Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2021

A (Hildur Sólveig Pétursdóttir lögmaður)
gegn
B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Búsetuleyfi
  • Erfðaskrá
  • Óvígð sambúð
  • Gjafsókn

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu A um að dánarbú móður hans, C, sem lést í ágúst 2016, yrði tekið til opinberra skipta, en B eiginmaður hennar sat í óskiptu búi eftir hana. A var eina barn C og fyrri eiginmanns hennar en B á tvo syni. A og B gerðu með sér sameiginlega erfðaskrá þar sem kom fram að það væri sameiginleg ákvörðun hjónanna að hið langlífara þeirra gæti setið í óskiptu búi eftir lát hins skammlífara eins lengi og það vildi með þeim fyrirvara að sú heimild myndi falla úr gildi ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að augljóslega hefði að baki þessari ákvörðun verið sá vilji að koma í veg fyrir að langlífari maki stofnaði til fjárhagslegrar samstöðu er fylgi hjúskap eða óvígðri sambúð og gæta þannig hagsmuna stjúpniðja sem ættu arf inni í óskiptu búi. Vísaði rétturinn til þess að því er varðaði hjúskap leiddi þetta beint af 2. mgr. 13. gr. erfðalaga og óþarft að taka það atriði fram í erfðaskránni en ekkert sambærilegt ákvæði væri í erfðalögum um óvígða sambúð og því hafi þurft að gera áskilnað þar um í erfðaskrá. Að því gættu að það skilyrði þjónaði sama tilgangi og umrætt ákvæði erfðalaga var talið heimilt að mæla fyrir um í erfðaskránni að langlífari makinn gæti ekki setið í óskiptu búi ef hann stofnaði til sambúðar og var lagt til grundvallar í málinu að B hefði stofnað til sambúðar í skilningi erfðaskrárinnar. Var því krafa A tekin til greina um að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta á grundvelli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 20. maí 2021 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta.

3. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa um opinber skipti verði tekin til greina. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér kostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Ágreiningsefni

5. Hinn […] ágúst 2016 andaðist C. Varnaraðili var eiginmaður hennar og situr í óskiptu búi eftir hana. Sóknaraðili er eina barn C og fyrri eiginmanns hennar en varnaraðili á tvo syni. Í málinu er deilt um hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka dánarbúið til opinberra skipta. Með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2021 var krafa um skipti tekin til greina en henni var hafnað með hinum kærða úrskurði, eins og áður segir.

6. Með ákvörðun Hæstaréttar 13. júlí 2021 var veitt heimild til að kæra úrskurðinn til réttarins á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni sagði að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um túlkun á heimild erfingja til að krefjast þess að dánarbú yrði tekið til skipta samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991.

Málsatvik

7. Sóknaraðili ólst upp hjá móður sinni sem var einstæð eftir að hafa skilið við föður hans árið 1981. C starfaði um langt skeið sem […] í […] en árið 2007 hóf hún einnig að vinna á sumrin í […] hjá […]. Þar starfaði varnaraðili og tókust með þeim kynni. Hann flutti síðan til C á árinu 2011 eða 2012 en þau gengu í hjúskap […] desember 2014.

8. Nokkru áður en C og varnaraðili gengu í hjúskap hafði hún greinst með sjúkdóm sem dró hana til dauða. Fyrir milligöngu frænda hennar var fenginn lögmaður til að gera sameiginlega erfðaskrá fyrir hjónin og var hún undirrituð af þeim og arfleiðsluvottum […] ágúst 2016 eða 12 dögum áður en C andaðist. Þar sagði að það væri sameiginleg ákvörðun hjónanna að hið langlífara þeirra gæti setið í óskiptu búi eftir lát hins skammlífara eins lengi og það vildi. Þessi heimild skyldi þó falla úr gildi ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð.

9. Varnaraðili óskaði 13. september 2016 eftir heimild til setu í óskiptu búi og var veitt það leyfi 19. sama mánaðar af sýslumanninum á Suðurlandi. Með bréfi 20. ágúst 2020 var varnaraðila kynnt sú ósk sóknaraðila að dánarbúinu yrði skipt. Þar var því haldið fram að vilji C hefði aðeins staðið til að varnaraðili sæti í óskiptu búi í þrjú ár þótt fram kæmi í erfðaskránni að heimildin væri ótímabundin. Þar sem meira en þrjú ár væru liðin frá því að varnaraðili fékk heimildina væri þess farið á leit að þessi hinsti vilji hennar yrði virtur. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort varnaraðili svaraði þessu erindi. Sóknaraðili krafðist síðan opinberra skipta með bréfi 18. september 2020.

10. Varnaraðili flutti til […] vorið 2019 og var búsettur þar fram á haustið 2020 þegar hann flutti til Íslands, en hann hefur verið skráður til heimilis hér á landi frá […] október það ár. Með aðilum er ágreiningur um hvort varnaraðili hafi stofnað til óvígðrar sambúðar með nafngreindri sænskri konu. Telur sóknaraðili að heimild varnaraðila til setu í óskiptu búi hafi af þeim sökum fallið niður í samræmi við fyrirmæli í erfðaskrá hjónanna um að heimildin félli niður hæfi hið langlífara sambúð að nýju.

Niðurstaða

11. Sóknaraðili reisir kröfu um opinber skipti á dánarbúi móður sinnar á 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þar segir að erfingi geti krafist þess að bú verði tekið til opinberra skipta, þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, hafi erfinginn til þess heimild eftir ákvæðum erfðalaga.

12. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er því hjóna sem lengur lifir heimilt að sitja í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum ef þeir veita samþykki sitt til þess. Ef fjárráða stjúpniðji hefur gefið slíkt samþykki getur hann krafist skipta sér til handa með eins árs fyrirvara, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Frá reglunni um að afla þurfi samþykkis stjúpniðja langlífari maka svo að honum verði heimilað að sitja í óskiptu búi gildir undantekning eftir 3. mgr. 8. gr. laganna. Hún er bundin því skilyrði að hið látna hafi í erfðaskrá mælt fyrir um þann rétt maka síns.

13. Þau ákvæði erfðalaga sem hér hafa verið rakin um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi voru lögfest með lögum nr. 48/1989. Í lögskýringargögnum með þeim kom fram að tilgangur ákvæðanna væri meðal annars að bæta stöðu langlífari maka gagnvart stjúpniðjum hans þannig að heimild til setu í óskiptu búi yrði ekki háð samþykki þeirra heldur yrðu þeir bundnir af ákvörðun í erfðaskrá um þennan rétt makans. Að baki þessu bjó sú reynsla að stjúpniðjar stæðu frekar í vegi fyrir setu langlífari maka í óskiptu búi en sameiginlegir niðjar hjóna. Einnig sagði að unnt væri að mæla fyrir um þennan rétt maka í sameiginlegri erfðaskrá hjóna eða einhliða erfðaskrá þess skammlífari. Efnislega þyrfti aðeins að kveða á um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi og þá þyrfti hann ekki að leita afstöðu stjúpniðja sinna til umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi heldur fengist leyfið á grundvelli erfðaskrárinnar að öðrum skilyrðum fullnægðum. Loks var tekið fram að þegar leyfi væri veitt á þessum grunni ættu stjúpniðjar þess ekki kost að krefjast skipta eftir 14. gr. laganna en eftir sem áður gætu þeir krafist skipta vegna meðferðar langlífari makans á eignum búsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna.

14. Með erfðalögum er ekki fortakslaust girt fyrir að heimild í erfðaskrá fyrir maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum sé bundin skilyrðum. Er þess einnig að gæta að með erfðaskrá er hægt að koma í veg fyrir að langlífari maki sitji í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum eða ófjárráða stjúpniðjum, sbr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna. Að þessu virtu hefur skammlífara hjóna ríkan rétt til að ráða því með erfðaskrá hvort skipti fara fram eða heimild verður veitt til setu í óskiptu búi. Hér verður jafnframt að gæta að þeirri grundvallarreglu erfðaréttar að virða beri vilja arfláta eins og hann kemur fram í erfðaskrá svo sem frekast er unnt.

15. Eins og áður greinir kom fram í sameiginlegri erfðaskrá hinnar látnu og varnaraðila að það hjónanna sem lengur lifði hefði heimild til að sitja í óskiptu búi eins lengi og það vildi. Þessi heimild átti þó að falla niður ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. Að baki þessu bjó augljóslega sá vilji að koma í veg fyrir að langlífari maki stofnaði til fjárhagslegrar samstöðu er fylgir hjúskap eða óvígðri sambúð og gæta þannig hagsmuna stjúpniðja sem ættu arf inni í óskiptu búi. Að því er varðar hjúskap leiðir þetta beint af 2. mgr. 13. gr. erfðalaga og því var í sjálfu sér óþarft að taka það atriði fram í erfðaskránni. Ekkert sambærilegt ákvæði er í erfðalögum um óvígða sambúð og því verður að gera áskilnað þar um í erfðaskrá. Að því gættu að það skilyrði þjónaði sama tilgangi og umrætt ákvæði erfðalaga var heimilt að mæla fyrir um í erfðaskránni að langlífari makinn gæti ekki setið í óskiptu búi ef hann stofnaði til sambúðar. Verður því ekki fallist á það með Landsrétti að þessi áskilnaður verði að engu hafður og lagaskilyrði skorti til að taka búið til skipta.

16. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi varnaraðili frá því að hann og fyrrgreind kona hefðu orðið „kærustupar“ í febrúar eða mars 2020 og væru enn í sambandi. Einnig kannaðist varnaraðili við að hafa verið skráður til heimilis hjá henni frá og með maí og til loka október 2020. Eins og málið liggur fyrir geta gögn um ætlað leigusamband þeirra enga þýðingu haft um hvort til sambúðar hafi stofnast. Ekki nýtur við almennrar skilgreiningar á óvígðri sambúð í lögum og hafa ekki þýðingu í þessu sambandi lagaákvæði sem taka til slíkrar sambúðar á ýmsum réttarsviðum. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi stofnað til sambúðar í skilningi erfðaskrárinnar og við það hafi fallið niður heimild hans til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa sóknaraðila um að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta á grundvelli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991.

17. Með úrskurði héraðsdóms var málskostnaður felldur niður. Sóknaraðili kærði ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti til Landsréttar og því kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita. Eftir úrslitum málsins verður varnaraðila hins vegar gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað fyrir Landsrétti og hér fyrir dómi sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað varnaraðila fer eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Dánarbú C er tekið til opinberra skipta.

Varnaraðili, B, greiði sóknaraðila, A, samtals 1.200.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.