Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2022

A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Ómerking dóms Landsréttar

Reifun

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að einn dómari málsins í Landsrétti hefði verið vanhæfur til að fara með málið og dæma í því á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómur Landsréttar var því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2022. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hún þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.327.715 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2018 til 19. janúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 18. júlí 2019 að fjárhæð 1.261.312 krónur. Áfrýjandi krefst í báðum tilvikum málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og greiðslu málskostnaðar.

4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 9. nóvember 2022 um formhlið þess.

Ágreiningsefni

5. Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir 2. september 2016 við leikskóla stefnda þar sem áfrýjandi starfaði sem leikskólakennari. Ágreiningur málsins lýtur einvörðungu að því hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi í starfi eða utan starfs og þá hvort bætur til hennar verða gerðar upp á grundvelli reglna stefnda nr. 1/90 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi eða hvort um bætur til hennar fari eftir reglum stefnda nr. 2/90 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. maí 2022 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-56. Leyfið var meðal annars veitt á þeim grundvelli að dómur Landsréttar kynni að vera bersýnilega rangur að formi til af þeirri ástæðu að einn dómara málsins, Kristbjörg Stephensen, hefði verið vanhæf með vísan til b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að dæma málið þar sem hún hefði verið borgarlögmaður þegar slys áfrýjanda var tilkynnt til embættisins.

7. Fyrir Hæstarétti var krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms og á því byggt að fyrrgreindur landsréttardómari hefði verið vanhæf til að dæma málið. Flutningur um formhlið málsins laut að því.

Málsatvik

8. Slys það sem málið er sprottið af átti sér stað er starfsmenn leikskóla stefnda tóku þátt í tilteknum leik sem starfsmannafélag leikskólans skipulagði sem þátt í hópefli við lok starfsdags er haldinn var í leikskólanum. Varð það með þeim hætti að samstarfsmaður áfrýjanda hljóp á hana með þeim afleiðingum að hún féll illa og hlaut áverka á vinstra hné og var í kjölfarið flutt á sjúkrahús. Reyndist áfrýjandi hafa slitið krossband og hluta af innra hliðarbandi á vinstra hné og auk þess hlotið skemmd í liðþófa. Hún mun hafa verið óvinnufær með öllu í átta vikur eftir slysið og aftur í átta vikur eftir að aðgerð var gerð á hnénu. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands 20. september 2016 og til Vinnueftirlits ríkisins 21. september sama ár.

9. Af hálfu lögmannsstofunnar Fulltingis slf. var embætti borgarlögmanns sent tölvubréf 14. nóvember 2016 þar sem tilkynnt var um slysið og óskað eftir því að málið yrði skráð hjá stefnda og tilkynnt um fyrirhugaða gagnaöflun. Jafnframt var óskað eftir því að send yrði staðfesting á bótaskyldu sem fyrst.

10. Í svarbréfi 16. sama mánaðar til Fulltingis slf., sem undirritað var fyrir hönd borgarlögmanns af tilgreindum lögmanni, kom fram að slysið hefði verið skráð hjá embættinu. Jafnframt sagði í bréfinu að áfrýjandi hefði sem starfsmaður stefnda verið slysatryggð allan sólarhringinn og að um uppgjör bóta færi samkvæmt þeirri tryggingu sem um viðkomandi starfsmann gilti. Á slysdegi hefði hún þegið laun samkvæmt kjarasamningi KÍ vegna Félags leikskólakennara og að samkvæmt 7. kafla samningsins giltu um skilmála tryggingarinnar reglur sem samþykktar voru í borgarráði 5. júní 1990 um skilmála slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar nr. 1/90 (slys í starfi) og nr. 2/90 (slys utan starfs/frítímaslys). Vísað var til þess að í tilvitnuðu tölvubréfi starfsmanns Fulltingis slf. hefði komið fram að slys áfrýjanda hefði átt sér stað á vinnutíma. Því giltu fyrrgreindar reglur nr. 1/90 með þeim fyrirvörum um uppgjör bóta sem þar kæmu fram. Jafnframt sagði í bréfinu að engin afstaða væri tekin til hugsanlegrar bótaskyldu stefnda enda ekki unnt að leggja mat á hana fyrr en öll gögn og upplýsingar lægju fyrir. Í þessu samhengi væri einnig bent á þá fyrirvara sem tilgreindir væru í tilvitnuðum reglum og kynnu að eiga við í tilviki áfrýjanda.

11. Læknisfræðileg örorka hennar var metin 15% með matsgerð læknis 23. nóvember 2018 og er enginn ágreiningur um afleiðingar slyssins og bótaskyldu stefnda. Með bréfi áfrýjanda 19. desember 2018 var þess farið á leit að bætur yrðu greiddar í samræmi við matsgerð auk útlagðs kostnaðar.

12. Með tölvubréfi stefnda 25. janúar 2019 var lögð fram tillaga að bótauppgjöri og í tölvubréfi 30. sama mánaðar kom fram sú afstaða stefnda að um frítímaslys hefði verið að ræða.

13. Endanleg niðurstaða stefnda um að slysið teldist frítímaslys var áréttuð í tölvubréfi til áfrýjanda 4. júní 2019. Áfrýjandi tilkynnti í kjölfarið með tölvubréfi 8. júlí 2019 að hún hefði ákveðið að ganga til uppgjörs með fyrirvara um að bætur samkvæmt reglum nr. 1/90 yrðu sóttar fyrir dómi þar sem af hennar hálfu væri litið svo á að slysið hefði verið vinnuslys.

14. Tjón áfrýjanda var gert upp 11. júlí 2019 á grundvelli reglna nr. 2/90 en áfrýjandi gerði fyrirvara við mat á læknisfræðilegri örorku og réttmæti niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar. Þá var áskilinn réttur til að endurmeta afleiðingar slyssins og krefja stefnda um frekari bætur vegna þess. Jafnframt var gerður fyrirvari við ákvörðun borgarlögmanns um að gera upp bæturnar með vísan til reglna nr. 2/90 í stað reglna nr. 1/90 og áskilinn réttur til að sækja frekari bætur á grundvelli þeirra reglna.

15. Kristbjörg Stephensen var ráðin borgarlögmaður 1. júlí 2007 og lét af því starfi 30. september 2017. Hún var skipuð dómari við Landsrétt í júní 2017 og tók við embætti 1. janúar 2018. Hún gegndi því stöðu borgarlögmanns þegar svarbréf stefnda vegna slyssins sem málið er sprottið af var sent áfrýjanda 16. nóvember 2016.

Málatilbúnaður aðila um formhlið máls

16. Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar á því að fyrrgreindur landsréttardómari hafi verið vanhæf á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 til að dæma málið þar sem hún hefði gegnt starfi borgarlögmanns er slys áfrýjanda var tilkynnt þangað og hafi því komið að hagsmunagæslu fyrir stefnda í tengslum við sakarefni málsins. Jafnframt séu atvik málsins og aðstæður til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa í skilningi g-lið 5. gr. laganna.

17. Af hálfu stefnda er því haldið fram að málsástæða byggð á vanhæfi dómarans sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi vísar til þess að það hafi verið ljóst nokkru fyrir flutning málsins í Landsrétti hvaða dómarar skipuðu dóminn og verði að telja að áfrýjanda hafi borið þá þegar að tefla fram málsástæðu um vanhæfi dómarans. Þá mótmælir stefndi því að nefndur dómari hafi komið að hagsmunagæslu fyrir stefnda varðandi sakarefnið eða veitt áfrýjanda ólögskyldar leiðbeiningar um málið í skilningi b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þótt dómarinn hafi verið borgarlögmaður þegar tilkynning um slys áfrýjanda barst og þegar lögmaður á skrifstofu hennar sendi áfrýjanda móttökubréf vegna tilkynningarinnar hafi dómarinn hvorki komið að ákvörðun um hvort bótaskylda væri fyrir hendi hjá stefnda vegna slyss áfrýjanda né á hvaða grundvelli. Dómarinn hafi því hvorki gætt réttar stefnda vegna málsins né veitt leiðbeiningar um það í skilningi b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Málið hafi hvorki komið til efnislegrar meðferðar hjá stefnda né ákvörðun verið tekin í því af hálfu hans þegar dómarinn var borgarlögmaður. Engin atvik eða aðstæður séu því fyrir hendi að öðru leyti sem séu til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

18. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og aðilar njóti jafnræðis að því leyti en ákvæðið sæki fyrirmynd sína í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti skuli hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.

19. Fyrirmæli um sérstakt hæfi dómara til að fara með og dæma einkamál eru í 5. gr. laga nr. 91/1991. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Þegar þeim liðum sleppir segir síðan í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

20. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál er þess að gæta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál ef hann er hlutdrægur gagnvart aðilum máls eða sakarefni, heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að dómari standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé slíkur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti.

21. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari að hæfi sínu af sjálfsdáðum og gildir sú regla á öllum dómstigum, sbr. 166. og 190. gr. laganna. Af því leiðir að dómara ber að víkja sæti ef vanhæfisástæða er fyrir hendi þótt málsaðili hafi ekki uppi kröfu um það. Að sama skapi verður dómur undirréttar ómerktur ef vanhæfur dómari hefur dæmt mál og gildir þá alla jafna einu þótt aðili máls hafi vitað eða mátt vita að vanhæfur dómari sat í því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. febrúar 2013 í máli nr. 444/2012. Samkvæmt þessu breytir engu þótt áfrýjandi hafi ekki haft uppi málsástæðu byggða á vanhæfi landsréttardómarans fyrr en í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti. Hvað varðar skyldu dómara til að gæta sjálfur að hæfi sínu hefur ekki þýðingu hvort ástæða vanhæfis eru þau atriði sem rakin eru í liðum a til f í 5. gr. eða þau atvik eða aðstæður sem tilgreind eru í g-lið sömu greinar enda standa til þess ríkir hagsmunir samkvæmt framansögðu að vanhæfur dómari dæmi ekki mál.

22. Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með og dæma mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt honum ólögskyldar leiðbeiningar um það. Verður því sá sem gætt hefur hagsmuna aðila vegna sakarefnisins vanhæfur og skiptir þá engu hvort hagsmunagæslan var umfangsmikil eða óveruleg, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. október 1987 í máli nr. 190/1987 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1189 og dóm réttarins 13. mars 1995 í máli nr. 59/1995 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 692.

23. Eins og rakið hefur verið gegndi Kristbjörg Stephensen starfi borgarlögmanns þegar bréf var sent áfrýjanda 16. nóvember 2016, undirritað fyrir hennar hönd, þar sem fram kom að um slys áfrýjanda færi eftir reglum stefnda nr. 1/90 um slys í starfi. Þótt ekki hafi með bréfinu verið tekin endanleg afstaða til bótaskyldu stefnda er ljóst samkvæmt framangreindu að landsréttardómarinn kom á því stigi málsins að hagsmunagæslu fyrir hann og breytir engu eins og áður segir hvort sú hagsmunagæsla var umfangsmikil eða óveruleg. Var dómarinn því vanhæfur til að dæma málið, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn áfrýjaði dómur verður því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar á ný fyrir Landsrétti.

24. Rétt er að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.