Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2022

A og B (Jóhannes S. Ólafsson lögmaður)
gegn
C (Gizur Bergsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Skiptastjóri
  • Þóknun
  • Málskostnaður

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem leyst var úr ágreiningi A og B annars vegar og C hins vegar um þóknun C sem skiptastjóra í dánarbúi D. Í dómi Hæstaréttar var fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar að miða bæri þóknun C við 25.900 krónur fyrir hverja unna vinnustund. Þá var talið að A og B hefðu glatað rétti til að andmæla þóknun C frá upphafi skipta þar til loka október 2018 en þau voru talin geta haft uppi andmæli við þóknun hans frá þeim tíma. Um ágreining um fjölda vinnustunda C við skiptin komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að tímaskráning hans hefði verið úr hófi fram. Var þóknun hans því lækkuð vegna tímabilsins og var hún í heild sinni hæfilega metin að álitum. Þá var C gert að greiða A og B málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti en kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti var ekki dæmdur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 24. maí 2022 þar sem þóknun varnaraðila sem skiptastjóra í dánarbúi D var lækkuð úr 13.869.090 krónum í 10.000.000 króna, í báðum tilvikum með virðisaukaskatti.

3. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að þóknun varnaraðila sem skiptastjóra dánarbúsins verði lækkuð úr 13.869.090 krónum í 5.146.589 krónur með virðisaukaskatti en til vara að þóknun varnaraðila verði lækkuð að mati dómsins. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

5. Í kæru sinni til Hæstaréttar gerðu sóknaraðilar ekki kröfu um kærumálskostnað fyrir réttinum heldur kom sú krafa fyrst fram í greinargerð þeirra. Með því að krafan var ekki höfð uppi í kærunni kemur hún ekki til álita í málinu.

Ágreiningsefni

6. Ágreiningur málsins lýtur að þóknun varnaraðila sem skiptastjóra dánarbús D. Í fyrsta lagi deila aðilar um hvort varnaraðila hafi verið heimilt að hækka tímagjald sitt í samræmi við breytingu á gjaldskrá sinni sem tók gildi 1. janúar 2019. Í öðru lagi er ágreiningur um fjölda vinnustunda varnaraðila við skiptin. Í þriðja lagi er deilt um hvort sóknaraðilar hafi glatað rétti til að andmæla þóknun varnaraðila.

7. Með úrskurði héraðsdóms 24. mars 2022 var þóknun varnaraðila lækkuð úr 13.869.090 krónum í 9.963.989 krónur, í báðum tilvikum með virðisaukaskatti. Jafnframt var varnaraðila gert að greiða sóknaraðilum 496.000 krónur í málskostnað. Eins og áður greinir var þóknunin ákveðin 10.000.000 króna með hinum kærða úrskurði Landsréttar en málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður felldur niður.

8. Með ákvörðun Hæstaréttar 29. júní 2022 var veitt leyfi til að kæra úrskurðinn til réttarins af þeirri ástæðu að niðurstaða Landsréttar kynni að vera bersýnilega röng að því er varðaði úrlausn um málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Kæruheimild er í 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Málsatvik

9. Með úrskurði héraðsdóms […] 2018 var bú D, sem andaðist […] 2017, tekið til opinberra skipta. Varnaraðili var skipaður skiptastjóri búsins. Sóknaraðilinn B var eiginkona hins látna og sóknaraðilinn A sonur þeirra. Aðrir erfingjar hins látna eru þrjú börn hans með fyrri eiginkonu en þau hafa ekki látið sig varða þann ágreining sem hér er til úrlausnar.

10. Á skiptafundi 26. febrúar 2018, þar sem mætt var af hálfu allra erfingja, var fært í fundargerð að varnaraðili hefði veitt upplýsingar um skiptakostnað. Þóknun hans væri lágmarksgjald samkvæmt gjaldskrá og næmi 25.900 krónum auk virðisaukaskatts fyrir hverja vinnustund. Einnig var skráð í fundargerð að varnaraðili áskildi sér rétt til að taka greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun meðan á skiptum stæði, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga nr. 20/1991. Eins og áður greinir tók ný gjaldskrá varnaraðila gildi 1. janúar 2019 en samkvæmt henni hækkaði lágmarksgjald hans í 29.000 krónur auk virðisaukaskatts fyrir hverja vinnustund. Frá þeim tíma hefur varnaraðili reiknað sér þá þóknun við skiptin.

11. Í úrskurði héraðsdóms er rakinn framgangur skipta dánarbúsins. Á skiptafundi 9. ágúst 2018 lagði varnaraðili fram yfirlit yfir vinnu sína frá upphafi skipta til þess tíma. Á því eru vinnustundir sundurliðaðar eftir mánaðardögum og tilgreint hvaða verk hafi verið innt af hendi hvern dag. Samtals voru vinnustundir 103,75 á tímabilinu. Á skiptafundi 8. nóvember 2018 lagði varnaraðili fram yfirlit sama efnis frá 9. ágúst til október 2018. Samkvæmt því voru vinnustundir samtals 68,25 á tímabilinu. Loks lagði varnaraðili fram á skiptafundi 8. mars 2021 yfirlit yfir vinnu sína frá nóvember 2018 til loka nóvember 2020 en samkvæmt því voru vinnustundir hans samtals 157,75. Af hálfu erfingja mættu lögmenn þeirra á alla þessa fundi.

12. Varnaraðili færði fundargerð 7. apríl 2021 vegna skiptafundar sem hann sat einn. Færði varnaraðili til bókar atriði um skiptin sem snerta ekki þann ágreining sem hér er til úrlausnar. Því næst boðaði varnaraðili til skiptafundar 25. maí sama ár til að fjalla um frumvarp til úthlutunar úr búinu, sbr. 78. gr. laga nr. 20/1991. Í því kom fram að þóknun varnaraðila næmi samtals 13.869.090 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Að höfðu samráði við lögmenn erfingja var fundinum frestað til 1. júní það ár og aftur var honum frestað til 8. sama mánaðar þegar hann var haldinn að viðstöddum lögmönnum erfingja. Á fundinum lögðu sóknaraðilar fram bókun þar sem þóknun varnaraðila var mótmælt. Andmælin tóku bæði til tímagjalds og fjölda vinnustunda. Á næsta skiptafundi 24. ágúst 2021 var árangurslaust reynt að jafna þennan ágreining og því vísaði varnaraðili honum til úrlausnar héraðsdóms með bréfi 25. sama mánaðar.

Löggjöf

13. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 20/1991 er skiptastjóra heimilt að taka sér greiðslu af fé dánarbús upp í áfallna þóknun sína meðan á skiptum stendur, enda kynni hann ákvörðun sína um það á skiptafundi og það teljist tryggt að hann gangi ekki með þessu á hlut þeirra sem eiga rétthærri kröfur á hendur búinu. Í skýringum við ákvæðið í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að með þessum áskilnaði væri ætlast til þess að tryggt yrði að erfingjar eða skuldheimtumenn fengju tækifæri til að láta í ljós skoðanir sínar um ráðagerð skiptastjóra og að þeir gætu þá mótmælt henni og eftir atvikum fengið úrlausn héraðsdóms um hana, sbr. 47. og 122. gr. laganna. Einnig sagði að skiptastjóra væri almennt ekki þörf á að kynna ákvörðun sína um greiðslu hverju sinni sem hún stæði fyrir dyrum heldur væri honum eftir atvikum nægjanlegt að gera skiptafundi til dæmis grein fyrir því að hann hefði í hyggju að fá greiðslu með reglubundnu millibili sem yrði ákveðin með nánar tilteknum hætti. Þeir sem hefðu hagsmuni af skiptunum gætu síðan fylgst með að ekki hefði verið farið fram úr því sem skiptastjóri kynnti þeim með könnun yfirlita um efnahag og rekstur búsins, sbr. 49. gr. laganna.

14. Um gildi ákvarðana skiptafundar leiðir af 2. mgr. 71. gr. laga nr. 20/1991 að erfingi sem ekki mætir til skiptafundar, sem hann hefur sannanlega verið boðaður til, glatar rétti til að hafa uppi mótmæli eða kröfur vegna ákvarðana og ráðstafana sem hafa verið teknar þar eða kynntar. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar getur erfingi, sem á atkvæði um málefni búsins og telur ákvörðun eða ráðstöfun skiptastjóra ólögmæta, mótmælt henni þegar á þeim fundi sem hún er kynnt en ella á næsta fundi sem hann er boðaður til hafi hann ekki glatað rétti til þess samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Komi slík mótmæli fram skal skiptastjóri leitast við að jafna ágreininginn en takist það ekki beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. laganna.

15. Um efni frumvarps til úthlutunar úr dánarbúi fer eftir 77. gr. laga nr. 20/1991 en fjalla skal um það á skiptafundi sem boðað er til samkvæmt 78. gr. þeirra. Um mótmæli gegn frumvarpi fer eftir 79. gr. enda varði þau andmæli önnur atriði en þau sem hlutaðeigandi hefur glatað rétti til að mótmæla, sbr. 2. mgr. 71. gr. laganna. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að þetta skilyrði hefði verulega þýðingu því að þegar skiptin væru komin á þetta stig væri almennt þá þegar endanlega útkljáð hverjir ættu rétt til arfs, hverjar kröfur á hendur búinu hefðu verið viðurkenndar og hvernig hagsmunum búsins yrði ráðstafað, sbr. 2. og 3. mgr. 71. gr. laganna. Mætti þannig segja að hverfandi líkur væru á því að mótmæli gætu komið fram gegn efni frumvarps sem ekki yrði þegar vísað á bug vegna þessa skilyrðis.

Niðurstaða

16. Svo sem áður er rakið kynnti varnaraðili á skiptafundi 26. febrúar 2018 að þóknun hans næmi 25.900 krónum auk virðisaukaskatts fyrir hverja vinnustund í samræmi við gjaldskrá. Enginn áskilnaður var gerður af hans hálfu um að gjaldið tæki breytingum í samræmi við breytingar á gjaldskrá og jafnframt kynnti varnaraðili ekki erfingjum dánarbúsins um hækkun tímagjaldsins í 29.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt gjaldskrá sem tók gildi 1. janúar 2019. Samkvæmt þessu verður fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að miða beri þóknun varnaraðila við lægra tímagjaldið.

17. Í yfirliti yfir vinnu varnaraðila við skiptin sem lögð var fyrir skiptafund 9. ágúst 2018 er að finna ítarlega sundurliðun eftir dögum með tilgreiningu á þeim verkefnum sem sinnt var og fjölda vinnustunda hvern dag. Þegar haft er í huga að varnaraðili hafði á skiptafundi 26. febrúar sama ár kynnt tímagjald sitt og gert áskilnað um að taka sér greiðslu af fjármunum búsins upp í áfallna þóknun, eftir því sem skiptunum yndi fram, verður talið að sóknaraðilum hafi með fullnægjandi hætti verið gerð grein fyrir þeirri ráðstöfun. Það sama á við um yfirlit yfir vinnu varnaraðila sem lögð var fram á skiptafundi 8. nóvember sama ár. Hér skiptir engu þótt á þessum yfirlitum varnaraðila hafi ekki verið að finna samtölu unninna tíma og varnaraðili hafi ekki lagt fram á skiptafundi reikninga sem hann gaf út á hendur dánarbúinu. Þar sem sóknaraðilar hreyfðu hvorki andmælum gegn þessum ráðstöfunum á fyrrgreindum skiptafundum né á næstu fundum þar á eftir 19. september 2018 og 3. janúar 2019 verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að varnaraðili hafi glatað rétti til að andmæla þóknun varnaraðila frá upphafi skipta til loka október 2018.

18. Eins og áður er rakið lagði varnaraðili fram á skiptafundi 8. mars 2021 yfirlit yfir vinnu sína á tímabilinu frá nóvember 2018 til loka nóvember 2020. Sóknaraðilar mótmæltu síðan þóknun varnaraðila á skiptafundi 8. júní 2021 þar sem fjallað var um frumvarp til úthlutunargerðar úr búinu. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að sóknaraðilar hafi ekki glatað rétti til að andmæla þóknun varnaraðila vegna umrædds tímabils, enda voru þau sett fram á næsta skiptafundi eftir að varnaraðili hafði lagt fram yfirlit yfir vinnu sína, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 20/1991. Í því tilliti breytir engu þótt varnaraðili hafi fært fundargerð vegna skiptafundar 7. apríl 2021 þar sem enginn var mættur af hálfu erfingja, en varnaraðili hefur ekki borið því við að sóknaraðilar hafi ekki haft lögmæt forföll. Samkvæmt þessu kemur til úrlausnar þóknun varnaraðila frá nóvember 2018 allt til skiptaloka.

19. Að virtum gögnum málsins er tímaskráning varnaraðila á því tímabili sem til úrlausnar er í málinu úr hófi fram. Verður þóknun hans því lækkuð vegna tímabilsins og er hún í heild sinni að meðtöldum virðisaukaskatti hæfilega metin að álitum með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í úrskurði héraðsdóms.

20. Af þessari niðurstöðu leiðir að þóknun varnaraðila hefur sætt umtalsverðri lækkun. Verður honum því gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Þóknun varnaraðila, C, fyrir störf sem skiptastjóri við opinber skipti á dánarbúi D, er lækkuð úr 13.869.090 krónum í 9.963.989 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum, A og B, samtals 600.000 krónur, hvoru um sig, í málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti.

Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur.