Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2021

HD verk ehf. (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)
gegn
A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P og Q (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Aðild
  • Gjafsókn

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja um framgang kyrrsetningar hjá H ehf. Varnaraðilar töldu sig eiga skaðabótakröfur á hendur H ehf. vegna tjóns sem þau urðu fyrir þegar fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík brann og kröfðust kyrrsetningar hjá félaginu til tryggingar þeim. Hæstiréttur féllst á að skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri fullnægt. Vísaði rétturinn til þess að meginstarfsemi H ehf. hefði verið rekstur og útleiga fasteigna en félagið hefði á nokkurra mánaða tímabili látið frá sér að verulegu leyti þær fasteignir sem mynduðu tekjur í rekstri þess. Var því talið sennilegt að draga myndi mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fengist eða að hún yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram. Í dómi Hæstaréttar kom jafnframt fram að sýslumanni hefði borið að fara ekki í einu lagi með kyrrsetningarbeiðni varnaraðila heldur hefði hann að réttu lagi átt að gera sérstaka gerð fyrir kröfu hvers þeirra um sig. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur og lagt fyrir sýslumann að gera kyrrsetningu hjá H ehf. fyrir kröfu hvers varnaraðila.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. september 2021 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. janúar sama ár um að synja um framgang kyrrsetningar hjá sóknaraðila.

3. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest og að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað í Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þeir hver fyrir sig kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila.

5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 19. nóvember 2021.

Ágreiningsefni

6. Hinn 25. júní 2020 brann fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík. Sóknaraðili var eigandi fasteignarinnar en varnaraðilar voru annars vegar íbúar hússins sem voru í því þegar það brann og hins vegar nánustu aðstandendur þeirra þriggja íbúa þess sem létust í brunanum. Varnaraðilar telja sig eiga skaðabótakröfur á hendur sóknaraðila vegna tjóns sem þau urðu fyrir í brunanum. Þennan málatilbúnað reisa þau á því að sóknaraðili beri ábyrgð á að eignin hafi ekki fullnægt lögbundnum kröfum um brunavarnir. Með beiðni 18. desember 2020 kröfðust sóknaraðilar kyrrsetningar hjá varnaraðila til tryggingar kröfum sínum en sýslumaður synjaði að gerðin færi fram með ákvörðun 14. janúar 2021.

7. Varnaraðilar kröfðust með bréfi 20. janúar 2021 úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns og með úrskurði 11. júní sama ár felldi héraðsdómur synjun hans úr gildi. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar 3. september sama ár var sú niðurstaða staðfest.

8. Með ákvörðun Hæstaréttar 20. október 2021 var sóknaraðila veitt heimild til að kæra úrskurðinn á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni kom fram að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um mat á skilyrðum fyrir kyrrsetningu svo og framkvæmd hennar þegar fleiri en einn gerðarbeiðandi stæðu sameiginlega að kyrrsetningarbeiðni.

Málsatvik

9. Orsakir brunans á fjölbýlishúsinu að Bræðraborgarstíg 1 eru raktar til íkveikju. Varnaraðilarnir L, M, N, O, P og Q voru í húsinu þegar það brann en aðrir varnaraðilar eru maki, foreldrar og systkini þriggja íbúa hússins sem létust í brunanum.

10. Húsið var þriggja hæða forskalað timburhús og mun hafa verið byggt fyrir liðlega einni öld. Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 18. desember 2020 um brunann kom fram að húsið hefði upphaflega ekki verið vel úr garði gert með tilliti til eldvarna. Einnig hefði notkun þess með útleigu herbergja verið allt önnur en gert var ráð fyrir á teikningum og kallað á auknar brunavarnir og eldvarnareftirlit. Þá sagði að brunavarnir, sem teikningar gerðu ráð fyrir, hefðu ekki verið fyrir hendi og skipan herbergja önnur. Brunahólfun hefði hvorki verið að stigahúsi né björgunarop í samræmi við teikningar heldur aðeins lítil opnanleg fög á gluggum. Talið var að með slíkum opum hefði hugsanlega mátt bjarga mannslífum í brunanum. Enn fremur kom fram að inngangi á 2. hæð hússins hefði verið lokað þannig að eingöngu ein flóttaleið hefði verið af hæðinni í stað tveggja áður.

11. Með ákæru 17. september 2020 var íbúa í húsinu gefið að sök að hafa verið valdur að brunanum, manndrápi og tilraun til manndráps, sbr. 164., 211. svo og 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur sakfelldi ákærða fyrir brotin með dómi 3. júní 2021 en sýknaði hann af refsikröfu vegna ósakhæfis, sbr. 15. gr. sömu laga. Aftur á móti var ákærða gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. laganna. Þá voru einkaréttarkröfur varnaraðila á hendur ákærða teknar að hluta til greina. Málinu hefur að ósk ákærða verið áfrýjað til Landsréttar að fengnu áfrýjunarleyfi og bíður þar dóms.

12. Varnaraðilar kröfðust þess með beiðni 18. desember 2020 að fram færi kyrrsetning fyrir skaðabótakröfum þeirra á hendur sóknaraðila vegna brunans. Í beiðninni var krafa varnaraðila samtals talin nema 79.635.698 krónum en þar var krafa hvers þeirra jafnframt sett fram sérstaklega og sundurliðuð eftir kröfuliðum. Allir varnaraðilar töldu sig eiga miskabótakröfu á hendur sóknaraðila samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá í tilviki íbúa í húsinu sem komust lífs af á grunni a- og b-liða 1. mgr. en í tilviki aðstandenda eftir 2. mgr. ákvæðisins. Einnig taldi varnaraðilinn I sig eiga kröfu vegna útfararkostnaðar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna, og varnaraðilinn K kröfu vegna missis framfæranda, sbr. 13. gr. laganna, en eiginkona hans lést í brunanum. Þá byggðu sá varnaraðili og varnaraðilinn O á því að þeir ættu rétt á bótum vegna munatjóns. Loks töldu síðastgreindur varnaraðili og varnaraðilinn M sig eiga rétt á bótum vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna.

13. Í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila var því haldið fram að sóknaraðili hefði með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið varnaraðilum fjártjóni og miska þar sem brunavarnir í húsinu hefðu ekki fullnægt áskilnaði 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, auk þess sem framkvæmdir sóknaraðila á eigninni í óleyfi hefðu falið í sér brot gegn 9. og 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og farið í bága við nánar tilgreind ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla. Þá var því haldið fram að ástand húsnæðisins hefði verið í ósamræmi við 14. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þar sem kveðið er á um að leiguhúsnæði skuli vera í fullnægjandi ástandi miðað við fyrirhugaða notkun þess. Beiðnin var reist á því að eignastaða sóknaraðila færi versnandi og sökum þess væri varnaraðilum nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því að fá kyrrsetningu í eignum hans. Jafnframt var því haldið fram að hætta væri á að sóknaraðili ráðstafaði eignum sínum og því væri sennilegt að draga myndi mjög úr líkum þess að fullnusta krafnanna tækist eða yrði í öllu falli verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.

14. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók beiðnina fyrir 14. janúar 2021 að viðstöddum lögmönnum aðila. Hann hafnaði mótmælum sóknaraðila gegn samlagsaðild varnaraðila og vísaði til þess að kröfur þeirra síðarnefndu væru sundurliðaðar í kyrrsetningarbeiðninni. Hins vegar taldi sýslumaður að varnaraðilar hefðu ekki leitt í ljós að draga myndi úr líkindum þess að fullnusta krafnanna tækist eða yrði erfiðari ef kyrrsetning færi ekki fram. Féllst sýslumaður á andmæli sóknaraðila og synjaði framgangi gerðarinnar þar sem skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 væru ekki fyrir hendi. Við fyrirtökuna lýsti lögmaður varnaraðila því yfir að ákvörðun sýslumanns yrði borin undir héraðsdóm og var það gert með fyrrgreindu bréfi 20. janúar 2021.

15. Eftir að hinn kærði úrskurður Landsréttar gekk kröfðust varnaraðilar þess aftur með beiðni 28. október 2021 að fram færi kyrrsetning fyrir kröfum þeirra hjá sóknaraðila. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 4. nóvember sama ár eftir að hafa fallist á ósk varnaraðila um að sóknaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar á grunni heimildar í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumanns færði hann til bókar að kröfur varnaraðila næmu samtals 175.068.507 krónum auk þess sem hann tiltók sérstaklega kröfu hvers þeirra fyrir sig. Við gerðina synjaði sýslumaður kyrrsetningu eigna sóknaraðila til tryggingar þeim kröfum sem fyrri kyrrsetningarbeiðni tók til á þeim grundvelli að það sakarefni væri til úrlausnar fyrir dómi. Aftur á móti féllst sýslumaður á að kyrrsetning næði fram að ganga fyrir viðbótarkröfum vegna þjáningarbóta, varanlegs miska og varanlegrar örorku auk vaxta og útlagðs kostnaðar. Samkvæmt bókun sýslumanns nam fjárhæð þeirra krafna varnaraðila samtals 98.539.014 krónum og að ábendingu varnaraðila kyrrsetti hann í einu lagi fyrir kröfum þeirra annars vegar greiðslur að fjárhæð 35.000.000 króna samkvæmt kaupsamningi 14. október 2021 um fasteignina Dalveg 26 í Kópavogi og hins vegar fasteignina Kársnesbraut 96A í sama sveitarfélagi.

16. Varnaraðilar gerðu einnig kröfu um að fram færi kyrrsetning fyrir skaðabótakröfum þeirra hjá R en hann er fyrirsvarsmaður sóknaraðila og mun eiga allt hlutafé í félaginu. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 10. nóvember 2021 eftir að hafa fallist á að gerðarþoli yrði ekki boðaður til gerðarinnar af sömu ástæðu og þegar kyrrsetningin fór fram hjá sóknaraðila. Að ábendingu varnaraðila kyrrsetti sýslumaður í einu lagi fyrir kröfum þeirra, samtals að fjárhæð 138.361.430 krónur, hlutafé gerðarþola í sóknaraðila og S ehf.

Fjárhagur sóknaraðila

17. Í málinu liggja fyrir ársreikningar sóknaraðila vegna áranna 2019 og 2020 en þar eru upplýsingar um rekstur hans og efnahag á árunum 2018 til 2020. Tekjur ársins 2020 voru 114.712.007 krónur en rekstrargjöld 113.951.205 krónur. Þar af nam launakostnaður 36.039.787 krónum en sá kostnaður hafði næstu tvö ár á undan verið rétt liðlega 2.000.000 króna. Að teknu tilliti til fjármunatekna og gjalda og tekjuskatts var tap ársins 2020 samtals 84.520.569 krónur. Árið 2019 nam tapið 30.365.102 krónum en árið 2018 var það 19.659.434 krónur. Jafnframt kemur fram í ársreikningi 2020 að ójafnað tap sóknaraðila hafi numið 325.631.908 krónum, en þar af var 144.200.961 króna vegna þess samruna sem vikið er að í 20. lið dómsins. Við mat á rekstrarafkomunni er þess að gæta að endurmat á varanlegum rekstrarfjármunum sóknaraðila var fært á sérstakan endurmatsreikning eigin fjár í samræmi við 31. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem í árslok 2020 var 864.164.755 krónur.

18. Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila 2020, sem fyrst var lagður fram við meðferð málsins hér fyrir réttinum, námu eignir félagsins í árslok 1.731.163.676 krónum en þá var bókfært verð fasteigna 1.637.771.929 krónur. Skuldir í árslok námu samtals 1.192.130.830 krónum en þær skiptust í langtímaskuldir að fjárhæð 1.110.128.098 krónur og skammtímaskuldir að fjárhæð 82.002.732 krónur. Af skammtímaskuldum námu næsta árs afborganir langtímalána 36.866.373 krónum. Þá kemur fram að í árslok 2020 hafi eigið fé numið 539.032.847 krónum. Enn fremur kemur fram í umræddum ársreikningum að handbært fé frá rekstri hafi verið 467.888 krónur árið 2020, 639.520 krónur árið 2019 og 1.147.174 krónur árið 2018.

19. Með samþykktu kauptilboði 19. nóvember 2020 seldi sóknaraðili í einu lagi fasteignir sínar að Bræðraborgarstíg 1 og 3. Í kjölfarið var gerður kaupsamningur 12. janúar 2021 á grundvelli tilboðsins. Í samningnum kom fram að húsið að Bræðraborgarstíg 1 væri mikið skemmt vegna brunans og fylgdu með í kaupunum brunabætur frá vátryggjanda þess. Kaupverðið nam 270.000.000 króna og átti að greiða það með rétt tæpum 80.000.000 króna við undirritun samningsins en að öðru leyti með yfirtöku áhvílandi veðskulda.

20. Samkvæmt fyrrgreindum ársreikningi 2019 sameinaðist H2o ehf. sóknaraðila 30. desember það ár en það félag mun hafa verið eigandi allra hlutabréfa í sóknaraðila. Meðal eigna þess félags var fasteignin Hjallabrekka 1 í Kópavogi en hún var seld með kaupsamningi 1. júlí 2020 og afsalað 10. september sama ár. Kaupverðið nam 235.000.000 króna en þar af voru 38.000.000 króna greiddar með íbúð að Rauðarárstíg 42 í Reykjavík. Þá eign seldi sóknaraðili síðan fyrir 35.900.000 krónur með kaupsamningi 25. febrúar 2021 en afsal var gefið út 27. apríl sama ár.

21. Með kaupsamningi 8. september 2021, eftir að hinn kærði úrskurður gekk, seldi sóknaraðili fasteignina Dalveg 24 í Kópavogi. Kaupverðið var 585.000.000 króna en þar af voru rétt tæpar 300.000.000 króna greiddar með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Einnig var hluti kaupverðsins greiddur með þremur eignarhlutum í fasteigninni að Eiðistorgi 13 til 15 á Seltjarnarnesi og var andvirði þeirra eigna tilgreint 120.000.000 króna. Jafnframt seldi sóknaraðili fasteignina Dalveg 26 með fyrrgreindum kaupsamningi 14. október 2021 og var kaupverðið 480.000.000 króna.

22. Í eigu sóknaraðila er nú áðurgreind fasteign að Kársnesbraut 96A og þær eignir að Eiðistorgi 13 til 15 sem hann fékk sem hluta af endurgjaldi í fyrrgreindum fasteignaviðskiptum. Samkvæmt veðbandayfirliti 9. nóvember 2021 hvíla engin veðbönd á þessum eignum ef frá er talin áðurgreind kyrrsetning 4. sama mánaðar sem varnaraðilar fengu gerða í fyrstnefndu eigninni. Sóknaraðili hefur aflað verðmats fasteignasala 23. febrúar 2021 þar sem verðmæti Kársnesbrautar 96A er sagt vera 278.000.000 króna. Einnig hefur hann lagt fram verðmat fasteignasala 9. nóvember sama ár um eignarhlutana að Eiðistorgi 13 til 15 þar sem verðmæti þeirra er talið nema 105.000.000 króna. Þá hefur sóknaraðili aflað yfirlýsingar endurskoðanda 8. sama mánaðar en þar segir að öll langtímalán hans hafi verið gerð upp en skammtímaskuldir nemi 11.536.526 krónum. Einnig eigi félagið á reikningi 123.383.143 krónur auk þess sem 25.997.600 krónur liggi kyrrsettar hjá sýslumanni. Að teknu tilliti til verðmætis fasteigna sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindum verðmötum nema eignir hans að teknu tilliti til skulda ríflega 520.000.000 króna.

Niðurstaða

Aðild að kyrrsetningargerð

23. Um kyrrsetningu hjá skuldara fer ekki aðeins eftir reglum laga nr. 31/1990 heldur gilda einnig tiltekin ákvæði laga nr. 90/1989 um ýmsar upphafsaðgerðir og framkvæmd gerðar. Samkvæmt þessu eiga að verulegu leyti sömu reglur við um kyrrsetningu og aðför.

24. Hvorki í lögum nr. 31/1990 né lögum nr. 90/1989 eru almennar reglur um aðild að kyrrsetningargerð eða aðfarargerð ef frá er talið að fram kemur í 2., 3. og 28. gr. síðargreindu laganna hverjir geti verið aðilar að aðfarargerð. Um þetta gilda hins vegar grunnreglur einkamálaréttarfars en þær koma fram í III. kafla laga nr. 91/1991 og verður ýmsum reglum þess kafla beitt á vettvangi umræddra fullnustugerða þótt ekki sé vísað til þeirra í nefndum lögum. Um aðildarhæfi við þessar fullnustugerðir fer því eftir þeirri grunnreglu sem kemur fram í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 og það sama á við um málflutningshæfi og fyrirsvar, sbr. 17. gr. laganna. Auk þess verður reglum 22. og 23. gr. laganna beitt um aðilaskipti við kyrrsetningu og aðfarargerð eftir því sem við gæti átt. Jafnframt er óhjákvæmilegt, þegar tveir eða fleiri eiga óskipt réttindi eða bera óskipta skyldu, með þeim hætti að samaðild væri nauðsynleg eftir 18. gr. laganna í dómsmáli um réttindin eða skylduna, að sami háttur verði hafður á við þessar fullnustugerðir. Aftur á móti gilda ekki reglur 19. gr. laganna um samlagsaðild við umræddar gerðir og helgast það af því að þær fara eftir eðli sínu fram í þeim tilgangi að tilteknum réttindum milli tveggja aðila, gerðarbeiðanda og gerðarþola, verði fullnægt. Af því leiðir að fleiri aðilar geta ekki í einu lagi við þessar gerðir leitað sameiginlega fullnustu til að sækja hver sín réttindi eða beina gerðinni sameiginlega að fleirum þegar skipt skylda hvílir á þeim og gildir þá einu þótt um sé að ræða sömu skyldu eins og á við um skyldu tveggja eða fleiri til að greiða sömu peningakröfu.

25. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið bar sýslumanni að fara ekki í einu lagi með kyrrsetningarbeiðni varnaraðila á hendur sóknaraðila, eins og hann gerði við fyrirtöku hennar 14. janúar 2021, heldur átti hann að réttu lagi að gera sérstaka gerð fyrir kröfu hvers varnaraðila um sig. Er þess þá að gæta að fullnægjandi upplýsingar komu fram í beiðninni um kröfu hvers varnaraðila, eins og áður er getið í 12. lið dómsins. Jafnframt bar þá að innheimta gjöld af hverjum varnaraðila fyrir sig í samræmi við lög nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs. Að þessu gættu gat sá annmarki að varnaraðilar settu fram kröfur sínar í sameiginlegri beiðni ekki valdið því að henni yrði þegar af þeirri ástæðu synjað enda var sýslumanni kleift að bæta úr á þann veg sem hér hefur verið rakið. Það athugast að kyrrsetningar hjá sóknaraðila 4. nóvember sama ár og fyrirsvarsmanni hans, R, 10. sama mánaðar fóru ekki fram í samræmi við þetta.

Skilyrði kyrrsetningar

26. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða fullnusta verði verulega örðugri.

27. Kröfur varnaraðila um skaðabætur vegna tjóns sem rakið verður til bruna húseignarinnar að Bræðraborgastíg 1 eru lögvarðar kröfur um peninga og þeim verður ekki fullnægt þegar með aðför. Varnaraðilar hafa jafnframt leitt nægar líkur að tilvist krafna sinna enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeir eigi ekki þau réttindi sem þeir hyggjast tryggja, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Kemur þá til úrlausnar hvort nauðsynlegt sé að kyrrsetning fari fram vegna fullnustu krafnanna.

28. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kemur fram í lögskýringargögnum um 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að kyrrsetning sé ekki útilokuð þótt krafa sé að einhverju leyti tryggð með veði eða ábyrgð ef þeim skilyrðum er annars fullnægt sem ákvæðið setur fyrir kyrrsetningu. Að þessu gættu verður fallist á það með Landsrétti að hugsanleg ábyrgð ríkissjóðs gagnvart varnaraðilum á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota geti ekki hindrað að kyrrsetning fari fram hjá sóknaraðila. Er þá jafnframt til þess að líta að dómi í sakamáli á hendur þeim manni sem talinn er hafa verið valdur að brunanum hefur verið áfrýjað til Landsréttar en með honum voru teknar að nokkru marki til greina einkaréttarkröfur varnaraðila á hendur dómfellda. Því ríkir óvissa um afdrif krafna á hendur honum og um greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 69/1995. Jafnframt hafa varnaraðilar uppi kröfur á hendur sóknaraðila sem eru hærri en nemur hámarksgreiðslu eftir nefndum lögum, sbr. 5. gr. þeirra. Samkvæmt þessu getur réttur varnaraðila til greiðslu bóta á þeim grunni ekki hindrað að kyrrsetning fyrir kröfum þeirra fari fram hjá sóknaraðila.

29. Í skýringum við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að kyrrsetning eigi ekki að fara fram nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfueiganda. Sönnunarbyrði um að fullnægt sé skilyrðinu um nauðsyn kyrrsetningar til að greiða fyrir fullnustu kröfu hvílir á þeim sem krefst hennar. Um þetta má meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 131/2004, 4. október 2016 í máli nr. 614/2016 og 25. júlí 2017 í máli nr. 427/2017.

30. Við mat á því hvort umræddu skilyrði er fullnægt er rétt að líta til athafna eða aðstæðna skuldara sem geta gefið til kynna að draga muni úr líkindum til að fullnusta kröfu takist eða að hún verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram meðan beðið er dóms um kröfuna. Hér er helst til að taka að skuldari hafi eytt fjármunum sínum, selt eignir, veðsett þær eða ráðstafa með öðru móti eða að gera megi ráð fyrir að hann muni gera það. Fleira getur komið til án þess að það verði rakið nánar.

31. Í kjölfar brunans að Bræðraborgarstíg 1 var að sínu leyti skiljanlegt að sóknaraðili ráðstafaði eigninni í stað þess að ráðast sjálfur í uppbyggingu á lóðinni. Er þá haft í huga að meginstarfsemi félagsins hefur verið rekstur og útleiga fasteigna eins og kemur fram í ársreikningum þess. Einnig verður að gera ráð fyrir að hagræði hafi falist í að ráðstafa samhliða aðliggjandi eign að Bræðraborgarstíg 3, eins og gert var með fyrrgreindum kaupsamningi 12. janúar 2021, þannig að framkvæmdir og starfsemi á svæðinu gæti tekið til beggja eignanna. Aftur á móti hefur sóknaraðili ekki gert viðhlítandi grein fyrir ástæðum þess að hann hefur í kjölfarið á nokkurra mánaða tímabili selt allar fasteignir sínar ef frá er talin eignin Kársnesbraut 96A og þrír eignarhlutar í fasteigninni að Eiðistorgi 13 til 15. Er þá til þess að líta að bókfært verð fasteigna sóknaraðila var samkvæmt ársreikningi 1.637.771.929 krónur í árslok 2020 en mat á andvirði þeirra eigna sem hann hefur ekki ráðstafað nemur nú 383.000.000 króna samkvæmt mati fasteignasala sem sóknaraðili hefur sjálfur aflað. Til samanburðar má nefna að fasteignamat á eignum sóknaraðila var í árslok 2020 samtals 1.260.990.000 krónur en samtals nemur fasteignamat þeirra eigna sem hann hefur ekki selt 271.550.000 krónum. Miðað við fasteignamat hefur sóknaraðili því selt ríflega 78% af eignasafni sínu.

32. Með þeim ráðstöfunum sem hér hafa verið raktar hefur sóknaraðili látið frá sér að verulegu leyti þær eignir sem mynduðu tekjur í rekstri félagsins. Jafnframt hefur hann umbreytt fasteignum í reiðufé sem kann að vera undir hælinn lagt hvort verði fyrir hendi þegar endanlega hefur verið dæmt um þær kröfur sem varnaraðilar hafa uppi á hendur honum. Samkvæmt þessu verður að telja sennilegt að draga muni mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fáist eða að hún verði verulega örðugri ef kyrrsetning hjá sóknaraðila fer ekki fram, sbr. niðurlag 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.

33. Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum kyrrsetningar og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur, þar með talið um málskostnað og gjafsókn, en þó þannig að kyrrsetning hjá sóknaraðila fari fram fyrir kröfu hvers varnaraðila fyrir sig í samræmi við það sem áður er rakið.

34. Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað en um hann og gjafsóknarkostnað fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Úrskurður Landsréttar er staðfestur og lagt fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að gera kyrrsetningu hjá sóknaraðila, HD verki ehf., fyrir kröfu hvers varnaraðila, A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P og Q.

Sóknaraðili greiði varnaraðilunum C, D, E, F, G, H, I og J hverju fyrir sig 60.000 krónur í kærumálskostnað. Einnig greiði sóknaraðili 540.000 krónur í kærumálskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilanna A, B, K, L, M, N, O, P og Q fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 540.000 krónur.