Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2020

VR og Jón Hermann Karlsson (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Atvinnuleysistryggingasjóði (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Atvinnuleysisbætur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Vextir
  • Dráttarvextir
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Lögskýring

Reifun

Í málinu höfðu VR og J uppi kröfur sem reistar voru á því að A bæri að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en ekki vexti samkvæmt 8. gr. sömu laga, á grundvelli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, af atvinnuleysisbótum sem A hefði greitt J og félagsmönnum VR í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri aðeins vísað um vexti af vangreiddum atvinnuleysisbótum til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Talið var að orðalag 5. mgr. 39. gr. laganna og athugasemdir í greinargerð tækju af öll tvímæli um að kröfur um vangreiddar atvinnuleysisbætur skyldu aðeins bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 til þess dags sem þær væru greiddar en ekki dráttarvexti. Þótt tilefni vangreiðslu atvinnuleysisbóta hefði verið óvenjulegt væri ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 svo skýrt og afdráttarlaust að því yrði með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 beitt framar almennum vaxtaákvæðum síðargreindu laganna. Þessi niðurstaða fengi einnig stoð í almennum lögskýringarsjónarmiðum um að sérlög gangi framar almennum lögum og yngri lög framar þeim eldri. Einnig var tekið fram að þótt krafa launamanns til atvinnuleysisbóta gæti notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar leiddi ekki af því eða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar að hann gæti átt sjálfstæðan rétt til þess að vextir sem slík krafa bæri væru aðrir en kveðið væri á um í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Var A því sýknað af kröfum VR og J.


Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2020. Áfrýjandi VR krefst þess að viðurkennt verði að félagsmenn hans „sem urðu fyrir því að atvinnuleysisbætur til þeirra voru skertar með óheimilum hætti á grundvelli 14. gr., sbr. e-lið 30. gr., laga nr. 125/2014 frá og með 1. janúar 2015, eigi kröfu um að stefnda, Atvinnuleysistryggingasjóði, sé skylt að greiða hinar vangoldnu bótagreiðslur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með gjalddögum hverrar greiðslu samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 54/2006 til greiðsludags.‟ Jafnframt krefst áfrýjandi VR þess að viðurkennt verði að höfðun máls þessa hafi rofið fyrningu krafna hlutaðeigandi félagsmanna hans til vangoldinna dráttarvaxta úr hendi stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Áfrýjandi Jón krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 610.143 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. febrúar 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 24. október 2017 að fjárhæð 653.924 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

4. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda beri að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eða vexti samkvæmt 8. gr. sömu laga, í samræmi við 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, af atvinnuleysisbótum sem hann greiddi áfrýjanda Jóni og félagsmönnum áfrýjanda VR í kjölfar dóms Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 501/2016.

6. Áfrýjendur höfðuðu málið fyrir héraðsdómi 17. desember 2018. Niðurstaða héraðsdóms 5. júní 2019 var reist á því að réttur til dráttarvaxta eftir gjalddaga væri að jafnaði óaðskiljanlegur hluti peningakröfu. Með hliðsjón af sjónarmiðum um skýringu sérákvæða í lögum um rétt til dráttarvaxta var það niðurstaða dómsins að ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 yrði ekki skýrt svo rúmt að það tæki til dráttarvaxta eftir að réttur hins tryggða til atvinnuleysisbóta yrði gjaldkræfur, svo sem gera yrði ráð fyrir að ætti við í málinu. Fallist var á að áfrýjendur ættu rétt til dráttarvaxta af kröfum sínum.

7. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms 25. september 2020 var meðal annars reist á því að réttur til atvinnuleysisbóta og fjárhæð þeirra væru að lögum háð ýmsum ytri þáttum sem gætu breyst eða fyrst komið í ljós eftir að hinum tryggða hefðu upphaflega verið ákvarðaðar bætur og hann hafið töku þeirra. Landsréttur taldi enn fremur að með vísan til orðalags 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 og lögskýringargagna með ákvæðinu yrði ályktað að sú vaxtaregla sem þar kæmi fram tæki til allra tilvika þar sem hinum tryggða hefðu ekki verið greiddar allar þær bætur sem hann ætti rétt á samkvæmt lögunum, hver svo sem ástæða þess væri. Efni ákvæðisins væri skýrt að þessu leyti og gengi það sem sérregla framar ákvæðum laga nr. 38/2001. Loks taldi Landsréttur að af stjórnarskrárvernd kröfu til atvinnuleysisbóta yrði ekki leiddur sjálfstæður réttur til þess að slíkar bætur væru með tilteknum hætti eða að vextir af kröfu til greiðslu þeirra væru aðrir en kveðið væri á um í viðeigandi löggjöf. Stefndi var því sýknaður af öllum kröfum beggja áfrýjenda.

8. Áfrýjunarleyfi var veitt 16. nóvember 2020 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um rétt til vaxta vegna vangreiddra atvinnuleysisbóta en fyrir lægi að úrslit þess gætu skipt máli fyrir fjölda bótaþega.

Málsatvik

9. Með 14. gr. laga nr. 125/2014 var tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 stytt úr 36 í 30 mánuði. Í e-lið 30. gr. fyrrnefndu laganna var tekið fram að framangreind breyting tæki gildi 1. janúar 2015. Áfrýjendur halda því fram að þessi skerðing bótaréttar hafi tekið til að minnsta kosti 219 félagsmanna áfrýjanda VR, þar á meðal áfrýjanda Jóns.

10. Áfrýjendur höfðuðu upphaflega mál á hendur stefnda í þessu máli, Vinnumálastofnun, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga og íslenska ríkinu 9. janúar 2015 og kröfðust viðurkenningar á því að fyrrnefnd stytting tímabils atvinnuleysisbóta hefði verið óheimil að því marki sem hún hefði skert virkan bótarétt félagsmanna áfrýjanda VR. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 var viðurkenningarkrafa áfrýjenda á hendur stefndu í máli þessu tekin til greina en málinu vísað frá héraðsdómi hvað aðra stefndu varðaði.

11. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt réttur til atvinnuleysisbóta teldist, eins og atvikum var háttað í því máli, til eignarréttinda sem nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar gæti löggjafinn samkvæmt 2. gr. hennar sett þessum réttindum takmörk án þess að bætur þyrftu að koma fyrir. Þegar lög fælu í sér þungbæra skerðingu á eignarréttindum, sem félli undir 72. gr. stjórnarskrárinnar og fælist í virkum rétti til greiðslna sem væru grundvöllur framfærslu rétthafans, yrði að gera kröfur til eðlilegs samræmis milli þess markmiðs með skerðingunni sem löggjafinn stefndi að og þeirra leiða sem notaðar væru til þess að ná því. Í því fælist að löggjafinn yrði auk annars að gæta meðalhófs við slíka skerðingu eignarréttinda. Í ljósi markmiðs skerðingar á rétti til atvinnuleysisbóta hefði löggjafanum borið að gæta meðalhófs og tryggja að skerðingin kæmi ekki sérstaklega harkalega niður á þeim sem notið hefðu bóta eða átt virkan rétt til þeirra. Hæstiréttur taldi ljóst að það hefði ekki verið gert, að minnsta kosti ekki gagnvart hópi þeirra sem þegar hefðu notið bóta og misst þann rétt strax eða fljótlega í kjölfar gildistöku laganna. Hæstiréttur féllst því á kröfur áfrýjenda um viðurkenningu á því að stytting á tímabili atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30, sem gerð var með lögum nr. 125/2014, hefði verið óheimil að því marki sem hún skerti bótarétt áfrýjanda Jóns og félagsmanna áfrýjanda VR sem þegið hefðu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sótt um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

12. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 greiddi stefndi atvinnuleysisbætur til þeirra félagsmanna áfrýjanda VR sem fengu ekki þær bætur sem þeim bar vegna setningar laga nr. 125/2014 og dómurinn tók til. Vextir af bótunum voru greiddir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 á grundvelli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Áfrýjandi Jón fékk þær atvinnuleysisbætur sem hann varð af vegna setningar laganna greiddar 24. október 2017 með þeim vöxtum.

Niðurstaða

13. Dómkröfur áfrýjenda eru reistar á því að þeir eigi rétt til dráttarvaxta af kröfum um atvinnuleysisbætur sem stefndi greiddi á grundvelli viðurkenningardóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016. Ekki er ágreiningur um aðild málsins.

14. Sem fyrr greinir var ástæða þess að áfrýjandi Jón og þeir félagsmenn áfrýjanda VR sem málið varðar fengu ekki greiddar þær atvinnuleysisbætur frá stefnda sem krafa þeirra um dráttarvexti lýtur að sú að 14. gr. laga nr. 54/2006 var breytt með lögum nr. 125/2014 á þann veg að bótatímabil var stytt úr 36 í 30 mánuði. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 voru atvinnuleysisbætur greiddar þeim sem niðurstaða dómsins tók til, í samræmi við réttindi hvers og eins samkvæmt lögum nr. 54/2006, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Áfrýjandi Jón fékk þannig greiddar atvinnuleysisbætur 24. október 2017 fyrir mánuðina janúar til apríl 2015 auk vaxta frá hverjum gjalddaga til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 með vísan til 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

15. Í máli þessu þarf fyrst og fremst að skera úr um það hvort fyrirmæli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 verði túlkuð með þeim hætti að þau taki til vaxta af þeim kröfum sem um ræðir í máli þessu allt til þess dags sem þær voru greiddar eða hvort greiða beri dráttarvexti af kröfunum frá þeim gjalddögum þegar hefði átt að greiða bæturnar eftir almennum reglum III. kafla laga nr. 38/2001.

16. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum þegar hinn tryggði hefur fengið lægri eða hærri bætur en hann átti rétt á. Í 1. mgr. greinarinnar er sérstaklega fjallað um leiðréttingu bóta þegar breytingar hafa orðið á tekjuskattsálagningu hins tryggða vegna tekna sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru byggðar á. Í 4. mgr. greinarinnar segir meðal annars að um innheimtu ofgreidds fjár fari samkvæmt 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda en ekki vísað til þeirra laga að öðru leyti. Í 5. mgr. greinarinnar er fjallað um greiðslu vaxta af vangreiddum atvinnuleysisbótum og segir þar:

Hafi hinn tryggði fengið lægri atvinnuleysisbætur en honum bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til hins tryggða ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að hinn tryggði hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum en hafði áður verið synjað um þær eða reiknaðar lægri atvinnuleysisbætur. Þegar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá hinum tryggða falla vextir niður.

17. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars að stefndi greiði vexti fyrir tímabilið frá því að féð hefði átt að vera greitt úr sjóðnum til þess tíma að greiðslan væri innt af hendi og að miðað væri við að þeir yrðu jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákvæði að skyldu greiddir af skaðabótakröfum og kveðið væri á um í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001.

18. Þótt 39. gr. laga nr. 54/2006 fjalli einkum um leiðréttingu atvinnuleysisbóta til lækkunar eða hækkunar til samræmis við álagningu skattyfirvalda verður ekki af orðalagi 5. mgr. greinarinnar og fyrrnefndum athugasemdum annað ráðið en að þessu sérstaka vaxtaákvæði hafi verið ætlað að taka til vaxta af öllum vangreiddum atvinnuleysisbótum til þess tíma sem bæturnar færu úr vörslum stefnda þegar greiðsla þeirra væri innt af hendi. Hefði þá ekki þýðingu hvaða ástæða lægi að baki þeirri vangreiðslu og heldur ekki hvort of lítið eða ekkert hafi verið greitt á tilteknum gjalddaga. Ekki er þannig gert ráð fyrir því í 5. mgr. 39. gr. að dráttarvextir greiðist af slíkum kröfum.

19. Almenn fyrirmæli um vexti er að finna í lögum nr. 38/2001. Gildissvið laganna hvað vexti varðar er afmarkað í 1. mgr. 1. gr. með orðunum: „Lög þessi gilda um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.“

20. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sem vísað er til í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, segir að kröfur um skaðabætur skuli bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skuli á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna. Í 9. gr. laganna segir hins vegar að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geti þó ef sérstaklega stendur á ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.

21. Hin almennu ákvæði um dráttarvexti eru í III. kafla laga nr. 38/2001. Í 5. gr. laganna er kveðið á um hvenær kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti. Segir þar að þegar gjalddagi kröfu hafi verið ákveðinn fyrirfram sé kröfuhafa heimilt að krefjast slíkra vaxta af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir að dráttarvextir skuli vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana, auk sjö hundraðshluta álags, nema um annað sé samið samkvæmt 2. mgr. greinarinnar.

22. Dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eru samkvæmt framansögðu mun hærri en vextir af skaðabótakröfum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna. Fyrirmæli 5. mgr. 39. gr. um að vextir af vangreiddum atvinnuleysisbótum skuli einungis bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. leiða þannig til mun lægri vaxtagreiðslna stefnda en ef fylgt væri almennum fyrirmælum 8. og 9. gr. laganna um vexti af skaðabótakröfum. Síðastnefnda ákvæðið mælir fyrir um að slíkar kröfur beri að jafnaði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

23. Af hálfu áfrýjenda er litið svo á að þegar réttur til atvinnuleysisbóta hefur stofnast og gjalddagi þeirra er kominn hafi stofnast krafa sem lúti ekki lengur ákvæðum laga nr. 54/2006 heldur fari um hana eftir almennum reglum kröfuréttar, svo sem um fyrningu, vexti og dráttarvexti. Ekki verður á þetta fallist. Þær kröfur um atvinnuleysisbætur sem mál þetta lýtur að eru af félagslegum toga og því allsherjarréttarlegs eðlis. Stefndi annast útreikninga á þeim í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 og breytir það ekki eðli krafnanna þótt gjalddagi einstakra greiðslna sé upp runninn. Samkvæmt 1. gr. hinna almennu laga um vexti nr. 38/2001 taka þau til vaxta af slíkum kröfum eftir því sem við getur átt. Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2001 er sérstaklega áréttað að lögin séu almenn lög og þeim sé ekki ætlað að raska ákvæðum sérlaga um vexti.

24. Í lögum á sviði allsherjarréttar má víða finna sérákvæði um vexti áþekk 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Þannig er til að mynda sambærilegt ákvæði um vexti í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og er þar aðeins gert ráð fyrir greiðslu vaxta af vangreiddum húsnæðisbótum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 en ekki greiðslu dráttarvaxta. Í 5. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um leiðréttingu vangreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í þeim tilvikum þegar greitt er minna en foreldri ber samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að foreldri telst hafa átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en áður verið synjað um þær eða reiknaðar lægri greiðslur. Í ákvæðinu er ekki vísað til þess að það taki til vangreiðslu af „öðrum ástæðum” en vaxtafyrirmæli þess eru að öðru leyti sambærileg þeim sem er að finna í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í 8. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda er fjallað um endurgreiðslu oftekins fjár. Þar er aftur á móti gert ráð fyrir greiðslu bæði vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 segir að um innheimtu ofgreidds fjár úr Atvinnuleysistryggingarsjóði fari eftir 3. gr. fyrrnefndu laganna en það ákvæði mælir fyrir um að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtuna. Að öðru leyti er ekki í lögum nr. 54/2006 vísað til laga nr. 150/2019 og verður vaxtaákvæðum 8. gr. þeirra því ekki beitt um vangreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framangreindu er fyrirmælum um vaxtagreiðslur opinberra aðila háttað með ýmsum hætti í lögum.

25. Með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 má ætla að ef ekki er kveðið sérstaklega á um vexti af vangreiddum fjármunum í lögum á sviði allsherjarréttar fari um slíka vexti og eftir atvikum dráttarvexti eftir ákvæðum almennra vaxtalaga. Slíka vaxtaákvörðun er til dæmis að finna í dómi Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 en þar var fallist á fjárkröfu einstaklings sem taldi sig eiga rétt til greiðslu tekjutryggingar án skerðingar vegna tekna maka og honum dæmdir dráttarvextir af kröfunni samkvæmt III. kafla eldri vaxtalaga nr. 25/1987. Fjárkrafan var höfð uppi með stoð í dómi Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 þar sem viðurkennt var að óheimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á þann hátt sem gert var í 5. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998. Þótt sú aðstaða sem uppi var í fyrrnefndum málum sé að mörgu leyti svipuð þeirri sem uppi er í þessu máli ber það á milli að gagnstætt því sem er í lögum nr. 54/2006 voru ekki nein ákvæði um vexti af vangreiddum bótum í lögum nr. 117/1993, sbr. hins vegar nú 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þá var ekki ágreiningur um vexti í málinu. Niðurstaða dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 hefur því ekki fordæmisgildi í þessu máli.

26. Sem fyrr segir er í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 aðeins vísað um vexti af vangreiddum atvinnuleysisbótum til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Orðalag 5. mgr. 39. gr. laga og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 taka þannig af öll tvímæli um að kröfur um vangreiddar atvinnuleysisbætur skuli aðeins bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 til þess dags sem þær eru greiddar en ekki dráttarvexti. Enda þótt tilefni vangreiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið óvenjulegt er ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 samkvæmt öllu framansögðu svo skýrt og afdráttarlaust að því verður með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 beitt framar almennum vaxtaákvæðum síðargreindu laganna. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í almennum lögskýringarsjónarmiðum um að sérlög gangi framar almennum lögum og yngri lög framar þeim eldri.

27. Af hálfu áfrýjenda er jafnframt byggt á því að beiting 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um þær kröfur sem málið varði brjóti í bága við friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Fallist er á þá forsendu hins áfrýjaða dóms að þótt krafa launamanns til atvinnuleysisbóta geti notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar leiði ekki af því eða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar að hann eigi sjálfstæðan rétt til þess að vextir sem slík krafa beri séu aðrir en kveðið er á um í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

28. Að þeirri niðurstöðu fenginni að ekki hafi stofnast réttur til greiðslu dráttarvaxta af þeim atvinnuleysisbótum sem stefndi greiddi áfrýjanda Jóni og félagsmönnum áfrýjanda VR í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 þarf ekki að skera úr um það í málinu hvort þeir hafi átt gjaldkræfa peningakröfu á réttum greiðsludögum bótanna.

29. Samkvæmt öllu framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

30. Rétt er að hver aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.