Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Ragnar Halldór Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Endurupptökudómur
  • Réttlát málsmeðferð
  • Milliliðalaus sönnunarfærsla
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 31. október 2013 í máli nr. 135/2013 hafði X verið sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Endurupptökudómur féllst á beiðni X um endurupptöku málsins. Í dómi Hæstaréttar var rakið að munnleg sönnunarfærsla gæti ekki farið fram fyrir réttinum eftir gildistöku laga nr. 47/2020. Endurupptökudómi hefði því að réttu lagi borið, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 til að ákveða að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Jafnframt hefði Endurupptökudómi borið að gæta að þessu af sjálfsdáðum. Þá vísaði rétturinn til þess að í því ljósi að málið hefði verið endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða X og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Réttinum væri ókleift að bæta úr þessu og hefði hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda þjónaði meðferð þess fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Ása Ólafsdóttir og Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar.

2. Með úrskurði Endurupptökudóms 30. desember 2021 í máli nr. 26/2021 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 135/2013 sem dæmt var 31. október 2013. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 12. janúar 2022 sem birt var ákærða 18. sama mánaðar.

3. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

4. Ákærði krefst þess aðallega að málið verði fellt niður en til vara að því verði vísað frá Hæstarétti.

5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 21. september 2022 um formhlið þess.

Málsatvik

6. Með ákæru sérstaks saksóknara 25. júní 2010 voru Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs sparisjóðs, og Ragnari Zophoníasi Guðjónssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra sama sjóðs, gefin að sök umboðssvik. Þau voru meðal annars talin felast í því að þeir hefðu í október 2008 misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í stórfellda hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga er þeir í sameiningu veittu Tæknisetrinu Arkea ehf., sem síðar fékk nafnið Exeter Holdings ehf., yfirdráttarlán að fjárhæð 800 milljónir króna til að fjármagna að fullu kaup á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum sjálfum. Lánið hefði verið veitt án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu þess en það hefði brotið í bága við starfsreglur sjóðsins, auk þess sem ekki hefði á nokkurn hátt verið metin greiðslugeta og eignastaða lánþegans í samræmi við útlánareglur sjóðsins. Í ákærunni var tekið fram að stofnfjárbréfin í sparisjóðnum hefðu meðal annars verið í eigu Jóns Þorsteins og Húnahorns ehf. sem var að hluta í eigu Ragnars Zophoníasar. Því hefðu þeir verið vanhæfir til að taka ákvörðun um lánveitinguna. Þá sagði í ákærunni að MP banki hf., sem lánað hafði Jóni Þorsteini og Ragnari Zophoníasi og tilteknum öðrum starfsmönnum sparisjóðsins vegna kaupa þeirra á bréfunum, hefði hótað að gjaldfella lánin og ganga að stofnfjárbréfunum þar sem tryggingar væru ekki nægar. Þessi háttsemi var talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

7. Ákærða var í sama máli gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar en ákærði var á þessum tíma framkvæmdastjóri MP banka hf. Því broti var lýst þannig að ákærði hefði ásamt Jóni Þorsteini og Ragnari Zophoníasi lagt á ráðin um að fjármunirnir yrðu greiddir úr Byr sparisjóði til að fjármagna kaupin á stofnfjárbréfunum með þeim hætti sem nánar var lýst í ákærunni. Með þessu hefði tjónsáhættu MP banka hf. vegna lánanna verið komið yfir á sparisjóðinn en ákærða hefði ekki getað dulist, í ljósi aðdraganda viðskiptanna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs með ólögmætum hætti. Ákærða var einnig gefið að sök peningaþvætti með því að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka hf. tekið við fjármunum, sem aflað hefði verið með umboðssvikum Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar, þótt ákærða hefði mátt vera ljóst, í ljósi allra aðstæðna, að lán það sem þeir útveguðu frá Byr sparisjóði til viðskiptanna hefði verið veitt með ólögmætum hætti. Þessi háttsemi ákærða var talin varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 264. gr. sömu laga.

8. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2011 voru Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías sýknaðir af fyrrgreindum umboðssvikum með þeim rökum að lánveitingin hefði verið innan heimildar þess síðarnefnda eftir lánareglum Byrs sparisjóðs og hefði lánveiting sem þessi áður tíðkast hjá sjóðnum. Þá taldi héraðsdómur að við mat á veðhæfni stofnfjárbréfanna yrðu þau ekki lögð að jöfnu við óskráð hlutabréf heldur hefðu starfsmenn sjóðsins haft nægar upplýsingar til að meta verðmæti þeirra sérstaklega. Vísaði dómurinn til þess að eiginfjárstaða sparisjóðsins hefði samkvæmt efnahagsreikningi í september 2008 verið jákvæð um rúma 48 milljarða króna eftir að hafa rýrnað um 16,1% frá áramótum en aukist á ný um þrjá milljarða króna frá 30. júní 2008. Einnig þótti leika verulegur vafi á því hvort stofnfjárbréfin hefðu verið ófullnægjandi trygging fyrir láninu á þeim tíma sem það var veitt. Að fenginni þessari niðurstöðu taldi héraðsdómur leiða af sjálfu sér að sýkna bæri ákærða af sakargiftum.

9. Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 voru Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías á hinn bóginn sakfelldir fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningalaga og báðum gert að sæta fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Var sú niðurstaða meðal annars reist á því að hvorugur þeirra hefði gætt að því að lánið hefði verið veitt án þess að áður hefði verið könnuð greiðslugeta og eignastaða lántakanda. Hvorki var talið að gögn málsins stæðu til þess að heimilt hefði verið að leggja verðmæti stofnfjárbréfanna og veðhæfni að jöfnu við skráð hlutabréf á markaði né að ætluð eiginfjárstaða sparisjóðsins hefði átt að hafa þá þýðingu sem héraðsdómur lagði til grundvallar. Ekki var heldur fallist á að við mat á refsinæmi verknaðarins ætti að líta til formlegs umboðs Ragnars Zophoníasar til að skuldbinda sparisjóðinn eða að samþykki stjórnar hans fyrir lánveitingunni gegn lánareglum leiddi til þess að Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías gætu ekki hafa farið út fyrir umboð sitt gagnvart sjóðnum í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá voru gögn málsins ekki talin einhlít um fyrri lánveitingar vegna viðskipta með stofnfjárbréf í sjóðnum. Með aðgerðum sínum voru Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías taldir hafa komið málum þannig fyrir að áhættu af tjóni vegna stofnfjárbréfanna var velt yfir á Byr sparisjóð án þess að kanna sérstaklega stöðu lántakanda og án viðhlítandi upplýsinga um raunverulegt verðgildi bréfanna sem hefðu ein staðið til tryggingar láninu. Auk alls þessa hefðu Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías verið vanhæfir samkvæmt reglum sjóðsins til að taka ákvörðun um lánveitinguna.

10. Eins og áður greinir hafði ákærði verið sýknaður í héraði með þeim rökum einum að Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías hefðu ekki framið það brot sem ákærða var gefin að sök hlutdeild í. Í dómi Hæstaréttar í umræddu máli nr. 442/2011 var vísað til þess að héraðsdómur hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort og þá eftir atvikum með hvaða hætti meta þyrfti framburð fyrir dómi um ætluð brot ákærða. Að gættum ákvæðum 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og með hliðsjón af 2. mgr. 169. gr., sbr. 210. gr. laganna, eins og þau hljóðuðu á þessum tíma, var héraðsdómur ómerktur hvað ákærða varðaði og málinu vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar.

11. Málið var aftur dæmt í héraði 31. janúar 2013 og ákærði á ný sýknaður af sakargiftum. Í niðurstöðu dómsins sagði meðal annars að alkunna hefði verið haustið 2008 að mikill lausafjárskortur hefði hrjáð stóru íslensku bankanna og orðið til þess að þeir féllu. Ákærða og vitnum hefði borið saman um að lausafjárstaða Byrs sparisjóðs hefði verið góð og fengi það stoð í gögnum málsins. Óhjákvæmilegt væri að hafa þetta í huga þegar metin væri sú ákvörðun ákærða að leita eftir fjármögnun hjá Byr sparisjóði til kaupa á stofnfjárbréfum í sjóðnum. Það væri hins vegar augljóst mál að lánveitandi bæri ákveðna áhættu af því að lána fé og með því að sparisjóðurinn lánaði fyrir bréfunum í stað MP banka hf. hefði sú áhætta færst til sjóðsins. Vísaði dómurinn til þess að ákærði hefði staðfastlega neitað vitneskju um hvernig staðið hefði verið að málum við lánveitinguna hjá Byr sparisjóði. Var sú frásögn hans talin trúverðug og fengi stoð í framburði vitna. Þá tók héraðsdómur fram að ákærði hefði kannast við að hafa lagt til að sölugengi stofnfjárbréfanna miðaðist við að bankinn fengi lán sitt greitt. Í ljósi stöðu ákærða hjá bankanum hefði ekki verið óeðlilegt að gæta hagsmuna hans við samningsgerðina. Ákærði hefði aftur á móti ekki verið í stöðu til að ákveða hvernig staðið yrði að lánveitingunni af hálfu sparisjóðsins. Taldi dómurinn að ekki hefði verið sýnt fram á að ákærða hefði ekki getað dulist hvernig Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías stóðu með ólögmætum hætti að lánveitingunni. Samkvæmt þessu var talið ósannað að ákærði hefði gerst sekur um hlutdeild í umboðssvikum eða að hafa framið peningaþvætti.

12. Með dómi Hæstaréttar 31. október 2013 í máli nr. 135/2013 var ákærði aftur á móti sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar og gert að sæta fangelsi í eitt ár. Hæstiréttur taldi ekkert því til fyrirstöðu að litið yrði til sönnunargagna málsins við úrlausn þess að því leyti sem þau vörðuðu annað en hvernig staðið var að lánveitingunni af hálfu Byrs sparisjóðs. Eins og áður greinir hafði frásögn ákærða þar að lútandi verið metin trúverðug af héraðsdómi og kom hún ekki til endurmats fyrir Hæstarétti. Með vísan til þess sem fram hefði komið í málinu þótti liggja fyrir að kaupverðið, sem ákærði gerði tillögu um og var lagt til grundvallar í viðskiptunum, hefði ekki tekið mið af raunverulegu verðgildi bréfanna á þessum tíma. Jafnframt var ákærði ekki talin hafa haft ástæðu til að ætla að sparisjóðurinn myndi krefjast frekari trygginga fyrir láninu en handveðs í stofnfjárbréfunum. Einnig var talið að ákærða hefði verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu lántakanda og kaupanda bréfanna. Samkvæmt þessu hefði ákærði ekki síður en Jón Þorsteinn og Ragnar Zophonías tekið þátt í því að leggja á ráðin um hvernig staðið skyldi að lánveitingunni frá Byr sparisjóði til að fjármagna kaup á bréfunum. Með þeim viðskiptum hefði málum verið komið þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna bréfanna, sem áður hafði hvílt á MP banka hf. þar sem ákærði var framkvæmdastjóri, verið velt yfir á sparisjóðinn. Að virtri þeirri vitneskju sem ákærði bjó yfir, menntun hans og þekkingu á starfsemi lánastofnana var talið að honum hefði ekki getað dulist að lánveiting Byrs sparisjóðs vegna kaupa á bréfunum hefði verið ólögmæt og til þess fallin að valda sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu, enda væri féð sem lánað var glatað sparisjóðnum. Með þessu hefði ákærði gerst sekur um hlutdeild í umboðssvikum Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar. Brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga var á hinn bóginn talið tæma sök gagnvart peningaþvætti samkvæmt 264. gr. laganna, eins og það ákvæði hljóðaði þegar ákærði framdi brotið.

Endurupptaka málsins

13. Ákærði vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem í dómi 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14 komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta helgaðist af því að málsmeðferðin hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi.

14. Með bréfi 16. júní 2021 fór ákærði þess á leit við Endurupptökudóm að mál hans yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti. Til stuðnings beiðninni var vísað til þess að nefndur dómur Mannréttindadómstólsins teldist „ný gögn eða upplýsingar“ í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Einnig var því haldið fram að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins fyrir Hæstarétti þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Eins og áður greinir tók Endurupptökudómur beiðnina til greina með úrskurði 30. desember 2021 og var sú niðurstaða reist á 1. mgr. 232. gr., sbr. d-lið. 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 47/2020. Fyrir þessari niðurstöðu voru færð eftirfarandi rök í liðum 19 til 24 í úrskurðinum:

19. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að brot gegn reglunni um milliliðalausa málsmeðferð feli í sér verulegan galla á meðferð sakamáls í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Endurupptökudómur telur rétt að líta til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu við mat á því hvort telja megi að verulegur galli hafi verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti svo efni séu til að verða við beiðni hans um endurupptöku málsins.
20. Eins og fyrr hefur verið rakið var það niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli endurupptökubeiðanda að brotið hefði verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og þar með gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Var vísað til þess að endurupptökubeiðandi myndi eiga kost á að óska eftir endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. 135/2013.
21. Tók dómstóllinn meðal annars fram í niðurstöðu sinni að þegar Hæstiréttur hefði komist að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðanda „hafi ekki getað dulist“ að lánið hefði verið veitt með ólögmætum hætti hefði rétturinn beitt rýmri aðferð en héraðsdómur til þess hvaða þættir skiptu máli fyrir matið út frá lagalegu sjónarhorni. Hefði aðferð Hæstaréttar óhjákvæmilega haft í för með sér að rétturinn hefði orðið að leggja nýtt og víðtækara mat á staðreyndir málsins. Ráða mætti af dómi réttarins að hann hefði byggt þetta nýja mat á gögnum málsins, þar með talið endurritum af framburði endurupptökubeiðanda og vitna fyrir héraðsdómi, umfram það sem fram hefði komið í dómi héraðsdóms.
22. Þá tók dómstóllinn fram að framangreint mat á því hvað endurupptökubeiðanda hefði ekki getað dulist, út frá þeirri vitneskju sem hann bjó yfir á þessum tíma, því sem hann gat ráðið í og bjó yfir hæfni til að skilja, að lánveitingin væri ólögmæt, hefði falið í sér huglæga þætti þar sem skynjun og viðhorf endurupptökubeiðanda, og þeirra sem beina aðkomu hefðu átt að málinu, og þar með framburður þeirra, hefði haft vægi.
23. Að lokum tók dómstóllinn fram í niðurstöðu sinni að þegar litið væri til málsmeðferðarinnar í heild fyrir hinum íslensku dómstólum, til hlutverks Hæstaréttar á þeim tíma sem um ræddi og til eðlis þeirra álitaefna sem dæma átti um að engum sérstökum atriðum hefði verið til að dreifa í málinu er réttlættu að Hæstiréttur léti undir höfuð leggjast að kalla til endurupptökubeiðanda og vitni, sem máli skiptu, til þess að hlýða milliliðalaust á framburð þeirra áður en dómur yrði kveðinn upp.
24. Í ljósi alls framangreinds verður hér lagt til grundvallar að verulegur galli hafi verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti í máli nr. 135/2013. Með vísan til þeirrar meginreglu sakamálaréttarfars að sönnunarbyrði um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu og að allan vafa um sök hans beri að meta honum í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, verður jafnframt lagt til grundvallar að þessir gallar hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Samkvæmt því verður fallist á beiðni endurupptökubeiðanda um að mál hans verði endurupptekið fyrir Hæstarétti á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Málsmeðferð fyrir Hæstarétti

15. Eins og áður greinir var ákærða birt fyrirkall 18. janúar 2022 vegna endurupptöku málsins. Fyrirkallið barst Hæstarétti 27. sama mánaðar og þann dag var ákærða skipaður verjandi. Málsgögn voru afhent Hæstarétti 5. júlí sama ár og í kjölfarið var frestur til að skila greinargerð ákveðinn 17. ágúst það ár fyrir ákæruvaldið og 31. sama mánaðar fyrir ákærða.

16. Ákæruvaldið lagði ekki fram greinargerð á tilsettum tíma. Aftur á móti barst réttinum greinargerð ákærða 18. ágúst 2022 og laut hún aðeins að formhlið málsins með fyrrgreindum kröfum hans. Réttinum barst tölvubréf ákæruvaldsins degi síðar þar sem þessum kröfum ákærða var mótmælt. Einnig var tekið fram að mistök við dagbókarfærslu hefðu valdið því að greinargerð ákæruvaldsins var ekki skilað á réttum tíma og var óskað eftir viðbótarfresti til að skila greinargerð til 7. september 2022. Þeirri beiðni var hafnað með tölvubréfi réttarins 22. ágúst og degi síðar lagði ákæruvaldið fram greinargerð. Við svo búið tók rétturinn fyrrgreinda ákvörðun um að málið yrði flutt um formhlið þess.

Niðurstaða

Aðalkrafa um að málið verði fellt niður

17. Þegar Endurupptökudómur hefur fallist á kröfu um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti, annaðhvort að öllu leyti eða hluta, skal upp frá því fara með það eftir almennum reglum XXXIII. kafla laga nr. 88/2008, eftir því sem við á, eins og áfrýjunarstefna hefði verið gefin út á þeim tíma þegar endurupptaka var ráðin, sbr. 4. mgr. 232. laganna. Í samræmi við 219. gr. þeirra skal ríkissaksóknari þegar áfrýjun er ráðin afla dómsgerða, búa til málsgögn í samráði við verjanda ákærða og afhenda þau Hæstarétti ásamt dómsgerðum. Í 1. mgr. 220. gr. laganna segir síðan að þegar málsgögn hafi verið afhent skuli Hæstiréttur veita þeim aðila sem áfrýjað hefur tiltekinn frest til að skila greinargerð og gögnum sem hann kann enn að telja vanta og hann hyggst byggja mál sitt á. Þegar greinargerð og gögn hafa borist skal gagnaðila svo veittur frestur til að skila greinargerð og gögnum af sinni hálfu.

18. Í lögum nr. 88/2008 er ekki mælt fyrir um hvaða afleiðingar það hefur ef sá sem áfrýjað hefur dómi lætur hjá líða að skila greinargerð innan tilskilins frests. Hæstiréttur hefur lagt til grundvallar að þessa stöðu megi leggja að jöfnu við að útivist verði af hálfu ákæruvaldsins í þinghaldi í máli, sbr. dóma réttarins 8. maí 2008 í máli nr. 644/2007 og 13. október 2016 í máli nr. 207/2015. Samkvæmt 160. gr. laga nr. 88/2008 skal dómari, ef útivist verður af hálfu ákæruvaldsins, ákveða nýtt þinghald og tilkynna ákæranda um það. Verði heldur ekki sótt þing af hálfu ákæruvaldsins í það sinn skal mál fellt niður. Við beitingu þessarar reglu, þegar ákæruvaldið hefur ekki skilað greinargerð til Hæstaréttar innan tilskilins frests, verður í samræmi við nefnda dóma réttarins að setja það skilyrði að ekki hafi orðið ítrekuð eða óréttlætt vanræksla af hálfu ákæruvaldsins um skil á greinargerð.

19. Af hálfu ákæruvaldsins hefur í málinu ekki orðið ítrekuð vanræksla á því að skila greinargerð og kemur því aðeins til skoðunar hvort hún hafi verið óréttlætt. Eins og áður greinir skilaði ákæruvaldið ekki greinargerð á tilsettum tíma 17. ágúst 2022 en degi síðar óskaði það eftir viðbótarfresti í því skyni. Þegar þeirri beiðni var hafnað 22. þess mánaðar skilaði ákæruvaldið greinargerð sinni degi síðar eða sex dögum eftir að frestur rann út. Ákæruvaldið hefur gefið þá skýringu á þessu að mistök hafði orðið við færslu í dagbók og verður hún talin réttlæta þann skamma drátt sem varð á þessu þar sem ákæruvaldið brást skjótt við eftir að mistökin komu í ljós. Aðstæður í máli þessu eru því ekkert í líkingu við þær sem um ræðir í fyrrnefndu máli réttarins nr. 207/2015 og leiddu til niðurfellingar þess.

20. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um niðurfellingu málsins.

Varakrafa um að málinu verði vísað frá Hæstarétti

21. Að frumkvæði Hæstaréttar var við munnlegan flutning málsins um formhlið þess reifað af hálfu sakflytjenda hvort réttinum væri kleift að bæta úr þeim annmörkum á fyrri meðferð málsins sem ollu því að málið var endurupptekið.

22. Með lögum nr. 50/2016 um dómstóla var gerð sú breyting á dómstólaskipan landsins að stofnað var millidómstig með því að Landsrétti var komið á fót. Tilgangurinn með því var einkum að koma við endurskoðun á áfrýjunarstigi á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi í sakamálum í samræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. Eftir þá breytingu, sem kom til framkvæmda við gildistöku laganna 1. janúar 2018, er Hæstiréttur þriðja dómstigið og dæmir fyrst og fremst í fordæmisgefandi málum að fengnu leyfi réttarins til málskots. Í samræmi við þetta var frá sama tíma með l-lið 68. gr. laga nr. 49/2016 felld brott heimild í 3. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 fyrir Hæstarétt til að ákveða að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir réttinum. Um þessa breytingu sagði í greinargerð með frumvarpi til laganna að vegna tilkomu Landsréttar væri ekki gert ráð fyrir að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir Hæstarétti.

23. Endurupptökudómur var stofnaður með lögum nr. 47/2020 sem tóku gildi 1. desember 2020. Hann tók við hlutverki endurupptökunefndar sem starfaði samkvæmt IX. kafla laga nr. 50/2016, eins og þau hljóðuðu fyrir setningu fyrrgreindu laganna. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 er Endurupptökudómur sérdómstóll sem sker úr um hvort heimila skal endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Af 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 leiðir að mál sem er endurupptekið í Landsrétti eða Hæstarétti kemur í kjölfarið til meðferðar á sama dómstigi. Þó segir í síðari málslið þeirrar málsgreinar að Endurupptökudómur geti ákveðið að sömu skilyrðum uppfylltum að máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Í skýringum við umrætt ákvæði í frumvarpi til laganna sagði að þetta ætti við þegar ljóst væri „að efna þyrfti til munnlegrar sönnunarfærslu fyrir dómi svo unnt yrði að fella dóm á málið að nýju, en með þessu móti yrði það tekið fyrir af áfrýjunardómstóli sem hefði það umfram Hæstarétt að geta tekið sjálfur skýrslur af ákærða og vitnum og þar með leyst úr málinu á nýjan leik á grundvelli milliliðalausrar sönnunarfærslu.“ Einnig var tekið fram að dómur Landsréttar yrði þó ekki endanlegur því að skjóta mætti honum til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi. Loks sagði að sjálfgefið væri að um meðferð mála, sem dæmd hefðu verið fyrir Hæstarétti og tekin yrðu þar upp að nýju, skyldi fara eftir XXXIII. kafla laga nr. 88/2008.

24. Að því gættu að með lögum nr. 49/2016 var felld úr gildi heimild fyrir Hæstarétt til að ákveða að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir réttinum og þegar litið er til þess að með lögum nr. 47/2020 var lögfest heimild fyrir Endurupptökudóm til að ákveða að máli sem dæmt hefði verið í Hæstarétti yrði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti verður því slegið föstu að Hæstarétt skortir að gildandi lögum heimild til að láta slíka sönnunarfærslu fara fram fyrir réttinum. Verður þetta einnig ráðið af fyrrgreindum lögskýringargögnum þar sem beinlínis kemur fram að slík heimild sé ekki fyrir hendi. Jafnframt hefur um langa hríð verið í lögum mælt fyrir um munnlega sönnunarfærslu fyrir dómi og er það í samræmi við 59. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem segir að skipan dómsvaldsins skuli ákveðin með lögum. Tekur það ekki aðeins til þess að stofnunum þessum sé komið á fót með lögum heldur einnig að þar sé mælt fyrir um málsmeðferðina.

25. Við úrlausn þessa máls hefur ekki þýðingu þótt munnleg sönnunarfærsla hafi farið fram fyrir réttinum í málum nr. 34/2019 og 35/2019, sem lauk með dómum 12. mars 2021, og máli nr. 35/2020 sem lauk með dómi 22. júní 2022. Þar var um að ræða mál þar sem endurupptökunefnd hafði fallist á beiðni um endurupptöku fyrir Hæstarétti en á þeim tíma, fyrir setningu laga nr. 47/2020, var ekki fyrir hendi heimild í lögum til að mál sem dæmt hafði verið í Hæstarétti yrði í kjölfar endurupptöku tekið til meðferðar í Landsrétti. Jafnframt var í þessum málum um að ræða munnlega sönnunarfærslu sakborningum til hagsbóta sem ekki sætti andmælum ákæruvaldsins og var hún í samræmi við grundvallarregluna um réttláta málsmeðferð fyrir dómi að því gættu að önnur úrræði voru ekki tiltæk við meðferð þeirra mála.

26. Samkvæmt framansögðu getur munnleg sönnunarfærsla ekki farið fram fyrir réttinum eftir gildistöku laga nr. 47/2020. Bar Endurupptökudómi því að réttu lagi, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 til að ákveða að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Jafnframt bar Endurupptökudómi að gæta að þessu af sjálfsdáðum enda veltur úrlausn um þetta atriði á þeim grundvelli sem dómurinn markar endurupptökunni og mati á því hvaða meðferð málið þyrfti að sæta í kjölfar hennar. Af þeirri ástæðu getur þetta ekki oltið á því hvort höfð sé uppi krafa um þetta fyrir dóminum eins og hreyft var af hálfu ákærða við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti.

27. Í því ljósi að málið var endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu verður ekki úr því bætt nema með því að leiða ákærða og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Eins og hér hefur verið rakið er réttinum ókleift að bæta úr þessu og hefur hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því er óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda þjónar meðferð þess fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi. Af þessu leiðir að héraðsdómur 31. janúar 2013 um sýknu ákærða stendur óhaggaður.

28. Eftir þessum málsúrslitum greiðist sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 135/2013, samtals 1.909.094 krónur, að öllu leyti úr ríkissjóði.

29. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, samtals 1.909.094 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Ragnars Halldórs Hall, lögmanns, 1.255.000 krónur.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ragnars Halldórs Hall lögmanns, 744.000 krónur.