Hæstiréttur íslands

Mál nr. 20/2022

Ingibjörg Pálsdóttir og Fossatún ehf. (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
Veiðifélagi Grímsár og Tunguár (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Lax- og silungsveiði
  • Félagafrelsi
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sameign
  • Viðurkenningarkrafa
  • Málsástæða
  • Málskostnaður
  • Sératkvæði

Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort V væri heimilt á grundvelli e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögunum í ljósi fyrirmæla 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um neikvætt félagafrelsi. Í dómi Hæstaréttar var rakið að við mat á því hvort leiga á veiðihúsi V til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils teldist nýting og ráðstöfun eigna veiðifélags til skyldrar starfsemi í skilningi e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 væri til þess að líta að þótt sá rekstur sem færi fram í veiðihúsi á veiðitímabili teldist samrýmast markmiðum 1. gr. laga nr. 61/2006 og almennur gisti- og veitingarekstur utan veiðitímabils væri skyldur slíkum rekstri yrði ekki sjálfkrafa dregin sú ályktun þar af að slík starfsemi utan veiðitímabils samrýmdist markmiðum laganna. Að virtum sjónarmiðum um meðalhóf og kröfum sem gera yrði til skýrleika og vandaðs undirbúnings lagaheimilda sem kunni að takmarka stjórnarskrárvarin mannréttindi og því að í e-lið 1. mgr. 37. gr. væri mælt fyrir um hlutverk félags með skylduaðild og heimildir þess til ráðstöfunar á eignum bæri að skýra ákvæðið og beita því með þeim hætti að með skyldri starfsemi væri vísað til verkefna sem samrýmist þeim markmiðum sem skylduaðild að félaginu væri grundvölluð á samkvæmt 1. gr. laganna. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að V hefði ekki sýnt fram á að útleiga veiðihússins utan skilgreinds veiðitímabils til almenns gisti- og veitingarekstrar fæli í sér nýtingu og ráðstöfun á eignum félagsins með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og að hún teldist nauðsynleg til þess að félagið gæti náð þeim markmiðum sem skylduaðild að því er ætlað að tryggja. V yrði því ekki á grundvelli e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 talin slík ráðstöfun heimil nema með samþykki allra félagsmanna sinna. Var því fallist á viðurkenningarkröfu áfrýjandans I með nánar tilgreindum hætti. Hins vegar var staðfest niðurstaða Landsréttar um sýknu V af kröfum F ehf.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. mars 2022. Þau krefjast þess hvort um sig að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Aðila greinir á um hvort stefnda sé heimilt á grundvelli e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögunum í ljósi fyrirmæla 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um neikvætt félagafrelsi.

5. Aðalkrafa áfrýjenda í málinu í héraði var upphaflega að höfnun stefnda 1. október 2018 á kröfu áfrýjandans Ingibjargar um úrsögn úr veiðifélaginu yrði dæmd ógild. Áfrýjandinn Fossatún ehf. féll frá kröfunni undir rekstri málsins í héraði en þessari aðalkröfu áfrýjandans Ingibjargar var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 8. nóvember 2019. Stendur þá eftir í málinu framangreind viðurkenningarkrafa beggja áfrýjenda sem upphaflega var varakrafa þeirra.

6. Í héraðsdómi og Landsrétti var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda.

7. Áfrýjunarleyfi var veitt 22. mars 2022, með ákvörðun nr. 2022-19, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi meðal annars um félagafrelsi og takmarkanir sem gerðar verði á því.

Málsatvik

8. Áfrýjandinn Ingibjörg er eigandi jarðarinnar Fossatúns í Borgarbyggð og eigandi áfrýjandans Fossatúns ehf. sem rekur þar ferðaþjónustu. Jörðinni Fossatúni fylgir veiðiréttur í Grímsá. Áfrýjandinn Ingibjörg er því félagsmaður í stefnda á grundvelli skylduaðildar að veiðifélagi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006.

9. Hið stefnda veiðifélag var stofnað af veiðiréttarhöfum Grímsár og Tunguár 1. maí 1971. Það reisti veiðihús á Fossási við Grímsá árið 1973 en á árunum 2002 og 2003 voru gerðar á því gagngerar endurbætur og viðbætur. Setustofu starfsfólks mun þá hafa verið breytt í fundarsal, komið á þráðlausu sambandi við allt að 50 ferðatölvur, sjónvarpi komið fyrir í öllum herbergjum og verönd smíðuð ármegin við húsið með tveimur heitum pottum. Í veiðihúsinu munu vera um 25 herbergi. Af þessum herbergjum munu um sex til átta vera notuð fyrir starfsfólk veiðihússins og veiðileiðsögumenn. Umbætur á húsinu munu hafa komið til vegna þess að viðhald hafði verið vanrækt um árabil, vegna aukinna krafna frá veiðimönnum og vegna áhuga veitingamanns sem þá starfaði hjá veiðifélaginu á að taka veiðihúsið á leigu yfir veturinn í eigin nafni. Veitt mun á tíu stangir að hámarki í Grímsá og algengast mun að tveir veiðimenn séu saman um hverja stöng.

10. Með samningi 23. september 2002 var húsið selt Stórlaxi ehf. á leigu til 10 ára, frá og með 1. apríl 2003, til að reka það sem veiðihús á veiðitímabili og til gisti- og veitingarekstrar utan þess. Því samningssambandi mun hafa lokið á árinu 2009 en þá gerði stefndi samning við leigjanda veiðiréttar, Veiðifélagið Hreggnasa ehf., um leigu á veiðihúsinu til loka veiðitímabils árið 2012.

11. Áfrýjandinn Ingibjörg fékk með dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 viðurkennt að stefnda væri óheimilt án samþykkis allra félagsmanna að leigja út veiðihús félagsins til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006.

12. Á árinu 2014 var gerður nýr samningur við Veiðifélagið Hreggnasa ehf. um leigu á veiðihúsinu frá 1. apríl 2015 til 31. október 2020 og tekið fram að leigutaka væri einungis heimilt að nýta húsið á veiðitímabili eins og það væri skilgreint í lögum nr. 61/2006.

13. Með lögum nr. 50/2015 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 var bætt inn í 1. mgr. 37. gr. síðarnefndu laganna nýjum e-lið þar sem kveðið er á um að hlutverk veiðifélags sé að nýta eignir þess og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og að því sé heimilt að ráðstafa eign félags utan veiðitímabils til skyldrar starfsemi.

14. Samþykktir stefnda voru staðfestar af Landbúnaðarstofnun 3. desember 2007 og birtar í B-deild stjórnartíðinda 16. janúar 2008. Verkefni veiðifélagsins eru tilgreind í 4. gr. samþykktanna en þau eru að viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og hafa umsjón með og ráðstafa veiði. Þá ber félaginu að vernda vistkerfi vatnafiska á félagssvæðinu og er heimilt að stunda fiskrækt. Samþykktunum mun ekki hafa verið breytt í kjölfar setningar framangreindra breytingalaga nr. 50/2015 en í þeim er ekki vikið að rekstri veiðihúss.

15. Á aðalfundi stefnda 19. mars 2016 var samþykkt með 23 atkvæðum gegn atkvæði áfrýjandans Ingibjargar tillaga um að stjórn félagsins væri heimilt að ráðstafa veiðihúsi þess að Fossási á þeim tíma sem ekki væri starfsemi í húsinu vegna þjónustu við veiðimenn. Heimilt yrði að ráðstafa því hvort sem væri til lengri eða skemmri tíma. Í hvívetna yrði farið eftir ákvæði e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 þannig að húsið yrði einungis leigt til skyldrar starfsemi. Yrði húsið leigt til lengri tíma þyrfti að bera slíkt undir félagsfund.

16. Áfrýjandinn Ingibjörg tilkynnti úrsögn sína úr stefnda með bréfi 29. maí 2018 en erindinu var hafnað af stefnda með bréfi 1. október sama ár. Var meðal annars vísað til þess að veiðifélögum væri óheimilt að veita veiðiréttarhöfum undanþágu frá hinni ófrávíkjanlegu skylduaðild að slíkum félögum samkvæmt lögum nr. 61/2006.

17. Stefndi gerði 20. júní 2021 samning við Veiðifélagið Hreggnasa ehf. um leigu á veiðihúsinu frá 15. október það ár til 31. desember 2031. Um leigutíma sagði meðal annars að leigutaka væri heimilt að nýta húsið allt árið en hann myndi virða væntanlega niðurstöðu dómstóla um starfsemi í veiðihúsum utan veiðitímabils. Samningurinn héldi gildi sínu hver sem niðurstaða dómstóla yrði í því máli.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjenda

18. Áfrýjendur byggja einkum á því að útleiga veiðihúss stefnda til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils sé stefnda óheimil sem skylduaðildarfélagi vegna fyrirmæla 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

19. Auk þess að vísa til þeirra málsástæðna sem raktar eru í hinum áfrýjaða dómi eru af hálfu áfrýjenda gerðar ýmsar athugasemdir við forsendur dómsins. Þau telja meðal annars að þar sé óútskýrt hvernig veitingarekstur í veiðihúsi utan veiðitímabils teljist skyld starfsemi í ljósi markmiða laga nr. 61/2006. Ekki nægi að vísa til athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 50/2015 heldur verði að gera þá kröfu að sjálfur texti laganna sé skýr þar sem um takmörkun á stjórnarskrárvörðum réttindum sé að ræða.

20. Þá vísa áfrýjendur til þess að í samþykktum stefnda sé ekki að finna heimild til ferðaþjónustu, veitingarekstrar eða gistiþjónustu heldur miði þær eingöngu að hefðbundinni starfsemi veiðifélags. Þar sé ekki að finna heimild til gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils eða til skyldrar starfsemi. Heimildir meirihluta í veiðifélagi til ráðstafana sem mæti andstöðu minnihluta verði að meta eftir ströngum mælikvarða og verði sannanlega að rúmast innan þess þrönga valdsviðs sem veiðifélagi sé ætlað að lögum og samþykktum sínum.

21. Áfrýjendur mótmæla þeirri forsendu Landsréttar að útleiga veiðihúss til gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils feli í sér hagkvæma og arðbæra nýtingu eigna veiðifélags. Þeir telja að uppbygging veiðihússins hafi ekki þjónað þeim tilgangi sem mælt sé fyrir um í 1. gr. laga nr. 61/2006 heldur hafi markmið með endurbótum og viðbyggingu verið að leigja það út utan veiðitímabils. Áfrýjendur eru ósammála því að íburðarmikil uppbygging veiðihússins og útleiga þess hafi verið hagkvæm eða arðbær fyrir stefnda eða félagsmenn hans. Þeir vísa til þess að nær samfelldur taprekstur hafi verið á rekstri þess á undanförnum árum. Þótt þessi uppbygging hafi verið fjárhagslegur baggi á veiðifélaginu og rýrt arðsemi af sölu veiðiréttar ryðji það ekki burt hefðbundnum skilyrðum stjórnarskrárinnar um takmarkanir á eignarrétti og félagafrelsi. Áfrýjendur telja að ákvörðun stefnda um leigu veiðihússins utan laxveiðitímabils feli í sér þátttöku í frjálsum og áhættusömum samkeppnisrekstri utan háannatíma og óvissa ríki um hvort slík ákvörðun leiði til aukinnar arðsemi fyrir félagsmenn.

22. Áfrýjendur gagnrýna að í hinum áfrýjaða dómi sé ekki minnst á áhrif ákvörðunar stefnda um leigu veiðihússins til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils á eignarréttindi þeirra félagsmanna sem ekki vilja ráðstafa sameign sinni með þessum hætti. Þeir telja að meirihluti félagsmanna geti ekki þvingað andmælendur sína til samstarfs í slíkum rekstri sem hér um ræðir í skjóli skylduaðildar að veiðifélagi sem ætlað sé annað hlutverk.

23. Áfrýjendur telja að niðurstaða málsins eigi að velta á því hvort knýjandi samfélagslegar þarfir eru á að takmarka félagafrelsi þeirra með útleigu á veiðihúsi stefnda utan veiðitímabils í andstöðu við félagsmann. Löggjafinn hafi auk þess enga afstöðu tekið til stjórnskipulegs gildis laga nr. 50/2015 við setningu þeirra þótt fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 hafi gefið fullt tilefni til þess.

Helstu málsástæður stefnda

24. Stefndi telur að viðurkenningarkrafa áfrýjenda hafi í upphafi ekki verið studd þeim rökum að útleiga veiðihúss félagsins til gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils væri andstæð 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þeirri málsástæðu hafi aðeins verið teflt fram til stuðnings upphaflegri kröfu sem laut að höfnun stefnda á úrsögn áfrýjandans Ingibjargar úr veiðifélaginu yrði dæmd ógild. Þeirri kröfu áfrýjandans Ingibjargar hafi verið vísað frá héraðsdómi og Fossatún ehf. hafi fallið frá henni. Þar sem málsástæðunni hafi fyrst verið hreyft til stuðnings viðurkenningarkröfunni í greinargerð til Landsréttar hafi hún verið of seint fram komin og komist því ekki að í málinu.

25. Stefndi telur liggja í augum uppi að gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi utan veiðitímabils sé skyldur þeirri starfsemi sem rekin sé í veiðihúsi á veiðitímabili og vísar auk þess til athugasemda í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2015 þar sem þetta sé sérstaklega tilgreint.

26. Enga þýðingu hafi þótt heimild til útleigu á veiðihúsi utan veiðitímabils komi ekki fram í samþykktum stefnda enda um lögbundna heimild veiðifélags að ræða. Þá skipti engu varðandi niðurstöðu málsins þótt gisti- og veitingarekstur utan veiðitímabils hafi einkenni starfsemi á vettvangi einkaréttar. Ekki skipti heldur máli þótt rekstur veiðihússins hafi skilað tapi eða hagnaði á árunum 2000 til 2009 þar sem markmið með útleigunni sé að skapa arð fyrir veiðiréttarhafa og fá inn einhverjar tekjur á móti óhjákvæmilegum rekstrarkostnaði sem falli til allt árið.

27. Stefndi vísar til þess að með tilkomu e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 hafi orðið sú breyting að ekki þurfi lengur samþykki allra félagsmanna veiðifélags til ráðstöfunar veiðihúss veiðifélags utan veiðitímabils í samræmi við ólögfestar reglur um sérstaka sameign heldur nægi að einfaldur meirihluti félagsmanna samþykki slíka ráðstöfun á löglega boðuðum fundi, sbr. meginreglu 12. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 þar sem kveðið sé á um að afl atkvæða ráði úrslitum.

28. Loks telur stefndi að með skylduaðild að veiðifélagi sé stefnt að því að gæta hagsmuna allra félagsmanna. Útleiga veiðihúss til gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils feli í sér arðbæra og hagkvæma nýtingu eigna veiðifélags og stuðli að því að félagsmenn geti notið arðs af veiðinni og eignum sem henni tengjast.

Löggjöf

29. Af hálfu áfrýjenda er byggt á 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Í 1. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi en í 2. mgr. greinarinnar er ákvæði um svonefnt neikvætt félagafrelsi og hljóðar það svo:

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

30. Í 2. málslið 2. mgr. felst undantekning frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 1. málslið að rétturinn til að standa utan félaga sé verndaður. Ákvæði þetta kom inn í stjórnarskrá með 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Í athugasemdum með umræddri 12. gr. í frumvarpi sem varð að þeim lögum voru færð þau rök fyrir skylduaðild vegna réttinda annarra að við ákveðnar aðstæður gætu tengsl á milli hagsmuna manna orðið svo náin að nauðsynlegt þætti að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvors eða hvers annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Veiðifélög voru tekin sem dæmi um þessa aðstöðu og tekið fram að í slíkum félögum sé eigendum veiðiréttar gert að standa að sameiginlegu félagi vegna þeirra nánu tengsla sem eru á milli hagsmuna þeirra.

31. Ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi á sér hliðstæðu í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en greinin fjallar um funda- og félagafrelsi og hljóðar svo:

1. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.

32. Ákvæði um skilyrðislausa skyldu manna til að mynda með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi kom fyrst inn í lög um lax- og silungsveiði með 1. mgr. 44. gr. laga nr. 38/1970 um breyting á lögum nr. 53/1957 um lax- og silungsveiði. Samkvæmt 64. gr. fyrrnefndu laganna voru þau felld inn í meginmál þeirra síðargreindu og gefin út sem lög nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/1970 sagði meðal annars um þessa tilhögun:

Er fyrirhugað að breyta þeirri tilhögun, sem nú er, þ.e. að veiðifélög starfi við sum fiskihverfi og eigi við önnur, enda er stjórn og rekstur veiðimála í góðu lagi, þar sem veiðifélögin starfa, til mikils gagns og hagsbóta fyrir veiðibændur. En þar sem veiðifélög eru eigi starfandi, er skipulagsleysi ríkjandi og fiskrækt vart hugsanleg vegna skorts á samstarfi. Er slíkt ástand til vandræða fyrir menn almennt við einstök fiskihverfi, þó að einstakir veiðibændur kunni að koma ár sinni vel fyrir borð vegna skipulagsleysis.

33. Í málinu reynir á ákvæði laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði en samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Í 1. mgr. 37. gr. laganna, með síðari breytingum, er mælt fyrir um skylduaðild að veiðifélagi og hlutverk þess en þar segir:

Í því skyni að markmiðum laga þessara skv. 1. gr. verði náð er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Hlutverk slíks félags er m.a. eftirfarandi:
a. að sjá til þess að reglum laga þessara og samþykktum viðkomandi félags um veiðistjórnun og veiðiaðferðir sé framfylgt á félagssvæðinu,
b. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra,
c. að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra,
d. að ráðstafa rétti til stangveiði í fiskihverfi í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu,
e. að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn; heimilt er veiðifélagi að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi,
f. að hafa að öðru leyti með höndum verkefni þau sem því eru falin í lögunum og varða framkvæmd þeirra.

34. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2006 var fjallað ítarlega um skylduaðild að veiðifélögum. Þar sagði meðal annars að heimildir löggjafans til að mæla fyrir um skylduaðild að veiðifélögum samkvæmt VI. kafla frumvarpsins helguðust af 2. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum sem það ákvæði væri byggt á. Þar var einnig vísað til 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu 30. júní 1993 í máli nr. 16130/90, Sigurður Sigurjónsson gegn Íslandi, og 29. apríl 1999 í máli nr. 25088/94, Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi. Komist var að þeirri niðurstöðu í athugasemdum með frumvarpinu að í langflestum tilvikum stæðist það fyrirkomulag sem hér væri við lýði um skylduaðild veiðiréttarhafa að veiðifélögum 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með frumvarpinu væri ætlunin að auka enn frekar réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum. Væri það meðal annars gert með því að fjölga þeim atriðum sem veiðifélögum væri gert skylt að taka upp í samþykktir sínar með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku á vettvangi veiðifélaga skýrari og skilvirkari.

35. Í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 er mælt fyrir um að félagsmenn veiðifélags séu allir skráðir veiðiréttarhafar á félagssvæðinu samkvæmt 12. gr. laganna en um atkvæðisrétt þeirra fari samkvæmt 40. gr. þeirra. Með 2. gr. laga nr. 14/2014 var bætt við 2. mgr. 37. gr. nýjum málslið þess efnis að félagsmenn beri ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags. Ekki var þó hreyft við 1. mgr. 42. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að kostnað af starfsemi veiðifélags skuli félagsmenn greiða í því hlutfalli sem þeir taki arð. Í 40. gr. laga nr. 61/2006 er fjallað um atkvæðisrétt í veiðifélagi og töku ákvarðana þar á meðal um hvenær aukins meirihluta atkvæða er krafist við ákvarðanir á félagsfundi. Þar eru ekki sérstök fyrirmæli um töku ákvarðana um nýtingu eða ráðstöfun eigna veiðifélags en í 12. mgr. greinarinnar segir að um málefni sem ekki sé sérstaklega kveðið á um í lögum eða samþykktum félags ráði afl atkvæða.

36. Eins og fyrr greinir kom ákvæði e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 inn í lögin með 1. gr. laga nr. 50/2015. Áður höfðu ekki verið í lögunum ákvæði um nýtingu og ráðstöfun á eignum veiðifélags. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að umræddum lögum sagði að tilefni þess væri meðal annars dómur Hæstaréttar Íslands 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 þar sem reynt hefði á reglur um heimildir veiðifélags til meðferðar og ráðstöfunar eigna þess. Var hluti af forsendum dómsins rakinn í athugasemdunum. Um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga væru engin ákvæði í gildandi lögum og með hliðsjón af dóminum og lögfræðilegri álitsgerð sem Landssamband veiðifélaga hefði aflað væri brýnt að bæta þar úr. Í athugasemdunum sagði síðan:

Því þótti rétt að bæta við lögin nýju, almennu ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga. Einnig var talið rétt að bæta við lögin sérstöku ákvæði um heimild veiðifélags til að ráðstafa eign þess utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi. Með því er ætlunin að tryggja að veiðifélög geti nýtt eignir til arðberandi starfsemi utan veiðitíma en þó þannig að þær séu nýttar til skyldrar starfsemi eins og gerist um veiðitíma. Ákvæðið hefur þá þýðingu að löglega boðaður fundur í veiðifélagi geti tekið slíka ákvörðun með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, í stað þess að afla þurfi samþykkis allra veiðiréttarhafa félagsins eins og nú háttar til. Frumvarpið byggist á þeim rökum m.a. að veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar og eru fjárhagslegs eðlis og fara á grundvelli skylduaðildar veiðiréttarhafa að félaginu með ráðstöfun fjárhagslegra eigna þess. Því ber stjórnum veiðifélaga að leitast við að hámarka þann arð sem veiðiréttarhafar geti fengið af arðberandi eign sinni í veiðifélaginu líkt og á við um ráðstöfun veiðiréttar á félagssvæðinu.

37. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarpið sagði meðal annars svo:

Það fellur undir hlutverk veiðifélags að eiga eignir og telur nefndin eðlilegt að veiðifélag geti einnig ráðstafað eignum svo fremi að slík ráðstöfun sé í samræmi við markmið laganna. Nefndin áréttar að í 1. gr. frumvarpsins er heimild veiðifélags til að ráðstafa eign utan veiðitíma bundin því skilyrði að um skylda starfsemi sé að ræða og verður umrædd starfsemi því að falla undir markmið laganna.

Niðurstaða

38. Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnda er heimilt að selja veiðihús félagsins að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006. Kröfugerð áfrýjenda er sambærileg viðurkenningarkröfu þeirra sem fallist var á í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 að því marki að viðurkennt var að stefnda væri óheimilt án samþykkis allra félagsmanna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006. Við munnlegan flutning þessa máls fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjenda áréttað að sú þrenging sem gerð var á viðurkenningarkröfunni í fyrrgreindum dómi rúmaðist einnig innan viðurkenningarkröfu þeirra í þessu máli. Ekki er ágreiningur með aðilum um hvað felist í afmörkuninni almennum gisti- og veitingarekstri í kröfugerð áfrýjenda.

39. Sem fyrr segir heldur stefndi því fram að sú málsástæða áfrýjenda í stefnu til héraðsdóms að útleiga veiðihúss stefnda til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils sé stefnda óheimil sem skylduaðildarfélagi vegna 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar hafi aðeins verið sett fram til stuðnings upphaflegri aðalkröfu en ekki viðurkenningarkröfunni. Þar sem aðalkrafan sé ekki lengur til umfjöllunar í málinu hafi þessari málsástæðu verið of seint hreyft til stuðnings viðurkenningarkröfunni og eigi hún ekki að komast að í málinu.

40. Í stefnu áfrýjenda til héraðsdóms er fjallað um málsástæður og lagarök fyrir báðum kröfum þeirra í sex tölusettum köflum. Eiga fyrstu þrír kaflarnir við um báðar kröfur beggja áfrýjenda. Í upphafi fyrsta kafla segir að í hnotskurn snúist málið um hvort veiðifélag getur staðið að gisti- og veitingarekstri í veiðihúsi utan veiðitímabils, það er hvort slíkur rekstur, sem hafi þá engin bein tengsl við sölu veiðileyfa í ánni, sé innan þess ramma sem skylduaðildarfélagi sé heimilt að sinna. Þá sé deilt um hvort hin lögbundna skylduaðild að stefnda samræmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og eignarrétt. Í fimmta kafla stefnu er fjallað sérstaklega um þá málsástæðu að veiðifélögum sé óheimilt að viðhafa aðra starfsemi en tilgreind sé í lögum nr. 61/2006, einkum 37. gr. þeirra. Vísað er til þess að vegna 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar þurfi að tilgreina skylduaðild í lögum svo og þau lögbundnu hlutverk sem viðkomandi félagi sé ætlað að sinna. Sérstaklega er tilgreint að stjórnarskráin heimili ekki félagsskyldu til aðkomu eða þátttöku í rekstri sem sé utan lögbundins hlutverks félags. Almennur gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi stefnda standi ekki í nánum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélagsins og samrýmist hvorki hlutverki né markmiðum veiðifélaga.

41. Í dómum héraðsdóms og Landsréttar er fjallað um viðurkenningarkröfu áfrýjenda í tengslum við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt framansögðu leikur ekki vafi á að umræddri málsástæðu hefur frá upphafi verið haldið fram af hálfu áfrýjenda til stuðnings báðum upphaflegum kröfum þeirra og kemst hún því að í málinu. Hins vegar verður engan veginn séð hvernig þessi málsástæða getur stutt viðurkenningarkröfu áfrýjandans Fossatúns ehf. sem ekki á félagsaðild að stefnda.

42. Réttur manna samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár til að standa utan félaga takmarkast sem fyrr segir af ákvæði 2. málsliðar sömu málsgreinar sem mælir fyrir um að með lögum megi þó ákveða skyldu til aðildar að félagi ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

43. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar um neikvætt félagafrelsi hefur reynt á hvort lagaákvæði um skylduaðild að félagi helguðust af almannahagsmunum eða réttindum annarra. Jafnframt hefur komið til úrlausnar hvort innheimta félagsgjalda eða tilteknar ráðstafanir og starfsemi í skylduaðildarfélagi sem lagaákvæði eða samþykktir þess heimila samræmast því hlutverki félags sem skylduaðild réttlætist af. Þannig var í dómi Hæstaréttar 19. febrúar 1998 í máli nr. 259/1997, sem er að finna á bls. 718 í dómasafni réttarins það ár, tekið undir með héraðsdómi að skylduaðild stefnda að Lögmannafélagi Íslands heimilaði ekki stjórn þess að krefja félagsmenn um önnur gjöld en þau sem þyrfti til að sinna því stjórnsýslu- og úrskurðarhlutverki sem því væri ætlað samkvæmt lögum nr. 61/1942 um málflytjendur. Sá tilgangur félagsins samkvæmt 1. gr. samþykkta þess að gæta hagsmuna félagsmanna væri víðtækari en því hlutverki næmi. Í dómi Hæstaréttar 6. mars 2014 í máli nr. 144/2014 var fjallað um skylduaðild að Félagi fasteignasala samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og hvort hún samrýmdist skilyrði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Talið var að við mat á nauðsyn slíkrar skyldu væri ekki unnt að horfa til annarra atriða varðandi hlutverk félagsins en þeirra sem mælt væri fyrir um í lögum. Við það mat yrði þó ekki aðeins litið til þess eins sem mælt væri fyrir um í lögunum heldur yrði vegna meginreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf að gæta jafnframt að því hvort lagaboð íþyngdi mönnum að óþörfu og unnt yrði að ná sama markmiði með öðru og vægara móti. Niðurstaðan var sú að skylduaðild væri ekki nauðsynleg til þess að félagið gæti sinnt því hlutverki sem því væri falið með lögum.

44. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 sagði orðrétt:

Í lögum nr. 61/2006 er réttarstaða veiðifélaga ekki skilgreind með skýrum hætti. Þó er tekið fram í 6. mgr. 37. gr. laganna að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga og í arðskrárhlutfalli. Var þetta skýrt svo í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2006 að með þessu væri áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft væri ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda heldur teldust sjálfstæðar eignir félags tilheyra einstökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár. Þá er í 5. mgr. sömu lagagreinar sú regla um skuldskeytingu að taki nýr aðili við veiðirétti samkvæmt II. kafla laganna fyrir afsal eða á grundvelli ábúðarsamnings sé honum skylt að gerast félagi í veiðifélagi og taka á sig skuldbindingar fráfarandi félagsmanns. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna skulu félagsmenn greiða kostnað af starfsemi veiðifélags í því hlutfalli sem þeir taka arð og sagði um þá skipan mála í athugasemdum með síðastgreindu frumvarpi að hún væri í góðu samræmi við meginreglur íslensks réttar um óskipta sameign. Þótt réttarstaða veiðifélaga sé ekki skilgreind berum orðum í lögum nr. 61/2006 er af framansögðu ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við er með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti eru í sérstakri sameign. Af því leiðir að þegar reglum laga nr. 61/2006 sleppir, þar á meðal hvað varðar heimildir félagsmanna til ákvörðunar um nýtingu og ráðstöfun eigna á forræði veiðifélags með eða án löggernings, gilda almennar reglur eignarréttar um sérstaka sameign. Auk þess má eftir því sem við á hafa nokkra hliðsjón af lagaákvæðum um afmarkaða flokka sérstakrar sameignar eins og reglum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

45. Í dóminum sagði jafnframt að samkvæmt almennum reglum eignaréttar gilti sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þyrfti til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem væru meiri háttar þótt venjulegar gætu talist. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 26/1994 giltu sérstakar reglur við ákvarðanatöku um sameiginleg málefni í fjöleignarhúsum og væri þar greint á milli ferns konar tilvika. Í fyrsta lagi þyrfti til þeirra ákvarðana sem greinir í A-lið ákvæðisins samþykki allra eigenda. Meðal þeirra tilvika væri ráðstöfun á verulegum hluta sameignar, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Í því ákvæði segði að sameign fjöleignarhúss yrði ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema allir eigendur væru því samþykkir og gilti hið sama um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar.

46. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar nr. 676/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að í skylduaðild að veiðifélagi fælist undantekning frá þeirri meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan mætti skylda til aðildar að félagi en í þeirri skipan væri jafnframt fólgin takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda hvað eignarrétt að veiði varðaði. Í dóminum segir enn fremur:

Af þessu leiðir að viðfangsefni veiðifélaga takmarkast á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn gagngert felur þeim og ótvírætt þarf að vera að þau séu í nánu samhengi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 kemur fram að tilvist veiðifélaga og skylduaðild að þeim er ætlað að tryggja að markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð, en markmið laganna samkvæmt þeirri grein er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna þar og verndun þeirra. Í þessu felst meðal annars að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða henni ákvörðun um gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi, sem reist hefur verið, á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 fellur tvímælalaust innan þeirra marka sem lög setja starfsemi veiðifélaga, sbr. c. og d. liði 1. mgr. 37. gr. laganna. Við töku ákvörðunar um slík málefni gildir sú regla 8. mgr. 40. gr. þeirra að afl atkvæða ræður ef ekki er á annan veg mælt í lögum eða samþykktum veiðifélags. Á hinn bóginn er ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar í veiðihúsi utan skilgreinds veiðitíma meiriháttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gildir þá einu hvort hún telst venjuleg eða óvenjuleg. Af þessu leiðir að til slíkrar ákvörðunar þarf samkvæmt þeim reglum samþykki allra félagsmanna.

47. Í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er sem fyrr segir að finna ákvæði um félagafrelsi. Þótt sáttmálinn hafi ekki að geyma sjálfstætt ákvæði um neikvætt félagafrelsi hefur verið talið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að rétturinn til að standa utan félaga njóti verndar 1. mgr. 11. gr. hans með þeim takmörkunum sem leiði af 2. mgr. greinarinnar.

48. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 13. ágúst 1981 í málum nr. 7601/76 og 7806/77, Young, James og Webster gegn Bretlandi, var talið að orðið nauðsyn í skilningi 2. mgr. 11. gr. sáttmálans yrði ekki skýrt svo rúmt að nægjanlegt væri að lagaákvæði væri gagnlegt eða ákjósanlegt. Þá var lögð áhersla á meðalhóf með því að takmarkanir á félagafrelsi mættu ekki vera víðtækari en nauðsynlegt væri til að ná því lögmæta markmiði sem stefnt væri að með löggjöf. Var þetta sjónarmið ítrekað í dómi í fyrrgreindu máli Chassagnou o.fl. gegn Frakklandi sem laut að skylduaðild að veiðifélagi. Í síðari dómum mannréttindadómstólsins hefur verið talið að við mat á því hvort meðalhófs hafi verið gætt í löggjöf væri mikilvægt að líta til þess hvort og þá hversu vandað mat á nauðsyn lagasetningar hafi farið fram af hálfu löggjafarvaldsins, sbr. til dæmis dóm réttarins 22. apríl 2013 í máli nr. 48876/08, Animal Defenders International gegn Bretlandi.

49. Sem fyrr segir er markmið laga nr. 61/2006 samkvæmt 1. gr. þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Þessi markmið lúta í senn að mikilvægum almannahagsmunum og hagsmunum annarra. Ekki er um það deilt í málinu að skylduaðild að veiðifélagi, sem er lögbundin samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 í þeim tilgangi að markmiðum 1. gr. laganna verði náð, telst nauðsynleg til að veiðifélag geti sinnt lögmæltu hlutverki sínu bæði vegna almannahagsmuna og réttinda annarra í skilningi 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

50. Samkvæmt framangreindri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að þar sem lögboðin skylduaðild að veiðifélagi felur í sér takmörkun á þeirri vernd sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að veita rétti manna til að standa utan félaga verða heimildir slíks félags í lögum til ráðstöfunar og ákvarðanatöku um eignarréttindi félagsmanns gegn vilja hans að vera skýrar og afdráttarlausar og mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að félag geti náð þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja.

51. Við skýringu á ákvæði e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 og þeim heimildum sem ákvæðið veitir veiðifélagi til að nýta eignir félagsins og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn, þar á meðal til að ráðstafa eign þess utan veiðitímabils og þá til skyldrar starfsemi, verður að líta til þess að með lögum nr. 50/2015 var ekki hróflað við ákvæði 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Þar er mælt fyrir um að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eigi og í arðskrárhlutfalli. Þetta ákvæði var í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2006 skýrt þannig að með því væri áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft væri ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda heldur teldust sjálfstæðar eignir félagsins tilheyra einstökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár. Við þessu ákvæði var heldur ekki hróflað þegar bætt var nýjum málslið við 2. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 með lögum nr. 14/2014 þess efnis að félagsmenn í veiðifélagi beri ekki persónulega ábyrgð á fjárskuldbindingum veiðifélags. Síðastnefnda breytingin á lögunum fær ekki með góðu móti samrýmst 1. mgr. 42. gr. þeirra sem mælir fyrir um að kostnað af starfsemi veiðifélags skuli félagsmenn greiða í því hlutfalli sem þeir taki arð.

52. Samkvæmt framangreindu eru ákvæði þau sem komu inn í lög nr. 61/2006 með lögum nr. 14/2014 og 50/2015 í nokkru ósamræmi við hugtakanotkun í öðrum ákvæðum laganna og þá grundvallarhugsun sem samkvæmt framansögðu lá að baki setningu laga nr. 61/2006 um eignaréttarstöðu og eignarheimildir veiðifélags og félagsmanna og ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum sem stofnað var til í rekstri veiðifélaga. Eftir sem áður verður að líta svo á að eignir veiðifélaga séu í sérstakri sameign veiðiréttarhafa og að taka ákvarðana í félagi um ráðstöfun þeirra eigna sem verða til í starfsemi þess lúti óskráðum reglum um ákvarðanatöku varðandi sérstaka sameign að því leyti sem skýr ákvæði laganna leiða ekki til annarrar niðurstöðu.

53. Af ársreikningum stefnda og skýringum með þeim er ljóst að tekjur af leigu veiðiréttar renna ekki óskipt til veiðiréttareigenda sem arður af veiðiréttindum heldur er hluta af þeim varið til að standa straum af kostnaði sem til fellur í rekstri veiðifélagsins. Fyrir liggur að stefndi hefur gert samninga um leigu á veiðirétti á félagssvæði sínu og um leigu á veiðihúsinu að Fossási. Hafa verður í huga að ekki er loku fyrir það skotið að tekjur stefnda af leigu veiðiréttar séu hærri en ella væri vegna þeirrar fjárfestingar sem félagið hefur ráðist í með byggingu veglegs veiðihúss en um það liggur þó ekkert fyrir. Hvað sem því líður er ljóst að lengst af hefur kostnaður félagsins vegna veiðihússins verið umfram tekjur af leigu þess. Enda þótt almennt megi ætla að leiga veiðihússins til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006 sé til þess fallin að skila veiðifélagi tekjum umfram viðbótarkostnað sem félagið kann að hafa af slíkri útleigu hefur stefndi ekki sýnt fram á í málinu að það eigi við um útleigu á veiðihúsi hans. Við úrlausn málsins verður að líta til þess að áfrýjandinn Ingibjörg ber sem félagsmaður í stefnda ábyrgð á kostnaði af starfsemi félagsins í því hlutfalli sem hún tekur arð á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga nr. 61/2006 og verður að minnsta kosti að sæta því að kostnaður umfram tekjur af veiðihúsinu dragist frá veiðiarði hennar. Þá má ætla að meiri fjárhagsleg áhætta sé af því að leigja veiðihúsið út utan skilgreinds veiðitímabils en innan.

54. Þær takmarkanir sem settar eru heimildum skylduaðildarfélaga til ráðstafana og þær kröfur sem gerðar hafa verið til ákvarðana sem varða réttindi félagsmanna hafa verið leiddar af stjórnarskrárvörðum mannréttindum einstakra manna til að standa utan félaga. Við mat á því hvort lagaheimild til tiltekinnar ráðstöfunar sem er í andstöðu við vilja félagsmanns sé nægilega skýr og jafnframt nauðsynleg til þess að ná þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja verður að líta til þess hvort hagsmunir einstakra félagsmanna séu fyrir borð bornir eða stefnt í óvissu að óþörfu.

55. Ljóst er af athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2015 að fyrrnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 var megintilefni lagasetningarinnar. Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við Landssamband veiðifélaga. Af athugasemdum með því verður ráðið að fyrir frumvarpshöfundum hafi vakað að tryggja að veiðifélög gætu án samþykkis allra félagsmanna nýtt eignir félags til arðberandi starfsemi utan veiðitímabils en þó þannig að þær væru nýttar til skyldrar starfsemi eins og gerist á veiðitímabili. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar kveður við nokkuð annan tón en þar segir að nefndin árétti að í 1. gr. frumvarpsins sé heimild veiðifélags til að ráðstafa eign utan veiðitímabils bundin því skilyrði að um skylda starfsemi sé að ræða og verði umrædd starfsemi því að falla undir markmið laganna.

56. Þá er þess að gæta að í niðurlagi almennra athugasemda í frumvarpinu er að finna kafla með heitinu „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar“. Þar er tekið fram að frumvarpið hafi ekki þótt gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Af þessu verður ráðið að löggjafinn hafi látið hjá líða að meta hvort lagasetningin kynni að hafa áhrif á réttindi manna sem skyldugir væru til aðildar að veiðifélögum og hvort uppfyllt væru þau skilyrði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að verkefni sem félagi væru falin væru nauðsynleg til að það gæti rækt lögmælt hlutverk sitt. Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til, ekki síst vegna fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 sem laut að skýringu þessa stjórnarskrárákvæðis og var tilefni lagasetningarinnar. Enn fremur ber að líta til þess að í almennum athugasemdum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 61/2006 er að finna vandað mat á því hvernig lagafyrirmæli um skylduaðild að veiðifélögum stæðust áskilnað 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um neikvætt félagafrelsi. Við breytingar á verkefnum veiðifélaga með lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.

57. Sé löggjöf til þess fallin að takmarka mannréttindi ber dómstólum að meta hvort löggjafinn hafi gætt sjónarmiða um meðalhóf, jafnræði og skýrleika lagaheimilda. Jafnframt er það hlutverk dómstóla að skýra löggjöf og beita henni í tilteknu tilviki með þeim hætti sem best samrýmist ákvæðum stjórnarskrár og eftir atvikum alþjóðlegum skuldbindingum.

58. Við mat á því hvort leiga á veiðihúsi stefnda til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils teljist nýting og ráðstöfun eigna veiðifélags til skyldrar starfsemi í skilningi e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 er til þess að líta að þótt sá rekstur sem fer fram í veiðihúsi á veiðitímabils teljist samrýmast markmiðum 1. gr. laga nr. 61/2006 og almennur gisti- og veitingarekstur utan veiðitímabils sé skyldur slíkum rekstri verður ekki sjálfkrafa dregin sú ályktun þar af að slík starfsemi utan veiðitímabils samrýmist markmiðum laganna.

59. Að virtum sjónarmiðum um meðalhóf og kröfum sem gera verður til skýrleika og vandaðs undirbúnings lagaheimilda sem kunna að takmarka stjórnarskrárvarin mannréttindi og því að í e-lið 1. mgr. 37. gr. er mælt fyrir um hlutverk félags með skylduaðild og heimildir þess til ráðstöfunar á eignum ber að skýra ákvæðið og beita því með þeim hætti að með skyldri starfsemi sé vísað til verkefna sem samrýmist þeim markmiðum sem skylduaðild að félaginu er grundvölluð á samkvæmt 1. gr. laganna. Að öðrum kosti fælist í ákvæðinu að veiðifélagi væru fengnar heimildir umfram það sem því eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja þannig að í bága færi við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

60. Samkvæmt framangreindu hefur stefndi ekki sýnt fram á að útleiga veiðihússins að Fossási utan skilgreinds veiðitímabils til almenns gisti- og veitingarekstrar feli í sér nýtingu og ráðstöfun á eignum félagsins með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn og að hún teljist nauðsynleg til þess að félagið geti náð þeim markmiðum sem skylduaðild að því er ætlað að tryggja. Stefnda verður því ekki á grundvelli e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 talin slík ráðstöfun heimil nema með samþykki allra félagsmanna sinna. Verður því fallist á viðurkenningarkröfu áfrýjandans Ingibjargar með þeirri afmörkun sem fram kemur í dómsorði.

61. Áfrýjandinn Fossatún ehf. á ekki veiðirétt í Grímsá og er ekki aðili að stefnda. Fær viðurkenningarkrafa þessa áfrýjanda því ekki stoð í málatilbúnaði áfrýjandans Ingibjargar sem fallist hefur verið á samkvæmt framansögðu. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sýknu stefnda af kröfum áfrýjandans Fossatúns ehf.

62. Eftir framangreindum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjandanum Ingibjörgu málskostnað á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður áfrýjandinn Fossatún ehf. eftir úrslitum málsins dæmdur til að greiða stefnda málskostnað á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið nokkurt tillit til þess að áfrýjendur hafa haft sama lögmann við rekstur málsins og að stefndi hefur að hluta til orðið að verjast sjálfstæðum málatilbúnaði áfrýjandans Fossatúns ehf. sem byggist einkum á samkeppnissjónarmiðum.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu áfrýjandans Ingibjargar Pálsdóttur um viðurkenningu á að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, sé óheimilt án samþykkis allra félagsmanna sinna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda af viðurkenningarkröfu áfrýjandans Fossatúns ehf.

Stefndi greiði áfrýjandanum Ingibjörgu Pálsdóttur samtals 4.000.000 króna í málskostnað á öllum dómstigum.

Áfrýjandinn Fossatún ehf. greiði stefnda samtals 1.000.000 króna í málskostnað á öllum dómstigum.

Sératkvæði Benedikts Bogasonar

1. Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að staðfesta hinn áfrýjaða dóm um sýknu stefnda af viðurkenningarkröfu áfrýjandans Fossatúns ehf. Ég er hins vegar ósammála meirihlutanum um úrlausn á sömu kröfu áfrýjandans Ingibjargar og tel að einnig eigi að sýkna stefnda af henni af eftirfarandi ástæðum:

2. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar má engan skylda til aðildar að félagi. Þó má með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

3. Í 1. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði segir að markmið þeirra sé að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Til að ná þessum markmiðum laganna er veiðiréttarhöfum skylt eftir 1. mgr. 37. gr. þeirra að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Um hlutverk slíks félags eru nánari fyrirmæli í a- til f-liðum þeirrar málsgreinar. Að þessu gættu á lögboðin skylduaðild að veiðifélögum sér viðhlítandi stoð í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar bæði vegna almannahagsmuna og réttinda annarra.

4. Í dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 var lagt til grundvallar að viðfangsefni veiðifélaga takmörkuðust á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn gagngert fæli þeim og ótvírætt þyrfti að vera að þau væru í nánu samhengi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðildinni væri ætlað að tryggja. Einnig var tekið fram í dóminum að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða henni ákvörðun um gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi á skilgreindum veiðitíma eftir lögunum félli tvímælalaust innan þeirra marka sem lög settu starfsemi veiðifélaga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Að þessu gættu leikur ekki vafi á því að eignarhald og rekstur veiðihúss verður talinn eðlilegur liður í starfsemi veiðifélags með hliðsjón af fyrrgreindum tilgangi laganna og markmiðum skylduaðildarinnar. Vegna hennar er þó fjárfestingum og starfsemi af því tagi sett takmörk eðli máls samkvæmt. Áfrýjandinn Ingibjörg hefur ekki vefengt heimild stefnda til að eiga veiðihús af því tagi sem málið lýtur að til afnota fyrir veiðimenn á veiðitíma, en hún krefst viðurkenningar á því að stefnda sé óheimilt að leigja það til almenns gisti- og veitingarekstrar utan lögbundins veiðitímabils.

5. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006, eins og þeim var breytt með lögum nr. 50/2015, er hlutverk veiðifélags að nýta eignir þess og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Einnig segir að veiðifélagi sé heimilt að ráðstafa eign félags utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi. Í ljósi lögskýringargagna og þegar haft er í huga að tilefni lagasetningarinnar var fyrrgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 leikur enginn vafi á því að lagaákvæði þetta tekur til útleigu veiðihúss til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitímabils. Ég er ósammála meirihluta dómenda um að ekki liggi fyrir að útleiga veiðihússins geti verið arðbær fyrir stefnda og hún felur varla í sér aðra áhættu en hvort leigutakinn muni standa í skilum með greiðslu leigu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms fyrir niðurstöðu hans um að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu áfrýjandans Ingibjargar tel ég að einnig eigi að staðfesta dóminn að því leyti og fella málskostnað á áfrýjendur á öllum dómstigum.