Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2021

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Páll Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Umferðarslys
  • Slysatrygging ökumanns
  • Sönnun

Reifun

A höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu V hf. úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. V hf. hafnaði bótaskyldu af þeirri ástæðu að A hefði verið undir áhrifum lyfja og ávana- og fíkniefna við stjórn bifhjóls þegar slysið varð og hafi af þeim sökum valdið því af stórkostlegu gáleysi. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfur A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að V hf. bæri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði væru til þess að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Til að axla þá ábyrgð hefði V hf. meðal annars lagt fram matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Þar kæmi fram að A hefði verið undir áhrifum lyfja- og fíkniefna og að fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum. Að framkominni þessari matsgerð bæri A sönnunarbyrði fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar sinnar að efnanna hefði verið neytt eftir að vátryggingaratburð bar að höndum. Hæstiréttur tók fram að endurskoðun réttarins á mati héraðsdóms á trúverðugleika munnlegs framburðar, sem Landsréttur féllst á í hinum áfrýjaða dómi, sætti takmörkunum í ljósi meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Hæstiréttur leggi á hinn bóginn sjálfstætt mat á þau skjallegu sönnunargögn sem lögð hefðu verið fram og hvernig framburður A og vitna samrýmdust þeim gögnum að svo miklu leyti sem unnt væri án þess að endurskoða mat á trúverðugleika framburðarins. Við það mat yrði ekki fram hjá því horft að því yrði hvergi fundinn staður í framburði A eða vitna að hann hefði neytt slævandi og róandi efna eins og klónazepams eftir að slysið varð, heldur hefði honum verið gefið sterkt verkjalyf auk örvandi efna. Væri því útilokað annað en að A hefði verið undir áhrifum klónazepams við akstur bifhjólsins þegar vátryggingaratburð bar að höndum. Talið var að V hf. hefði með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stæði á fyrir ökumanni, enda yrði lagt til grundvallar að vátryggingaratburð hefði borið að höndum vegna ástands A. Var V hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 2021. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Ágreiningsefni

4. Í málinu krefst stefndi viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjanda úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns bifhjóls vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi […] júlí 2017. Bifhjólið sem stefndi ók þegar slysið varð var í eigu fyrrverandi maka hans og vátryggt hjá áfrýjanda. Stefndi byggir kröfu sína á hlutlægri ábyrgðarreglu 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem í gildi voru þegar atvik máls þessa urðu.

5. Áfrýjandi hafnar bótaskyldu af þeirri ástæðu að stefndi hafi verið undir áhrifum lyfja og ávana- og fíkniefna við stjórn bifhjólsins þegar slys bar að höndum og hafi af þeim sökum valdið því af stórkostlegu gáleysi. Um þetta vísar hann til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 2. málsliðar ákvæðisins. Bótaskylda áfrýjanda hafi því fallið niður. Þá vísar hann til 45. gr. a eldri umferðarlaga, til stuðnings kröfu sinni um að hafna beri kröfu stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu áfrýjanda. Stefndi byggir á því að ósannað sé að hann hafi verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna þegar slysið varð en sönnunarbyrði um það hvíli á áfrýjanda.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnun og sönnunarbyrði í málum af þessum toga, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsatvik og meðferð máls fyrir dómi

Rannsókn lögreglu, vottorð læknis og bréfaskipti aðila

7. Í frumskýrslu lögreglu kom fram að lögregla hefði verið send að […] vegna tilkynningar um umferðaróhapp sem hefði átt sér stað […] júlí 2017. B hefði tekið á móti lögreglu sem kom þangað klukkan 13.39. Í skýrslunni var tilgreint að stefndi væri grunaður um akstur bifhjóls undir áhrifum ávana- og fíkniefna en neysla efna ekki verið staðfest. Fyrir lögreglu hefði B lýst því að stefndi hefði ákveðið að taka stuttan hring um hverfið á bifhjólinu. Hann hefði ekið af stað ásamt farþega og verið í um 15 til 20 mínútur í burtu en komið til baka mjög kvalinn. Hún kvaðst hafa miklar áhyggjur af stefnda vegna öndunarerfiðleika hans. Teknar voru ljósmyndir af bifhjólinu. Í skýrslu lögreglu sagði að útblásturskerfi þess hefði verið mjög heitt viðkomu. Þá hefði stefndi legið í rúmi á efri hæð hússins og átt erfitt með að anda. Í skýrslunni sagði einnig að stefndi hefði verið fluttur á slysadeild.

8. Í rannsóknarskýrslu lögreglu var haft eftir stefnda að hann hefði ekið Víkurveg til norðurs og vestur Borgarveg. Hann hefði lagt á hjólið í vinstri beygju en farþegi á hjólinu hreyft sig til og sér hefði gengið illa að rétta hjólið af. Við það hefði hann misst hjólið yfir til vinstri og lent ítrekað á vegkanti áður en þeir köstuðust báðir af hjólinu og í gras utan vegar. Hjólið hefði endað á veginum tugum metra vestar. Í skýrslunni kom fram að rætt hefði verið við stefnda og farþega hans á slysadeild sem sakborninga. Hefði komið fram hjá stefnda að hann hefði verið allsgáður en drukkið nokkra bjóra kvöldinu áður. Hann hefði ekki notað nein lyf utan „cancepta“ (mun eiga að vera Concerta) sem hann taki tvær 30 mg töflur af kvölds og morgna. Að öðru leyti hefði hann ekki verið á neinum öðrum lyfjum.

9. Samkvæmt bráðamóttökuskrá slysadeildar Landspítala–Háskólasjúkrahúss á slysdegi var stefndi við komu á deildina greindur með áverkaloftbrjóst, mörg rifbrot með blóð/loftbrjósti og viðbeinsbrot. Þar sagði einnig að hann hefði komið með sjúkrabíl eftir mótorhjólaslys. Hann væri talsvert verkjaður og tæki að eigin sögn Concerta, Tramadol og Contalgin. Í aðgerðarlýsingu sjúkrahússins kom sama greining fram og þar lýst aðgerð sem gerð var á stefnda. Þar sagði að um væri að ræða […] ára mann með sögu um „misnotkun lyfja og nýrnasteina“.

10. Blóðsýni var tekið úr stefnda við komu á slysadeild […] júlí 2017. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst sama ár, sem aflað var að beiðni lögreglu við rannsókn á ætluðu umferðarlagabroti stefnda, mældust í blóði hans 40 ng/ml af 7-amínóklónazepami, 210 ng/ml af amfetamíni, 25 ng/ml af klónazepam og 35 ng/ml af kókaíni.

11. Í matsgerðinni kom fram að amfetamín og kókaín væru í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil væru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teldist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Um klónazepam sagði að lyfið væri flogaveikilyf og 7-amínóklónazepam væri umbrotsefni þess. Lyfið væri af flokki benzodíazepína, hefði slævandi verkun á miðtaugakerfið og drægi verulega úr aksturshæfni í lækningalegum skömmtum. Styrkur klónazepams í blóði stefnda væri eins og eftir töku lyfsins í lækningalegum skömmtum og hefði ökumaðurinn verið undir slævandi áhrifum þess. Fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum. Ekkert alkóhól greindist í blóði stefnda.

12. Í vottorði heilsugæslulæknis 13. mars 2019 kom fram að stefndi hefði við slysið fengið mikla áverka á stoðkerfi, vinstra viðbein hefði brotnað og mörg rifbein vinstri brjóstkassa. Þá hefði lunga hans fallið saman. Eftir þetta hefði hann orðið óvinnufær vegna verkja og ekki með fullan styrk í vinstri efri útlim og í vinstri öxl. Taldi læknirinn að stefndi þyrfti að eiga við afleiðingar slyssins að stríða um ókomna tíð.

13. Stefndi sendi tilkynningu um umferðarslys til áfrýjanda 26. mars 2018. Þar var tilgreint að hann hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja þegar slysið varð. Með bréfi 27. sama mánaðar hafnaði áfrýjandi bótaskyldu og vísaði til þess að framangreind lyf og fíkniefni hefðu mælst í blóði hans. Stefndi hefði því verið óhæfur til að stjórna ökutæki í skilningi 2. mgr. 45. gr. a eldri umferðarlaga þegar slysið átti sér stað. Jafnframt hefði styrkur klónazepams í blóði verið það hár að fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifhjólinu örugglega. Áfrýjandi taldi að slysið mætti rekja til stórkostlegs gáleysis stefnda og hafnaði bótaábyrgð með vísan til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga og 90. gr. laga nr. 30/2004.

Lýsingar á tilgreindum lyfjum

14. Í gögnum málsins er að finna lýsingar Lyfju hf. á tilgreindum lyfseðilsskyldum lyfjum, meðal annars hvernig verkun þau hafi og hversu langur tími líði þar til verkun komi fram. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að ekki væri ágreiningur um réttmæti þessara upplýsinga. Um lyfið Concerta segir að það sé örvandi lyf og efli heilastarfsemi. Virka efnið í lyfinu sé metýlfenídat sem sé skylt amfetamíni. Áhrif þess séu fyrst og fremst á miðtaugakerfið þar sem það eykur athygli, einbeitingu og sjálfstraust, en minnkar þreytutilfinningu. Lyfið sé gefið í forðatöflum til inntöku og nái hámarksþéttni í blóði eftir sex til átta klukkustundir. Lyfið skerði aksturshæfni og ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið.

15. Um lyfið Rivotril segir að það sé flogaveikilyf og virka efnið í því sé klónazepam sem tilheyri flokki lyfja sem kallist benzodíazepín. Lyf í þeim flokki hafi öll sama verkunarmáta, þau auki áhrif hamlandi boðefnis (GABA) á ákveðnar heilastöðvar. Áhrif þeirra séu í öllum tilvikum svipuð eða róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi. Þau séu gefin í töflum til inntöku. Ef þau eru gefin vegna floga líði 20–40 mínútur þar til verkun komi fram. Verkunartími sé sex til tólf klukkustundir. Lyfið geti skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni. Ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið.

16. Um lyfið Tramadol segir að það sé sterkt verkjalyf sem virki á svipaðan hátt og morfín. Verkjastillandi áhrif þess séu svipuð áhrifum morfíns en ólíkt morfíni sé ávanahætta hverfandi af því. Það sé notað við meðalsárum og sárum verkjum. Um notkun á lyfinu segir að það sé í hylkjaformi til inntöku. Lyfið geti skert athygli og dregið úr aksturshæfni. Ekki skuli aka bifreið fyrr en reynsla sé komin á það hvaða áhrif lyfið hefur.

17. Um lyfið Contalgin segir að það sé verkjalyf og virkt innihaldsefni þess sé morfín sem sé sterkt verkjastillandi lyf. Lyfið hafi áhrif á miðtaugakerfið og hindri að sársaukaboð berist þangað. Verkjastillandi áhrif morfíns séu tiltölulega skammvinn en til þess að fá fram lengri verkunartíma séu oft notuð lyfjaform þar sem lyfið losni hægt á lengri tíma. Lyfið sé gefið í forðatöflum til inntöku. Innan við fjórar klukkustundir líði þar til verkun komi fram og verkunartími sé fjórar til tólf klukkustundir. Sjúklingar sem þurfi á morfíni að halda séu líklegast ekki í ástandi til að stjórna ökutækjum en lyfið sjálft hafi sljóvgandi áhrif og skerði aksturshæfni.

Skýrslugjöf fyrir héraðsdómi

18. Við skýrslugjöf stefnda fyrir héraðsdómi neitaði hann að hafa verið undir áhrifum vímuefna eða lyfja þegar slysið varð. Hann kvað ástæðu slyssins hafa verið þá að hann hefði misst jafnvægi á bifhjólinu þegar farþegi á því færði sig til. Eftir að hann kom að […] í kjölfar slyssins hefði vinkona sín, B, og vinkona hennar spurt hann að því hvort allt væri í lagi. Hann hefði fundið fyrir gríðarlegum verkjum en hann hafi bæði rifbeinsbrotnað og brotið viðbein. Hann hefði spurt hvort þær ættu verkjalyf. B hefði þá komið með einhver lyf, tvær eða þrjár töflur. Í kjölfar þess hefði hann byrjað að finna fyrir öndunarörðugleikum en B og vinkona hennar hefðu verið með disk með einhverjum efnum sem hann hefði fengið sér af. Eftir það hefði verið hringt á sjúkrabíl. Spurður um það sem kemur fram í bráðamóttökuskrá að hann taki að eigin sögn Concerta, Tramadol og Contalgin svaraði stefndi því til að hann hefði „aldrei tekið Contalgin“. Um Tramadol sagði hann „og Tramadol, ég held að það hafi verið það sem að, verkjalyf, gæti verið en ég man að það var ekki, ég sko Concerta, það er það ég er ávísaður af ... en ég held það hafi verið sex vikur síðan ég hafði tekið þau lyf“. Nánar spurður hvort hann ætti þar við lyfið Concerta, staðfesti hann það. Um efnið sem hann kvaðst hafa tekið af diski sem þær B og vinkona hennar réttu honum kvað hann það hafa verið „örvandi efni, hvítt efni“.

19. Fyrrgreind B, sem kvaðst við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi telja sig náinn vin eða góðan vin stefnda, kvaðst hafa spurt hann að því hvort hún ætti ekki að hringja á sjúkrabíl þegar hún sá í hvaða ástandi hann var eftir slysið. Hann hefði neitað því en beðið sig um að gefa sér verkjalyf þar sem hann hefði vitað að hún ætti slík lyf. Hún hefði náði í verkjatöflur og gefið honum en ekki vitað nákvæmlega hvaða verkjalyf þetta voru. Nánar spurð hvort um hefði verið að ræða Panodil svaraði hún „bara já, nei, já. Þetta voru held ég Tram-, einhverjar sterkari sem ég hafði fengið áður sem að ég vissi að virkuðu og ég man það ekki nákvæmlega.“ Þá kvað hún vinkonu sína hafa komið upp með efni á diski og hefði vitnið spurt stefnda hvort hann vildi taka það sem „örvandi á móti ... af því að mér fannst hann byrjaður að anda eitthvað skrítið“.

Ný gögn og niðurstaða Landsréttar

20. Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti lagði áfrýjandi fram bréf Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 13. febrúar 2020 sem hefur að geyma svör við beiðni lögmanns hans um að blóðsýni stefnda yrði rannsakað frekar, einkum út frá staðhæfingum hans um að hafa tekið tiltekin efni og lyf eftir að slysið átti sér stað. Þá var þess óskað að kannað yrði hvort Concerta hefði mælst í sýninu. Í bréfinu kom fram að líklegasta frásogsleið efnanna sem mældust í blóði stefnda hefði verið um meltingarveg enda hefði hann haldið því fram að hann hefði ekki verið í neyslu. Þar kom fram að það gæti tekið nokkurn tíma að frásoga efni frá meltingarvegi. Í bréfinu sagði að amfetamín frásogist eingöngu frá smáþörmum sé það tekið inn um munn. Umræddur styrkur þess í blóði náist því varla fyrr en eftir nokkurn tíma. Amfetamín frásogist aftur á móti mun hraðar eftir inntöku um nös. Um kókaín var í bréfinu vísað til þess að aðgengi þess frá meltingarvegi væri lélegt en hámarksstyrk þess væri náð eftir um það bil eina og hálfa klukkustund. Hefði kókaínneysla verið um nös væri frásog mjög hratt og hámarksstyrk efnisins náð á innan við hálftíma. Þá sagði í bréfinu að klónazepam næði hámarksstyrk í blóði eftir um það bil 30 til 120 mínútur, lengst eftir frásog frá meltingarvegi. Að lokum sagði að í blóðsýninu hefðu engin merki fundist um virka efnið í lyfinu Concerta.

21. Fyrir Landsrétt var einnig lagt tölvubréf Neyðarlínunnar þar sem fram kom að B hefði tilkynnt um slysið klukkan 13.39. Sjúkrabíll hefði verið skráður í útkall klukkan 13.43, komið á vettvang klukkan 13.58, farið þaðan klukkan 13.59 og mætt á bráðamóttöku klukkan 14.10. Eins og að framan var rakið var blóðsýni tekið úr stefnda á bráðadeild og hefur hann haldið því fram að það hafi í fyrsta lagi verið tekið klukkan 14.25 en þá voru lífsmörk hans skráð.

22. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggðist á því að áfrýjandi hefði ekki aflað sér matsgerðar dómkvadds manns í því skyni að færa sönnur á að stefndi hefði í ljósi þess magns efna sem mældust í blóði hans, eiginleika þeirra og þess sem ætla mætti um framangreindar tímasetningar verið undir áhrifum lyfja eða vímuefna þegar hann missti stjórn á bifhjólinu. Af þeim gögnum sem lögð hefðu verið fram yrði ekki ráðið að staðhæfingar stefnda um ástand sitt áður en slysið varð stæðust ekki. Væri þá meðal annars litið til þess að í fyrrgreindu bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hefði ekki verið tekið af skarið um frásog amfetamíns úr öndunarvegi, en stefndi kvaðst „hafa tekið efnið um nös“, að öðru leyti en því að þar segði að það gerðist mun hraðar en þegar amfetamín frásogist úr meltingarvegi. Samkvæmt þessu þótti áfrýjandi ekki hafa fært fram næg sönnunargögn til að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms sem féllst á bótaskyldu áfrýjanda.

Lagaumhverfi og reglur

23. Í málinu reynir annars vegar á ákvæði þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 og hins vegar ákvæði laga nr. 30/2004.

24. Tilvitnuð umferðarlög nr. 50/1987 voru í gildi er atvik máls þessa áttu sér stað og voru enn í gildi þegar málið var höfðað. Ný umferðarlög nr. 77/2019 og lög nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar tóku gildi 1. janúar 2020.

25. Í 2. mgr. 44. gr. þágildandi umferðarlaga sagði að enginn mætti stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka væri þannig á sig kominn að hann væri ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega. Þá sagði í 1. mgr. 45. gr. a laganna að enginn mætti stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð væru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 92. gr. var kveðið á um að slysatrygging ökumanns skyldi tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður yrði fyrir við stjórn ökutækis.

26. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum 30/2004 sagði að í öðrum hluta frumvarpsins væri fjallað um persónutryggingar en skilgreining hugtaksins kemur fram í 61. gr. laganna, þar sem segir að persónutrygging sé líftrygging, slysatrygging og sjúkratrygging. Einnig sagði að með frumvarpinu væri stefnt að því að ráða bót á einu mesta álitaefni sem tengst hefði framkvæmd eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, það er hvaða mörk ætti að setja hlutlægum ábyrgðartakmörkunum, einkum þegar þær tengdust háttsemi hins vátryggða eða manna sem yrðu samsamaðir honum. Það væri gert með því að skilgreina hugtakið varúðarreglur víðtækar en gert væri í lögum nr. 20/1954, sbr. e-lið 2. gr. frumvarpsins, en einnig með því að félögunum væri gert að upplýsa skýrlega í vátryggingarskírteini hvaða varúðarreglur væru í samningnum sem leitt gætu til takmörkunar á ábyrgð þess, sbr. 10. gr., auk þess sem 26. gr. frumvarpsins bannaði að félagið bæri fyrir sig fyrirvara vegna brota á varúðarreglum ef ekki væri við vátryggðan að sakast eða sök hans væri óveruleg. Að auki mætti leggja ábyrgð á félagið að hluta þótt það gæti samkvæmt framangreindu borið fyrir sig brot á varúðarreglum. Ætti það einnig að vera til verndar vátryggðum í takmarkatilvikum.

27. Í athugasemdunum sagði jafnframt um þau tilvik er vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður að sú stefna væri tekin með frumvarpinu að afleiðingar þess yrðu sveigjanlegri en væri samkvæmt lögum og réttarframkvæmd. Í frumvarpinu væri gerð tillaga um að það yrði metið sérstaklega hvort vátryggingaratburði væri valdið af stórfelldu gáleysi eða ekki, einnig þegar vátryggður væri ölvaður. Væri þetta gert vegna þess að hugsanlega væri ekki mikið við vátryggðan að sakast þótt hann hefði verið ölvaður og valdið vátryggingaratburði. Það ætti að minnsta kosti að meta það með hliðsjón af atvikum hvort það ætti að leiða til þess að réttur hans til vátryggingarbóta félli niður með öllu.

28. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 er kveðið svo á um að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingafélagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Með þessari grein frumvarpsins yrði komið í veg fyrir að vátryggingafélög gætu fyrirvaralaust undanþegið sig ábyrgð þegar vátryggingaratburði væri valdið af stórkostlegu gáleysi.

29. Í 10. gr. laga nr. 30/2004 sem er efnislega samhljóða ákvæði 12. gr. c laganna eins og þeim var breytt með lögum nr. 61/2019, er kveðið á um vátryggingarskírteini. Þar segir að þegar samningur hafi verið gerður og ákveðið hvaða skilmálar skuli gilda um trygginguna skuli félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans. Í vátryggingarskírteini skuli meðal annars koma fram hvaða varúðarreglur félagið hafi sett, en í því efni geti það vísað til varúðarreglna í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða hliðstæðum fyrirmælum eða reglum ef sanngjarnt sé að ætlast til að vátryggingartaki þekki efni þeirra.

30. Um varúðarreglur segir í e-lið 2. gr. laga nr. 30/2004 að þær séu fyrirmæli í vátryggingarsamningi um að vátryggður eða aðrir skuli gera tilteknar ráðstafanir sem fallnar eru til þess að fyrirbyggja eða takmarka tjón eða sjá til þess að þær verði gerðar.

31. Í vátryggingarskírteini bifhjólsins sem stefndi ók er slys varð kemur fram að um ábyrgðartryggingu ökutækis, slysatryggingu ökumanns og eiganda- og rúðutryggingu gildi skilmálar áfrýjanda nr. B-1. Skilmálar þeir sem lagðir voru fram í málinu eru dagsettir 1. janúar 2019 en upplýst var við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að samhljóða skilmálar hafi gilt er vátryggingaratburður varð. Í 1. kafla skilmálanna, sem fjallar um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja, kemur fram að vátryggingin sé samansett af þremur sjálfstæðum vátryggingum: í fyrsta lagi lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja, í öðru lagi slysatryggingu ökumanns og eiganda og í þriðja lagi rúðutryggingu. Í 1. grein skilmálanna segir að vátryggðir séu „eigandi ökutækis ... svo og hver sá sem með samþykki hans notar ökutækið eða ekur því.“ Um gildissvið vátryggingarinnar er fjallað í 2. grein en þar segir að hún nái til hverrar skaðabótakröfu sem eiganda hins vátryggða er skylt að vátryggja gegn, samkvæmt gildandi íslenskum umferðarlögum, vegna tjóns er hljótist af ökutækinu.

32. Í 7. grein skilmálanna er fjallað um varúðarreglur. Í grein 7.1. er mælt fyrir um að vátryggðum beri að fara eftir þeim varúðarreglum sem félagið setji í skilmálunum eða í vátryggingarskírteini. Misbrestur á því geti leitt til skerðingar eða brottfalls bótaábyrgðar. Þá er í grein 7.2. svohljóðandi ákvæði:

Ökumaður skal vera í líkamlegu ástandi til þess að geta stjórnað ökutækinu örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

33. Um slysatryggingu ökumanns og eiganda er fjallað í 2. kafla skilmálanna. Þar segir í 1. grein að félagið greiði bætur fyrir tjón vegna umferðarslyss sem ökumaður verði fyrir við stjórn ökutækis, sbr. 92. gr. umferðarlaga. Jafnframt segir í 7. grein kaflans að 1. kafli skilmálanna, sem fjallar um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja eins og fyrr er rakið, gildi að öðru leyti um slysatryggingu ökumanna eftir því sem við eigi.

Niðurstaða

34. Eins og rakið hefur verið bætir slysatrygging ökumanns líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækis enda verði slysið rakið til notkunar þess í merkingu 88. gr. þágildandi umferðarlaga, sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna. Ágreiningslaust er að stefndi varð fyrir líkamstjóni er hann missti stjórn á bifhjóli sem tryggt var hjá áfrýjanda og að slysið megi rekja til notkunar þess.

35. Áfrýjandi hefur auk tilvísunar til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga vísað til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 til stuðnings kröfu um sýknu af kröfu stefnda sem og til skilmála slysatryggingarinnar. Við málflutning fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá tilvísun sinni til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga enda getur það ákvæði eftir efni sínu ekki átt við í málinu.

36. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 skal sem fyrr segir fara fram mat á því hvort vátryggður hafi við vátryggingaratburð sýnt af sér svo stórkostlegt gáleysi að lækka megi bætur eða fella þær niður. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.

37. Stefndi kom fyrir héraðsdóm og bar um lyfja- og vímuefnaneyslu sína. Hann kvaðst engra vímuefna eða lyfja hafa neytt áður en akstur hófst umrætt sinn. Hann var því spurður um þau lyf sem hann hafði tjáð lækni við komu á bráðadeild að hann tæki en það voru lyfin Contalgin, Tramadol og Concerta. Fyrir dómi greindi hann hins vegar frá því að hann hefði aldrei neytt lyfsins Contalgins og lyfsins Concerta hefði hann ekki neytt í sex vikur. Um Tramadol sagði hann „ég held að það hafi verið það sem að, verkjalyf, gæti verið en ég man að það var ekki, ég sko Concerta, það er það ég er ávísaður af ... en ég held það hafi verið sex vikur síðan ég hafði tekið þau lyf.“ Hann kvað vinkonu sína, vitnið B, hafa gefið sér verkjalyf eftir slysið þar sem hann hefði verið mjög kvalinn. Fyrrgreint vitni bar á sömu lund, margítrekað spurð, að hún hefði eftir slysið gefið honum sterk verkjalyf en auk þess hefði hann neytt örvandi hvítra efna.

38. Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst 2017 kom fram að í blóði stefnda hefðu mælst 25 ng/ml af klónazepami og 40 ng/ml af 7-amínóklónazepami, sem er umbrotsefni þess, auk kókaíns og amfetamíns. Þar segir einnig að klónazepam sé af flokki benzodíasepína sem hafi slævandi verkun á miðtaugakerfið og dragi verulega úr aksturshæfni. Hið sama kemur fram í tilvitnuðum gögnum Lyfju hf. um klónazepam, auk þess sem þar segir að það sé róandi og kvíðastillandi. Í matsgerðinni sagði að styrkur klónazepams í blóði stefnda hefði verið eins og eftir töku lyfsins í lækningalegum skömmtum og hefði ökumaðurinn verið undir slævandi áhrifum þess. Fullvíst megi telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum.

39. Áfrýjandi hefur neitað bótaskyldu á þeim grundvelli að í blóðsýni sem tekið var úr stefnda við komu á bráðadeild hefðu fundist bæði örvandi efni og róandi lyf. Á honum hvílir sönnunarbyrði þess að skilyrði séu til þess að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Til að axla þá ábyrgð hefur áfrýjandi meðal annars lagt fram fyrrgreinda matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst 2017 sem lögregla aflaði við rannsókn á ætluðu umferðarlagabroti stefnda. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var lögreglu heimilt að leita eftir sérfræðilegri rannsókn af þessum toga á grundvelli 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verða sönnunargögn sem lögregla aflar eftir þessari heimild lögð fram í einkamáli eftir reglum X. kafla laga nr. 91/1991. Að framkominni þessari matsgerð ber stefndi sönnunarbyrði fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar sinnar að efnanna hafi verið neytt eftir að vátryggingaratburð bar að höndum, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 12. október 1995 í máli nr. 209/1993 sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1995 á blaðsíðu 2249, 7. desember 2000 í máli nr. 226/2000, 15. febrúar 2001 í máli nr. 357/2000 og 15. febrúar 2001 í máli nr. 360/2000.

40. Til að leitast við að axla þá sönnunarbyrði hefur stefndi borið um það fyrir dómi hvernig lyfja- og vímuefnaneyslu sinni hafi verið háttað eftir að slysið bar að höndum og fyrir héraðsdóm voru einnig leidd vitni sem báru um það.

41. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að með fyrrgreindri matsgerð væru ekki færðar viðhlítandi sönnur á að stefndi hefði gegn þeirri sönnunarfærslu sem fór fram fyrir dómi af hans hálfu verið undir áhrifum vímuefna eða lyfja þegar hann missti stjórn á bifhjólinu. Þá yrði ekki heldur ráðið af bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja– og eiturefnafræði 13. febrúar 2020 sem aflað hefði verið einhliða og án vitneskju stefnda að staðhæfingar hans um ástand sitt áður en hann hóf akstur bifhjólsins frá […] „sem hann leitaðist við að færa sönnur á með vætti tveggja vitna í héraði“ fengju ekki staðist.

42. Endurskoðun á mati héraðsdóms á trúverðugleika munnlegs framburðar, sem Landsréttur féllst á í hinum áfrýjaða dómi, sætir takmörkunum hér fyrir dómi í ljósi meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Rétturinn leggur á hinn bóginn sjálfstætt mat á þau skjallegu sönnunargögn sem lögð hafa verið fram og hvernig framburður stefnda og vitna samrýmist þeim gögnum að svo miklu leyti sem það er unnt án þess að endurskoða mat á trúverðugleika framburðarins. Við það mat verður ekki fram hjá því horft að því verður hvergi fundinn staður í framburði stefnda eða vitna að stefndi hafi neytt slævandi og róandi efna eins og klónazepams eftir að slysið varð, heldur hafi honum verið gefið sterkt verkjalyf auk örvandi efna. Er því útilokað annað en að stefndi hafi verið undir áhrifum klónazepams við akstur bifhjólsins þegar vátryggingaratburð bar að höndum.

43. Meta verður í ljósi allra atvika hvort vátryggingaratburði er valdið af stórfelldu gáleysi og hvort réttur til vátryggingarbóta falli niður af þeim sökum. Af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram að slysið megi rekja til utanaðkomandi atburðar og verður því að leggja til grundvallar að það verði rakið til þess að hann gat ekki stjórnað bifhjólinu með öruggum hætti vegna áhrifa framangreinds efnis. Háttsemi hans var enn vítaverðari í ljósi þess að hann ók með farþega á bifhjólinu umrætt sinn. Þegar litið er til þess að samkvæmt fyrrgreindri matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði gat stefndi ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti vegna áhrifa klónazepams og þess sem kemur fram í tilvitnuðum gögnum Lyfju hf. að ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið verður að líta svo á að ástand hans hafi þegar hann ók bifhjólinu umrætt sinn verið með þeim hætti að fyrirmæli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 eigi við um hann, sbr. og varúðarreglu í 7. grein skilmála framangreinds vátryggingarskírteinis bifhjólsins. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að áfrýjandi hafi með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni, enda verður að leggja til grundvallar eins og áður er rakið, að vátryggingaratburð hafi borið að höndum vegna ástands stefnda.

44. Að öllu framangreindu virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

45. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum en ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað eru staðfest. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnda, A.

Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skulu vera óröskuð.

Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur.