Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2021

Margeir Ingólfsson og Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir (Torfi Ragnar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Ólöfu Hansínu Friðriksdóttur (Ívar Pálsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Landamerki
  • Leigusamningur
  • Afsal
  • Jörð
  • Kröfugerð
  • Gagnsök

Reifun

Ó höfðaði mál gegn M og S sem eigendum jarðarinnar B sem þau keyptu árið 1991. Ó sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn sem tók árið 1983 á leigu spildu úr landi B og keypti árið 1989. Ágreiningur aðila laut að merkjum spildunnar og jarðarinnar. Um formhlið málsins komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Landsrétti hefði verið unnt að taka afstöðu til varakröfu Ó við úrlausn málsins. Þá væru ekki tilefni til að vísa málinu frá dómi án kröfu. Um efnishlið málsins vísaði Hæstiréttur til þess að verulegt og óútskýrt ósamræmi væri milli ákvæða leigusamnings og afsals um lýsingu á merkjum annars vegar og hins vegar afmörkunar spildunnar á loftmynd. Sama máli gegndi um stærð þeirrar spildu sem merkjalýsingin svaraði til og áætlaðrar stærðar hennar í leigusamningi og afsali. Væri þetta ósamræmi svo verulegt að ekki yrði byggt á hinni skriflegu lýsingu á merkjunum og því ekki fallist á aðalkröfu Ó. Jafnframt var talið að Ó hefði ekki rennt nægum stoðum undir að kröfulínur samkvæmt varakröfu ættu að réttu lagi að ráða merkjum og var því heldur ekki fallist á varakröfu Ó. Rétturinn vísaði til þess að girðing sem leigutaki spildunnar hefði reist að stórum hluta eftir að hann tók hana á leigu afmarkaði lítillega stærra land en áætlað var í leigusamningi og væri ekki fjarri útlínum uppdráttar á loftmynd sem fylgdi með leigusamningi og afsali. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að með staðsetningu girðingarinnar, án athugasemda af hálfu leigusala, hefði leigutakinn í verki staðfest skilning sinn á því hver merki spildunnar væru. Var því fallist á dómkröfur M og S um merki jarðar þeirra og spildu Ó.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. september 2021. Í aðalsök krefjast þau þess að viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki spildu í eigu gagnáfrýjanda með landnúmer 167220 gagnvart jörðinni Brú með landnúmer 167070 séu afmörkuð samkvæmt línu sem liggur úr punkti 100 (a-hnit: 439103,056 / n-hnit: 423603,743) í punkt 101 (a-hnit: 439205,625 / n-hnit: 423485,549), þaðan í punkt 102 (a-hnit: 439151,992 / n-hnit: 423388,479), þaðan í punkt 103 (a-hnit: 439014,398 / n-hnit: 423323,654), þaðan í punkt 104 (a-hnit: 439032,487 / n-hnit: 423436,910), þaðan í punkt 105 (a-hnit: 439019,416 / n-hnit: 423511,884) og þaðan aftur í punkt 100. Í gagnsök krefjast þau sýknu af dómkröfum gagnáfrýjanda. Þá krefjast þau málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 17. nóvember 2021. Hún krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjenda í aðalsök. Í gagnsök krefst hún þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að mörk spildu með landnúmer 167220 afmarkist samkvæmt línu: að vestan úr punkti sem er hornmark við Gýgjarhól 1 og 2, úr punkti 100 (hnit x438919.95 og y423231.07) í austur með farvegi lækjar um punkt 101 (hnit x438939.72 og y423228.99), um punkt 102 (hnit x438974.23 og y423235.71), um punkt 103 (hnit x439011.56 og y423249.85), um punkt 104 (hnit x439034.26 og y423268.00), um punkt 105 (hnit x439051.31 og y423284.53), um punkt 106 (hnit x439064.84 og y423306.67), um punkt 107 (hnit x439074.00 og y423317.60), um punkt 108 (hnit x439092.06 og y423322.94), um punkt 109 (hnit x439122.09 og y423325.58), um punkt 110 (hnit x439150.17 og y423331.68), um punkt 111 (hnit x439176.61 og y423351.20), um punkt 112 (hnit x439198.99 og y423360.96), um punkt 113 (hnit x439223.59 og y423365.72), um punkt 114 (hnit x439248.28 og y423369.79), um punkt 115 (hnit x439271.19 og y423377.67) í punkt 116 sem er hornpunktur (hnit x439283.11 og y423396.22), þaðan í norður um línu sem afmarkar land spildunnar við Brú um punkt 117 (hnit x439205.80 og y423485.43), um punkt 118 (hnit x439179.22 og y423516.10), um punkt 119 (hnit x439103.17 og y423603.88) í punkt 120 (hnit x439006.20 og y423727.76), þaðan í punkt 121 sem er hornmark (hnit x438921.52 og y423758.16). Úr þeim punkti í suður meðfram landi Brúarhvamms og Gýgjarhóls 2 í punkt 122 (hnit x438959.27 og y423602.95), áfram í punkt 123 (hnit x438940.34 og y423415.39), í punkt 124 (hnit x438932.19 og y423347.58) og aftur í upphafspunkt 100. Til vara krefst hún þess að viðurkennt verði að mörk spildunnar skuli vera samkvæmt línu sem afmarkast þannig á hnitsettri loftmynd sem fylgdi áfrýjunarstefnu til Landsréttar; að vestan úr punkti 1 rangsælis um punkta 2–31 í punkt 32, þaðan til austurs um punkta 33–54 í punkt 55 og loks þaðan til norðvesturs um punkta 56–72 þar til línan endar í upphafspunkti 1, eins og í upphafi var lýst. Að lokum krefst hún þess að aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.

4. Dómendur fóru á vettvang 11. febrúar 2022.

Ágreiningsefni

5. Aðaláfrýjendur eru eigendur jarðarinnar Brúar í Bláskógabyggð sem þau keyptu árið 1991. Gagnáfrýjandi situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn sem tók árið 1983 á leigu spildu úr landi Brúar og keypti árið 1989. Málsaðilar deila um stærð og landamerki spildunnar en þau eru ósammála um hvernig á að túlka lýsingu á merkjum hennar í leigusamningi þeim sem vísað var til í afsali. Þá deila þau um hvaða þýðingu tilgreining á stærð spildunnar í leigusamningi og afsali á að hafa.

6. Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi og hafði uppi kröfu þá sem er aðalkrafa hennar fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjendur höfðuðu gagnsök og gerðu kröfu þá sem þau hafa uppi fyrir Hæstarétti. Héraðsdómur féllst á kröfu aðaláfrýjenda og sýknaði þau af kröfu gagnáfrýjanda.

7. Gagnáfrýjandi áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og hafði þar uppi sömu kröfu og í héraði en að auki varakröfu þá sem hún gerir fyrir Hæstarétti. Landsréttur taldi að varakrafan væri of seint fram komin og tók hana ekki til skoðunar. Landsréttur sýknaði aðaláfrýjendur af aðalkröfu gagnáfrýjanda og jafnframt gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjenda.

8. Allar framangreindar viðurkenningarkröfur um afmörkun spildunnar eru hnitsettar og allar kröfulínur hafa verið teiknaðar inn á framlagðar loftmyndir. Ekki er deilt um þá hnitsetningu.

9. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi en jafnframt var talið að á dómi Landsréttar kynnu að vera þeir ágallar að rétt væri að samþykkja beiðni um áfrýjun á grundvelli 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsatvik

10. Með leigusamningi 4. júní 1983 leigði Guðmundur H. Óskarsson, þáverandi eigandi jarðarinnar Brúar í Bláskógabyggð, Kristni S. Jónssyni spildu úr landi jarðar sinnar til 25 ára. Spildunni var þannig lýst í 1. grein leigusamningsins:

Spilda þessi er nálægt 2,5 (tveir og hálfur) hektari að stærð og takmarkast að austan af farvegi lækjar, sem liggur á mörkum Brúar og Gýgjarhóls, að vestan af gömlum farvegi Tungufljóts á mörkum Brúar og Bryggju, en að sunnan þar sem farvegir þessir koma saman. Norðurmörk ráðast af girðingu, sem þar er nú. Þá verða mörk þessi færð inn á loftmynd af svæðinu og skoðast mynd sú sem hluti samnings þessa.

11. Í 5. grein leigusamningsins sagði: „Vilji leigutaki girða hið leigða land skal honum það heimilt á sinn kostnað.“ Eftir gerð leigusamningsins reisti Kristinn girðinguna sem aðilar deila um hvort er á merkjum spildunnar.

12. Á spildunni reisti Kristinn sumarhús en Guðmundar afsalaði henni til hans 10. ágúst 1989. Hinu selda var lýst sem 2,5 ha spildu en um legu vísað til viðfests ljósrits af loftmynd og um merki til þinglýsts leigusamnings 4. júní 1983.

13. Guðmundur seldi aðaláfrýjendum jörðina Brú með kaupsamningi og afsali 1. apríl 1991. Í samningnum kom fram að jörðin væri seld ásamt tilheyrandi, um það bil 550 ha, eignarlandi samkvæmt meðfylgjandi loftmynd frá Landmælingum Íslands að frátöldum jarðarskika sem væri í suðausturhorni svokallaðrar Svörtumýrar sem afmörkuð væri með rauðri punktalínu á loftmyndinni. Að öðru leyti var um merki vísað til landamerkjabréfs jarðarinnar 5. júní 1885 og tekið fram að kaupendur gerðu sér fulla grein fyrir þeim jarðarspildum sem ýmist hefðu verið seldar eða leigðar úr jörðinni undir sumarbústaði. Guðmundur var faðir aðaláfrýjandans Sigríðar Jóhönnu og tengdafaðir aðaláfrýjandans Margeirs.

14. Í hinu tilvitnaða landamerkjabréfi jarðarinnar Brúar sem þáverandi ábúendur og eigendur nágrannajarða undirrituðu ásamt eiganda Brúar var merkjum hennar þannig lýst:

Brúarlækur ræður framan frá Fljóti að sunnanverðu allt að upptökum hans hjá Vörðu efst í Skammakeldu, og þaðan beint að Vörðu í Lágumýri, og þaðan beint vestur í Markagilsbotn; svo ræður Markagil vestur að Fljóti og Fljótið fram að Brúarlæk.

Tungufljót er í landamerkjabréfinu nefnt Fljótið en það breytti um farveg í miklu flóði árið 1929 án þess að það hefði áhrif á landamerki Brúar að vestan. Hinn forni farvegur Tungufljóts sem þá þornaði upp er talsvert breiður.

15. Gagnáfrýjandi fékk leyfi 19. desember 2016 til setu í óskiptu búi eftir maka sinn Kristin en hann lést 25. nóvember sama ár.

Málsástæður aðila

Helstu málsástæður aðaláfrýjenda

16. Aðaláfrýjendur túlka leigusamning um spilduna sem vísað var til í afsali um hana á þann veg að spildan hafi að vestan, sunnan og austan átt að ráðast af „innri mörkum“ farvega Tungufljóts og Brúarlækjar og vísa þau þar til þess að spildan hafi átt að ná að farvegunum en ekki í þá miðja. Að norðan hafi merkin átt að ráðast af girðingu sem þar hafi verið þegar samningurinn var gerður. Samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar ráðist merki hennar að austan og vestan af línum sem liggja um miðju þeirra straumvatna sem við gerð þess runnu á mörkum umræddra jarða í samræmi við 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 en lýsing á merkjum spildunnar í leigusamningnum hafi hins vegar verið með allt öðrum hætti. Ekki verði ráðið af orðalagi leigusamningsins að spildan hafi átt að markast af miðju þessara farvega eða af mörkum Brúar við aðliggjandi jarðir enda ekki vísað í landamerkjabréf varðandi afmörkun spildunnar. Við sölu á spildum úr landi jarðar sé aðilum fullkomlega frjálst að afmarka þær með þeim hætti sem þeir kjósi. Framangreind regla vatnalaga um miðlínu farvegar eigi því ekki við um afmörkun spildunnar heldur fari um merki hennar eftir því sem samist hafi um milli aðila.

17. Af hálfu aðaláfrýjenda er jafnframt byggt á því að ráða megi með skýrum hætti af þeim uppdrætti á loftmynd sem hafi verið hluti af leigusamningi og afsali um spilduna að ekki hafi verið ætlunin að miða við miðja farvegi heldur hafi hún átt að takmarkast af farvegunum. Spildan sé þannig að öllu leyti innan jarðarinnar Brúar og eigi ekki mörk við aðrar jarðir. Þá samræmist uppdrátturinn mun betur kröfugerð aðaláfrýjenda en gagnáfrýjanda.

18. Aðaláfrýjendur byggja einnig á því að leigutaki og síðar eigandi spildunnar hafi sjálfur afmarkað hana með merkjagirðingu samkvæmt heimild í leigusamningi og afsali og miða þau kröfugerð sína við það girðingarstæði. Þau telja jafnframt að kröfugerð sín samræmist þeirri afmörkun á spildunni sem leigusamningurinn og afsalið byggðist á. Lögun spildunnar, eins og útlínur hennar hafi verið dregnar á loftmynd sem fylgt hafi leigusamningi og afsali, falli vel að kröfulínum þeirra.

19. Aðaláfrýjendur telja það enn fremur styðja kröfu sína að í leigusamningi og afsali hafi spildan verið talin nálægt 2,5 ha að stærð. Þannig sé hún skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár og hafi gagnáfrýjandi borið skatta og skyldur af henni í samræmi við þá stærð. Spilda sú sem kröfugerð aðaláfrýjenda afmarki sé 3,07 ha og því nokkru stærri en áætlað hafi verið við sölu hennar. Kröfugerð gagnáfrýjanda miðist hins vegar við að spildan sé 9,5 ha sem samræmist engan veginn leigusamningi eða afsali.

20. Aðaláfrýjendur telja að uppdráttur sem fylgt hafi kaupsamningi þeirra um jörðina Brú árið 1991 hafi enga þýðingu í málinu. Honum hafi einkum verið ætlað að afmarka þá spildu sem seljandi hélt eftir við kaup þeirra á jörðinni. Gagnáfrýjandi hafi ekki verið aðili að þessum samningi og ónákvæmni í afmörkun á hinni keyptu jörð á þeim uppdrætti geti ekki skapað henni rétt til stærri spildu en heimildarskjöl hafi tilgreint.

21. Af hálfu aðaláfrýjenda er byggt á því að niðurstaða Landsréttar gangi gegn hlutverki dómstóla en með henni séu aðilar málsins skildir eftir á byrjunarreit. Slík niðurstaða í landamerkjamáli geti leitt til þess að ágreiningur um landamerki þurfi að fara margítrekað fyrir dóm með tilheyrandi kostnaði þar til aðilum tekst að afmarka kröfulínur sem séu dómstólum þóknanlegar. Í málinu sé deilt um landamerki og hvorir aðila um sig hafi sett fram viðurkenningarkröfu í aðalsök og gagnsök í héraði sem afmarki ágreining þeirra. Rétt hefði verið að dómurinn kæmist að niðurstöðu innan þess svigrúms sem kröfur málsaðila heimiluðu. Með þeim hætti teldist dómurinn ekki fara út fyrir kröfur málsaðila, sbr. dóm Hæstaréttar 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005.

Helstu málsástæður gagnáfrýjanda

22. Gagnáfrýjandi kveðst byggja aðalkröfu sína á áðurnefndum leigusamningi, afsali og uppdrætti sem þessum löggerningum fylgdu. Hún telur að túlka beri lýsingu á merkjum spildunnar í leigusamningi á þann veg að merki hennar að vestan og austan fylgi miðlínu farvega þeirra straumvatna sem vísað sé til. Spildan liggi því að landamerkjum þeirra nágrannajarða sem tilgreindar séu í leigusamningnum. Þótt orðalagið í honum sé örlítið frábrugðið því sem er í landamerkjabréfi jarðarinnar Brúar hafi merking orðanna verið sú sama. Því verði að líta svo á að miðlína farveganna hafi átt að ráða merkjum. Spildan og jörðin Brú eigi því aðeins merki saman að norðanverðu. Gagnáfrýjandi hafi lagt fram yfirlýsingu þinglýstra eigenda aðliggjandi jarða annarra en Brúar um að spildan eigi mörk að jörðunum um farvegi og uppdráttur hafi fylgt þeirri yfirlýsingu. Þar sem landamerki við aðliggjandi jarðir séu samkvæmt því óumdeild hafi ekki borið nauðsyn til að stefna eigendum þeirra.

23. Rétt skýring á orðalagi leigusamningsins um merki spildunnar og jarðarinnar Brúar sé í samræmi við þá meginreglu sem gildi í íslenskum rétti að þar sem fallvatn skilji að landareignir teljist merkin um miðjan farveg þess nema önnur lögmæt skipan hafi verið gerð á. Reglu þessa hafi upphaflega verið að finna í 56. kafla landsleigubálks Jónsbókar og sé nú í 1. mgr. 3. gr. vatnalaga. Af dómaframkvæmd megi ráða að eigi að víkja frá henni þurfi heimildir um önnur landamerki að vera skýrar og afdráttarlausar.

24. Gagnáfrýjandi telur að merki spildunnar séu í samræmi við þann uppdrátt sem hafi verið hluti af afsali og kaupsamningi aðaláfrýjenda þegar þau keyptu jörðina árið 1991. Þar hafi landamerki Brúar og spildunnar að norðanverðu verið færð inn á loftmynd í beina línu í miðjan Brúarlæk og Tungufljót og ekki gert ráð fyrir að jörðinni tilheyrði neitt land vestan eða austan við spilduna.

25. Gagnáfrýjandi byggir jafnframt á því að sú skipan merkja sem felist í kröfugerð aðaláfrýjenda myndi fela í sér að þau teldust eiga mjóar landræmur meðfram farvegum beggja vegna spildunnar milli hennar og nágrannajarða. Sú niðurstaða væri í andstöðu við meginreglur skipulags- og umhverfisréttar og órökrétt bæði að formi og efni. Sveitarstjórn og jarðanefnd hefði tæplega verið heimilt að staðfesta samninginn þannig skýrðan. Þá vísar gagnáfrýjandi til 1. mgr. 10. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 en samkvæmt ákvæðinu skuli skipta landi þannig að land hverrar jarðar eða jarðarparts verði sem mest í samhengi og sem skipulegast.

26. Gagnáfrýjandi mótmælir því að það hafi þýðingu við úrlausn málsins að girt hafi verið á spildunni. Einungis girðingu á norðurhlið spildunnar hafi verið ætlað það hlutverk að vera landamerkjagirðing. Öðrum girðingum hafi verið ætlað að afmarka skógræktarsvæði innan spildunnar til að verja það ágangi búfjár sem þá hafi gengið laust um sveitir og síðar fyrir hrossabeit. Ákvæði í leigusamningi um girðingu hafi einungis verið heimildarákvæði en ekki kvöð um að afmarka spilduna með landamerkjagirðingu enda engin þörf á því nema að norðanverðu þar sem árfarvegir hafi að öðru leyti skilið hana frá löndum annarra.

27. Gagnáfrýjandi telur að sú niðurstaða Landsréttar að varakrafa hennar kæmist ekki að í málinu hafi verið röng þar sem hún hafi rúmast innan aðalkröfu. Í öllu falli hefði Landsréttur getað komist að þeirri niðurstöðu sem í varakröfunni fólst með sömu rökum og lágu henni til grundvallar.

Niðurstaða

Niðurstaða um formhlið

28. Fyrir Landsrétti hafði gagnáfrýjandi sem fyrr segir uppi þá varakröfu að merki spildu hennar yrðu miðuð við nýja hnitsetta kröfulínu og byggði á því að sú afmörkun væri í samræmi við útlínur spildunnar á loftmynd þeirri sem var hluti af leigusamningi og afsali um hana. Varakrafan var ekki höfð uppi í héraði og komu hnit hennar ekki fram í kröfugerðinni en þau var að finna á nýjum uppdrætti sem lagður var fram fyrir Landsrétti. Á uppdrættinum kom fram að hann væri unninn af Loftmyndum ehf. og að flatarmál spildunnar næmi 4,4 ha. Spildan sem þessi kröfulína afmarkar fellur að öllu leyti innan þeirrar spildu sem aðalkrafa gagnáfrýjanda miðast við. Varakrafan er jafnframt studd fyrirliggjandi sönnunargögnum.

29. Þegar aðilar landamerkjamáls gera hvor um sig í aðalsök og gagnsök kröfu um tiltekin merki milli landareigna þeirra hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið talið að ekkert sé því til fyrirstöðu að dómstóll ákveði mörk þeirra innan krafna málsaðila þótt hvorugur þeirra hafi staðsett kröfulínu með þeim hætti. Um þetta vísast til dæmis til dóma Hæstaréttar 23. september 1999 í máli nr. 17/1999 og 16. mars 2015 í máli nr. 174/2015. Í síðarnefnda málinu höfðu málsaðilar gert sjálfstæðar kröfur hvor fyrir sitt leyti um landamerki jarða sinna en jafnframt lýst þeirri afstöðu að dómara væri heimilt innan marka dómkrafna þeirra að ákveða landamerkin með öðrum hætti en þar væri gert ef það þætti fært á grundvelli framlagðra gagna. Héraðsdómari vísaði kröfum aðalstefnenda í héraði frá dómi en sýknaði þá af kröfum gagnstefnanda. Í dómi Hæstaréttar í kærumáli vegna frávísunarinnar sagði meðal annars að ekki yrði séð að aðilarnir hefðu látið hjá líða að afla tiltækra gagna um merki milli „jarða“ þeirra. Við svo búið gætu dómstólar ekki vikist undan að fella efnisdóm á málið, eftir atvikum að því undangengnu að dómari gæfi aðilunum kost á að leggja fyrir hnitasetningu eða aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt væri að afmarka merkin nægilega í dómi.

30. Eins og málatilbúnaði aðila var háttað samkvæmt framansögðu var Landsrétti unnt að taka afstöðu til varakröfunnar við úrlausn málsins. Jafnframt hefði rétturinn getað komast að þeirri niðurstöðu um merki spildunnar og jarðarinnar Brúar sem varakrafan fól í sér þótt engin slík krafa hefði komið fram. Á sama hátt er Hæstarétti í samræmi við fyrrnefnda dómaframkvæmd sína unnt að ákvarða landamerkin innan þess svigrúms sem kröfugerðir beggja málsaðila veita með hliðsjón af þeim málsástæðum og sönnunargögnum sem varakrafan byggist á.

31. Gagnáfrýjandi kveðst miða aðalkröfu sínu við að merki spildunnar að austan og vestan séu miðlína farvega vatnsfalla og spildan liggi þar með að merkjum grannjarða. Gagnáfrýjandi hefur lagt fram ódagsetta yfirlýsingu sína og eigenda aðliggjandi jarða, Gýgjarhóls 1 og 2 og jarðarinnar Brúarhvamms, þar sem þeir staðfesta að ekki sé ágreiningur um staðfest landamerki jarða þeirra samkvæmt hnitsettum landamerkjapunktum. Aðaláfrýjendur hafa ekki undirritað þessa yfirlýsingu. Í henni er vísað til hnitsetts uppdráttar af spildunni 17. maí 2018 sem áritaður er af sömu aðilum. Hnitsett kröfulína samkvæmt aðalkröfu gagnáfrýjanda er í samræmi við þennan uppdrátt.

32. Eins og dómkröfur og málatilbúnaður aðila eru úr garði gerð og þar sem ágreiningslaust virðist samkvæmt framansögðu hvar landamerki grannjarða gagnvart þrætusvæðinu liggja bar ekki nauðsyn til að stefna eigendum þeirra. Er þar til þess að líta að dómur í máli bindur að jafnaði aðeins þá sem eiga aðild að því, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er því tilefni til að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Niðurstaða um efnishlið

33. Kröfulínur aðaláfrýjenda miðast að norðan við girðingu sem var á þeirri hlið hinnar umþrættu spildu þegar leigusamningurinn var gerður árið 1983. Að austan miðast hún að hluta við girðingarbút sem þar var þegar spildan var leigð en að öðru leyti að austan og vestan, þar til kröfulínur koma saman í suðri, við girðingu sem leigutaki girti eftir að hann tók spilduna á leigu en áður en hann varð eigandi hennar árið 1989. Óumdeilt er að kröfulínur aðaláfrýjenda miðast þannig við hnitpunkta sem fylgja girðingu sem afmarkar 3,07 ha spildu.

34. Kröfulínur samkvæmt aðalkröfu gagnáfrýjanda miðast að norðan við fyrrnefnda girðingu sem kröfulína gagnaðila miðar við en áfram í beina línu til austurs í Brúarlæk og í beina línu til vesturs í miðjan fornan farveg Tungufljóts. Að austan fylgja kröfulínur miðjum farvegi Brúarlækjar og að vestan miðjum fornum farvegi Tungufljóts þar til þessir farvegir mætast í suðri. Kröfulínur gagnáfrýjanda að vestan taka nánar tiltekið mið af merkjalínu sem aðaláfrýjendur, sem eigendur Brúar, og eigandi Víkurmýrar sem nú er hluti jarðarinnar Gýgjarhóls 2 og óumdeilt er í máli þessu að fylgi miðlínu hins forna farvegar Tungufljóts. Kröfulínur gagnáfrýjanda samkvæmt aðalkröfu afmarka um það bil 9,5 ha spildu.

35. Kröfulínur samkvæmt varakröfu gagnáfrýjanda eru dregnar á uppdrætti í gegnum hnitsetta punkta og er ætlað að endurspegla uppdrátt á loftmynd þeirri sem fylgdi fyrrnefndum leigusamningi sem vísað var til í afsali um spilduna frá árinu 1989. Sá uppdráttur sýnist í stórum dráttum hafa átt að fylgja jaðri eða mörkum umræddra farvega þannig að sú landspilda sem hann afmarkar virðist hafa verið gróið holt eða tangi sem Brúarlækur og Tungufljót hafa ekki spillt. Kröfulínurnar fylgja aftur á móti ekki miðlínu umræddra farvega og munar þar mjög miklu, sérstaklega að vestan. Stærð spildunnar er um 4,4 ha.

36. Í leigusamningi um spildu gagnáfrýjanda var henni lýst á þann veg að hún takmarkist „að austan af farvegi lækjar, sem liggur á mörkum Brúar og Gýgjarhóls, að vestan af gömlum farvegi Tungufljóts á mörkum Brúar og Bryggju, en að sunnan þar sem farvegir þessir koma saman”. Þar sagði enn fremur að spildan væri nálægt 2,5 ha að stærð. Sama tilgreining á stærð spildunnar kom fram í afsalsbréfi sem þáverandi eigandi Brúar gaf út til eiginmanns gagnáfrýjanda en hann hafði fengið spilduna á leigu sex árum áður svo sem fyrr er lýst.

37. Í 1. mgr. 3. gr. vatnalaga segir um merki landareigna í lækjum og ám að ef á eða lækur skilji landareignir eigi hvort land í miðjan farveg, miðað við að ekki sé vöxtur í vatni, nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð. Í 2. mgr. greinarinnar segir að merki breytist eigi þótt farvegur breytist. Almennt er litið svo á að sá sem heldur því fram að víkja skuli frá miðlínureglunni beri sönnunarbyrði fyrir því og að heimildir um annað þurfi að vera skýrar og afdráttarlausar, sbr. dóma Hæstaréttar 21. janúar 2010 í máli 224/2009 og 12. júní 2014 í máli nr. 609/2013.

38. Þótt afmörkun spildunnar í leigusamningnum sé ekki í fullkomnu samræmi við lýsingu á landamerkjum jarðarinnar Brúar og aðliggjandi jarða í landamerkjabréfi frá árinu 1885 og þar sé heldur ekki vísað til þess að miðjir farvegir ráði merkjum verður tilvísunin um að þau takmarkist að austan „af farvegi lækjar, sem liggur á mörkum Brúar og Gýgjarhóls“ og að vestan „af gömlum farvegi Tungufljóts á mörkum Brúar og Bryggju“ að öðru jöfnu skilin með þeim hætti að spildan nái að landamerkjum Brúar og þessara tveggja jarða í miðjum umræddum farvegum komi ekki fleira til. Í því sambandi er til þess að líta að framangreind túlkun á merkjum samkvæmt leigusamningi er í engu samræmi við útlínur spildunnar samkvæmt uppdrætti á þeirri loftmynd sem fylgdi leigusamningi og afsali og skeikar þar miklu. Jafnframt er stærð spildunnar samkvæmt aðalkröfu gagnáfrýjanda margfalt stærri en áætlað var í leigusamningi og afsali.

39. Þess eru ýmis dæmi í dómaframkvæmd að tilgreining á landstærð í samningi ráði ekki ein og sér úrslitum um merki eigi hún sér ekki næga stoð í öðrum sönnunargögnum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 21. maí 2015 í máli nr. 579/2014. Þótt málsaðilar séu sammála um að stærð spildunnar hafi ekki verið nákvæmlega tilgreind í leigusamningi og afsali verður ekki fram hjá þeirri staðreynd litið að kröfulína gagnáfrýjanda afmarkar nærri fjórfalt stærri spildu en tilgreind var í þessum löggerningum. Í því sambandi er einnig rétt að líta til þess að afsalshafi spildunnar hafði haft hana á leigu í sex ár þegar afsalið var gefið út og hefði því verið í lófa lagið að lagfæra tilgreiningu á stærð spildunnar í afsalinu ef hann taldi hana stærri en 2,5 ha.

40. Við ákvörðun um landamerki spildunnar og jarðarinnar Brúar verður að túlka ákvæði um merki og stærð spildunnar í afsali um hana frá árinu 1989 og leigusamningi frá árinu 1983 og meta gildi þess uppdráttar sem var hluti af þessum löggerningum. Þessa löggerninga verður að meta heildstætt með hliðsjón af lagafyrirmælum og öðrum fyrirliggjandi sönnunargögnum sem varpað geta ljósi á þann skilning sem rétt er að leggja í þá.

41. Það sem einkum styður grundvöll aðalkröfu gagnáfrýjanda til viðbótar skriflegri lýsingu á merkjum í leigusamningi er að á uppdrætti á loftmynd sem vísað var til í kaupsamningi og afsali um jörðina Brú frá árinu 1991 voru merki hennar og spildunnar dregin með svipuðum hætti og kröfulína gagnáfrýjanda. Til þess ber að líta að merki spildu gagnáfrýjanda höfðu verið ákveðin áður en aðaláfrýjendur keyptu jörðina. Á uppdrættinum eru útlínur hinnar keyptu jarðar augljóslega dregnar með grófum línum til norðurs og suðurs, þar á meðal að þrætusvæði þessa máls. Þá var í þessum samningi fyrst og fremst vísað um merki til landamerkjabréfs. Tilgangur uppdráttarins virðist meðal annars hafa verið að afmarka jarðarskika sem seljandi hélt eftir við sölu jarðarinnar. Þessi uppdráttur gefur því ekki glögga vísbendingu um afstöðu seljanda jarðarinnar til merkja spildu gagnáfrýjanda.

42. Þá liggur fyrir yfirlýsing eigenda nágrannajarðanna Brúarhvamms og Gýgjarhóls 1 og 2 frá árinu 2018 þar sem þau „staðfesta landamerki milli jarða“ sinna. Þar er vísað til loftmyndar þar sem kröfulína gagnáfrýjanda virðist dregin upp. Enn fremur liggur fyrir bréf eiganda Gýgjarhóls 2 frá 15. nóvember 2021 en þar vísar hann meðal annars til samtals við eiginmann gagnáfrýjanda um að seljandi spildunnar hafi tjáð honum að „hann skyldi hafa allt að mörkum á móti Víkurmýri eins og í afsalinu stæði“. Yfirlýsingin og efni bréfsins eru hins vegar í andstöðu við yfirlýsingu sem aðaláfrýjendur voru fengin til að undirrita um merki í tengslum við kaup sama manns í október 2003 á svokallaðri Víkurmýri sem liggur að merkjum jarðarinnar Brúar um fyrrnefnda miðlínu í farvegi Tungufljóts. Með yfirlýsingunni samþykktu þau að öllu leyti landamerkjalýsingu Víkurmýrar. Eigandi hinnar umdeildu spildu var ekki fenginn til að undirrita yfirlýsinguna, svo sem fyrr var lýst, og samrýmist það vart síðari yfirlýsingum eiganda Gýgjarhóls 2 og dregur verulega úr sönnunargildi þeirra.

43. Gagnáfrýjandi hefur ekki rennt haldbærum stoðum undir þá málsástæðu sína að tilgreining á stærð spildunnar í leigusamningi og afsali og afmörkun hennar á loftmynd hafi verið til komin vegna misskilnings um merki jarðarinnar Brúar til vesturs. Þessari málsástæðu verður hafnað þegar af þeirri ástæðu að kaupandi spildunnar hafði haft hana á leigu í um sex ár áður en hann fékk henni afsalað.

44. Samkvæmt framansögðu er verulegt og óútskýrt ósamræmi milli ákvæða leigusamnings og afsals um lýsingu á merkjum annars vegar og hins vegar afmörkunar spildunnar á loftmynd. Sama máli gegnir um stærð þeirrar spildu sem merkjalýsingin svarar til og áætlaðrar stærðar hennar í leigusamningi og afsali. Er þetta ósamræmi svo verulegt að ekki verður byggt á hinni skriflegu lýsingu á merkjunum. Verður því ekki fallist á aðalkröfu gagnáfrýjanda.

45. Kröfulínum samkvæmt varakröfu gagnáfrýjanda er sem fyrr segir ætlað að endurspegla uppdrátt á loftmynd sem fylgdi leigusamningi og afsali um spilduna. Af hálfu aðaláfrýjenda er ekki fallist á að kröfulínurnar endurspegli þann uppdrátt. Eins og aðaláfrýjendur hafa bent á er stærð spildu þeirrar sem kröfulínur í varakröfunni afmarka 4,4 ha sem er talsvert stærra land en þeir 2,5 ha sem stærð spildunnar var áætluð í leigusamningi. Samkvæmt framansögðu samrýmist varakrafan heldur ekki lýsingu á merkjum spildunnar í leigusamningi og ber þar talsvert mikið á milli. Gagnáfrýjandi hefur því ekki rennt nægum stoðum undir að kröfulínur samkvæmt varakröfu eigi að réttu lagi að ráða merkjum. Verður því heldur ekki fallist á varakröfu gagnáfrýjanda.

46. Kröfulínur aðaláfrýjenda byggjast sem fyrr segir á því að merki spildunnar eigi að ákvarðast af girðingu þeirri sem var á norður- og hluta af austurmörkum spildunnar þegar leigutaki tók hana á leigu og þeirri girðingu sem hann girti til viðbótar umhverfis spilduna eftir að hann tók hana á leigu en áður en hann fékk henni afsalað.

47. Aðaláfrýjendur vísa til þess að í leigusamningnum hafi verið sérstök heimild til að girða hið leigða land og að spildan hafi verið girt í samræmi við ákvæði samningsins. Dómkrafa þeirra miði að mestu leyti við ytri mörk þeirra farvega sem vísað sé til í leigusamningi og afsali. Þá telja þau að afmörkun spildunnar samkvæmt uppdrætti á loftmynd sem var hluti af leigusamningi og afsali sé í augljósu samræmi við kröfulínur þeirra. Loks vísa þau til þess að stærð þeirrar spildu sem kröfulínur þeirra afmarki svari best til þeirrar áætluðu stærðar spildunnar sem fram hafi komið í leigusamningi og afsali um hana.

48. Gagnáfrýjandi mótmælir því að umrædd girðing hafi verið reist á mörkum spildunnar, sbr. 5. grein leigusamningsins. Um hafi verið að ræða heimildarákvæði og hafi girðingin verið reist á spildunni til þess að friða ræktun á henni fyrir ágangi búfjár.

49. Framangreint ákvæði 5. greinar leigusamningsins er orðað með þeim hætti að: „Vilji leigutaki girða hið leigða land skal honum það heimilt á eigin kostnað.“ Orðalagið verður ekki skilið með öðrum hætti en þeim að leigutaka væri heimilt á eigin kostnað að girða af það land sem hann tók á leigu. Sem fyrr segir var fyrir girðing á norðurmörkum spildunnar og girðingarspotti út í læk á hluta að austanverðu. Verður ekki önnur ályktun dregin af þeirri girðingu sem leigutaki reisti til viðbótar þeirri sem fyrir var en að hann hafi með því nýtt sér heimild í leigusamningi til að girða land sitt af. Ekki virðast hafa verið gerðar athugasemdir við þetta girðingarstæði af hálfu eiganda Brúar. Í afsali um spilduna 10. ágúst 1989 var um merki spildunnar einungis vísað til leigusamningsins auk þess sem tilgreint var að spildan væri „c.a 2,5 ha“ að stærð. Þegar spildunni var afsalað hafði kaupandi þegar haft hana á leigu í sex ár og var vísað til þess í afsali. Hann var því í sömu aðstöðu og eigandi Brúar til að átta sig á stærð spildunnar og merkjum hennar.

50. Sú málsástæða gagnáfrýjanda að tilgangur með girðingunni hafi fyrst og fremst verið að verja ræktun á spildunni fyrir ágangi búfjár hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins enda hefði þeim tilgangi einnig verið náð með því að girða af stærri spildu. Í ljósi framangreinds getur hentugt girðingarstæði heldur ekki skýrt með viðhlítandi hætti staðsetningu hennar.

51. Fullyrðingar málsaðila um landnýtingu utan girðingar eru ekki samþýðanlegar og önnur sönnunargögn varpa ekki skýru ljósi á hana. Því er ekki fram komin í málinu sönnun um að notkunin hafi verið með þeim hætti að áhrif geti haft á niðurstöðu málsins.

52. Með vísan til alls framangreinds og að teknu tilliti til þess að umrædd girðing sem leigutaki spildunnar reisti að stórum hluta eftir að hann tók hana á leigu umlykur um 3 ha spildu eða lítillega stærra land en áætlað var í leigusamningi og girðingin ekki fjarri útlínum uppdráttar á loftmynd sem fylgdi með leigusamningi og afsali verður komist að þeirri niðurstöðu að með staðsetningu girðingarinnar, án athugasemda af hálfu leigusala, hafi leigutakinn í verki staðfest skilning sinn á því hver væru merki spildunnar. Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á dómkröfur aðaláfrýjenda um merki jarðar þeirra og spildu gagnáfrýjanda.

53. Þar sem veruleg vafaatriði eru í málinu er rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að málskostnaður á öllum dómstigum falli niður.

Dómsorð:

Viðurkennt er að merki jarðarinnar Brúar í Bláskógabyggð, í eigu aðaláfrýjenda, Margeirs Ingólfssonar og Sigríðar Jóhönnu Guðmundsdóttur, gagnvart spildu gagnáfrýjanda, Ólafar Hansínu Friðriksdóttur, með landnúmerið 167220, afmarkist samkvæmt línu sem liggur úr punkti 100 (a-hnit: 439103,056 / n-hnit: 423603,743) í punkt 101 (a-hnit: 439205,625 / n-hnit: 423485,549), þaðan í punkt 102 (a-hnit: 439151,992 / n-hnit: 423388,479), þaðan í punkt 103 (a-hnit: 439014,398 / n-hnit: 423323,654), þaðan í punkt 104 (a-hnit: 439032,487 / n-hnit: 423436,910), þaðan í punkt 105 (a-hnit: 439019,416 / n-hnit: 423511,884) og loks aftur í punkt 100.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.