Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2021

Landsbankinn hf. (Hannes J. Hafstein lögmaður)
gegn
Arana George Kuru (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Tryggingarbréf
  • Veðréttur
  • Ábyrgð
  • Tilkynning
  • Stjórnarskrá
  • Sératkvæði

Reifun

L hf., sem hafði tekið við réttindum LÍ hf., höfðaði mál gegn A og krafðist þess að honum yrði gert að þola að fjárnám vegna skuldar Þ ehf. á grundvelli skuldabréfs frá 6. desember 2007 inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 21. mars 2007 áhvílandi á fasteign A. Þ ehf. hafði gefið tryggingabréfið út til LÍ hf. til tryggingar öllum skuldum sínum við bankann en þáverandi fyrirsvarsmaður Þ ehf. er tengdafaðir A. Skuldabréfið fór í vanskil frá og með 1. desember 2008. Bú Þ ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2010 og lauk skiptum á árinu 2013 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Hæstiréttur féllst ekki á málsástæður A um að krafan hafi fallið niður í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi Þ ehf., hefði þegar verið greidd, væri fallin niður fyrir fyrningu eða tómlæti eða víkja bæri ábyrgð samkvæmt tryggingarbréfinu til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um varnir stefnda byggðar á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tók Hæstiréttur fram að fyrir lægi að L hf. hefði sent tvær tilkynningar um stöðu skuldar samkvæmt skuldabréfinu á veðandlagið þar sem A var áður til heimilis en lögheimili hans var þá skráð á Nýja-Sjálandi. Með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. gætu eignarréttindi L hf. sem stofnast hefði til í formi veðtryggingarinnar ekki fallið niður á grunni þess lagaboðs nema A leiddi í ljós að L hf. hafi við beitingu réttinda sinna valdið honum öðrum og meiri skaða en tekið hefði verið tillit til í uppgjöri gagnvart honum. Hæstiréttur taldi að A hefði ekki sýnt fram á það þannig að telja skyldi að vanræksla L hf. væri svo veruleg í skilningi 2. mgr. 7. gr. að ábyrgð A skyldi að öllu leyti falla niður. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að vanræksla L hf. hefði leitt til þess að ætla yrði að A hefði orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Var A gert að þola fjárnám vegna fjárhæðar sem nam höfuðstól kröfunnar miðað við 1. desember 2008 en dráttarvextir yrðu þó aðeins reiknaðir frá uppsögu dóms Hæstaréttar til að tryggja skaðleysi hans.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2021. Hann krefst þess að stefnda verði með dómi gert að þola að fjárnám verði gert vegna skuldar Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda, að fjárhæð 22.070.088 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. febrúar 2017 til greiðsludags, inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 21. mars 2007, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna með grunnvísitölu 268 stig sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, áhvílandi á íbúð stefnda að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort áfrýjandi getur samkvæmt skuldabréfi sem Þróunarfélagið Land ehf. gaf út til Landsbanka Íslands hf. 6. desember 2007 leitað fullnustu í fasteign stefnda á grundvelli tryggingarbréfs sem félagið gaf út til bankans 21. mars 2007 og þinglýst var á fasteign stefnda með hans samþykki. Deilt er um hvort krafa samkvæmt skuldabréfinu hafi fallið niður í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi Þróunarfélagsins Lands ehf., hvort hún hafi þegar verið greidd eða sé fyrnd. Einnig er um það deilt hvort víkja beri ábyrgð stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks er ágreiningur um hvort áfrýjandi hafi sýnt af sér verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þannig að ábyrgð stefnda sem veðþola hafi fallið niður.

5. Áfrýjunarleyfi var veitt 25. nóvember 2021 með vísan til þess að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi meðal annars um túlkun 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Málsatvik

6. Samkvæmt gögnum málsins átti Þróunarfélagið Land ehf. um árabil í umtalsverðum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf., síðar áfrýjanda. Fyrirsvarsmaður félagsins var Kristjón Benediktsson en hann er tengdafaðir stefnda. Hinn 9. júní 2006 keypti félagið eignarhluta í Kringlunni 4 til 12 í Reykjavík og 29. sama mánaðar veðsetti það bankanum á fyrsta veðrétti eignarhlutinn til tryggingar skuld allt að 12.000.000 króna sem bundin var vísitölu neysluverðs miðað við tiltekna grunnvísitölu.

7. Hinn 21. mars 2007 gaf Þróunarfélagið Land ehf. út tryggingarbréf með allsherjarveði til tryggingar greiðslu skulda við bankann allt að fjárhæð 14.000.000 króna og skyldi hún bundin vísitölu neysluverðs miðað við tiltekna grunnvísitölu. Í bréfinu sagði að það væri til „tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum mínum/okkar við Landsbanka Íslands hf. […], nú eða síðar, hvort sem þær eru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðarskuldbindingum (þar með töldum ábyrgðum, er bankinn hefir tekist eða kann að takast á hendur mín/okkar vegna) eða í hvaða öðru formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er, allt að fjárhæð kr. 14.000.000 auk dráttarvaxta, verðbóta, lögbundinna vanskilaálaga, kostnaðar við kröfugerð, innheimtu- og málskostnaðar, kostnaðar af fjárnámsgerð og frekari fullnustugerðum, annars kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða, og aukagreiðslna svo sem útlagðra tryggingariðgjalda vegna hins veðsetta.“

8. Með tryggingarbréfinu var bankanum sett að veði íbúð stefnda að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði. Undir bréfið ritaði stefndi sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar og eiginkona hans sem maki þinglýsts eiganda. Í 4. tölulið skilmála tryggingarbréfsins var jafnframt kveðið á um að yrðu vanskil á skuld sem bréfinu væri ætlað að tryggja eða bú útgefanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta væri bankanum „sem kröfuhafa og veðhafa heimilt að gjaldfella og eindaga allar slíkar skuldir þá þegar, fyrirvaralaust og án uppsagnar“. Þá var tekið fram í 10. tölulið skilmálanna að með undirritun sinni á bréfið staðfesti veðsali, sem ekki væri útgefandi, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, en Landsbankinn væri aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Samkvæmt gögnum málsins bjuggu stefndi og eiginkona hans í íbúðinni á Selvogsgötu 8 til ársins 2009 er þau fluttust til Nýja-Sjálands. Þar er jafnframt að finna vottorð Þjóðskrár Íslands um búsetu stefnda frá 1. janúar 2008 til 10. janúar 2020. Í því segir að hann hafi búið á Íslandi frá 1. janúar 2008 til 23. júní 2009 en frá þeim degi á Nýja-Sjálandi.

9. Þróunarfélagið Land ehf. gaf út skuldabréf 6. desember 2007 til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 20.000.000 króna sem greiðast skyldu á 20 árum með afborgunum fyrsta hvers mánaðar og skyldi fyrsti greiðsludagur vera í febrúar 2008. Í fyrirsögn bréfsins kom fram að það væri án tryggingar. Það var bundið vísitölu neysluverðs og af láninu skyldu greiðast breytilegir ársvextir eins og þeir væru ákveðnir af bankanum. Í bréfinu sagði að bankanum væri heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar yrði dráttur á greiðslu afborgana, vaxta og/eða vísitöluálags af skuldabréfinu. Greiddir voru tíu fyrstu gjalddagar skuldabréfsins en vanskil urðu frá og með 1. desember 2008 og var ekki frekar greitt af því.

10. Þróunarfélagið Land ehf. seldi Fasteignafélaginu Stoðum ehf. eignarhluta sinn í Kringlunni 4 til 12 hinn 17. september 2007. Landsbanki Íslands hf. mun hafa fengið greitt söluandvirði eignarhlutans.

11. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., leysa stjórn félagsins frá störfum og setja yfir það skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar var ýmsum réttindum og skyldum þess banka ráðstafað til stefnda og óumdeilt er að meðal þeirra hafi verið framangreindar kröfur á hendur Þróunarfélaginu Landi ehf.

12. Bú Þróunarfélagsins Lands ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2010. Áfrýjandi lýsti nokkrum kröfum í þrotabúið 22. september sama ár samtals að fjárhæð 78.090.842 krónur þar með talinni kröfu vegna umrædds skuldabréfs frá 6. desember 2007. Uppgreiðsluverðmæti hennar miðað við úrskurðardag var 31.499.447 krónur. Áfrýjandi mun hafa útbúið tilkynningu til stefnda um gjaldþrotaskiptin 14. september 2010 þar sem tilgreint var að hann væri búsettur á Nýja-Sjálandi án þess að fram kæmi heimilisfang. Skjalið var ekki sent stefnda. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum á því 21. janúar 2013 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem námu 119.850.079 krónum.

13. Áfrýjandi leysti Kringluna 4 til 12 úr veðböndum 20. janúar 2011 og var framangreindu tryggingarbréfi frá 29. júní 2006 aflýst. Fasteignin Blikanes 22 var seld áfrýjanda nauðungarsölu 24. nóvember 2011 fyrir 18.000.000 króna en áfrýjandi hafði lýst kröfu í söluandvirði fasteignarinnar að fjárhæð 84.422.760 krónur vegna tryggingarbréfs að fjárhæð 45.000.000 króna sem tryggt var með veði í fasteigninni. Áfrýjandi seldi fasteignina frjálsri sölu 18. maí 2012 fyrir 42.000.000 króna. Jörðin Efri-Þverá var einnig seld áfrýjanda nauðungarsölu 7. ágúst 2012 fyrir 50.000.000 króna en hún hafði verið sett að veði til tryggingar skuld Kristjóns Benediktssonar og Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda samkvæmt viðauka við tryggingarbréf 7. nóvember 2007. Jörðina seldi áfrýjandi frjálsri sölu 27. febrúar 2014 og var söluverð hennar 42.500.000 krónur. Báðar þessar eignir höfðu verið í eigu Kristjóns Benediktssonar.

14. Stefndi og áfrýjandi voru í tölvupóstsamskiptum í nóvember 2010 og desember 2012 vegna beiðni stefnda um endurnýjun á greiðslukortum hans hjá bankanum. Í þeim samskiptum gaf stefndi upp heimilisföng sín á Nýja-Sjálandi og sendi áfrýjandi honum kortin þangað. Þá sendi áfrýjandi 1. janúar 2011 tilkynningu á fasteign stefnda að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði um ábyrgð hans á skuld Þróunarfélagsins Lands ehf. við bankann að fjárhæð 19.093.284 krónur. Í bréfinu kom fram að um væri að ræða yfirlit tekið saman á grundvelli laga nr. 32/2009 og var óskað eftir athugasemdum stefnda við yfirlitið. Áfrýjandi sendi sams konar tilkynningu á sama heimilisfang ári síðar með uppreiknaðri ábyrgðarfjárhæð 20.091.045 krónur. Jafnframt mun áfrýjandi hafa útbúið árlega 2013 til 2019 yfirlit af þessu tagi. Þau voru ekki send út en tilgreint var í þeim að stefndi byggi á Nýja-Sjálandi.

15. Áfrýjandi sendi stefnda innheimtubréf 18. janúar 2017 á heimili hans á Nýja-Sjálandi þar sem vísað var til fyrrgreinds skuldabréfs 6. desember 2007 og tilgreint að vanskil með vöxtum og kostnaði næmu alls 65.571.264 krónum en til tryggingar skuldinni stæði fasteign stefnda samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi. Stefndi mun ekki hafa svarað þessu bréfi.

16. Áfrýjandi höfðaði mál á hendur stefnda 12. september 2017 á grundvelli tryggingarbréfsins 21. mars 2007 og skuldabréfsins 6. desember 2007. Hann felldi málið niður 14. desember 2017 þar sem í dómkröfu hafði ekki verið með skýrum hætti tilgreint fyrir hvaða fjárkröfu hann krefðist að sér yrði heimilað að gera fjárnám í fasteign stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu. Mál þetta var síðan höfðað 9. febrúar 2019. Dómur gekk í héraði 26. maí 2020 þar sem fallist var á dómkröfu áfrýjanda. Með dómi Landsréttar var stefndi á hinn bóginn sýknaður á þeim grunni að vanræksla áfrýjanda við að gæta tilkynningarskyldu samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 hefði verið svo veruleg að ábyrgð skyldi falla niður, með vísan til annars málsliðar 2. mgr. greinarinnar.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

17. Áfrýjandi byggir á því að kröfur sínar á hendur Þróunarfélaginu Landi ehf. hafi notið veðréttar í fasteign stefnda að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði á grundvelli tryggingarbréfsins 21. mars 2007, sem verið hafi til tryggingar öllum fjárskuldbindingum félagsins við Landsbanka Íslands hf. Skuld Þróunarfélagsins Lands ehf. samkvæmt skuldabréfinu sem mál þetta varðar hafi ekki liðið undir lok þegar skiptum á búi félagsins lauk 21. janúar 2013 og sé skuldin ógreidd. Um sé að ræða peningalán sem fyrnist á tíu árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nú 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Fyrstu vanskil af láninu hafi orðið í desember 2008 og hafi fyrningu kröfunnar verið slitið við kröfulýsingu stefnda í þrotabú Þróunarfélagsins Lands ehf. 22. september 2010. Þá sé veðrétturinn að baki kröfunni ekki háður fyrningu, sbr. 27. gr. laga nr. 150/2007.

18. Áfrýjandi byggir á því að hann hafi að öllu leyti sinnt góðum viðskiptaháttum í samskiptum sínum við stefnda. Þá hafi hann ekki vanrækt skyldur sínar í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Verði engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að einhverju hafi verið ábótavant í tilkynningum hans til stefnda sé ekki um verulega vanrækslu að ræða í skilningi 2. mgr. sömu greinar þannig að ábyrgðin skuli falla niður. Líta verði til þess að krafa sú sem um ræðir sé reist á tryggingarbréfi og með því hafi stofnast veðréttur í eign stefnda sem feli í sér eignarréttindi varin af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þau réttindi geti ekki á grundvelli lagaboðs 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 fallið niður að hluta til eða að öllu leyti nema stefndi leiði í ljós að áfrýjandi hafi við beitingu réttinda sinna valdið öðrum eða meiri skaða en tekið hafi verið tillit til í uppgjöri gagnvart stefnda. Þá hafi stefndi enga tilraun gert til að sýna fram á að hann hefði brugðist öðruvísi við ef hann hefði fengið þær tilkynningar sem ekki komust til skila. Enn fremur hafi honum verið fullkunnugt um veðtrygginguna sem og um gjaldþrotaskipti Þróunarfélagsins Lands ehf. enda tengdafaðir hans fyrirsvarsmaður félagsins. Áfrýjandi telur ljóst að engin þau atvik séu fyrir hendi sem réttlætt geti beitingu 36. gr. laga nr. 7/1936 til að fella niður eða breyta kröfu áfrýjanda. Þá hafi hann ekki sýnt af sér einhvers konar tómlæti sem líta megi til við úrlausn málsins.

Helstu málsástæður stefnda

19. Sýknukröfu sína reisir stefndi einkum á því að skuld sú sem leitað er fullnustu fyrir í fasteign hans samkvæmt skuldabréfinu 6. desember 2007 hafi liðið undir lok þegar gjaldþrotaskiptum á búi Þróunarfélagsins Lands ehf. lauk árið 2013. Þá vísar hann til þess að krafa áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu sé fyrnd þar sem henni hafi ekki verið haldið við gagnvart félaginu eftir lok skipta á grundvelli 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ábyrgð hans hafi fyrnst fjórum árum eftir að krafan var gjaldkræf, sbr. 4. tölulið 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 en hún hafi orðið gjaldkræf við vanskil skuldabréfsins. Auk þess byggir stefndi á því að krafa samkvæmt skuldabréfinu hafi þegar verið greidd. Vísar hann til þess að áfrýjandi hafi fengið fullnustu krafna sinna á hendur Þróunarfélaginu Landi ehf. með því að fá söluandvirði Kringlunnar 4 til 12 á árinu 2007 og með nauðungarsölu fasteignanna Blikaness 22 í Garðabæ og Efri-Þverár í Rangárþingi eystra. Það sé áfrýjanda að sanna að hann hafi ekki fengið fullnustu allra krafna sinna á hendur Þróunarfélaginu Landi ehf. með þessum hætti en það hafi hann ekki gert, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

20. Til viðbótar þessu telur stefndi að ábyrgð sín á skuldum Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda með veðsetningu fasteignarinnar að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði sé fallin niður á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 þar sem áfrýjandi hafi í engu gætt fyrirmæla 1. mgr. 7. gr. laganna. Á áfrýjanda hafi hvílt skylda samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. gr. laganna að tilkynna stefnda um gjaldþrot félagsins. Einnig hafi honum borið að senda stefnda tilkynningu eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stefnda stæði fyrir og yfirlit um ábyrgð, sbr. d-lið greinarinnar. Engar slíkar tilkynningar hafi verið sendar þótt áfrýjandi hefði haft upplýsingar um hvar stefndi bjó og hvert netfang hans var, enda átti stefndi meðal annars í samskiptum við áfrýjanda á árunum 2010 og 2012 vegna endurnýjunar greiðslukorts. Jafnframt verði að líta til þess að samskipti áfrýjanda við stefnda hafi ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002.

21. Enn fremur byggir stefndi á því að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að víkja beri veðsetningunni til hliðar í heild sinni eða að hluta, sbr. einkum 36. gr. laga nr. 7/1936. Ljóst sé að áfrýjandi hafi á engan hátt hagað sér í samræmi við góða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Stefnda hafi verið með öllu ókunnugt um skuldabréfið frá 6. desember 2007. Þá hafi áfrýjandi og sérfræðingar hans samið ákvæði skuldabréfsins og samkvæmt ótvíræðu orðalagi þess sé það án tryggingar. Jafnframt hafi lánveitingin með skuldabréfinu ekki verið sérstaklega kynnt fyrir stefnda en hann hafi talið tryggingarbréfið vera til tryggingar efnda á lánum vegna kaupa á Kringlunni 4 til 12. Bankinn hafi vitað þegar skuldabréfið var gefið út 6. desember 2007 að lán til kaupa á Kringlunni 4 til 12 voru uppgerð og því hafi hvílt á bankanum skylda til að aflýsa tryggingum vegna þeirra bæði af þeirri fasteign og Selvogsgötu 8. Það hafi hann hins vegar ekki gert en aflétt 20. janúar 2011 veði af Kringlunni 4 til 12. Þá hafi áfrýjanda borið að aflétta jafnframt veði af Selvogsgötu 8. Loks byggir stefndi á því að tómlæti við innheimtu kröfunnar skuli leiða til sýknu.

Löggjöf um ábyrgðarmenn

22. Þegar stefndi veitti allsherjarveð í eign sinni fyrir skuldum Þróunarfélagsins Lands ehf. í mars 2007 giltu um málefnið óskráðar reglur fjármunaréttar. Eftir að veðið hafði verið veitt tóku gildi 4. apríl 2009 lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Í 1. gr. þeirra kemur fram það markmið laganna að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gilda þau um lánveitingar stofnana og fyrirtækja þar sem maður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar eða ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Með II. kafla laganna voru settar reglur um stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga. Í 7. gr. laganna er jafnframt að finna reglur um tilkynningar lánveitanda til ábyrgðarmanns eftir að ábyrgð hefur verið veitt og er greinin svohljóðandi:

Lánveitandi skal senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er:
a. um vanefndir lántaka,
b. ef veð eða aðrar tryggingar eru ekki lengur tiltækar,
c. um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta,
d. eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir.
Ábyrgðarmaður skal vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður.
Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.
Lánveitandi getur ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.

23. Í 12. gr. laga nr. 32/2009 er mælt fyrir um að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra, að frátöldum reglum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.

24. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/2009 sagði svo um 7. gr.:

Í greininni er fjallað um tilkynningarskyldu lánveitanda og afleiðingar þess að henni er ekki sinnt. Er kveðið á um að lánveitanda beri skylda til að tilkynna ábyrgðarmanni svo fljótt sem unnt er við nánar greindar aðstæður, eins og vanskil lántaka, brottfall trygginga, andlát lántaka og gjaldþrotaskipti á búi hans. Meginsjónarmiðið er að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geta haft á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag.
Lánveitanda ber einnig að tilkynna ábyrgðarmanni um hver áramót um stöðu láns sem hann er í ábyrgðum fyrir, þ.m.t. um vanskil og hversu mikil þau séu. Eins og fram kemur telja flutningsmenn nauðsynlegt vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur hér á landi að ábyrgðarmenn fái a.m.k. einu sinni á ári yfirlit yfir ábyrgðir sem þeir hafa gengist í.
Forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað er að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka. Hugsunin er sú að ábyrgðarmaður eigi þess ávallt kost að grípa inn í og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún stendur á gjalddaga. Sams konar hugsun kemur fram í lokamálsgrein greinarinnar en þar er mælt fyrir um réttarstöðu ábyrgðarmanns við gjaldfellingu láns.
Lánveitandi ber sönnunarbyrðina um að tilkynningarskyldu hafi verið gætt enda stendur honum það nær en ábyrgðarmanni.

25. Ákvæði 7. gr. frumvarpsins tóku ýmsum breytingum í meðförum Alþingis. Meðal þeirra var að framangreindri 2. mgr. 7. gr. var bætt við frumvarpið. Ekki var að finna sérstakar athugasemdir í lögskýringargögnum af því tilefni að öðru leyti en því að í framsöguræðu um álit viðskiptanefndar kom fram að tilgangur ákvæðisins væri að halda ábyrgðarmönnum skaðlausum ef lánveitandi vanrækti fyrrgreinda tilkynningarskyldu.

26. Jafnframt var sú viðbót gerð við gildistökuákvæði í 12. gr. laganna að í stað þess að kveðið væri á um að lögin öðluðust þegar gildi voru sett inn framangreind sérákvæði um lagaskil.

Niðurstaða

27. Eins og rakið hefur verið byggir stefndi á því að krafa áfrýjanda sé greidd þar sem áfrýjandi hafi fengið fullnustu krafna sinna á hendur Þróunarfélaginu Landi ehf., annars vegar með söluandvirði Kringlunnar 4 til 12 árið 2007 og hins vegar með nauðungarsölu fasteignanna Blikaness 22 í Garðabæ og Efri-Þverár í Rangárþingi eystra en tvær síðarnefndu eignirnar voru í eigu Kristjóns Benediktssonar. Áfrýjandi var hæstbjóðandi við nauðungarsölur 24. nóvember 2011 á fasteigninni Blikanesi 22 og 7. ágúst 2012 á jörðinni Efri-Þverá og fékk í kjölfarið útgefið afsal sér til handa vegna beggja eignanna. Í báðum tilvikum var um að ræða fullnustu á kröfum áfrýjanda á hendur eiganda eignanna vegna annarra skulda en um ræðir í máli þessu. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að skuldir Þróunarfélagsins Lands ehf. hafi verið langt umfram markaðsverðmæti fyrrgreindra eigna. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þessar varnir stefnda.

28. Gjaldþrotaskiptum á búi Þróunarfélagsins Lands ehf. lauk 21. janúar 2013 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Þótt tilvist félagsins hafi lokið við skiptin og því útséð um greiðslur frá því fellur skuldbinding á hendur þeim sem veitt hefur veð til tryggingar fullnustu kröfu samkvæmt tryggingarbréfi ekki jafnframt niður, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 15. desember 2016 í máli nr. 306/2016.

29. Í samræmi við reglur kröfuréttar stofnaðist krafa áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu 6. desember 2007 við útgáfu þess. Lög nr. 150/2007 öðluðust gildi 1. janúar 2008 og gilda þau einvörðungu um þær kröfur sem stofnuðust eftir gildistöku þeirra, sbr. 28. gr. laganna. Sérregla 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, um tveggja ára fyrningarfrest í kjölfar gjaldþrotaskipta getur aðeins tekið til skulda einstaklinga, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 306/2016 og jafnframt dóm réttarins 9. febrúar 2017 í máli nr. 381/2016. Samkvæmt framansögðu fer um fyrningu kröfu áfrýjanda eftir lögum nr. 14/1905. Í 1. tölulið 4. gr. þeirra kom fram að kröfur samkvæmt skuldabréfi skyldu fyrnast á tíu árum og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þeirra var meginreglan að fyrningarfrestur teldist frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Af lögum leiðir að skuldabréfið féll í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti á þrotabúi Þróunarfélagsins Lands ehf. 8. september 2010 og var fyrningu kröfunnar slitið með því að lýsa henni við skipti þrotabúsins, sbr. 13. gr. laga nr. 14/1905. Höfuðstóll kröfunnar var því ófyrndur er áfrýjandi höfðaði mál þetta 9. febrúar 2019.

30. Tryggingarbréfið 21. mars 2007 veitti með skýrum hætti allsherjarveð í fasteign stefnda til tryggingar öllum skuldum Þróunarfélagsins Lands ehf. við Landsbanka Íslands hf. Ekkert er fram komið annað en að við gerð þess hafi verið farið að þágildandi reglum, þar á meðal um kynningu gagnvart stefnda á þýðingu veðsetningarinnar. Tryggingarbréfið var samkvæmt efni sínu skýrt um að það tæki til núverandi sem og síðari skulda sem Þróunarfélagið Land ehf. kynni að stofna til við Landsbanka Íslands hf. Verður heldur ekki annað ráðið en að áfrýjandi hafi með réttum hætti leitast við að tryggja innheimtu kröfu þeirrar sem liggur að baki tryggingarbréfinu hjá Þróunarfélaginu Landi ehf. Þá er ekkert í efni bréfsins sem gefur til kynna að því hafi einvörðungu verið ætlað að standa til tryggingar réttum efndum lána vegna kaupa á Kringlunni 4 til 12 og því hafi borið að aflétta veðinu á sama tíma og tryggingarbréfi með veði í þeirri eign var aflétt. Er jafnframt ekki fallist á að 2. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009 leiði til þess að stefndi sé ekki lengur bundinn af efni tryggingarbréfsins. Samkvæmt þessu verður jafnframt ekki fallist á með stefnda að víkja skuli til hliðar í heild eða að hluta ákvæðum bréfsins um ábyrgð hans á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Loks er ekki fallist á að áfrýjandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að það leiði til þess að krafa hans sé fallin niður.

31. Hugtakið ábyrgðarmaður í skilningi laga nr. 32/2009 nær til einstaklings sem veðsett hefur tiltekna eign sína til tryggingar efndum lántaka, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, eins og á við um stefnda í máli þessu. Af 1. mgr. 7. gr. þeirra leiðir að lánveitanda ber að senda slíkum veðþola skriflega tilkynningu, svo fljótt sem kostur er, meðal annars um vanefndir lántaka, ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem fellur undir veðið. Þessar skyldur sem hvíla á lánveitanda eftir lögunum taka til skuldbindinga sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra, sbr. 12. gr. laganna, sem var eins og áður segir 4. apríl 2009 og hvíldu þær því á áfrýjanda gagnvart stefnda.

32. Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi sendi tvær tilkynningar með yfirliti um stöðu skuldar samkvæmt umræddu skuldabréfi á fyrra heimili hans á Selvogsgötu 8, annars vegar í byrjun árs 2011 og hins vegar ári síðar. Að öðru leyti uppfyllti áfrýjandi ekki skyldu sína eftir 7. gr. laga nr. 32/2009.

33. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 32/2009 sagði um 7. gr. að samkvæmt henni bæri lánveitanda skylda til að tilkynna ábyrgðarmanni skriflega eins fljótt og unnt væri um nánar greindar aðstæður, svo sem um vanskil lántaka, brottfall trygginga, andlát lántaka og gjaldþrotaskipti á búi hans. Meginsjónarmiðið væri að lánveitandi tilkynnti ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem gætu haft áhrif á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag. Svo sem lýst var að framan um 2. mgr. 7. gr. laganna er ekki að finna í lögskýringargögnum umfjöllun um sérstaka afstöðu löggjafans til þeirra breytinga sem þar voru gerðar um að ábyrgð gæti að fullu fallið niður aðrar en að tilgangur ákvæðisins væri að halda ábyrgðarmönnum skaðlausum ef ábyrgðaraðili vanrækti tilkynningarskyldu.

34. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið fjallað um afleiðingar þess að lánveitandi vanræki tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Í dómi Hæstaréttar 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015 var fallist á að tilkynningarskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 hefði verið vanrækt. Hins vegar var ekki talið að um verulega vanrækslu á tilkynningarskyldu hefði verið að ræða. Þar sagði að með sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanns hefði verið stofnað til tryggingarréttinda í formi persónulegrar skuldbindingar hans og væri um að ræða eignarréttindi varin af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Áfrýjendur voru erfingjar ábyrgðarmanns og kom fram í dóminum að þeim hefði mátt vera kunnugt um tilvist sjálfskuldarábyrgðarinnar. Var vanrækslan ekki talin veruleg í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna og þar litið til þess að eignarréttindi lánveitandans gætu ekki fallið niður eftir ákvæðinu nema sýnt væri fram á að lánveitandi hefði við beitingu réttinda sinna valdið ábyrgðarmanni öðrum og meiri skaða en bættur yrði með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna.

35. Í dómi Hæstaréttar 20. apríl 2018 í máli nr. 23/2017 var fallist á að tilkynningarskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 hefði verið vanrækt. Þar var vísað til þess að með tryggingarbréfi ábyrgðarmanna hefði stofnast veðréttur í eign þeirra. Þar væri um að ræða stjórnarskrárvarin eignarréttindi lánveitanda. Að því gættu og með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 væri ljóst að eignarréttindi lánveitanda gætu ekki á grunni þess lagaboðs fallið niður að hluta til eða öllu leyti nema ábyrgðarmenn leiddu í ljós að lánveitandi hefði við beitingu réttinda sinna valdið þeim öðrum og meiri skaða en tekið hefði verið tillit til í uppgjöri gagnvart þeim. Það hefðu þeir ekki gert og taldi Hæstiréttur því að lánveitandi hefði ekki sýnt af sér verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

36. Með útgáfu tryggingarbréfsins 21. mars 2007 stofnaðist til tryggingaréttinda áfrýjanda til handa í formi veðtryggingar og er þar um að ræða eignarréttindi sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verður horft til þess við skýringu 7. gr. laga nr. 32/2009 við mat á afleiðingum vanrækslu á tilkynningarskyldu eftir 2., 3. og 4. mgr. hennar, þar með talið hvort ábyrgð falli niður á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. Að framangreindu gættu verður við mat þess hvort vanræksla lánveitanda telst veruleg með þeim afleiðingum að eignarréttur falli niður að líta til þess að með 1. mgr. 7. gr. laganna er lögð sú skylda á hendur lánveitanda að senda tilkynningar við nánar tilteknar aðstæður. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laganna er þar fyrst og fremst um að ræða skyldu til að upplýsa ábyrgðarmann um atvik sem gætu breytt forsendum hans fyrir ábyrgð og möguleikum á að tryggja skaðleysi sitt komi til greiðslufalls aðalskuldara. Af framangreindum dómum Hæstaréttar verður einnig ráðið að við mat á því hvort vanræksla telst veruleg megi líta til þess hvort ábyrgðarmaður kann að búa yfir slíkri vitneskju sjálfur, eftir atvikum vegna nánar tiltekinna tengsla við aðalskuldara.

37. Fram er komið í málinu að stefndi flutti lögheimili sitt árið 2009. Samkvæmt vottorði Þjóðskrár Íslands var lögheimili hans þá skráð Nýja-Sjáland án nánari tilgreiningar á heimilisfangi. Bú Þróunarfélagsins Lands ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 8. september 2010 og lauk skiptum 21. janúar 2013 sem eignalausu en fyrirsvarsmaður þess er tengdafaðir stefnda. Jafnframt liggur fyrir að áfrýjandi sendi yfirlit um ábyrgðir stefnda 1. janúar 2011 og 1. janúar 2012 á hina veðsettu eign stefnda þar sem hann var áður til heimilis. Stefndi fékk hins vegar ekki frekari tilkynningar um ábyrgðina fyrr en honum var sent innheimtubréf á þáverandi heimili hans á Nýja-Sjálandi 18. janúar 2017. Að því gættu og með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 geta eignarréttindi áfrýjanda ekki fallið niður á grunni þess lagaboðs, hvorki að hluta til né að öllu leyti, nema stefndi leiði í ljós að áfrýjandi hafi við beitingu réttinda sinna valdið honum öðrum og meiri skaða en tekið hefur verið tillit til í uppgjöri gagnvart honum, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 229/2015 og máli nr. 23/2017. Það hefur stefndi ekki gert þannig að telja skuli að vanræksla áfrýjanda sé svo veruleg í skilningi 2. mgr. 7. gr. að ábyrgð stefnda skuli að öllu leyti falla niður.

38. Á hinn bóginn leiddi vanræksla áfrýjanda til þess að ætla verður að stefndi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Er þá litið til þess að áfrýjandi fylgdi ekki fyrirmælum 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. október 2015 í máli nr. 196/2015, auk þess sem innheimtubréf var sem fyrr segir ekki sent ábyrgðarmanni fyrr en 18. janúar 2017 en á þeim tíma hafði lán það sem krafist er greiðslu á verið í vanskilum frá 1. desember 2008, sbr. og 3. mgr. 7. gr. laganna. Verður stefndi því dæmdur til að þola fjárnám vegna skuldar Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda að fjárhæð 22.070.088 krónur, sem nemur höfuðstól kröfunnar miðað við 1. desember 2008 en dráttarvextir af kröfunni verða þó eins og hér stendur á aðeins reiknaðir frá uppsögu dómsins til að tryggja skaðleysi stefnda, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, allt vegna veðréttar samkvæmt 14.000.000 króna tryggingarbréfi 21. mars 2007 auk verðbóta, eins og nánar greinir í dómsorði.

39. Að öllu framangreindu virtu er rétt að málskostnaður falli niður milli aðila á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Stefnda, Arana George Kuru, er gert að þola fjárnám vegna skuldar Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda, Landsbankann hf., að fjárhæð 22.070.088 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2022 til greiðsludags vegna veðréttar samkvæmt 14.000.000 króna tryggingarbréfi útgefnu 21. mars 2007, bundið vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitöluna 268, áhvílandi á fasteign stefnda að Selvogsgötu 8 í Hafnarfirði.

Málskostnaður milli aðila fellur niður á öllum dómstigum.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

1. Ég er ekki samþykkur aðleiðslu við skýringu meirihluta dómenda á 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og til hvers hún á að leiða að virtum atvikum í þessu máli. Þess skal getið að ég er heldur ekki samþykkur öllu því sem fram kemur í lið 30 í atkvæði meirihlutans um að allra reglna hafi verið gætt er stefndi tókst á hendur ábyrgð samkvæmt tryggingarbréfi 21. mars 2007. Við úrlausn mína er á hinn bóginn haft í huga að meginástæða fyrir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar málsins lýtur að túlkun á framangreindri lagagrein, sem auk þess liggur til grundvallar niðurstöðu Landsréttar um sýknu stefnda.

2. Eins og nánar er rakið í atkvæði meirihlutans átti Þróunarfélagið Land ehf. um árabil í umtalsverðum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. Einn af þeim löggerningum sem um ræðir var framangreint tryggingarbréf sem félagið gaf út með allsherjarveði til tryggingar greiðslu allra skulda þess við bankann, allt að 14.000.000 króna, bundið vísitölu neysluverðs. Var í bréfinu ákvæði um heimild bankans til fyrirvaralausrar gjaldfellingar allra skulda félagsins kæmi til vanskila á einhverjum þeim skuldum sem stofnast kynnu milli þeirra. Til tryggingar öllu þessu setti stefndi að veði fasteign sína, sem hann bjó í ásamt fjölskyldu sinni, með samþykki eiginkonu sinnar sem er dóttir þáverandi fyrirsvarsmanns Þróunarfélagsins Lands ehf.

3. Eftir þetta áttu sér stað margvísleg viðskipti Þróunarfélagsins Lands ehf. við Landsbanka Íslands hf., síðar áfrýjanda. Gaf félagið meðal annars út 6. desember 2007 skuldabréf það sem áfrýjandi leitar nú eftir að fullnusta í fasteign stefnda á grundvelli framangreinds tryggingarbréfs. Skuldabréfið var að fjárhæð 20.000.000 króna til 20 ára og skyldi það greiðast með mánaðarlegum afborgunum. Í bréfinu sagði að skuldin væri án trygginga, bundin vístölu neysluverðs og skyldu greiðast breytilegir vextir í samræmi við ákvarðanir bankans. Jafnframt var í bréfinu kveðið á um heimild bankans til fyrirvaralausrar gjaldfellingar kæmi til dráttar á greiðslu einhverrar af hinum mánaðarlegu afborgunum, vöxtum eða vísitöluálagi. Einungis voru greiddar 10 afborganir af bréfinu áður en það fór í vanskil 1. desember 2008.

4. Tveimur árum eftir að stefndi veitti ábyrgð sína samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi tóku lög nr. 32/2009 gildi. Í 1. gr. laganna segir að þau hafi það að markmiði að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Lögin taka til ábyrgða sem stofnað hafði verið til fyrir gildistöku þeirra, eins og um ræðir í þessu máli, sbr. 12. gr. þeirra, að frátöldum tilgreindum ákvæðum sem lúta að stofnun, efni og formi ábyrgðarsamninga og ákvæðum um bann við aðför í fasteign er ábyrgðarmaður býr í og gjaldþrotaskiptum vegna persónulegrar ábyrgðar ábyrgðarmanns.

5. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna gilda þau um lánveitingar stofnana og fyrirtækja sem stunda útlánastarfsemi þegar veitt er lán eða önnur lánafyrirgreiðsla með því skilyrði að lántaki útvegi ábyrgðarmann til tryggingar efndum. Í 2. mgr. greinarinnar segir síðan að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tiltekna eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar eða fjárhagslegs ávinnings hans. Samkvæmt þessu er áfrýjandi lánveitandi í skilningi laganna og stefndi ábyrgðarmaður en jafnframt er ljóst við lestur þeirra að ekki verður lengur að lögum stofnað til veðsetningar með þeim hætti eins og um ræðir í þessu máli.

6. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er með almennum hætti kveðið á um skyldur lánastofnana til að senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningar svo fljótt sem kostur er í eftirtöldum tilvikum: a. Þegar um er að ræða vanefndir lántaka. b. Þegar veð eða aðrar tryggingar eru ekki lengur tiltæk. c. Við andlát lántaka eða að bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. d. Loks skal lánastofnun einnig senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu um hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir.

7. Í 2. mgr. greinarinnar segir síðan: „Ábyrgðarmaður skal vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður.“

8. Eins og nánar er rakið í atkvæði meirihlutans eru í 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna að finna ákvæði sem fela í sér takmarkanir á heimild lánveitanda til gjaldfellingar láns, innheimtu dráttarvaxta og vanskilakostnaðar hjá ábyrgðarmanni hafi honum ekki verið sendar viðeigandi tilkynningar og gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir. Óháð ákvæðum 1. og 2. mgr. 7. gr., sem ágreiningur málsins lýtur einkum að, verður stefndi samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum einum og sér ekki dæmdur til að þola fjárnám vegna meiri skuldar Þróunarfélagsins Lands ehf. við áfrýjanda en sem nemur höfuðstól kröfunnar er krafan fór í vanskil 1. desember 2008. Jafnframt mætti, eftir atvikum með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, ákveða annan upphafstíma vaxta en áfrýjandi krefst, sbr. til að mynda dóma Hæstaréttar 26. maí 2005 í máli nr. 501/2004 og 31. janúar 2008 í máli 158/2007.

9. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 32/2009 segir um 7. gr., eins og hún var áður en henni var breytt í meðförum þingsins, að í henni sé fjallað um tilkynningaskyldu lánveitanda og afleiðingar þess að henni sé ekki sinnt. Þar sé kveðið á um að lánveitanda beri skylda til að tilkynna ábyrgðarmanni svo fljótt sem unnt er við nánar greindar aðstæður, eins og vanskil lántaka, brottfall trygginga, andlát lántaka og gjaldþrotaskipti á búi hans. Meginsjónarmiðið sé að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem gætu haft áhrif á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag. Þá beri lánveitandi sönnunarbyrði um að tilkynningarskyldu hafi verið gætt enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni.

10. Eins greinir í atkvæði meirihlutans sættu meðal annars ákvæði 7. gr. og gildistökuákvæði 12. gr. frumvarpsins breytingum við meðferð málsins á Alþingi. Þannig kom framangreind 2. mgr. 7. gr. inn sem ný málsgrein. Takmarkaða umfjöllun er að finna í lögskýringargögnum um tilefni eða inntak þessara breytinga. Í framsögu formanns viðskiptanefndar kemur þó fram að með breytingunni væri „vísað til þess að ef lánveitandi ekki uppfyllir þær kröfur sem 7. gr. laganna gerir til hans um mat á greiðslugetu viðkomandi og tilkynningarskyldu til ábyrgðarmanns, um breytta stöðu lántaka, þannig að um vanrækslu sé að ræða, verði ábyrgðarmaður skaðlaus“. Þá séu breytingar á 12. gr. frumvarpsins samkvæmt þessu til komnar að gættum sjónarmiðum um afturvirkni laga og friðhelgi eignarréttar.

11. Ákvæði um lagaskil samkvæmt 12. gr. eru í samræmi við þá meginreglu að lögum verður beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til þeirra hafi verið stofnað fyrir gildistöku laganna, enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Þannig er tiltekið með hvaða hætti þau taka til ábyrgða sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra og hefur 2. mgr. 7. gr. að geyma almenn en fortakslaus fyrirmæli um skyldur lánastofnana til að gæta að réttindum sínum sem til eru komin vegna ábyrgða þriðja manns.

12. Eins og að framan greinir eru lögskýringargögn takmörkuð en ekki verður hjá því litið að löggjafinn hefur ákveðið að orða reglur 2. mgr. 7. gr. með þeim hætti sem að framan greinir. Þótt líta beri til stjórnarskrár við skýringu málsgreinarinnar, líkt og við skýringu á öðrum lögum, verður að horfa til þess að efni reglunnar er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan. Þannig eru ákvæði 2. mgr. 7. gr. skýr um að eignarréttindi sem lögin taka til, hvort sem um er að ræða kröfuréttindi eða óbein eignarréttindi sem felast í veðrétti fyrir skuldum þriðja manns, sem bæði njóta verndar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, skuli sæta takmörkunum vegna vanrækslu þess sem réttarins nýtur við að gæta að réttindum sínum. Regla sem þessi er ekki í ósamræmi við þá almennu meginreglu að baki maður öðrum tjón með því að sinna ekki lögboðnum skyldum sínum kann hann að bera ábyrgð á því tjóni sem sannast að orðið hafi af þeim sökum og eru þetta ekki einu ákvæðin í lögum er mæla fyrir um að réttindi sem ella eru varin af ákvæðum 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár kunni að rýrna eða falla niður vegna vanrækslu við að halda þeim við eða nýta. Þá leiðir af dómum Hæstaréttar, sem vísað er til í atkvæði meirihlutans, að ekki eru gerðar athugasemdir við stjórnskipunarlegt gildi 2. mgr. 7. gr. laganna, eins og hún var skýrð, heldur ræðst niðurstaða ágreinings af túlkun á þeim áskilnaði um hvað telst veruleg vanræksla samkvæmt málsgreininni.

13. Fyrri málsliður 2. mgr. 7. gr. verður lesinn svo að eignarréttindi, eins og þau sem hér um ræðir, geti ekki á grundvelli lagaboðs fallið niður að hluta nema ábyrgðarmaður leiði í ljós að kröfu- eða veðhafi hafi við beitingu réttinda sinna valdið öðrum og meiri skaða en tekið hafi verið tillit til í uppgjöri gagnvart ábyrgðarmanni, sbr. til að mynda samkvæmt fyrirmælum framangreindra 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna. Sönnun um umfang slíks tjóns vegna beitingar réttinda kröfu- eða veðhafa er þó eðli málsins samkvæmt einatt vandkvæðum bundin. Má ætla að eftir því sem vanrækslan sé meiri að virtum atvikum í hverju tilviki veiti það auknar líkur fyrir tjóni ábyrgðarmanns sem kunni að létta á sönnunarbyrði hans við mat á ætluðu tjóni vegna vanrækslunnar.

14. Á hinn bóginn segir berum orðum í öðrum málslið 2. mgr. 7. gr. að „ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður“. Felur þessi málsliður þannig í sér þá reglu að sé vanrækslan á tilkynningarskyldunni mjög mikil eða algjör og vari í langan tíma þá skal ábyrgð falla niður. Leiðir af orðum ákvæðisins að þegar svo háttar sérstaklega til að vanræksla teljist veruleg þurfi ekki að koma til frekari sönnun tjóns vegna hennar, ella væri þessi málsliður ákvæðisins í raun óþarfur.

15. Eins og áður segir ber lánveitandi sönnunarbyrði um að tilkynningarskyldu hafi verið gætt enda stendur það honum nær en ábyrgðarmanni. Áfrýjandi vísar til þess að hafa í almennum pósti úr kerfum sínum sent tvær tilkynningar á veðandlagið í janúar 2011 og 2012, vitandi á hinn bóginn að stefndi bjó þar ekki lengur, auk þess sem tilkynningar þessar höfðu ekki að geyma upplýsingar sem honum bar að veita um að Þróunarfélagið Land ehf. hafði þá þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Við mat á því hvort áfrýjandi hafi sýnt af sér verulega vanrækslu í skilningi 2. mgr. 7. gr. laganna skiptir enn síður máli sú fullyrðing áfrýjanda að hann hafi prentað úr kerfum sínum sams konar tilkynningar sem ekki var gerð tilraun til að senda stefnda. Þá hafa ekki þýðingu við úrlausn málsins fullyrðingar áfrýjanda, sem stefndi hefur eindregið andmælt, um að stefndi hafi vitað að til staðar væri skuld samkvæmt skuldabréfinu og einnig um fjárhagsstöðu Þróunarfélagsins Lands ehf. Ekki hefur heldur þýðingu við þetta mat hvort áfrýjandi heldur fram ítrasta rétti við uppgjör gagnvart stefnda og engu skiptir búsetutímavottorð Þjóðskrár Íslands gefið út eftir að málið var höfðað.

16. Um málavexti verður að ganga út frá því að áfrýjandi hafi þann tíma sem skiptir máli haft upplýsingar í gagnagrunni sínum um heimilisföng stefnda. Þannig liggur meðal annars fyrir að stefndi og áfrýjandi voru í tölvupóstsamskiptum í nóvember 2010 og desember 2012 vegna óska stefnda um debetkort sín yrðu endurnýjuð og send sér. Í þeim samskiptum gaf stefndi meðal annars upp heimilisföng sín á Nýja-Sjálandi og voru honum send kortin þangað. Þá var því ekki andmælt af hálfu áfrýjanda að mánaðarlegar leigutekjur stefnda af fasteigninni að Selvogsgötu 8 fóru í gegnum kerfi áfrýjanda. Af flutningi málsins fyrir Hæstarétti verður einnig að miða við að ekki hafi verið vandkvæðum bundið fyrir áfrýjanda að senda stefnda innheimtubréf 18. janúar 2017 á heimili hans á Nýja-Sjálandi, birta honum stefnu í hinu fyrra dómsmáli til innheimtu skuldarinnar sem áfrýjandi felldi niður vegna ágalla í málatilbúnaði og loks að birta honum stefnu í máli því sem hér er til meðferðar. Verður af öllu þessu að miða við að áfrýjandi hafi í raun ekki gert tilraun til að kanna hvert væri heimilisfang stefnda fyrr en innheimtuaðgerðir hófust gagnvart honum með innheimtubréfinu 18. janúar 2017 og þá með tilgreiningu skuldar sem næmi rúmum 60 milljónum króna.

17. Samkvæmt framansögðu sinnti áfrýjandi, sem er fjármálafyrirtæki, á engan hátt fortakslausum skyldum sínum gagnvart stefnda um að upplýsa hann um að skuld hefði stofnast samkvæmt skuldabréfi því sem Þróunarfélagið Land ehf. gaf út 6. desember 2007 og fór í vanskil 1. desember 2008 fyrr en áfrýjandi sendi honum innheimtubréf á heimili hans á Nýja-Sjálandi réttum níu árum síðar, þrátt fyrir að áfrýjandi hafi bæði haft upplýsingar um hvar stefndi bjó á hverjum tíma og um netföng hans.

18. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna Landsréttar verður talið að vanræksla áfrýjanda við að sinna skyldum sínum hafi verið veruleg samkvæmt orðum síðari málsliðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Því ber að staðfesta hinn áfrýjaða dóm og fella á áfrýjanda málskostnað hér fyrir rétti.