Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2021

A (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
gegn
Persónuvernd (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Persónuvernd
  • Aðild
  • Stjórnsýsla
  • Frávísunardómur staðfestur

Reifun

A kvartaði til P vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, B ses., í tengslum við uppsögn hans úr starfi. Með úrskurði P var ekki fallist á að B ses. hefði verið skylt að veita A upplýsingar um uppruna skráðra persónuupplýsinga um hann. Mál þetta höfðaði A gegn P og krafðist þess að fyrrnefndur úrskurður yrði ógiltur. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur A. Í Landsrétti var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kröfu um ógildingu úrskurðarins hefði réttilega verið beint að P. Þá var vísað til þess að upphafleg kvörtun A hefði beinst að B ses. og þess meðal annars krafist að honum yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem óumdeilt væri að voru í vörslum þess. B ses. hefði jafnframt átt aðild að málinu við meðferð þess hjá P og byggt á því að þær upplýsingar sem um ræddu væru mjög viðkvæms eðlis og að mikilvægt væri að virtur yrði sá trúnaður sem heitið hefði verið af hálfu þess gagnvart þeim einstaklingum sem veittu þær. Var því talið að B ses. ætti einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um kröfu A. Þar sem A beindi kröfu sinni ekki að B ses. var fallist á niðurstöðu Landsréttar um að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 8. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 19. nóvember 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

3. Varnaraðili krefst þess að kærumálskostnaður falli niður.

4. Sóknaraðili kvartaði til varnaraðila 2. mars 2018 vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, B ses., í tengslum við uppsögn hans úr starfi. Mun uppsögnin hafa verið byggð á upplýsingum um ásakanir sem leikhússtjóra höfðu borist um kynferðislega áreitni sóknaraðila. Honum voru þó ekki kynntar nánar þær ásakanir, sem munu hafa legið fyrir í vinnuskjali leikhússtjóra, eða hverjir hefðu lagt þær fram, sbr. dóm Hæstaréttar 23. september 2021 í máli nr. 15/2021. Sóknaraðili krafðist þess að varnaraðili beitti valdheimildum sínum til að krefja B ses. um allar upplýsingar og skriflegar skýringar sem nauðsynlegar væru til skoðunar málsins, að hann tæki afstöðu til þess hvaða upplýsingar sóknaraðili ætti rétt á að fá og hvort leikfélagið hefði brotið gegn ákvæðum þágildandi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

5. Varnaraðili tilkynnti B ses. um kvörtunina 26. mars 2018 og veitti því færi á að tjá sig um hana og óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig gætt hefði verið að ákvæðum 18. gr. og eftir atvikum 19. gr. laga nr. 77/2000. Í svarbréfi leikfélagsins 17. apríl sama ár sagði að fyrrgreindar upplýsingar hefðu verið veittar af hálfu þeirra sem kvörtuðu undan sóknaraðila undir nafnleynd og því væri ekki unnt að verða við kröfu hans um að veita þær. Jafnframt áréttaði leikfélagið að það ætti rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með sama hætti og sóknaraðili við meðferð málsins hjá varnaraðila gæfist ástæða til. Bréfið var kynnt sóknaraðila 11. maí 2018 og honum boðið að koma á framfæri andmælum og athugasemdum. Svar sóknaraðila 4. júní sama ár var sent B ses. 27. þess mánaðar. Af því tilefni sendi leikfélagið varnaraðila bréf 30. júlí 2018 og bárust athugasemdir sóknaraðila við það 1. ágúst sama ár.

6. Lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi 15. júlí 2018 og samhliða féllu lög nr. 77/2000 úr gildi.

7. Í bréfi varnaraðila 29. ágúst 2018 til B ses. var óskað eftir upplýsingum um allar skráðar persónuupplýsingar um sóknaraðila hjá leikfélaginu, þar með talið vinnuskjal leikhússtjóra. Í kjölfarið fóru fulltrúar varnaraðila í húsnæði leikfélagsins til að skoða þær persónuupplýsingar um sóknaraðila sem þar væru skráðar.

8. Með úrskurði varnaraðila 15. október 2018 var ekki fallist á að leikfélaginu hefði verið skylt að veita sóknaraðila upplýsingar um uppruna skráðra persónuupplýsinga um hann. Var lagt til grundvallar að skilyrðum 8. gr. laga nr. 90/2018 hefði verið fullnægt við vinnslu upplýsinganna. Í úrskurðinum kom fram að B ses. hefði þegar rækt skyldu sína gagnvart sóknaraðila samkvæmt 17. gr. laga nr. 90/2018, sbr. og 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 77/2000 og veitt honum fullnægjandi upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga um hann samkvæmt fyrrgreindum lögum.

9. Héraðsdómur féllst á kröfu sóknaraðila um ógildingu á fyrrgreindum úrskurði varnaraðila. Með dómi Landsréttar var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að óhjákvæmilegt hefði verið að beina kröfu um ógildingu úrskurðarins einnig B ses. sem hefði átt aðild að stjórnsýslumálinu. Þar sagði að leikfélagið ætti einstaklegra, beinna, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þeirrar kröfu. Þar sem þess hefði ekki verið gætt var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu.

Niðurstaða

10. Varnaraðili er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn, sbr. 38. gr. laga nr. 90/2018. Í 39. gr. laganna segir meðal annars að stofnunin annist eftirlit með framkvæmd laganna og geti fjallað um einstök mál að eigin frumkvæði eða samkvæmt erindi þess sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar um sig í samræmi við lögin og reglur sem settar eru samkvæmt þeim eða einstökum fyrirmælum. Að auki fer varnaraðili með tilteknar valdheimildir við eftirlitsstörf sín, sbr. 41. gr. og getur lagt á sektir samkvæmt 46. og 47. gr. laganna.

11. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2018 segir að ákvörðunum varnaraðila samkvæmt lögunum verði ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilum máls sé heimilt að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Í lögunum er ekki að finna nánari fyrirmæli um hvernig aðild að slíku máli skal háttað. Í lögum nr. 91/1991 er heldur ekki að finna sérstök ákvæði um aðild til varnar í málum þegar krafa er gerð um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Hefur sú óskráða regla mótast í réttarframkvæmd að stefna beri því stjórnvaldi sem er í senn aðildarhæft og bært til að taka þá ákvörðun sem ógildingar er krafist á nema annað leiði af lögum eða venju, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 30. mars 2000 í máli nr. 324/1999 og 29. júlí 2011 í máli nr. 370/2011. Undantekningar frá þeirri dómaframkvæmd eiga ekki við í þessu máli.

12. Samkvæmt framansögðu er varnaraðili sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn. Hafa henni verið fengnar með lögum eftirlitsheimildir og vald til þess að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga og lögaðila. Varnaraðili telst því hafa aðildarhæfi og uppfyllir jafnframt óskráðar reglur réttarfars til að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta til að vera varnaraðili í dómsmáli um ákvarðanir sínar og standa skil gerða sinna við meðferð opinberra valdheimilda, sbr. 60. og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt framansögðu var kröfu um ógildingu úrskurðarins réttilega beint að varnaraðila.

13. Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður að leysa úr því hvort sóknaraðila hafi jafnframt verið skylt að stefna B ses. í þessu máli til að þola dóm um ógildingu úrskurðar varnaraðila.

14. Almennt hefur verið talið að þegar mál er höfðað til ógildingar úrlausnar stjórnvalds verði þeir allir að eiga aðild fyrir dómi sem voru aðilar að stjórnsýslumálinu enda hafi þeir einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002 og 17. febrúar 2003 í máli nr. 568/2002.

15. Eins og fram hefur komið beindist upphafleg kvörtun sóknaraðila að B ses. og var þess meðal annars krafist að sóknaraðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem óumdeilt er að voru í vörslum þess enda mun leikfélagið vera ábyrgðaraðili í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 90/2018. Gögn málsins bera jafnframt með sér að leikfélagið átti aðild að málinu við meðferð þess hjá varnaraðila.

16. B ses. byggði á því við meðferð málsins hjá varnaraðila að þær upplýsingar sem vinnuskjal leikhússtjóra hefði að geyma væru mjög viðkvæms eðlis og að mikilvægt væri að virtur yrði sá trúnaður sem heitið hefði verið af hálfu þess gagnvart þeim einstaklingum sem veittu upplýsingarnar. Í því ljósi og að virtum gögnum málsins verður að telja að B ses. eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um kröfu sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili beindi kröfu sinni ekki að B ses. verður fallist á þá niðurstöðu hins kærða dóms að vísa beri málinu frá héraðsdómi án kröfu.

17. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði dómur staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.