Hæstiréttur íslands

Mál nr. 26/2022

Ice Lagoon ehf. (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Hornafirði (Jón Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Eignarréttur
  • Sameign
  • Stjórnvald
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi

Reifun

I ehf. kærði ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi tilgreindum kröfum félagsins á hendur sveitarfélaginu H. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með viðurkenningarkröfu sinni leitaðist I ehf. við að fá dóm um skaðabótaskyldu H vegna ætlaðs tjóns félagsins vegna tilgreindra ákvarðana H en frávísun Landsréttar á kröfu hans vegna ákvörðunar 20. maí 2010 var reist á því að lögvarðir hagsmunir væru ekki fyrir hendi vegna fyrningar. Hæstiréttur rakti að það væri meginregla samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda að þegar krafa fyrnist falli hún niður og kröfuhafi glati rétti sínum til efnda. Væri þar um að ræða efnisástæðu sem leiddi til sýknu og gilti einu hvort um væri að ræða fjárkröfu eða viðurkenningarkröfu um tilvist kröfuréttinda. Því til samræmis hefði í dómum Hæstaréttar verið sýknað af kröfu um viðurkenningu bótaskyldu þegar fallist væri á að krafa teldist fyrnd. Var hið kærða ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi á viðurkenningarkröfu I ehf. vegna ákvörðunar H 20. maí 2010 fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka hana til úrlausnar. Þá voru engin efni talin til að vísa frá dómi sem sjálfstæðri kröfu þeim hluta viðurkenningarkröfu félagsins sem laut að ætlaðri bótaskyldu H vegna ólögmætra aðgerða sveitarfélagsins.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2022 sem barst réttinum 19. sama mánaðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærð eru ákvæði í dómi Landsréttar 1. apríl 2022 um að vísa frá héraðsdómi tilgreindum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um að vísa kröfum hans á hendur varnaraðila frá dómi verði felld úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar dóms að nýju. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

4. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að dómur Landsréttar verði staðfestur um frávísun frá héraðsdómi á kröfum sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Ágreiningsefni

5. Kjarni ágreinings málsaðila lýtur að því hvort varnaraðili hefur með saknæmum og ólögmætum hætti bakað sér bótaskyldu vegna ákvarðana 20. maí 2010, 27. janúar og 15. ágúst 2014 og 10. mars 2015 um að synja sóknaraðila um stöðuleyfi vegna ferðaþjónustu.

6. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur málsins að tveimur ákvæðum í dómi Landsréttar um að vísa hluta krafna sóknaraðila frá héraðsdómi. Annars vegar var vísað frá kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna ákvörðunar 20. maí 2010 þar sem undirliggjandi fjárkröfur sóknaraðila vegna ætlaðs tjóns sem leiddi af þeirri ákvörðun væru fyrndar og sóknaraðili hefði því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Hins vegar var vísað frá kröfu hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna ólögmætra aðgerða hans sem byggst hafi á fyrrgreindum ákvörðunum, með vísan til þess að þeim ætluðu ólögmætu aðgerðum væri ekki frekar lýst í dómkröfum hans.

Málsatvik

7. Sóknaraðili er fyrirtæki sem hefur rekið ferðaþjónustu við Jökulsárlón með siglingu ferðamanna um lónið. Frá sumri 2011 fór starfsemin fram í þjóðlendu á vesturbakka lónsins. Sumarið 2014 hóf sóknaraðili starfsemi í landi jarðarinnar Fells við austurbakka lónsins á grundvelli leigusamnings við Sameigendafélag Fells 20. apríl 2012. Á þeim tíma var jörðin í óskiptri sameign 32 eigenda í félaginu en tveir þeirra sem fóru með tæplega 24% eignarhlut voru ekki í félaginu og stóðu ekki að gerð leigusamningsins.

8. Sóknaraðili sótti um stöðuleyfi fyrir hjólhýsi á austurbakka lónsins 17. maí 2010 samkvæmt gr. 71.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Umsóknin var samþykkt á fundi bæjarráðs varnaraðila 20. maí sama ár með fyrirvara um samþykki allra landeigenda.

9. Með umsókn 10. janúar 2014 sótti sóknaraðili á ný um stöðuleyfi við austurbakka lónsins og var þar vísað til fyrrgreinds leigusamnings við sameigendafélagið. Óskað var eftir stöðuleyfi fyrir hjólhýsi, húskerru, bíl og hugsanlega fyrir færanlega salernisaðstöðu, sbr. gr. 2.6.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar varnaraðila 21. janúar 2014 var bókað um jákvæða afstöðu nefndarinnar en óskað var eftir frekari gögnum um staðsetningu atvinnustarfseminnar auk þess sem fram kom að samþykki landeigenda þyrfti að liggja fyrir. Sóknaraðila var tilkynnt um fyrrgreinda afgreiðslu nefndarinnar með tölvubréfi 24. febrúar 2014. Þá var bókað á fundi bæjarráðs 27. janúar 2014 að ekki yrðu veitt ný leyfi fyrir öðru en því sem samræmdist deiliskipulagi við Jökulsárlón.

10. Í bréfi varnaraðila 22. júlí 2014 var sóknaraðila tilkynnt að gripið yrði til viðhlítandi úrræða vegna starfsemi sóknaraðila á austurbakka lónsins sem færi þar fram í óleyfi og án heimildar. Í bréfi til sóknaraðila 15. ágúst sama ár sagði jafnframt að umhverfis- og skipulagsnefnd varnaraðila hefði á fundi sínum 13. ágúst fjallað um umsókn hans um stöðuleyfi. Ekki hefði verið fallist á hana þar sem samþykki allra eigenda jarðarinnar Fells hefði ekki legið fyrir. Í ljósi allra aðstæðna hefði varnaraðili ákveðið að veita sóknaraðila lokafrest til 21. ágúst sama ár til að bregðast við erindi sveitarfélagsins um að láta af starfsemi þar og fjarlægja lausafjármuni sem væru án stöðuleyfis á austurbakka lónsins. Yrði ekki orðið við því myndi sveitarfélagið beita viðeigandi úrræðum, sbr. X. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og X. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, svo sem með því að stöðva starfsemi á svæðinu og/eða kveða á um álagningu dagsekta, sbr. 1. mgr. 54. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki.

11. Sóknaraðili sótti um stöðuleyfi fyrir yfirbyggða kerru í landi Fells 4. febrúar 2015, sbr. gr. 2.6.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í bréfi varnaraðila 10. mars 2015 sagði að til þess að unnt væri að gefa út stöðuleyfi þyrfti samþykki landeigenda. Þau gögn sem vísað hefði verið til í umsókn og síðar í tölvupósti lögmanns sóknaraðila gæfu hins vegar ekki ,,óafvíkjandi svör“ um að landið yrði leigt út með samþykki allra eigenda og var honum því synjað um veitingu leyfisins.

12. Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2016 í máli nr. 44/2016, sem rekið var milli sóknaraðila og Sameigendafélags Fells annars vegar og tveggja eigenda jarðarinnar Fells hins vegar sem stóðu utan félagsins, um gildi leigusamningsins frá 20. apríl 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að hvorki yrði talið að leigusamningurinn hefði falið í sér óvenjulega ráðstöfun né að hún hefði verið svo meiri háttar að þurft hefði samþykki allra eigenda jarðarinnar fyrir henni. Ákvörðun um ráðstöfunina hefði því verið tekin af tilskildum meirihluta eigenda jarðarinnar.

13. Með bréfi sóknaraðila 9. febrúar 2017 var krafist viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem sóknaraðili hefði orðið fyrir vegna ólögmæts skilyrðis um samþykki allra eigenda jarðarinnar Fells fyrir útgáfu stöðuleyfis og ólögmætra aðgerða varnaraðila af þeirri ástæðu. Með bréfi 8. mars sama ár hafnaði varnaraðili bótaskyldu.

14. Með dómi Héraðsdóms Austurlands 27. apríl 2017 var ógilt fyrrgreind ákvörðun varnaraðila 10. mars 2015 um að synja um útgáfu stöðuleyfis þar sem ákvörðun byggingafulltrúa væri haldin efnisannmarka sem varðað gæti ógildingu hennar. Var talið að ekki væri unnt að túlka ákvæði gr. 2.6.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 á þann veg að samþykki allra eigenda jarðarinnar hefði þurft til að varnaraðila væri heimilt að veita sóknaraðila stöðuleyfi. Ekki fékkst leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar.

15. Í bréfi sóknaraðila 2. maí 2017 kom fram að skýrt lægi fyrir að aðgerðir varnaraðila væru ólögmætar og að þær hefðu valdið honum tjóni. Ætti hann engan annan kost en að óska eftir dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á umfang tjónsins. Með bréfi sóknaraðila 5. febrúar 2018 var óskað eftir afstöðu varnaraðila til greiðslu skaðabóta og fylgdi bréfinu minnisblað endurskoðunarskrifstofu 25. janúar sama ár um mat á tjóni sóknaraðila. Varnaraðili hafnaði bótaskyldu með bréfi 27. febrúar sama ár. Mál þetta var höfðað í kjölfarið 28. maí 2018.

Niðurstaða

16. Skilja verður kröfugerð sóknaraðila með þeim hætti að hann krefjist viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna fjögurra ákvarðana hans árin 2010, 2014 og 2015 og þar með vegna fjögurra ætlaðra tjónstilvika.

17. Í hinum kærða dómi var kröfu um viðurkenningu bótaskyldu vegna ákvörðunar varnaraðila 20. maí 2010 vísað frá héraðsdómi en varnaraðili sýknaður af viðurkenningarkröfu vegna ákvarðana hans 27. janúar og 15. ágúst 2014 og 10. mars 2015. Þá var jafnframt vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna ólögmætra aðgerða hans sem byggst hafi á ákvörðunum 20. maí 2010, 27. janúar og 15. ágúst 2014 og 10. mars 2015. Krefst sóknaraðili þess að fyrrgreindar frávísanir verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar dóms að nýju.

18. Meginskilyrði þess að dómstólar leysi úr sakarefni er að það skipti máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um það. Þannig verður sá sem höfðar mál að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína og verður úrlausn um það að hafa raunhæft gildi fyrir réttarstöðu hans. Þá er samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 heimilt að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu og gildir það án tillits til þess hvort unnt væri að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Þessi heimild er þó háð því að sá sem höfðar mál hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið lagt til grundvallar að beiting þessarar heimildar sé háð þeim skilyrðum að sá sem höfðar mál leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við atvik máls, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. apríl 2011 í málum nr. 188 og 189/2011.

19. Með viðurkenningarkröfu sinni leitast sóknaraðili við að fá dóm um skaðabótaskyldu varnaraðila vegna ætlaðs tjóns hans vegna fyrrgreindra ákvarðana varnaraðila en frávísun á kröfu hans vegna ákvörðunar 20. maí 2010 var sem fyrr segir reist á að lögvarðir hagsmunir væru ekki fyrir hendi vegna fyrningar.

20. Ef réttinda er ekki gætt um tiltekinn tíma og ekki gerðar aðrar ráðstafanir um þau sem að lögum gætu varnað því að þau fyrnist falla þau niður fyrir fyrningu. Því til samræmis er það meginregla samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda að þegar krafa fyrnist falli hún niður og kröfuhafi glati rétti sínum til efnda. Er þar um að ræða efnisástæðu sem leiðir til sýknu og gildir einu hvort um er að ræða fjárkröfu eða viðurkenningarkröfu um tilvist kröfuréttinda. Í dómum Hæstaréttar hefur þessu til samræmis verið sýknað af kröfu um viðurkenningu bótaskyldu þegar fallist er á að krafa teljist fyrnd. Má um það vísa til dóma Hæstaréttar 18. mars 2008 í máli nr. 449/2007, 7. febrúar 2013 í máli nr. 445/2012 og 22. mars 2016 í máli nr. 519/2015. Öðru máli kann að gegna ef grundvöllur hennar telst vera vanreifaður, sbr. dóm Hæstaréttar 31. maí 2018 í máli nr. 344/2017, eða málið er af öðrum ástæðum vanreifað, sbr. dóm Hæstaréttar 27. mars 2018 í máli nr. 305/2017.

21. Af framangreindum ástæðum verður hið kærða ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi á viðurkenningarkröfu sóknaraðila vegna ákvörðunar varnaraðila 20. maí 2010 fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka hana til úrlausnar.

22. Frávísun Landsréttar á hluta viðurkenningarkröfu sóknaraðila um ætlaða bótaskyldu varnaraðila vegna ólögmætra aðgerða hans var reist á d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki annað ráðið en að um hafi verið að ræða lið í viðurkenningarkröfu hans en ekki sjálfstæða kröfu til viðurkenningar bótaskyldu óháða hinum umþrættu ákvörðunum. Voru því engin efni til að vísa þessum hluta viðurkenningarkröfunnar frá héraðsdómi sem um sjálfstæða kröfu hefði verið að ræða.

23. Rétt er að kærumálskostnaður milli aðila falli niður.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði dóms Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi á viðurkenningarkröfu sóknaraðila, Ice Lagoon ehf., á skaðabótaskyldu varnaraðila, Sveitarfélagsins Hornafjarðar, vegna ætlaðs tjóns í rekstri sóknaraðila vegna ákvörðunar varnaraðila 20. maí 2010 og sá þáttur málsins lagður fyrir Landsrétt til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Kærumálskostnaður fellur niður.