Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2021

A (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
B, D, E og G (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Óvígð sambúð
  • Dánarbú
  • Frávísunarúrskurður Landsréttar felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem kröfu A um að viðurkenndur yrði réttur hennar til helmings allra nettóeigna dánarbús H var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa A hefði verið til umfjöllunar á þremur skiptafundum dánarbúsins án þess að athugasemdir hefðu komið fram um form hennar á þeim vettvangi. Taldi dómurinn að grundvöllur málatilbúnaðar A væri nægilega skýr um það að hún teldi sig hafa öðlast hlutdeild í þeirri eignaaukningu sem varð á sambúðartímanum. Loks var bent á að mótmæli varnaraðila við gögnum sem lögð hefðu verið fram af hálfu A og málsástæðum reistum á þeim vörðuðu efnishlið málsins og leiddu ekki til frávísunar þess. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 10. maí 2021 þar sem kröfu sóknaraðila um að viðurkenndur verði réttur hennar til helmings allra nettóeigna sem skráðar eru á dánarbú H var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1990 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Sóknaraðili var sambýliskona H sem lést 31. júlí 2019. Lögerfingjar hans eru sex systkini hans og fengu þau leyfi til einkaskipta 27. ágúst 2019. Með bréfi 28. nóvember sama ár til héraðsdóms kröfðust þau opinberra skipta á dánarbúinu. Var fallist á kröfuna í úrskurði héraðsdóms Suðurlands 15. janúar 2020. Lögerfingjar ábyrgjast skuldir dánarbúsins.

6. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með bréfi til skiptastjóra 19. mars 2020 og krafðist helmings af hreinni eign búsins auk þess sem krafist var viðurkenningar á ábúðarrétti hennar. Því var mótmælt af hálfu varnaraðila með bréfi 24. mars 2020.

7. Á skiptafundi dánarbúsins 2. apríl 2020 var fjallað um kröfulýsingu sóknaraðila án þess að sættir næðust. Krafan var einnig rædd á skiptafundi 8. sama mánaðar og bókað að skiptastjóri myndi vísa ágreiningnum til úrlausnar hjá héraðsdómi. Enn var bókað um ágreininginn á skiptafundi 21. apríl 2020 þar sem fram kom að skiptastjóri myndi vísa ágreiningi aðila um kröfu sóknaraðila um að henni tilheyrði helmingur „af nettó eignum dánarbús [H] og að hún hafi ábúðarrétt á jörðunum [...], [...] og [...]“ til héraðsdóms. Á fyrrgreindum skiptafundi var meðal annars bókað um þá afstöðu sóknaraðila að hún hefði ekki samþykkt að skiptastjóri hefði „opna heimild til að ráðstafa þeim eignum sem tilheyrðu [H] og [A] á sambúðartíma þeirra“. Af því tilefni var bókað af hálfu lögmanns lögerfingja að staða sóknaraðila væri „alveg óráðin og krafa hennar um að hún sé eigandi helmings eigna dánarbúsins á leið til úrlausnar í dóm“.

8. Í bréfi skiptastjóra 5. maí 2020 til héraðsdóms sagði að ágreiningur aðila væri þríþættur. Í fyrsta lagi hvort helmingur af „nettó eignum“ dánarbúsins tilheyrði sóknaraðila, í öðru lagi hvort sóknaraðili hefði ábúðarrétt á jörðunum [...], [...] og [...] sem væru eign dánarbúsins og í þriðja lagi hvort sóknaraðila væri skylt að greiða fyrir afnot af þeim húsum á [...] sem hún hefði haft til umráða auk rekstrarkostnaðar þeirra. Málið barst héraðsdómi 6. maí 2020 og voru upphaflegir varnaraðilar sex lögerfingjar dánarbúsins. Með bréfum 14. september 2020 lýstu tveir þeirra því yfir að þeir féllu frá varnaraðild sinni og lýstu jafnframt yfir stuðningi við kröfur sóknaraðila. Hefur málið þar eftir verið rekið milli sóknaraðila og fjögurra lögerfingja dánarbúsins.

9. Með úrskurði héraðsdóms 9. mars 2021 var fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti hennar til helmings allra nettóeigna sem skráðar eru á dánarbúið, en kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á ábúðarrétti vísað frá dómi. Þá var sóknaraðila gert að greiða helming rekstrarkostnaðar íbúðarhússins að [...] frá 1. janúar 2020 þar til skiptum væri lokið.

10. Í úrskurði Landsréttar 10. maí 2021 kom fram að sóknaraðili hefði gert líklegt að töluverð fjárhagsleg samstaða hefði verið með henni og sambýlismanni hennar þrátt fyrir að þau hefðu ekki talið sameiginlega fram til skatts, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Hins vegar hafi sóknaraðili krafist helmings af öllum nettóeignum dánarbúsins óháð því hvort þær eignir hefðu orðið til fyrir eða eftir að sambúð þeirra hófst. Af gögnum málsins mætti ráða að meðal þeirra væru nokkrar jarðir og húseignir sem á þeim stæðu ásamt vélum, tækjum og 300.000 lítra greiðslumarki mjólkur. Hefðu eignirnar ýmist verið nýttar í tengslum við búskap eða ferðaþjónustu. Að auki hefðu verið framkvæmdir við hluta húseignanna, meðal annars á íbúðarhúsi að [...]. Kom fram í úrskurði Landsréttar að þrátt fyrir að dómstólar hefðu heimilað kröfugerð sem lyti að því að krafist væri helmings eigna við fjárslit sambúðarfólks yrði, eins og atvikum væri háttað í málinu, talið að nauðsynlegt hefði verið að rökstyðja eignartilkall sóknaraðila sérstaklega vegna einstakra eigna en ólík sjónarmið kynnu að ráða niðurstöðu í hverju tilviki. Því væri krafa sóknaraðila vanreifuð og yrði henni vísað frá héraðsdómi.

Niðurstaða

11. Málinu var vísað til héraðsdóms eftir 122. gr., sbr. 2. mgr. 64. gr., laga nr. 20/1991. Í XVII. kafla laganna er fjallað um úrlausn ágreinings eftir ákvæðum þeirra. Í 131. gr. segir að leiði annað ekki af ákvæðum laganna gildi almennar reglur um meðferð einkamála. Við úrlausn málsins verður því beitt meginreglum einkamálaréttarfars þar sem ákvæðum laga nr. 20/1991 sleppir, þar á meðal reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni, sbr. einkum 44. og 46. gr. laga nr. 91/1991.

12. Sóknaraðili hefur krafist þess að fá í sinn hlut helming eigna dánarbúsins að frádregnum skuldum. Í gögnum málsins kemur fram að hinn látni var einn skráður eigandi þeirra fasteigna sem eru meðal eigna dánarbúsins og var það áður en sambúð hans og sóknaraðila hófst. Sóknaraðili byggir á því, gegn andmælum varnaraðila, að niðurgreiðsla áhvílandi skulda á sambúðartíma þeirra hafi komið til með framlagi þeirra beggja sem og að skuldir hafi verið hærri en verðmæti eigna þegar sambúð þeirra hófst. Til viðbótar byggir sóknaraðili á því að hún hafi ásamt hinum látna staðið að umtalsverðum endurbótum og uppbyggingu á fasteignum sem eru skráðar eignir dánarbúsins.

13. Fjölmörg gögn hafa verið lögð fram við meðferð málsins, þar á meðal skattframtöl sóknaraðila vegna áranna 2006 til 2019 sem og skattframtöl hins látna vegna sömu ára. Þá liggja fyrir ársreikningar félagsins [...] fyrir árin 2011 til 2017, auk ársreikninga [...] vegna áranna 2007 til 2014 og áranna 2017 og 2018. Auk þess hafa verið lagðir fram kaupsamningar og afsöl vegna sölu á fasteign sóknaraðila í Garðabæ árið 2015, kaup hennar sama ár á fasteigninni [...] og kaup félagsins [...] á sumarhúsi árið 2016.

14. Krafa sóknaraðila var til umfjöllunar á þremur skiptafundum dánarbúsins án þess að athugasemdir kæmu fram um form hennar á þeim vettvangi. Grundvöllur málatilbúnaðar hennar er nægilega skýr um það að hún telji sig hafa öðlast hlutdeild í þeirri eignaaukningu sem varð á sambúðartímanum, sbr. til hliðsjónar kröfugerð sem höfð var uppi í dómum Hæstaréttar frá 15. nóvember 2007 í máli nr. 565/2007, 25. janúar 2016 í máli nr. 811/2015 og 26. ágúst 2016 í máli nr. 472/2016. Hefur málatilbúnaður sóknaraðila frá upphafi lotið að því að sýna fram á umrædda eignaaukningu og ætlað framlag sóknaraðila til hennar gegn mótmælum varnaraðila. Mótmæli varnaraðila við gögnum sem lögð hafa verið fram af hálfu sóknaraðila og málsástæðum reistum á þeim varða efnishlið málsins og leiða ekki til frávísunar þess.

15. Samkvæmt framansögðu verður því ekki fallist á með Landsrétti að dómkrafa sóknaraðila hafi verið vanreifuð. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju.

16. Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju.

Kærumálskostnaður fellur niður.