Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2020

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Magnúsi Arnari Arngrímssyni (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Umboðssvik
  • Fjármálafyrirtæki
  • Hæfi dómara
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 478/2014 var M sakfelldur fyrir umboðssvik í starfsemi G hf., sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 2 ár. Með úrskurði endurupptökunefndar í október 2020 var fallist á beiðni M um endurupptöku málsins. Vísaði nefndin til þess að einn dómara fyrrgreinds hæstaréttarmáls hefði gert samning í janúar 2007 við G hf. um eignastýringu og að hann hefði tapað verulegum fjármunum í þeim viðskiptum. Dómarinn hefði verið vanhæfur til að dæma í málinu og af þeirri ástæðu hefðu verið gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Því væri samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laganna fullnægt skilyrðum fyrir endurupptöku málsins og var sú krafa tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar var rakið að lækkun á andvirði þeirra fjármuna sem dómarinn hafði í eignastýringu hefði numið 14,78% við fall bankans. Þessi lækkun yrði ekki talin veruleg þegar horft væri til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings hefði þurft að þola á þessum tíma með lækkun eignaverðs, rýrnun lífeyrisréttinda, hækkun verðlags vegna gengishruns og hækkun skulda vegna verðlagsbreytinga meðal annars vegna tengingar lána við vísitölu neysluverðs. Þá vísaði rétturinn til þess að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2019 og 35/2019, þar sem fallist var á að skilyrðum endurupptöku hefði verið fullnægt, hefði verið beint samhengi milli sakargifta og þeirra fjárhagslegu hagsmuna dómara sem fóru forgörðum en því væri ekki fyrir að fara í þessu máli. Enn fremur hefði dómari í því máli orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í bankanum urðu með öllu verðlaus en í þessu tilviki væri um að ræða lækkun á mun hærri höfuðstól á afmörkuðu tímabili þegar eignaverð náði lágmarki sem viðbúið var að gengi til baka þegar jafnvægi væri náð eftir að kreppa gekk yfir í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki yrði talið að dómarinn hefði á grundvelli g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 verið vanhæfur til að fara með málið. Af þeirri ástæðu væri ekki fullnægt lagaskilyrðum fyrir endurupptöku málsins. Aðalkrafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson og Kristinn Halldórsson dómstjóri og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómari.

2. Með úrskurði endurupptökunefndar 23. október 2020 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmáli nr. 478/2014 sem dæmt var 3. desember 2015.

3. Ákæruvaldið krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt I. kafla ákæru og honum gert að sæta fangelsi í 2 ár.

4. Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ágreiningsefni

5. Hinn 28. júní 2013 gaf sérstakur saksóknari samkvæmt lögum nr. 135/2008 út ákæru á hendur ákærða og þremur öðrum mönnum. Í I. kafla ákærunnar voru ákærða gefin að sök umboðssvik 12. nóvember 2007 í starfsemi Glitnis banka hf., sbr. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig var Jóhannesi Baldurssyni og Elmari Svavarssyni gefið að sök þetta brot en allir voru þeir starfsmenn bankans. Í ákærunni er þessum sakargiftum á hendur nefndum mönnum lýst þannig:

[...] með því að hafa í sameiningu í fyrrgreindum störfum sínum fyrir Glitni banka hf. misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu er þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita félaginu BK-44 ehf. [...] sem var metið í áhættuflokki 6 og var í eigu ákærða Birkis Kristinssonar, 3.791.340.000 króna peningamarkaðslán án samþykkis lánanefndar eða áhættunefndar bankans, án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með fullnægjandi hætti og án þess að láta kanna með fullnægjandi hætti greiðslugetu lántakanda en allt þetta var í andstöðu við reglur bankans um lánveitingar.
Peningamarkaðslánið var veitt án þess að lántaki væri skuldbundinn til að endurgreiða það með undirritun lánsskjals. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup BK-44 ehf. á 150.000.000 hlutum í Glitni banka hf., sem fram fóru 7. nóvember 2007, og þóknun vegna þeirra kaupa. Ekki var gengið frá tryggingum fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar með formlegum hætti.

6. Í ákærunni kom fram að peningamarkaðslánið hefði verið með gjalddaga 12. desember 2007 og verið framlengt tíu sinnum með sömu skilmálum að öðru leyti en því að vextir tóku breytingum og hefðu þeir verið lagðir við höfuðstól hverju sinni við framlengingu lánsins. Þessar breytingar á skilmálum þess hefðu farið fram á tímabilinu frá 21. desember 2007 til 22. júlí 2008 en þann dag hefði lánið síðast verið á gjalddaga. Um verkaskiptingu við framningu brotsins sagði svo í ákærunni:

Þáttur ákærðu Jóhannesar og Elmars í hinni refsiverðu háttsemi var nánar tiltekið sá að leggja á ráðin um hlutabréfaviðskiptin og lánveitinguna, bjóða meðákærða Birki hlutabréfin til kaups fyrir hönd BK-44 ehf., setja fram tilboð um fjölda hluta og lánveitingu frá Glitni banka hf. til handa BK-44 ehf. til að fjármagna kaupin að fullu. Þáttur ákærða Magnúsar Arnars var sá að láta skrá á félagið BK-44 ehf. lánamörk fyrir allt að 4.000.000.000 króna í 6 mánuði án þess að hafa heimild til að samþykkja svo háa lánveitingu sem framkvæmdastjóri í bankanum og án samþykkis lánanefndar eða áhættunefndar. Ákærði Elmar hafði síðan milligöngu um lánveitinguna til BK-44 ehf. og annaðist framlengingar á láninu í alls 10 skipti uns lánið var greitt upp 22. júlí 2008 með þeim hætti sem lýst er í II. kafla ákærunnar. Skráning á lánamörkunum gerði ákærða Elmari fært að annast kaup á hlutabréfunum fyrir hönd BK-44 ehf. fyrir andvirði peningamarkaðslánsins. Ákærði Jóhannes samþykkti framkvæmd viðskiptanna og gaf starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra.

7. Með héraðsdómi 23. júní 2014 var ákærði sakfelldur fyrir það brot sem honum var gefið að sök og dæmdur til að sæta fangelsi í 4 ár. Jafnframt voru aðrir þeir sem ákæran tók til sakfelldir fyrir þetta brot og brot samkvæmt öðrum köflum ákærunnar sem lutu ekki að ákærða.

8. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og með fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 478/2014 var ákærði sakfelldur og gert að sæta fangelsi í 2 ár. Sakfelling annarra sem ákæran tók til var einnig staðfest og þeim gert að sæta refsingu.

9. Með bréfi til endurupptökunefndar 19. júní 2017 leitaði ákærði eftir því að málið sem lauk með umræddum dómi Hæstaréttar yrði endurupptekið á grundvelli 215. gr., sbr. 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eins og þessi ákvæði hljóðuðu fyrir setningu laga nr. 49/2016 og 47/2020. Svo sem áður sagði var beiðnin samþykkt með úrskurði nefndarinnar 23. október 2020 en aðrir en ákærði leituðu ekki endurupptöku. Í kjölfarið gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 27. sama mánaðar vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir ákærða 29. þess mánaðar.

Málsatvik

Um einkahlutafélagið BK-44

10. Í upphafi árs 2000 stofnuðu bræðurnir Birkir og B félagið MK-44 ehf. Á hluthafafundi 8. júní 2007 var nafni félagsins breytt í BK-44 auk þess sem gerðar voru breytingar á samþykktum þess. Eftir þeim var tilgangur félagsins kaup og sala verðbréfa, svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Samkvæmt ársreikningi 2007 voru hluthafar í félaginu tveir, annars vegar Birkir og hins vegar félagið sjálft, hvor með helmingshlut. Helsta eign samkvæmt efnahagsreikningi var dótturfélag þess, BK-44 II ehf., en í eigu þess mun hafa verið 28% hlutur í Gnúpi fjárfestingafélagi hf. Birkir mun hafa á tímabili sem spannar frá árinu 2003 og fram yfir þá atburði sem málið tekur til starfað í einkabankaþjónustu Íslandsbanka hf. sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf. og enn síðar Glitnir hf.

11. Með yfirlýsingu 25. apríl 2006 setti umrætt einkahlutafélag, sem eins og áður greinir hét þá MK-44, að handveði öll verðbréf á vörslureikningi nr. 40784 í Íslandsbanka hf. til tryggingar á öllum skuldbindingum þess við bankann. Jafnframt var tekið fram að veðsetningin tæki til hvers konar arðs af hinu veðsetta og skuldbatt félagið sig til að ráðstafa honum inn á nánar tilgreindan reikning sem einnig var veðsettur bankanum. Samkvæmt skráningu hjá bankanum var fyrrgreindum vörslureikningi skipt út 12. nóvember 2007 fyrir annan slíkan reikning nr. 70548. Af gögnum málsins verður ráðið að fram hafi farið ítarleg leit að skjölum um veðsetningu þessa reiknings en þau fundust ekki.

Kaup BK-44 ehf. á hlutum í Glitni banka hf. í nóvember 2007

12. Um haustið 2007 stóð Gnúpur fjárfestingarfélag hf. höllum fæti og var útséð með að félagið gæti efnt framvirka samninga sem það hafði gert við Glitni banka hf. um kaup á verulegu hlutafé í bankanum. Þar á meðal mun hafa verið samningur um kaup á 150.000.000 hluta 8. nóvember 2007 á genginu 30,6813. Þegar hér var komið sögu var bankinn kominn yfir þau lögbundnu 10% mörk sem fjármálafyrirtækjum var heimilt að eiga eða taka að veði í eigin hlutabréfum án samþykkis Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og ákvæðið hljóðaði þá, sbr. og 1. mgr. 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

13. Meðal gagna málsins er endurrit af símtali síðdegis 5. nóvember 2007 milli fyrrgreinds Elmars Svavarssonar verðbréfamiðlara markaðsviðskipta bankans annars vegar og starfsmanns Gnúps fjárfestingafélags hf. hins vegar. Kvaðst Elmar vera „með áhugasaman kaupanda að þessum Glitnisbréfum ykkar“ og spurði „voru þetta ekki ... 207 í heildina?“. Leiðrétti viðmælandinn hann með því að svara „150“ en þá sagði Elmar „Já, 150 já. Ok. Heyrðu, all right. Má ég ekki koma á þau verði?“ Eftir jákvætt svar viðmælandans kvaðst Elmar ætla að selja „sennilega nálægt bara lokaverðinu í dag“ en hafa samband síðar. Nokkrum mínútum síðar hringdi Elmar í miðlara í eigin viðskiptum Glitnis banka hf. og lét vita að hann „ætti að geta lokað því“ sem laut að kaupum á „150 ... í bankanum“ á „26,6“. Í kjölfarið hringdi Elmar í fyrrgreindan starfsmann Gnúps fjárfestingafélags hf. og sagði „150 á 26,6 þú selur“ og bundust þeir fastmælum um þetta. Samkvæmt yfirliti frá Kauphöllinni um viðskipti eiginbókar Glitnis banka hf. voru um þetta leyti skráð viðskipti með 150.000.000 hluta í bankanum á genginu 26,6.

14. Elmar Svavarsson sendi tölvubréf 7. nóvember 2007 klukkan 12.51 til C, sem þá gegndi starfi regluvarðar Glitnis banka hf., þar sem óskað var eftir heimild út vikuna til að eiga viðskipti við BK-44 ehf. með allt að 150.000.000 hluta í bankanum. Þar sagði að eini eigandi félagsins væri Birkir Kristinsson, starfsmaður bankans, og að heimildin þyrfti „að lifa í dag og á morgun“. Samrit af bréfinu var sent Birki og tekið fram að erindið væri afar áríðandi. Regluvörðurinn svaraði með tölvubréfi sama dag klukkan 12.58 og tók fram að heimildin væri veitt þann dag en eingöngu mætti veita slíka heimild til eins dags í senn.

15. Samkvæmt kaupnótu 7. nóvember 2007 keypti BK-44 ehf. klukkan 15.50 þann dag 150.000.000 hluta í Glitni banka hf. á genginu 25,2. Kaupverðið nam 3.780.000.000 króna að viðbættri söluþóknun að fjárhæð 11.340.000 krónur eða samtals 3.791.340.000 krónur. Á kaupnótunni var tekið fram að sölumaður væri Elmar og að viðskiptin væru skráð á vörslureikning nr. 210971 og að greitt hefði verið með „PM láni ... Kvittun á birki kristins“. Samkvæmt yfirliti frá Kauphöll um viðskipti eiginbókar Glitnis banka hf. voru þessi viðskipti skráð þar klukkan 16.50. Með þeim eignaðist BK-44 ehf. 1,0143% af heildarhlutafé bankans og varð samkvæmt upplýsingum Kauphallar 16. stærsti hluthafi í honum.

Peningamarkaðslán til BK-44 ehf. fyrir kaupum á hlutum í Glitni banka hf.

16. Ákærði sendi tölvubréf 7. nóvember 2007 klukkan 17.08 til Elmars Svavarssonar og D, starfsmanns í markaðsviðskiptum bankans. Samrit var sent E, forstöðumanni hjá áhættustýringu bankans, en hann var jafnframt ritari áhættunefndar. Enn fremur fékk Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, samrit þess. Í því sagði svo:

Ég er kominn með samþykki fyrir PM mörkum á BK-44 ehf., kt. 620200-2120, upp á 4ma. kr. í 6 mánuði.

Sama dag klukkan 17.27 framsendi Elmar þetta tölvubréf til Birkis með svohljóðandi orðsendingu:

Bréfin voru keypt áðan, þú færð pm lán fyrir þessum kaupum, value á mánudaginn. 150m nom GLB á 25,20.

17. Samkvæmt endurriti af símtali hringdi Elmar í F, starfsmann bakvinnslu bankans, 8. nóvember 2008 klukkan 16.57 og spurði „Heyrðu, money market lánið ... Ertu búinn að græja þetta?“ Viðmælandi bað þá um frekari skýringu og svaraði Elmar „Peningurinn. Peningurinn. Eru þeir búnir að borga bréfin? Þetta Gnúpur þarna.“ Við þetta hváði viðmælandi en þá sagði Elmar „Nei, tapið segi ég. Tapið.“ Þessu svaraði viðmælandinn „Nei, ég var að bíða eftir bara að hann myndi láta mig vita þarna“. Þessu næst sagði Elmar viðmælanda að taka féð af tilteknum reikningi og yrði hann „kominn þarna inn bara“. Í endurritinu kemur fram að Jóhannes Baldursson hafi verið viðstaddur og heyrist segja við Elmar „Bara þegar G er búin að leggja hann inn.“ Í framhaldinu endurtók Elmar að þetta ætti að gera þegar G væri búin að leggja hann inn. Eftir þetta samtal hringdi Jóhannes í umrædda G klukkan 16.59 og sagði „Sko, ég var að gera money market lán fyrir Gnúp“ og að F í bakvinnslu væri „að bíða eftir þessum peningum ... inn á þennan reikning“. Þessu svaraði G „Ég skal dúndra þessu í gegn bara“ og því samsinnti Jóhannes.

18. Starfsmaður Glitnis banka hf. sendi tölvubréf 12. nóvember 2007 klukkan 11.39 til Elmars þar sem sagði: „Sæll á eftir að setja inn PM lánið v/BK-44.“ Þessu erindi svaraði Elmar með tölvubréfi sama dag klukkan 14.21 og sagði „þetta á að fara á vs reikning 70548, […] gengur frá pm láni fyrir hann.“ Mínútu síðar hringdi Elmar í umræddan starfsmann, sem mun hafa verið H, og var það samtal svohljóðandi samkvæmt endurriti:

H Hvað ... viltu segja mér eitthvað hverjum ég er að lána og hvað mikið og hvað lengi og ... ?
ES Jaaaá. Þessa upphæð sem er þarna. H (Hlær) ha?
ES Var ekki ... nei, það var ekki nóta með.
H Það var bara 70548. Ég held að það sé reikningsnúmer frekar en upphæð. ES Já. Svona. Nú sendi ég þér nótuna. Þá sérðu töluna og nafnið og Maggi Arngríms, hann var búinn að samþykkja mörk á þetta. Á ég að senda þér það?
H Já, takk. Og D líka.
ES Eee ...
H Má það ekki?
ES Jú, jú. Má það ekki?
H Já.
ES Ég geri ekki bara drulludíla.
H (Hlær) Nei, nei.
ES Stundum er þetta í lagi.
H Já. Það er nú það sko.Það er nú akkúrat það.
ES Það er nú nefnilega það (flautar). Svona. Láttu þér þetta nægja, drengstauli.
H (Hlær) Heyrðu, fyrirtak.
ES Fyrirtæki. Heyrðu, takk.
H Heyrðu, hvað er ég að fara að lána honum? Þessa ...
ES Þessa upphæð þarna í 6 mánuði en ég meina getum við ekki samt haft þetta bara rúllandi á mánuði eða ... ?
H Jú, ég bara rúlla þessu í mánuð.
ES Já.
H Á ég að senda þér „quote“ eða bara „done-a“ dílinn?
ES „Quote-aðu“ bara sjálfan þig.
H Ok. Og hvaða álag ertu að hugsa um?
ES Ég veit það ekki. Á ég að velja það?
H Ber ég ábyrgð á því?
ES Hver hérna ... hvað er eðlilegt á þetta?
H Hmm ... er þetta ... er þetta drulludíll eða ... ?
ES (Síminn hringir) Nettur. Heyrðu, ég verð að taka þetta.
H Ok, bæ.
ES Bæ.

19. Eins og fram kom í því símtali sem hér hefur verið rakið sendi Elmar tölvubréf til H meðan á samtalinu stóð en því fylgdi bráðabirgðakvittun með yfirskriftinni „Pöntun fyrir keyptum hlutabréfum af eigin bókum bankans“. Þar kom fram að um væri að ræða 150.000.000 hluta í bankanum á genginu 25,2 fyrir 3.780.000.000 króna. Að viðbættri þóknun að fjárhæð 11.340.000 krónur væri heildarverðið 3.791.340.000 krónur. Greiðslan væri skuldfærð samkvæmt beiðni af tilgreindum reikningi BK-44 ehf. en tekið fram að greitt væri með „PM láni ... Kvittun á birki kristins.“ Jafnframt framsendi Elmar til H og fyrrgreinds D, starfsmanns í markaðsviðskiptum bankans, tölvubréf 7. nóvember 2007 þar sem ákærði tilkynnti að hann væri kominn með samþykki „fyrir PM mörkum á BK-44 ehf. ... upp á 4ma kr. í 6 mánuði“. Þessu svaraði H með tölvubréfi sama dag og símtalið fór fram klukkan 14.43 og hljóðaði það þannig:

FYI
Dönn,
Lánaði BK-44 isk 3.791.340.000 @ 14,55 Reibor og 210bp álagi í 1 mánuð frá
12.nóv – 12.des.

Uppgjör á peningamarkaðsláninu til BK-44 ehf.

20. Svo sem hér hefur verið rakið var peningamarkaðslánið til BK-44 ehf. að fjárhæð 3.791.340.000 krónur vegna kaupa á hlutum í Glitni banka hf. á gjalddaga 12. desember 2007 en með áföllnum vöxtum nam skuldin 3.843.944.843 krónum. Þann dag var vöxtunum bætt við höfuðstól lánsins og það framlengt til 11. janúar 2008. Aftur var vöxtum bætt við höfuðstól og lánið framlengt til 3. mars, síðan til 3. apríl og þá 5. maí sama ár. Síðastnefndur gjalddagi var færður fram til 30. apríl sama ár en þá nam skuldin 4.110.042.710 krónum.

21. Áður en kom að gjalddaga lánsins 30. apríl 2008 hafði Glitnir banki hf. í viðskiptum 25. sama mánaðar leyst til sín 30.000.000 hluta í bankanum frá BK-44 ehf. á genginu 16,85. Andvirði hlutanna að fjárhæð 503.983.500 krónur að teknu tilliti til þóknunar að fjárhæð 1.516.500 krónur kom til frádráttar láninu á uppgjörsdegi viðskiptanna sem var á sama degi og lánið var á gjalddaga. Þann dag voru eftirstöðvarnar að fjárhæð 3.606.059.210 krónur framlengdar til 5. maí sama ár. Enn var lánið framlengt til 19. maí, 19. júní og 21. júlí sama ár og áföllnum vöxtum ávallt bætt við höfuðstól. Loks var lánið framlengt um einn dag til 22. júlí en þann dag nam skuldin í heild sinni 3.777.242.206 krónum.

22. Á síðastgreindum gjalddaga lánsins 22. júlí 2008 var það gert upp með því að Glitnir banki hf. leysti til sín 120.000.000 hluta BK-44 ehf. í bankanum. Fór það þannig fram að fyrst keypti bankinn hlutina á genginu 14,95 fyrir 1.794.000.000 króna en til frádráttar kom söluþóknun að fjárhæð 5.382.618 krónur. BK-44 ehf. keypti síðan hlutina aftur af bankanum á sama gengi. Söluverð hlutanna í þessum viðskiptum mun hafa verið nærri skráðu gengi hlutabréfa í bankanum í Kauphöll á þessum tíma. Loks keypti svo bankinn hlutina á ný af BK-44 ehf. en í þetta sinn á genginu 31,82 eða fyrir 3.818.400.000 krónur og án söluþóknunar. Þegar lánið hafði verið gert upp voru eftirstöðvar söluandvirðisins að fjárhæð 35.775.794 krónur lagðar inn á reikningi BK-44 ehf. í bankanum.

23. Samkvæmt gögnum málsins voru umrædd viðskipti til athugunar innan bankans í september 2008. Meðal málsgagna er tölvubréf 19. þess mánaðar sent innan bankans af C sem eins og áður greinir var regluvörður bankans á þessum tíma. Þar kom fram að um hefði verið að ræða uppgjör á sölurétti sem „eigin viðskipti“ höfðu samþykkt. Í ljós hefði komið að farist hefði fyrir að ganga skriflega frá þeim rétti. Tók regluvörðurinn fram að hann hefði verið hafður með í ráðum við að ganga frá málinu en hann hefði gert starfsmönnum grein fyrir að vanhöld af þessu tagi gætu haft alvarlegar afleiðingar.

24. Á því tímabili sem hlutabréfin í Glitni banka hf. voru í eigu BK-44 ehf. voru þau ekki varðveitt á vörslureikningi nr. 40784, sem eins og áður greinir hafði verið settur bankanum að handveði, heldur á vörslureikningi nr. 70548 sem engin gögn liggja fyrir um að bankinn hafi haft að veði. Á umræddu tímabili var greiddur arður 13. mars 2008 að fjárhæð 49.949.999 krónur og hann lagður inn á innlánsreikning BK-44 ehf. í bankanum.

Fall Glitnis banka hf. og málsatvik í kjölfar þess

25. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., leysa félagið frá störfum og setja yfir það skilanefnd.

26. Með bréfi 10. nóvember 2011 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara vegna nánar tilgreindra brota í starfsemi Glitnis banka hf. Meðal þess sem kæran tók til var lán sem veitt var BK-44 ehf. er fjármagnaði fyrrgreind kaup félagsins á hlutum í bankanum 7. nóvember 2007 án þess að settar hefðu verið fullnægjandi tryggingar fyrir endurgreiðslu þess. Jafnframt var því haldið fram að lánveitingin hefði verið í ósamræmi við útlánareglur bankans.

27. Hinn 1. október 2012 sendi slitastjórn Glitnis hf., eins og félagið hét þá, tilkynningu til sérstaks saksóknara um rökstuddan grun um refsivert athæfi í starfsemi bankans. Tilkynningin tók meðal annars til uppgjörs á peningamarkaðsláninu til BK-44 ehf. en laut ekki að lánveitingunni og þætti ákærða í henni.

28. Eins og áður greinir gaf sérstakur saksóknari út ákæru 28. júní 2013 á hendur ákærða og þremur öðrum fyrrverandi starfsmönnum bankans. Aðeins I. kafli hennar tók til ákærða og eingöngu sá þáttur málsins er til úrlausnar hér.

Um formhlið málsins

Beiðni ákærða um endurupptöku málsins

29. Svo sem áður greinir fór ákærði þess á leit með bréfi 19. júní 2017 að hæstaréttarmál nr. 478/2014, sem lauk með dómi 3. desember 2015, yrði endurupptekið. Beiðni þessari var beint að endurupptökunefnd í samræmi við 215. gr., sbr. 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, eins og þessi ákvæði hljóðuðu fyrir setningu laga nr. 49/2016 og 47/2020.

30. Beiðni ákærða um endurupptöku málsins var meðal annars reist á því að einn af dómurum þess í Hæstarétti, Markús Sigurbjörnsson, hefði verið vanhæfur til að dæma málið vegna hlutabréfaeignar sinnar og annarra fjárhagsumsvifa. Til stuðnings þessu var því haldið fram að um væri að ræða ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, eins og ákvæðið hljóðaði á þessum tíma, auk þess sem þetta hefði valdið því að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins sem áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Jafnframt var því haldið fram að fyrir hendi væru upplýsingar sem bentu til að dómarinn hefði ekki með fullnægjandi hætti gert nefnd um dómarastörf grein fyrir þessum umsvifum sínum en það væri til þess fallið að auka á vafa um hæfi hans til að dæma málið. Til stuðnings því að dómarinn hefði verið vanhæfur var meðal annars vísað til g-liðar 6. gr. laga nr. 88/2008.

31. Með beiðni um endurupptöku málsins fylgdi afrit af sameiginlegu bréfi ákærðu, Elmars Svavarssonar og Birkis Kristinssonar, 2. janúar 2017 til nefndar um dómarastörf þar sem meðal annars var óskað upplýsinga um eignarhluti og hagsmunatengsl fyrrgreinds dómara á árunum 2004 til 2016. Til stuðnings beiðninni var vísað til 9. gr. þágildandi reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Nánar tiltekið var þess farið á leit að upplýst yrði hvort dómarinn hefði tilkynnt nefndinni um eignarhald eða leitað eftir heimild til að eiga hluti í félögum eða hlutdeildarskírteini í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum.

32. Nefnd um dómarastörf svaraði erindinu með bréfi 23. janúar 2017. Þar kom fram að engin tilkynning hefði borist frá Markúsi Sigurbjörnssyni um eignarhlut í félögum eða atvinnufyrirtækjum eða að hann hefði leitað eftir heimild til að eiga slíkan hlut frá árinu 2004 eða síðar. Með bréfi 28. febrúar 2007 hefði hann tilkynnt um sölu hlutabréfa í Glitni banka hf. og að hann ætti ekki lengur hlut í félagi. Í bréfi nefndarinnar kom jafnframt fram að hún hefði á fundi sínum 15. desember 2016 tekið til umfjöllunar hvort eign í hlutabréfasjóði eða hliðstæðum sjóðum félli undir tilkynningaskyldu dómara til nefndarinnar eftir reglum nr. 463/2000. Niðurstaðan hefði verið að slík eign væri ekki tilkynningarskyld því að hún væri eðlisólík hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgdi ákvörðunarvald í málefnum félags en það ætti ekki við um hlutdeild í slíkum sjóðum. Þegar fé væri lagt í þá fengi greiðandi staðfestingu með hlutdeildarskírteini um eignina og væri þessi meðferð fjár hliðstæð því að féð væri lagt inn á innlánsreikning.

33. Beiðni um endurupptöku málsins fylgdi jafnframt afrit sameiginlegs bréfs ákærðu, Elmars og Birkis, 2. janúar 2017 til Hæstaréttar þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum miðað við árin 2004 til 2016 um hvort dómarar málsins hefðu átt stofnfé eða eignarhluti í félögum, hlutdeildarskírteini eða önnur réttindi í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum. Jafnframt var óskað eftir sömu upplýsingum um þá sem dómararnir teldu sjálfir vera sér nákomna, svo sem maka eða börn. Enn fremur var óskað eftir upplýsingum um hvort tap hefði orðið hjá þeim eða einhverjum sem þeir teldu sér nákomna í viðskiptum með eignarhluti í félögum eða sjóðum við hrun íslenska fjármálakerfisins. Nánar tiltekið var óskað eftir upplýsingum um mismun á annars vegar hæstu eignastöðu í eignasafni á árunum 2007 til 2008 og hins vegar stöðu eignasafns við sölu þess í heild eða að hluta eða í kjölfar efnahagshrunsins eftir því hvort hefði orðið fyrr. Enn fremur var óskað eftir upplýsingum um hvort dómarnir hefðu gert eignastýringarsamninga við félög sem beiðnin tók til.

34. Umræddu erindi svaraði skrifstofustjóri Hæstaréttar með bréfi 31. janúar 2017 en þar kom fram að þeir dómarar sem beiðnin tók til hefðu verið beðnir að fylla út spurningablað sem tekið var saman í tilefni af fyrirspurninni. Tekið var fram að spurningarnar miðuðu við stöðu samkvæmt skattframtölum á árunum 2004 til 2008 þar sem sakarefni máls við réttinn nr. 478/2014 einskorðaðist við tiltekna þætti í starfsemi Glitnis banka hf. á árunum 2007 og 2008. Einnig var vísað til þess að þar sem 26. gr. þágildandi laga nr. 15/1998 um dómstóla og reglur nr. 463/2000 tækju ekki til eigna í verðbréfasjóðum, eins og nefnd um dómarastörf hefði tekið af skarið um á fundi 15. desember 2016, hefðu svörin ekki að geyma upplýsingar þar að lútandi. Þá var tekið fram að ekki yrðu veittar upplýsingar um fjárhagsmálefni maka dómara eða annarra nákominna, enda ekki á færi dómaranna að veita upp á sitt eindæmi slíkar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga.

35. Svör Markúsar Sigurbjörnssonar sem fylgdu umræddu bréfi skrifstofustjóra réttarins hljóðuðu svo að því er varðaði sakarefni þessa máls:

1. Átti dómarinn eignarhluti í Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. eða Glitni banka hf. einhvern tíma á árunum 2004 til 2008? Í lok árs 2003 átti ég 1.739.518 hluti í Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf. Eins var í lok áranna 2004, 2005 og 2006. Í árslok 2007 átti ég 13.832 hluti í sama félagi og það sama í lok árs 2008.
2. Hafi dómarinn átt eignarhluti í Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. eða Glitni banka hf. á árunum 2004 til 2008, varð tap af þeim viðskiptum og þá hvert? Ég mun hafa eignast áðurnefnda 13.832 hluti í Glitni banka hf. 14. mars 2007 sem greiðslu á hluta af arði af hlutabréfum í sama félagi, sem ég hafði þegar selt, 343.034 krónum. Með því að ég átti enn þessa hluti 7. október 2008, þegar þeir urðu verðlausir, nam tap mitt þessari fjárhæð. [...]
5. Var dómarinn einhvern tíma á árunum 2004 til 2008 með samning um eignastýringu við Kaupþing banka hf., Landsbanka Íslands hf. eða Glitni banka hf.? Ég gerði samning við Glitni banka hf. 5. janúar 2007 um eignastýringu, sem stóð yfir þar til það félag lét af slíkri starfsemi fyrri hluta október 2008. Spurning þessi [...] lýtur ekki að því hver útkoma hafi orðið af ráðstöfunum á grundvelli þessa samnings. Þótt hvorki telji ég mér það skylt né að slíkt geti hafa haft áhrif á hæfi mitt til að sitja í dómi í hæstaréttarmáli nr. 478/2014, vil ég láta þess getið að samkvæmt gögnum, sem mér eru tiltæk, lét ég af hendi í janúar og febrúar 2008 um 61.450.000 krónur til eignastýringar samkvæmt samningnum. Því fé virðist á fyrrgreindu tímabili hafa verið varið til viðskipta með hlutdeild í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum, en einnig verið haft að hluta á innlánsreikningum. Þær ráðstafanir voru gerðar án minna afskipta. Eftir því, sem ég fæ best séð, tók ég á árinu 2007 samtals um 6.165.000 krónur út úr eignastýringu og síðan um 3.800.000 krónur á árinu 2008. Hefðu þannig átt að standa eftir af upphaflegum höfuðstól um 51.485.000 krónur í árslok 2008. Verðmæti eigna, sem höfðu verið í eignastýringu, var á þeim tíma um 43.878.000 krónur. Verðrýrnun eigna í eignastýringunni á þessu tímabili varð samkvæmt þessu um 7.607.000 krónur eða sem svarar 14.78% af upphaflegum höfuðstól að teknu tilliti til úttekta af honum.

Gagnaöflun endurupptökunefndar

36. Með bréfi endurupptökunefndar 17. apríl 2018 var þess farið á leit við ríkissaksóknara að hann hlutaðist til um rannsókn á því hvort dómarar sem dæmdu hæstaréttarmál nr. 478/2014 og makar þeirra hafi á árunum 2007 til 2008 átt eignarhluti í Glitni banka hf., hlutdeildarskírteini í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum sem áttu eignarhluti í bankanum eða eignarhluti í félögum sem áttu eignarhluti í bankanum. Til stuðnings þessari beiðni var vísað til 4. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008, eins og ákvæðið hljóðaði þá. Ríkissaksóknari svaraði erindinu með bréfi 15. maí 2018 þar sem fram kom að hann teldi að beiðni endurupptökunefndar, sem beindist að dómurum og mökum þeirra, yrði ekki framkvæmd á grundvelli þeirra laga og því yrði nefndin sjálf að hlutast til um að upplýsa málið.

37. Í kjölfarið fór endurupptökunefnd þess á leit við Hæstarétt með bréfi 5. júní 2018 að henni yrðu veittar fyrrgreindar upplýsingar og jafnframt hvort tjón hefði hlotist af viðskiptunum. Þessu erindi svaraði skrifstofustjóri Hæstaréttar með bréfi 27. sama mánaðar þar sem vísað var til fyrrgreinds bréfs 31. janúar 2018 til ákærða. Ekki yrðu veittar upplýsingar um eignarhald dómara í félögum sem kynnu að hafa átt hluti í Glitni banka hf., svo og um hlutdeildarskírteini þeirra í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum sem kynnu að hafa átt eignarhlut í bankanum. Þessi synjun var byggð á því að endurupptökunefnd hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar auk þess sem eign í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum væri eðlisólík hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgdi ákvörðunarvald í málefnum félags en það gerði ekki hlutdeild í slíkum sjóðum. Einnig var tekið fram að hlutdeildarsjóðshafar hefðu ekki ákvörðunarvald um það í hvaða verðbréfum væri fjárfest hverju sinni. Þá var vísað til þess að 26. gr. þágildandi laga nr. 15/1998 og reglur nr. 463/2000 tækju ekki til eigna í verðbréfasjóðum, eins og nefnd um dómarastörf hefði tekið af skarið um á fundi sínum 15. desember 2016. Enn fremur var vísað til dóms Hæstaréttar 14. nóvember 2017 í máli nr. 705/2017 sem fordæmi um þau atriði sem fyrirspurn endurupptökunefndar laut að. Loks var bent á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði nýlega borið upp spurningar við íslenska ríkið vegna kvörtunar af sama tilefni en þær hefðu meðal annars lotið að því hvort dómarar málsins hefðu átt eignarhluti í Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. eða Landsbanka Íslands hf. Þessar spurningar hefðu hins vegar hvorki lotið að eignarhlutum í öðrum félögum en þessum fjármálafyrirtækjum né hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum. Af því mætti draga þá ályktun að mannréttindadómstóllinn teldi atriði sem þessi ekki skipta máli. Þóttu því ekki efni til að veita frekari svör um þetta.

38. Með bréfi skrifstofustjórans 27. júní 2018 fylgdu nánari svör Markúsar Sigurbjörnssonar. Í svari hans var áréttað að í upphafi árs 2007 hefði hann átt 1.739.518 hluti í Glitni banka hf. sem hann hefði selt að fullu í janúar og febrúar það ár. Ekki hefði orðið nokkurt tjón af þeirri sölu enda hefði hann fengið bréfin að arfi. Í mars 2007 taldi hann sig hafa fengið greiddan hluta af arði af þessum hlutum, sem hann hefði þó þegar selt, með 13.832 hlutum í Glitni banka hf. en þeir munu hafa verið taldir í því sambandi að andvirði 343.034 krónur. Þessa hluti hefði hann átt þegar þeir urðu verðlausir 7. október 2008. Að frátöldu þessu hefði hann ekki átt neina hluti í Glitni banka hf. á árunum 2007 til 2008 og heldur ekki eiginkona hans, sem fyrir sitt leyti hefði veitt honum heimild til að veita upplýsingar um persónuleg málefni sín.

Úrlausn endurupptökunefndar

39. Í úrskurði endurupptökunefndar 23. október 2020 vísaði nefndin til þess að Markús Sigurbjörnsson hefði átt 13.832 hluti í Glitni banka hf. í árslok 2007 eða um það leyti sem refsiverð háttsemi ákærða var talin hafa átt sér stað. Einnig vísaði nefndin til þess að dómarinn teldi sig hafa fengið þessa hluti sem þátt í arðgreiðslu á því ári en í þeim lögskiptum hefði andvirði þeirra verið talið nema 343.034 krónum. Umrædda hluti hefði hann átt þar til þeir urðu verðlausir 7. október 2008. Í ljósi gengisþróunar hlutabréfa í bankanum mætti ætla að verðmæti hlutbréfanna hefði rýrnað töluvert á árinu 2008 og því hefði tjón dómarans numið lægri fjárhæð þegar bréfin urðu verðlaus. Með hliðsjón af þessu taldi endurupptökunefnd að umfang hlutbréfaeignar dómarans hefði ekki verið slíkt að það hefði haft áhrif á hæfi hans til að taka sæti í sakamáli á hendur ákærða. Að sama skapi hefði umfang tjóns dómarans vegna þess að hlutabréfin fóru forgörðum ekki verið slíkt að verulegur galli hefði verið á málsmeðferð í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008.

40. Í úrskurði nefndarinnar var því næst fjallað um fjármál Markúsar á grundvelli samnings 5. janúar 2007 um eignastýringu. Um það sagði svo í úrskurði endurupptökunefndar:

Eins og að framan greinir þá tóku þágildandi reglur nr. 463/2000 ekki til eigna í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum en nefnd um dómarastörf tók af skarið um þetta á fundi sínum þann 15. desember 2016. Niðurstaða nefndarinnar var sú að slíkar eignir væru ekki tilkynningarskyldar. Þær væru eðlisólíkar hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgir ákvörðunarvald í málefnum félags sem hlutdeild í slíkum sjóðum gerir ekki. Væri eign í slíkum sjóðum hliðstætt því að fé væri lagt inn á innlánsreikninga, eins og fram kemur í bréfi nefndarinnar, dags. 23. janúar 2017.
Það eitt að nefnd um dómarastörf hafi ekki talið þörf á því að dómarar upplýstu um eignir sínar í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum breytir því ekki að fjárhagslegt tap dómara getur leitt til þess að draga megi hlutleysi hans í efa í skilningi g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, vegna hlutdeildar hans í slíkum sjóðum eins og endranær.
Samkvæmt upplýsingum frá dómaranum lét hann af hendi í janúar og febrúar 2008 um 61.450.000 kr. til eignastýringar samkvæmt samningnum. Samkvæmt dómaranum virðist því fé á fyrrgreindu tímabili hafa verið varið til viðskipta með hlutdeild í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum en einnig verið haft að hluta til á innlendum innlánsreikningum. Samkvæmt upplýsingum frá dómaranum voru þær ráðstafanir gerðar án hans afskipta. Telur dómarinn að fjárhagslegt tap hans hafi numið 7.607.000 kr. eða 14,78 prósentum af upphaflegum höfuðstól að teknu tilliti til tveggja úttekta af honum að fjárhæð 6.150.000 kr. og 3.800.000 kr. Að meðtöldu tjóni dómarans vegna áðurnefndrar hlutabréfaeignar hans í Glitni banka hf. liggur því fyrir að fjárhagslegt tjón hans við fall bankans nam samtals tæpum átta milljónum króna. Fjárhæð tjóns dómarans nemur margföldum mánaðarlaunum hans og nánast þrefaldri þeirri fjárhæð sem lögð var til grundvallar í þágildandi reglum nr. 463/2000.
Eins og áður segir þá snýr sakamál endurupptökubeiðanda að umboðssvikum hans gagnvart Glitni banka hf. og því tjóni sem háttsemin olli bankanum. Ekki hafa komið fram gögn í málinu um að tjón dómarans vegna eignastýringarinnar megi rekja til þeirrar háttsemi. Hvorki liggja fyrir frekari upplýsingar í málinu, en að framan greinir, um það með hvaða hætti fjármunum dómarans, sem voru í eignastýringu hjá Glitni banka hf., var ráðstafað, svo sem hvort þeim hafi verið ráðstafað til kaupa á hlutafé í félögum eða sjóðum sem áttu hlut í bankanum, né að þessir fjármunir í eignastýringu hafi legið í verðmætum sem tengdust hlutabréfum í Glitni banka hf. Fjártjónið gat því hafa komið til vegna annarra ástæðna en tjóns bankans.
Að mati endurupptökunefndar getur það ekki ráðið úrslitum við mat á hlutleysi dómarans hvort fjárhagstjónið hafi verið vegna hlutabréfaeignar hans í bankanum eða eignar hans í hlutabréfasjóðum sem voru í stýringu hjá bankanum. Hinir fjárhagslegu hagsmunir eru þeir sömu og það varðar dómarann sama áfallinu að tapa fénu, á hvorn veginn sem er. Er þá til þess að líta að tilgangur hæfisreglna, þar á meðal samkvæmt g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.
Dómarinn var viðskiptavinur Glitnis banka hf. á þeim tíma sem hin refsiverða háttsemi átti sér stað og tapaði verulegum fjármunum í þeim viðskiptum. Endurupptökubeiðandi og aðrir dómfelldu voru ákærðir fyrir háttsemi sem varðaði gríðarlegar fjárhæðir og var til þess fallin að valda Glitni banka hf. stórfelldu tjóni. Endurupptökubeiðandi var einn af stjórnendum bankans og í ljósi þeirra fjármuna sem fóru forgörðum hjá dómaranum voru atvik og aðstæður með þeim hætti að endurupptökubeiðandi mátti hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Breytir þá engu þótt nokkur tími hafi liðið frá því tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu.

41. Á þessum grundvelli taldi endurupptökunefnd að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma hæstaréttarmál nr. 478/2014. Af þeirri ástæðu hefðu verið gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Væri því samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laganna fullnægt skilyrðum fyrir endurupptöku málsins og var sú krafa tekin til greina. Aftur á móti var öðrum ástæðum sem ákærði tefldi fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku hafnað en hér eru ekki efni til að rekja þau atriði nánar. Er þess þá að gæta að úrlausn nefndarinnar þar að lútandi kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, enda ekki á valdi réttarins að taka ákvörðun um endurupptöku í stað nefndarinnar af öðrum ástæðum en hún lagði til grundvallar úrlausn sinni, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Málatilbúnaður aðila um formhlið málsins

Röksemdir ákæruvaldsins

42. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að endurupptökunefnd hafi ranglega metið hæfi Markúsar Sigurbjörnssonar til að dæma hæstaréttarmál nr. 478/2014. Þess verði að gæta að dómarinn hafi átt fé í eignastýringu hjá Glitni banka hf. án þess að hafa tekið ákvarðanir um fjárfestingar eða haft yfirsýn yfir hvernig þeim var háttað. Hér gegni allt öðru máli en þegar dómari hafi átt hlutabréf í þeim banka þar sem ákærðu störfuðu og sakargiftir á hendur þeim hafi snert gengi hlutabréfa í bankanum sem dómari hafi átt hluti í á sama tíma, sbr. til hliðsjónar ákvarðanir Hæstaréttar 27. maí 2020 sem raktar eru í dómum réttarins 12. mars 2021 í málum nr. 34/2019 og 35/2019.

43. Ákæruvaldið bendir einnig á að viðskiptabankarnir hér á landi hafi fallið haustið 2008 eða tæplega ári eftir þau atvik sem eru grundvöllur sakargifta á hendur ákærða en tjón dómarans hafi á engan hátt verið tengt þeim athöfnum sem ákært er fyrir. Því sé fráleitt að halda því fram að málið hafi ekki verið dæmt af óhlutdrægum dómstóli enda séu engin tengsl að efni eða í tíma milli háttsemi ákærða og tjóns dómarans önnur en að ákærði starfaði í bankanum.

44. Enn fremur vísar ákæruvaldið til þess að flestallir hér á landi hafi á einn eða annan hátt tapað fjármunum við efnahagshrunið 2008, svo sem vegna atvinnumissis, hækkandi verðbólgu, tapaðs sparifjár eða lífeyris og hækkunar lána. Þótt ákærði hafi verið starfsmaður Glitnis banka hf. í aðdraganda hrunsins og sjóðir sem bankinn fjárfesti í fyrir dómarann hafi tapað fé til tjóns fyrir hann hafi ákærði ekkert komið að því og tjón dómarans án vafa verið vegna gjaldþrota og vanskila langt út fyrir starfsemi bankans. Auk þess hafi allir sem lögðu fé í slíkar fjárfestingar mátt gera ráð fyrir að brugðið gæti til beggja vona með þær. Tjón dómarans hafi ekki numið nema tæpum 15% af höfuðstól en ekki verið altjón eins og reyndi á í fyrrgreindum málum Hæstaréttar nr. 34/2019 og 35/2019.

45. Því telur ákæruvaldið að niðurstaða endurupptökunefndar fái ekki staðist og af þeim sökum beri að vísa málinu frá Hæstarétti.

Röksemdir ákærða

46. Ákærði vísar til þess að fram hafi komið ný gögn um hlutabréfaeign og fjármálaumsvif dómara eftir að dómur Hæstaréttar féll í máli nr. 478/2014, þar á meðal dómarans Markúsar Sigurbjörnssonar. Hafi hann bæði átt hlutabréf í Glitni banka hf. og gert samning við bankann um eignastýringu en vegna hans hafi hann tapað 7.607.000 krónum. Á grundvelli þessara gagna hafi endurupptökunefnd með réttu komist að þeirri niðurstöðu að endurupptaka beri málið vegna vanhæfis dómarans. Því séu engin efni til að hnekkja þeirri niðurstöðu og vísa málinu frá Hæstarétti.

47. Ákærði telur ekki skipta máli við mat á hæfi dómara í hverju hann hafi fjárfest. Einnig beri að líta til þess að sú fjárhæð sem dómarinn tapaði sé sambærileg þeirri sem um ræddi í dómum réttarins 12. mars 2021 í málum nr. 34/2019 og 35/2019. Ákærði byggir jafnframt á því að dómarinn hafi treyst starfsmönnum bankans fyrir sparnaði sínum og síðan dæmt mál á hendur þeim eftir að hafa þurft að þola verulegt tjón vegna meðferðar bankans á fjármunum sínum. Í málinu sé því uppi réttmætur vafi um hæfi dómarans. Við mat á því verði sérstaklega að huga að ytri ásýnd dómstóla og því trausti sem verði að ríkja til þeirra. Með réttu verði því dregið í efa að dómarinn hafi verið óhlutdrægur við meðferð málsins og því hafi honum borið að víkja sæti. Við mat á kröfu ákærða um endurupptöku málsins verði enn fremur að líta til þess að heimild til hennar sé liður í réttlátri málsmeðferð fyrir dómi.

48. Af framangreindum ástæðum telur ákærði að hrinda beri kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti.

Niðurstaða um formhlið málsins

Skilyrði endurupptöku

49. Í 1. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 segir að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau atriði sem þar eru dæmd að efni til. Jafnframt leiðir af 2. mgr. greinarinnar að krafa sem dæmd hefur verið verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en leiðir af lögunum. Þá segir í 3. mgr. að dómur sé bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Loks leiðir af 4. mgr. að dómur hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Í þessum ákvæðum laganna kemur fram grunnregla réttarfars um bindandi gildi dóma (res judicata) en hún felur í sér að dómur er endir þrætu og því verður sama sakarefni venjulega ekki dæmt aftur. Að baki þessum réttaráhrifum dóma býr sá áskilnaður sem gera verður í réttarríki um það sem nefnt hefur verið réttarvissa (principle of legal certainty) og miðar meðal annars að því að tryggja festu í starfsemi dómstóla sem er forsenda þess að þeir njóti trausts þegnanna, sbr. meðal annars dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 1. desember 2020 í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi (sjá 238. lið dómsins). Af þessu leiðir eðli máls samkvæmt að lagareglum um endurupptöku dæmdra mála verður ekki markað rýmra gildissvið en leiðir af bókstaflegum skilningi þeirra.

50. Samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 47/2020, gat endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla leyft að mál sem dæmt hefði verið í Hæstarétti yrði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt væri þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna. Samkvæmt d-lið 1. mgr. þeirrar greinar er heimilt að verða við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að mál verði endurupptekið ef verulegir gallar hafa verið á meðferð þess þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðuna. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna sagði að undir það gæti meðal annars átt tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hefðu áður verið um þá kunnugt. Þætti eðlilegt að taka upp reglu af þessum toga til að tryggja rétta meðferð máls.

51. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, eins og þau hljóðuðu fyrir setningu laga nr. 47/2020, var endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tók ákvörðun um hvort heimila ætti endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefði verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Um skilyrði endurupptöku var í 2. mgr. greinarinnar vísað til laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála. Nánari ákvæði um skipun nefndarinnar, hæfi og störf var að finna í 3. til 6. mgr. sömu greinar. Í 7. mgr. sagði síðan að ákvörðun nefndarinnar um að synja beiðni um endurupptöku máls væri endanleg og yrði ekki skotið til dómstóla.

52. Eins og hér hefur verið rakið var endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem féll undir framkvæmdavald ríkisins. Til hennar var í öndverðu stofnað með lögum nr. 15/2013 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögum nr. 15/1998 um dómstóla, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með fyrstnefndu lögunum voru nefndinni fengin viðfangsefni sem lutu að meðferð dómsmála og höfðu áður verið í verkahring Hæstaréttar. Vegna meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar eiga dómstólar eftir sem áður úrskurðarvald um ákvarðanir sem nefndin hefur tekið. Á þeim grunni ber að taka afstöðu til þess hvort lög hafa með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í úrskurði sínum 23. október 2020 um endurupptöku þessa máls, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015, 27. september 2018 í máli nr. 521/2017, 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015 og 12. mars 2021 í málum nr. 34/2019 og 35/2019. Um þetta gegnir hins vegar öðru máli eftir að endurupptökunefnd var lögð niður og Endurupptökudómur stofnaður með lögum nr. 47/2020 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Samkvæmt 54. gr. laga nr. 50/2016 er Endurupptökudómur sérdómstóll sem sker úr um hvort heimila skal endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Niðurstaða hans um endurupptöku máls er endanleg og verður ekki skotið til annars dómstóls, sbr. 2. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991.

Um sérstakt hæfi dómara

53. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í lögskýringargögnum með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segir að sá sem borinn er sökum um refsivert brot skuli eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.

54. Nánari fyrirmæli um hæfi dómara til að fara með og dæma sakamál eru í 6. gr. laga nr. 88/2008. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í a- til f-liðum 1. mgr. sem ekki reynir á í máli þessu. Í g-lið segir svo að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

55. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál er þess að gæta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál ef hann er hlutdrægur gagnvart aðilum máls eða sakarefni heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að hann standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Við þessar aðstæður ber dómara að víkja sæti eins og ítrekað hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar og má hér í dæmaskyni benda á dóma réttarins 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014, 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 9. desember 2020 í málum nr. 31/2020 og 32/2020.

56. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn þess hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og hvort fyrir hendi eru hlutlæg atriði sem gefa réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Um þetta má meðal annars vísa til dóma 10. apríl 2003 í máli nr. 39731/98, Pétur Þór Sigurðsson gegn Íslandi (sjá 37. lið dómsins) og 23. apríl 2015 í máli nr. 29369/10, Morice gegn Frakklandi (sjá 73. til 78. lið dómsins). Þessi viðmið hafa verið lögð til grundvallar í íslenskri réttarframkvæmd eins og ráðið verður af fyrrgreindum dómum Hæstaréttar.

57. Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu hefur reynt á hæfi dómara til að fara með mál vegna eignarhalds þeirra á hlutabréfum. Í dómi 25. febrúar 2020 í máli nr. 41382/17, Sigríður Elín Sigfúsdóttir gegn Íslandi, laut kvörtun meðal annars að því að hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti í máli nr. 456/2014, sem dæmt var 8. október 2015, vegna þess að dómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson hefðu ekki verið óvilhallir. Að því er varðaði hæfi Markúsar til að dæma málið vísaði Mannréttindadómstóllinn til þess að hann hefði ekki átt nein hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. en málið laut að ætluðum brotum í starfsemi þess banka. Í því tilliti gæti engu breytt þótt dómarinn hefði átt hlutabréf í Glitni banka hf. og tapað fjármunum vegna annarra fjárfestinga. Jafnframt var vísað til þess að ekkert lægi fyrir um að náin skyldmenni dómarans hefðu orðið fyrir tjóni við fall Landsbanka Íslands hf. haustið 2008 (sjá 53. lið dómsins). Um hæfi Eiríks var vísað til þess að hann hefði átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að andvirði 1.738.922 krónur þegar bankinn féll og þau orðið verðlaus. Að því gættu að sá eignarhluti var undir 3.000.000 króna mörkum í 2. mgr. 7. gr. fyrrgreindra reglna nr. 463/2000 um tilkynningarskyldu til nefndar um dómarastörf um eignarhlut dómara í félagi var ekki talið að þetta tjón hefði verið að því umfangi að með réttu yrði dregin í efa óhlutdrægni dómarans. Var heldur ekki talið skipta máli þótt hann hefði orðið fyrir tjóni vegna hlutabréfa sem hann átti í Glitni banka hf. Aftur á móti var ekki talið unnt að leggja til grundvallar að Viðar Már hefði verið óvilhallur þar sem hann hefði tapað með öllu eignarhluta að virði um 9.000.000 króna vegna hlutabréfa sem hann átti í Landsbanka Íslands hf. en þau urðu verðlaus við fall bankans. Það tjón hefði numið nærri þrefaldri þeirri fjárhæð á eignarhlut í félagi sem dómari þyrfti að afla heimildar til að eiga frá nefnd um dómarastörf. Einnig var talið að tjónið hefði verið verulegt miðað við árstekjur hans sem lagaprófessors á árunum 2008 og 2009. Enn fremur yrði að taka mið af því að mál kæranda varðaði með beinum hætti háttsemi stjórnenda bankans rétt fyrir fall hans haustið 2008, en í húfi hefðu verið hagsmunir sem gáfu kæranda réttmæta ástæðu til að ætla að þeir hefðu verulega þýðingu fyrir hluthafa bankans, þar með talið dómarann. Af þessum sökum taldi dómstóllinn að málsmeðferðin fyrir Hæstarétti hefði verið hlutdræg og því falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans (sjá 56. og 57. lið dómsins).

58. Á sama tíma og umrætt mál var til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu leitaði Sigríður Elín eftir því að mál hennar yrði endurupptekið. Með úrskurði endurupptökunefndar 12. maí 2019 var fallist á þá beiðni á grundvelli 1. mgr. 232. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, vegna vanhæfis Viðars Más. Jafnframt var með úrskurði nefndarinnar sama dag fallist á kröfu Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar á sama grundvelli en hann hafði verið sakfelldur með dómum Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 456/2014 og 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Með fyrrgreindum ákvörðunum Hæstaréttar 27. maí 2020, sem raktar eru í dómum réttarins í málum nr. 34/2019 og 35/2019, var staðfest sú niðurstaða endurupptökunefndar að fullnægt hefði verið skilyrðum til endurupptöku og hrundið kröfum ákæruvaldsins um frávísun málanna frá réttinum.

59. Einnig reyndi á hæfi dómara vegna eignarhalds þeirra á hlutabréfum í dómi Mannréttindadómstólsins 15. mars 2022 í máli nr. 30965/17, Bjarki H. Diego gegn Íslandi. Í málinu laut kvörtunin meðal annars að því að Bjarki hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti í máli nr. 498/2015, sem dæmt var 6. október 2016, sökum þess að dómarinn Viðar Már Matthíasson hefði ekki verið óvilhallur. Til stuðnings því var vísað til þess að hann hefði átt fyrrgreind hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og jafnframt hlutabréf í Kaupþingi banka hf. en málið laut að brotum í starfsemi þess banka. Í dóminum vísaði Mannréttindadómstóllinn til þess að í fyrrgreindum dómi í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi hefði verið talið að óhlutdrægni dómara yrði dregin í efa ef fjárhagslegir hagsmunir hans hefðu bein tengsl við sakarefni málsins. Af þeirri ástæðu hefði tjón dómarans við fall Landsbanka Íslands hf. haft áhrif á hæfi hans til að fara með mál á hendur stjórnendum þess banka en óhlutdrægni annarra dómara yrði ekki dregin í efa vegna hlutabréfa sem þeir áttu í öðrum bönkum. Að þessu gættu var ekki talið að óhlutdrægni Viðars Más yrði dregin í efa vegna eignarhalds á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. í því máli sem laut að Kaupþingi banka hf. (sjá 30. lið dómsins). Þá var ekki talið að hlutabréfaeign hans í þeim banka að andvirði tæplega 24.000 krónur við fall hans skipti hér máli enda hefði það tjón verið óverulegt og langt undir 3.000.000 króna mörkum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. þágildandi reglna nr. 463/2000 (sjá 31. lið dómsins). Var því ekki talið að meðferð málsins hefði að þessu leyti brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.

Um sérstakt hæfi dómarans Markúsar Sigurbjörnssonar við meðferð málsins

60. Að því er varðar persónulega afstöðu dómara til málsaðila eða sakarefnis eða það sem í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið kallað huglægur mælikvarði verður almennt að ganga út frá því að dómari sé hæfur til að fara með mál nema leiddar séu líkur að hinu gagnstæða. Eins og ráða má af úrskurði endurupptökunefndar hefur ekkert komið fram sem bendir til að Markús Sigurbjörnsson hafi við meðferð hæstaréttarmáls nr. 478/2014 haft einhverja þá persónulegu afstöðu að hæfi hans verði dregið í efa enda ekki á því byggt í úrskurði nefndarinnar. Að því gættu er álitaefnið bundið við það hvort fyrir hendi eru ytri atvik eða aðstæður sem gefa réttmætt tilefni til að draga óhlutdrægni hans í efa eða hinn svokallaði hlutlægi mælikvarði.

61. Svo sem áður greinir hefur Markús Sigurbjörnsson upplýst að hann hafi í mars 2007 eignast 13.832 hluti í Glitni banka hf., sem þá voru að andvirði 343.034 krónur, og átt þá allt þar til bankinn féll haustið 2008 er þeir urðu verðlausir. Einnig hefur hann greint frá því að hann hafi gert við bankann samning 5. janúar 2007 um eignastýringu sem hafi staðið þar til bankinn féll. Á grundvelli þess samnings hafi hann í janúar og febrúar 2008 afhent 61.450.000 krónur til eignastýringar. Því fé taldi hann hafa verið varið til viðskipta með hlutdeild í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum og einnig að hluta á innlánsreikningum en þær ráðstafanir hafi verið gerðar án afskipta hans. Þegar litið væri til stöðu safnsins við fall bankans hefði það rýrnað um 7.607.000 krónur eða 14,78% þegar tekið hefði verið tillit til þess að 9.965.000 krónur höfðu áður verið teknar úr eignastýringu. Engin efni eru til að vefengja þessar upplýsingar eða að gera ráð fyrir því að þær séu ekki tæmandi en þeim var teflt fram fyrir endurupptökunefnd þegar málið var þar til meðferðar og voru hvorki þar né hér fyrir dómi dregnar í efa.

62. Eins og rakið hefur verið komst endurupptökunefnd að þeirri niðurstöðu að hlutafjáreign Markúsar í Glitni banka hf. og tjón hans þegar bréfin urðu verðlaus hefði ekki verið slíkt að það gæti hafa haft áhrif á hæfi hans til að dæma í málinu. Þetta atriði kemur ekki til endurskoðunar við úrlausn málsins af þeim ástæðum sem fram koma í 41. lið dóms þessa en þess skal þó getið að hún er í efnislegu samræmi við fyrrgreindan dóm réttarins í máli nr. 705/2017 og úrlausn um hliðstæð atriði í fyrrgreindum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi og Bjarka H. Diego gegn Íslandi.

63. Kemur þá til skoðunar hvort Markús hafi verið vanhæfur til að dæma málið vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna samningsins við bankann um eignastýringu.

64. Svo sem rakið hefur verið voru ákærði og tveir aðrir þáverandi starfsmenn Glitnis banka hf. ákærðir fyrir umboðssvik í málinu með því að misnota aðstöðu sína og stefna fjármunum bankans í verulega hættu með því að veita félaginu BK-44 ehf. peningamarkaðslán að fjárhæð 3.791.340.000 krónur án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með fullnægjandi hætti og án þess að láta kanna með fullnægjandi hætti greiðslugetu lántakanda. Þessi ráðstöfun gat hvorki haft bein né veruleg áhrif á þær ákvarðanir sem teknar voru á grundvelli samnings Markúsar um eignastýringu. Ekki var fjárfest beint í viðskiptabönkunum heldur þvert á móti í innlendum og erlendum verðbréfasjóðum, auk þess sem fjármunir munu að einhverju marki hafa verið varðveittir á innlánsreikningum. Þá liggur fyrir að eignir verðbréfasjóða eru venjulega mjög dreifðar í þeim skilningi að fjárfest er í ótilgreindum fjölda félaga og sjóða, innlendum eða erlendum. Þá er það eðli slíkra fjárfestinga að þær geta tekið breytingum, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, eftir því hversu mikla áhættu viðskiptavinur semur um að undirgangast.

65. Í því tilviki sem hér er til skoðunar nam lækkun á andvirði þeirra fjármuna sem Markús hafði í eignastýringu 14,78% við fall bankans. Átti þetta sér stað á því skeiði í síðari tíma sögu þjóðarinnar sem á sér enga hliðstæðu hvað varðar verðfall eigna er ýmist lækkuðu eða urðu með öllu verðlausar. Verður þessi lækkun ekki talin veruleg sé horft til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings þurfti að þola á þessum tíma með lækkun eignaverðs, rýrnun lífeyrisréttinda, hækkun verðlags vegna gengishruns og hækkun skulda vegna verðlagsbreytinga meðal annars vegna tengingar lána við vísitölu neysluverðs. Þá getur fyrrgreind rýrnun heldur ekki talist veruleg virt í íslensku samhengi og þegar litið er til þess óstöðugleika í efnahagsmálum sem gætt hefur hér á landi á liðnum áratugum í samanburði við nágrannalönd. Um slík almenn áhrif með tilliti til hæfis dómara til að fara með mál má til hliðsjónar benda á dóm Hæstaréttar 30. apríl 2014 í máli nr. 266/2014.

66. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið gegnir öðru í þessu máli en átti við um það tilvik sem reyndi á í fyrrgreindum dómi Mannrétttindadómstóls Evrópu í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi og í dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2019 og 35/2019. Þar var stjórnendum Landsbanka Íslands hf. meðal annars gefin að sök markaðsmisnotkun til að hafa áhrif á verðmæti hluta í bankanum en dómari sem dæmdi í því máli hafði átt hlutabréf í honum og þau orðið verðlaus við fall hans. Þannig var beint samhengi milli sakargifta og þeirra fjárhagslegu hagsmuna dómarans sem fóru forgörðum en því er ekki fyrir að fara í þessu máli eins og rakið hefur verið. Þá varð dómari í því máli fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í bankanum urðu með öllu verðlaus en í þessu tilviki er um að ræða lækkun á mun hærri höfuðstól á afmörkuðu tímabili þegar eignaverð náði lágmarki sem viðbúið var að gengi til baka þegar jafnvægi væri náð eftir að kreppa gekk yfir í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Í því efni verður ekki eingöngu horft til taps eða rýrnunar verðbréfasafns á ákveðnu tímamarki án tillits til atvika í heild sinni, en ekki liggur fyrir að fyrrgreind rýrnun á verðmæti eignasafns Markúsar hafi orðið vegna athafna eða athafnaleysis starfsmanna Glitnis banka hf. heldur einkum vegna alþjóðlegs efnahagshruns.

67. Að því virtu sem hér hefur verið rakið er ekkert komið fram í málinu sem leitt getur til þess að talið verði að umrædd atvik eða aðstæður séu með því móti að óhlutdrægni dómarans verði með réttu dregin í efa. Samkvæmt þessu verður ekki talið að dómarinn hafi á grundvelli g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 verið vanhæfur til að fara með málið. Af þeirri ástæðu var ekki fullnægt lagaskilyrðum fyrir endurupptöku málsins eftir 1. mgr. 232. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna, eins og ákvæðin hljóðuðu fyrir setningu laga nr. 47/2020. Samkvæmt þessu verður tekin til greina aðalkrafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti og stendur því óhaggaður gagnvart ákærða dómur réttarins 3. desember 2015 í máli nr. 478/2014.

68. Allur sakarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 6. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur sakarkostnaður málsins vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Páls Rúnars M. Kristjánssonar lögmanns, 4.960.000 krónur.