Hæstiréttur íslands

Mál nr. 51/2021

Vátryggingafélag Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson lögmaður)
gegn
Pennanum ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Rekstrarstöðvunartrygging
  • Fyrning
  • Fyrningarfrestur
  • Lögskýring
  • Sönnun
  • Skipting sakarefnis

Reifun

Í málinu deildu aðilar um það hvort krafa P ehf. á hendur V hf., til greiðslu bóta úr rekstrarstöðvunartryggingu vegna tjóns 6. júlí 2014 við bruna í húsnæði verslunarinnar G, hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað í júní 2019. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga fyrndist krafa um bætur á fjórum árum og hæfist fresturinn við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem væru grundvöllur kröfu hans. Orðalag ákvæðisins yrði ekki skilið með þeim hætti að endanleg kröfugerð vátryggðs þyrfti að liggja fyrir eða öll atvik sem gætu haft áhrif á endanlega bótafjárhæð. Af vátryggingarskilmálum V hf. væri ljóst að lengd raunverulegs bótatímabils væri einn þeirra þátta sem gæti haft hvað mest áhrif á fjárhæð bóta og þar með á grundvöll bótakröfu vátryggðs. Bótatímabilið hefði verið hálfnað í árslok 2014 þegar P ehf. sendi V hf. kröfubréf sem miðaði við 12 mánaða rekstrarstöðvun með þeim fyrirvara að ákvörðun hefði ekki verið tekin um að hefja rekstur G að nýju. Í svarbréfi V hf. hefði kröfum P ehf. verið hafnað sem ótímabærum á þeim grunni að gerð væri krafa um bætur fram í tímann og tjónið ekki fram komið. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að V hf. hefði leitað frekar eftir upplýsingum um hvort til stæði að endurreisa rekstur G eða knúið á um að P ehf. tæki slíka ákvörðun. Var V hf. látið bera hallann af því að ósannað væri að P ehf. hefði fyrir árslok 2014 haft nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem skipt gátu sköpum um afmörkun bótatímabilsins og voru grundvöllur kröfu hans í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004. Hinn áfrýjaði dómur var því staðfestur og viðurkennt að umrædd krafa hefði ekki verið fyrnd þegar málið var höfðað.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2021. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Mál þetta lýtur að uppgjöri bóta úr rekstrarstöðvunartryggingu stefnda hjá áfrýjanda vegna tjóns 6. júlí 2014 við bruna á leiguhúsnæði verslunarinnar Griffils, Skeifunni 11 í Reykjavík. Undir rekstri málsins ákvað héraðsdómur að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði dæmt um varnir áfrýjanda um fyrningu og er sá ágreiningur einn til úrlausnar í þessum þætti málsins. Nánar tiltekið greinir aðila á um hvenær fyrningarfrestur á ætlaðri kröfu stefnda hafi tekið að líða.

5. Með héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að kröfur stefnda hefðu verið fyrndar þegar málið var höfðað 12. júní 2019 og var áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og féllst á viðurkenningarkröfu stefnda um að krafa sú sem hann kynni að eiga á hendur áfrýjanda hefði ekki verið fyrnd við málshöfðun.

6. Í sýknukröfu áfrýjanda felst í þessum þætti að viðurkennt verði að sú krafa sem stefndi kunni að eiga á hendur honum um bætur úr rekstrarstöðvunartryggingu vegna tjónsins sé fyrnd.

7. Áfrýjunarleyfi var veitt 26. nóvember 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um upphafstíma fyrningarfrests skaðatrygginga, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsatvik

8. Stefndi átti og rak á árinu 2014 verslunina Griffil í leiguhúsnæði í Skeifunni 11. Áfrýjandi gaf út vátryggingarskírteini til stefnda fyrir rekstrarstöðvunartryggingu vegna bruna, vatns og innbrots í verslunarhúsnæðinu og gilti hún fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2014. Í vátryggingarskírteininu var vísað til skilmála áfrýjanda númer ER20 um rekstrarstöðvunartryggingar. Óumdeilt er að tryggingin skyldi bæta tjón vegna rekstrarstöðvunar í allt að tólf mánuði.

9. Eldur kom upp í verslunarhúsnæði Griffils 6. júlí 2014 og gjöreyðilagðist fasteignin í brunanum.

10. Í samráði við áfrýjanda rak stefndi skólabókamarkað í Laugardalshöll frá 29. júlí 2014 og fram í september sama ár í þeim tilgangi að draga úr tjóni sínu. Uppgjör á framlegð vegna þess reksturs lá fyrir í nóvember 2014.

11. Í desember 2014 fól hvor málsaðili um sig sínum endurskoðanda að áætla framlegð stefnda eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur á vátryggingartímabilinu og komust þeir að svipaðri niðurstöðu um ætlaða framlegð.

12. Stefndi sendi áfrýjanda bréf 31. desember 2014 þar sem krafist var 104.840.962 króna bóta vegna áætlaðrar tapaðrar framlegðar verslunarinnar Griffils vegna brunans fyrir tímabilið 6. júlí 2014 til júní 2015, auk viðbótarkostnaðar vegna takmörkunar tjóns. Í bréfinu kom meðal annars fram að rekstur Griffils hefði ekki hafist að nýju utan tímabundins verslunarreksturs í Laugardalshöll og að stefndi hefði ekki tekið ákvörðun um hvort verslunin yrði sett upp að nýju.

13. Áfrýjandi svaraði bréfinu 12. janúar 2015 og mótmælti þeim forsendum sem bótakrafa stefnda var reist á með þeim rökum að þar væri ekki tekið tillit til þess fasta kostnaðar sem stefndi þyrfti ekki að greiða vegna þess að húsnæðið brann til grunna, svo sem húsaleigu. Áfrýjandi óskaði eftir upplýsingum frá stefnda um þann kostnað og hafnaði því að ganga til uppgjörs fyrr en þær lægju fyrir. Þá var vísað til þess að í fyrrgreindu bréfi stefnda væri krafist bóta fram í tímann og væri þeim hafnað í heild sinni sem ótímabærum enda tjónið ekki fram komið. Loks var óskað eftir upplýsingum um hvort fyrirhugað væri að setja upp nýja starfsstöð fyrir reksturinn og um ástæður þess ef svo væri ekki.

14. Stefndi veitti áfrýjanda þær upplýsingar sem óskað var eftir um fastan kostnað sem hefði sparast vegna brunans en ekki náðist samkomulag með aðilum um forsendur uppgjörs. Eftir bréfaskipti milli málsaðila í janúar og maí 2015 sendi áfrýjandi stefnda bréf 23. júlí sama ár sem fól í sér einhliða uppgjör bóta úr rekstrarstöðvunartryggingunni. Uppgjörið var byggt á forsendum áfrýjanda um uppgjörsaðferðir og greiddi hann stefnda bætur í samræmi við það. Stefndi hafnaði uppgjörinu 27. ágúst 2015 og krafðist þess að áfrýjandi endurskoðaði ákvörðun sína. Með bréfi 5. október 2015 kvaðst áfrýjandi hafa tekið málið til skoðunar á ný en ítrekaði fyrri afstöðu sína.

15. Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjanda 23. febrúar 2016 til heimtu bóta úr rekstrarstöðvunartryggingunni. Áfrýjandi var sýknaður með dómi héraðsdóms 13. október 2017 af endanlegri dómkröfu stefnda í því máli. Með dómi Hæstaréttar 21. júní 2018 í máli nr. 747/2017 var því máli vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar á bótakröfu. Mál þetta var höfðað 12. júní 2019.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

16. Áfrýjandi byggir á því að krafa stefnda sé fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og 16. grein í vátryggingarskilmálum áfrýjanda. Í báðum ákvæðum segi að krafa um bætur fyrnist á fjórum árum og fyrningarfresturinn hefjist við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Af orðalagi ákvæðanna megi ráða að ekki eigi að miða við það tímamark þegar vátryggður sé með tæmandi upplýsingar um þessi atvik þannig að fjárhæð kröfunnar liggi endanlega fyrir heldur nægi að hann sé með nauðsynlegar upplýsingar. Af athugasemdum með 1. mgr. 52. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 30/2004 og samanburði við eldra ákvæði um fyrningu megi ráða að ekki eigi að miða við það tímamark þegar unnt sé að meta endanlegt umfang tjónsins og þannig leita fullnustu kröfunnar heldur nægi að vátryggður hafi nægilega nákvæmar upplýsingar og útreikninga til þess að geta áttað sig á helstu afleiðingum þess. Allir liðir viðkomandi bótakröfu þurfi því ekki að vera endanlega komnir fram við upphaf fyrningarfrests.

17. Af hálfu áfrýjanda er vísað til þess að samkvæmt vátryggingarskilmálum sé bótakrafa úr rekstrarstöðvunartryggingu samsett úr þremur liðum, eftir því sem eigi við hverju sinni. Í fyrsta lagi reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur, sbr. grein 13.2. Í öðru lagi raunverulegri framlegð vegna þess að rekstri sé haldið áfram að einhverju leyti á bótatímabilinu en hún komi til frádráttar, sbr. grein 13.2. Í þriðja lagi rekstrarkostnaði sem féll niður við brunann og sparaðist samkvæmt því en hann komi til frádráttar, sbr. grein 13.3. Þessir þrír liðir séu grundvöllur kröfu um bætur fyrir rekstrarstöðvunartjón.

18. Áfrýjandi byggir á því að endurskoðandi stefnda hafi áætlað framlegð Griffils eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og afhent stefnda í desember 2014. Hafi áætlunin gert ráð fyrir tiltekinni tapaðri framlegð sem stefndi hafi lagt til grundvallar í kröfubréfi sínu 31. desember 2014. Þessi áætlun um helstu afleiðingar tjónsins hafi verið megingrundvöllur kröfunnar. Þá hafi raunveruleg framlegð stefnda á fyrstu sex mánuðum bótatímabilsins legið fyrir í lok árs 2014. Hann byggir á því að stefndi hafi í árslok 2014 talið sig vera með nægilega nákvæmar upplýsingar um raunverulega framlegð á bótatímabilinu sem draga bæri frá til þess að hann gæti gert kröfu um fullar bætur fyrir allt bótatímabilið. Það hafi hann gert, án nokkurs fyrirvara, þótt enn væru sex mánuðir eftir af því og hann ekki búinn að taka ákvörðun um frekari rekstur Griffils. Því verði að miða við að þær upplýsingar sem stefndi bjó yfir um þennan lið kröfunnar uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 til að fyrningarfrestur hefjist, enda sé gert ráð fyrir að hann geti hafist áður en endanlega er unnt að meta umfang tjóns. Hið sama eigi við um rekstrarkostnað sem féll niður við brunann og sparaðist á bótatímabilinu en þær upplýsingar hafi legið fyrir áður en bruninn varð.

19. Áfrýjandi telur niðurstöðu Landsréttar ranga þar sem upphaf fyrningarfrests er miðað við árslok 2015 á þeim grundvelli að í janúar það ár hafi enn verið til skoðunar að hefja aftur rekstur Griffils. Upphaf fyrningarfrests geti ekki miðast við tímamark sem stefndi afmarki einhliða sjálfur. Verði fallist á að fyrningarfrestur hefjist í fyrsta lagi þegar í ljós kemur hvort hefja á rekstur á ný á vátryggingartímabilinu verði að gera kröfu til þess að vátryggður sanni að hann hafi haft það raunverulega til skoðunar. Áfrýjandi telur að stefndi hafi ekki leitt þetta í ljós.

Helstu málsástæður stefnda

20. Stefndi vísar til þess að í málinu reyni á fyrningu krafna innan vátryggingarsamninga og beri að leysa úr því á grundvelli ákvæða laga nr. 30/2004, einkum 48. og 52. gr., en þau lög séu sérlög gagnvart ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

21. Stefndi telur bréf sitt 31. desember 2014 ekki eiga að ráða úrslitum um upphaf fyrningarfrests. Ótímabært hafi verið að senda kröfu á þeim tíma enda hafi þá ekki legið fyrir ákvörðun um hvort verslun Griffils yrði sett upp að nýju. Með bréfi áfrýjanda 12. janúar 2015 hafi þeim kröfum verið hafnað í heild sinni sem ótímabærum þar sem tjónið væri ekki komið fram. Auk þess hafi áfrýjandi kallað eftir frekari gögnum í því bréfi og aftur í maí 2015 og augljóslega talið að mikil óvissa væri um tjón stefnda.

22. Stefndi kveðst hafa haft mikinn hug á að hefja rekstur að nýju og verið vongóður um að það gæti gengið eftir. Reksturinn hafi hins vegar verið mjög háður staðsetningu verslunarinnar. Ekki hafi orðið ljóst fyrr en undir lok bótatímabilsins að ekki tækist að finna henni hentugt húsnæði. Rekstrarstöðvunartryggingin veiti vátryggðum eins árs svigrúm til þess að koma rekstri á fót að nýju og vátryggingafélag geti ekki gert kröfu um að slíkt sé ákveðið löngu áður en bótatímabili ljúki. Vátryggður verði ekki krafinn um sönnun þess að hann sé að leita sér að húsnæði undir rekstur sem stöðvast hafi og geti einhliða ákveðið að hefja rekstur á ný.

23. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 48. gr. laga nr. 30/2004 megi krefja vátryggingafélag um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til þess að meta vátryggingaratburð og ákveða fjárhæð bóta. Þá fyrst falli krafan í gjalddaga. Fyrningarfrestur geti því í þessu tilviki ekki hafa byrjað að líða fyrr en 13. janúar 2015 þegar fjórtán dagar voru liðnir frá því að kröfubréf var sent. Þá sé ekki unnt að leggja til grundvallar sömu sjónarmið um fyrningu innan vátryggingarsamninga og í almennum kröfurétti. Stefndi vísar jafnframt til þeirrar túlkunarreglu í vátryggingarétti að túlka skuli allan vafa í máli vátryggðum í hag.

Löggjöf og vátryggingarskilmálar

24. Um uppgjör vátryggingarbóta, fyrningu og fleira er fjallað í VIII. kafla laga nr. 30/2004. Í 1. mgr. 47. gr. laganna segir að við uppgjör bóta skuli vátryggður veita félaginu þær upplýsingar og þau gögn sem hann hefur undir höndum og félagið þarf til þess að meta ábyrgð sína og greiða bætur. Um fyrningu kröfu um vátryggingarbætur er fjallað í 52. gr. laganna. Í 1. mgr. greinarinnar er svohljóðandi regla um fyrningu krafna um aðrar bætur en á grundvelli ábyrgðartrygginga:

Krafa um bætur fyrnist á fjórum árum. Fresturinn hefst við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Krafan fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá lokum þess almanaksárs er vátryggingaratburður varð. Hafi félagið sent vátryggðum tilkynningu sem greinir í 2. mgr. 51. gr. fyrnist krafan fyrst þegar sá frestur líður sem þar er tilgreindur.

25. Í grein 16 í vátryggingarskilmálum áfrýjanda nr. ER20 um rekstrarstöðvunartryggingar er samhljóða ákvæði um fyrningu og í fyrstu tveimur málsliðum 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004.

26. Í 13. kafla vátryggingarskilmálanna er fjallað um ákvörðun bóta, þar á meðal í grein 13.1 um bótatímabil. Í grein 13.2 segir að tjónið nemi mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabili. Í grein 13.3 kemur þó fram að bætur séu aðeins greiddar fyrir raunverulegt tjón á bótatímabili sem tryggingin nái til og aðeins fyrir þann hluta af því sem eingöngu hafi orsakast af stöðvun þeirri eða samdrætti á rekstrinum sem átt hafi sér stað. Í grein 13.4 segir að sé ekki fyrirhugað að hefja starfsemi vátryggðs að nýju miðist bótafjárhæð við þann tíma sem eðlilegt megi telja að liðið hefði þar til rekstur gæti hafist að nýju en þó aldrei lengur en umsamið bótatímabil. Loks segir í grein 13.5 að hafi rekstur stöðvast varanlega af orsökum sem vátryggður ráði ekki við greiðist bætur samkvæmt grein 13.2 þó aldrei í lengri tíma en eðlilegt hefði mátt telja að liðið hefði þar til rekstur gæti hafist að nýju og aldrei lengur en umsamið bótatímabil.

Niðurstaða

27. Um fyrningu kröfu um bætur á grundvelli skaðatryggingar gildir sem fyrr segir 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004. Í ákvæðinu felst sérregla um lengd og upphaf fyrningarfrests en samkvæmt 3. mgr. greinarinnar gilda ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda að öðru leyti um fyrningu slíkra krafna, sbr. nú ákvæði laga nr. 150/2007. Samkvæmt þessu miðast upphaf fyrningarfrests kröfu stefnda við lok þess almanaksárs þegar hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans.

28. Ekki liggur fyrir dómaframkvæmd um túlkun 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 miðast upphaf fyrningarfrests kröfu um skaðabætur við þann dag er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Í 3. mgr. sömu greinar kemur skýrt fram að hún gildi ekki um kröfur sem eiga rót að rekja til samnings nema kröfur varðandi líkamstjón. Ljóst er samkvæmt framansögðu að 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 tekur til upphafs fyrningarfrests kröfu stefnda á hendur áfrýjanda vegna rekstrarstöðvunartjóns sem sprottin er af vátryggingarsamningi. Þar sem talsverður munur er á orðalagi þess ákvæðis og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 veitir dómaframkvæmd um síðarnefnda ákvæðið takmarkaðar vísbendingar um túlkun þess fyrrnefnda.

29. Í 29. gr. eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem leyst var af hólmi með 52. gr. gildandi laga, miðaðist upphaf fyrningarfrests kröfu samkvæmt vátryggingarsamningi við lok þess almanaksárs þegar kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 er ekki að finna vísbendingar um hvernig túlka beri orðalag 1. mgr. greinarinnar en gerð eftirfarandi grein fyrir ætluðum áhrifum breytinga frá eldra ákvæði:

Reglan er svipuð og regla 29. gr. VSL og mundi í flestum tilvikum leiða til sömu niðurstöðu. Hún leggur þó væntanlega stundum meiri skyldur á vátryggðan þar sem orðalagið gæti í einstaka tilvikum leitt til þess að fresturinn byrjaði að líða fyrr samkvæmt frumvarpsgreininni en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði gildandi laga. Regla sú sem hér er gerð tillaga um er skýrari þar sem hún miðast einungis við eitt tímamark en gerir ekki jafnframt áskilnað um að vátryggður þurfi að eiga þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar.

30. Enda þótt fram komi í athugasemdunum að regla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 sé svipuð og regla 29. gr. eldri laga og myndi í flestum tilvikum leiða til sömu niðurstöðu er til þess að líta að dómar Hæstaréttar um eldri lagaregluna lúta fyrst og fremst að túlkun á orðalaginu „átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“ en litið var svo á að í því fælist hlutlægur mælikvarði um upphaf fyrningarfrests. Með hliðsjón af framangreindum breytingum á ákvæðinu er ekki unnt að byggja á eldri dómaframkvæmd að þessu leyti.

31. Fyrirmæli 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 um upphaf fyrningarfrests verður fyrst og fremst að túlka eftir orðanna hljóðan. Orðalag ákvæðisins verður þó ekki skilið með þeim hætti að endanleg kröfugerð vátryggðs þurfi að liggja fyrir eða öll atvik sem áhrif geta haft á endanlega bótafjárhæð.

32. Til þess að fyrningarfrestur kröfu stefnda hefði getað byrjað að líða í árslok 2014 þurfti hann að hafa á því ári nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem voru grundvöllur kröfu hans um bætur fyrir tjón vegna rekstrarstöðvunar. Við afmörkun á því hver þau atvik voru sem stefndi þurfti að hafa nauðsynlegar upplýsingar um verður að líta til vátryggingarskírteinis, vátryggingarskilmála áfrýjanda og eðlis tryggingarinnar.

33. Ágreiningslaust er að eftirfarandi þrjú atriði teljast til atvika sem voru grundvöllur að kröfu stefnda um bætur úr rekstrarstöðvunartryggingunni og að hann hafi ekki síðar en í árslok 2014 haft nauðsynlegar upplýsingar um þau atriði:

a. Áætluð framlegð verslunarinnar Griffils eins og hún hefði orðið á bótatímabilinu miðað við ótruflaðan rekstur, sbr. grein 13.2 í vátryggingarskilmálum.
b. Raunveruleg framlegð vegna tímabundins reksturs skólabókamarkaðar í Laugardalshöll haustið 2014 en hún kemur til frádráttar lið a, sbr. grein 13.2 í vátryggingarskilmálum.
c. Rekstrarkostnaður sem féll niður við brunann og sparaðist samkvæmt því við tjónið en hann kemur til frádráttar lið a, sbr. grein 13.3 í vátryggingarskilmálum.

34. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að frekari upplýsingar hafi ekki verið nauðsynlegar fyrir stefnda til þess að leggja grundvöll að kröfu sinni, enda hafi hann sett fram bótakröfu með bréfi 31. desember 2014 sem tekið hafi til alls bótatímabilsins. Atvik sem varði bótatímabil geti ekki haft áhrif á grundvöll kröfu þótt þau gætu haft áhrif á endanlegan útreikning bóta. Stefndi telur aftur á móti að líta verði svo á að atriði sem hafi veruleg áhrif á lengd raunverulegs bótatímabils teljist meðal atvika sem séu grundvöllur kröfu hans. Þar með hafi þurft að liggja fyrir hvort verslun Griffils yrði sett upp að nýju til þess að fyrningarfrestur gæti hafist.

35. Um vægi raunverulegs bótatímabils sem grundvöll bótakröfu vísast til þess að í kafla 13 í vátryggingarskilmálum áfrýjanda sem gildir um ákvörðun bóta er meðal annars fjallað um bótatímabil og afmörkun þess við ákvörðun þeirra. Af því er ljóst að lengd raunverulegs bótatímabils er einn þeirra þátta sem getur haft hvað mest áhrif á fjárhæð bóta úr rekstrarstöðvunartryggingu og þar með á grundvöll bótakröfu vátryggðs. Atriði sem skipt geta sköpum um lengd raunverulegs bótatímabils hljóta því að vera meðal þeirra atvika sem vátryggður þarf að fá upplýsingar um til að geta lagt grundvöll að bótakröfu sinni.

36. Fái vátryggður nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem eru grundvöllur kröfu um bætur fyrir rekstrarstöðvunartjón, þar með talið framtíðartjón, áður en umsamið bótatímabil er á enda runnið er ekkert því til fyrirstöðu að fyrningarfrestur hefjist fyrir það tímamark. Dæmi um slíkt er þegar vátryggður fær, áður en bótatímabili lýkur, upplýsingar um að atvik séu með þeim hætti að starfsemi muni eða muni ekki hefjast að nýju fyrir lok umsamins bótatímabils. Hinu sama gegnir þegar ákvörðun hefur verið tekin um að hefja starfsemi að nýju en ljóst er að húsnæði undir rekstur verði ekki tilbúið á tímabilinu.

37. Í greinum 13.4 og 13.5 í vátryggingarskilmálum er beinlínis gert ráð fyrir því að raunverulegt bótatímabil geti orðið styttra en umsamið hámarksbótatímabil af ástæðum sem þar eru nefndar. Ljóst er af umræddum ákvæðum vátryggingarskilmála að vátryggðum er ekki ætlað sjálfdæmi um lengd raunverulegs bótatímabils. Með vísan til þessara samningsskilmála getur vátryggður heldur ekki einhliða með athöfnum sínum eða athafnaleysi fært upphaf fyrningarfrests aftur til loka umsamins bótatímabils.

38. Óumdeilt er að rekstrarstöðvunartrygging sú sem stefndi keypti hjá áfrýjanda tók að hámarki til rekstrarstöðvunar í 12 mánuði frá tjónsdegi. Þar sem húsnæði Griffils brann 6. júlí 2014 var bótatímabilið tæplega hálfnað í árslok 2014.

39. Í bréfi stefnda 31. desember 2014 til áfrýjanda kom fram að stefndi hefði ekki tekið ákvörðun um hvort verslunin yrði sett upp að nýju en kostnaður vegna þess væri innifalinn í vátryggingabótum vegna rekstrarstöðvunartryggingarinnar. Þá var tiltekið í bréfinu að ekki hefði náðst samkomulag við áfrýjanda um uppgjör á tjóninu. Enda þótt þar væri sett fram krafa sem miðaðist við 12 mánaða rekstrarstöðvun verður, með vísan til þeirra fyrirvara sem gerðir voru um að ákvörðun hefði ekki verið tekin um að hefja rekstur Griffils að nýju, ekki litið á bréfið sem sönnun þess að í árslok 2014 hafi stefndi haft nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem voru grundvöllur kröfu hans í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004.

40. Í svarbréfi áfrýjanda 12. janúar 2015 var ekki fallist á allar forsendur stefnda um uppgjör tjónsins og sagt þar orðrétt: „Í kröfubréfinu er gerð krafa um bætur fram í tímann og er þeim kröfum hafnað í heild sinni sem ótímabærum, enda tjónið ekki fram komið.“ Þá var vísað til þess að miðað við tölur um áætlaða framlegð og álagningu á vörum Griffils mætti ætla að mikill hagur hefði verið af því að finna nýtt atvinnuhúsnæði undir reksturinn. Óskað var eftir upplýsingum frá stefnda um hvort fyrirhugað væri að setja upp nýja starfsstöð til sölu á varningi verslunarinnar og skýringum á því ef svo væri ekki. Slíkar upplýsingar voru taldar geta skipt máli varðandi greiðslu á tjóni úr vátryggingunni og um það vísað til greina 13.4 og 13.5 í vátryggingarskilmálum.

41. Fyrir liggur að málsaðilar höfðu verið í samskiptum um afmörkun tjónsins og takmörkun á því haustið 2014. Ekki liggur þó fyrir að áfrýjandi hafi fyrr en í þessu svarbréfi gert reka að því að afla upplýsinga um hvort til stæði að hefja rekstur Griffils að nýju eða vikið að þýðingu greina 13.4 og 13.5 í vátryggingarskilmálum.

42. Í bréfi stefnda 23. janúar 2015 til áfrýjanda var greint frá því að stefndi hefði í hyggju að hefja rekstur Griffils að nýju. Slíkt þyrfti þó að skoða vandlega og skipti staðsetning miklu máli. Ekki hefði enn fundist hentugt húsnæði fyrir reksturinn. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að áfrýjandi hafi leitað frekar eftir upplýsingum um hvort til stæði að endurreisa rekstur Griffils. Þá verður ekki séð að áfrýjandi hafi knúið á um að stefndi tæki slíka ákvörðun. Í bréfi áfrýjanda 23. júlí 2015, þar sem uppgjör bóta úr rekstrarstöðvunartryggingunni var kynnt, var ekki byggt á styttingu bótatímabils og tjónið gert upp á forsendum áfrýjanda miðað við 12 mánaða rekstrarstöðvun.

43. Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir sönnun um hvort stefndi hafi í lok árs 2014 haft nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem gátu haft afgerandi áhrif á lengd raunverulegs bótatímabils. Við mat á því hvor málsaðila skuli bera sönnunarbyrði um hvort svo hafi verið er rétt að líta til þess að umsamið bótatímabil var tæplega hálfnað í lok desember 2014. Þá verður litið til þess að í framangreindum bréfaskiptum málsaðila árið 2015 var fjallað um fyrirætlanir stefnda um að hefja rekstur Griffils að nýju og þær hvorki dregnar í efa af hálfu áfrýjanda né knúið á um ákvörðun stefnda þar um. Ekkert liggur fyrir um að áfrýjandi hafi fyrir árslok 2014 komið því á framfæri við stefnda að tímabært væri að taka slíka ákvörðun. Þá verður sérstaklega litið til ummæla í svarbréfi áfrýjanda 12. janúar 2015 þess efnis að öllum kröfum stefnda væri hafnað þar sem þær væru ótímabærar og tjónið ekki fram komið. Með hliðsjón af þessu verður áfrýjandi að bera hallann af því að ósannað er að stefndi hafi fyrir árslok 2014 haft nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem skipt gátu sköpum um afmörkun bótatímabilsins og voru grundvöllur kröfu hans í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

44. Eftir úrslitum málsins er rétt að dæma áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Pennanum ehf., 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.