Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Stefán Geir Þórisson lögmaður)

Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Skattalög
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skriflegur málflutningur
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 hafði X verið sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Með úrskurði Endurupptökudóms 21. janúar 2022 var fallist á beiðni X um endurupptöku málsins. Ákæruvaldið tók undir kröfu X um að vísa málinu frá héraðsdómi þar sem efnismeðferð og sakfelling myndi brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Samkvæmt því og í ljósi málsatvika féllst Hæstiréttur á kröfu ákæruvaldsins um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar.

2. Með úrskurði Endurupptökudóms 21. janúar 2022 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 465/2013 sem dæmt var 15. maí 2014.

3. Ákæruvaldið krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

4. Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar. Til þrautavara krefst hann sýknu.

5. Málið var dómtekið 24. ágúst 2022 að fenginni yfirlýsingu málflytjenda um að ekki væri þörf munnlegs málflutnings í því, sbr. 3. málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

6. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum ákærða vegna tekjuáranna 2003 til og með 2008 hófst 30. júlí 2009 og var honum afhent tilkynning um hana 4. ágúst sama ár. Rannsókninni lauk 5. ágúst 2010 með skýrslu skattrannsóknarstjóra en umfang hennar hafði þá verið afmarkað við skattframtöl og skattskil ákærða vegna tekjuáranna 2006 til og með 2008.

7. Með úrskurði […] 2012 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld ákærða gjaldárin 2007 til 2009 með því að hækka stofn fjármagnstekjuskatts um samtals 204.872.948 krónur. Að viðbættu 25% álagi á vantalinn skattstofn samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt nam stofninn samtals 561.067.991 krónu. Við þetta hækkaði fjármagnstekjuskattur ákærða samtals um 25.249.258 krónur. Ákærði mun hafa innt af hendi greiðslu í samræmi við úrskurðinn og skaut honum ekki til yfirskattanefndar á grundvelli laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd. Úrskurðurinn varð því endanlegur á stjórnsýslustigi að liðnum þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þeirra laga.

8. Skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði málinu til rannsóknar lögreglu 1. mars 2012. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur ákærða 17. desember 2012 þar sem honum voru gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007 til 2009 vegna tekjuáranna 2006 til 2008. Með því hefði ákærði látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur samtals að fjárhæð 204.872.949 krónur sem honum hefði borið að greiða fjármagnstekjuskatt af, samtals 20.487.295 krónur. Brotin voru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

9. Með héraðsdómi 28. júní 2013 var ákærði dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar að fjárhæð 35.850.000 krónur. Hæstiréttur staðfesti sakfellingu ákærða og fjárhæð sektar með fyrrgreindum dómi 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 en þyngdi fangelsisrefsingu hans í átta mánuði skilorðsbundið.

10. Með kæru 11. nóvember 2014 leitaði ákærði til Mannréttindadómstóls Evrópu sem í dómi 16. apríl 2019 í máli nr. 72098/14 komst að þeirri niðurstöðu að fyrrgreind saksókn á hendur ákærða og refsing hefði farið í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Refsað hefði verið fyrir sama brot, skattamálið og refsimálið hefðu haft sama tilgang, afleiðingarnar hefðu verið fyrirsjáanlegar og tekið hefði verið tillit til skattaálaga við ákvörðun refsingar. Hins vegar hefði háttsemi ákærða og ábyrgð hans verið til rannsóknar hjá mismunandi yfirvöldum í málum sem hefðu að mestu leyti verið óháð hvort öðru. Samanlagður tími málsmeðferðar beggja málanna hefði verið um fjögur ár og tíu mánuðir. Á þeim tíma hefðu málin í raun aðeins verið rekin samhliða í rétt rúma fimm mánuði. Þá hefði ákæra verið gefin út sjö mánuðum eftir lokaákvörðun ríkisskattstjóra og um fjórum mánuðum eftir að hún tók gildi að lögum. Því hefðu ekki verið nægjanlega náin tengsl í efni og tíma milli skattamálsins og sakamálsins. Ákærði hefði þannig sætt lögsókn og refsingu fyrir sömu eða efnislega sömu háttsemi af hálfu mismunandi yfirvalda í tveimur mismunandi málum þar sem nauðsynlega tengingu skorti. Með því hefði verið brotið gegn 4. gr. 7. samningsviðaukans. Þá voru ákærða dæmdar 5.000 evrur í miskabætur og 29.800 evrur í málskostnað vegna málsmeðferðar bæði fyrir Mannréttindadómstólnum og dómstólum hér á landi.

11. Með beiðni til Endurupptökudóms 1. desember 2020 fór ákærði fram á endurupptöku á umræddu hæstaréttarmáli nr. 465/2013 á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Fallist var á þá beiðni hans með úrskurði dómsins 21. janúar 2022 í máli nr. 10/2021. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 21. mars 2022 vegna endurupptöku málsins sem birt var ákærða 24. sama mánaðar.

Niðurstaða

12. Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið tekið undir kröfu ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi þar sem efnismeðferð og sakfelling myndi brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Ákæruvaldið vísar meðal annars til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu og dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021. Samkvæmt þessu og í ljósi fyrrgreindra málsatvika verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um að málinu verði vísað frá héraðsdómi, sbr. einnig dóma Hæstaréttar 13. apríl 2022 í máli nr. 34/2021 og 22. júní 2022 í máli nr. 11/2022.

13. Eftir þessum málsúrslitum greiðist sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 465/2013 að öllu leyti úr ríkissjóði.

14. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Garðars Valdimarssonar lögmanns, 2.691.113 krónur.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Geirs Þórissonar lögmanns, 500.000 krónur.