Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2021

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Brot í nánu sambandi
  • Heimfærsla
  • Skilorð
  • Aðfinnslur

Reifun

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar, ýtt henni þannig að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar, skallað hana í höfuðið og tekið hana kverkataki með tilgreindum afleiðingum. Í Landsrétti var háttsemin heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tengsl ákærða og brotaþola hefðu verið slík að heyrði undir 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tekið var fram að brotaþoli þyrfti ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo að heimfæra mætti háttsemi til greinarinnar en slíkt gæti þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots og heimfærslu, einkum að því er varðar 2. mgr. hennar. Í málinu lá fyrir að áverkar hefðu verið víðs vegar á líkama brotaþola þótt hver um sig hefði ekki talist verulegur. Hæstiréttur taldi að árásin hefði í heild sinni verið talin til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brotaþola auk þess sem fram væri komið að hún hefði orðið fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar. Með atlögunni hefði ákærði á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu brotaþola og velferð og var háttsemin því felld undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Var refsing X ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í dóminum var fundið að þeim drætti sem varð á meðferð málsins á lægri dómstigum.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2021. Endanlegar dómkröfur ákæruvaldsins eru að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru að frátalinni þeirri háttsemi að hafa skellt brotaþola í vegg og að refsing ákærða verði þyngd.

3. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningsefni málsins lýtur einkum að því hvort ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðar við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um brot í nánu sambandi sem meðal annars lýsir refsivert að ógna á alvarlegan hátt lífi, heilsu eða velferð fyrrverandi sambúðaraðila með ofbeldi.

5. Með ákæru lögreglustjórans á [...] 15. ágúst 2018 var ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 15. maí sama ár veist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar, ýtt henni þannig að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar og skellt henni í vegg, skallað hana í höfuðið og tekið hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á hálsi, mar á brjóstkassa, mar á hægri öxl, upphandlegg og olnboga, hrufl á hægra hné, mar á innanverðu vinstra hné og marbletti á il á vinstri fæti. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Þá gerði brotaþoli bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur með tilgreindum vöxtum.

6. Með dómi héraðsdóms 8. nóvember 2019 var ákærði sýknaður af sakargiftum og bótakröfu vísað frá dómi. Með dómi Landsréttar 23. júní 2021 var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og henni er lýst í ákæru að því undanskildu að ekki var talið nægilega sannað að hann hefði skellt brotaþola í vegg. Jafnframt sagði í dóminum að miða yrði við að hálstakið sem ákærði tók brotaþola hafi verið kverkatak framan á háls hennar með annarri hendi. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem bundin var almennu skilorði til tveggja ára, sbr. 57. gr. almennra hegningarlaga.

7. Í hinum áfrýjaða dómi var framangreind háttsemi ákærða ekki talin hafa verið þess eðlis að hana ætti að heimfæra til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga þar sem skilyrði ákvæðisins um að árás þyrfti að vera endurtekin eða alvarleg voru ekki talin uppfyllt. Var háttsemin þess í stað færð undir 1. mgr. 217. gr. laganna. Um væri að ræða eitt tilvik en ákærði hefði ekki áður „ráðist að brotaþola líkamlega“. Hálstak það sem ákærði tók brotaþola hefði ekki valdið punktblæðingum umhverfis augu en slíkir áverkar hefðu í dómaframkvæmd verið taldir til marks um hættueiginleika árásar. Þá hefði brotaþoli horft niður eftir stiganum er ákærði hrinti henni og verið betur í stakk búin til að verjast falli en ef hún hefði snúið baki í stigann. Einnig hefði brotaþoli ekki hlotið alvarlega áverka í árásinni, svo sem beinbrot eða höfuðáverka, þótt áverkar hefðu verið víða á líkama hennar. Enn fremur yrði ekki af framburði brotaþola ráðið að árásin hafi verið langvarandi þótt hún hefði verið fjölþætt. Að þessu virtu yrði sá vafi sem léki um hættueiginleika aðferðar ákærða metin honum í hag við heimfærslu brotsins til refsiákvæðis. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b laganna og þyngja refsingu hans.

8. Ríkissaksóknari óskaði eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar málsins. Með ákvörðun réttarins 31. ágúst 2021 var leyfið veitt á þeim grunni að dómur í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

9. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst henni tilkynning klukkan tvö aðfaranótt þriðjudagsins 15. maí 2018 um að brotaþoli hefði orðið fyrir líkamsárás eða heimilisofbeldi. Hún var þá stödd í íbúð nágranna sinna þangað sem hún hafði leitað eftir aðstoð. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var hún í íbúð sinni. Í skýrslunni kemur fram að hún hefði setið á gólfinu með frystivörur í pokum víðs vegar á líkamanum til kælingar. Einnig sagði að hún hefði greinilega verið í áfalli og bolur sem hún klæddist rifinn. Ákærði var ekki á vettvangi. Með skýrslunni fylgdu ljósmyndir af vettvangi og áverkum á líkama brotaþola.

10. Brotaþoli gekkst undir læknisskoðun að morgni sama dags. Í ódagsettu læknisvottorði kom fram að hún hefði verið með byrjandi mar og yfirborðsáverka á hálsi, lítil hrufl eða mar á baki yfir neðstu rifjum, meira vinstra megin, stórt mar á innanverðum hægri upphandlegg og hrufl á olnboga þeim megin, verki í báðum hnjám og hrufl á hægra hné, hrufl á vinstri fæti og mar á il. Einnig sagði að brotaþoli hefði verið með mar á brjóstkassa.

11. Ákærði neitar sök en hann hefur á öllum stigum málsins nýtt sér lögbundinn rétt til að tjá sig ekki um sakagiftir. Í héraðsdómi er rakinn framburður brotaþola og annarra vitna fyrir dómi. Brotaþoli gaf einnig skýrslu fyrir Landsrétti.

Lagaumhverfi

12. Ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga hljóðar svo:

Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Í 2. mgr. 218. gr. b segir:

Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda.

13. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 9. mars 2022 í máli nr. 42/2021 var 218. gr. b bætt við almenn hegningarlög með lögum nr. 23/2016. Með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til þess að unnt væri að fullgilda samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011 (Istanbúlsamningurinn). Í lögskýringargögnum með lögum nr. 23/2016 er tekið fram að þótt fullgilding samningsins kallaði ekki á setningu sérstaks refsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum væri slíkt ákvæði mjög í anda samningsins og til þess fallið að ná markmiðum hans. Væri alþekkt að þolendur ofbeldis í nánum samböndum væru fyrst og fremst konur og börn. Rakið er hvernig afstaða löggjafans til sérrefsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldis hefur þróast frá því að áður hafi verið talið rétt að styðjast áfram við hin almennu líkamsmeiðingarákvæði 217. og 218. gr. laganna. Þó hafi sú breyting verið gerð með lögum nr. 27/2006 að sérstöku refsiþyngingarákvæði var bætt við 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Það hafi verið þess efnis að það skuli að jafnaði tekið til greina til þyngingar refsingu hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Nú stæðu sterk refsipólitísk og samfélagsleg rök til þess að setja sérstakt ákvæði um efnið. Mikilvægt væri að löggjafinn viðurkenndi sérstöðu slíkra brota og að heimilisofbeldi væri ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt. Tryggja þyrfti þeim sem búa við alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd. Líta þurfi til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felist. Enn fremur er því lýst að fyrirmynd ákvæðis frumvarpsins um ofbeldi í nánum samböndum sé sótt til hliðstæðra greina norsku hegningarlaganna. Líkt og við eigi í tilviki norsku ákvæðanna sé það meginmarkmið ákvæðisins að leggja áherslu á það ógnarástand sem þessi tegund ofbeldis geti skapað og þá langvarandi andlegu þjáningu sem því geti fylgt. Ákvæðum um ofbeldi í nánu sambandi sé þannig fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hafi yfir í lengri eða skemmri tíma þótt þeim verði jafnframt beitt um einstök alvarleg tilvik.

14. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins, sem varð að 218. gr. b almennra hegningarlaga, er varpað frekara ljósi á hvaða háttsemi skal að mati löggjafans falla undir verknaðarlýsingu 1. mgr. greinarinnar svo og hvað leiðir til þess að brot teljist stórfellt samkvæmt 2. mgr. Með 1. mgr. sé lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Ítrekað er að meginmarkmið ákvæðisins sé að ná til endurtekinnar eða alvarlegrar háttsemi. Ekki sé þó útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið nái það tilteknu alvarleikastigi. Minni háttar brot sem ekki næðu því stigi gætu eftir sem áður varðað við vægari refsiákvæði eins og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Tekið er fram að refsinæmi sé ekki bundið við verknað sem þegar geti falið í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki feli í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum. Þá er lýst atriðum sem leiði til þess að brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar teljist stórfellt þannig að það falli undir 2. mgr. hennar en það skuli ráðast af grófleika brotsins. Tekið er fram að við mat þar að lútandi skuli sérstaklega litið til þess hvort stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hafi hlotist af.

Niðurstaða

15. Í ákæru er verknaði ákærða lýst sem líkamsárás með tilgreindum áverkum á líkama brotaþola. Ekki er vísað sérstaklega til þess að ákærði hafi ógnað lífi, heilsu eða velferð hennar eins og rétt hefði verið í ljósi verknaðarlýsingar 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. c-lið og eftir atvikum d-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Við lestur ákærunnar er þó ljóst hverjar sakargiftir eru og var vörn ákærða ekki áfátt vegna framsetningar hennar, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

16. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 kemur ekki í hlut Hæstaréttar að endurmeta niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar. Ekkert er fram komið um meðferð málsins á fyrri stigum sem leiða á til annars en að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að ákærði hafi gerst sekur um þá atlögu gegn brotaþola sem þar er lýst og með þeim afleiðingum sem í ákæru segir. Kemur því einungis til úrlausnar hér fyrir dómi hvort háttsemi sú sem ákærði var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi verður færð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og þar var gert eða 1. mgr. 218. gr. b laganna eins og gert er í ákæru og jafnframt hver skal vera refsing ákærða.

17. Eins og að framan greinir lúta ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga að broti þar sem tilgreind tengsl eru eða hafa verið milli geranda og brotaþola og geta þau verið með ýmsum hætti. Jafnframt getur verið um að ræða margvíslega háttsemi geranda svo að ákvæðið eigi við. Þó er gert að skilyrði að háttsemin sé með þeim hætti að ógni lífi, heilsu eða velferð þess sem fyrir verður. Á hinn bóginn þarf brotaþoli ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo að heimfæra megi háttsemi til 1. mgr. greinarinnar en slíkt getur þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots og heimfærslu, einkum að því er varðar 2. mgr. hennar.

18. Samkvæmt orðum sínum einskorðast 1. mgr. 218. gr. b laganna heldur ekki við endurtekið atferli gagnvart brotaþola. Einstakt tilvik getur fallið þar undir sé um að ræða alvarlega ógnun við líf, heilsu eða velferð brotaþola án þess þó að atvik séu með þeim hætti að ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Mat á þessu verður einatt atviksbundið og með hliðsjón af tilgangi refsiákvæðis um brot í nánu sambandi svo sem lýst var að framan.

19. Gögn málsins bera með sér að ákærði og brotaþoli hafi verið par í um tvö ár og búið saman stóran hluta þess tíma. Fallist er á með hinum áfrýjaða dómi að tengsl þeirra hafi verið slík að heyri undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

20. Fram er komið að þegar atvik urðu höfðu ákærði og brotaþoli slitið samvistir. Birtist ákærði óvænt á heimili brotaþola að nóttu til og veittist að henni með því að ýta henni þannig að hún féll niður stiga, tók í hár hennar, skallaði hana í höfuð og tók kverkataki. Voru áverkar víðs vegar um líkama brotaþola þótt hver um sig hafi ekki talist verulegur. Er ljóst að brotaþoli hlaut áverka vegna fallsins og var þessi háttsemi ákærða einkar alvarleg. Var árás hans í heild sinni til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brotaþola en jafnframt er fram komið að hún varð fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að brotaþoli var varnarlaus gagnvart óvæntri, tilefnislausri og harkalegri atlögu ákærða á heimili sínu um miðja nótt. Verður talið að með atlögunni hafi ákærði á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu brotaþola og velferð. Háttsemi ákærða verður því felld undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

21. Brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir varðar allt að sex ára fangelsi. Í ljósi forsögu refsiákvæða almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi verður við ákvörðun refsingar vegna brots gegn 218. gr. b laganna ekki litið til refsiþyngingarákvæðis 3. mgr. 70. gr. þeirra. Ákærði á sér engar sérstakar málsbætur en haft er í huga að um var að ræða eitt tilvik og hefur sakaferill ákærða ekki áhrif til þyngingar refsingu hans. Þá er litið til 1., 3. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. laganna. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Að virtum sakaferli ákærða og því hve langur tími er liðinn frá atvikum máls er rétt að binda refsinguna almennu skilorði, eins og greinir í dómsorði.

22. Í héraði leið eitt ár frá þingfestingu málsins til dóms og er í dómi Landsréttar að finna athugasemd við þann drátt á meðferð málsins sem talinn var vera úr hófi fram. Á hinn bóginn liðu rétt tæpir 19 mánuðir frá áfrýjun málsins til Landsréttar og þar til dómur var þar upp kveðinn. Ekki eru fram komnar skýringar á þeim drætti sem einnig verður að telja aðfinnsluverðan.

23. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, 744.000 krónur.