Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2021

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Hafþóri Loga Hlynssyni (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Peningaþvætti
  • Upptaka
  • Ákæra
  • Stjórnarskrá
  • Sératkvæði

Reifun

H var ákærður fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með refsiverðum brotum. Í niðurstöðu um formhlið málsins taldi Hæstiréttur að ekki væru efni til að vísa málinu frá héraðsdómi eða ómerkja hinn áfrýjaða dóm vegna ágalla á ákæru eða samningu dómsins. Um efnishlið málsins sagði að sönnunarbyrði hvíldi á ákæruvaldinu um það að ávinningur sem ákæra málsins lyti að stafaði af refsiverðum brotum en í því efni nægði að sanna að útilokað væri að ávinningurinn væri til kominn á lögmætan hátt. Vísað var til niðurstöðu Landsréttar um að skýringar ákærða á tilvist þeirra verðmæta sem fundust við húsleit væru ekki trúverðugar og að það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 255. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði hefði hlotið ellefu dóma á árunum 2003 til janúar 2018, meðal annars fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot fram til ársins 2014 en þau brot væru öll til þess fallin að hafa auðgun í för með sér. Þá taldi rétturinn öll skjalleg sönnunargögn málsins hníga að þeirri niðurstöðu að útilokað væri að ávinningurinn væri af lögmætum toga. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu, upptöku eigna og refsingu H var því staðfest.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2021 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og upptöku verði staðfest en að refsing ákærða verði þyngd.

3. Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og að upptökukröfur ákæruvaldsins sæti lækkun.

Ágreiningsefni

4. Með ákæru héraðssaksóknara 17. maí 2018 var ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Þá var annar nafngreindur maður jafnframt ákærður fyrir peningaþvætti á hluta framangreinds ávinnings. Í verknaðarlýsingu ákærunnar segir að við húsleit lögreglu á dvalarstað ákærða hafi fundist 2.530.000 krónur af umræddu fé. Þar af hafi 465.000 krónur verið í rassvasa ákærða, 1.365.000 krónur undir rúmdýnu í herbergi hans og 700.000 krónur í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu. Hluta umrædds ávinnings hafi ákærði nýtt til kaupa á bifreið, af gerðinni Tesla, í Litháen 13. apríl 2017 og greitt fyrir hana 46.000 evrur sem jafngildir 5.591.760 krónum. Hluti þess fjár sem nýttur hafi verið til kaupa á bifreiðinni hefði verið fenginn með greiðslu frá tryggingafélagi vegna tjóns á annarri bifreið, af gerðinni Audi, sem meðákærði hefði keypt fyrir ákærða í júlí 2016, en fyrir hana hefði ákærði einnig greitt með ávinningi af refsiverðum brotum. Þetta var talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var þess jafnframt krafist með vísan til 69. og 69. gr. b sömu laga að ákærða yrði gert að sæta upptöku á framangreindum ávinningi brotanna.

5. Ákærði var sakfelldur fyrir brot í samræmi við ákæru með héraðsdómi 23. nóvember 2018 og refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Honum var jafnframt gert að sæta upptöku á 2.530.000 krónum og framangreindri bifreið með vísan til 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga. Meðákærði var einnig sakfelldur fyrir peningaþvætti og undi hann dóminum. Með dómi Landsréttar 29. janúar 2020 var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og upptöku staðfest en refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði en ákærða var dæmdur hegningarauki vegna annarra eldri dóma auk þess sem dómur sem kvað á um sex mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða var tekinn upp.

6. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. júní 2021 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu 69. gr. b og 264. gr. almennra hegningarlaga myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

7. Ákærði var handtekinn 15. maí 2017 vegna gruns um aðild að stórfelldu broti gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Sama dag gerði lögregla húsleit á dvalarstað hans í Kópavogi. Við leitina fundust meðal annars, svo sem fyrr greinir, 2.530.000 krónur í reiðufé sem lögregla lagði hald á. Við leitina fundust einnig kvittanir og kaupsamningur vegna kaupa á Tesla-bifreið 13. apríl 2017 þar sem fram kemur að fyrirtækið C sé seljandi bifreiðarinnar og að ákærði og félagið B ehf. séu kaupendur hennar. Kaupverðið er þar tilgreint 46.000 evrur eða 5.591.760 krónur.

8. Í kjölfar handtöku og húsleitar yfirheyrði lögregla ákærða og var sakarefnið kynnt sem fíkniefnalagabrot. Við það tilefni neitaði hann að tjá sig um reiðufé sem fannst í eldhúsinnréttingu en kvaðst hins vegar eiga reiðufé sem fannst undir rúmdýnu hans. Hann hefði tekið það út úr banka sex vikum áður vegna þess að hann skuldaði bankanum peninga og vildi því ekki hætta á að geyma þá þar. Spurður um uppruna fjárins kvaðst hann hafa fengið það lánað. Ákærði kannaðist við að hafa flutt inn bifreið þá sem í ákæru getur og kvaðst hafa greitt 46.000 evrur fyrir hana. Hluta kaupverðsins hefði hann fengið að láni en fjármagnað kaupin að hluta til með tryggingabótum vegna annarrar bifreiðar í hans eigu sem hefði skemmst. Ákærði tók fram að vinur hans hefði átt peningana sem fundust í vasa hans.

9. Lögregla yfirheyrði ákærða aftur 30. maí 2017 og var honum kynnt að tilefni yfirheyrslunnar væri meint brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti. Ákærði kvaðst engar eignir eiga og vera gjaldþrota. Hann „stundaði bílabrask“ en gæfi ekki upp tekjur af því. Spurður um færslur á debetkortareikningi sínum, meðal annars um útgreiðslur af honum til ýmissa aðila, bar ákærði að hann hefði í einhverjum tilvikum lánað fólki peninga. Ákærði kannaðist við að hafa keypt bifreið af gerðinni Tesla í Litháen fyrir þá fjárhæð sem í ákæru greinir og greitt fyrir hana í reiðufé. Bifreiðina hefði hann ætlað að kaupa í gegnum einkahlutafélagið B þar sem „hann mætti ekki eiga neitt“. Hann hefði fjármagnað kaupin með andvirði bifreiðar af gerðinni Audi Q7 sem hefði skemmst en bætur frá tryggingafélaginu hefðu numið 2.200.000 krónum. Síðastnefnd bifreið hefði raunverulega verið í hans eigu en skráð á meðákærða og hefði sá síðarnefndi staðfest það fyrir dómi. Ákærði hefði síðan brúað bilið, 3.200.000 krónur, með láni í reiðufé frá manni sem hann vildi ekki nafngreina. Þá neitaði hann að tjá sig um hvernig umræddar bifreiðar væru skráðar.

10. Meðákærði í héraði var yfirheyrður 15. maí 2017. Kvaðst hann eiga reiðuféð sem fannst undir rúmdýnu ákærða og ekki hafa vitað um peningana sem fundust í eldhúsinnréttingu. Hann var yfirheyrður á ný 23. júní sama ár og kvaðst þá hafa verið skráður eigandi Audi-bifreiðar þeirrar sem ákærði hefði átt og fengið bætta af tryggingafélagi eftir að hún skemmdist. Það fé hefði ákærði fengið en meðákærði keypt evrur fyrir ákærða og nýtt til þess framangreindar bætur og peninga sem meðákærði hefði látið sig fá.

11. Við aðalmeðferð málsins í héraði neitaði ákærði sök. Hann kvaðst engar athugasemdir hafa við lýsingu í ákæru á því að umræddir peningar hefðu fundist við húsleit, hvorki er varðaði fjárhæð né þá staði sem þar voru tilgreindir. Hann kvaðst eiga umrætt reiðufé. Það sem fannst undir rúmdýnu hefði upprunalega verið frá nafngreindri vinkonu hans sem hefði lánað honum fjárhæðina en að öðru leyti bar hann fyrir sig minnisleysi um nánari atvik. Þá hefði maður að nafni D beðið hann um að millifæra „fyrir fasteign“ og látið hann hafa reiðufé í staðinn um það bil tveimur vikum fyrir húsleitina. Ákærði kvaðst hafa vitað af leynihólfi í eldhúsinnréttingu og að peningar í því hefðu verið frá D. Fjárhæðin sem fannst í vasa hans hefði verið fyrir leigu. Hann hefði ekki viljað nefna D áður við skýrslutökur þar sem hann hefði verið handtekinn fyrir fíkniefnainnflutning. Spurður um millifærslur inn á reikning sinn frá aðilum með nokkurn afbrotaferil, kvað hann þá vera vini sína og að þeir væru með sama brotaferil og hann sjálfur. Þá kannaðist hann við að hafa keypt bifreið af gerðinni Tesla með þeim hætti sem í ákæru greinir. Spurður hvers vegna bifreiðin hefði verið keypt fyrir reiðufé bar ákærði að það hefðu verið páskar, bankinn lokaður og að seljandi hefði ekki getað haldið bifreiðinni fyrir hann lengur. Hann hefði ætlað að kaupa bifreiðina í gegnum einkahlutafélagið B og fengið umboð til þess þótt fjármögnunin hefði öll verið „fyrir utan fjárhag félagsins“. Spurður hvers vegna skuldabréf vegna kaupa á Teslunni hefði verið dagsett tveimur dögum eftir árekstur á Audi-bifreiðinni, kvað ákærði að hann hefði verið búinn að ákveða að kaupa Tesluna til að selja hana hvernig sem þau kaup yrðu fjármögnuð.

12. Meðákærði kom einnig fyrir héraðsdóm og bar á sama veg og fyrir lögreglu hvað varðaði þau atriði ákærunnar sem lutu að ákærða. Fyrir héraðsdóm kom meðal annarra eiginkona fyrrverandi eiganda einkahlutafélagsins B og kvað starfsemi þess lúta að […] sonar síns sem er stjúpfaðir ákærða. Ákærði hefði enga aðkomu haft að félaginu og hún ekki vitað um innflutning bifreiðar á nafni félagsins. Vitnið E kvaðst hafa lánað fjármuni á grundvelli skuldabréfsins í þeim tilgangi að aðstoða ákærða við að fjármagna kaup á bifreið sem skyldi flytja inn til landsins.

13. Samkvæmt skattframtölum ákærða voru tekjur hans á árinu 2015 samtals 1.187.045 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ákærði og sambýliskona hans voru samsköttuð og hafði hún samkvæmt skattframtalinu 1.062.500 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 695.837 krónum í lok framangreinds tekjuárs. Engar aðrar eignir voru taldar fram á skattframtalinu og námu skuldir þeirra samtals 3.200.897 krónum í árslok. Tekjur ákærða á árinu 2016 voru 2.608.307 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Sambýliskona ákærða hafði samkvæmt skattframtali 1.150.000 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 1.346.951 krónu í lok framangreinds tekjuárs. Engar aðrar eignir voru taldar fram og námu skuldir samtals 2.971.525 krónum í árslok.

14. Í gögnum málsins er greinargerð lögreglu um fjármál ákærða tímabilið 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 sem byggist á rekjanlegum útgjöldum hans á tímabilinu. Þar kemur fram að afkoma hans hafi verið neikvæð um 7.581.758 krónur á tímabilinu.

15. Meðal gagna málsins er skuldabréf útgefið af ákærða fyrir hönd einkahlutafélagsins B þar sem það viðurkennir að skulda tilgreindum manni 3.000.000 krónur. Ákærði er skráður sjálfskuldarábyrgðaraðili.

16. Með dómi héraðsdóms 23. nóvember 2018 var ákærði sakfelldur fyrir peningaþvætti í samræmi við ákæru. Í forsendum dómsins var vísað til fjárhags ákærða og brotaferils hans til stuðnings sakfellingu hans. Fram kom að hann væri öryrki og hefði ekki haft aðrar tekjur en bætur frá Tryggingastofnun. Þá ætti hann engar eignir samkvæmt skattframtölum. Gerð var grein fyrir skýringum ákærða á peningunum sem fundust við húsleit. Hann hefði ýmist ekki getað skýrt hvaðan þeir væru komnir eða nafngreint aðila sem hann kvað tengjast peningunum. Ákærði hefði þó borið að hafa stundað bílabrask en þau viðskipti væru ekki opinberlega skráð. Þá var framburður vitnis sem bar um að hafa lánað ákærða fé samkvæmt skuldabréfi metinn ótrúverðugur. Með vísan til þessa var talið að næg sönnun væri komin fram um að ákærði hefði aflað sér peninga og bifreiða með peningaþvætti eins og í ákæru greindi.

17. Í hinum áfrýjaða dómi kom fram að ákærði hefði játað fyrir héraðsdómi að hafa átt þá peninga sem haldlagðir voru á heimili hans og að hafa keypt umrædda bifreið. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga var rakið og vísað til þess að þrátt fyrir breytingar sem gerðar hefðu verið á því með lögum nr. 149/2009 röskuðu þær í engu þeirri skýringu sem fram kæmi í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001, sbr. einnig dóm réttarins 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010. Ákvæðið væri því skýrt svo að þótt áskilið væri að um ávinning væri að ræða af broti yrði með tilliti til eðlis og tilgangs ákvæðisins ekki gerð sú krafa að nákvæmlega lægi fyrir hvert brotið væri heldur yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga. Um fjármál ákærða 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 var vísað til greinargerðar lögreglu. Taldi rétturinn að ákærði hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í útstreymi fjár af reikningum sínum og skráðum tekjum á sama tímabili. Þá hefði ákærði verið sakfelldur í tveimur sakamálum á árunum 2017 og 2018 sem meðal annars hefðu varðað fíkniefnalagabrot og innflutning fíkniefna til söludreifingar. Þannig hefðu brot hans verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning. Með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum væri að öðru leyti háttað taldi rétturinn að ákæruvaldinu yrði ekki gert að tilgreina frumbrot ákærða frekar en gert hefði verið í ákæru enda ekki ákært fyrir það eða þau brot. Að framangreindu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms taldi Landsréttur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði á umræddum tíma aflað sér ávinnings allt að umræddri fjárhæð með refsiverðum brotum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans var hegningarauki við þrjá eldri dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga og var einn þeirra skilorðsdómur sem tekinn var upp og dæmdur með í málinu, sbr. 60. gr. laganna.

Málatilbúnaður aðila

Röksemdir ákæruvalds

18. Ákæruvaldið byggir kröfu sína um sakfellingu ákærða á því að gögn málsins sýni að hann hafi ekki haft tekjur sem útskýri útgjöld hans. Skýringar hans bæti þar engu við og hafi verið „með ólíkindablæ“. Þá hafi umræddar bifreiðar verið fjármagnaðar með afrakstri af brotastarfsemi enda sjáist þess hvorki merki að ákærði eða meðákærði hafi greitt af reikningum sínum við kaup þeirra né að ákærði hafi verið borgunarmaður fyrir kaupverði. Loks komi sönnunarmat á munnlegum framburði ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

19. Til stuðnings upptökukröfu í ákæru byggir ákæruvaldið á því að skilyrði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga séu uppfyllt um að ákærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti að minnsta kosti sex ára fangelsi og sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Vísað er til þess að krafa um upptöku byggist ekki eingöngu á því að peningaþvættisbrotið uppfylli skilyrði fyrrnefnds ákvæðis og vísar ákæruvaldið til fyrri refsidóma sem ákærði hefur hlotið, meðal annars vegna fíkniefnalagabrota. Ekki sé áskilið að krafa um upptöku sé höfð uppi í því máli þar sem dæmt er um refsiverða háttsemi ákærða. Við mat á skilyrðum 4. mgr. ákvæðisins verði að hafa í huga að greiðslur frá Tryggingastofnun hafi engan veginn getað dugað til framfærslu ákærða og löglíkur séu fyrir því að hann hafi að miklu leyti séð sér farborða með ávinningi af brotastarfsemi.

Röksemdir ákærða

20. Kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms byggir ákærði í fyrsta lagi á því að framsetning sakargifta samkvæmt ákæru sé svo óljós að fari í bága við c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Tilgreiningu á tímasetningu hins ætlaða brots í ákæru sé verulega ábótavant. Ætluð refsiverð brot ákærða sem hinn meinti ávinningur sjálfsþvættis eigi að stafa frá séu ekki tilgreind, hvorki brotategund né heiti ætlaðs frumbrots. Í öðru lagi skorti alfarið rökstuðning í hinum áfrýjaða dómi fyrir niðurstöðu hans um upptöku í andstöðu við f- og g-liði 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi hafi ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Enga tilvísun sé að finna til 2. mgr. ákvæðisins í hinum áfrýjaða dómi enda þótt meintri refsiverðri háttsemi sé lýst sem sjálfsþvætti í verknaðarlýsingu. Gæti þannig ekki samræmis á milli lýsingar á meintri háttsemi í ákæru og þess hegningarlagaákvæðis sem ákærði sé sakfelldur fyrir.

21. Sýknukrafa ákærða er byggð á því að ákæruvaldið hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði telur að túlkun hins áfrýjaða dóms á dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 sé röng. Dómafordæmi Hæstaréttar feli ekki í sér að ekkert þurfi að liggja fyrir um hvert frumbrot er. Þá sé röksemdafærsla hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað sé til brotaferils ákærða til stuðnings niðurstöðunni, í andstöðu við þá meginreglu við sönnunarmat að meta skuli sjálfstætt hvort sönnun hefur tekist um hvert einstakt brot. Þá mótmælir ákærði niðurstöðum fjármálagreiningar lögreglu einkum varðandi útreikninga á lífeyri hans og um mánaðarleg útgjöld ákærða.

22. Ákærði byggir á því að skilyrði 69. gr. b almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt. Þá vísar hann til þess að skilyrðum ákvæðisins verði ekki talið fullnægt með því einu að brot gegn 1. mgr. 264. gr. sömu laga geti varðað 6 ára fangelsi enda sé honum gefið að sök svonefnt sjálfsþvætti. Eðli máls samkvæmt geti menn ekki aflað sér fjárhagslegs ávinnings af því. Þá hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til varna ákærða um að hann hafi sýnt fram á að verðmætanna hafi verið aflað á lögmætan hátt.

Niðurstaða

Niðurstaða um formhlið málsins

23. Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Sú krafa er annars vegar byggð á því að tilteknir ágallar hafi verið á ákæru í málinu en hins vegar á því að samning dóms hafi að tvennu leyti ekki uppfyllt áskilnað laga nr. 88/2008.

24. Í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Teljist ákæra ekki uppfylla lágmarkskröfur 1. mgr. 152. gr. laganna, þar með talið þær kröfur um skýrleika sem fram koma í c-lið málsgreinarinnar, leiði það til frávísunar málsins frá héraðsdómi með eða án kröfu ákærða en ekki til ómerkingar hins áfrýjaða dóms líkt og ákærði gerir kröfu um. Þrátt fyrir það er rétt að taka til skoðunar hvort ákæra í máli þessu telst nægilega skýr til þess að dómur verði lagður á málið. Við þá skoðun verður að hafa í huga að í d-lið 1. mgr. 152. gr., sem var nýmæli í lögum nr. 88/2008, er mælt fyrir um að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má þær röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið. Röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Í athugasemdum um d-lið með frumvarpi til laganna var ákvæðið skýrt á þann veg að stundum væri ekki nægilegt að greina í ákæru þau atriði sem talin væru upp í c-lið til þess að ákærða mætti vera ljóst hverjar þær sakir væru sem á hann væru bornar. Því til viðbótar gæti þurft að gera frekari grein fyrir þeim, til dæmis með því að skýra það ákvæði sem háttsemi ákærða væri heimfærð til og sýna fram á, með vísun til málsatvika, hvers vegna háttsemin væri talin falla undir það ákvæði.

25. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 88/2008 hefur kröfunni um skýrleika ákæru verið beitt með þeim hætti að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni og þeim röksemdum sem færðar kunna að vera fyrir sakargiftum á hendur honum hvaða refsiverðu háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa brotið. Ekki megi vera slík tvímæli um það hverjar sakargiftirnar eru að með réttu verði ákærða ekki talið fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum gegn þeim, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákæra verður og að vera svo skýr að þessu leyti að dómara sé fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði er sakaður og hvernig telja má þá háttsemi refsiverða. Í þessum efnum verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og dóm Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012.

26. Þess er jafnframt að gæta að lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða þarf að samsvara verknaðarlýsingu í því refsiákvæði eða þeim refsiákvæðum sem honum er gefið að sök að hafa brotið gegn. Það getur þannig ráðist af brotategund og eðli brots hversu miklar kröfur verða gerðar til nákvæmni um lýsingu á einstökum þáttum verknaðar, svo sem hvaða háttsemi ákæran lýtur að og á hvaða tíma eða tímabili brot hafi verið framið.

27. Háttsemi sú sem ákærða er gefin að sök er heimfærð undir 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Þar er tilgreint að refsivert sé að nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Um skýrleika ákæru sem lýtur að peningaþvætti verði að líta til eðlis slíkra brota og framangreindrar verknaðarlýsingar. Þá er tekið fram í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/1997 og bættu ákvæði um peningaþvætti í almenn hegningarlög að líta beri á peningaþvætti sem sjálfstætt brot sem refsað verði fyrir þótt ekki sé samhliða ákært fyrir tiltekið frumbrot. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það nú til ávinnings af öllum refsiverðum brotum.

28. Við mat á því hvort ákæra í máli þessu telst nægilega skýr ber einnig að líta til athugasemda við peningaþvættisákvæðið í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 149/2009. Þar er tekið fram að meginmarkmiðið með því að gera háttsemina refsiverða sé að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kann að leiða og um það vísað til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001. Samkvæmt því er rétt að líta svo á að það markmið að sporna við viðtöku, nýtingu og öflun ávinnings af refsiverðum brotum sé þungamiðja ákvæðisins. Lýsing peningaþvættisbrots í ákæru hlýtur að taka mið af því.

29. Í fyrrnefndum athugasemdum er jafnframt vísað til eftirfarandi forsendna fyrrgreinds dóms Hæstaréttar:

Í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaganna er áskilið að um ávinning sé að ræða af broti samkvæmt þeim lögum. Þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðisins þykir hins vegar ekki verða gerð sú krafa, að fyrir liggi, hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni, hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur sé ekki af lögmætum toga, heldur stafi hann frá broti á lögunum.

30. Samkvæmt framansögðu þarf að koma fram í ákæru vegna peningaþvættis að ávinningur sem ákært er vegna stafi af refsiverðu broti en ekki nákvæm tilgreining á því hvert frumbrotið var og heldur ekki hvaða tegund brots eða brota var um að ræða. Hins vegar þarf í ákæru að greina frá og afmarka að hvaða verðmætum ávinningurinn lýtur. Undir rekstri málsins þarf ákæruvaldið að sanna að ávinningurinn stafi af refsiverðu broti og nægir þar að sýna fram á með óyggjandi hætti að útilokað sé að ávinningurinn sé kominn til með lögmætum hætti.

31. Í ákæru í máli þessu er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017, aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Í framhaldinu er hinum ætlaða ávinningi lýst, hvar sá hluti hans sem fólst í reiðufé fannst og hvernig hluti hans var nýttur til kaupa á bifreið. Í röksemdum í ákæru var lýst ellefu dómum sem ákærði hlaut frá desember 2003 til janúar 2018, meðal annars vegna þjófnaðar, fjársvika og fíkniefnalagabrota fram til ársins 2014.

32. Peningaþvættisbroti ákærða er aðeins markaður tími með þeim hætti að það hafi staðið yfir um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 en upphafstími þess ekki nánar tilgreindur. Þótt slík tilgreining á brotatímabili í ákæru sé ekki nákvæm er til þess að líta að í dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á sambærilega afmörkun verknaðartíma í ákærum vegna peningaþvættis hefur skýrleika ákæru ekki verið talið ábótavant, sbr. meðal annars fyrrnefndan dóm réttarins í máli nr. 495/2010, dóma réttarins 27. september 2012 í máli nr. 122/2012, 6. febrúar 2013 í máli nr. 457/2013 og 5. febrúar 2015 í máli nr. 52/2014.

33. Samkvæmt öllu framangreindu voru ekki þeir ágallar á ákæru í málinu að ákærði gæti ekki af henni ráðið hvaða refsiverðu háttsemi hann var sakaður um. Ákærða var þannig fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Þá var dómurum fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði var sakaður og hvernig telja mátti þá háttsemi refsiverða. Með ákærunni var þannig lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu þannig að fella mætti dóm á það. Ekki er því tilefni til að vísa málinu frá dómi á þeim grunni að ákæra hafi ekki uppfyllt kröfur c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

34. Ákærði byggir kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar meðal annars á því að hann hafi þar verið sakfelldur á grundvelli ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en enga tilvísun hafi verið að finna í dóminum til 2. mgr. sömu greinar enda þótt í verknaðarlýsingu sé hinni meintu refsiverðu háttsemi lýst sem sjálfsþvætti. Gæti þannig ekki samræmis á milli lýsingar á hinni ætluðu háttsemi í ákæru og þess refsiákvæðis sem ákærði hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn í dómi Landsréttar.

35. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er ætlað að taka til peningaþvættis þegar fyrir liggur að um er að ræða ávinning af eigin brotastarfsemi en slíkt brot hefur verið nefnt sjálfsþvætti. Í ákæru er hvergi vikið að sjálfsþvætti og um háttsemi ákærða er ekki vísað til 2. mgr. 264. gr. Þar er ekki tekin afstaða til þess hvort ákærði hafi aflað sér ávinnings með brotum annarra eða eigin brotum. Í ákærunni er eingöngu vísað til þess að ákærði hafi hlotið dóma meðal annars fyrir fíkniefnalagabrot og fyrir innflutning og söludreifingu og í því sambandi nefndir tveir dómar frá árinu 2017 og 2018. Í þessum dómum var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot í félagi við aðra.

36. Landsrétti var því rétt að meta heimfærslu brotsins til refsiákvæðis í ákæru í ljósi eðlis þeirrar refsiverðu háttsemi sem ákærði hefur sannarlega áður verið dæmdur fyrir, meðal annars í félagi við aðra og þeirra takmörkuðu krafna sem gerðar verða til tilgreiningar á og sönnunar um af hvaða refsiverðu brotum ávinningur stafar samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Það var því ekki í andstöðu við f- og g-liði 2. mgr. 183. gr. sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008 að ekki var í hinum áfrýjaða dómi tekin afstaða til refsinæmi háttsemi ákærða með hliðsjón af 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga enda háttsemin ekki heimfærð undir það ákvæði í ákæru.

37. Ákærði telur jafnframt að röksemdir fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um hvernig skilyrði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga væru uppfyllt hafi ekki samræmst áskilnaði f- og g-liða 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008.

38. Í dómi Landsréttar var um sönnun fyrir peningaþvætti meðal annars vísað til greinargerðar lögreglu um fjármál ákærða á tímabilinu 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 þar sem gerð er grein fyrir mismun á tekjum hans og útstreymi fjár af bankareikningi hans. Talið var að hann hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á þessum mismun. Þá var vísað til brota sem hann var dæmdur fyrir fram til ársins 2018 og af þeim dregin sú ályktun að hann hefði verið „viðriðinn ólögleg ávana- og fíkniefni“ nokkru áður en atburðir þeir gerðust er málið varðaði og að brot hans hefðu verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Að öðru leyti var vísað til forsendna héraðsdóms og talið að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum.

39. Um upptökukröfu sagði það eitt í dómi Landsréttar að ákvæði héraðsdóms þar um væri staðfest. Til þess verður þó að líta að í umfjöllun í dómi Landsréttar um sönnun fyrir peningaþvættisbroti ákærða var sem fyrr segir vísað til þeirra dóma sem hann hlaut fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot og komist að þeirri niðurstöðu að brot hans hefðu verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga eru sett þau skilyrði fyrir upptöku verðmæta sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot að það sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og að það brot geti varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi. Öll þau brot sem vísað er til í dómi Landsréttar varða að minnsta kosti sex ára fangelsi. Í fyrrgreindum forsendum dómsins er þannig augljóslega tekin afstaða til þeirra skilyrða sem gerð eru fyrir upptöku í 69. gr. b almennra hegningarlaga.

40. Þótt forsendur dóms Landsréttar um upptöku mættu vera fyllri eru ekki að þessu leyti þeir ágallar á dóminum að kröfum f- og g-liða 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008, teljist ekki hafa verið mætt.

41. Samkvæmt öllu framangreindu eru ekki tilefni til að ómerkja dóm Landsréttar.

Niðurstaða um efnishlið málsins

42. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi.

43. Refsiákvæði í íslenskum rétti sem ætlað er að sporna gegn peningaþvætti eiga uppruna sinn í lögum nr. 80/1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Með lögum nr. 10/1997, um breyting á almennum hegningarlögum o.fl., voru gerðar umtalsverðar breytingar á refsiákvæðum um peningaþvætti og með 4. gr. laganna kom nýtt ákvæði um peningaþvætti inn í 264. gr. almennra hegningarlaga. Það var síðan með 7. gr. laga nr. 149/2009 sem ákvæðinu var breytt í núverandi horf. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að við breytingar á ákvæðinu sé horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006. Með breytingunni sé gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. rýmkað þannig að það taki ekki einungis til frumbrota á almennum hegningarlögum heldur einnig refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægi að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Svo sem fyrr var lýst var meginmarkmiðið að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða.

44. Þá var með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 lögfest fyrrnefnt ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni sé horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Þá segir enn fremur að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafi verði þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti.

45. Í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001, sem laut að ákæru fyrir peningaþvætti sem talin var varða við þágildandi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, kom sem fyrr segir fram að í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaganna væri áskilið að um ávinning væri að ræða af broti samkvæmt þeim lögum. Yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði frá broti á lögunum.

46. Í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010 var einn ákærðu sýknaður af tilteknu fíkniefnalagabroti en hins vegar sakfelldur fyrir peningaþvætti vegna fjármuna sem fundust í bankahólfi og hann var talinn eiga. Sakfellingin í héraði var studd þeim rökum að hann hefði haft mjög miklar ráðstöfunartekjur umfram skráðar tekjur og hann ekki getað gefið trúverðugar skýringar á þeim. Ákærði hefði ítrekað áður gerst sekur um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hæstiréttur staðfesti sakfellinguna með svipuðum rökum og að framan greinir í dómi réttarins í máli nr. 200/2001 en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þar sem við sönnunarmat var meðal annars tekin afstaða til framburðar ákærða og vitna.

47. Eins og rakið hefur verið er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum og er brotið talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Á ákæruvaldinu hvílir sönnunarbyrði um það að ávinningur sem ákæra málsins lýtur að stafi af refsiverðum brotum en í því efni nægir að sanna að útilokað sé að ávinningurinn sé til kominn á lögmætan hátt.

48. Samkvæmt greinargerð lögreglu um fjármál ákærða 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 var innstæða á bankareikningi hans í upphafi tímabilsins 217.729 krónur. Greiðslur Tryggingastofnunar til ákærða inn á sama bankareikning á tímabilinu námu samtals 3.756.993 krónum en útstreymi fjár af bankareikningi hans á sama tíma nam 11.556.480 krónum. Munur á framangreindri inneign og innborgunum á bankareikning ákærða á tímabilinu og því fé sem hann ráðstafaði af bankareikningi sínum á þessum tíma nam samtals 7.581.758 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, kom fram að ákærði hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á þessum mismun. Í héraðsdómi var lagt mat á skýringar ákærða, meðákærða og vitna á uppruna þess fjár sem fannst við húsleit hjá honum og skýringar þeirra á því hvernig hann eignaðist bifreið þá sem krafist er upptöku á í málinu.

49. Af hálfu ákærða hefur því verið haldið fram að hann hafi frá árinu 2012 átt Audi-bifreiðina sem getið er um í ákæru en ráðstafað henni á árinu 2014 í viðskiptum um veitingastað. Þau viðskipti hafi gengið til baka á árinu 2016 og hann þá fengið bifreiðina að nýju og hún verið skráð á nafn meðákærða í ökutækjaskrá. Upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu staðfesta að meðákærði var skráður eigandi hennar frá 4. júlí 2016 en hann bar í héraði að ákærði hefði verið raunverulegur eigandi. Margir voru skráðir eigendur bifreiðarinnar fyrir þann tíma. Þótt gögn málsins bendi til þess ákærði hafi eitthvað haft með umrædda bifreið að gera fyrir árið 2014 liggur fyrir að hann varð ekki eigandi hennar fyrr en á árinu 2016 er hún var skráð á nafn meðákærða. Skjalleg gögn um bifreiðina veita enga vísbendingu um að ákærði hafi fjármagnað kaup á henni með lögmætum hætti.

50. Þess er að gæta að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða byggðist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða, meðákærða og vitna í héraði. Að þeirri forsendu gefinni verður með vísan til 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 ekki fyrir Hæstarétti endurskoðað það mat á sönnunargildi munnlegs framburðar sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi og dómi héraðsdóms sem vísað var til í dómi Landsréttar. Verður því lagt til grundvallar að þær skýringar sem gefnar voru á tilvist þeirra verðmæta sem fundust við húsleit á heimili hans 15. maí 2017 og fjármögnun kaupa á Tesla-bifreið séu ekki trúverðugar.

51. Eins og fyrr er getið hefur ákærði hlotið ellefu dóma á árunum 2003 til janúar 2018, meðal annars fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot fram til ársins 2014 en þau brot eru öll til þess fallin að hafa auðgun í för með sér. Skjalleg sönnunargögn málsins hníga öll að þeirri niðurstöðu að útilokað sé að ávinningur sá sem ákæra lýtur að sé af lögmætum toga. Þau sýna einnig að ákærði hefur haft fjárhagsleg tengsl við einstaklinga sem hafa gerst sekir um auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot, meðal annars í félagi við ákærða. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða fyrir peningaþvætti eins og í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

52. Ákvæði 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga, sem upptökukrafa ákæruvaldsins er reist á, voru lögleidd með 2. gr. laga nr. 149/2009 og urðu hluti af nýjum VII. kafla A sem leysti af hólmi eldri upptökuheimildir laganna. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum breytingarlögum kom meðal annars fram að markmið með nýjum ákvæðum um upptöku væri að gera þau skýrari, færa þau í nútímalegt horf og gera með því kleift að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi með skilvirkari hætti. Þá var lögleiðing þeirra studd áskilnaði um innleiðingu á 12. gr. Palermo-samningsins og til að bregðast við athugasemdum í annarri matsskýrslu GRECO frá 2. júlí 2004. Fram kemur að í síðarnefndu heimildinni sé meðal annars lagt til að íslenska ríkið rýmki gildissvið ákvæða um upptöku eigna og ávinnings af refsiverðum brotum og taki til skoðunar að endurskoða reglur um sönnunarbyrði með það að markmiði að auka skilvirkni upptöku í málum sem varða spillingu, einkum að því er varðar aðstæður þar sem ekki er hægt að koma við sakfellingu og þegar verðmæti eru í vörslum þriðja manns.

53. Með c-lið 2. gr. frumvarpsins er varð að 69. gr. b var mælt fyrir um að þegar um væri að ræða alvarleg brot sem væru til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning væri mögulegt að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt væri fram á að þau mætti rekja til tiltekins refsiverðs brots. Að þeim skilyrðum uppfylltum yrði unnt að gera upptæk verðmæti sem tilheyrðu viðkomandi, og raunar verðmæti er tilheyrðu þriðja manni ef svo bæri undir, nema sýnt væri fram á að þeirra hefði verið aflað með lögmætum hætti. Undir þessum kringumstæðum yrði sönnunarbyrði snúið við þannig að viðkomandi yrði að sýna fram á að verðmæti yrðu ekki rakin til brotastarfsemi. Í athugasemdum með tilvitnaðri frumvarpsgrein var nánar rakið að tilgangur lagareglu af þessum toga væri einkum sá að ná til þeirra sem byggðu lífsafkomu sína á brotastarfsemi eða hefðu af slíku verulegar tekjur. Mætti gera ráð fyrir að á regluna reyndi einkum vegna innflutnings ávana- og fíkniefna, auðgunarbrota og annarrar skipulagðrar brotastarfsemi. Líkur stæðu til þess að henni yrði einkum beitt til upptöku reiðufjár, innstæðna á bankareikningum, verðbréfa og annarra fjármuna sem sá brotlegi gæti ekki útskýrt hvernig hann hefði aflað. Kæmi reglan til viðbótar og yrði beitt samhliða almennum upptökuheimildum í a- og b-lið 2. gr. sem urðu að núverandi 69. og 69. gr. a almennra hegningarlaga.

54. Í 1. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins sem varð 1. mgr. 69. gr. b, er áskilið að brot hafi verið til þess fallið að hafa verulegan ávinning í för með sér og að það varði að minnsta kosti sex ára fangelsi. Í athugasemdum um ákvæðið segir að áskilnaður um verulegan ávinning útheimti ekki nauðsynlega að viðkomandi hafi í raun hagnast af brotinu heldur nægi að hann hefði getað hagnast af því. Er síðan nefnt sem dæmi að yrði aðili sakfelldur fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning en hins vegar ekki fyrir sölu efnanna væri áskilnaði ákvæðisins fullnægt ef sala þeirra hefði getað haft í för með sér verulegan ávinning. Þá gæti tilraun til brots orðið grundvöllur upptöku samkvæmt ákvæðinu. Um beitingu reglunnar er vísað nánar í tilvitnað dæmi um fíkniefnainnflutning og einstakling sem sakfelldur yrði fyrir stórfellt brot af því tagi en án þess að sýnt hafi verið fram á sölu neins af efnunum, til dæmis vegna þess að viðkomandi hefði verið handtekinn þegar við komuna til landsins. Ef við rannsókn á eignastöðu og fjárhag viðkomandi kæmu í ljós undir þessum kringumstæðum verulegar eignir og fjármunir sem ekki væru í samræmi við uppgefnar tekjur og fjárhagsstöðu væri unnt að krefjast upptöku á slíkum verðmætum og það þó svo þau yrðu ekki rakin til brots sem sakfellt yrði fyrir vegna fíkniefnainnflutnings viðkomandi.

55. Með 4. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins sem varð að 4. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga, var lögð til veigamesta breytingin frá þeim ákvæðum sem áður giltu um eignaupptöku. Fólst hún í því að snúa við sönnunarbyrði um tilurð þeirra verðmæta sem lagareglan í heild tekur til. Með lagabreytingunni varð sú breyting að gera má upptækt allt það sem viðkomandi getur ekki sýnt fram á að hafi verið aflað með lögmætum hætti. Kemur fram í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpsgreininni að með vísan til orðalags ákvæðisins og þar sem um frávik frá sönnunarbyrði ákæruvaldsins sé að ræða beri ekki að gera strangar kröfur til þess að viðkomandi axli þá sönnunarbyrði. Slík sönnunarfærsla geti átt sér fullnægjandi stoð í kvittunum eða öðrum skriflegum gögnum, framburði vitna og í sumum tilvikum gæti trúverðug skýring ákærða nægt til þess að hann hefði axlað sönnunarbyrðina. Enn fremur geti skattframtöl haft ákveðið vægi sem og það hvernig verðmætin hafi verið geymd og þá tekið sem dæmi hvort reiðufé hafi verið falið eða fjárhæðir geymdar á erlendum bankareikningum. Í athugasemdum með frumvarpinu var allt að einu tekið fram að við setningu reglu af þessum toga, þar sem sönnunarbyrði um beitingu refsikenndra viðurlaga í formi eignaupptöku er lögð á þann sem upptökukrafan beinist gegn, þurfi sérstaklega að huga að stöðu slíkrar reglu að stjórnskipunarrétti og jafnframt þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

56. Til þess að fullnægt sé skilyrðum 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga um eignaupptöku ber ekki nauðsyn til að sýna fram á að verðmæti þau sem krafist er upptöku á stafi af tilteknu refsiverðu broti, heldur er sem fyrr segir nægilegt að sýnt sé fram á að ákærði hafi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi.

57. Samkvæmt gögnum málsins var Tesla-bifreiðin sem upptökukrafan lýtur meðal annars að forskráð á nafn B ehf. hjá Samgöngustofu 17. maí 2017 sem var tveimur dögum eftir að lögregla gerði húsleit á heimili hans. Bifreiðin var þá ótollafgreidd og staðsett á Seyðisfirði. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi keypti ákærði Tesla-bifreiðina í því skyni að selja hana aftur og fjármagnaði kaupin en notaði félagið við innflutninginn. Í málinu liggur fyrir að enginn sem hafði heimild til að skuldbinda félagið stóð að kaupum, fjármögnun eða innflutningi bifreiðarinnar. Upptökukröfunni er því réttilega beint að ákærða.

58. Eins og rakið hefur verið hvílir sönnunarbyrði á ákærða fyrir því að fjármunir sem hjá honum fundust við húsleit séu til komnir á löglegan hátt. Héraðsdómur og Landsréttur hafa metið skýringar ákærða á því hvernig hann aflaði sér þess reiðufjár sem hjá honum fannst við húsleit ótrúverðugar og hinu sama gegnir um skýringar hans og vitna á því hvernig fjármögnun hans á Tesla-bifreiðinni hafi verið háttað. Það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. Þá renna skattframtöl ákærða og eiginkonu hans um tekjur og eignir árin 2015 og 2016 engum stoðum undir að hann sé kominn að þessum fjármunum á löglegan hátt og hann hefur ekki lagt fram nein þau gögn um tilurð þessara fjármuna sem haggað geta þeirri niðurstöðu.

59. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur 19. maí 2017 í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en slíkt brot getur varðað allt að sex ára fangelsi. Þá var hann dæmdur 12. janúar 2018 í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, tollalögum nr. 88/2005, lyfsölulögum nr. 30/1963 og lyfjalögum nr. 93/1994. Ekki er áskilið samkvæmt 69. gr. b almennra hegningarlaga að hið refsiverða brot sem er grundvöllur þess að unnt sé að fallast á eignaupptöku sé framið á sama tíma og ávinningur eða eignamyndun sú sem krafist er upptöku á fellur til. Framangreind brot sem ákærði gerðist sekur um voru framin á árinu 2014 en haldlagning ávinnings sem ákæra lýtur að fór fram í maí 2017. Brotin og haldlagningin voru því nálæg í tíma. Að þessu virtu og með vísan til þess að framangreind brot voru til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku þeirra eigna sem greinir í ákæru, sbr. 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga.

60. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

61. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hafþór Logi Hlynsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.196.651 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, 1.116.000 krónur.

Sératkvæði

Ásu Ólafsdóttur og Karls Axelssonar

1. Við erum sammála lýsingu á ágreiningsefni málsins, málsatvikum og almennri umfjöllun um lagagrundvöll í dómi meirihluta dómenda en ósammála niðurstöðu dómsins um formhlið þess af eftirfarandi ástæðum:

2. Í málinu er ákært fyrir peningaþvætti sem talið er varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem krafist er upptöku á grundvelli 69. og 69. gr. b sömu laga.

3. Svo sem fram kemur í atkvæði meirihlutans er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Sú krafa er öðrum þræði reist á því að þeir ágallar hafi verið á ákæru í málinu að ekki verði felldur á það dómur. Af því leiðir að rétt er að taka fyrst til skoðunar hvort ákæra í málinu er nægilega skýr í skilningi 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

4. Samkvæmt c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. Jafnframt má líta til d–liðar 1. mgr. 152. gr. laganna þar sem segir að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið en röksemdafærsla skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru.

5. Ætluðum saknæmum þætti ákærða er lýst í I. og III. hluta ákæru en auk þess fylgja nánari röksemdir samkvæmt d–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í II. hluta ákæru er fjallað um þátt meðákærða í héraði en sá hluti hennar kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

6. Í I. hluta ákæru kemur fram að ákærða sé gefið að sök peningaþvætti „með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017, aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum.“ Þá er í 2. málsgrein I. hluta ákæru gerð grein fyrir því að við húsleit á dvalarstað ákærða að […] í Kópavogi hafi fundist peningar á nánar tilgreindum stöðum samtals 2.530.000 krónur. Í 3. málsgrein I. hluta ákæru segir síðan að hluta „umrædds ávinnings“ hafi ákærði nýtt til kaupa á bifreiðinni […] sem síðan er nánar útskýrt þannig að hluta kaupverðs bifreiðarinnar hafi verið aflað með greiðslu tjónabóta frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns á annarri bifreið en fyrri bifreiðina hafi ákærði „einnig greitt með ávinningi af refsiverðum brotum.“ Í III. hluta ákæru er brot ákærða heimfært til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og þess jafnframt krafist, með vísan til 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga, að ákærða verði gert að „sæta upptöku á ávinningi brotanna.“ Er síðan í stafliðum a og b gerð grein fyrir því með sundurliðuðum hætti að upptökukrafan nái annars vegar til þeirra fjármuna sem fundust við húsleit en hins vegar til bifreiðarinnar […].

7. Í röksemdakafla ákæru er í fyrsta lagi vikið að forsögu 264. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ákvæðinu með 7. gr. laga nr. 149/2009. Í öðru lagi er gerð grein fyrir þeim fjármunum og gögnum sem fundust við húsleit á dvalarstað ákærða 15. maí 2017. Þá er í þriðja lagi gerð grein fyrir tekjum ákærða samkvæmt skattframtölum vegna gjaldáranna 2016 og 2017 og í fjórða lagi rakin tilurð og fjármögnun fyrrgreindrar bifreiðar með hliðsjón af gögnum og framburði ákærða. Loks er vísað til sakarvottorðs ákærða og gerð grein fyrir því að hann hafi hlotið ellefu dóma frá desember 2003. Þar á meðal séu þjófnaðarbrot, fjársvik, fíkniefnalagabrot, valdstjórnarbrot og innflutningur fíkniefna til söludreifingar. Síðan er þess sérstaklega getið að 19. maí 2017 hafi ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verið dæmdur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga og með öðrum dómi sama dómstóls 12. janúar 2018 verið sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, tollalögum nr. 88/2005, lyfsölulögum nr. 30/1963 og lyfjalögum nr. 93/1994. Óumdeilt er í málinu að brot þau sem dæmt var fyrir í tilvitnuðum tveimur héraðsdómum áttu sér stað árið 2014.

8. Í atkvæði meirihlutans er réttilega gerð grein fyrir því að líta beri til athugasemda við peningaþvættisákvæði í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 149/2009. Þar er jafnframt sérstaklega vikið að forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 þar sem fram kom að þegar litið væri til eðlis og tilgangs ákvæðis um peningaþvætti í 264. gr. almennra hegningarlaga yrði ekki gerð sú krafa að fyrir lægi hvaða brot væri nákvæmlega um að ræða heldur að meta yrði það í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði af broti á lögunum.

9. Hvað sem líður ályktunum af framangreindum lögskýringargögnum um skýringu 264. gr. almennra hegningarlaga og mikilvægis þess að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, ávinning sem af þeim kunni að leiða, raskar það ekki þeirri meginreglu sakamálaréttarfars um tilhögun ákæru sem fram kemur í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ljósi ummæla í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 149/2009 um nánari tilgreiningu brota að þessu leyti og tilvísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 er því sérstök ástæða til að líta nánar til þeirra krafna sem gerðar hafa verið í dómum Hæstaréttar þegar ákært hefur verið fyrir peningaþvætti.

10. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 kom fram í ákæru að ákærði hefði á nánar tilgreindu tímabili í 66 skipti tekið við samtals 12.106.500 krónum frá nafngreindum einstaklingi og skipt þeim fyrir hann í erlenda mynt í íslenskum peningastofnunum, en ákærði hefði vitað að peningarnir væru afrakstur af fíkniefnasölu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til eðlis og tilgangs ákvæðisins þætti ekki verða gerð sú krafa að fyrir lægi hvaða brot væri nákvæmlega um að ræða í skilningi 1. mgr. 264. gr. laganna. Yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði hann frá broti á lögunum, en í málinu hefðu engar haldbærar skýringar komið fram um gjaldeyriskaup ákærða.

11. Í atkvæði meirihlutans er jafnframt vísað til nokkurra annarra dóma Hæstaréttar sem eiga það sameiginlegt að þar var sakfellt fyrir peningaþvætti á grundvelli ákæru þar sem hinni refsiverðu háttsemi var lýst á þann veg að ákærði hefði „um nokkurt skeið fram til“ ákveðins tíma aflað sér ávinnings með nánar tilgreindum hætti, svo sem „með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna“ eða „með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum“. Til frekari skýringar er rétt að gera grein fyrir því hvernig ákæru var hagað í þeim málum.

12. Í dómi Hæstaréttar 495/2010 var ákærðu gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í mars og apríl 2010 staðið saman að innflutningi á tilgreindu magni af kókaíni til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Einn ákærðu var sýknaður af fíkniefnalagabroti en sakfelldur fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 15. apríl sama ár á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna.

13. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 122/2012 var ákærða gefið að sök að hafa á árunum 2008 og 2009 selt í verslun sinni tveimur nafngreindum konum tiltekin lyf án tilskilins leyfis. Í IV. kafla sömu ákæru var ákærða jafnframt gefið að sök peningaþvætti „með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 10. júní 2010“ aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð „með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum, munn- og neftóbaki og ávana- og fíkniefnum, samskonar því sem var í vörslum hans þegar leit var gerð“, sbr. ákærulið I til og með III í málinu. Var talið sannað að stór hluti fjárhæðarinnar sem fannst við húsleit lögreglu hefði átt rót sína að rekja til peningaþvættis og væri afrakstur þeirra brota gegn lyfjalögum sem hann var jafnframt sakfelldur fyrir.

14. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 457/2013 var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir að hafa á árunum 2011 og 2012 fram til fimmtudagsins 27. september 2012, ,,að [...] og á höfuðborgarsvæðinu“ selt ótilgreindum fjölda einstaklinga nánar tilgreind lyf án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 27. september 2012 „að [...] og á höfuðborgarsvæðinu“ aflað sér ávinnings með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum, sams konar þeim sem voru í vörslum ákærða þegar leit var gerð vegna sakarefnis í ákærulið I. Ekki var talið unnt að slá því föstu hvaða fjárhæð ávinningur af brotum hans hefði numið. Hann hefði þó engar skýringar gefið á tilurð 350.000 króna reiðufjár sem fannst við húsleit og þótti „ekki óvarlegt að telja sannað“ að þeir fjármunir væru afrakstur lyfjasölu hans.

15. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 52/2014 var ákærði sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa 8. og 10. febrúar 2011 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni nánar tilgreint magn fíkniefna. Þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti, eins og því var lýst í kafla II. í ákæru, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 10. febrúar 2011 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með sölu og dreifingu ótiltekins magns fíkniefna sem voru afrakstur kannabisræktunar hans. Var í þeim efnum vísað til I. kafla ákæru.

16. Fjórir síðastgreindu dómarnir eru ólíkir málsatvikum þessa máls að því leyti að þar voru þau frumbrot sem lágu til grundvallar peningaþvætti viðkomandi til umfjöllunar í sama máli og peningaþvættisbrotið. Frumbroti eða brotum var þannig lýst í sömu ákæru með tilliti til þess fyrir hvaða háttsemi var ákært og hvar og hvenær brotið taldist hafa verið framið. Er það í samræmi við framanrakta meginreglu sakamálaréttarfars. Af dómunum má jafnframt ráða að þótt ekki verði gerð sú krafa að fyrir liggi nákvæmlega um hvaða brot sé að ræða er eftir sem áður fyrir hendi krafa um skýrleika ákæru sem í þessu tilliti birtist í tilgreiningu og nánari afmörkun þess hvers efnis þau frumbrot séu sem liggi til grundvallar áskilnaði 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti og að minnsta kosti á hvaða tímabili þau áttu sér stað. Í þeim efnum verður að líta til þess að grundvöllur sakamáls er lagður með útgáfu ákæru. Skýrleiki verknaðarlýsingar er jafnframt ein af forsendum þess að ákærði geti gert sér grein fyrir sakargiftum og haldið uppi vörnum auk þess sem dómur verður einungis lagður á mál í samræmi við ákæru.

17. Eins og fyrr greinir er í máli þessu ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga. Af ákærutextanum sjálfum verður hins vegar ekki annað ráðið en að það eitt að í fórum ákærða hafi fundist fjármunir, sem hann geti ekki gert grein fyrir, feli í sér fullframið brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í niðurlagi röksemdakafla ákæru er sem fyrr segir vísað almennt til sakarferils ákærða, sem sýnist hafa átt upphaf sitt árið 2003, auk þess sem fjallað er sérstaklega um fyrrnefnda dóma héraðsdóms frá árunum 2017 og 2018 sem vörðuðu brot ákærða árið 2014. Af þeirri umfjöllun er svo dregin sú ályktun í niðurlagi ákæru að þau brot sem þá var dæmt fyrir hafi verið til þess fallin að „hafa í för með sér verulegan ávinning“, sbr. áskilnað 69. gr. b almennra hegningarlaga þar að lútandi. Af þessari framsetningu er óljóst hvort þar sé vísað til tilvitnaðra dóma eingöngu til stuðnings upptökukröfu eða hvort þeim sé jafnframt ætluð þýðing við mat á ætlaðri sök á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga eða mögulega ætlað að hafa þýðingu við mat á refsingu í málinu.

18. Um tímasetningu brotanna var svo einungis sagt í ákæru að þau hafi átt sér stað um „nokkurt skeið fram til 15. maí 2017“. Ekki var þar vikið að upphafstíma þeirra að öðru leyti en því að vísað var til sakaferils ákærða í röksemdum sem fylgdu ákæru. Jafnframt er í ákærutextanum sjálfum í engu vikið að einstökum brotum eða afmörkun þeirra brota sem legið gætu til grundvallar ákæru um peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Undir rekstri málsins vísaði ákæruvaldið þó sérstaklega til umræddra héraðsdóma frá 2017 og 2018 en þeir voru fyrst lagðir fram við meðferð málsins í Landsrétti. Þess ber þá að gæta að þeir dómar fjölluðu um brot ákærða sem áttu sér stað á árinu 2014. Hins vegar liggur fyrir að skoðun lögreglu á fjárhag ákærða í máli þessu náði ekki til þess árs heldur einungis áranna 2015 og 2016 auk hluta ársins 2017. Enn fremur er þess að gæta að ákærði var dæmdur til að sæta upptöku á 537.000 krónum með fyrrgreindum dómi héraðsdóms sem féll árið 2018.

19. Samkvæmt framansögðu er það álit okkar að til þess að sakfellt verði fyrir brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga verði að gera kröfu um að lágmarksskírskotun komi fram í ákæru um tengsl frumbrots og þess ávinnings sem á að hafa leitt af því, svo sem með afmörkun á hvaða tímabili ávinningur á að hafa hlotist af frumbroti og hvers efnis þau frumbrot eru sem liggi til grundvallar eða eftir atvikum hvaða brotaflokki þau tilheyri. Ekki nægir eingöngu að vísa með almennum hætti til brotaferils ákærða eins og raunin er í ákæru í máli þessu. Þá teljum við þann ágalla vera á ákæru að eingöngu er ákært fyrir peningaþvætti á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en ekki svokallaðs sjálfsþvættis, sbr. 2. mgr. sömu greinar, enda þótt skilja megi takmarkaða verknaðarlýsingu ákæru þannig að meintri refsiverðri háttsemi sé að hluta lýst sem sjálfsþvætti. Fær sá skilningur ekki staðist að þrátt fyrir að talin hafi verið þörf á því á árinu 2009 að lögfesta sérstaka reglu um refsinæmi sjálfsþvættis þurfi eftir sem áður engan greinarmun að gera á því í ákæru hvort það eða þau brot sem liggja til grundvallar ákæru fyrir peningaþvætti eru refsiverð á grundvelli 1. mgr. 264. gr. eða 1. mgr., sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Eykur þetta enn á óskýrleika ákærunnar og möguleika ákærða á því að afmarka hvaða refsiverðu brot er um að ræða og þar með möguleika hans á því að taka til varna í málinu. Var ákæruvaldinu í lófa lagið að haga ákæru með þeim hætti að nægilegs skýrleika væri gætt.

20. Afleiðing þessa óskýrleika í málatilbúnaði ákæruvaldsins birtist í ónákvæmni í úrlausnum bæði héraðsdóms sem og hinum áfrýjaða dómi þar sem mörk úrlausnar um peningaþvætti á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga og eignaupptöku samkvæmt 69. gr. og 69. gr. b sömu laga eru í besta falli óljós. Í hinum áfrýjaða dómi er um upptökukröfuna vísað til þess eins að ákvæði héraðsdóms þar um sé staðfest. Þegar betur er að gáð er þar engin formleg afstaða tekin til upptökukröfunnar. Auk þess verður ekki annað séð en að á báðum dómstigum hafi svo, að hluta til að minnsta kosti, verið byggt á þáttum sem varða áskilnað eignaupptöku samkvæmt 69. gr. b við sakfellingu fyrir brot gegn 264. gr. laganna. Þannig er sakfelling ákærða í hinum áfrýjaða dómi fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga meðal annars rökstudd með þeim hætti að brot ákærða á árinu 2014 hafi verið „til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning“, sem þó er í reynd efnisskilyrði upptöku eftir 69. gr. b almennra hegningarlaga. Er þó þar á sá grundvallarmunur að í fyrrnefnda tilvikinu er, svo sem rakið er í atkvæði meirihlutans, fyrir hendi öfug sönnunarbyrði um tilurð verðmæta sem gerð eru upptæk, sbr. 4. mgr. 69. gr. b, en hefðbundin sönnunarbyrði sakamálaréttarfars gildir við mat á sök á grundvelli 264. gr. sömu laga.

21. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. og 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, ber sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, auk þess sem hvorki má dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Á nægilegum skýrleika ákæru í þessa veru ber ákæruvaldið óskoraða ábyrgð.

22. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða okkar að óskýrleiki ákæru hafi leitt til þess að vörnum ákærða var ábótavant við meðferð málsins fyrir dómi og á það bæði við um ákæru fyrir 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og kröfu um eignaupptöku samkvæmt 69. og 69. gr. b sömu laga. Vegna þessa annmarka verður ekki lagður efnisdómur á það og ber að vísa málinu frá héraðsdómi. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ætti að fella sakarkostnað ákærða vegna meðferðar málsins í heild á ríkissjóð.

23. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu um formhlið málsins er afstaða okkar um efnishlið málsins, sbr. 5. málslið 2. mgr. 226. laga nr. 88/2008, sú að við erum henni samþykk.