Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2021

A (Helgi Birgisson lögmaður)
gegn
B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Sáttameðferð
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sem A höfðaði meðal annars til úrlausnar ágreinings um forsjá dóttur málsaðila var vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur vísaði til þess að það væri ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál væri höfðað um forsjá barns, sbr. 1. mgr. 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Í 5. mgr. ákvæðisins væri kveðið á um að gefa skyldi út vottorð um sáttameðferð ef foreldrum tækist ekki að gera samning eða ef þeir mættu ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis. Aðilar málsins hefðu á hinn bóginn einungis verið boðaðir einu sinni til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Þá hefði ekkert legið fyrir um afstöðu B til ágreiningsefna málsins og mögulegra sátta í því áður en sáttameðferð var lokið án þess að boðað hefði verið aftur til sáttafundar. Samkvæmt þessu hefði ekki farið fram fullnægjandi sáttameðferð í málinu. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest og málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 8. september 2021 þar sem máli sem sóknaraðili höfðaði meðal annars til úrlausnar ágreinings um forsjá dóttur málsaðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar en krefst ekki kærumálskostnaðar.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Ágreiningsefni

5. Málið á rætur að rekja til þess að milli aðila er rekið forsjármál sem sóknaraðili höfðaði 23. febrúar 2021. Með úrskurði héraðsdóms 8. júlí 2021 var meðal annars leyst úr ágreiningi aðila um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða og kveðið á um hvar lögheimili hennar skyldi vera. Úrskurðinum var skotið til Landsréttar 15. sama mánaðar sem vísaði málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að við sáttameðferð hjá sýslumanni hefði ekki verið farið að fyrirmælum 5. mgr. 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003, þar sem aðilar hefðu einungis einu sinni verið boðaðir til sáttameðferðar. Varnaraðili sinnti ekki þeirri boðun en engu að síður var gefið út vottorð um sáttameðferð 31. ágúst 2020 þar sem fram kom að virk sáttameðferð hefði ekki farið fram.

6. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að þrátt fyrir að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 5. mgr. 33. gr. a barnalaga um að boða skuli tvívegis til sáttafundar sé of langt gengið að vísa málinu frá héraðsdómi af þeim sökum. Fyrir liggi að tilraunir til boðunar á sáttafund hjá sýslumanni myndu engum árangri hafa skilað þar sem varnaraðili hefði ekki haft í hyggju að sinna sáttameðferð. Sóknaraðili hefði af þeim sökum óskað eftir því að sáttavottorð yrði gefið út svo að ekki yrðu frekari tafir á málinu. Þá hefði hvorugur málsaðila gert kröfu um frávísun málsins vegna galla á sáttameðferð, hvorki í héraði né fyrir Landsrétti, þar sem þeir hefðu verið sammála því að sáttaumleitanir gætu engum árangri skilað. Hagsmunum barnsins sé varpað fyrir róða ef málsmeðferð tefjist enn frekar í máli þessu sem sæta eigi flýtimeðferð. Þá telur sóknaraðili úrskurð Landsréttar í ósamræmi við fyrri niðurstöðu í dómi hans 18. apríl 2018 í máli nr. 309/2018.

7. Varnaraðili bendir á að hún hafi boðað lögmæt forföll þegar boðað var til sáttameðferðar 31. ágúst 2020 og óskað eftir nýjum tíma, en því ekki verið sinnt. Í málinu liggi ekki fyrir fullnægjandi sáttavottorð sem sé óhjákvæmilegt skilyrði þess að unnt sé að höfða forsjármál, sbr. 33. gr. a barnalaga. Sáttavottorðið sem sáttamaður hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út 31. ágúst 2020 beri með sér að sáttamiðlun hafi farið fram án þátttöku varnaraðila. Sátta beri að leita með tilteknum lögbundnum hætti og ekki megi gefa út sáttavottorð fyrr en að því loknu, enda sé einn megintilgangur 33. gr. a barnalaga að vernda hagsmuni þeirra barna sem búi við ágreining foreldra. Það hafi því verið mat löggjafans að það sé andstætt hagsmunum barna að foreldrar þeirra leiti ekki sátta með virkum hætti áður en höfðað er dómsmál vegna forsjár þeirra.

Niðurstaða

8. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a barnalaga, sem lögfest var með 12. gr. laga nr. 61/2012, er það ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál er höfðað um forsjá barns. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er markmið sáttameðferðar að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Skulu foreldrar mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til auk þess sem gefa skal barni sem náð hefur nægilegum þroska kost á að tjá sig. Í 5. mgr. er kveðið á um að gefa skuli út vottorð um sáttameðferð ef foreldrum tekst ekki að gera samning eða ef þeir mæta ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis. Þá segir í 6. mgr. að í vottorði um sáttameðferð skuli gera grein fyrir því hvernig meðferðin fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns, nema það sé talið ganga gegn hagsmunum þess. Í skýringum með 12. gr. frumvarps til laga nr. 61/2012 segir að nýmæli laganna um skyldu til sáttameðferðar mæli ekki fyrir um eina tiltekna tegund eða aðferð sem beri að nota við alla sáttaumleitan. Jafnframt segir þar að nauðsynlegt sé að foreldrar taki sjálfir fullan þátt í öllu ferlinu svo að þeir átti sig á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar, taki þátt í og axli ábyrgð á þeirri sátt sem er gerð. Enn fremur segir í almennum athugasemdum að gert sé ráð fyrir að sáttamaður meti hvenær hann telur ekki unnt að ná sáttum og geti til dæmis gefið út sáttavottorð ef foreldrar mæti ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvisvar.

9. Eins og rakið hefur verið voru aðilar málsins einungis boðaðir einu sinni til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Varnaraðili sótti ekki þann sáttafund og hefur borið því við að hún hafi haft lögmæt forföll. Í vottorði sáttamanns er einungis vísað til þess að faðir hafi talið að móðir ætli ekki að mæta hjá sýslumanni. Ekkert lá því fyrir um afstöðu varnaraðila til ágreiningsefna málsins og hugsanlegra sátta í því áður en sáttameðferð lauk án þess að boðað væri aftur til sáttafundar. Samkvæmt þessu fór ekki fram fullnægjandi sáttameðferð í málinu.

10. Við úrlausn máls þessa er þess að gæta að þótt málið hafi með kæru borist Landsrétti eingöngu til úrlausnar um bráðabirgðaforsjá leiðir það af fortakslausum fyrirmælum barnalaga um sáttameðferð að hafi þeirra ekki verið gætt með fullnægjandi hætti veldur það frávísun forsjármáls frá héraðsdómi í heild án kröfu.

11. Atvik málanna sem sóknaraðili hefur vísað til og til úrlausnar voru í dómum Landsréttar 18. apríl 2018 í máli nr. 309/2018 og síðar 1. febrúar 2019 í máli nr. 554/2018 eru að því leyti ósambærileg atvikum máls þessa að í þeim málum hafði sáttameðferð hafist og sáttamaður aflað afstöðu aðila til sátta, en metið það svo eftir að sú afstaða lá fyrir að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi sáttameðferð.

12. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

13. Kærumálskostnaður verður felldur niður en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.