Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2022

Þríforkur ehf. (Styrmir Gunnarsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Vátryggingarskilmálar
  • Vátrygging
  • Brunatrygging
  • Uppgjör
  • Virðisaukaskattur
  • Viðurkenningarkrafa

Reifun

Ágreiningur aðila fyrir Hæstarétti laut að bótarétti Þ ehf. úr brunatryggingu tilgreindrar fasteignar hjá S hf. sem brann árið 2017 og þýðingu skilmála í vátryggingarsamningi milli aðila um að bætur skyldu lækka ef vátryggður gæti nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar. Í dómi Hæstaréttar var rakið að málatilbúnað S hf. yrði að skilja á þann veg að Þ ehf. hefði borið að gera ráðstafanir hvort heldur fyrir eða eftir tjónsatburðinn til að uppfylla lagaskilyrði til að nýta og viðhalda innskattsfrádrætti vegna endurbyggingar hússins. Þannig hefði hvílt sú skylda á Þ ehf. að draga úr tjóni sínu með því að afla sér frjálsrar skráningar vegna leigu fasteignarinnar, áður en ráðist yrði í endurbyggingu hennar. Í dóminum kom fram að við mat á skilmálunum bæri fyrst að líta til reglu 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 um að vátryggður eigi rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt sé ekki um annað samið. Þá bæri að líta til þess að um einhliða staðlaða skilmála væri að ræða sem S hf. samdi. Samkvæmt svokallaðri andskýringarreglu bæri að jafnaði að skýra umdeilanleg ákvæði í vátryggingarskilmálum þeim í óhag sem samdi þau. Umrædd grein skilmálans yrði ekki skilin með svo afdráttarlausum hætti að á Þ ehf. hefði hvílt sérstök athafnaskylda til að gangast undir þær kvaðir sem frjáls skráning hefði í för með sér áður en endurbygging hófst. Hefði það verið markmið S hf. að leggja slíka skyldu á Þ ehf. í skilmálum samningsins hefði S hf. borið að orða hana með skýrum hættum. S hf. yrði að bera hallann af óljósu orðalagi greinarinnar um þetta atriði, enda ekki sýnt fram á að óvissu um merkingu þess hafi verið eytt gagnvart Þ ehf. með fullnægjandi hætti. Var því fallist á kröfu Þ ehf. um að ekki skyldi tekið tillit til lögbundins afreiknings vegna virðisaukaskatts við ákvörðun um vátryggingarbætur til félagsins vegna brunatjóns á fasteigninni.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2022. Hann krefst þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða sér 202.852.875 krónur í vátryggingarbætur hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignar að Goðanesi 12 á Akureyri á grundvelli brunatryggingar eignarinnar vegna brunatjóns 31. maí 2017. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda fyrir Hæstarétti.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur aðila fyrir Hæstarétti lýtur að bótarétti áfrýjanda úr brunatryggingu fasteignarinnar að Goðanesi 12 á Akureyri sem brann 31. maí 2017 og þýðingu skilmála í vátryggingarsamningi milli aðila um að bætur skuli lækka ef vátryggður getur nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar.

5. Þegar málið var höfðað tók ágreiningur aðila einnig til þess hver skyldi vera grundvöllur uppgjörs vátryggingarbóta til áfrýjanda og hvort stefnda væri heimilt að skerða bætur til hans á grundvelli 26. og 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um grundvöll bótaákvörðunar og 25% skerðingu bóta til áfrýjanda vegna brots á varúðarreglu í 26. gr. laga nr. 30/2004 svo og um lækkun bóta sem næmi lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 14. janúar 2022 á þeim grundvelli að úrlausn um þann þátt málsins sem lýtur að lækkun vátryggingarbóta vegna frádráttar virðisaukaskatts geti haft fordæmisgildi. Var áfrýjun málsins samþykkt að því er varðaði þetta atriði og einskorðast ágreiningsefni þess fyrir Hæstarétti samkvæmt framansögðu við það.

Málsatvik

7. Áfrýjandi er einkahlutafélag sem hefur meðal annars haft með höndum rekstur útgerðar og fiskvinnslu. Hann var eigandi iðnaðarhúsnæðis að Goðanesi 12 á Akureyri sem hann leigði út frá árinu 2013 og þar var starfrækt bátasmiðja. Eldur kom upp í húsinu 31. maí 2017 og brann það til grunna. Fasteignin að Goðanesi 12 var tryggð lögboðinni brunatryggingu hjá stefnda.

8. Í samræmi við skilmála tryggingarsamnings aðila lét stefndi fara fram tjónamat og tilkynnti áfrýjanda um niðurstöðu þess 3. október 2017. Samkvæmt því var tjónið talið nema 183.922.783 krónum án virðisaukaskatts. Þá tilkynnti stefndi áfrýjanda að félagið myndi skerða bæturnar um 50% með vísan til þess að umbúnaður fasteignarinnar á tjónsdegi hefði ekki verið í samræmi við gildandi reglur um brunavarnir. Loks var tekið fram að gæti vátryggður nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar, svo sem vegna innskatts eða réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts á hinu vátryggða, myndu bætur lækka sem því næmi, sbr. 9. grein gildandi vátryggingarskilmála stefnda fyrir brunatryggingar húseigna.

9. Áfrýjandi, sem hugðist endurreisa húsið, vildi ekki una ákvörðun stefnda og höfðaði því mál þetta 25. maí 2018. Dómkrafa áfrýjanda var að viðurkennd yrði með dómi skylda stefnda til að greiða honum 295.426.104 krónur í vátryggingarbætur hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignarinnar. Hann krafðist þess að vátryggingarbætur væru ákveðnar á grundvelli brunabótamats eignarinnar á tjónsdegi, að frádregnu verðmæti þeirra hluta hússins sem ekki eyðilögðust við brunann en að teknu tilliti til kostnaðar við nauðsynlegar lagfæringar. Þá mótmælti hann því að hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þannig að bótafjárhæð yrði skert. Framangreind fjárhæð í stefnu miðaðist ekki við að bætur lækkuðu sem næmi afreikningi vegna virðisaukaskatts.

10. Á meðan málið var rekið í héraði gerði áfrýjandi samning 3. september 2018 við félagið Festingu ehf. um kaup þess á fasteigninni Goðanesi 12 og var kaupverðið 90.000.000 króna. Í kaupsamningnum kemur fram að atvinnuhúsnæði sem stóð á lóðinni hafi eyðilagst í eldi og eftir standi gólfplata hússins. Tekið er fram að hinu selda fylgi ekki réttindi áfrýjanda til vátryggingarbóta úr hendi stefnda vegna brunans en um brunatjónið skuli gert sérstakt samkomulag sem teljist hluti samningsins. Í því segir meðal annars að þar sem skylda til greiðslu brunabóta sé háð því að húsnæði verði endurbyggt og með tilliti til hagsmuna seljanda af innheimtu brunabótanna takist kaupandi á hendur tilgreindar skyldur í því sambandi. Á sama hátt væri það forsenda af hálfu seljanda að kaupandi reisi hús á hinu selda. Samkvæmt gögnum málsins gerði Festing ehf. samning við Tréverk ehf. í ágúst 2021 um byggingu nýrrar þjónustumiðstöðvar Samskipa að Goðanesi 12 á Akureyri og voru verklok áætluð í júní 2022.

11. Niðurstaða héraðsdóms var að áfrýjandi ætti tilkall til brunabóta óháð því hver hefði endurbyggingu húseignarinnar með höndum. Samkvæmt dómsorði var stefnda „skylt að greiða ... Þríforki ehf. 163.591.028 krónur í vátryggingarbætur vegna brunatjóns 31. maí 2017 hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignarinnar að Goðanesi 12.“ Við ákvörðun bótafjárhæðar var lagt til grundvallar brunabótamat eignarinnar daginn sem hún brann en til lækkunar kom afskrifað endurstofnverð samkvæmt matsgerð. Hlutfall skerðingar bóta vegna ófullnægjandi brunavarna var ákveðið 25%. Þá var áfrýjanda gert að sæta frádrætti sem næmi lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts. Um það var vísað til ákvæðis 9. greinar vátryggingarskilmála stefnda sem talin voru alveg skýr um skyldu vátryggðs til að sæta frádrætti vegna innskatts og ekki léki vafi á að fasteignin að Goðanesi 12 væri hrein atvinnueign eða eign ætluð til afnota við atvinnurekstur.

12. Með hinum áfrýjaða dómi var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Um lækkun bóta vegna frádráttar virðisaukaskatts var tekið fram að engin efni væru til að víkja frá ákvæði 9. greinar vátryggingarskilmála brunatryggingar stefnda og því skyldu bætur til áfrýjanda sæta lækkun sem næmi lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

13. Áfrýjandi byggir á því að vátryggingarvernd hans eigi að svara til fjárhæðar iðgjalda hans til stefnda og sömu reikniaðferðum skuli beitt þegar fjárhæð iðgjalds er reiknuð og þegar reiknuð er fjárhæð brunabóta. Hefði ætlun og skilningur stefnda verið sá að halda virðisaukaskatti utan vátryggingarverndar hefði honum borið að tilgreina það í vátryggingarskírteini þar sem vátryggingarfjárhæð kemur fram.

14. Þá vísar áfrýjandi til þess að fyrir brunann 31. maí 2017 hafi ekki hvílt virðisaukaskattskvöð á fasteigninni. Húsnæðið hafi verið leigt út og leiguverðið án viðbætts virðisaukaskatts, enda sé fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 8. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Í 7. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt sé mælt fyrir um að húsbyggjandi geti talið til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við nýbyggingu eða endurbyggingu á fasteign sem ætluð er til nota fyrir skráða starfsemi sem hefur í för með sér rétt til frádráttar á innskatti. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar teljist húsnæði sem sé leigt út hins vegar ekki notað fyrir skattskyldan rekstur nema leigusali hafi skráð sig frjálsri skráningu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988.

15. Það sé alls ekki sjálfsagt að eigandi fasteignar sem leigi hana út nýti þessa heimild við endurbyggingu, enda leiði nýting hennar til þess að 20 ára innskattskvöð myndist á eigninni, sbr. 12. og 14. gr. reglugerðarinnar eins og henni var breytt með reglugerð nr. 1237/2015. Í framkvæmd þýði slík innskattskvöð að ríkissjóður greiði byggingaraðila til baka fjárhæð sem jafngildi greiddum virðisaukaskatti af kostnaði við byggingarframkvæmd. Endurgreiðslan sé í reynd í formi láns, enda sé byggingaraðili skuldbundinn í 20 ár til að endurgreiða ríkissjóði fjárhæðina að teknu tilliti til 5% árlegra afskrifta ef forsendubrestur verður. Áfrýjandi hafi valið þann kost að sækja ekki um frjálsa skráningu eins og heimilt væri sem fyrr greinir samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1988.

16. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms leiði til þess að vátryggður sitji uppi með verulega íþyngjandi kvöð á fasteigninni til 20 ára og hluta tjóns síns ef forsendur hans í rekstri breytast. Þá fari niðurstaðan gegn dómi Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 490/1999 um að vátryggður verði ekki knúinn til að taka á sig jafn íþyngjandi kvöð og innskattskvöð til að takmarka tjón sitt eða sækja um frjálsa skráningu samkvæmt reglum um innskatt.

17. Áfrýjandi telur að skilja verði ákvæði 9. greinar skilmála stefnda um að vátryggður geti nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar þannig að vísað sé til aðstæðna vátryggðs á tjónsdegi en ekki að hann verði knúinn til að taka á sig kvaðir stefnda til hagsbóta. Inntak samningsskilmála 9. greinar eigi sér ekki stoð í lögum nr. 30/2004 eða lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar og fari auk þess þvert gegn 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Helstu málsástæður stefnda

18. Stefndi mótmælir málsástæðum áfrýjanda sem lúta að fjárhæð iðgjalda sem of seint fram komnum en á þeim hafi ekki verið byggt fyrr. Auk þess er þeim hafnað sem röngum enda komi skýrlega fram í 8. til 10. grein skilmála vátryggingarinnar hvernig tjón skal metið og bótafjárhæð reiknuð út. Einnig er mótmælt staðhæfingum áfrýjanda um að öll gögn frá stefnda geri ráð fyrir því að virðisaukaskattur sé hluti vátryggingarbóta.

19. Geti vátryggður nýtt sér kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar, svo sem vegna innskatts eða réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á hinu vátryggða, skuli lækka bætur sem því nemi eins og skýrlega komi fram í 9. grein vátryggingarskilmála stefnda. Á öllum vátryggingarskírteinum sem gefin hafi verið út vegna brunatryggingar áfrýjanda hafi hann verið sérstaklega hvattur til að kynna sér efni skilmála vátryggingarinnar.

20. Stefndi telur að efni 9. greinar vátryggingarskilmálanna um að lækka skuli bætur sem nemi virðisaukaskatti sé bæði skýrt og fyrirsjáanlegt og samræmist lögum nr. 30/2004 og 48/1994. Það sé auk þess í samræmi við þær grundvallarreglur skaðabóta- og vátryggingaréttar að tjónþoli fái raunverulegt tjón sitt bætt en skuli ekki hagnast á því og honum beri jafnframt að takmarka tjón sitt. Áfrýjandi hafi samkvæmt því undirgengist skyldu til að nýta og viðhalda innskattsfrádrætti vegna endurbyggingar. Atvik sem áfrýjandi vísi til í dómi Hæstaréttar í máli nr. 490/1999 séu ekki sambærileg atvikum máls þessa enda hafi þar ekki verið tekist á um gildi vátryggingarskilmála. Líta beri til dóms Hæstaréttar 28. apríl 2005 í máli nr. 34/2005 sem staðfesti að réttur til að lækka bætur sem nemi mögulegum innskatti verði að styðjast við settan rétt eða samningsákvæði, en í þessu máli sé einmitt slíku ákvæði til að dreifa.

21. Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi stundað atvinnurekstur í fasteigninni og keypt vátrygginguna sem slíkur. Hann geti samkvæmt 3. gr., sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, talið virðisaukaskatt til innskatts hjá sér að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Sem virðisaukaskattskyldur aðili er verði fyrir tjóni á rekstrarfjármunum geti hann talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar og fleira til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts. Af þeirri ástæðu skuli bótafjárhæð miðast við kostnað vátryggðs án virðisaukaskatts. Þá eigi sala áfrýjanda á fasteigninni með þeim skilmálum að hann héldi eftir rétti til vátryggingarbóta ekki að hafa nein áhrif á rétt hans á hendur stefnda.

Niðurstaða

22. Ágreiningslaust er milli aðila að í kröfugerð áfrýjanda felist að hann leiti viðurkenningar á inntaki réttar til vátryggingarbóta úr hendi stefnda í samræmi við framvindu endurbyggingar á fasteigninni að Goðanesi 12. Krafa hans, sem er sett fram með stoð í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, feli þannig í sér að við uppgjör bóta til hans beri að leggja til grundvallar að bætur nemi tilgreindri fjárhæð og þær verði inntar af hendi eftir því sem endurbyggingu vindur fram svo sem skilmálar vátryggingarinnar kveða á um, sbr. einnig ákvæði 48. gr. laga nr. 30/2004.

23. Sem fyrr segir lýtur úrlausn málsins fyrir Hæstarétti aðeins að þeim þætti þess sem varðar lækkun vátryggingarbóta til áfrýjanda sem byggist á lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts, en sú fjárhæð nemur 39.261.847 krónum.

24. Sú málsástæða áfrýjanda að iðgjöld sem hann greiddi stefnda hafi tekið mið af vátryggingarfjárhæð sem tilgreind er á vátryggingarskírteini með virðisaukaskatti og því skuli beita sömu reikniaðferð við ákvörðun um fjárhæð brunabóta, kom fyrst fram í greinargerð hans fyrir Hæstarétti en ekki var á henni byggt við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti. Ekki eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 til að hún fái komist að fyrir Hæstarétti og verður því ekki byggt á henni við úrlausn málsins.

25. Samkvæmt ákvæðum k-liðar 2. gr. og 10. gr. laga nr. 30/2004 sem giltu á tjónsdegi, sbr. nú hliðstæð ákvæði í 18. tölulið 2. gr. og 12. gr. c laganna, er vátryggingarskírteini staðfesting vátryggingafélags á því að vátryggingarsamningur hafi verið gerður þar sem fram koma meðal annars upplýsingar um hvaða tryggingu sé að ræða, vátryggingartaka og vátryggðan. Þar skal vísa til skilmála samnings og jafnframt afhenda þá vátryggingartaka. Jafnframt skal þar koma fram sérstök árétting til vátryggingartaka um að hann kynni sér ákvæði skilmála vátryggingarinnar. Í vátryggingarskírteinum sem stefndi gaf út um brunatryggingu fasteignarinnar að Goðanesi 12 var lagafyrirmælum um efni slíkra skírteina fylgt. Þótt þar sé getið vátryggingarfjárhæðar hins vátryggða verður við ákvörðun bóta litið til skilmála tryggingarinnar sem vísað er til í skírteininu enda eru þeir hluti af samningi milli aðila og meðfylgjandi honum. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu áfrýjanda að tilgreining vátryggingarfjárhæðar á vátryggingarskírteini ráði úrslitum um bótafjárhæð og víki til hliðar fyrirmælum um takmörkun ábyrgðar eða öðru sem fram kemur í skilmálunum. Þá er ekki fallist á með áfrýjanda að önnur gögn frá stefnda hafi borið með sér að virðisaukaskattur ætti að vera hluti vátryggingarbóta, enda er í þeim gögnum víða að finna tilvísun til bóta „án vsk“.

26. Fyrir liggur í málinu að áður en húsið varð eldi að bráð leigði áfrýjandi það út til einkahlutafélagsins Seiglu sem rak þar bátasmiðju. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að Seigla og áfrýjandi eru félög í eigu sama aðila. Það veitir þó ekki hald þeirri staðhæfingu stefnda að áfrýjandi hafi sjálfur stundað virðisaukaskattskyldan atvinnurekstur í húsnæðinu og keypt vátrygginguna sem slíkur og fær það heldur ekki stoð í gögnum málsins.

27. Samkvæmt 8. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Áfrýjandi leigði fasteignina út sem fyrr segir og án þess að virðisaukaskattur væri hluti af leiguverði. Hann nýtti þannig ekki heimild samkvæmt 6. gr. sömu laga til að sækja um frjálsa skráningu vegna fasteignaleigunnar, en samkvæmt 2. mgr. þeirrar greinar skal fyrirtæki sem skráð er samkvæmt heimild í 1. mgr. greiða virðisaukaskatt af sölu þeirrar þjónustu sem hin frjálsa skráning nær til og samkvæmt 3. mgr. getur frjáls skráning aldrei verið til skemmri tíma en tveggja ára. Á grundvelli 6. gr. laganna hefur fjármálaráðherra sett reglugerð nr. 577/1989 um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Í 4. gr. reglugerðarinnar, eins og henni hefur verið breytt með reglugerð nr. 697/1997, segir að sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta hennar til skattskylds aðila samkvæmt virðisaukaskattslögum geti sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra og skuli fylgja umsókninni skriflegur leigusamningur, samþykki leigutaka fyrir frjálsri skráningu leigusala og vottorð um að leigusamningi hafi verið þinglýst. Frjáls skráning hefur í för með sér samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar að leigusali fasteignar getur talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur eftir skráninguna á kaup hans á vörum og þjónustu vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds þeirrar fasteignar sem frjáls skráning tekur til. Slíkum aðstæðum var ekki til að dreifa í tilviki áfrýjanda sem fyrr segir, hvorki þegar tjónsatburður varð né síðar.

28. Kemur þá til skoðunar hvernig túlka beri inntak og efni 9. greinar skilmála vátryggingarsamnings stefnda og áfrýjanda en 5. málsliður hennar hljóðar svo:

Ef vátryggður getur nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar, svo sem vegna innskatts eða réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á hinu vátryggða í kjölfar tjóns skulu bætur lækka sem því nemur.

29. Málatilbúnað stefnda um skýringu á þessu ákvæði vátryggingarskilmálanna verður að skilja á þann veg að áfrýjanda hafi borið að gera ráðstafanir hvort heldur fyrir eða eftir tjónsatburðinn til að uppfylla lagaskilyrði fyrir því að nýta og viðhalda innskattsfrádrætti vegna endurbyggingar hússins. Þannig hafi hvílt sú skylda á áfrýjanda að draga úr tjóni sínu með því að afla sér frjálsrar skráningar vegna leigu fasteignarinnar áður en ráðist yrði í endurbyggingu hennar.

30. Við mat á skilmálum vátryggingarsamnings milli aðila málsins ber fyrst að líta til þeirrar reglu sem fram kemur í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 að vátryggður eigi rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt sé ekki um annað samið. Þannig er aðilum vátryggingarsamnings frjálst að semja um efni hans, þar á meðal hvort uppgjöri tjóns skuli hagað með mismunandi hætti eftir því hvort hinn vátryggði rekur virðisaukaskattskylda starfsemi eða ekki, sbr. einnig fyrrgreindan dóm Hæstaréttar 28. apríl 2005 í máli nr. 34/2005.

31. Í annan stað ber að líta til þess að um einhliða staðlaða skilmála var að ræða sem stefndi samdi. Kjarni ágreinings aðila hverfist um túlkun 9. greinar að þessu leyti en orðalag hennar er ekki skýrt og fyrirsjáanlegt eins og stefndi heldur fram. Samkvæmt svokallaðri andskýringarreglu ber að jafnaði að skýra umdeilanleg ákvæði í vátryggingarskilmálum þeim í óhag sem samdi þau. Í reglunni felst jafnframt að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar verður að bera hallann af því að hafa ekki gert það, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. júní 2021 í máli nr. 5/2021.

32. Þá koma önnur atriði til skoðunar við skýringu 9. greinar skilmála stefnda. Þar ber einkum að líta til þess að ýmsar íþyngjandi lagaskyldur fylgja frjálsri skráningu á grundvelli 6. gr. laga nr. 50/1988 sem fyrr var lýst og ekki sjálfgefið að vátryggingartaki sem ekki er virðisaukaskattskyldur nýti þessa heimild til innskatts við endurbyggingu, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 490/1999. Skráningin leiðir meðal annars til þess að svokölluð innskattskvöð myndast á eigninni samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt, sbr. breytingar með reglugerð nr. 1237/2015, og fyrnist slík kvöð með jöfnum hætti á tuttugu árum frá því að innskattur var nýttur. Í IV. kafla reglugerðarinnar er þeim skyldum frekar lýst, meðal annars áhrifum þess að forsendur breytist en þá stofnast svokölluð leiðréttingarkvöð sem lýtur að skyldu skattaðila til að leiðrétta innskatt. Einnig ber að hafa í huga að þegar fasteignareigandi velur að sækja um frjálsa skráningu myndi það að jafnaði leiða til hærra leiguverðs á fasteigninni þar sem hann þarf þá að leggja virðisaukaskatt ofan á leiguverð en það getur þrengt möguleika hans til útleigu. Fasteignareigandi þarf því að vega og meta hvort sá kostur er honum hagfelldari en að sækja ekki um slíka skráningu.

33. Ætla verður að áfrýjandi hafi kosið að nýta sér ekki frjálsa skráningu í tengslum við leigu fasteignarinnar þar sem hann hafi talið sér það fjárhagslega hagkvæmt. Ákvæði 9. greinar vátryggingarskilmála stefnda um að bætur lækki, geti hinn vátryggði nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar, verða ekki skilin með svo afdráttarlausum hætti að á áfrýjanda hafi hvílt sérstök athafnaskylda til að gangast undir þær kvaðir sem frjáls skráning hefur í för með sér áður en endurbygging hófst. Slík skylda væri þá fyrst og fremst stefnda til hagsbóta vegna lækkunar á bótafjárhæð sem hann þyrfti að greiða áfrýjanda en að sama skapi íþyngjandi fyrir áfrýjanda. Hafi það verið markmið stefnda að leggja slíka skyldu á áfrýjanda í skilmálum samningsins hefði honum borið að orða hana með skýrum hættum. Sem fyrr greinir verður stefndi að bera hallann af óljósu orðalagi 9. greinar um þetta atriði, enda ekki sýnt fram á að óvissu um merkingu þess hafi verið eytt gagnvart áfrýjanda með fullnægjandi hætti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. mars 2010 í máli nr. 442/2009. Þá veita reglur laga um skattskil til ríkisins stefnda enga sjálfstæða heimild í þessu tilliti.

34. Stefndi hefur auk fyrrgreinds skilmála vísað til þeirrar grundvallarreglu skaðabóta- og vátryggingaréttar hvað skaðatryggingar varðar að tjónþola beri að takmarka tjón sitt og því hafi áfrýjanda borið að nýta og viðhalda innskattsfrádrætti vegna endurbyggingar. Með hliðsjón af þeim íþyngjandi lagaskyldum sem fylgja frjálsri skráningu gat stefndi ekki einhliða gert þá kröfu til áfrýjanda að hann aflaði sér frjálsrar skráningar hjá skattyfirvöldum vegna enduruppbyggingar á lóðinni. Verður samkvæmt framansögðu heldur ekki ályktað af 93. gr. laga nr. 30/2004 varðandi ráðstafanir hins vátryggða til að takmarka tjón sitt eða öðrum grundvallarreglum skaðabóta- og vátryggingaréttar að lækka beri vátryggingarbætur til áfrýjanda um fjárhæð sem nemi reiknuðum virðisaukaskatti af tjónsfjárhæð. Er til hliðsjónar vísað til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 490/1999.

35. Stefndi hefur ekki fært sönnur á staðhæfingar sínar um að greiðsla bótafjárhæðar að virðisaukaskatti meðtöldum leiði til þess að áfrýjandi muni hagnast á tjóninu enda liggur fyrir að hann er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi tengda fasteigninni og getur því ekki nýtt sér kostnað til skattafrádráttar. Verður ekki fallist á með stefnda að fái áfrýjandi brunatjónið bætt að fullu muni hann hagnast á kostnað ríkisins um fjárhæð sem nemi virðisaukaskatti af byggingarkostnaði.

36. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á kröfu áfrýjanda um að ekki skuli tekið tillit til lögbundins afreiknings vegna virðisaukaskatts við ákvörðun um vátryggingarbætur til hans vegna brunatjóns á fasteigninni að Goðanesi 12.

37. Sem fyrr segir leitar áfrýjandi viðurkenningardóms á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 en ekki aðfararhæfs dóms. Með vísan til þess er viðurkennd krafa áfrýjanda að við uppgjör bóta til hans beri að leggja til grundvallar að bætur nemi 202.852.875 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti 39.261.847 krónum, og að þær verði inntar af hendi hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignarinnar.

38. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennd er krafa áfrýjanda, Þríforks ehf., um að við uppgjör vátryggingarbóta frá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., beri að leggja til grundvallar að bætur nemi 202.852.875 krónum, sem verði inntar af hendi hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignar að Goðanesi 12 á Akureyri.

Stefndi greiði áfrýjanda 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.