málsins lýtur einkum að afmörkun jarðarinnar Dalbæjar 1 gagnvart jörðunum Dalbær 2 og Dalbær 3 og nýtingu jarðarinnar en sóknaraðili er þinglýstur eigandi Dalbæjar 1. Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili þess að felldur verði úr gildi úrskurður Landsréttar þar sem viðurkenningarkröfum hennar var vísað frá héraðsdómi. Annars vegar var þar vísað frá kröfu hennar um að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyrði leiguland úr jörðinni Dalbæ 1 innan tiltekinna merkja á þeim grundvelli að ekki væru uppfyllt skilyrði samlagsaðildar eftir 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar kröfu hennar um að Dalbæ 1 tilheyrði nánar tiltekið landsvæði og að Dalbær 2 og Dalbær 3 ættu þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1 í samræmi við efni byggingarbréfs 12. desember 1950. Þeirri kröfu var vísað frá héraðsdómi þar sem hún þótti ekki fullnægja áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Málsatvik

6. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var jörðin Dalbær upphaflega ein Miðfellsjarða í Hrunamannahreppi. Sameiginlegt landamerkjabréf var gert fyrir jarðirnar 3. júní 1885 og þinglesið 10. sama mánaðar. Með landskiptagerð fyrir Miðfellsjarðir árið 1914 fékk Dalbær í sinn hlut austasta hluta landsins innan nánar tiltekinna merkja.

7. Magnús Guðmundsson fékk afsal fyrir Dalbæ frá föður sínum, Guðmundi Guðmundssyni, 17. desember 1930. Þar var Guðmundi og Páli, syni hans og bróður Magnúsar, áskilin ábúð hvor á sínum helmingi jarðarinnar. Eftir andlát Guðmundar árið 1938 bjó Páll áfram á jörðinni. Magnús byggði síðar Brynjólfi Geir, syni Páls, fjórðung jarðarinnar með byggingarbréfi 12. desember 1950. Þar sagði að fjórðungur jarðarinnar væri byggður honum til löglegrar erfðaábúðar til stofnunar nýbýlis. Merkjum var þar lýst auk þess sem nýbýlið skyldi hafa beitiland á nánar tilteknu landi. Ekki munu hafa farið fram formleg landskipti af þessu tilefni. Árið 1951 samþykkti ráðherra að nýbýlið fengi nafnið Dalbær 2.

8. Með yfirlýsingu 2. apríl 1957 var jörðin Dalbær 1 gerð að ættaróðali. Þar sagði að Magnús legði óðalinu til allt land jarðarinnar og það sem hann ætti í íbúðarhúsinu en að Páll legði til íbúðarhúsið að öðru leyti og öll önnur hús og mannvirki jarðarinnar. Jafnframt kom þar fram að yfirlýsingin tæki „að sjálfsögðu að engu leyti til býlisins Dalbær II“. Skyldi Páll vera fyrsti óðalseigandi jarðarinnar. Páll lést árið 1966. Jóhann, sonur Páls, fékk óðalsafsal 14. desember 1969 fyrir Dalbæ 1 en hann hafði búið ásamt Magnúsi og Páli á jörðinni og tekið við búrekstri árið 1964. Jóhann lést árið 1987 og tóku fjögur barna hans, þeirra á meðal sóknaraðili, við jörðinni sem síðar var leyst úr óðalsböndum 28. nóvember 1989. Sóknaraðili keypti jörðina af systkinum sínum árið 1997 og er þinglýstur eigandi hennar.

9. Magnús Guðmundsson lést árið 1974. Hann var þinglýstur eigandi Dalbæjar 2 allt fram til þess að Brynjólfur Geir fékk eignardóm fyrir Dalbæ 2 með dómi Héraðsdóms Suðurlands 4. maí 1994. Brynjólfur Geir lést árið 2003 og situr ekkja hans, varnaraðilinn Kristjana, í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hún er þinglýstur eigandi Dalbæjar 2 á grundvelli búsetuleyfis 27. október 2003.

10. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að Brynjólfur Geir hafi afsalað syni sínum, varnaraðilanum Magnúsi Páli, 7.500 fermetra lóð úr landi jarðarinnar Dalbæjar 2 til byggingar íbúðarhúss með samningi 21. ágúst 1980, en hann hafði tekið við ábúð á hluta hennar sama ár. Með kaupsamningi og afsali 1. október 1993 seldi Brynjólfur Geir Dalbæ 2 til varnaraðilans Magnúsar Páls að undanskildum nánar tilteknum spildum og húsum. Varnaraðilanum Magnúsi Páli var auk þess veitt leyfi ráðherra 3. desember 1993 til að stofna nýbýlið Dalbær 3 úr hluta af landi Dalbæjar 2. Með afsali 15. desember 2003 afsalaði varnaraðilinn Kristjana til varnaraðilans Magnúsar Páls eignarhlutum sem voru undanskildir í fyrrgreindum kaupsamningi og voru þeir í kjölfarið sameinaðir Dalbæ 3.

11. Brynjólfur Geir afsalaði 14. nóvember 1999 1,3 hektara frístundabyggð úr landi Dalbæjar 2 til varnaraðilans Önnu Brynjólfsdóttur og var deiliskipulag vegna svæðisins samþykkt 5. maí 2000 af sveitarstjórn Hrunamannahrepps. Sama ár var frístundabyggðinni skipt út úr landi Dalbæjar 2 með samþykki ráðherra. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti einnig deiliskipulag 20,3 hektara frístundabyggðar á spildu úr landi Dalbæjar 3 árið 2007, svonefnda Markaflöt. Frístundabyggðinni var skipt út úr landi Dalbæjar 3 með samþykki ráðherra 8. febrúar 2016. Þinglýstur eigandi hennar er varnaraðilinn Klettholt ehf. sem er að öllu leyti í eigu varnaraðilans Magnúsar Páls. Þá afsöluðu varnaraðilarnir Magnús Páll og Rut 26. maí 2004 hluta af Dalbæ 3 til varnaraðilans Klettholts ehf., en félagið afsalaði þeim 14. maí 2006 íbúðarhúsi sem það hafði fengið með fyrrgreindu afsali. Árið 2014 var svo 2.400 fermetra spildu, Ketilhólum 2, skipt úr Dalbæ 2 og er varnaraðili Kristjana þinglýstur eigandi hennar.

Niðurstaða

Um samlagsaðild

12. Með fyrri kröfu sinni krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að Dalbæ 2 og Dalbæ 3 tilheyri leiguland úr Dalbæ 1 innan nánar tilgreindra merkja. Viðurkenningarkröfunni er beint að öllum varnaraðilum. Með seinni viðurkenningarkröfu sóknaraðila á hendur sömu aðilum er þess krafist að nánar tiltekið landsvæði tilheyri Dalbæ 1 en að Dalbær 2 og Dalbær 3 eigi þar óskiptan beitarrétt að einum þriðja á móti Dalbæ 1, í samræmi við byggingarbréf 12. desember 1950.

13. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að beina kröfu að fleiri en einum ef dómkröfur eiga rót að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með því er veitt ákveðið réttarfarshagræði sem fæst af því að þurfa ekki að reka mörg mál og endurtaka í lítt breyttri mynd lýsingu málsatvika og málsástæðna sem reist eru á sömu eða líkum sönnunargögnum.

14. Af því sem rakið hefur verið er ljóst að málatilbúnaður sóknaraðila á hendur varnaraðilum er reistur á fyrrgreindu byggingarbréfi 12. desember 1950 og að varnaraðilar leiði allir rétt sinn frá því. Var sóknaraðila því heimilt að beina dómkröfum sínum að þeim öllum á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 enda grundvallast málatilbúnaður sóknaraðila á að dómkröfur á hendur varnaraðilum verði raktar til sama löggernings í skilningi ákvæðisins og verður ekki séð að vörnum hafi verið áfátt af þeim sökum.

15. Af orðalagi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 má ráða að þegar þessarar heimildar er neytt verður að beina sérstakri kröfu að hverjum og einum varnaraðila. Varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þess ekki gætt og má um það vísa til dóms Hæstaréttar 20. nóvember 2012 í máli nr. 644/2012. Hér er þess þó að gæta að krafa sóknaraðila á hendur hverjum varnaraðila um sig var samhljóða. Af þeim sökum var ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers krafist væri af hendi sóknaraðila með endurtekningu sömu orða fyrir hvern varnaraðila um sig. Nægði í þeim efnum að þetta væri gert í eitt skipti fyrir alla varnaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar 29. apríl 2014 í máli nr. 240/2014. Verður því ekki fallist á að ágalli sé á kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti sem varðað geti frávísun málsins.

Um kröfugerð sóknaraðila

16. Meginskilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni er að það skipti máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um það. Þannig verður sá sem höfðar mál að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína og verður úrlausn um það að hafa raunhæft gildi fyrir réttarstöðu hans. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína. Af d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna leiðir að kröfugerð í slíkri málsókn verður að taka til viðurkenningar á tilteknum réttindum.

17. Sóknaraðili hefur hagað kröfugerð sinni með þeim hætti að í fyrri viðurkenningarkröfu felst krafa um viðurkenningu „leigulands“ á jörð hennar Dalbæ 1 varnaraðilum til handa án þess að lýsa með nokkru móti inntaki þess réttar sem byggt er á af hálfu sóknaraðila að hvíli á erfðafestu samkvæmt byggingabréfi 12. desember 1950. Með seinni viðurkenningarkröfu sinni krefst sóknaraðili þess að jarðirnar Dalbær 2 og Dalbær 3 eigi óskiptan beitarrétt að einum þriðja hluta á móti Dalbæ 1 á nánar tilteknum hluta jarðarinnar, sem að öðru leyti „tilheyri“ Dalbæ 1, án þess að nánari grein sé gerð fyrir hvaða eignarréttarlegu réttindi felist í því og jafnframt samhengi þeirrar kröfu við fyrri viðurkenningarkröfu sóknaraðila.

18. Kröfugerð sóknaraðila í þessu horfi uppfyllir ekki áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um ákveðna og skýra kröfugerð. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að vísa málinu í heild frá héraðsdómi á þeim grundvelli.

19. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Kristjönu Sigmundsdóttur, Klettholti ehf., Magnúsi Páli Brynjólfssyni, Rut Sigurðardóttur og Önnu Brynjólfsdóttur, hverju fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.