Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2022

Ákæruvaldið (enginn)
gegn
X (Kjartan Ragnars lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Áfrýjun
  • Áfrýjunarheimild
  • Birting
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísunarúrskurður Landsréttar felldur úr gildi

Reifun

X kærði úrskurð Landsréttar þar sem áfrýjun hans á dómi héraðsdóms 11. mars 2021 þar sem hann var sakfelldur fyrir líkamsárás var vísað frá dómi á þeim grunni að X hefði fallið frá áfrýjun með bindandi hætti þegar honum var birtur dómurinn. Skipaður verjandi X var viðstaddur dómsuppsögu í héraði en ekki X sjálfur og var lögreglu falið að birta honum dóminn. Lögregla hafði í kjölfarið samband við X símleiðis 25. mars 2021 og var bókað í dagbók lögreglu sama dag að hringt hefði verið í X sem hafi kvaðst ætla að áfrýja dómnum en honum hafi verið bent á að hann þyrfti samt sem áður að undirrita og móttaka dóminn. Daginn eftir mætti X á lögreglustöð og var bókað í dagbók lögreglu að hann hefði komið og undirritað dóm sem hann kveddist ætla að una. Strikað hafði verið undir orðin „Ég uni dómi“ í texta sem færður var með stimpli á endurrit dómsins og bar með sér að X hefði undirritað ásamt lögreglumanni. X lýsti yfir áfrýjun dómsins til Landsréttar með bréfi til ríkissaksóknara 30. mars 2021. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þeirrar meginreglu að dómfelldir menn í sakamáli eigi að jafnaði kost á endurskoðun dómsúrlausnar. Hæstiréttur tók fram að réttur X til áfrýjunar dóms héraðsdóms hefði engum takmörkunum sætt að lögum öðrum en að honum hafi borið að lýsa yfir áfrýjun innan frests, sbr. 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Þá væri hvergi í lögum að finna ákvæði um að yfirlýsing sakfellds manns um að hann uni dómi teldist bindandi og yrði ekki dregin til baka með yfirlýsingu um áfrýjun fyrir lok áfrýjunarfrests eða með öðru móti. Komst Hæstiréttur því að þeirri niðurstöðu að lög hefðu ekki staðið því í vegi að X fengi lýst yfir áfrýjun málsins innan lögboðins áfrýjunarfrests og var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka mál X til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2022 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. og 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 1. apríl 2022 í máli nr. 531/2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til úrskurðar að nýju en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málið tekið til löglegrar efnismeðferðar í Landsrétti. Þá krefst hann málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir Landsrétti.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur máls þessa lýtur annars vegar að því hvort varnaraðili hafi við birtingu héraðsdóms, þar sem hann var sakfelldur fyrir líkamsárás, lýst yfir að hann hygðist ekki áfrýja dóminum til Landsréttar. Hins vegar er deilt um hvort varnaraðili hafi með slíkri yfirlýsingu afsalað sér með bindandi hætti rétti til að áfrýja dóminum innan áfrýjunarfrests. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá Landsrétti á þeim grunni að varnaraðili hefði fallið frá áfrýjun með bindandi hætti er honum var birtur dómurinn.

Málsatvik

6. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2021 var varnaraðili dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var honum gert að greiða brotaþola miskabætur með tilgreindum vöxtum og málskostnað. Varnaraðili var ekki viðstaddur dómsuppsögu og var lögreglu falið að birta honum dóminn. Skipaður verjandi varnaraðila fyrir héraðsdómi var á hinn bóginn viðstaddur dómsuppsögu og mun hann hafa tilkynnt varnaraðila samdægurs um niðurstöðu dómsins. Lögregla hafði í kjölfarið samband við varnaraðila símleiðis 25. mars 2021. Um þau samskipti var bókað með svofelldum hætti í dagbók lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu: „25.03.2021 12:52 Hringt í Ágúst sem kveðst ætla að áfrýja dómnum. Honum bent á að hann þurfi samt sem áður að undirrita og móttaka dóminn. Ætlar að koma við á næstu dögum á L4.“ Daginn eftir mætti varnaraðili á lögreglustöð og bókað var um þau samskipti í dagbók: „26.03.2021 14:57 Ágúst kom á L4 og undirritaði dóm sem hann kvaðst ætla að una.“

7. Við birtinguna var eftirfarandi texti, sem bar með sér að varnaraðili hafi undirritað ásamt lögreglumanni, færður með stimpli á endurrit dómsins: „Framanskráður dómur er birtur mér í dag. Ég hef tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og áfrýjunarfrest og verið kynnt rækilega skilyrði frestunar refsingar og afleiðingar skilorðsrofa. Ég uni dómi / tek áfrýjunarfrest.“ Strikað var undir fyrri þrjú orðin í lokamálslið þessa texta og yfir tvö síðustu orðin. Undir textann var ritað nafn varnaraðila og upphafsstafir og númer þess lögreglumanns sem annaðist birtinguna. Af hálfu ríkissaksóknara var sama endurrit dómsins áritað 27. maí 2021 um að dóminum yrði ekki áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu.

8. Með bréfi varnaraðila til ríkissaksóknara 30. mars 2021 lýsti hann yfir áfrýjun dómsins til Landsréttar. Gerði hann þær kröfur aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, til vara að því yrði vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar en að því frágengnu að hann yrði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Hann óskaði jafnframt eftir því að tilgreindur lögmaður yrði tilnefndur verjandi sinn við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Ríkissaksóknari svaraði með bréfi 14. apríl 2021 til þess lögmanns sem hafði verið verjandi varnaraðila við meðferð málsins í héraði og vísaði til þess að varnaraðili hefði við birtingu dómsins afsalað sér með bindandi hætti rétti til áfrýjunar. Áfrýjunarstefna yrði því ekki gefin út. Þessu var eindregið andmælt bréflega af hálfu varnaraðila og í kjölfar frekari bréfaskipta milli verjenda varnaraðila og ríkissaksóknara gaf sá síðastnefndi út áfrýjunarstefnu 7. júlí 2021. Var hún birt varnaraðila 9. sama mánaðar.

9. Við þingfestingu málsins 28. mars 2022 gerði sóknaraðili aðallega kröfu um frávísun málsins frá Landsrétti en til vara að staðfest yrði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu varnaraðila og refsing hans þyngd. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti kom fram ósk af hálfu varnaraðila um að hann fengi að gefa skýrslu þar fyrir dómi og að lögreglumaður sá sem annaðist birtingu yrði einnig kallaður til skýrslugjafar. Því var hafnað með vísan til þess að ekki væri gert ráð fyrir skýrslutökum við flutning um formhlið málsins. Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi um frávísunarkröfu sóknaraðila. Með hinum kærða úrskurði var því vísað frá Landsrétti á þeim grundvelli að með þeim texta sem færður var á endurrit héraðsdóms með stimpli og nafnritun varnaraðila þar undir hefði hann lýst því yfir að hann yndi niðurstöðu dómsins. Landsréttur vísaði jafnframt til þess að 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ætti við með lögjöfnun og teldist efni birtingarvottorðs því rétt þar til hið gagnstæða sannaðist. Landsréttur taldi að varnaraðili hefði engar sönnur fært fram sem hnekktu því sem fram kæmi í vottorðinu. Í samræmi við dóma Hæstaréttar 29. mars 2007 í málinu nr. 615/2006, 18. desember 2008 í málinu nr. 138/2008 og 4. júní 2015 í málinu nr. 260/2014 yrði litið svo á að varnaraðili hefði fallið frá áfrýjun dómsins með bindandi hætti og síðari yfirlýsing hans um áfrýjun væri ósamþýðanleg henni.

Málatilbúnaður aðila

10. Varnaraðili kveður að við birtingu dómsins hafi hann ekki fengið afrit birtingarvottorðs, endurrit dómsins með undirskrift sinni eða leiðbeiningar um áfrýjun dóms sem vísað er til í texta vottorðsins. Vilji hans hafi staðið til þess að áfrýja dóminum eins og fram hafi komið í símtali hans við lögreglumann degi fyrir birtingu dómsins 26. mars 2021 en sú afstaða hafi verið skráð í dagbók lögreglu. Varnaraðili hefur einkum reist kröfur sínar hér fyrir dómi á að hann hafi ekki lýst yfir við birtingu dómsins að hann myndi una honum. Hafi stimplun framangreinds texta á endurrit dómsins og undir- og yfirstrikun í þann texta komið til án hans vitundar eftir að birting hafi átt sér stað. Þá hafi synjun Landsréttar á því að taka munnlegar skýrslur þar fyrir dómi, sem hefðu getað leitt í ljós hvort vottorð um birtingu á dómi héraðsdóms hafi verið falsað, falið í sér brot á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. einkum d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

11. Varnaraðili byggir ennfremur á því að yfirlýsing hans um áfrýjun 30. mars 2021 hafi komið fram innan lögbundins frests. Lög geri eingöngu ráð fyrir því að réttinum til að áfrýja sé fyrirgert verði ekki tilkynnt um áfrýjun innan áfrýjunarfrests, sbr. 1. málslið 5. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Hvergi í lögum sé mælt fyrir um að lögregla eða aðrir sem birta dóma í sakamálum geti krafið dómfelldan mann við birtingu dóms um afstöðu til þess hvort hann hyggist áfrýja eða ekki. Jafnframt verði takmörkun á áfrýjunarrétti í sakamáli að byggjast á ótvíræðri lagaheimild, sbr. 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.

12. Eins og áður greinir hefur sóknaraðili ekki látið málið til sín taka hér fyrir dómi.

Löggjöf og réttarframkvæmd

13. Í 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að sé dómur ekki birtur ákærða á dómþingi og honum þar gerð önnur eða þyngri viðurlög en sekt eða upptaka eigna sem svarar til áfrýjunarfjárhæðar í einkamáli skuli ákærandi birta honum dóminn eftir því sem segir í 156. gr. laganna, er fjallar um birtingu ákæru. Í 2. mgr. 156. gr. kemur meðal annars fram að birting ákæru af einum lögreglumanni teljist fullgild og skuli sá sem birtingu annast votta hana með áritun á ákæru eða á sérstöku vottorði og þeim sem ákæra er birt skuli fengið afrit af henni. Þá segir í 1. mgr. 199. gr. laganna að þegar ákærði er staddur við uppkvaðningu héraðsdóms skuli dómari kynna honum rétt til áfrýjunar og frest til að lýsa henni yfir. Sé annars þörf á að birta ákærða dóm samkvæmt 3. mgr. 185. gr. skuli sá sem birtir honum dóminn kynna honum þetta og geta skuli þess í birtingarvottorði að þessa hafi verið gætt.

14. Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærði lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms með bréflegri tilkynningu sem berast verður ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf samkvæmt 3. mgr. 185. gr., en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hvaða skyni sé áfrýjað, hverjar séu dómkröfur og hvern ákærði vilji fá skipaðan verjanda fyrir Landsrétti eða hvort hann óski þess að flytja mál sitt sjálfur. Þegar tilkynning hefur borist frá ákærða innan framangreinds frests telst héraðsdómi áfrýjað af hans hálfu. Þá segir í 5. mgr. 199. gr. að hafi hvorki ákærði né ríkissaksóknari áfrýjað innan þeirra fresta sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. greinarinnar skuli litið svo á að héraðsdómi sé unað af beggja hálfu.

15. Í framangreindum dómum Hæstaréttar í máli nr. 615/2006 og 260/2014 voru atvik á sömu lund og í máli því sem hér er til meðferðar. Hin dómfelldu voru ekki viðstödd dómsuppsögu og við birtingu dóma yfir þeim síðar undirrituðu þau texta, samhljóða þeim sem færður var á endurrit dóms yfir varnaraðila. Var á sama hátt annars vegar strikað undir fyrri þrjú orðin í lokamálslið textans og hins vegar yfir tvö síðustu orðin. Jafnframt var þar að finna undirritun dómfelldu og birtingarmanna. Í fyrrnefnda málinu bar hin dómfellda því við að hún hefði enga slíka yfirlýsingu gefið en í síðara málinu hélt dómfelldi því fram að fyrir mistök hefði verið strikað undir röng orð í birtingarvottorði. Í forsendum Hæstaréttar fyrir niðurstöðum segir svo í báðum málunum: „Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem á hér við með lögjöfnun, telst efni þessa birtingarvottorðs rétt þar til það gagnstæða sannast. Ákærða hefur engar sönnur fært til að hnekkja því, sem fram kemur í vottorðinu. Verður af þessum sökum að leggja til grundvallar að hún hafi gefið þá yfirlýsingu, sem þar er greint frá, og með því afsalað sér rétti til málskots svo að bindandi sé.“ Þá segir í báðum dómunum að áfrýjun, sem síðar var lýst yfir, hafi verið þessu ósamþýðanleg. Báðum þessum málum var af þeim sökum vísað frá Hæstarétti. Í þriðja málinu, nr. 138/2008, sem vísað er til í niðurstöðu hins kærða úrskurðar, voru málavextir nokkuð á aðra lund og snerust meðal annars um gildi yfirlýsingar dómfellds manns við dómsuppsögu, að viðstöddum verjanda, um að hann yndi dómi.

16. Meginreglan er sú að dómfelldir menn í sakamáli eiga að jafnaði kost á endurskoðun dómsúrlausnar. Samkvæmt 1. mgr. 198. gr. laga nr. 88/2008 getur ákærður maður ætíð áfrýjað áfellisdómi hafi hann verið dæmdur í fangelsi ellegar til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð. Þessi réttur telst til grundvallarmannréttinda samkvæmt 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 1. mgr. 2. gr. samningsviðaukans kemur fram að sérhver sá, sem dómstóll finnur sekan um afbrot, skuli hafa rétt til að láta æðri dóm fjalla á ný um sakfellinguna eða refsinguna. Um beitingu þessa réttar skuli gilda löggjöf. Samkvæmt 2. mgr. getur réttur þessi verið háður undantekningum þegar um er að ræða minni háttar brot, eftir því sem fyrir er mælt í lögum, eða þegar fjallað var um mál viðkomandi manns á frumstigi af æðsta dómi, eða hann var sakfelldur eftir áfrýjun á sýknudómi. Þá er í 5. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem fullgiltur var af Íslands hálfu 22. ágúst 1979 kveðið á um að hver sá sem sakfelldur hefur verið fyrir glæp skuli eiga rétt á að sakfelling hans og dómur séu endurskoðuð af æðra dómi samkvæmt lögum.

17. Framangreind skipan hefur náin tengsl við rétt manna til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir dómstóli sem nýtur verndar 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hefur Mannréttindadómstóll Evrópu skýrt 2. gr. 7. samningsviðauka með þeim hætti að allar takmarkanir sem settar eru rétti til áfrýjunar sakamáls skuli, líkt og gildir um rétt manna til aðgangs að dómstólum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, stefna að lögmætu markmiði og ekki skerða kjarna réttarins. Má um það meðal annars vísa til dóms hans 25. júlí 2017 í máli nr. 2728/16, Rostovtsev gegn Úkraínu og ákvörðunar 10. apríl 2007 í máli nr. 24945/04, Jóhann Sigurður Kristjánsson og Bóas Kristinn Bóasson gegn Íslandi.

Niðurstaða

18. Eins og rakið hefur verið hér að framan getur réttur til áfrýjunar sakamáls sætt takmörkunum að lögum en auk þess verður að gera þá kröfu að slíkar takmarkanir séu skýrar og ótvíræðar, þær stefni að lögmætu markmiði og skerði ekki kjarna þess réttar. Þótt 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu standi því ekki í vegi að maður afsali sér rétti til að áfrýja sakamáli, verður ályktað af framangreindu að slíkt bindandi afsal réttinda verði að byggjast á ótvíræðum og gagnsæjum reglum og afsalið orðað með þeim hætti að ekki fari á milli mála til hvers vilji ákærða stendur.

19. Um rétt til áfrýjunar dóms í sakamáli til Landsréttar og takmarkanir á slíkum rétti er að finna ítarleg ákvæði í XXXI. kafla laga nr. 88/2008. Í ákvæðum laganna er svo sem fyrr greinir hvergi getið um að sakfelldur maður geti afsalað sér rétti til áfrýjunar með bindandi hætti og því ekki um skilyrði þess að hvernig það verði gert. Slíkt er þó sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að yfirlýsing um að falla frá rétti til áfrýjunar með óafturkræfum hætti lýtur að því að takmarka þann rétt sem 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að standa vörð um.

20. Varnaraðili hlaut eins og áður segir 30 daga fangelsisrefsingu, skilorðsbundið í tvö ár, með dómi héraðsdóms 11. mars 2021. Í ljósi alls þess sem að framan hefur verið rakið sætti réttur varnaraðila til áfrýjunar dómsins til Landsréttar engum takmörkunum að lögum öðrum en að honum bar að lýsa yfir áfrýjun innan framangreinds fjögurra vikna frests frá birtingu dóms. Þá er samkvæmt framansögðu hvergi í lögum að finna ákvæði um að yfirlýsing dómfellds manns um að hann uni dómi teljist bindandi og verði ekki dregin til baka með yfirlýsingu um áfrýjun fyrir lok áfrýjunarfrests eða með öðru móti.

21. Stóðu lög því ekki í vegi að varnaraðili fengi lýst yfir áfrýjun málsins innan lögboðins áfrýjunarfrests líkt og hann gerði í framangreindri tilkynningu sinni til ríkissaksóknara 30. mars 2021.

22. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka mál varnaraðila til efnismeðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.