Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2021

Ásar frístundabyggð (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Einum á móti X ehf. (Þorsteinn Einarsson lögmaður) og Einn á móti X ehf. og Gunnar Briem (Þorsteinn Einarsson lögmaður) gegn Ásum frístundabyggð

Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Samning dóms
  • Frávísun gagnsakar
  • Ómerking dóms Landsréttar
  • Heimvísun

Reifun

Í málinu deildu aðilar um skylduaðild E ehf. og G að Á samkvæmt 17. gr. laga nr. 75/2008 og jafnframt skyldu þeirra til að greiða árgjald til þess fyrir árin 2016 til 2018. Í dómi Hæstaréttar var rakið að áfrýjun Á beindist að E ehf. sem neytti heimildar 3. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 til að gagnáfrýja dóminum. Málskot félagsins til Hæstaréttar varðaði á hinn bóginn ekki G og veitti honum því ekki sjálfstæðan rétt til gagnáfrýjunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti að því er G varðaði. Þá var rakið í dómi Hæstaréttar að niðurstöðu héraðsdóms hefði verið breytt með hinum áfrýjaða dómi að því leyti að E ehf. var aðeins gert að greiða Á árgjald vegna ársins 2016 svo og 800.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. Í dóminum hefði hins vegar engin afstaða tekin til þess hvernig fara skyldi með málskostnað milli þessara aðila í héraði. Það færi í bága við fyrirmæli h-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um atriði sem tilgreina bæri í dómi. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þetta væri slíkur annmarki á hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa málinu til Landsréttar til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2021 og beinist áfrýjun hans að gagnáfrýjandanum Einum á móti X ehf. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjanda Einum á móti X ehf. verði gert að greiða sér 45.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 30.000 krónum frá 21. desember 2017 til 22. nóvember 2018 og af 45.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda Eins á móti X ehf. á öllum dómstigum. Hann gerir ekki kröfu um málskostnað úr hendi Gunnars Briem.

3. Gagnáfrýjendur skutu málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 16. febrúar 2022. Gagnáfrýjandi Einn á móti X ehf. krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hendi hans á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi Gunnar Briem krefst þess að hinn áfrýjaði dómur um sýknu hans verði staðfestur og aðaláfrýjanda gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.

Ágreiningsefni

4. Aðaláfrýjandi er félag eigenda frístundalóða í Ásum frístundabyggð, í landi jarðarinnar Fells í Bláskógabyggð, og starfar samkvæmt lögum nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Gagnáfrýjendur eru annars vegar félag sem er eigandi lóðar innan frístundabyggðarinnar og hins vegar leigutaki lóðarinnar og umráðamaður hennar í skilningi laganna en hann er einnig stjórnarformaður félagsins. Ágreiningur málsins lýtur að skylduaðild gagnáfrýjenda að umræddu félagi samkvæmt 17. gr. laga nr. 75/2008 og jafnframt skyldu þeirra til að greiða árgjald til þess fyrir árin 2016 til 2018.

5. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi til heimtu árgjaldanna. Héraðsdómur féllst á kröfu hans gagnvart gagnáfrýjandanum Einum á móti X ehf. en sýknaði gagnáfrýjandann Gunnar Briem. Jafnframt var Einum á móti X ehf. gert að greiða aðaláfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað.

6. Samkvæmt hinum áfrýjaða dómi var Einum á móti X ehf. aðeins gert að greiða árgjald fyrir árið 2016, þar sem félagið hefði ekki verið umráðamaður lóðarinnar árin 2017 og 2018 í skilningi laga nr. 75/2008 heldur leigutaki hennar, Gunnar Briem, en málinu hafði ekki veriðáfrýjað til Landsréttar gagnvart honum. Með dómi Landsréttar var Einum á móti X ehf. gert að greiða aðaláfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti en ekki var tekin afstaða til málskostnaðar í héraði þeirra í milli.

7. Beiðni aðaláfrýjanda um áfrýjunarleyfi var studd þeim rökum að dómur Landsréttar væri haldinn verulegum annmarka þar sem hvorki í forsendum hans né dómsorði væri tekin afstaða til málskostnaðar í héraði. Var leyfi til áfrýjunar veitt 10. desember 2021 á þeim grunni að á dómi Landsréttar kynnu að vera þeir ágallar að rétt væri að samþykkja beiðni um áfrýjun, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

8. Svo sem fyrr greinir beinist áfrýjun aðaláfrýjanda á dómi Landsréttar að gagnáfrýjandanum Einum á móti X ehf. sem neytti heimildar 3. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 til að gagnáfrýja dóminum. Málskot aðaláfrýjanda til Hæstaréttar varðaði á hinn bóginn ekki Gunnar Briem og veitti honum því ekki sjálfstæðan rétt til gagnáfrýjunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis laga nr. 91/1991. Hefði honum borið að leita leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar samkvæmt 1. mgr. 176. gr. hefði hann viljað koma fram breytingum á hinum áfrýjaða dómi gagnvart sér en það gerði hann ekki. Ber því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti að því er gagnáfrýjandann Gunnar Briem varðar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. mars 2009 í máli nr. 263/2008.

9. Eins og fyrr er rakið var niðurstöðu héraðsdóms breytt með hinum áfrýjaða dómi að því leyti að gagnáfrýjanda Einum á móti X ehf. var aðeins gert að greiða aðaláfrýjanda árgjald vegna ársins 2016 svo og 800.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. Í dóminum var hins vegar engin afstaða tekin til þess, hvorki í forsendum né dómsorði, hvernig fara skyldi með málskostnað milli þessara aðila í héraði, svo sem hvort ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skyldi óröskuð, staðfest eða einhver breyting gerð á henni. Fer það í bága við fyrirmæli h-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um atriði sem tilgreina ber í dómi. Er þetta slíkur annmarki á hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu til Landsréttar til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. febrúar 2012 í máli nr. 405/2011 og 2. júní 2016 í máli nr. 479/2015.

10. Rétt er að málskostnaður milli allra aðila fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar áfrýjun gagnáfrýjanda, Gunnars Briem, á hendur aðaláfrýjanda Ásum frístundabyggð. Málskostnaður þeirra í milli fyrir Hæstarétti fellur niður.

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda, Eins á móti X ehf., fyrir Hæstarétti fellur niður.