Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2021

Hópbifreiðar Kynnisferða ehf. (Víðir Smári Petersen lögmaður)
gegn
Isavia ohf. (Hlynur Halldórsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Innsetningargerð
  • Málsforræði
  • Upplýsingaréttur

Reifun

H ehf. krafðist þess að fram færi bein aðfarargerð til að fá I ehf. til að afhenda sér afrit af eða veita sér aðgang að „öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Með kröfunni freistaði H ehf. þess að afla gagna til að leggja fram í öðru dómsmáli sem H ehf. hafði höfðað á hendur I ohf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að reglur réttarfarslaga girtu ekki fyrir að aðili gæti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 enda mæltu þau fyrir um sjálfstæðan rétt almennings að gögnum sem lægju fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin tækju til og vörðuðu tiltekið mál. Á hinn bóginn var ekki talið að lagaskilyrði stæðu til að með beinni aðfarargerð eftir 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför o.fl. færi fram athugun á gögnum I ohf., hvort sem er skjallegum eða rafrænum, til að ganga úr skugga um hvort þar fyndust gögn sem hefðu að geyma þær upplýsingar sem H ehf. leitaði eftir. Var kröfu H ehf. þegar af þeirri ástæðu hafnað.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 11. janúar 2021. Kærður er úrskurður Landsréttar 18. desember 2020 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að synja um aðför samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila.

3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fram fari bein aðfarargerð „til að fá varnaraðila til að afhenda sóknaraðila ljósrit eða afrit af öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Til vara krefst sóknaraðili þess að gerðin fari fram til að veita sóknaraðila fullan og ótakmarkaðan aðgang að sömu gögnum svo að hann geti ljósritað þau eða afritað, en til þrautavara að honum verði veittur sami aðgangur að gögnunum svo að hann geti staðreynt hvort fyrirtækin hafa greitt fyrir stæðin á tímabilinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Sóknaraðili veitir ferðaþjónustu og býður meðal annars upp á áætlunarferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og höfuðborgarsvæðisins. Varnaraðili starfar á grundvelli laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., en félagið rekur bæði flugvöllinn og fyrrgreinda flugstöð á honum. Af lögunum leiðir að meðal verkefna varnaraðila er að byggja upp og annast umferðarmannvirki og bifreiðastæði við flugstöðina.

6. Að undangengnu útboði gerðu málsaðilar rekstrarleyfissamning 4. apríl 2018 um aðgang sóknaraðila að svokölluðum nærstæðum við flugstöðina vegna áætlunaraksturs milli hennar og höfuðborgarsvæðisins. Samhliða var gerður samningur við fyrirtækið Hópbíla hf. um aðgang að nærstæðunum. Fyrir útboðið hafði fyrirtækið Allrahanda GL ehf. haft aðgang að nærstæðunum en missti hann í kjölfar útboðsins og hefur upp frá því sinnt áætlunarakstri frá svokölluðum fjærstæðum við flugstöðina en þau eru, eins og nafnið gefur til kynna, fjær henni. Sóknaraðili telur að sér hafi í þessum lögskiptum verið mismunað í samanburði við gjaldtöku varnaraðila fyrir aðgang að fjærstæðunum. Af því tilefni höfðaði sóknaraðili mál 24. maí 2019 á hendur varnaraðila og krafðist þess að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á rekstrarleyfissamningnum til leiðréttingar á því sem hann taldi fela í sér mismunun gagnvart sér auk þess sem hann krafðist tiltekinnar endurgreiðslu úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krafðist sýknu af þessum kröfum en dómur í málinu hefur enn ekki gengið í héraði.

7. Með þeirri aðfararbeiðni sem mál þetta tekur til krafðist sóknaraðili þess að fá afhent afrit af eða fá aðgang að gögnum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hefðu greitt fyrir aðgang að nær- og fjærstæðum við flugstöðina á tímabilinu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með úrskurði 15. september 2020. Sú niðurstaða var reist á því að með aðfararbeiðninni freistaði sóknaraðili þess að afla gagna frá varnaraðila til framlagningar í fyrrgreindu dómsmáli. Taldi héraðsdómur þetta stangast á við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu. Jafnframt færi það í bága við málsforræðisregluna sem fæli í sér að hvor aðili fyrir sig hefði forræði á sönnunarfærslu og gagnaframlagningu og yrði ekki knúinn af gagnaðila sínum til að leggja fram skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn. Landsréttur staðfesti þessa niðurstöðu með fyrrgreindum úrskurði 18. desember 2020. Taldi rétturinn að krafa sóknaraðila um beina aðför færi í bága við meginreglur réttarfars. Af þeim leiddi að sóknaraðila bæri að fara eftir þeim gagnaöflunarleiðum sem lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála gerðu ráð fyrir. Því væri það í höndum þess dómara sem færi með fyrrgreint einkamál milli aðila að taka afstöðu til þess hvort gögnin kynnu að hafa þýðingu við úrlausn þess máls og hvernig með ætti að fara ef þau yrðu ekki lögð fram, sbr. X. kafla og eftir atvikum VIII. kafla þeirra laga. Málið væri því ekki rekið á réttum lagagrundvelli.

8. Með ákvörðun Hæstaréttar 12. febrúar 2021 var sóknaraðila veitt leyfi til að kæra úrskurðinn til réttarins á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í ákvörðuninni kom fram að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um rétt málsaðila til afhendingar gagna í vörslu hins opinbera með beinni aðfarargerð þegar rekið væri einkamál milli aðilanna þar sem krafist væri afhendingar sömu gagna á grundvelli 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991.

Málsatvik

9. Í maí 2017 efndi varnaraðili til útboðs fyrir aðgang að nærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir hópferðabifreiðar í áætlunarakstri til höfuðborgarsvæðisins. Í útboðinu var gert ráð fyrir að samið yrði við tvo rekstrarleyfishafa sem hvor um sig átti að fá aðgang að þremur stæðum og aðstöðu í flugstöðinni fyrir miðasölu. Alls tóku þrjú hópferðafyrirtæki þátt í útboðinu og kom hæsta boð frá sóknaraðila. Næsthæsta boð kom frá Hópbílum hf. og lægsta boð frá Allrahanda GL ehf. Eins og áður greinir var í kjölfar útboðsins gerður rekstrarleyfissamningur 4. apríl 2018 við sóknaraðila og samhliða var gerður slíkur samningur við Hópbíla hf. Gjaldtaka eftir samningunum miðaðist við 1. mars sama ár.

10. Í kjölfar útboðsins missti Allrahanda GL ehf. aðstöðu sem það hafði haft á nærstæðum við flugstöðina og hefur upp frá því ekið til og frá fjærstæðum í ferðum milli flugstöðvar og höfuðborgarsvæðis. Hinn 1. desember 2017 tilkynnti varnaraðili að frá og með 1. mars 2018 yrði innheimt gjald fyrir afnot af fjærstæðum eftir gjaldskrá félagsins en fram að því höfðu stæðin verið nýtt endurgjaldslaust. Samkvæmt gjaldskránni var innheimt 7.900 króna gjald fyrir hópferðabifreiðar með 19 eða færri farþegasæti en 19.900 krónur fyrir bifreiðar með fleiri sætum. Allrahanda GL ehf. kvartaði með bréfi 10. janúar 2018 til Samkeppniseftirlitsins yfir gjaldtöku varnaraðila og með bréfi þess 6. febrúar sama ár var honum tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka kvörtunina til meðferðar með hliðsjón af hugsanlegu broti gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Eftir frekari bréfaskipti milli Samkeppniseftirlitsins og málsaðila tilkynnti varnaraðili um breytingar á tilhögun gjaldtökunnar. Ákveðið var að gjaldið yrði lægra á sex mánaða aðlögunartímabili frá 1. mars til 31. ágúst 2018 og skiptist þannig að greiddar yrðu 3.200 krónur fyrir hópferðabifreiðar með 19 eða færri farþegasæti, 8.900 krónur fyrir bifreiðar með 20 til 45 sæti og 12.900 krónur vegna bifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega. Frá 1. september 2018 yrði gjaldið 4.900 krónur fyrir minnstu bifreiðarnar, 12.500 krónur fyrir millistærð og 19.900 krónur fyrir þær stærstu.

11. Hinn 17. júlí 2018 birti Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun samkvæmt heimild í 3. og 4. mgr. 16. gr. samkeppnislaga um að stöðva þá gjaldtöku á fjærstæðum við flugstöðina sem hófst 1. mars 2018 en ákvörðunin gilti til loka þess árs. Sama dag og ákvörðunin var birt tilkynnti varnaraðili að gjaldtöku vegna fjærstæða yrði hætt meðan hún væri í gildi. Engar breytingar munu hins vegar hafa verið gerðar vegna gjaldtöku á nærstæðum. Með bréfi 24. júlí 2018 kærði varnaraðili bráðabirgðaákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hafnaði með úrskurði 22. október sama ár kröfu hans um ógildingu eða breytingu á ákvörðuninni.

12. Þegar málið var til meðferðar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði Samkeppniseftirlitið í bréfi 28. ágúst 2018 til varnaraðila tekið fram að bráðabirgðaákvörðunin fæli ekki í sér að honum væri með öllu óheimilt að innheimta gjald fyrir afnot af fjærstæðum heldur eingöngu að sú gjaldtaka sem hófst 1. mars það ár yrði stöðvuð. Einnig var bent á að varnaraðili hefði kosið að innheimta ekkert gjald fyrir fjærstæðin án þess að gera nokkuð til að leiðrétta eða jafna stöðu hópferðafyrirtækjanna sem nýttu nærstæðin, en þetta kynni að fara í bága við 11. gr. samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Hinn 2. nóvember 2018 tilkynnti varnaraðili um nýja gjaldskrá fyrir fjærstæðin frá 5. sama mánaðar. Í tilkynningunni kom fram að verðlagningunni væri ætlað að verja samkeppnishagsmuni og gæta jafnræðis milli þeirra sem notuðu innviði varnaraðila við farþegaflutninga til og frá flugstöðinni. Samkvæmt gjaldskránni bar að greiða 3.200 krónur fyrir hópferðabifreiðar með sæti fyrir 19 farþega eða færri, 7.400 krónur fyrir bifreiðar með 20 til 45 sæti og 9.900 krónur vegna bifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega. Jafnframt var ákveðið að á tímabilinu frá 1. mars til 4. nóvember 2018 yrði innheimt áðurgreint gjald sem hafði verið ákveðið á aðlögunartímabili.

13. Með bréfi sóknaraðila 6. nóvember 2018 var því haldið fram að ný gjaldskrá varnaraðila væri ekki til þess fallin að gæta jafnræðis milli þeirra sem nýttu innviði varnaraðila heldur skekkti hún þvert á móti samkeppni milli rekstrarleyfishafa og þeirra sem nýttu fjærstæðin. Krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili lækkaði gjald gagnvart sér fyrir nærstæðin með sama hætti og gert hefði verið vegna hópferðabifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega á fjærstæðum eða um 50%. Þessu hafnaði varnaraðili með bréfi 9. sama mánaðar. Af þeim sökum höfðaði sóknaraðili fyrrgreint mál 24. maí 2019 á hendur varnaraðila til að fá rekstrarleyfissamningi sínum við varnaraðila breytt til samræmis við þetta auk þess sem höfð var uppi krafa um endurgreiðslu.

14. Í stefnu sóknaraðila til héraðsdóms í umræddu máli kom fram að hann hefði ástæðu til að ætla að Allrahanda GL ehf. hefði ekki greitt gjald fyrir fjærstæðin frá 5. nóvember 2018 eða að minnsta kosti ekki greitt fullt gjald. Jafnframt hefði hann grun um að Hópbílar hf. hefðu ekki greitt að fullu gjald fyrir nærstæðin samkvæmt rekstrarleyfissamningi við varnaraðila. Af þessum sökum skoraði sóknaraðili á varnaraðila, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, að leggja fram gögn til staðfestingar á því að þessi fyrirtæki hefðu greitt gjöld vegna afnota af nær- og fjærstæðum að fullu frá 1. mars 2018 til þess dags er málið var höfðað, svo sem með reikningum, greiðslukvittunum eða innheimtubréfum. Einnig var tekið fram að sóknaraðili ætti rétt á þessum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Í greinargerð varnaraðila til héraðsdóms var þessari áskorun hafnað. Til stuðnings því var bent á að um væri að ræða upplýsingar um rekstur samkeppnisaðila sóknaraðila á markaði. Framlagning slíkra gagna gæti meðal annars falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og væri varnaraðila því óheimilt að verða við áskoruninni.

15. Með tölvubréfum 7. febrúar 2020 ítrekaði sóknaraðili áskorun sína til varnaraðila um afhendingu umræddra gagna og tók fram að óskað væri eftir gögnum til þess dags. Til stuðnings þessu vísaði hann til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 13. desember 2019 í máli nr. 857/2019 sem laut meðal annars að upplýsingum um gjaldtöku vegna aðstöðu fyrir hópferðabifreiðar á stæðum við Keflavíkurflugvöll á árinu 2017. Þetta erindi áréttaði sóknaraðili í tölvubréfi 26. mars 2020 til lögmanns varnaraðila og tók fram að hann íhugaði að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál eða höfða dómsmál ef umbeðnar upplýsingar yrðu ekki veittar. Erindið áréttaði sóknaraðili svo öðru sinni með tölvubréfi 31. sama mánaðar. Þessu var svarað með tölvubréfi 1. apríl sama ár en þar kom fram að fyrri afstaða varnaraðila stæði óhögguð og breytti fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar engu þar um. Með fyrrgreindri aðfararbeiðni 14. sama mánaðar krafðist sóknaraðili þess að fá afrit af gögnunum eða aðgang að þeim með beinni aðfarargerð.

Niðurstaða

Réttarfarsreglur

16. Með kröfu sinni um beina aðför freistar sóknaraðili þess að afla gagna til að leggja fram í öðru dómsmáli sem hann hefur höfðað á hendur varnaraðila. Jafnframt telur sóknaraðili að upplýsingar sem kunni að koma fram í þessum gögnum geti kallað á frekari aðgerðir af sinni hálfu, svo sem að hafa uppi bótakröfu á hendur varnaraðila eða beina kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. Eins og áður greinir komust bæði héraðsdómur og Landsréttur að þeirri niðurstöðu að krafa sóknaraðila um beina aðför við þessar aðstæður færi í bága við meginreglur einkamálaréttarfars.

17. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 skal öflun sönnunargagna að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með mál. Frá þessu gilda þó ákveðnar undantekningar eins og greinir í ákvæðinu. Þetta er í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Jafnframt gildir sú regla samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna að aðilar afla sönnunargagna og er það í samræmi aðra meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila. Í henni felst meðal annars að aðilar hafa forræði á sönnunarfærslu máls og ræður hver þeirra fyrir sig hvort hann leggur fram gögn sem hann ýmist hefur þegar undir höndum eða aflar frá öðrum. Við slíka öflun sönnunargagna getur málsaðili ekki knúið gagnaðila sinn til að láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn. Verði gagnaðili hins vegar ekki við áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefur í vörslum sínum og er skylt að láta í té, sbr. 2. mgr. 67. gr. laganna, getur dómari skýrt neitun hans á þann veg að hann samþykki frásögn áskorandans um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Aftur á móti getur aðili krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því að fá hann skyldaðan til að afhenda tiltekið skjal til framlagningar, sbr. 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna. Í dómum sínum hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að reglan um að aðili verði ekki knúinn til að afhenda gagnaðila sínum gögn til framlagningar í dómsmáli verði ekki sniðgengin með því að óska matsgerðar sem snertir sakarefnið í því skyni að matsmaður kynni sér skjöl í vörslu gagnaðila matsbeiðanda og varpi ljósi á efni þeirra, sbr. dóma réttarins 17. mars 2016 í máli nr. 132/2016, 13. mars 2017 í máli nr. 43/2017 og 21. mars 2017 í máli nr. 147/2017. Jafnframt hafnaði Hæstiréttur í dómi 1. desember 2016 í máli nr. 763/2016 kröfu um beina aðför hjá skiptastjóra þrotabús til að afla gagna í máli sem rekið var persónulega á hendur þrotamanni. Var sú niðurstaða reist á því að viðhafa yrði þær aðferðir við gagnaöflun sem lög nr. 91/1991 gerðu ráð fyrir.

Upplýsingalög

18. Þær réttarfarsreglur um öflun skjala undir rekstri dómsmáls sem hér hafa verið raktar girða ekki fyrir að aðili geti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, enda mæla þau lög fyrir um sjálfstæðan rétt almennings til aðgangs að gögnum sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin taka til og varða tiltekið mál. Frá þessu gilda þó ákveðnar undantekningar sem koma fram í 6. til 10. gr. laganna sem meta ber í hverju tilviki hvort eigi við um upplýsingabeiðni. Engin takmörkun er gerð á þessum rétti gagnvart borgara sem á aðild að dómsmáli gegn þeim sem upplýsingaskylda hvílir á eftir lögunum þótt sakarefnið snerti gögnin með einhverju móti. Samkvæmt því verður aðfararbeiðni sóknaraðila ekki synjað þegar af þeirri ástæðu að hún fari í bága við réttarfarsreglur. Að öðrum kosti væri sá sem neytti réttar síns til að bera undir dómstóla ágreining um réttindi sín og skyldur gagnvart þeim sem skylda hvílir á eftir upplýsingalögum útilokaður frá upplýsingarétti sínum meðan allir aðrir ættu rétt á sömu upplýsingum. Það sama ætti við ef sá sem upplýsingaskylda hvílir á höfðaði málið. Þetta gæti jafnframt leitt til þess að gögnum sem vörðuðu sakarefnið yrði ekki komið að í dómsmáli, gegn vilja þess sem upplýsingaskylda hvílir á, svo dómur yrði lagður á málið á þeim grundvelli, meðan allir aðrir sem fjölluðu um málið hefðu aðgang að þessum sömu gögnum.

19. Varnaraðili styður andmæli sín við kröfu um beina aðför þeim rökum að sóknaraðili hafi aldrei sett fram beiðni um afhendingu gagna á grunni upplýsingalaga. Í því sambandi vísar hann til þess að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skuli senda beiðni um aðgang að gögnum í máli til þess sem tekið hefur eða mun taka ákvörðun í því. Annars skuli beiðni beint til þess sem hefur gögnin í vörslu sinni. Varnaraðili telur áskoranir sóknaraðila undir rekstri dómsmáls og fyrrgreind erindi hans til lögmanns síns ófullnægjandi í þessu tilliti. Í stefnu í umræddu dómsmáli tók sóknaraðili fram, til stuðnings því að fá þau gögn sem hann skoraði á varnaraðila að leggja fram, að hann ætti rétt á þeim á grundvelli upplýsingalaga. Í tölvubréfi sóknaraðila 7. febrúar 2020 til lögmanns varnaraðila var einnig vísað í tiltekinn úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en sú nefnd starfar á grundvelli laganna. Þegar þetta erindi var ítrekað með tölvubréfi 26. mars sama ár var tekið fram að sóknaraðili íhugaði að leggja málið fyrir nefndina eða höfða dómsmál yrðu umbeðnar upplýsingar ekki veittar. Í svari varnaraðila við þessum erindum með tölvubréfi lögmanns hans 1. apríl það ár var tekið fram að fyrri neitun stæði óhögguð og breytti úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál engu þar um. Í ljósi þess að sóknaraðili hafði til stuðnings beiðni sinni um afhendingu gagna vísað til upplýsingalaga og gefið til kynna að hann myndi hugsanlega bera málið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál bar lögmanni varnaraðila við þessar aðstæður að gera fyrirvara ef hann teldi að slíkri beiðni yrði ekki að réttu lagi beint til sín. Þar sem það var ekki gert mátti sóknaraðili gera ráð fyrir að kröfu hans yrði komið á framfæri við varnaraðila með viðhlítandi hætti af lögmanni hans. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með varnaraðila að beiðni um afhendingu gagna eftir upplýsingalögum hafi aldrei verið sett fram heldur verður að leggja til grundvallar að þeirri beiðni hafi verið synjað af honum.

20. Þar sem varnaraðili varð ekki við ósk sóknaraðila um að afhenda þau gögn sem leitað var eftir á grundvelli upplýsingalaga var sóknaraðila heimilt að bera synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Á það verður hins vegar ekki fallist með varnaraðila að sóknaraðila hafi borið að leggja málið fyrir úrskurðarnefndina áður en hann leitaði til dómstóla, enda er það ekki skilyrði fyrir málsókn að máli hafi áður verið vísað til kærunefndar innan stjórnsýslunnar nema annað leiði ótvírætt af lögum. Um þetta má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 27. nóvember 1995 í máli nr. 375/1995, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 2871, og 20. janúar 2015 í máli nr. 808/2014. Í stað þess að höfða almennt einkamál með kröfu um að synjun varnaraðila yrði hnekkt og eftir atvikum skylda lögð á hann að afhenda umbeðin gögn, hugsanlega að viðlögðum dagsektum, kaus sóknaraðili að bera málið undir dóm með kröfu um afhendingu gagna eða aðgang að þeim með beinni aðfarargerð. Til að fallist verði á kröfu af því tagi verður málatilbúnaður sóknaraðila að fullnægja réttarfarsskilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989, þar með talið hvers konar réttindum verður fullnægt með slíkri gerð.

Bein aðför

21. Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 getur bein aðför aðeins farið fram til að framfylgja skyldu þess efnis sem getur í 72. og 73. gr. laganna. Ákvæði 72. gr. lýtur eingöngu að fasteignum en í 73. gr. kemur fram að til að fullnægja skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en fasteignar skuli sýslumaður taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda. Í þessu felst að áþreifanlegur hlutur er tekinn frá gerðarþola og fenginn gerðarbeiðanda til frambúðar á grundvelli þess að hann eigi rétt til umráðanna vegna eignarréttar eða annarra réttinda sem fela í sér heimild til umráðanna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. mars 1968 í máli nr. 190/1967, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 315. Jafnframt hefur rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að með beinni aðfarargerð verði gerðarbeiðanda sem á lögverndaðan rétt til aðgangs að tilteknu skjali veitt heimild til aðgangs að slíku skjali í umráðum gerðarþola í því skyni að gerðarbeiðandi fái að skrá niður upplýsingar úr því, sbr. dóm réttarins 3. september 2002 í máli nr. 373/2002, sem birtist í dómasafni hans það ár á bls. 2657. Hér má einnig benda á sambærilegt tilvik í dómi réttarins 18. apríl 1975 í máli nr. 74/1974, sem birtist í dómasafni hans það ár á bls. 423, en þar var fallist á kröfu Rafmagnsveitu Reykjavíkur um innsetningu til að fá aðgang að rafmagnsmæli í húsnæði sem gerðarþoli hafði á leigu til að rjúfa straum vegna skuldar fyrir notkun raforku. Einnig er til að taka dóm réttarins 31. ágúst 2009 í máli nr. 461/2009 en þar var með beinni aðfarargerð veittur aðgangur að neysluvatni í vatnslögn.

22. Kröfugerð sóknaraðila felur það í sér að honum verði með beinni aðfarargerð fengið afrit af eða veittur aðgangur að „öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Þannig tekur kröfugerðin ekki til nánar tiltekinna skjala heldur allra þeirra gagna sem kunna að hafa að geyma upplýsingar um hvort fyrirtækin hafa staðið skil á greiðslum fyrir nær- og fjærstæði við flugstöðina á fyrrgreindu tímabili. Jafnframt er hugsanlegt að þessara gagna njóti ekki við ef ekki hefur verið greitt fyrir stæðin, eins og sóknaraðili telur ástæðu til að ætla. Samkvæmt því sem áður er rakið um kröfu eftir 73. gr. laga nr. 90/1989 standa lagaskilyrði ekki til að með beinni aðfarargerð eftir 78. gr. laganna fari fram athugun á gögnum varnaraðila, hvort sem er skjallegum eða rafrænum, til að ganga úr skugga um hvort þar finnast gögn sem hafi að geyma þær upplýsingar sem sóknaraðili leitar eftir. Þess heldur verður athafnaskylda ekki lögð á varnaraðila með beinni aðfarargerð til að afrita gögn sín og afhenda sóknaraðila eins og hann leggur til grundvallar í aðalkröfu sinni. Þegar af þessum ástæðum verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar og hefur þá hvorki verið tekin afstaða til þess hvort ákvæði upplýsingalaga eða önnur lagaskilyrði standa því í vegi að réttindum hans verði fylgt eftir með beinni aðfarargerð.

23. Rétt er að aðilar beri sjálfir kostnað sinn af rekstri málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.