Hæstiréttur íslands

Mál nr. 33/2021

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Þresti Emilssyni (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)
, (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður einkaréttarkröfuhafa )

Lykilorð

  • Ákæra
  • Fjárdráttur
  • Umboðssvik
  • Peningaþvætti
  • Lögskýring
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

Þ var ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sú háttsemi sem Þ væri gefin að sök í III. kafla ákæru um peningaþvætti fæli í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki hefði getað komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunarbrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ákæru hefði aðeins verið lýst nýtingu þeirra verðmæta sem auðgunarbrotin samkvæmt I. og II. kafla ákæru lutu að sem lið í lýsingu þeirra brota en ekki nánar nýtingu ávinningsins sem verknaðarþáttar í peningaþvættisbrotum. Þannig hefði meðal annars ekki verið lýst sérstaklega hvar, hvenær eða með hvaða hætti slík brot voru framin. Vísaði Hæstiréttur til þess að játning Þ breytti engu um þær kröfur sem gera yrði til skýrleika ákæru, enda gæti hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau auðgunarbrot sem tilgreind voru í I. og II. kafla ákæru og fólu í sér öflun fjárvinnings á kostnað ADHD samtakanna. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ágallar á III. kafla ákæru væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim kafla frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta einkaréttarkröfu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2021. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að III. kafla ákæru verði vísað frá dómi og að refsing hans verði milduð. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en refsingu sem hann krefst að verði milduð. Þá krefst hann sýknu af einkaréttarkröfu brotaþola.

3. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, ADHD samtakanna, er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu, að því frátöldu að krafist er dráttarvaxta frá 3. maí 2020 til greiðsludags.

Ágreiningsefni og málsatvik

4. Með ákæru héraðssaksóknara 5. mars 2020 voru ákærða gefin að sök fjárdráttur, umboðssvik og peningaþvætti í starfi sínu sem framkvæmdastjóri ADHD samtakanna sem nánar var svo lýst í ákæru:

I. Fyrir fjárdrátt, með því að hafa dregið sér fjármuni ADHD samtakanna, samtals kr. 7.115.767 í 50 tilvikum, á tímabilinu 30. júlí 2015 til og með 26. maí 2018, með debetkorti, greiðslu reikninga í eigin þágu, veitingu styrks og með millifærslum af bankareikningum samtakanna hjá Íslandsbanka hf., nr. [...] og nr. [...] og Landsbankanum hf., nr. [...] og [...], yfir á sinn persónulega bankareikning nr. [...] hjá Arion banka hf., og ráðstafað ávinningnum í eigin þágu líkt og rakið er í III. kafla ákærunnar. Tilvikin 50 sundurliðast með eftirfarandi hætti: [...].
II. Fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda ADHD samtökin á tímabilinu 19.2.2015 til og með 19.5.2018, með því að nota í alls 131 skipti kreditkort félagsins nr. [...] og [...] útgefin af Íslandsbanka og kreditkort félagsins útgefið af Landsbankanum nr. [...] til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota, samtals að fjárhæð kr. 2.096.969. Kreditkortin hafði ákærði fengið útgefin vegna starfa sinna sem framkvæmdastjóri ADHD samtakanna og var honum ætlað að greiða með því útgjöld tengd starfsemi samtakanna. Framangreind notkun kortanna var hins vegar án heimilda og með öllu ótengd störfum ákærða fyrir félagið. Tilvikin 131 sundurliðast með eftirfarandi hætti: [...].
III. Fyrir peningaþvætti, með því að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt ákæruköflum I og II, samtals að fjárhæð kr. 9.212.736, í eigin þágu.

Háttsemi ákærða samkvæmt I. kafla ákæru var talin varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, háttsemi samkvæmt II. kafla ákæru við 1. mgr. 249. gr. og samkvæmt III. kafla ákæru við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga.

5. ADHD samtökin gerðu þá kröfu að ákærði yrði dæmdur til að greiða þeim 9.212.736 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2018 til greiðsludags. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti breytti lögmaður einkaréttarkröfuhafa upphafsdegi dráttarvaxta á þann veg að þeirra væri krafist frá 3. maí 2020 til greiðsludags.

6. Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi 3. apríl 2020 óskaði ákærði ekki eftir að honum yrði skipaður verjandi. Eftir honum var bókað að hann viðurkenndi skýlaust að hafa gerst ,,sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.“ Með málið var því farið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

7. Með héraðsdómi 29. apríl 2020 var ákærði sakfelldur fyrir háttsemi samkvæmt I. og II. kafla ákæru en dómurinn taldi að 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu sjö mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða ADHD samtökunum þá fjárhæð sem krafist hafði verið með nánar tilgreindum vöxtum.

8. Ákæruvaldið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og refsing hans þyngd.

9. Ágreiningur málsins fyrir Landsrétti laut einkum að því hvort brot gegn 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi 4. júní 2021 var talið að í þeim tilvikum þegar brot gagnvart 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga félli saman við frumbrot og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða yrði að telja að frumbrotið tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Þar sem sú væri raunin í málinu var talið að brot gegn 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Landsréttur staðfesti því dóm héraðsdóms.

10. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. júlí 2021 á þeim grunni að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.

Málatilbúnaður aðila

11. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti voru reifuð sjónarmið ákæruvaldsins um I. og II. kafla ákæru. Varðandi III. kafla ákæru var vísað til þess að með lögum nr. 149/2009 hafi verið gerðar grundvallarbreytingar á löggjöf á sviði peningaþvættis og efnahagsbrota. Byggir ákæruvaldið á því að orðalag 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé skýrt. Við mat á því hvort sakfellt verður fyrir peningaþvætti beri ekki einungis að líta til þess hvort háttsemin hafi falist í að fela uppruna og eiganda fjár sem er ávinningur brotastarfsemi, eins og gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi, heldur beri að skoða skýrt orðalag ákvæðisins sjálfs.

12. Þá taldi ákæruvaldið niðurstöðu hins áfrýjaða dóms vera ranga um að frumbrot samkvæmt 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Of mikið væri gert úr orðalaginu „eftir því sem við á“ í tilvísun 2. mgr. 264. gr. til þess að brotasamsteypa samkvæmt 77. gr. laganna gildi um frumbrot og peningaþvætti. Þá var áréttað að ákærði hefði játað alla þá háttsemi sem í ákæru greini. Ágreiningur málsins hefði í héraði aðeins snúið að því hvort sú háttsemi sem ákærði játaði að ,,hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt ákæruköflum I og II [...] í eigin þágu“ félli undir 264. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir lægi að ákærði hefði játað að hafa nýtt ávinning af brotum sínum samkvæmt I. og II. kafla ákæru.

13. Jafnframt var á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að fleira þyrfti að koma til eftir fullframningu frumbrots til að unnt væri að ákæra og refsa fyrir peningaþvættisbrot, til dæmis að maður geymdi eða nýtti ávinning. Um þyrfti að vera að ræða einhverja þá háttsemi sem félli að verknaðarlýsingu 264. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn yrði sú krafa ekki gerð til ákæruvaldsins að leitt yrði í ljós, að undangenginni játningu ákærða, hvernig hann hefði nýtt ávinning af auðgunarbrotunum í eigin þágu. Ekki væri skilyrði samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að ávinningur væri nýttur á einhvern sérstakan hátt umfram annan. Með játningu ákærða teldist sannað að hann hefði nýtt ávinning af brotum sínum í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

14. Af hálfu ákærða var byggt á því að dómur Landsréttar væri réttur að því frátöldu að refsing hans hefði verið ákveðin of þung. Því væri gerð krafa um að hún yrði milduð og bundin skilorði að öllu leyti. Um III. kafla ákæru var vísað til dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021 þar sem ákæru vegna peningaþvættis var vísað frá héraðsdómi. Ákæra í þessu máli væri samhljóða ákæru í því máli og háð sömu ágöllum og fjallað var um í fyrrnefndum dómi. Bæri því að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Lagaumhverfi

15. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr., sem fjallar um svokallað sjálfsþvætti, að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi.

16. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2021. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að við breytingar á ákvæðinu væri horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) 13. október 2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi. Með breytingunni væri gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga rýmkað þannig að það tæki ekki einungis til frumbrota á þeim lögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægðu að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða.

17. Með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 var lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kom í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni væri horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Enn fremur sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti.

Niðurstaða

18. Ákærði var með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt I. kafla ákæru með því að hafa dregið sér fjármuni ADHD samtakanna á tilgreindu tímabili í 50 tilvikum, með greiðslum af debetkorti, greiðslu reikninga í eigin þágu, veitingu styrks og með millifærslum af bankareikningum samtakanna yfir á sinn persónulega bankareikning og ,,ráðstafað ávinningnum í eigin þágu líkt og rakið er í III. kafla ákærunnar.” Tilvikin voru nánar sundurliðuð í ákæru þar sem fram kom dagsetning, aðferð, viðtakandi og fjárhæð hverrar greiðslu fyrir sig en ákærði var viðtakandi greiðslu í 43 tilvikum.

19. Jafnframt var ákærði sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt II. kafla ákæru með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda ADHD samtökin á tilgreindu tímabili með því að nota í alls 131 skipti kreditkort félagsins til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota, sem voru með öllu ótengd störfum hans fyrir félagið. Tilvikin voru sundurgreind í ákæru með þeim hætti að fram komu viðtakendur greiðslu, dagsetning færslna og fjárhæðir.

20. Í III. kafla ákæru var ákærða gefið að sök peningaþvætti en hann sýknaður af því broti með hinum áfrýjaða dómi þar sem talið var að brot gegn 1. mgr. 247. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna.

21. Við mat á því hvort brot gegn 1. mgr. 247. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna ber að líta til þess að í 2. mgr. 264. gr. þeirra er tiltekið að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Framangreind tilvísun í athugasemdunum til tveggja sjálfstæðra brota, frumbrots og síðar tilkomins sjálfsþvættis, sem og tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir að öllu jöfnu gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu.

22. Í greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar var á því byggt að ákærði hefði ekki nýtt í eigin þágu fé sem hann hefði dregið sér samtímis því sem hann hefði millifært inn á bankareikning sinn, enda hafi hlotið að koma til frekari athafnir af hans hálfu síðar í því skyni. Hið sama ætti við um greiðslur með kreditkorti ADHD samtakanna sem ákærði hefði notað til að kaupa ýmsa þjónustu og varning sem nýst hafi honum í framhaldinu. Sú nýting hefði ekki farið fram á sama augnabliki og frumbrotin voru framin heldur síðar. Af hálfu ákæruvaldsins var áréttað við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hið ætlaða sjálfsþvættisbrot fæli í sér sjálfstætt og eftirfarandi brot gagnvart þeim brotum sem ákært væri fyrir í I. og II. kafla ákæru.

23. Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í III. kafla ákæru, að hafa nýtt sér ávinning af auðgunarbrotum, felur í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunarbrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þess ákvæðis verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt af henni einni að gera sér grein fyrir hvað hann er sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við hana enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru.

24. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því þegar maður þvættar ávinning af eigin broti hefur ekki að geyma sjálfstæða verknaðarlýsingu heldur vísar bæði um lýsingu á verknaði og refsimörk til hins almenna peningaþvættisákvæðis í 1. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. er talin upp ýmis sú háttsemi sem felld er undir peningaþvætti þar á meðal að taka við, nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Samkvæmt því getur það varðað refsingu sem sjálfsþvætti að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti.

25. Þegar sjálfsþvætti er talið felast í að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti og frumbrotið er auðgunarbrot reynir á samspil frumbrots og peningaþvættisbrots. Sameiginlegum verknaðarþætti allra auðgunarbrota er lýst í 243. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að fyrir slík brot skuli því aðeins refsa að þau hafi verið framin í auðgunarskyni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að almennum hegningarlögum sagði að ásetningur geranda þyrfti að standa til þess að afla sér eða öðrum fjárvinnings á þann hátt að annar maður biði ólöglega fjártjón að sama skapi. Ljóst er að þegar ákæra er byggð á því að ákærði hafi gerst sekur um auðgunarbrot og eftirfarandi háttsemi sem falist hafi í að afla eða nýta sér ávinning þeirra auðgunarbrota þannig að um brotasamsteypu teljist vera að ræða sé nauðsynlegt að tilgreina í ákæru svo nákvæmlega sem unnt er í hverju sú háttsemi var fólgin sem kom til eftir fullframningu auðgunarbrotsins og talin er fela í sér peningaþvætti. Getur þá reynst nauðsynlegt að nýta heimild d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 til að setja fram í ákæru röksemdir sem málsókn er byggð á með svo skýrum hætti að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftirnar eru.

26. Í I. kafla ákæru var lýst fjárdráttarbrotum ákærða sem í flestum tilvikum fólust í því að hafa greitt með debetkorti ADHD samtakanna reikninga í eigin þágu eða millifæra fjárhæðir af bankareikningi samtakanna yfir á hans persónulega reikning og ráðstafað ávinningi í eigin þágu. Eins og rakið hefur verið telur ákæruvaldið að ákærði hafi ekki nýtt í eigin þágu féð sem hann hafi dregið sér samtímis því sem hann hafi tileinkað sér fjármunina, enda hafi hlotið að koma til frekari athafnir af hans hálfu síðar í því skyni. Frumbrot ákærða voru auðgunarbrot og lýsing á þeim í ákæru, þar á meðal á tileinkun verðmæta og auðgun, í samræmi við það. Þá kom fram hverjum var greitt eða hvert millifærslur runnu, fjárhæð hverrar millifærslu eða greiðslu og dagsetning hennar. Í III. kafla ákæru er ákærða einungis gefið að sök að hafa nýtt ávinning af fjárdráttarbrotunum í eigin þágu og um það vísað til I. kafla. Þar er hins vegar ekki að finna nánari lýsingu á því með hvaða hætti hann nýtti ávinninginn í eigin þágu og þar með enga lýsingu á frekari athöfnum ákærða sem falið gætu í sér brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

27. Í II. kafla ákæru voru tilgreind fjölmörg tilvik um notkun ákærða á kreditkortum ADHD samtakanna til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota. Frumbrot ákærða voru auðgunarbrot og lýsing á þeim í ákæru, þar á meðal á tileinkun og auðgun, í samræmi við það. Tilgreint var að ákærði keypti vöru eða þjónustu, fjárhæð hverrar greiðslu og dagsetning hennar. Í III. kafla ákæru var ákærða einungis gefið að sök að hafa nýtt ávinning af umboðssvikabrotunum í eigin þágu og um það vísað til II. kafla. Engin nánari grein var hins vegar gerð fyrir því hvernig frekari nýtingu ávinnings af brotunum var háttað.

28. Samkvæmt framansögðu var í ákæru aðeins lýst nýtingu þeirra verðmæta sem auðgunarbrotin lutu að sem lið í lýsingu þeirra brota en ekki nánari nýtingu ávinningsins sem verknaðarþáttar í peningaþvættisbrotum, þar á meðal var ekki lýst sérstaklega hvar, hvenær eða með hvaða hætti slík brot voru framin. Meta þarf eftir atvikum hversu nákvæm slík lýsing í ákæru þurfi að vera til þess að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 sé talið fullnægt. Á slíkt mat reynir hins vegar ekki í þessu máli þar sem engin tilraun var gerð til að lýsa nýtingu ávinnings umfram það sem fólst í lýsingu á þeim auðgunarbrotum sem ákært var fyrir og engar skýringar eða röksemdir samkvæmt d-lið 1. mgr. 152. gr. voru í ákærunni. Hafi sá ómöguleiki verið fyrir hendi í máli þessu að ekki hafi verið unnt að tilgreina þá háttsemi sem ákæruvaldið taldi felast í nýtingu ávinnings auðgunarbrota þeirra sem ákærði var sakfelldur fyrir, líkt og ákæruvaldið hélt fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, hlaut samkvæmt framansögðu að koma til álita hvort ákæra bæri fyrir þau ætluðu brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga sem tilgreind eru í ákæru, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2021.

29. Ákærði játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru við þingfestingu málsins í héraði. Játning ákærða breytir engu um þær kröfur sem gera verður til skýrleika ákæru, enda gat hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau auðgunarbrot sem tilgreind eru í I. og II. kafla ákæru og fólu í sér öflun fjárvinnings á kostnað ADHD samtakanna. Samkvæmt framangreindu eru ágallar á III. kafla ákæru svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þeim kafla hennar frá héraðsdómi, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

30. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta einkaréttarkröfu sem dæmdir verða eins og nánar greinir í dómsorði.

31. Ákærði greiði bótakrefjanda, ADHD samtökunum, málskostnað við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

32. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi III. kafla ákæru.

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sakfellingu ákærða, Þrastar Emilssonar, samkvæmt I. og II. kafla ákæru, refsingu og sakarkostnað svo og málskostnað ADHD samtakanna.

Ákærði greiði ADHD samtökunum 9.212.736 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. maí 2020 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 868.000 krónur.