Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2022

Körfuknattleiksdeild ÍR (Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður)
gegn
Sigurði Gunnari Þorsteinssyni (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Aðild
  • Málskostnaður
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að K, sem deild innan Í, uppfyllti ekki þann áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að geta átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2022. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega. Þá krefst áfrýjandi í báðum tilvikum málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 26. október 2022 um formhlið þess.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til samnings og viðauka við hann sem þeir gerðu árið 2019 um að stefndi myndi æfa og leika körfuknattleik hjá áfrýjanda. Skömmu eftir að samið var slasaðist stefndi á hægra hné og lýtur ágreiningur aðila að rétti hans til greiðslna á grundvelli samninganna á tímabilinu frá desember 2019 til 18. mars 2020 en þá lauk leiktímabilinu vegna COVID-19-heimsfaraldursins.

6. Í héraðsdómi og Landsrétti var fallist á kröfu stefnda um að áfrýjandi skyldi greiða honum 1.866.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum vegna framangreinds tímabils.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 21. mars 2022 með ákvörðun nr. 2022-22 á þeirri forsendu að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin væri reist á.

8. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar var því hreyft að með hliðsjón af stöðu hans sem deildar innan Íþróttafélags Reykjavíkur léki verulegur vafi á því hvort hann gæti notið aðildarhæfis fyrir dómstólum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Brugðist var við þeim sjónarmiðum í greinargerð stefnda til Hæstaréttar og því hafnað að aðildarhæfi áfrýjanda væri ekki fyrir hendi. Við framangreindan flutning um formhlið málsins var fjallað um þetta atriði.

Málsatvik

9. Málsatvikum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi og dómi Landsréttar. Eins og þar greinir undirrituðu áfrýjandi og stefndi samning 23. október 2019. Í 1. grein hans var gerð grein fyrir skyldum stefnda sem leikmanns. Þar kemur meðal annars fram að hann skuldbindi sig til að æfa og leika körfuknattleik fyrir áfrýjanda á samningstímanum, samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins, og taka þátt í sameiginlegum verkefnum leikmanna þess í samráði við stjórn. Sama dag var gerður viðauki við samninginn og tilgreint í yfirskrift hans að um verktakasamning væri að ræða.

10. Hinn 25. október 2019, tveimur dögum eftir undirritun framangreinds samnings og viðauka, tók stefndi þátt í sínum fyrsta kappleik fyrir áfrýjanda. Í leiknum slasaðist hann á hægra hné. Er ágreiningslaust með aðilum að ljóst hafi verið þegar á þeim tímapunkti að stefndi myndi vegna þeirra meiðsla hvorki æfa né leika körfuknattleik meira með áfrýjanda keppnistímabilið 2019 til 2020. Í kjölfar slyssins áttu sér stað viðræður milli aðila um áhrif þess á samningssamband þeirra. Stefndi fékk greitt samkvæmt samningi fyrir október og nóvember.

11. Í gögnum málsins liggja fyrir óundirrituð drög 16. desember 2019, svonefndur viðauki 2 við samning aðila. Skjal þetta ber með sér að hafa átt að koma í stað fyrrgreinds viðauka frá 23. október 2019. Í skjalinu er gert ráð fyrir breyttum skyldum stefnda og greiðslum áfrýjanda sem eigi að nema […] krónum á mánuði. Íþróttafélag Reykjavíkur greiddi stefnda […] krónur 19. desember sama ár og […] krónur 20. sama mánaðar. Ekki kom til frekari greiðslna til stefnda.

12. Sáttaumleitanir aðila skiluðu ekki tilætluðum árangri. Með bréfi 27. janúar 2020 gerði stefndi kröfu um greiðslu fyrir desember 2019 samkvæmt samningi aðila, að frádregnum þeim greiðslum sem inntar höfðu verið af hendi í desember, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi áfrýjanda 30. janúar 2020. Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda 26. maí 2020.

13. Í gögnum málsins liggja fyrir lög Íþróttafélags Reykjavíkur sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins 23. maí 2018. Í þeim er bæði fjallað um skipulag og starfsemi félagsins sem og einstakra deilda þess, þar á meðal áfrýjanda. Munu áfrýjanda ekki hafa verið settar sérstakar samþykktir. Að lögum félagsins verður nánar vikið hér síðar.

14. Í gögnum málsins er jafnframt að finna ársreikninga Íþróttafélags Reykjavíkur fyrir árin 2020 og 2021. Í áritun endurskoðanda á þá kemur fram að ársreikningur „hefur að geyma sameinaðan rekstrarreikning, efnahagsreikning og sjóðstreymi félagsins, ásamt ársreikningum allra deilda.“ Í ársreikningunum er að finna bæði rekstrar- og efnahagsreikning fyrir einstakar deildir félagsins en einnig sams konar yfirlit um starfsemi félagsins í heild sinni. Samkvæmt ársreikningunum voru einu eignir áfrýjanda umrædd ár viðskiptakröfur og handbært fé. Í efnahagsreikningum Íþróttafélags Reykjavíkur voru hins vegar skráðar eignir af ýmsum toga, meðal annars fasteignir auk áhalda og tækja.

Málatilbúnaður aðila um formhlið málsins

Röksemdir áfrýjanda

15. Svo sem fyrr greinir var því hreyft í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar að verulegur vafi léki á því hvort hann gæti notið aðildarhæfis fyrir dómstólum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Áréttað var við flutning málsins fyrir Hæstarétti að áfrýjandi gerði enga kröfu að þessu leyti en hann teldi óhjákvæmilegt að vekja athygli á framangreindu.

16. Áfrýjandi vísar meðal annars til þess að hann sé deild sem sé hluti af Íþróttafélagi Reykjavíkur. Sem slík hafi hann engar sérstakar samþykktir eða lög en starfi samkvæmt fyrrgreindum lögum félagsins. Samkvæmt þeim fari aðalstjórn með boðvald yfir félagsmönnum og geti meðal annars vikið þeim úr félaginu, sbr. 5. og 10. grein laganna. Þá vísar áfrýjandi til 1. mgr. 10. greinar þess efnis að aðalstjórn félagsins hafi umráð yfir eignum þess og ráði starfsemi þess í stórum dráttum í samráði við deildarstjórnir. Enn fremur leiði af 16. grein að gert sé ráð fyrir því að hver deild fyrir sig sé með eigin kennitölu og bankareikning enda séu þær reknar sem sjálfstæðar einingar með sjálfstæðan fjárhag. Þó sé ljóst af 10., 12. og 16. grein laganna að aðalstjórn félagsins geti gripið inn í fjárhag deilda og ráðstafað hagsmunum þeirra með bindandi hætti. Aðalstjórn hafi þannig boðvald yfir stjórnum deildanna, meðal annars að því er varðar fjárhag þeirra.

Röksemdir stefnda

17. Stefndi telur málsástæðu þess efnis að áfrýjandi njóti ekki aðildarhæfis of seint fram komna og komist hún því ekki að í málinu. Þá vísar hann til þess að áfrýjandi sé sjálfstætt skráður í firmaskrá Ríkisskattstjóra og að ekki verði séð að sú skráning sé sérstök undirskráning frá Íþróttafélagi Reykjavíkur.

18. Stefndi telur að af fyrrgreindum lögum Íþróttafélags Reykjavíkur verði ráðið að einstaka deildir njóti fulls sjálfstæðis gagnvart félaginu. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til 16. greinar þeirra þar sem fram komi að deildir njóti sjálfstæðis. Í því felist að áfrýjandi geti sjálfstætt stofnað til skuldbindinga sem hann sé bundinn af og notið tiltekinna réttinda óháð félaginu. Þá vísar stefndi til þess að af lögunum verði ekki ráðið að aðalstjórn félagsins hafi beint boðvald yfir stjórnum einstakra deilda þótt vissulega hafi aðalstjórn tilgreindar eftirlitsskyldur með deildum þess. Telur stefndi að fullnægt sé skilyrðum þess að áfrýjandi njóti aðildarhæfis í málinu.

Löggjöf og dómaframkvæmd um aðildarhæfi félaga

19. Í fyrri málslið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um skilyrði aðildarhæfis en þar segir að aðili dómsmáls geti hver sá verið, einstaklingur, félag eða stofnun, sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Í eldri dómaframkvæmd Hæstaréttar eru þess dæmi að afmarkaðar einingar eða deildir innan félaga, stofnana eða fyrirtækja hafi notið aðildarhæfis, sbr. meðal annars dóma réttarins 14. desember 1962 í máli nr. 34/1962 sem birtur er á bls. 875 í dómasafni réttarins það ár og 2. nóvember 1982 í máli nr. 147/1980 sem birtur er á bls. 1466 í dómasafni réttarins það ár.

20. Af yngri dómaframkvæmd og fræðikenningum verður hins vegar ráðið að almennt hafi verið tekið fyrir aðild slíkra eininga eða deilda að dómsmáli þar sem fyrrgreindum skilyrðum 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 hefur ekki verið talið fullnægt. Um þetta vísast meðal annars til dóma Hæstaréttar 11. maí 1995 í máli nr. 349/1993 sem birtur er á bls. 1299 í dómasafni réttarins það ár, 6. mars 1997 í máli nr. 91/1997 sem birtur er á bls. 862 í dómasafni réttarins það ár, 20. janúar 2000 í máli nr. 339/1999, 28. febrúar 2001 í máli nr. 50/2001, 28. nóvember 2002 í máli nr. 228/2002, 30. september 2004 í máli nr. 358/2004 og 21. janúar 2016 í máli nr. 317/2015.

21. Á hinn bóginn var engin athugasemd gerð við aðildarhæfi Knattspyrnudeildar U.M.F.G í dómi Hæstaréttar 30. október 2014 í máli nr. 232/2014.

Niðurstaða

22. Stefndi hefur svo sem fyrr segir byggt á því að sjónarmið um að áfrýjanda bresti aðildarhæfi feli í sér nýja málsástæðu sem sé of seint fram komin og fái því ekki komist að í málinu. Úrlausn um aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 lýtur ekki málsforræði aðila heldur varðar skortur á því frávísun máls frá dómi án kröfu. Er málatilbúnaði stefnda í þá veru þegar af þeirri ástæðu hafnað. Til þess er hins vegar að líta að aðilar höfðu svigrúm til að láta reyna á breytta aðild hér fyrir dómi og þá með þeim hætti að Íþróttafélag Reykjavíkur tæki stöðu áfrýjanda í stað körfuknattleiksdeildar félagsins. Á það virðast aðilar ekki hafa látið reyna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2011 í máli nr. 83/2011.

23. Ágreiningslaust er í málinu að Íþróttafélag Reykjavíkur er svokallað almennt félag eða félagasamtök eins og þetta félagaform er jafnframt kallað. Með því er vísað til skipulagsbundinna félaga sem starfa í ófjárhagslegum tilgangi og félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum þess umfram framlög sín til félagsins og njóta ekki arðs af starfsemi þess. Almenn félög hafa verið talin verða til sem lögaðilar við stofnun og opinber skráning þeirra er ekki skilyrði slíks. Í dómaframkvæmd hefur verið talið að hafi slíkt félag verið formlega stofnað og um starfsemi þess gildi að minnsta kosti lágmarks reglusetning njóti það að óbreyttu aðildarhæfis, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. desember 2005 í máli nr. 514/2005. Spurningar hafa fremur vaknað um stöðu einstakra eininga innan þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar hér að framan. Um almenn félög hafa ekki verið sett lög og réttarstaða einstakra félaga af þessum toga ræðst því annars vegar af meginreglum félagaréttar og hins vegar samþykktum viðkomandi félags. Við mat á innbyrðis stöðu áfrýjanda og Íþróttafélags Reykjavíkur og aðildarhæfi fyrrnefnda aðilans er því nauðsynlegt að víkja nú nánar að einstökum ákvæðum laga Íþróttafélags Reykjavíkur.

24. Samkvæmt 3. mgr. 2. greinar laga Íþróttafélags Reykjavíkur hyggst félagið ná tilgangi sínum og markmiðum með stofnun og starfrækslu íþróttadeilda, einni í hverri grein, eftir því sem félagsmenn kunni að óska, undir sameiginlegri aðalstjórn félagsins. Samkvæmt 5. grein teljast allir skráðir iðkendur íþrótta hjá félaginu vera félagsmenn. Þá kemur þar fram að iðkendur og stjórnarmenn deilda teljist vera félagar í viðkomandi deild. Þó sé heimilt að gerast félagi án þess að vera skráður í sérstaka deild. Samkvæmt 1. mgr. 6. greinar skulu innheimt félagsgjöld renna til þeirrar deildar sem viðkomandi er skráður í en ella aðalsjóðs félagsins. Í II. kafla laganna, 7. til 9. grein, eru ákvæði um aðalfund félagsins. Í 1. mgr. 10. greinar, sem stendur í III. kafla um stjórn félagsins, kemur fram að aðalstjórn þess fari með æðsta vald milli aðalfunda. Hún hafi umráð yfir eignum félagsins og ráði starfsemi þess í stórum dráttum í samráði við deildarstjórnir. Í 6. mgr. sömu greinar segir að aðalstjórn einni sé heimilt að víkja mönnum úr félaginu að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum. Samkvæmt 1. mgr. 12. greinar laganna er aðalstjórn skylt að hafa eftirlit með fjárreiðum deilda og er heimilt að krefja stjórnir deilda um rekstraryfirlit og greiðslustöðu þegar ástæða þyki til. Þá hafi aðalstjórn á hverjum tíma rétt til að skoða bókhald og fjárreiður deilda. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að allar mikils háttar og verulegar fjárhagsskuldbindingar og samninga ásamt fjárhagsáætlunum skuli bera undir samþykki aðalstjórnar. Verði misbrestur á þessu firri félagið sig allri ábyrgð á skuldbindingunni og séu þá þeir einstaklingar sem hana framkvæmdu persónulega skuldbundnir. Enn fremur segir að aðalstjórn áskilji sér rétt til þess að hafa afskipti af stjórnun viðkomandi deildar.

25. Í IV. kafla laganna er fjallað um aðalfundi deilda. Um það segir í 1. mgr. 15. greinar að vanræki deild að halda aðalfund eða takist ekki af einhverjum öðrum ástæðum að halda hann fyrir tilskilinn tíma, sbr. 13. grein, skuli aðalstjórn félagsins boða til fundarins. Þá er í 2. mgr. sömu greinar vikið að heimild aðalstjórnar til að boða til aukaaðalfundar við tilteknar aðstæður. Enn fremur kemur fram í 1. málslið 3. mgr. 15. greinar að séu viðamiklir annmarkar á stjórnun deildar að mati aðalstjórnar, svo sem ef fjármálastjórn er verulega ábótavant eða stjórn deildarinnar starfar ekki í samræmi við lög eða stefnu félagsins, sé aðalstjórn heimilt að víkja stjórn viðkomandi deildar frá störfum.

26. Nánar er fjallað um stjórnir deilda í V. kafla laganna. Þannig segir eftirfarandi í 1. og 2. mgr. 16. greinar:

Stjórnir deilda hafa hver um sig sérstakan fjárhag, ráða íþróttakennara, þjálfara og starfsmenn og ákveða laun þeirra, annast daglegan rekstur deildanna, sjá um íþróttamót, er hverri grein heyra til, svo og þátttöku félaga í deildinni í mótum þeim, er ákveðin er þátttaka í. Deildir eru þannig sjálfstæðar, með þeim takmörkunum sem fram koma í öðrum ákvæðum laga þessara, svo sem 12. og 18. gr., og hafa tekjur af félagsgjöldum sínum, mótum þeim er þær halda, svo og eftir öðrum fjáröflunarleiðum, er deildarstjórnir ákveða í samráði við aðalstjórn félagsins.
Skrá skal upplýsingar um ársstarfið, fundi, keppnir og annað sem deildin tekur sér fyrir hendur. Skila skal starfsskýrslu deildar fyrir liðið almanaksár ásamt reikningum fyrir sama tímabil til stjórnar félagsins í mars ár hvert til birtingar í ársskýrslu félagsins.

27. Þá segir í 3. mgr. 18. greinar að aðalstjórn skuli setja deildum nánari reglur um fjárreiður, þar með talið um fjárhagsáætlanir, bókhald og uppgjör, og að stjórnum deilda sé skylt að fylgja þeim reglum. Um aðkomu aðalstjórnar að stjórnun einstakra deilda vísist að öðru leyti til 12. greinar.

28. Loks er í VI. kafla laganna að finna önnur ákvæði þeirra. Þar segir í 21. grein að deildir verði ekki lagðar niður eða sameinaðar öðrum íþróttafélögum nema með samþykki aðalfundar félagsins eða sérstaks aukaaðalfundar, sbr. 5. mgr. 8. greinar. Hætti íþróttadeild störfum skuli afhenda eignir og skjöl hennar aðalstjórninni.

29. Við mat á stöðu áfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 verður, auk þeirra ákvæða laga Íþróttafélags Reykjavíkur sem hér hefur verið gerð grein fyrir, litið til þeirra dóma sem fyrr eru tilgreindir og tekið hafa til sambærilegra álitaefna. Sérstök ástæða er þá til þess að líta til þeirra dóma sem fjallað hafa um aðildarhæfi deilda í íþróttafélögum sem falla eins og Íþróttafélag Reykjavíkur undir framangreinda afmörkun á almennu félagi eða félagasamtökum. Verður fyrst staðnæmst við fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 91/1997 en í málinu var höfð uppi krafa um gjaldþrotaskipti á búi handknattleiksdeildar Fylkis. Með úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, var kröfunni hafnað með eftirfarandi rökstuðningi:

Heitið Handknattleiksdeild Fylkis bendir til, að um sé að ræða deild innan Fylkis, sem að fyrra bragði verður því að ætla, að sé háð boðvaldi stjórnar Fylkis og hafi ekki sjálfstæðan fjárhag. Með hliðsjón af 1., 4., 5. og 7. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verður að telja það grundvallarskilyrði þess, að tiltekin eind verði tekin sjálfstætt til gjaldþrotaskipta, að hún njóti rétthæfis sem félag eða stofnun og að félagsmenn, ef um félag er að ræða, beri ekki ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Skiptabeiðandi hefur ekki sýnt fram á, að krafist sé skipta á félagi eða stofnun, sem geti sjálfstætt borið réttindi og skyldur, en skráning Handknattleiksdeildar Fylkis samkvæmt lögum nr. 62/1969 um fyrirtækjaskrá sem „félagasamtök“ með eigin kennitölu gefur ekki vísbendingu um fyrrgreind atriði. Samkvæmt framangreindu verður að hafna kröfu tollstjórans í Reykjavík um, að bú Handknattleiksdeildar Fylkis verði tekið til gjaldþrotaskipta.

30. Í dómi réttarins í máli nr. 50/2001 var á grundvelli sambærilegs rökstuðnings komist að niðurstöðu um skort á aðildarhæfi knattspyrnudeildar Fimleikafélags Hafnafjarðar en þar var fjallað um fjárnám á hendur félaginu vegna skuldbindinga knattspyrnudeildar þess. Sambærileg nálgun liggur til grundvallar mati réttarins á aðildarhæfi í fyrrgreindum dómum í málum nr. 339/1999, 228/2002 og 358/2004, þó að ekki hafi verið um almenn félög að ræða í þeim tilvikum heldur einstakar einingar innan stofnana. Á hinn bóginn ber þó að árétta að í dómi réttarins í máli nr. 232/2014 var engin athugasemd gerð við aðildarhæfi knattspyrnudeildar Ungmennafélags Grindavíkur í máli sem fyrrverandi þjálfari höfðaði gegn deildinni en ekki félaginu. Enga umfjöllun er að finna í dóminum um álitaefni tengd aðildarhæfi knattspyrnudeildarinnar og því ekki tilefni til þess að draga af honum ályktanir í þá veru að ætlunin hafi verið sú að hverfa frá þeirri kröfu til aðildarhæfis sem mótuð hafði verið með fyrrnefndum dómum. Því til viðbótar gekk síðar, eða 21. janúar 2016, dómur í máli nr. 317/2015 þar sem deild innan fyrirtækis var ekki talin nægilega sjálfstæð til þess að njóta aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

31. Þær ályktanir verða því dregnar af tilvitnuðum dómum að dómaframkvæmd hafi þróast á þann veg að deildir og einingar innan félaga, stofnana og fyrirtækja njóti almennt ekki aðildarhæfis heldur sé það á hendi þess lögaðila sem þær eru hluti af. Sá lögaðili þarf þannig að eiga aðild að dómsmáli um hagsmuni sem snúa að tiltekinni deild eða einingu innan hans. Á sú afstaða því almennt við um deildir innan íþróttafélaga sem starfa sem almenn félög eða félagasamtök eins og raunin er í tilviki Íþróttafélags Reykjavíkur. Á hinn bóginn er til þess að líta, hvað sem framangreindum ályktunum líður, að ekki verður hjá því komist að meta allt að einu hvert og eitt tilvik með atviksbundnum hætti enda setur 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 aðildarhæfi þær takmarkanir einar að viðkomandi aðili geti átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Þannig kunna þau tilvik að finnast þar sem skipulag, starfsemi og sjálfstæði deilda eða eininga innan félaga, stofnana eða fyrirtækja er með þeim hætti að þær teljist njóta aðildarhæfis í dómsmáli.

32. Hér að framan hafa verið rakin þau ákvæði laga Íþróttafélags Reykjavíkur sem helst verða talin hafa þýðingu við mat á aðildarhæfi áfrýjanda, körfuknattleiksdeildar félagsins. Af þeim verður ekki ráðið hvenær deildin var stofnuð og með hvaða hætti en ágreiningslaust er að starfsemi hennar hafa ekki verið settar sérstakar samþykktir. Af lögum Íþróttafélags Reykjavíkur verður ráðið að áfrýjandi hefur ákveðið rekstrarlegt sjálfstæði. Það sætir hins vegar margvíslegum takmörkunum er leiða til þess að áfrýjandi hefur í raun ekki sjálfstæðan fjárhag aðskilinn fjárhag Íþróttafélags Reykjavíkur. Þetta má jafnframt ráða af því að áfrýjandi skilar ekki sjálfstæðum ársreikningi heldur eru ársreikningsskil hans hluti af ársreikningi íþróttafélagsins. Hvað fjárhagslegt sjálfstæði áfrýjanda varðar þá er þess jafnframt að gæta að samkvæmt tilvitnuðum lögum félagsins lýtur starfsemi hans með margvíslegum hætti boðvaldi aðalstjórnar Íþróttafélags Reykjavíkur og má í dæmaskyni nefna 12. og 18. grein laganna. Enn fremur hefur hér þýðingu, eins og fyrr er rakið, að allar eignir, að frátöldum viðskiptakröfum og handbæru fé á hverjum tíma, eru á hendi Íþróttafélags Reykjavíkur og gætu því ekki staðið til fullnustu kröfum á hendur einstaka deildum þess. Þá sætir starfsemi áfrýjanda margþættu boðvaldi aðalstjórnar félagsins af öðrum toga, sbr. í dæmaskyni lokamálslið 5. greinar, 1. og 4. mgr. 10. greinar, 1. og 3. mgr. 15. greinar og 1. mgr. 21. greinar. Enn fremur verður 2. mgr. 12. greinar skilin á þann veg að endanleg ábyrgð á skuldbindingum áfrýjanda hvíli á Íþróttafélagi Reykjavíkur. Loks verður ekki talið skipta máli fyrir niðurstöðu um aðildarhæfi að áfrýjandi hefur verið skráður með sérstaka kennitölu.

33. Að öllu framangreindu gættu verður ekki talið að áfrýjandi uppfylli þann áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að geta átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Því er óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Málskostnaður verður ekki dæmdur áfrýjanda enda skortir hann eftir framansögðu hæfi til að eignast slík réttindi.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.