Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2021

105 Miðborg slhf. (Ásgeir Þór Árnason lögmaður og Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)
gegn
Íslenskum aðalverktökum hf. (Viðar Lúðvíksson lögmaður) og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar sem felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns gegn andmælum varnaraðila. Um kæruheimild vísaði sóknaraðili til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt nefndu ákvæði væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefði verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti, eða niðurfellingu þess þar að hluta eða öllu leyti. Með því að úrskurður Landsréttar hefði hvorki falið í sér frávísun málsins né niðurfellingu þess, brysti heimild til kærunnar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 14. desember 2021 í máli nr. 702/2021 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að felldur yrði úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember sama ár. Með honum var fallist á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns gegn andmælum varnaraðila.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður Landsréttar verði, með eða án heimvísunar að hluta eða að öllu leyti, felldur úr gildi og að staðfestur verði úrskurður héraðsdóms. Þá krefst hann þess að varnaraðilum verði hvorum um sig gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum. Til vara krefst sóknaraðili þess, verði úrskurður Landsréttar efnislega staðfestur, að ákvörðun um málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Landsrétti verði felld úr gildi og málskostnaður felldur niður eða lækkaður.

4. Varnaraðilar gera aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Til þrautavara krefjast þeir þess að matsmaður verði einungis dómkvaddur til þess að svara tilteknum spurningum í matsbeiðni. Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

5. Málið lýtur að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómur féllst á beiðnina. Með hinum kærða úrskurði felldi Landsréttur úrskurð héraðsdóms úr gildi með vísan til þess að meginregla einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð stæði dómkvaðningu í vegi.

6. Sóknaraðili hefur um kæruheimild vísað til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um að heimilt sé að kæra til Hæstaréttar dómsathafnir Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu þess að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti.

7. Með hinum kærða úrskurði felldi Landsréttur úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns sem laut að því að afla matsgerðar einkum til að renna stoðum undir kröfugerð sóknaraðila í gagnsök í almennu einkamáli milli aðila matsmálsins. Einkamálið var höfðað áður en matsbeiðnin var send héraðsdómi en gagnsök var þingfest degi eftir að beiðnin barst héraðsdómi. Þegar úrskurður um dómkvaðningu var kveðinn upp hafði einkamálinu verið úthlutað til annars dómara en þess sem hafði matsbeiðnina til meðferðar en dómari einkamálsins hafði þá ekki tekið málið fyrir.

8. Hinn kærði úrskurður Landsréttar felur hvorki í sér að máli hafi verið vísað frá héraðsdómi eða Landsrétti né að það hafi verið fellt þar niður að hluta eða öllu leyti. Í hinum kærða úrskurði fólst einvörðungu að dómkvaðning matsmanns geti við þær aðstæður sem uppi voru ekki farið fram á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 heldur skuli fela þeim dómara sem fer með einkamál milli aðila málsins að fara með matsbeiðnina og leysa úr henni.

9. Samkvæmt framansögðu er því ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Aðrar kæruheimildir eiga ekki við í málinu en þær eru tæmandi taldar í 1. mgr. ákvæðisins. Þar er ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar atriði sem varða matsgerðir, sbr. á hinn bóginn c-lið 1. mgr. 143. gr. laganna um slíka kæruheimild til Landsréttar. Brestur því heimild til kæru til Hæstaréttar og verður málinu þar af leiðandi vísað frá réttinum.

10. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, 105 Miðborg slhf., greiði varnaraðilum, Íslenskum aðalverktökum hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., hvorum um sig 300.000 krónur í kærumálskostnað.