Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2021

A ehf. (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
gegn
B (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Trúnaðarskylda
  • Samkeppnisákvæði
  • Skaðabætur
  • Vitni
  • Sönnun

Reifun

A ehf. höfðaði mál gegn B til heimtu bóta vegna ætlaðs brots hans gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum í kjölfar þess að honum var sagt upp störfum hjá A ehf. Byggði A ehf. málatilbúnað sinn einkum á tilteknu ákvæði í ráðningarsamningi aðila og því að B hefði á uppsagnartíma hafið undirbúning að samkeppni við A ehf., sem meðal annars hefði falist í stofnun einkahlutafélags og samskiptum við mikilvægan viðskiptavin A ehf., sem síðar færði viðskipti sín til einkahlutafélags B. Ágreiningur málsins laut að því hvort B hefði brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Einnig var deilt um hvort B hefði brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ráðningarsamningur aðila hefði ekki að geyma samkeppnisbann heldur hefði þar komið fram ósk A ehf. um að B hæfi ekki störf hjá samkeppnisaðila innan sex mánaða frá starfslokum. Ef A ehf. hefði viljað að umrætt ákvæði fæli í sér samkeppnisbann hefði honum borið nauðsyn til að orða ákvæðið með þeim hætti að enginn vafi léki á að það fæli í sér slíkt bann, enda yrði það ekki skýrt rýmra en eftir orðanna hljóðan. Hæstiréttur benti á að sönnunarbyrði fyrir því að B hefði brotið gegn ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu hvíldi á A ehf. Taldi rétturinn að A ehf. hefði ekki tekist að leiða nægar líkur að því að B hefði í raun gripið til nokkurra ráðstafana til að koma á viðskiptasambandi við tiltekinn viðskiptavin A ehf. áður en félagið rifti ráðningarsamningnum. Þá var ekki fallist á að B hefði brotið gegn 16. gr. c laga nr. 57/2005 eða þagnarskylduákvæði í ráðningarsamningi aðila. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu B.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2021. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 33.883.756 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2016 til 8. febrúar 2018 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð, vextir verði aðeins dæmdir frá dómsuppsögu og málskostnaður látinn niður falla.

Ágreiningsefni

4. Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðs brots hans gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum í kjölfar þess að honum var sagt upp störfum hjá áfrýjanda. Áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn einkum á tilteknu ákvæði í ráðningarsamningi aðila og því að stefndi hafi á uppsagnartíma hafið undirbúning að samkeppni við áfrýjanda, sem meðal annars hafi falist í stofnun einkahlutafélags og samskiptum við mikilvægan viðskiptavin áfrýjanda, sem síðar færði viðskipti sín til einkahlutafélags stefnda. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefndi hefur brotið gegn ákvæðum ráðningarsamningsins og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Einnig er deilt um hvort stefndi hefur brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

5. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. apríl 2021 á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu reglna um trúnaðarskyldur í vinnusambandi og eftir atvikum önnur atriði sem leyfisbeiðni var reist á.

Málsatvik

6. Stefndi var ráðinn til starfa hjá áfrýjanda árið 2005 og sá meðal annars um sölu á vörum frá […] félagi C, sem framleiðir ýmiss konar búnað fyrir [...] og þjónustu vegna þeirra. Viðskiptasamband áfrýjanda og forvera hans við hið […] félag mun hafa varað í rúma þrjá áratugi er því lauk í febrúar 2016.

7. Í ráðningarsamningi aðila 18. mars 2005 voru ákvæði um þagnarskyldu stefnda sem skyldu einnig gilda eftir að hann hætti störfum hjá áfrýjanda. Þar sagði að öll forrit, kerfisvinna, öflun viðskiptasambanda og þess háttar sem starfsmaður ynni við á launum hjá fyrirtækinu og allur afrakstur þess teldist eign fyrirtækisins. Í samningi aðila var síðan að finna svohljóðandi ákvæði:

Ef starfsmaður hættir störfum hjá A ehf. er óskað eftir að hann hefji ekki störf hjá samkeppnisaðila innan 6 mánaða frá starfslokum. Verði þess sérstaklega óskað og viðkomandi verði fyrir beinum fjárhagslegum skaða vegna þess, þá mun félagið bæta hann.

8. Í ráðningarsamningum tveggja annarra starfsmanna áfrýjanda sem gerðir voru annars vegar sama ár og samningur aðila og hins vegar ári síðar var ákvæði um trúnaðarskyldu. Þar sagði að ef starfsmaður hætti störfum hjá áfrýjanda væri honum „óheimilt að hefja störf hjá helstu samkeppnisaðilum innan 6 mánaða frá starfslokum, nema með skriflegu samkomulagi aðila.“ Í ákvæðinu voru einnig helstu samkeppnisaðilar tilgreindir.

9. Áfrýjandi sagði stefnda upp störfum 30. október 2015 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í uppsagnarbréfi kom ekki annað fram um ástæður uppsagnar en að þær væru það sem um hefði verið rætt. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann hafi reist uppsögnina meðal annars á ætluðum fjarvistum stefnda frá vinnu.

10. Hinn 3. nóvember 2015 var haldinn stofnfundur einkahlutafélagsins D og var stefndi kosinn formaður félagsins og eiginkona hans meðstjórnandi. Í samþykktum félagsins segir að tilgangur þess sé að flytja inn vörur, selja þær og þjónusta, auk þess að reka þær fasteignir, tæki og annað sem til þess þurfi.

11. Fyrir héraðsdómi bar stefndi að tilgangurinn með stofnun félagsins hefði verið að finna sér lífsviðurværi eftir að hafa verið sagt upp störfum. Þau hjónin hefðu ákveðið að stofna strax fyrirtæki en meðal annars hefði komið til greina að flytja inn vörur fyrir […] þar sem eiginkona stefnda væri […] og ræki sitt eigið […] fyrirtæki. Einkahlutafélagið D hefði tekið formlega til starfa í febrúar 2016 eftir að þriggja mánaða uppsagnarfresti hjá áfrýjanda lauk. Stefndi kvaðst hafa byrjað á að flytja inn vörur fyrir […]. Þá sagði stefndi að E, sem mun vera svæðis- og dreifingarstjóri hjá C, hefði haft samband við sig með samstarf í huga öðru hvoru megin við áramótin 2015 og 2016 og þá vitað að stefndi væri hættur hjá áfrýjanda. Stefndi hefði af því tilefni upplýst að hann gæti ekkert gert fyrr en að loknum uppsagnarfresti í febrúar 2016.

12. Fyrrgreindur starfsmaður C sendi tölvubréf 4. janúar 2016 til fyrirsvarsmanns áfrýjanda þar sem honum var tilkynnt að fyrirhugað væri að hefja samstarf við annað íslenskt fyrirtæki og af þeim sökum væri endir bundinn á samstarfið milli áfrýjanda og félagsins frá og með 1. febrúar 2016. Tilkynnt yrði um nafn fyrirtækisins innan tíðar. Í kjölfar þessa skiptust fyrirsvarsmaður áfrýjanda og fyrrgreindur starfsmaður C á tölvubréfum þar sem meðal annars var rætt um kröfu áfrýjanda um bætur úr hendi C vegna fjárfestingar í vörum félagsins og jafnframt var óskað eftir upplýsingum um nafn þess fyrirtækis sem taka ætti við af áfrýjanda.

13. Í málinu liggur fyrir rammasamningsútboð […] frá desember 2015 þar sem óskað var eftir tilboðum í […], […] og [...]. Stefndi lagði fram tilboð 3. febrúar 2016 um eftirtaldar vörur frá C: […]. Upphaflega stóð til að opna tilboð í janúar 2016 en því var seinkað til febrúar sama ár. Um tildrög tilboðsins bar stefndi fyrir héraðsdómi að útboðið hefði verið auglýst í fjölmiðlum en hann fyrst ákveðið að bjóða tilgreindar vörur C eftir að auglýst hefði verið seinkun á opnun tilboða.

14. Í framburði fyrrgreinds starfsmanns hins […] félags fyrir Landsrétti kom fram að enginn bindandi samningur hefði verið í gildi milli þess og áfrýjanda. Um tildrög þess að viðskipti með vörur C færðust til D ehf. kvaðst hann hafa verið í heimsókn hér á landi í nóvember 2015 og orðið þess áskynja að ekki væri nægileg áhersla lögð á vörur þeirra hjá áfrýjanda. Hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig þjónusta ætti C hjá áfrýjanda eftir stafslok stefnda og talið að brotthvarf hans gæti orðið til þess að minni áhersla yrði lögð á þeirra vörur. Hann kvað stefnda ekki að fyrra bragði hafa haft samband við C til þess að reyna að koma á viðskiptasambandi milli félagsins og D ehf. C hefði á hinn bóginn haft samband við stefnda í því skyni. Stefndi hefði svarað því til að hann væri skuldbundinn til loka janúar vegna samnings síns við áfrýjanda. Hefði samstarf við stefnda því ekki verið tekið upp fyrr en í febrúar 2016. Þá staðfesti vitnið að yfirlýsing frá júní 2018 stafaði frá sér. Í henni kom fram að samstarf milli C og D ehf. hefði byrjað í febrúar 2016 og að C hefði haft frumkvæði að því að hafa samband við stefnda í því skyni.

15. Með bréfi 21. janúar 2016 rifti áfrýjandi ráðningarsamningi við stefnda sökum „verulegra vanefnda og grófs brots gagnvart hagsmunum A ehf.“ Þar sagði að samningnum sem áður hefði verið sagt upp væri rift afturvirkt. Brotið var talið felast í því að stefndi hefði vélað til sín viðskiptamenn áfrýjanda og skaðað viðskiptasambönd félagsins. Áfrýjandi áskildi sér rétt til skaðabóta af þessum sökum.

16. Áfrýjandi fékk dómkvaddan sérfróðan matsmann [...] 2016 til þess að leggja mat á tjón vegna ætlaðra brota stefnda. Matsspurningar voru í átta liðum og var matsgerð skilað í nóvember 2017. Samkvæmt bréfi áfrýjanda til stefnda 8. janúar 2017 taldi áfrýjandi með vísan til matsins tjón sitt felast í fjárhagslegu virði viðskiptasambandsins við C, óendurkræfum kostnaði vegna kaupa á varahlutum, óendurkræfum kostnaði vegna markaðssetningar og ofgreiddum launum til stefnda á uppsagnarfresti, samtals að fjárhæð 33.883.756 krónur sem er stefnufjárhæð málsins.

Lagaumhverfi og reglur

Trúnaðarskylda

17. Almennt er viðurkennt að gagnkvæm trúnaðarskylda gildi á milli aðila ráðningarsamnings. Fá dæmi eru um að slík trúnaðarskylda sé lögfest en meðal þeirra var ákvæði 16. gr. c laga nr. 57/2005 sem var í gildi þegar atvik máls þessa áttu sér stað.

18. Þörf fyrir gagnkvæman trúnað í vinnusambandi er mjög rík þar sem náin tengsl eru á milli samningsaðila. Skylda til trúnaðar felur í sér að aðilar samningssambands skuli sýna hvor öðrum hæfilegt tillit og virðingu. Ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu í ráðningarsambandi er ætlað að sporna gegn misnotkun á aðstöðu, enda annast starfsmaður oft í starfi sínu mikil verðmæti sem vinnuveitandi hans á og starfsmanni hefur verið trúað fyrir og hann hefur oft aðgang að upplýsingum sem honum ber að gæta trúnaðar um. Að sama skapi gætir vinnuveitandi mikilvægra hagsmuna starfsmanns síns.

19. Trúnaðarskylda í vinnusambandi telst til svokallaðra aukaskyldna samningsaðila þar sem aðalskylda atvinnuveitanda er að greiða starfsmanni laun fyrir vinnuframlag sitt og aðalskylda starfsmanns að inna þau störf af hendi sem hann var ráðinn til. Afleiðingar þess að starfsmaður virðir ekki trúnaðarskyldu geta í undantekningartilvikum orðið þær að vinnusamningi er rift en algengara er að brot á trúnaðarskyldu leiði til vægari úrræða.

20. Ekki er með tæmandi hætti unnt að gera grein fyrir því hvað felst í trúnaðarskyldu í vinnuréttarsamhengi, en þar á meðal er upplýsinga- og tilkynningarskylda, skylda til þess að skýra það sem óljóst getur verið, skylda til þess að sýna heiðarleika, tillitssemi og eðlilega sanngirni, umönnunarskylda, þagnarskylda og bann við háttsemi sem felur í sér samkeppni við viðsemjanda andstætt efni ráðningarsamnings. Af síðastnefnda þætti trúnaðarskyldunnar leiðir að starfsmaður mætti almennt ekki hefja sjálfur atvinnurekstur í samkeppni við vinnuveitanda sinn eða vinna fyrir samkeppnisaðila samhliða vinnu sinni hjá vinnuveitanda.

21. Hin gagnkvæma trúnaðarskylda í vinnusambandi, þar á meðal sá þáttur hennar sem lýtur að samkeppnisvernd, helst í uppsagnarfresti. Starfsmanni ber því að sýna vinnuveitanda sínum trúnað á uppsagnarfresti hvort sem hann vinnur hann eða ekki. Eðli máls samkvæmt hefur þó áhrif að verið er að binda endi á samningssambandið. Jafnvel þótt trúnaðarskyldan haldist á uppsagnarfresti er eðlilegt að veita starfsmanni ákveðið svigrúm til þess að verða sér úti um annað starf, hvort sem er með stofnun eigin fyrirtækis eða með því að leita eftir nýju starfi, jafnvel hjá samkeppnisaðila. Hér vegast því á hagsmunir vinnuveitanda af því að starfsmaður haldi trúnað við hann og hagsmunir starfsmanns af því að leita sér að starfi þar sem þekking hans og geta koma að notum. Ráðning til starfa hjá samkeppnisaðila sem tekur gildi að loknum uppsagnarfresti felur almennt ekki í sér brot á trúnaðarskyldu, enda sé sýnt fram á að starfsmaður noti ekki upplýsingar, gögn eða annað frá vinnuveitanda sínum í starfi hjá eða fyrir samkeppnisaðila eða hyggi sjálfur á slíkan rekstur í því skyni.

22. Dæmi þess að með stofnun félags í samkeppni við vinnuveitanda meðan á uppsagnafresti stóð hafi verið brotið gegn trúnaðarskyldu í vinnusamningi má finna í dómi Hæstaréttar 30. apríl 1998 í máli nr. 398/1997 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1595. Þar hafði starfsmaður sagt upp starfi sínu hjá tilgreindu hlutafélagi með bréfi í september 1996 og skyldi uppsagnarfresti ljúka 31. desember sama ár. Málið höfðaði starfsmaðurinn á hendur vinnuveitanda til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Vinnuveitandinn bar því við að forsendur launagreiðslna hefðu brostið þar sem starfsmaðurinn hefði starfað í samkeppni við hann á uppsagnarfresti. Starfsmaðurinn hafði ásamt fleirum tekið þátt í stofnun hlutafélags 30. september 1996 og hefði tilgangi þess verið lýst með svipuðum hætti og starfsemi félagsins sem hann vann áður hjá. Hann var einnig kosinn í stjórn félagsins og ráðinn framkvæmdastjóri þess. Meðal gagna málsins var kynningarbréf hins nýja félags 4. desember 1996 sem ráða mátti að dreift hefði verið til þeirra sem félagið vildi ná viðskiptum við, þar á meðal tilgreindra viðskiptamanna þess félags sem starfsmaðurinn hafði starfað hjá. Sneru að minnsta kosti fjórir viðskiptamenn þess félags sér til hins nýja félags með viðskipti sín. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gerðir starfsmannsins eftir 30. september 1996 í tengslum við stofnun og starfsemi hins nýja félags hefðu verið ósamrýmanlegar þeim trúnaðarskyldum sem hann enn bar gagnvart launagreiðanda sínum þrátt fyrir uppsögn vinnusamnings.

23. Á sambærilegt ágreiningsefni reyndi í dómi Hæstaréttar 16. nóvember 2001 í máli nr. 398/2001. Í málinu lá fyrir að ráðningarsamningi starfsmanns félags hafði verið rift en hann hafði sjálfur íhugað að segja upp störfum og hefja samkeppnisrekstur við félagið sem hann starfaði hjá og meðal annars leitað ráðgjafar hjá lögfræðingi um réttarstöðu sína með tilliti til þess. Þegar eftir riftun ráðningarsamnings hófst hann handa við að hrinda í framkvæmd áformum sínum um rekstur í samkeppni við fyrri vinnuveitanda. Með dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að starfsmaðurinn hefði brotið gegn trúnaðarskyldu við vinnuveitanda með því einu að leita lögfræðiráðgjafar um réttarstöðu sína, enda ósannað að hann hefði gripið til ráðstafana til þess að hrinda þeim áformum í framkvæmd meðan á ráðningarsambandi stóð. Hann hafði á hinn bóginn brotið gegn trúnaðarskyldu með því að senda lögmanni sínum eintök af samningum við tíu stærstu viðskiptavini vinnuveitanda síns, auk annarra gagna, til þess að unnt væri að leggja mat á hvort þessir viðskiptavinir gætu hætt viðskiptum við vinnuveitandann og tekið þess í stað upp viðskipti við starfsmanninn. Taldi rétturinn að þetta hefði gefið vinnuveitanda tilefni til fyrirvaralausrar riftunar á ráðningarsamningi aðila.

Ákvæði 16. gr. c laga nr. 57/2005

24. Í þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 sagði að óheimilt væri í atvinnustarfsemi er lögin tækju til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar. Í 2. mgr. greinarinnar sagði að sá sem fengið hefði vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., mætti ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta skyldi gilda í þrjú ár frá því að starfi væri lokið eða samningi slitið. Í 3. mgr. sagði að þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefði verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar væri óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar. Í 4. mgr. sagði síðan að ef upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli hefði verið aflað á þann hátt að brotið hefði verið gegn ákvæðum 1. til 3. mgr. væri þeim sem brotlegur væri eða þeim sem hefði fengið upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.

25. Fyrir gildistöku laga nr. 57/2005 var samhljóða ákvæði að finna í 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 en eldra ákvæði af þessu tagi var að finna í 35. gr. laga nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Ákvæði um vernd atvinnuleyndarmála hafa verið í íslenskum rétti allt frá árinu 1933, sbr. 12. gr. laga nr. 84/1933 um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum.

26. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 57/2005 sagði um 13. gr., sem seinna varð 16. gr. c þeirra, að ákvæðið væri samhljóða 27. gr. þágildandi samkeppnislaga. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga sagði að greinin væri samsvarandi 35. gr. laga nr. 56/1978. Þar sagði jafnframt að hagsmunir þeir sem greinin verndaði væru atvinnuleyndarmál. Það hugtak væri hvorki skýrt í greininni né heldur rekstrar- og viðskiptaleyndarmál. Ekki væru skörp skil á milli þessara hugtaka og í einstöku leyndarmáli gætu falist þættir úr þeim báðum. Rekstrarleyndarmál varði fremur tæknileg atriði. Verslunar- eða viðskiptaleyndarmál geti til dæmis verið fólgin í sérstöku sölu- eða innkaupaskipulagi, skrám yfir viðskiptavini, sérstakri þekkingu á viðskiptavinum og ýmsum tölfræðilegum upplýsingum. Almenn þekking og reynsla starfsmanns geti ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að svo væri þyrfti að liggja fyrir þekking, sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og sem skipti máli fyrir starfsemina. Um atvinnuleyndarmál gæti verið að ræða þótt fleiri en eigandi eða stjórnandi vissu um það. Því fleiri sem þekktu atvinnuleyndarmál og ekki væru háðir þagnarskyldu, þeim mun meiri vafi væri um hvort hagsmunirnir væru þess eðlis að þeir ættu að njóta verndar sem atvinnuleyndarmál.

27. Lög um viðskiptaleyndarmál nr. 131/2020 leystu af hólmi 16. gr. c laga nr. 57/2005. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði að það fæli í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. Þar sagði jafnframt að hin nýju lög kæmu í stað sérákvæða um vernd atvinnuleyndarmála í 16. gr. c laga nr. 57/2005.

Niðurstaða

28. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að stefndi hafi, með því að stofna einkahlutafélag og eiga samskipti við mikilvægan viðskiptavin áfrýjanda sem síðar hafi fært viðskipti sín til einkahlutafélags stefnda, brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings aðila og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Jafnframt heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005.

29. Ákvæði í ráðningarsamningum af þeim toga sem greinir í 7. og 8. lið dómsins er almennt ætlað að takmarka heimildir starfsmanns til þess að vinna störf í samkeppni við vinnuveitanda eftir að ráðningarsambandi lýkur og eru eins konar framlenging á þeirri trúnaðarskyldu sem lýtur að samkeppnisvernd. Markmið með slíkum ákvæðum er að vernda samkeppnishagsmuni vinnuveitanda. Við gerð og beitingu slíkra samningsákvæða vegast á hagsmunir starfsmanns af því að geta nýtt hæfni sína í starfi hjá öðrum eða í eigin rekstri og hagsmunir vinnuveitanda af því að sporna gegn samkeppni við eigin rekstur. Í ljósi meginreglna fjármunaréttar um samningsfrelsi er aðilum ráðningarsamnings innan ákveðinna marka frjálst að semja með þessum hætti. Með því að undirgangast slíkt ákvæði í ráðningarsamningi getur komið til þess að aflahæfi starfsmanns verði skert verulega og getur ákvæði af þessum toga því orðið þungbært fyrir hann. Meðal annars af þeirri ástæðu eru ákveðnar skorður settar frelsi til að semja um samkeppnisbann, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem kveður á um heimild til að ógilda slík ákvæði ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða ef hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi starfsmannsins.

30. Ráðningarsamningur aðila hafði ekki að geyma samkeppnisbann heldur fyrrgreint ákvæði sem tekið er orðrétt upp í 7. lið dómsins og fól í sér ósk áfrýjanda um að stefndi hæfi ekki störf hjá samkeppnisaðila innan sex mánaða frá starfslokum. Í niðurlagi ákvæðisins kom fram vilji áfrýjanda til að bæta stefnda tjón ef stefndi yrði af starfi hjá samkeppnisaðila á þeim tíma. Ákvæðið er ekki skýrlega orðað, ólíkt ákvæðum í ráðningarsamningum þeirra tveggja annarra starfsmanna áfrýjanda sem lagðir hafa verið fram í málinu og fjallað er um í 8. lið dómsins. Í ljósi þess hversu miklar hömlur á atvinnufrelsi stefnda samkeppnisákvæði af þessum toga gat sett honum bar áfrýjanda, ef hann vildi að það fæli í sér samkeppnisbann, nauðsyn til að orða ákvæðið með þeim hætti að enginn vafi léki á að það fæli í sér slíkt bann, enda verður það ekki skýrt rýmra en eftir orðanna hljóðan. Þannig skýrt felur ákvæðið hvorki í sér skuldbindingu stefnda til að stofna ekki til atvinnurekstrar í samkeppni við áfrýjanda eftir lok ráðningarsambandsins né heldur afdráttarlaust bann við því að stefndi hæfi störf hjá samkeppnisaðila eftir lok þess.

31. Áfrýjandi verður samkvæmt framansögðu að bera hallann af óskýru orðalagi ákvæðisins og verður ekki á því byggt til stuðnings þeim málatilbúnaði hans að stefndi hafi með því að hefja samstarf við viðskiptavin áfrýjanda í kjölfar þess að ráðningarsamningi hans var rift 21. janúar 2016 brotið gegn ráðningarsamningi aðila.

32. Einkahlutafélag stefnda mun formlega hafa tekið til starfa í febrúar 2016. Í málinu liggur fyrir rammasamningsútboð […] í desember 2015 í […] og […] en stefndi bauð 3. febrúar 2016 tilgreindar vörur frá C í útboðinu. Jafnframt sendi svæðis- og dreifingarstjóri félagsins áfrýjanda tölvubréf 4. janúar 2016 þar sem tilkynnt var um að viðskiptum þess og áfrýjanda væri lokið. Þá væri félagið að hefja samstarf við annað íslenskt fyrirtæki en þess var ekki getið hvaða fyrirtæki var um að ræða. Hann bar fyrir dómi að hann hefði átt frumkvæði að því að hafa samband við stefnda í því skyni að leita eftir samstarfi við D ehf. en stefndi hefði ekki viljað að það hæfist fyrr en eftir lok ráðningarsamnings síns við áfrýjanda. Enn fremur liggur fyrir í málinu að stefndi var í samskiptum við C meðan á uppsagnarfresti hans stóð um áramótin 2015 til 2016.

33. Sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi brotið gegn ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu hvílir á áfrýjanda. Meta verður framburð vitnisins E fyrir dómi um að stefndi hafi ekki átt frumkvæði að viðskiptum við C meðan á uppsagnarfresti hans stóð í því ljósi að félagið sem hann starfar hjá á nú í viðskiptasambandi við stefnda, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar er til þess að líta að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á hið gagnstæða. Þau gögn sem áfrýjandi hefur skorað á stefnda að leggja fram, annars vegar um aðdraganda þess að C ákvað að færa viðskipti sín til D ehf. og hins vegar fylgigögn með tilboði félagsins í útboði […], án þess að við því hafi verið orðið eru ekki til þess fallin að létta sönnunarbyrði af áfrýjanda. Við sönnunarmatið er jafnframt horft til þess að áfrýjandi var ekki umboðsaðili fyrir C á Íslandi og hafði ekki einkasölusamning á vörum félagsins heldur gat félagið hvenær sem er fært viðskipti sín annað ef það taldi hagsmunum sínum betur borgið þannig.

34. Sönnunarstaða í málinu er því alls ólík þeirri sem reyndi á í dómi Hæstaréttar 1998 á bls. 1595, þar sem fyrir lá kynningarbréf þess félags sem starfsmaðurinn sem sagt hafði upp störfum hafði stofnað og dreift hafði verið til viðskiptavina þeirra sem félagið vildi ná viðskiptum við, þar á meðal tilgreindra viðskiptamanna félags þess sem starfsmaðurinn hafði áður starfað hjá. Kynningarbréfið var auk þess dagsett tæpum mánuði áður en uppsagnarfresti starfsmannsins átti að ljúka.

35. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjanda ekki tekist að leiða nægar líkur að því að stefndi hafi í raun gripið til nokkurra ráðstafana til að koma á viðskiptasambandi við C áður en áfrýjandi rifti ráðningarsamningi hans. Breytir þar engu um að stefndi og C voru í samskiptum um áramótin 2015 til 2016, enda liggur ekkert fyrir um að í þeim hafi stefndi brugðist trúnaðarskyldum sínum meðan á uppsagnarfresti stóð.

36. Um tilvísun áfrýjanda til 16. gr. c laga nr. 57/2005 segir í stefnu að tengsl stefnda og starfsfólks C hafi eingöngu myndast vegna starfa stefnda fyrir áfrýjanda. Öll sú þekking sem nauðsynleg hafi verið til að fá að flytja inn og selja og þjónusta vörur C hafi verið til komin vegna starfa hans hjá áfrýjanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda að stefndi hefði ekki haft þekkingu umfram aðra starfsmenn áfrýjanda á rekstri félagsins. Enda þótt stefndi hafi öðlast þekkingu og reynslu í störfum sínum fyrir áfrýjanda, sem síðar gat gagnast honum í öðrum störfum á svipuðum starfsvettvangi, var sú þekking ekki hluti af atvinnuleyndarmálum sem hann mátti ekki hagnýta sér í störfum í þágu einkahlutafélags síns eftir að ráðningarsambandi hans við áfrýjanda lauk. Samkvæmt þessu er ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn 16. gr. c laga nr. 57/2005 eða þagnarskylduákvæði í ráðningarsamningi aðila.

37. Með vísan til alls framangreinds verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Um málskostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A ehf., greiði stefnda, B, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.