Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2021

Magnús Pétur Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Eignarréttur
  • Kröfuréttindi
  • Sértökuréttur
  • Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 tæki dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum látins manns sem hann átti við andlát eða naut þá, nema annað leiddi af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Taldi rétturinn að við andlát Þ hefði varnaraðili tekið við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar væru í 1. mgr. 2. gr. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að ágreiningur aðila lyti að því hvor þeirra ætti tilkall til tiltekinna krafna. Úr slíkum ágreiningi bæri að leysa fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kynnu að vera umdeild. Ljóst væri að úrlausn þess ágreinings væri ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um hver eða hverjir teldust réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. október 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

3. Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 25. október 2021. Hann krefst þess einnig að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

Helstu málsatvik

4. Með bréfi 10. janúar 2007 veitti umhverfisráðuneytið heimild til handa Kópavogsbæ á grundvelli þágildandi 1. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Vatnsenda. Hinn 30. sama mánaðar var undirrituð sáttargerð vegna eignarnámsins milli Kópavogsbæjar og Þorsteins Hjaltesteds, þáverandi ábúanda jarðarinnar. Með henni var komist að samkomulagi um bæði afmörkun hins eignarnumda lands og skipulagningu þess en einnig um greiðslur vegna eignarnámsins. Fólust þær meðal annars í tilgreindum peningagreiðslum og ýmsum öðrum greiðslum sem tengdust skipulagsvinnu Kópavogsbæjar á landi og lóðum að Vatnsenda. Þannig sagði til að mynda í grein 2.2.3 í sáttargerðinni: „Landeigandi fær 11% af öllum byggingarétti fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði, úr hverjum skipulagsáfanga fyrir sig, sem úthlutað verður úr hinu eignarnumda landi. Miðað skal við sama hlutfall tegundar húsnæðis og hver skipulagsáfangi gerir ráð fyrir. Landeigandi greiðir ekki gatnagerðar, yfirtökugjöld eða önnur tengd gjöld til Kópavogsbæjar vegna þessara lóða eða framkvæmda Kópavogsbæjar vegna þeirra. Áður en til almennrar úthlutunar kemur skal dregið um hvaða lóðir koma í hlut landeiganda. Landeiganda verður heimilt framsal þessara lóða án sérstaks samþykkis Kópavogsbæjar eða getur óskað eftir því að lóðunum verði úthlutað beint á þriðja aðila telji hann það henta frekar.“

5. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði á ágreiningur máls þessa rætur að rekja til erfðaskrár þáverandi eiganda jarðarinnar Vatnsenda, Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, frá árinu 1938. Við andlát Magnúsar 1940 tók Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested arf samkvæmt erfðaskránni en hann var sonarsonur bróður Magnúsar. Við andlát Sigurðar Kristjáns árið 1966 reis ágreiningur um réttindi yfir jörðinni sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 422, þess efnis að Magnús Sigurðsson Hjaltested, elstur sona Sigurðar Kristjáns, hefði umráð og afnot jarðarinnar á grundvelli framangreindrar erfðaskrár. Við andlát Magnúsar tók Þorsteinn Hjaltested við réttindum Sigurðar yfir jörðinni samkvæmt sömu erfðaskrá. Þorsteinn lést 12. desember 2018 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2019. Með bréfi 10. febrúar 2020 tilkynnti skiptastjóri búsins héraðsdómi að ákveðið hefði verið að fara með það samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

6. Sóknaraðili lýsti kröfu í dánarbú Þorsteins 1. nóvember 2019 um að skiptastjóri afhenti honum þá þegar „sem erfingja samkvæmt fyrirmælum 3. gr. erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og 29. október 1940, jörðina Vatnsenda í Kópavogi ... með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber til ábúðar og hagnýtingar, umráða og afnota samkvæmt þeim réttindum sem honum eru áskilin sem erfingja samkvæmt erfðaskránni.“ Í kröfulýsingunni var vísað til þess að um kröfu sértökumanns utan skuldaraðar væri að ræða þar sem umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda væri ekki arfur eftir Þorstein Hjaltested heldur Magnús Einarsson Hjaltested sem lést 31. október 1940 og að sóknaraðili byggði rétt sinn á fyrrgreindri erfðaskrá sem elsti sonur síðasta erfingja samkvæmt henni. Vísað var til þess að sóknaraðili væri fjórði erfingi jarðarinnar Vatnsenda en áður hefðu eignarráðin verið hjá Þorsteini föður hans, þar áður Magnúsi afa hans og enn áður hjá Sigurði langafa hans.

7. Skiptastjóri samþykkti kröfu sóknaraðila um afhendingu jarðarinnar sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn var því hafnað að réttur til eignarnámsbóta í fyrrgreindri sáttargerð félli þar undir. Niðurstaða skiptastjóra var að kröfur um eignarnámsbætur tilheyrðu dánarbúinu. Með bréfi 25. febrúar 2020 mótmælti sóknaraðili þessari afstöðu skiptastjóra. Á skiptafundi 23. mars 2020 var fjallað um ágreining aðila en ekki tókst að jafna hann. Skiptastjóri beindi ágreiningnum til héraðsdóms 26. mars 2020 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi skiptastjóra kom fram að ágreiningurinn lyti að því „hvort kröfur um eignarnámsbætur vegna eignarnáma á landi úr jörðinni Vatnsenda, sem þegar hafa farið fram og þar sem Þorsteinn Hjaltested var eignarnámsþoli, tilheyrði jörðinni í þeim skilningi að kröfurétturinn erfist til Magnúsar Péturs, samkvæmt fyrirmælum fyrrnefndrar erfðaskrár, eða ekki.“

8. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2021 var viðurkennt að sóknaraðila tilheyrði réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimildinni 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð 30. janúar 2007, að undanskildum réttindum samkvæmt grein 2.2.3 en réttindi samkvæmt henni skyldu tilheyra varnaraðila.

9. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og krafðist staðfestingar hans um annað en niðurstöðu um grein 2.2.3 í sáttargerðinni og að viðurkennt yrði að réttur til eignarnámsbóta samkvæmt þeirri grein tilheyrði honum. Varnaraðili gerði á hinn bóginn kröfu um að viðurkennt yrði að hann ætti rétt til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta samkvæmt sáttargerðinni. Í úrskurði Landsréttar 11. október 2021 sagði að ágreiningur málsaðila lyti í raun að því hver ætti rétt til þess að innheimta hinar umdeildu kröfur sem annar hvor þeirra kynni að eiga á hendur Kópavogsbæ. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að þau réttindi sem um væri deilt gætu ekki talist vera í vörslum búsins. Því hefðu ekki verið skilyrði til að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 171. gr., sbr. 120. gr., laga nr. 21/1991, eins og gert var í beiðni skiptastjóra. Ekki væri heldur séð að skilyrði hefðu verið fyrir varnaraðila að hafa uppi gagnkröfu um viðurkenningu á rétti hans til eignarnámsbóta úr hendi Kópavogsbæjar en slík krafa yrði einungis höfð uppi að uppfylltum skilyrðum ákvæða 172. og 173. gr. laga nr. 21/1991. Málinu var því vísað frá héraðsdómi.

Málsástæður

10. Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að úr ágreiningsefni þessa máls verði ekki leyst í öðrum óskyldum dómsmálum heldur einungis í því máli sem hér er til meðferðar. Ágreiningi málsaðila verði ekki skotið til úrlausnar dómstóla nema eftir þeim leiðum sem mælt er fyrir um í XXIII. kafla laga nr. 21/1991. Með mál sem þannig sé vísað til úrlausnar dómstóla skuli fara eftir fyrirmælum XXIV. kafla sömu laga.

11. Varnaraðili reisir kröfu sína á því að ranglega sé byggt á því í hinum kærða úrskurði að umþrætt réttindi geti ekki talist vera í vörslum hans. Réttindin séu byggð á skriflegum samningi sem hinn látni hafi verið aðili að og enginn annar en dánarbúið geti talist hafa vörslur þeirra. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi krafist afhendingar á þeim réttindum með sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ekki fallist á þá kröfu og sóknaraðili mótmælt þeirri afstöðu. Því beri að fá úrlausn dómstóla um þann ágreining samkvæmt 171. gr., sbr. 120. gr. laganna.

Niðurstaða

12. Í hinum kærða úrskurði kom fram að rekin væru tvö önnur dómsmál þar sem gerðar væru kröfur á hendur Kópavogsbæ um greiðslu tiltekinna eignarnámsbóta vegna eignarnámsins 10. janúar 2007 og sáttargerðar 30. sama mánaðar. Þá sagði jafnframt í forsendum úrskurðarins að réttur til innheimtu eignarnámsbóta og skaðabóta vegna eignarnámsins myndi ráðast af niðurstöðu framangreindra dómsmála eða „eftir atvikum nýjum dómsmálum sem kunna að verða rekin um slíkar kröfur samkvæmt almennum reglum.“ Jafnframt sagði að ágreiningur málsaðila lyti að því hver ætti rétt til þess að innheimta hinar umdeildu kröfur sem annar hvor þeirra kynni að eiga. Þá taldi Landsréttur að þar sem þau réttindi sem deilt var um gætu ekki talist vera í vörslum dánarbúsins hefðu ekki verið skilyrði til að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 171. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991, eins og gert hefði verið.

13. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 tekur dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum látins manns sem hann átti við andlát eða naut þá, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Fyrir liggur samkvæmt framanrituðu að við andlát Þorsteins Hjaltesteds tók dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar eru í 1. mgr. 2. gr. Kröfur á hendur þriðja manni eru meðal þeirra réttinda sem falla undir skiptameðferð og ráðstöfunarheimildir skiptastjóra og gildir þá einu hvort þær eru umdeildar.

14. Aðilar máls þessa eru sammála um að fyrir hendi séu kröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms bæjarins á landi jarðarinnar Vatnsenda. Ágreiningur þeirra lýtur á hinn bóginn að því hvor þeirra á tilkall til þeirra krafna. Að því leyti er ágreiningur máls þessa annars eðlis en í dómi Hæstaréttar 20. janúar 2010 í máli nr. 759/2009 þar sem krafist var afhendingar á tilteknu lausafé sem ekki var í vörslum búsins og dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 368/2016 þar sem sértökukrafa laut að umsaminni innheimtuþóknun kröfuhafa og þrotamanns. Í máli þessu er hins vegar um að ræða ágreining milli aðila um hvorum tilheyri réttur til að fara með fyrrgreinda kröfu á hendur Kópavogsbæ og fellur slíkur ágreiningur undir úrlausn dómstóla á grundvelli fyrrgreindra ákvæða laga nr. 21/1991.

15. Samkvæmt framanrituðu ber að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kunni að vera umdeild. Ljóst er að úrlausn þess ágreinings er ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um hver eða hverjir teljast réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra. Önnur dómsmál sem rekin eru að hluta til milli annarra aðila vegna þessara krafna geta því ekki með réttu leitt til frávísunar þessa máls frá héraðsdómi.

16. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

17. Kærumálskostnaður fellur niður.

18. Það athugast að forsendur hins kærða úrskurðar hefðu að réttu lagi átt að leiða til höfnunar á kröfu sóknaraðila en ekki til frávísunar málsins frá héraði, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 759/2009. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að málið sæti kæru til réttarins á grundvelli þeirra lagareglna sem greinir í 2. lið dómsins.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju.

Kærumálskostnaður fellur niður.