Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2020

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Kristínu Valgerði Gallagher (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Brot í opinberu starfi
  • Persónuvernd
  • Friðhelgi einkalífs
  • Refsiheimild
  • Málshraði

Reifun

K var sakfelld fyrir brot gegn 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í opinberu starfi sínu sem landamæravörður ítrekað flett upp tveimur tilgreindum einstaklingum í LÖKE-lögreglukerfinu og skoðað þar upplýsingar um þau og lögreglumál þeim tengd án þess að uppflettingarnar hefðu tengst starfi hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hefði misnotað sér stöðu sína sem opinber starfsmaður og hallað réttindum þeirra sem upplýsingaöflunin hefði beinst að. Ásetningur hennar hefði staðið til þess að afla sér upplýsinga um tilgreinda einstaklinga og þannig misnota sér aðstöðu sína og skipti þá að öðru leyti engu hvort hún hefði um leið búið yfir ásetningi til þess að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn réttindum einstakra manna samkvæmt 139. gr. almennra hegningarlaga. Var K gert að greiða 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæta ella átta daga fangelsi í stað sektarinnar.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

3. Ákærða krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

Ágreiningsefni

4. Með ákæru héraðssaksóknara 31. júlí 2017 var ákærðu gefið að sök brot í opinberu starfi sem landamæravörður með því að hafa á tímabilinu 17. september 2015 til 21. mars 2016 ítrekað flett upp málum í LÖKE-lögreglukerfinu tengdum A, fyrrverandi unnusta ákærðu og B sem ákærða hafði átt í samskiptum við vegna lögreglumáls og skoðað þar upplýsingar um þau og lögreglumál þeim tengd án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar sem landamæravörður. Hún hefði þannig misnotað stöðu sína með þeim afleiðingum að hallaði á réttindi A og B. Í ákæru eru tilgreindar uppflettingar í 60 málum sem tengdust fyrrgreindum einstaklingum. Háttsemi ákærðu var talin varða við 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5. Ákærða var sakfelld í samræmi við ákæru með héraðsdómi 31. janúar 2019 og refsing hennar ákveðin 100.000 króna sekt í ríkissjóð. Með dómi Landsréttar 23. október 2020 var héraðsdómur staðfestur.

6. Með ákvörðun Hæstaréttar 26. nóvember 2020 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu 139. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

7. Ákærða gegndi starfi sem landamæravörður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þegar atvik þau sem ákæra lýtur að áttu sér stað. Í starfslýsingu, dagsettri 22. maí 2015, sem hún undirritaði kemur fram að hún sé opinber starfsmaður og starfsheiti hennar landamæravörður. Um helstu viðfangsefni er vísað til 14. töluliðar 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1212/2007 um för yfir landamæri þar sem fram kemur að landamæravörður sé lögreglumaður eða annar opinber starfsmaður sem framfylgi reglum um landamæraeftirlit og landamæragæslu við landamærastöð eða landamæri. Meðal meginstarfsskyldna sé að sinna fyrsta stigs landamæraeftirliti undir stjórn lögreglu, aðstoða lögreglu við skráningu á málum sem varði flugstöðvardeild í lögreglukerfið og framlenging vegabréfa. Í starfslýsingunni er einnig kveðið á um að framfylgja skuli reglum og fyrirmælum er varði för fólks yfir landamæri, aðstoða lögreglu við skráningu í svokallað G-kerfi og fleira. Um ábyrgð í starfi er svo meðal annars vísað til þess að starfsmanni beri að fylgja eftir farþegalistagreiningu og upplýsa yfirmenn sína um óvenjulega eða alvarlega atburði og sérlega vandasöm mál.

8. Ákærða ritaði undir yfirlýsingu 6. maí 2014 um að hafa kynnt sér reglur ríkislögreglustjóra um aðgang að landskerfum lögreglunnar sem og um þagnarskyldu. Þar kom fram að hún hefði meðal annars kynnt sér reglur um aðgang að landskerfum lögreglu, lagagreinar varðandi þagnarskyldu um það sem hún kynni að verða áskynja um í starfinu og ákvæði um refsiábyrgð fyrir brot á þagnarskyldu. Einnig lýsti hún því yfir að hún gerði sér grein fyrir að hún gæti í starfi sínu meðal annars komist að viðkvæmum persónuupplýsingum sem vörðuðu einkamál almennra borgara og að refsiábyrgð lægi við broti á þagnarskyldu.

9. Í yfirlýsingunni er kafli um aðgang að landskerfum lögreglu þar sem fram kemur að aðgangur starfsmanna að þeim skuli aldrei vera meiri en störf þeirra krefjist hverju sinni. Engum skuli veittur aðgangur að landskerfum lögreglunnar nema viðkomandi hafi ritað undir yfirlýsingu um að hafa kynnt sér reglur um aðgang að þeim. Í yfirlýsingunni er einnig tekinn upp kafli úr reglum ríkislögreglustjóra þar sem meðal annars kemur fram að notendum sé óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar úr landskerfum lögreglunnar eða gera fyrirspurnir um mál eða einstaklinga ef þær tengist ekki málum sem þeir vinni við eða þurfi á að halda í þágu starfa sinna. Starfsmaður sem geri fyrirspurn í landskerfi geti búist við því síðar að verða spurður um ástæður hennar. Einnig segir þar að óheimilt sé að nýta upplýsingar úr landskerfunum í eigin þágu eða veita upplýsingar úr þeim til óviðkomandi aðila utan lögreglu.

10. Í umræddri yfirlýsingu er jafnframt sérstakur kafli um þagnarskyldu. Þar segir að lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögreglulög nr. 90/1996 og almenn hegningarlög hafi öll að geyma ákvæði sem mæli fyrir um að þeir sem umgangist ákveðnar upplýsingar séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir kunni að verða áskynja um í starfi sínu og sumum þessum lagaákvæðum fylgi refsiheimildir. Þar eru einnig birt ákvæði 22. gr. lögreglulaga, 91., 92., 136. og 230 gr. almennra hegningarlaga sem og 18. gr. laga nr. 70/1996.

Málsmeðferð

11. Vegna ábendinga til lögreglu um miðjan aprílmánuð 2016 hófst rannsókn á uppflettingum ákærðu og var máli hennar vísað til héraðssaksóknara með bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum 28. apríl 2016. Ákærða gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 18. júlí sama ár. Við skýrslugjöfina viðurkenndi hún að hafa margítrekað flett upp og skoðað mál í lögreglukerfinu sem ekki tengdust starfinu og kvaðst hún hafa gert það fyrir forvitni sakir. Í nokkrum tilvikum hefði hún þó verið að afla sér upplýsinga um aðila sem hún hefði óttast. Hún kvaðst ekki hafa miðlað þeim upplýsingum sem hún komst yfir með þessum hætti til annarra.

12. Hinn 31. júlí 2017 gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur ákærðu og var sakamál þingfest fyrir héraðsdómi 4. október 2017. Í þinghaldi 19. sama mánaðar var bókað eftir ákærðu að hún viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sek um þá háttsemi sem henni var gefin að sök. Með dómi héraðsdóms 30. nóvember 2017 var ákærða sakfelld fyrir háttsemina og gert að greiða 100.000 króna sekt auk sakarkostnaðar. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 28. desember sama ár. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, leysti Landsréttur úr málinu á áfrýjunarstigi, en þangað bárust gögn málsins 5. janúar 2018.

13. Með dómi Landsréttar 11. maí 2018 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný. Ástæðan var að játning ákærðu hefði ekki verið skýlaus í skilningi 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 þar sem hún hefði ekki játað að hafa hallað réttindum einstakra manna eða hins opinbera þótt hún hefði játað að hafa flett upp í málum í LÖKE-lögreglukerfinu án þess að það tengdist starfi hennar sem landamæravörður.

14. Eins og rakið hefur verið var ákærða sakfelld í samræmi við ákæru með nýjum héraðsdómi 31. janúar 2019 og var sá dómur staðfestur með hinum áfrýjaða dómi. Ákærða viðurkennir að hafa flett upp þeim einstaklingum sem tilgreindir eru í ákæru og skoðað þar upplýsingar um þá og lögreglumál þeim tengd án þess að það tengdist starfi hennar. Ákærða neitar því hins vegar að með þessu athæfi hafi hún misnotað stöðu sína með þeim afleiðingum að hallaði á réttindi þeirra. Með vísan til þess neitar hún sök í málinu.

Um sókn og vörn málsins

15. Í ákæru er háttsemi ákærðu heimfærð til 139. gr. almennra hegningarlaga sem heyrir undir XIV. kafla laganna sem tekur til brota í opinberu starfi. Í tilvitnuðu ákvæði er kveðið á um að hafi opinber starfsmaður, í öðrum tilvikum en lýst er að öðru leyti í fyrrnefndum kafla laganna, misnotað stöðu sína, sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ekki nýtur við neinna lögskýringargagna um skýringu ákvæðisins í athugasemdum við greinargerð að frumvarpi með lögunum, að öðru leyti en því að það sé efnislega samhljóða 142. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 1869, sem voru fyrstu heildstæðu refsilögin hér á landi, en í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi að þeim lögum nýtur heldur engra lögskýringargagna við um skýringu ákvæðisins.

16. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákærða hafi hallað réttindum þeirra sem hún fletti upp til að njóta verndar varðandi persónuupplýsingar um þá og hallað rétti þeirra til að vinnsla upplýsinganna og notkun þeirra væri í samræmi við tilganginn með geymslu þeirra og söfnun. Í tilvikum þeim sem ákæra lýtur að hafi ákærða ekki flett upp þeim einstaklingum sem þar greinir í lögmætum tilgangi vegna starfs síns heldur hafi persónuleg forvitni ráðið för. Í þessu sambandi skipti afstaða þeirra sem flett var upp engu máli enda hvíli söfnun upplýsinga þeirra sem um ræðir og vinnsla þeirra á lögum og sé ekki háð samþykki þeirra sem hlut eigi.

17. Ákærða byggir, eins og áður segir, sýknukröfu sína á því að hún hafi ekki misnotað aðstöðu sína með þeim afleiðingum að hallað hafi á réttindi þeirra einstaklinga sem tilgreindir eru í ákæru eða hins opinbera. Þá liggi ekkert fyrir um hvort þeir hafa verið inntir eftir því hvort þeir hygðust leggja fram kæru á hendur ákærðu fyrir meingerð gegn sér. Enn fremur liggi ekki fyrir að embætti lögreglunnar hafi skaðast vegna uppflettinga ákærðu og ekkert sé fram komið um að ætluð misnotkun hennar á aðstöðu hafi orðið henni eða öðrum til ávinnings. Að auki sé ákvæði 139. gr. almennra hegningarlaga ekki fullnægjandi sem refsiheimild vegna þeirrar háttsemi sem ákærðu er gefin að sök.

Niðurstaða

18. Samkvæmt lögum nr. 70/1996 eru lagðar sérgreindar lagaskyldur á opinbera starfsmenn við meðferð opinberra hagsmuna og að sama skapi njóta þeir ákveðinna réttinda samkvæmt lögunum.

19. Ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi er ætlað að taka til þeirra tilvika þegar opinber starfsmaður misnotar aðstöðu sína í skjóli lögbundinna valdheimilda og er tilgangur þeirra að vera varnagli við misnotkun ríkisvalds. Ríkir almannahagsmunir standa til þess að koma í veg fyrir slíka misnotkun sem fallin er til þess að valda einstaklingum og lögaðilum tjóni og rýra traust almennings til stjórnsýslu og réttarkerfis. Lagaþróun hefur miðað að aukinni áherslu á réttinn til friðhelgi einkalífs, meðal annars með 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og setningu eldri laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. gildandi lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þessi þróun gefur skýrt til kynna þann vilja löggjafans að veita einstaklingum aukna lagavernd gagnvart brotum á friðhelgi einkalífs og rétti til verndar persónuupplýsinga.

20. Við mat á því hvort háttsemi ákærðu verði felld undir 139. gr. almennra hegningarlaga verður að líta til efnisreglna sem giltu um starfsskyldur hennar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. janúar 2016 í máli nr. 279/2015. Ákærða var opinber starfsmaður og staðfesti fyrir dómi að hafa undirritað og kynnt sér framangreinda yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún hafi kynnt sér reglur ríkislögreglustjóra um aðgang að landskerfum lögreglunnar og almenna notkun þeirra, en sem fyrr segir var hluti þeirra reglna tekinn beint upp í yfirlýsingunni. Í umræddum reglum ríkislögreglustjóra er jafnframt kveðið svo á um að aðgangur starfsmanna að landskerfum lögreglu skuli aldrei vera meiri en störf þeirra krefjist hverju sinni og að notendum sé óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar úr kerfinu eða gera fyrirspurnir um mál eða einstaklinga ef þær tengjast ekki málum sem þeir vinni við eða þurfi á að halda í þágu starfa sinna.

21. Samkvæmt því sem rakið hefur verið um lagaþróun á sviði persónuverndar og réttarins til friðhelgi einkalífs njóta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga sérstakrar og ríkrar lagaverndar. Ótvírætt er að þær upplýsingar um þá einstaklinga sem í ákæru greinir falla undir hugtakið persónuupplýsingar samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000, sem voru í gildi á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað og töldust jafnframt til viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt 8. tölulið sömu greinar. Reglur um rafræna vinnslu upplýsinga hjá lögreglu voru jafnframt ítarlega útfærðar í reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Ákærða hefur játað að hafa flett þessum einstaklingum upp, skoðað upplýsingar um þá og lögreglumál sem þeim tengdust án þess að upplýsingarnar tengdust starfi hennar sem landamæravörður.

22. Þegar metið er hvort ákærða hafi hallað réttindum einstakra manna eins og áskilið er í 139. gr. almennra hegningarlaga ber að líta til þess að uppflettingar hennar á persónuupplýsingum um viðkomandi tvo einstaklinga í rafrænum upplýsingakerfum lögreglunnar fólu ótvírætt í sér vinnslu á persónuupplýsingum í skilningi 2. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000 án þess að til þess stæði heimild að lögum. Þá var vinnslan ekki í samræmi við tilganginn með söfnun þeirra og varðveislu í landskerfum lögreglunnar. Með þeim fjölmörgu uppflettingum ákærðu í gagnagrunni lögreglunnar sem ákært er fyrir, þar sem hún aflaði sér upplýsinga um persónuleg málefni þeirra einstaklinga sem í ákæru greinir án þess að leitin tengdist starfi hennar að nokkru leyti var hallað rétti þeirra til verndar persónuupplýsinga og fól háttsemin í sér misnotkun á þeim aðgangi sem hún hafði vegna starfa sinna sem landamæravörður að landskerfum lögreglunnar. Í þessu fólst einnig skýrt brot gegn starfsskyldum, reistum á sérstökum reglum sem hún undirgekkst við upphaf starfs síns, um að öll vinnsla persónuupplýsinga í lögreglukerfinu væri óheimil nema hún tengdist beinlínis störfum hennar. Þá var háttsemin alvarleg og stóð lengi yfir þar sem hún fletti ítrekað upp þeim einstaklingum sem í ákæru greinir.

23. Samkvæmt öllu framangreindu misnotaði ákærða sér stöðu sína sem opinber starfsmaður og hallaði réttindum þeirra sem upplýsingaöflunin beindist að. Ásetningur hennar stóð til þess að afla sér upplýsinga um þá einstaklinga sem ákæra lýtur að og misnota þannig aðstöðu sína, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar og skiptir þá að öðru leyti engu hvort hún hafi um leið búið yfir ásetningi til þess að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn réttindum einstakra manna samkvæmt 139. gr. almennra hegningarlaga.

24. Að öllu framangreindu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brots ákærðu til refsiákvæðis og sakfellingu hennar.

25. Sakaferill ákærðu hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar en við ákvörðun hennar verður einkum litið til þess að þau brot sem ákært er fyrir voru mörg og tóku til langs tímabils, eða allt frá 17. september 2015 til 21. mars 2016. Á hinn bóginn verður einnig horft til þess að langur tími er liðinn frá því að brot ákærðu áttu sér stað og verður henni ekki kennt um þann drátt sem orðið hefur á meðferð málsins hjá ákæruvaldi og dómstólum. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærðu staðfest í samræmi við kröfu ákæruvalds á þann hátt sem í dómsorði greinir.

26. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

27. Ákærðu verður í samræmi við 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Kristín Valgerður Gallagher, greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 800.587 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar lögmanns, 744.000 krónur.