Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/2021

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Lukasz Soliwoda (Guðbjarni Eggertsson lögmaður) og Tomasz Walkowski (Haukur Örn Birgisson lögmaður)
, (Hilmar Gunnarsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Refsiákvörðun
  • Tafir á meðferð máls
  • Miskabætur

Reifun

L og T voru sakfelldir fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við A án hennar samþykkis með því að beita hana ólögmætri nauðung. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot L og T hefðu verið alvarleg og beinst gegn ungri stúlku sem hefði verið stödd ein og ölvuð um nótt á heimili ókunnugra manna og að þeim hefði ekki getað dulist að um barn var að ræða. Þá var að nokkru litið til tafa sem hefðu orðið á rannsókn lögreglu. Var refsing L og T ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem þeim var hvorum um sig gert að greiða A 1.800.000 krónur í miskabætur.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2021. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

3. Ákærði Lukasz Soliwoda krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög heimila og sú refsing verði bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

4. Ákærði Tomasz Walkowski krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakrafa verði lækkuð.

5. Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærðu verði hvorum um sig gert að greiða henni 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2017 til 27. júní 2019 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar hins áfrýjaða dóms um kröfuna.

Ágreiningsefni

6. Með ákæru héraðssaksóknara 2. maí 2019 var ákærðu gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 4. febrúar 2017 haft samfarir við A án hennar samþykkis. Hefðu ákærðu beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu sína þar sem hún var stödd með ókunnugum mönnum fjarri öðrum og sökum aldurs- og þroskamunar. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

7. Ákærðu voru sakfelldir fyrir brot í samræmi við ákæru með héraðsdómi 22. nóvember 2019, að því frátöldu að ekki var fallist á að atvik hefðu gerst fjarri öðrum. Var refsing þeirra ákveðin þriggja ára fangelsi. Ákærðu var auk þess hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.300.000 króna miskabætur auk vaxta. Með dóminum var þriðji maður sem einnig var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola umrædda nótt sýknaður.

8. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en refsing þeirra ákveðin fangelsi í tvö ár og þeim hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.500.000 króna miskabætur auk vaxta.

9. Að ósk ríkissaksóknara var veitt leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Í ákvörðun réttarins 2. febrúar 2021 sagði að mikilvægt væri að fá úrlausn um ákvörðun viðurlaga í því, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar kom einnig fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu væri að hluta byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, vitna og brotaþola en það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. sömu laga.

Málsatvik og meðferð máls

10. Brotaþoli leitaði til neyðarmóttöku Landspítala 4. febrúar 2017 og hófst rannsókn málsins með tilkynningu til lögreglu sama dag. Eins og greinir í héraðsdómi hitti brotaþoli þá um nóttina ungan pilt í miðbæ Reykjavíkur. Síðar um kvöldið hringdi pilturinn í ákærða Tomasz sem var á bifreið umrædda nótt og sóttu ákærðu piltinn og brotaþola þar sem þau voru við tónlistarhúsið Hörpu. Þaðan fóru þau fjögur í bifreiðinni að heimili ákærðu en þeir og pilturinn leigðu hver sitt herbergið í kjallara fjölbýlishúss. Þegar þangað var komið dvöldu þau fyrst um sinn í herbergi ákærða Tomasz og drukku þar bjór saman. Hafði ákærði Tomasz samræði við brotaþola eftir að hinir höfðu yfirgefið herbergið. Í framhaldi af því hafði ákærði Lukasz samræði við brotaþola í sínu herbergi. Að því loknu fór brotaþoli í herbergi unga piltsins en að skammri stundu liðinni yfirgaf hún húsnæðið og hringdi í móður sína sem sótti hana um klukkan fjögur um nóttina. Um hádegisbil næsta dag sagði brotaþoli móður sinni frá því sem gerst hafði og leitaði hún í kjölfarið til neyðarmóttöku Landspítala.

11. Með héraðsdómi voru ákærðu sakfelldir fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og var refsing þeirra ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þeir voru taldir hafa misnotað sér ástand og aðstæður ungrar stúlku í því skyni að ná fram vilja sínum og engu skeytt um velferð hennar. Ættu þeir sér engar málsbætur. Brot ákærðu voru talin alvarleg og ófyrirleitin og til refsiþyngingar var litið til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Brotaþoli hefði verið 16 ára þegar atvik gerðust og brot ákærðu sérstaklega þungbær í ljósi þess hvernig atvikum var háttað og því bæði litið til a- og c-liðar 195. gr. laganna við ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af alvarleika brota ákærðu væru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu þeirra þrátt fyrir að meðferð málsins hefði dregist úr hófi. Þannig hefðu 27 mánuðir liðið frá því að brot ákærðu voru framin og þar til ákæra vegna málsins var gefin út en ákærðu yrði ekki kennt um þann drátt.

12. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu hefðu gerst sekir um nauðgun með því að hafa hvor um sig haft samfarir við brotaþola gegn vilja hennar og til þess beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að notfæra sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar og þeirra aðstæðna sem hún var í þar sem hún var ein og ölvuð með þremur ókunnugum og sér eldri mönnum á heimili þeirra. Voru brot ákærðu talin réttilega heimfærð til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Vísað var til röksemda héraðsdóms fyrir refsingu ákærðu en sérstaklega til 1. töluliðar 70. gr. og a-liðar 195. gr. sömu laga. Refsing ákærðu var ákveðin fangelsi í tvö ár, meðal annars með vísan til þess að óhóflegur dráttur hefði orðið á málsmeðferðinni sem ákærðu yrði ekki kennt um.

Niðurstaða

Krafa um sýknu

13. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu byggist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, vitna og brotaþola. Það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu til refsiákvæða.

Ákvörðun refsingar

14. Í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga segir að refsing þess sem brýtur gegn ákvæðinu sé fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum. Dómstólar hafa svigrúm til ákvörðunar refsingar fyrir brot gegn ákvæðinu innan fyrrgreindra refsimarka, en við ákvörðun refsingar er litið til málavaxta með heildstæðum hætti. Í VIII. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um almenn atriði sem hafa áhrif á refsihæð og í 1. mgr. 70. gr. laganna eru tiltekin í níu töluliðum atriði sem einkum á að taka til greina við ákvörðun refsingar. Sérstakar refsiþyngingarástæður eiga jafnframt við þegar um brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga er að ræða, sbr. 195. gr. almennra hegningarlaga. Segir þar að við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 194. gr. skuli virða til þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára, sbr. a-lið ákvæðisins, ef ofbeldi geranda er stórfellt, sbr. b-lið þess, og ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, sbr. c-lið.

15. Brot ákærðu voru alvarleg og beindust gegn ungri stúlku sem stödd var ein og ölvuð um nótt á heimili ókunnugra manna. Gat þeim ekki dulist að um barn væri að ræða en ákærði Tomasz er nítján árum eldri en brotaþoli og ákærði Lukasz fimmtán árum eldri. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi beittu ákærðu brotaþola ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburðastöðu sína sökum aldurs- og þroskamunar og þeirra aðstæðna sem stúlkan var í og höfðu gegn vilja hennar samræði við hana sem stóð yfir í nokkuð langan tíma. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 61/2007, en með 5. gr. þeirra var 195. gr. almennra hegningarlaga í núverandi mynd lögleidd, segir um a-lið greinarinnar að það segi sig sjálft að ungir þolendur hafi lítinn sálfræðilegan og líkamlegan styrk til þess að verjast nauðgunum. Tiltölulega lítið ofbeldi eða lítilfjörleg hótun geti því virkað mjög ógnvekjandi gagnvart börnum. Séu markmið með lögfestingu ákvæðisins meðal annars að leggja áherslu á hve alvarleg kynferðisbrot gegn börnum væru og ámælisverð og að það skyldi virða til þyngingar refsingu ef þolandi væri barn yngra en 18 ára. Verður samkvæmt framansögðu tekið mið af því við ákvörðun refsingar ákærðu að brotaþoli var sextán ára þegar ákærðu brutu gegn henni. Brot ákærðu fólust jafnframt í samræði við brotaþola og fellur það undir að vera sérlega meiðandi aðferð og sársaukafull í skilningi c-liðar 195. gr. almennra hegningarlaga þegar um barn er að ræða við þessar aðstæður. Verður litið til fyrrgreindra atriða við ákvörðun refsingar ákærðu sem og til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Ákærðu eiga sér engar málsbætur.

16. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ber sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma. Í greinargerð með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 segir að mat á því hvað telst hæfilegur tími velti mjög á atvikum hvers máls en unnt sé að hafa nokkur atriði til hliðsjónar þegar metið er hvort ástæður séu fyrir seinagangi í rekstri dómsmáls sem verði taldar réttlætanlegar. Í fyrsta lagi getur komið til álita hvort mál er sérstaklega umfangsmikið og flókið og hvort sönnunargagna er þörf sem erfitt getur reynst að afla, til dæmis ef þörf er verulegs fjölda vitna. Í öðru lagi getur skipt máli hverjum er um að kenna að rekstur dómsmáls dregst úr hófi og í þriðja lagi eru gerðar meiri kröfur til að mál gangi hratt fyrir sig ef telja má að úrlausn þess sé sérstak¬lega mikilvæg fyrir þann sem í hlut á.

17. Í 2. málslið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að þeir sem rannsaka sakamál skuli hraða meðferð mála eins og kostur er. Sama skylda hvílir samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 18. gr. laganna á ákærendum. Þá er í 1. mgr. 171. gr. sömu laga mælt fyrir um að hraða skuli meðferð máls fyrir dómi eftir föngum. Kröfunni um að leyst sé úr máli innan hæfilegs tíma er ætlað að stuðla að trausti almennings til réttarvörslukerfisins og jafnframt að vernda aðila gegn óhóflegum drætti á meðferð máls og í sakamálum sérstaklega ætlað að koma í veg fyrir að sakborningur sé of lengi í óvissu um réttarstöðu sína. Við mat á því hvort brotið hefur verið gegn rétti sakaðs manns til að fá leyst úr ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma ber að líta til atvika í hverju máli fyrir sig með hliðsjón af umfangi og eðli þess, hvort tafir eru á ábyrgð sakaðs manns eða stjórnvalds sem hefur haft málið til meðferðar og hvort úrlausn þess er sérstaklega mikilvæg fyrir þann sem í hlut á, sbr. til dæmis dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 10. maí 2011 í máli nr. 48059/06 og 2708/09, Dimitrov og Hamanov gegn Búlgaríu.

18. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt yfirlit yfir feril rannsóknar málsins. Rannsókn lögreglu hófst 4. febrúar 2017 og stóð yfir fram í miðjan maí sama ár þegar hlé varð á henni. Af gögnum málsins má þó ráða að í október 2017 hafi lögregla átt samskipti við réttargæslumann brotaþola sem setti fram bótakröfu 25. þess mánaðar. Í mars 2018 var rannsókninni fram haldið og var málið sent héraðssaksóknara 8. október sama ár. Ákæra var gefin út 2. maí 2019 og var fyrsta fyrirtaka héraðsdóms 27. sama mánaðar. Héraðsdómur var kveðinn upp 22. nóvember sama ár. Áfrýjunarstefna var gefin út 10. desember 2019, greinargerðir ákærðu og ákæruvaldsins bárust Landsrétti í júní 2020 og fór aðalmeðferð fram í nóvember sama ár. Hinn áfrýjaði dómur var svo kveðinn upp 11. desember það ár.

19. Við mat á því hvort um er að ræða tafir sem áhrif eigi að hafa við ákvörðun refsingar verður annars vegar að meta í heild hvort málsmeðferðartíminn frá upphafi rannsóknar telst úr hófi langur og hins vegar hvort óafsakanlegar tafir hafa orðið á málsmeðferð á einstaka stigum hennar. Hefur í þeim efnum verið litið til umfangs lögreglurannsóknar, sbr. dóm Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 223/2015, og jafnframt hvort lögregla láti hjá líða að grípa til nauðsynlegra úrræða til að geta lokið rannsókn máls, sbr. dóm réttarins 25. september 2008 í máli nr. 96/2008. Hafi mál tafist á upphafsstigum málsmeðferðar er jafnframt sérlega brýnt að ekki verði frekari tafir við dómsmeðferð þess, sbr. dóm réttarins 29. janúar 2015 í máli nr. 336/2014. Þá hefur verið talið sérstaklega brýnt að meðferð og rannsókn máls sé hraðað eins og kostur er ef sakborningur sætir gæsluvarðahaldi, sbr. dóma réttarins 11. september 2009 í máli nr. 521/2009 og 7. mars 2014 í máli nr. 162/2014.

20. Fjögur ár og fjórir mánuðir eru liðnir síðan rannsókn lögreglu hófst og er málið nú til meðferðar á þriðja dómstigi. Samkvæmt framangreindu liðu 27 mánuðir frá því að rannsókn málsins hófst og þar til ákæra var gefin út. Fyrir liggur að hlé varð að mestu á rannsókninni um tíu mánaða skeið, auk þess sem ákæra var gefin út sjö mánuðum eftir að málið barst ákæruvaldi. Rannsókn málsins var ekki mjög yfirgripsmikil þótt hún beindist að þremur sakborningum en brýnt var að henni væri hraðað eins og kostur var þar sem við brotum ákærðu liggja þungar refsingar. Á hinn bóginn sættu ákærðu hvorki gæsluvarðhaldi né farbanni á tímabilinu eða öðrum þungbærum takmörkunum á réttindum sínum. Þá verður ekki talið að sá tími sem leið frá því að málið barst héraðssaksóknara þar til ákæra var gefin út hafi verið úr hófi. Þá hefur eðlilegur framgangur verið í meðferð málsins á þremur dómstigum. Að öllu þessu gættu verður með hliðsjón af dómaframkvæmd að nokkru litið til framangreindra tafa á rannsókn lögreglu við ákvörðun refsingar ákærðu. Þegar þetta er virt og með tilliti til alvarleika brota ákærðu gagnvart barni og þeirrar refsingar sem liggur við háttsemi þeirra samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga verður refsing þeirra, hvors um sig, ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákvörðun miskabóta

21. Bótakrafa brotaþola barst lögreglu 25. október 2017. Með henni kröfðust þáverandi lögráðamenn brotaþola, fyrir hönd hennar, greiðslu 5.000.000 króna miskabóta óskipt úr hendi þriggja sakborninga auk vaxta. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að dæma ákærðu sameiginlega bótaskylda þar sem ekki væri á því byggt í ákæru að um samverknað þeirra hefði verið að ræða. Voru ákærðu hvor um sig dæmdir til að greiða brotaþola 1.300.000 króna miskabætur auk vaxta. Fyrir Landsrétti krafðist brotaþoli þess að ákærðu yrðu dæmdir til að greiða henni 5.000.000 króna miskabætur auk vaxta. Ekki var tilgreint í kröfunni hver hlutur hvors ákærðu skyldi vera í þeirri kröfufjárhæð. Allt að einu var í hinum áfrýjaða dómi komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu skyldu hvor um sig greiða brotaþola 1.500.000 króna miskabætur auk vaxta.

22. Fyrir Hæstarétti gerir brotaþoli kröfu um að ákærðu verði hvorum um sig gert að greiða henni 2.500.000 króna miskabætur að viðbættum vöxtum. Hvað sem líður framsetningu kröfu brotaþola fyrir Landsrétti verður talið að krafan, eins og hún er nú sett fram, komist að fyrir Hæstarétti. Er þá litið til þess að í henni felst í reynd að upphaflegri óskiptri bótakröfu á hendur ákærðu er skipt upp og breyting á kröfugerð þeim því til hagsbóta.

23. Í kynferðisbroti felst brot gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklings til friðhelgi einkalífs samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem veldur miska þeim er fyrir verður. Með miskabótum er brotaþola bættur sá andlegi miski sem hann verður fyrir við kynferðisbrot á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í brotum ákærðu fólst ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði og persónu brotaþola í skilningi þessa ákvæðis. Við mat á fjárhæð bóta verður meðal annars litið til alvarleika verknaða ákærðu og þeirra afleiðinga sem brotin hafa haft á hagi brotaþola.

24. Brot ákærðu voru framin við auðmýkjandi aðstæður gagnvart brotaþola sem þá var barn að aldri. Ákærðu brutu báðir gegn kynfrelsi hennar þar sem hún var ein með þremur ókunnugum og sér eldri mönnum á heimili þeirra og stóðu brot ákærðu yfir í nokkuð langan tíma. Hvorutveggja var til þess fallið að auka enn á vanlíðan hennar við atburðinn og eftir hann. Í málinu liggja fyrir upplýsingar sérfræðinga um hvaða afleiðingar brotið hefur haft á andlega heilsu hennar en einnig er rétt að taka mið af þeim afleiðingum sem ætla verður að brotið muni hafa í för með sér á líf hennar til framtíðar eftir því sem hún mun öðlast meiri þroska, sbr. dóm Hæstaréttar 7. október 1999 í máli nr. 217/1999. Brot ákærðu voru þannig til þess fallin að hafa stórfelldan miska í för með sér fyrir brotaþola og má ráða af málsgögnum að þau hafa haft umtalsverðar afleiðingar, en þar verður ekki greint á milli afleiðinga brota hvors ákærðu fyrir sig. Þá verður jafnframt litið til þess að brotaþoli er í enn viðkvæmari stöðu þar sem hún hefur verið greind á einhverfurófi en telja verður að það hafi leitt til alvarlegri afleiðinga fyrir brotaþola, sbr. dóm réttarins 2. maí 2002 í máli nr. 52/2002.

25. Að öllu framangreindu virtu verður ákærðu hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.800.000 króna miskabætur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

26. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

27. Ákærðu verður í samræmi við 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Lukasz Soliwoda, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði, Tomasz Walkowski, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærðu greiði hvor fyrir sitt leyti brotaþola, A, 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2017 til 27. júní 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði Lukasz greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar lögmanns, 992.000 krónur.

Ákærði Tomasz greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar lögmanns, 992.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins samtals 434.480 krónur, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnarssonar lögmanns, 311.250 krónur.