Hæstiréttur íslands

Mál nr. 20/2021

Ákæruvaldið (Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)
gegn
X (Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að sérfróður meðdómsmaður viki sæti í máli Á gegn X.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2021, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. maí 2021, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Jón Baldursson, sérfróður meðdómsmaður, viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

4. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvik

5. Í ákæru er varnaraðila gefið að sök að hafa laugardaginn 28. mars 2020 banað eiginkonu sinni með því að þrengja að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Er háttsemin talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

6. Með dómi héraðsdóms var varnaraðili sakfelldur samkvæmt ákæru, en dóminum var áfrýjað til Landsréttar þar sem málið er til meðferðar. Þar hefur Jón Baldursson sérfræðingur í bráðalækningum verið kvaddur til setu í dóminum sem sérfróður meðdómsmaður.

7. Héraðsdóm skipuðu tveir embættisdómarar auk sérfróðs meðdómsmanns, Hjalta Más Björnssonar, sem mun starfa sem sérfræðilæknir á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss.

8. Réttarmeinafræðingurinn A vann að krufningu á brotaþola í þágu rannsóknar málsins, en hann mun vera starfsmaður Landspítala-háskólasjúkrahúss. Niðurstöður réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar hans bentu sterklega til þess að dánarorsök brotaþola hefði verið þrýstingur á háls með köfnun í kjölfarið.

9. Varnaraðili hefur dregið í efa að dánarorsök brotaþola sé sú sem í ákæru greinir og telur niðurstöðu réttarmeinafræðingsins í ýmsu áfátt. Varnaraðili telur meðal annars að allt eins líklegt sé að dánarorsök brotaþola hafi verið eitrunaráhrif vegna samverkandi áhrifa áfengis og slævandi lyfja.

10. Krafa varnaraðila um að hinn sérfróði meðdómsmaður víki sæti er á því byggð að annars vegar séu tengsl hans og réttarmeinafræðingsins A og hins vegar tengsl hans við Hjalta Má Björnsson sérfræðilækni ,,augljós og of mikil“ til þess að með réttu sé unnt að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins í efa. Varnaraðili vísar til þess að hinn sérfróði meðdómsmaður sé fyrrverandi samstarfsmaður Hjalta Más á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og sé nú samstarfsmaður réttarmeinafræðingsins A. Þá hafi hinn sérfróði meðdómsmaður ritað fræðigrein með Hjalta Má sem birt hafi verið árið 2018. Enn fremur séu þeir allir starfsmenn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Kröfu sína reisir varnaraðili á g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

11. Af hálfu ákæruvalds er bent á að ekki liggi fyrir að milli hins sérfróða meðdómsmanns í héraði og þess sem tilkvaddur hefur verið til setu í dómi fyrir Landsrétti séu frekari eða nánari tengsl en milli samstarfsfélaga sem áður störfuðu á sama sviði og starfi nú báðir á stórum vinnustað. Hið sama eigi við um réttarmeinafræðinginn sem gert hafi réttarlæknisfræðilega rannsókn á brotaþola.

Niðurstaða

12. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti. Verður ákvæðið skýrt í ljósi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni.

13. Samkvæmt g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar mat er lagt á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.

14. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu varnaraðila að hinn sérfróði meðdómsmaður Jón Baldursson sérfræðilæknir hafi vegna starfa sinna á sjúkrahúsinu komið að rannsókn þess máls sem hér er til úrlausnar. Þá er í greinargerð varnaraðila í engu getið atriða sem gætu gefið til kynna að frekari tengsl séu milli hins sérfróða meðdómsmanns og réttarmeinafræðingsins A en almennt má ætla að séu fyrir hendi milli starfsmanna á stórum vinnustað. Hið sama á við um tengsl milli meðdómsmannsins og sérfræðilæknisins Hjalta Más Björnssonar. Í þessu samhengi ræður ekki úrslitum um ætlað vanhæfi meðdómsmannsins þótt fyrir liggi að hann og Hjalti Már hafi ritað ásamt þriðja manni fræðigrein, ótengda máli þessu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. nóvember 2016 í máli nr. 792/2016, þar sem getið er um þá meginreglu um sjálfstæði dómara í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð, en við úrlausn máls fari þeir eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra.

15. Samkvæmt framangreindu eru þær aðstæður sem hér hefur verið lýst ekki að réttu lagi til þess fallnar að draga megi í máli þessu í efa óhlutdrægni hins sérfróða meðdómsmanns. Þá hefur varnaraðili ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni hans í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

16. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.