Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2021

Dalseignir ehf. (Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)
gegn
Fer fasteignum ehf. og Pétri Péturssyni (sjálf)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbirtingablað
  • Stefnubirting
  • Frávísun frá Landsrétti staðfest

Reifun

Kærður var dómur Landsréttar þar sem máli D ehf. gegn F ehf. og P var vísað frá Landsrétti án kröfu. Var talið að ekki hefði verið heimild til að birta áfrýjunarstefnu málsins er varðaði P í Lögbirtingablaði samkvæmt b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem ekki hefði verið lögð fram beiðni um birtingu stefnunnar á Spáni þar sem P væri búsettur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að áfrýjunarstefna hefði hvorki í tilviki F ehf. né P verið birt með þeim hætti sem lög áskilja. Var hinn kærði dómur því staðfestur en tekið fram að borið hefði að leiða það til lykta með úrskurði en ekki dómi sbr. 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 5. mars. Kærður er dómur Landsréttar 12. febrúar 2021 þar sem málinu var vísað frá réttinum. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

4. Réttinum barst greinargerð varnaraðila þar sem þeir krefjast staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.

5. Svo sem fram kemur í hinum kærða dómi var áfrýjunarstefna í tilviki hvorugs varnaraðila birt með þeim hætti sem lög áskilja, en ekki hefur verið leitt í ljós að yfirvöld á Spáni hafi neitað eða látið hjá líða að verða við ósk um birtingu áfrýjunarstefnu á hendur varnaraðila Pétri, sbr. b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur.

6. Kærumálskostnaður verður felldur niður.

7. Það athugast að þar sem úrlausn Landsréttar fól í sér lyktir máls án þess að það væri flutt um efni bar að leiða það til lykta með úrskurði en ekki dómi, sbr. 2. málsliður 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.