Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2022

Þrotabú DV (Kristján B. Thorlacius lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Greiðsla
  • Riftun
  • Áfrýjunarleyfi
  • Gagnáfrýjun

Reifun

Þrotabú D höfðaði mál á hendur Í og krafðist riftunar á tveimur greiðslum sem inntar voru af hendi af þriðja aðila til Í vegna skulda D og námu samtals 125.946.684 krónum. Var annars vegar um að ræða greiðslu að fjárhæð 85.000.000 krónur en hins vegar að fjárhæð 40.946.684 krónur. Beiðni D um áfrýjunarleyfi var afmörkuð við úrlausn um riftun greiðslunnar að fjárhæð 85.000.000 krónur og var leyfið veitt um þau atriði sem leyfisbeiðnin var reist á. Í áfrýjunarstefnu og gagnáfrýjunarstefna var sakarefnið aftur á móti ekki afmarkað með þeim hætti heldur tók til beggja krafnanna. Með vísan til 3. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var heimild Í til gagnáfrýjunar ekki talin sæta takmörkunum hvað sem leið mögulegri afmörkun áfrýjunar í aðalsök á grundvelli áfrýjunarleyfis. Voru því kröfur vegna beggja greiðslnanna teknar til efnismeðferðar. Í málinu byggði þrotabúið á því að umræddar greiðslur hefðu rýrt greiðslugetu D verulega og væru því riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var byggt á því að greiðslurnar hefðu á ótilhlýðilegan hátt verið Í til hagsbóta á kostnað annarra og leitt til þess að eignir D voru ekki til reiðu til fullnustu krafna kröfuhafa og því jafnframt riftanlegar á grundvelli 141. gr. sömu laga. Fram kom í dómi Hæstaréttar að við mat á skilyrðum riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 yrði fyrst og fremst tekið mið af því hvort og þá að hvaða marki ráðstöfun hefði haft áhrif á fjárhag þrotamanns og þar með hagsmuni og jafnræði kröfuhafa hans. Þá yrði að sýna fram á að þau verðmæti sem ráðstöfun lyti að hefðu ella runnið til skuldara. Sönnunarbyrðin um að framangreindar aðstæður væru fyrir hendi hvíldi á þrotabúi D. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 krónur hefði fallið utan utan tímamarka 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og því kæmi riftun á greiðslunni á grundvelli þeirrar lagagreinar ekki til álita. Hvað varðaði riftun greiðslunnar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 kom fram í dóminum að D hefði hvorki sannað að umrædd greiðsla, sem fjármögnuð var af auknu hlutafé í P, hefði borist D né verið félaginu á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að greiðslan eða andvirði hennar hefði runnið til D hefði ekki komið til ráðstöfunar hennar með umræddum hætti. Væri því ekki unnt að leggja til grundvallar að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða sem hefði leitt til þess að eignir D hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu krafna kröfuhafa félagsins eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, sbr. áskilnað 141. gr. Hvað varðaði greiðsluna að fjárhæð 40.946.684 krónur var óumdeilt að hún hefði borist Í af bankareikningi P, þáverandi móðurfélags D, og í kjölfarið færð sem skuld D við P í bókhaldi þess síðarnefnda. Nokkrum dögum síðar hefðu svo tvær greiðslur borist af bankareikningi D inn á bankareikning móðurfélagsins, samtals að fjárhæð 40.339.542 krónur. Var lagt til grundvallar, hvað sem leið tilhögun greiðslunnar, að P hefði lánað D upphæðina og D hefði endurgreitt stærstan hluta þess láns. Greiðsla skuldarinnar hefði því haft í för með sér að handbært fé D hefði rýrnað um sömu fjárhæð með tilheyrandi áhrifum á greiðslugetu þess en óumdeilt var að greiðslan hefði farið fram þegar minna en sex mánuðir voru til frestdags. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var staðfest sú niðurstaða hans að uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til þess að greiðslunni yrði rift. Þá var jafnframt staðfest sú niðurstaða að Í yrði á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 gert að endurgreiða þrotabúi D fé sem samsvaraði greiðslu D til P eða 40.339.542 krónum enda ekki runnið hærri fjárhæð frá D.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2022. Í aðalsök er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um að rift sé greiðslu 8. september 2017 á skuld DV ehf. við gagnáfrýjanda að fjárhæð 40.946.684 krónur og honum verði gert að greiða aðaláfrýjanda 40.946.684 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. október 2018 til greiðsludags. Auk þess er krafist að rift verði með dómi greiðslu inn á skuld DV ehf. við gagnáfrýjanda að fjárhæð 85.000.000 króna sem greidd var gagnáfrýjanda 13. janúar 2017 en bókuð sem greiðsla á skuldum DV ehf. hjá gagnáfrýjanda 18. maí 2017. Þá er þess krafist að gagnáfrýjanda verði gert að greiða aðaláfrýjanda 85.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. janúar 2017 til 21. október 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í gagnsök krefst aðaláfrýjandi þess að dómkröfum gagnáfrýjanda verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 13. júní 2022. Hann krefst aðallega sýknu af framangreindum kröfum aðaláfrýjanda auk málskostnaðar á öllum dómstigum en til vara lækkunar á kröfunum og að málskostnaður verði felldur niður.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort aðaláfrýjandi fær á grundvelli 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. rift tveimur greiðslum til gagnáfrýjanda sem áttu sér stað á árinu 2017 en bú DV ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 7. mars 2018. Jafnframt deila aðilar um kröfu aðaláfrýjanda um bætur á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991, nái riftun fram að ganga.

5. Annars vegar er um að ræða greiðslu að fjárhæð 85.000.000 króna sem innt var af hendi af lögmannsstofunni Lögviti ehf. 13. janúar 2017 en endanlega ráðstafað til greiðslu nánar tilgreindra skulda 18. maí það ár. Hins vegar er um að ræða greiðslu að fjárhæð 40.946.684 krónur sem greidd var gagnáfrýjanda 8. september 2017.

6. Héraðsdómur féllst á að rifta greiðslu að fjárhæð 40.946.684 krónur á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og dæmdi gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda bætur samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laganna. Hins vegar sýknaði héraðsdómur gagnáfrýjanda af riftun greiðslu að fjárhæð 85.000.000 króna. Þá var gagnáfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Landsréttur staðfesti framangreindar niðurstöður héraðsdóms en felldi niður málskostnað fyrir réttinum.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 7. apríl 2022 með ákvörðun nr. 2022-33 á þeirri forsendu að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin væri reist á, einkum um almenn skilyrði riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991.

8. Samhliða máli þessu hefur á grundvelli áfrýjunarleyfis samkvæmt ákvörðun nr. 2022-1 verið rekið fyrir Hæstarétti mál nr. 14/2022: Þrotabú Pressunnar ehf. gegn íslenska ríkinu og gagnsök þar sem krafist er riftunar tveggja nánar tilgreindra greiðslna Pressunnar ehf., þá móðurfélags DV ehf., til gagnáfrýjanda fyrir gjaldþrot félagsins. Sakarefni þessara tveggja mála tengjast.

Málsatvik

9. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2018 var bú DV ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og er frestdagur við skiptin 13. nóvember 2017. Lýstar kröfur í búið námu samtals 241.756.998 krónum, þar af voru forgangskröfur 51.411.454 krónur. Aðaláfrýjandi kveður að við úrskurð um gjaldþrotaskipti hafi eignir búsins verið óverulegar. Innstæða á bankareikningum hafi samtals numið um 74.000 krónum. Búið hafi átt útistandandi kröfur en af þeim höfðu innheimst um 74.000 krónur þegar skiptafundur var haldinn 21. júní 2018.

10. DV ehf. rak margvíslega útgáfustarfsemi, vefmiðla og dagblöð. Rekstur félagsins hafði gengið illa í nokkur ár og það verið í vanskilum bæði við opinbera aðila og einkaaðila. Í árslok 2016 höfðu safnast upp veruleg vanskil þess gagnvart gagnáfrýjanda vegna opinberra gjalda fyrri ára og héldu þau áfram árið 2017. Í gögnum málsins kemur fram að gerð hafi verið fimm árangurslaus fjárnám hjá félaginu á tímabilinu 21. nóvember 2016 til 17. ágúst 2017. Þá liggur fyrir að settar voru fram 39 kröfur um gjaldþrotaskipti á búi DV ehf. á árunum 2016 og 2017, þar á meðal lagði Tollstjóri fram þrjár þeirra en afturkallaði þær allar. Nánar tiltekið krafðist embættið gjaldþrotaskipta í fyrsta sinn 17. mars 2016 en afturkallaði beiðnina 18. maí sama ár, í annað sinn 24. október 2016 en afturkallaði beiðnina 13. janúar 2017 og í þriðja sinn 17. maí 2017 en afturkallaði beiðnina 14. september sama ár.

11. Á árinu 2016 komu nýir fjárfestar að Pressunni ehf. sem lögðu því til fé í gegnum félag sitt Fjárfestingafélagið Dalinn ehf. Í samráði við fjárfestana keypti Pressan ehf. Birting útgáfufélag ehf., með kaupsamningi 18. nóvember 2016 en kaupin gengu endanlega í gegn 20. febrúar 2017.

12. Í janúar 2017 fór fram hlutafjárhækkun í Pressunni ehf. þar sem Fjárfestingafélagið Dalurinn greiddi 150.000.000 króna fyrir kaup á 75.000.000 hluta í félaginu, auk þess sem hluthafar breyttu skuldum við þá í hlutafé. Greiðslan var innt af hendi af Aztiq fjárfestingum ehf., fyrir hönd Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf. inn á reikning lögmannsstofunnar Lögvits ehf. sem síðan ráðstafaði þessum fjármunum inn á skuldir Pressunnar ehf. og tengdra félaga. Þar af var umræddum 85.000.000 króna ráðstafað til greiðslu skulda DV ehf. við gagnáfrýjanda.

13. Svo sem nánar er rakið í dómi réttarins 28. september 2022 í máli nr. 14/2022, sem kveðinn er upp samhliða dómi í máli þessu, kom fljótlega í ljós að frekara fjármagns væri þörf ætti að reynast unnt að leysa úr fjárhagsvandræðum Pressunnar ehf. og tengdra félaga. Þau áform gengu hins vegar ekki eftir og samningi 18. nóvember 2016 um kaup Pressunnar ehf. á öllum hlutum í Birtingi útgáfufélagi ehf. var rift 10. maí 2017. Í samkomulagi um riftunina sagði meðal annars að komið hefði í ljós að fjárhagsstaða Pressunnar ehf. hefði verið verri en ætlað var og fyrirsjáanlegt að félagið myndi ekki geta staðið við greiðslu eftirstöðva kaupsamningsins með þeim hætti sem ráðgert var. Þann sama dag gáfu bæði DV ehf. og Vefpressan ehf. út tryggingarbréf að fjárhæð 200.000.000 króna þar sem sett voru að veði útgáfuréttindi, vörumerki, vefmiðlar og lén félaganna til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum Pressunnar ehf. við Fjárfestingafélagið Dalinn ehf.

14. Stærstur hluti eigna DV ehf. var seldur Frjálsri fjölmiðlun ehf. 5. september 2017 fyrir 200.000.000 króna. Seld voru útgáfuréttindi dagblaðsins DV, ásamt vörumerki, vefmiðli og léni með sama nafni og tengdum réttindum. Kaupin voru meðal annars háð þeim fyrirvara af hálfu kaupanda að tryggingarbréfum, útgefnum af DV ehf. og Vefpressunni ehf. 10. maí 2017 til Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf., yrði aflétt og þau skráð úr lausafjárbók. Með samningi sama dag seldi Pressan ehf., Frjálsri fjölmiðlun ehf. stærstan hluta eigna Pressunnar ehf.

15. Með vísan til síðarnefnds samnings var gerður kaupsamningur 6. september 2017 milli Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. og Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf. Með honum keypti Frjáls fjölmiðlun ehf. og yfirtók kröfu Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf. á hendur Pressunni ehf., að fjárhæð 45.000.000 króna. Enn fremur var kveðið á um að samhliða undirritun samningsins væru framangreind tryggingarbréf útgefin af DV ehf. og Vefpressunni ehf. framseld Frjálsri fjölmiðlun ehf. til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu kröfunnar. Um efni og skuldbindingargildi þess samnings varð ágreiningur sem leyst var úr með dómi Landsréttar 27. mars 2020 í máli nr. 395/2019. Nánari grein er gerð fyrir þeim ágreiningi í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 14/2022.

16. Hinn 7. september 2017 gerði DV ehf. samning með áætlun um greiðslu á skuldum sínum við gagnáfrýjanda, gegn því að hann krefðist ekki gjaldþrotaskipta eða gripi til annarra vanefndaúrræða. Uppsafnaðar skuldir DV ehf. námu þá samtals 161.209.853 krónum. Samkvæmt samkomulaginu skyldi félagið greiða rúmlega 29 milljónir króna við gerð þess og 12 milljónir króna mánaðarlega upp frá því til 1. febrúar 2018 en greiðslan þann dag skyldi nema 83.903.647 krónum. Hinn 8. september 2017 greiddi Pressan ehf. 40.946.684 krónur inn á skuldir DV ehf. hjá gagnáfrýjanda.

17. Með bréfi skiptastjóra 21. september 2018 lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun á ellefu greiðslum opinberra gjalda DV ehf. til gagnáfrýjanda frá og með 15. maí 2017 til 6. desember sama ár, samtals að fjárhæð 188.067.115 krónur. Í bréfi gagnáfrýjanda 8. október 2018 var fallist á að rifta níu greiðslum, samtals að fjárhæð 62.120.431 króna. Í sama bréfi var hins vegar hafnað riftun þeirra tveggja greiðslna sem ágreiningur máls þessa lýtur að og kom fram að gagnáfrýjandi teldi þær ekki riftanlegar þar sem þær hefðu verið greiddar af þriðja aðila og almennir kröfuhafar því ekki orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Væru því ekki lagaskilyrði til að rifta þeim.

18. Þær greiðslur sem gagnáfrýjandi hafnaði að rifta voru, svo sem fyrr greinir, annars vegar greiðsla fyrrnefndrar skuldar að fjárhæð 85.000.000 króna sem var hluti af greiðslu sem lögmannsstofan Lögvit ehf. tók við frá Aztiq fjárfestingum ehf. 13. janúar 2017 vegna fyrrnefndrar hlutafjárhækkunar hjá þáverandi móðurfélagi DV ehf., Pressunni ehf. Lögmannsstofan hafði meðal annars það verkefni að ráðstafa fjárhæðinni til greiðslu skulda DV ehf., Pressunnar ehf. og tengdra félaga, þar á meðal við gagnáfrýjanda. Með bréfi þáverandi lögmanns DV ehf. 18. apríl 2017 til gagnáfrýjanda óskaði hann eftir því að umþrættri fjárhæð yrði endurráðstafað inn á nánar tilgreindar skattskuldir félagsins. Greiðslunni var ráðstafað 18. maí sama ár til innborgunar á þessum skuldum en samkvæmt greiðslukvittun var svokallaður gildisdagur þeirrar greiðslu 13. janúar 2017.

19. Hins vegar er í málinu deilt um áðurnefnda greiðslu vegna vangreiddra opinberra gjalda DV ehf. sem var innt af hendi af Pressunni ehf. til gagnáfrýjanda 8. september 2017 að fjárhæð 40.946.684 krónur. Greiðslan var færð sem skuld DV ehf. við félagið í bókhaldi Pressunnar ehf. Bárust Pressunni ehf. 14. september 2017 tvær greiðslur frá DV ehf., samtals að fjárhæð 40.339.542 krónur, en í skýringum með færslum þeirra í bókhaldi Pressunnar ehf. kom fram að um hafi verið að ræða „endurgr. v/Tollstjóra“. Þessar sömu greiðslur voru jafnframt færðar til lækkunar á skuld DV ehf. við Pressuna ehf. í bókhaldi DV ehf.

20. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta með birtingu stefnu 20. nóvember 2018. Tók kröfugerð hans talsverðum breytingum undir rekstri málsins í héraði en í lokabúningi tók hún til riftunar framangreindra tveggja greiðslna auk kröfu um endurgreiðslu og bætur á grundvelli 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Niðurstaða héraðsdóms var að sýkna gagnáfrýjanda af fyrri kröfu aðaláfrýjanda en fallist var á að seinni greiðslan væri riftanleg samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda bætur að fjárhæð 40.946.684 krónur samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laganna og 1.100.000 krónur í málskostnað.

21. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms en málskostnaður fyrir Landsrétti látinn falla niður. Um hærri greiðsluna vísaði Landsréttur meðal annars til þess að hún hefði verið innt af hendi af hálfu þriðja aðila og aldrei borist félaginu eða verið því á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Greiðslan hefði því ekki skert greiðslugetu félagsins verulega samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Af sömu ástæðu væri ekki unnt að leggja til grundvallar að um ótilhlýðilega ráðstöfun hefði verið að ræða í skilningi 141. gr. sömu laga.

Málsástæður

Helstu málsástæður aðaláfrýjanda

22. Aðaláfrýjandi byggir riftunarkröfur sínar á því að umræddar greiðslur hafi skert greiðslugetu DV ehf. verulega og að þær séu því riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í þeim efnum vísar hann til þess að miðað við eignir félagsins fari fjárhæð þeirra krafna sem krafist sé riftunar á yfir það hlutfall samkvæmt dómaframkvæmd sem teljist skerða fjárhag félags verulega. Aðaláfrýjandi telur enn fremur að miða beri við að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 króna hafi átt sér stað þegar hún var bókuð inn á skuldir DV ehf. hjá gagnáfrýjanda en ekki þegar hún barst honum. Samkvæmt því skipti ekki máli þótt gagnáfrýjandi hafi móttekið greiðsluna 13. janúar 2017 heldur beri að miða við endanlega ráðstöfun hennar inn á tiltekna skuld sem ekki hafi átt sér stað fyrr en 18. maí 2017 og hafi því farið fram innan tímamarka 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá byggir aðaláfrýjandi á því að greiðslurnar geti ekki talist venjulegar eftir atvikum enda liggi fyrir að um margra mánaða uppsöfnuð vanskil hafi verið að ræða.

23. Aðaláfrýjandi byggir jafnframt á því að greiðslurnar séu riftanlegar samkvæmt 141. gr. sömu laga. Þær hafi á ótilhlýðilegan hátt verið gagnáfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra og leitt til þess að eignir DV ehf. voru ekki til reiðu til fullnustu krafna kröfuhafa. Enn fremur hefðu verið gerðar upp skuldir sem höfðu gjaldfallið mörgum mánuðum eða árum fyrr. Fyrir liggi að DV ehf. hafi þá verið ógjaldfært og gagnáfrýjanda verið kunnugt um erfiða fjárhagsstöðu félagsins þegar greiðslurnar voru inntar af hendi þar sem fyrr hefðu verið gerð árangurslaus fjárnám hjá félaginu auk þess sem honum hafi verið kunnugt um að það væri eigna- og tekjulítið. Enn fremur byggir aðaláfrýjandi á því að fyrri greiðslan hafi verið hluti af rekstrarfé DV ehf. þar sem hún hafi verið greidd með láni frá móðurfélagi þess til greiðslu tiltekinna skulda. Telji hann því að það fái ekki staðist skoðun að greiðslan verði metin þannig að hún hafi aldrei borist inn á bankareikninga DV ehf. og aldrei verið félaginu aðgengileg eða til ráðstöfunar og greiðslugeta þess því ekki skerst af þeim sökum.

24. Aðaláfrýjandi byggir einnig á því að með yfirlýsingu um samþykki riftunar í bréfi 8. október 2018 og endurgreiðslu á hluta þeirra greiðslna sem inntar voru af hendi á tímabilinu 15. maí til 6. desember 2017 hafi gagnáfrýjandi viðurkennt að riftunarskilyrði samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum hafi að öðru leyti verið uppfyllt á umræddu tímabili.

25. Aðaláfrýjandi mótmælir því að sú staðreynd að greiðsla á skuldum DV ehf. hafi verið innt af hendi af öðrum aðila fyrir hönd félagsins skipti máli varðandi riftanleika greiðslna samkvæmt framangreindum ákvæðum. Þá sé því mótmælt að á honum hvíli sönnunarbyrði, umfram sönnun á sjálfum greiðslunum, um að umræddir fjármunir hefðu annars staðið honum til boða til greiðslu annarra skulda eða hefðu verið lagðir inn á reikninga félagsins ef hinar umdeildu skuldir hefðu ekki verið greiddar. Allt að einu telji hann sannað að greiðslurnar hafi tilheyrt félaginu og verið hluti af rekstrarfé þess. Þá telur hann sannað að umræddar greiðslur hafi rýrt greiðslugetu félagsins verulega.

26. Verði fallist á riftun á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 byggir aðaláfrýjandi kröfu sína á 1. mgr. 142. gr. sömu laga en verði niðurstaðan að greiðslurnar séu riftanlegar samkvæmt 141. gr. laganna sé krafa um bætur byggð á 3. mgr. 142. gr. þeirra. Þá miðist vaxtakrafa samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 við greiðsludag.

Helstu málsástæður gagnáfrýjanda

27. Gagnáfrýjandi byggir á því að umdeildar kröfur hafi ekki verið greiddar af DV ehf. heldur þriðju aðilum, Lögviti ehf. og Pressunni ehf., sem hvor um sig sé sjálfstæður lögaðili. Þar af leiðandi hafi greiðslurnar ekki haft áhrif á fjárhag DV ehf. eða möguleika félagsins til að standa skil á kröfum annarra kröfuhafa og jafnræði kröfuhafanna hafi í engu raskast. Gagnáfrýjandi telur að fjármunir þriðja aðila geti aldrei orðið riftanleg eign þrotabúsins og ætlað tjón aðaláfrýjanda verði ekki rakið til slíkra greiðslna. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi með peningum eftir að gjalddagi skulda var liðinn og hafi ekki verið gagnáfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Þannig séu ekki uppfyllt skilyrði riftunar á grundvelli 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991.

28. Gagnáfrýjandi mótmælir þeirri málsástæðu aðaláfrýjanda að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 króna hafi verið lán frá Pressunni ehf. Hann telur að hér sé um að ræða nýja málsástæðu sem sé of seint fram komin enda ekki verið á henni byggt fyrr en í greinargerð til Landsréttar.

29. Þá andmælir gagnáfrýjandi því að greiðslurnar hafi verið ótilhlýðilegar og falið í sér mismunun kröfuhafa. Reynt hafi verið að bjarga rekstri DV ehf. með fjárhagslegri endurskipulagningu, meðal annars með því að útvega fjármuni sem verja skyldi til greiðslu skattskulda. Hann byggir á því að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 króna hafi verið í samræmi við tilgang áður framkvæmdrar hlutfjárhækkunar um að greiða skuldir DV ehf. við gagnáfrýjanda.

30. Framangreindu til viðbótar byggir gagnáfrýjandi á því að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 króna hafi verið innt af hendi 13. janúar 2017 og falli því utan tímafrests 134. gr. laga nr. 21/1991.

31. Þá andmælir gagnáfrýjandi jafnframt kröfum aðaláfrýjanda um vexti og upphafstíma þeirra. Ekki séu lagaskilyrði til að taka til greina endurgreiðslu- eða skaðabótakröfu aðaláfrýjanda. Varðandi varakröfu sína í gagnsök vísar hann til þess að endurgreiðsla lánsins af hálfu DV ehf. til Pressunnar ehf. hafi verið 607.142 krónum lægri en sjálft lánið og taka þurfi tillit til þess ef fallist verður á riftunar- og endurgreiðslukröfur. Að lokum mótmælir hann því að í bréfi sínu 8. október 2018 hafi falist viðurkenning á að riftunarskilyrðum væri fullnægt líkt og aðaláfrýjandi haldi fram.

Löggjöf

32. Svo sem ráðið verður af lögskýringargögnum með lögum nr. 21/1991 og fjallað er um í eldri dómum Hæstaréttar, meðal annars í dómi réttarins 29. október 2020 í máli nr. 19/2020, eru gjaldþrotaskipti sameiginleg fullnustugerð allra þeirra sem eiga kröfur á hendur skuldara við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og lýsa kröfum sínum með réttum hætti í þrotabú eða eiga af öðrum ástæðum rétt til greiðslu við úthlutun. Riftunarreglur XX. kafla laganna gera þrotabúi kleift að ónýta með afturvirkum hætti tilteknar ráðstafanir þrotamanns í þeim tilgangi meðal annars að draga fleiri eignir undir skiptin til hagsbóta fyrir kröfuhafa búsins. Markmið reglnanna er að unnt sé að rifta þeim ráðstöfunum þrotamanns sem áhrif hafa haft á möguleika kröfuhafa til að fá efndir af fjármunum bús og eru því einskorðaðar við riftun ráðstafana og endurheimt þeirra verðmæta sem þrotabú hefur orðið af vegna þeirra. Á hinn bóginn hafa lögin ekki að geyma upptalningu á þeim tegundum löggerninga sem nýttir eru til slíkra ráðstafana.

33. Aðaláfrýjandi byggir riftunarkröfur sínar í fyrsta lagi á heimild 134. gr. laga nr. 21/1991 til riftunar þeirra ráðstafana sem kallaðar hafa verið óvenjulegar greiðslur en 1. mgr. 134. gr. er svohljóðandi: „Krefjast má riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.“ Eins og fram hefur komið er þá fyrst og fremst undir í málinu það skilyrði greinarinnar hvort greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu þrotamannsins verulega og við hvaða tímamark beri að miða sex mánaða frest ákvæðisins.

34. Í öðru lagi byggir aðaláfrýjandi riftunarkröfur sínar á 141. gr. laga nr. 21/1991 en sú heimild til riftunar hefur verið nefnd almenna riftunarreglan. Skilyrði riftunar er að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Það getur lotið að því að ráðstöfun hafi verið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Í öllum þremur tilvikunum er áskilið að skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar svo og að sá sem hafði hag af henni hafi verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

35. Auk mats á skilyrðum framangreindra reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 reynir sérstaklega á það í þessu máli hverju það varði að greiðsla umræddra skulda þrotamanns var ekki innt af hendi af honum sjálfum heldur þriðja aðila en varnir gagnáfrýjanda lúta öðru fremur að þeim þætti málsins.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

36. Beiðni aðaláfrýjanda, 15. mars 2022, um leyfi til áfrýjunar, var afmörkuð við úrlausn um riftun greiðslu að fjárhæð 85.000.000 króna. Er þess þá að gæta að í 2. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að takmarka megi leyfi við tiltekin atriði máls. Í ákvörðun Hæstaréttar segir um forsendur leyfis til áfrýjunar: „Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á, einkum um almenn skilyrði riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.” Í áfrýjunarstefnu sem gefin var út á grundvelli leyfisins sama dag tók kröfugerð og málatilbúnaður aðaláfrýjanda hins vegar til beggja þeirra greiðslna sem tekist var á um í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar, þar með talið greiðslu að fjárhæð 40.946.684 krónur. Með gagnáfrýjunarstefnu, útgefinni 13. júní 2022, var krafist sýknu af kröfum um riftun beggja greiðslnanna.

37. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti breytti aðaláfrýjandi kröfugerð sinni á þann veg að krafist var staðfestingar hins áfrýjaða dóms um riftun fyrri greiðslunnar að fjárhæð 40.946.684 krónur og greiðslu bóta sömu fjárhæðar en að rift yrði með dómi seinni greiðslunni að fjárhæð 85.000.000 króna og gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda sömu fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum.

38. Hvað sem líður ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um að takmarka megi áfrýjunarleyfi við tiltekin atriði máls er ekki að finna frekari fyrirmæli í XXVII. kafla laganna um það hvernig haga skuli áfrýjun að öðru leyti undir slíkum kringumstæðum. Í þessu samhengi skiptir þá einkum máli að heimild til gagnáfrýjunar, samkvæmt 3. mgr. 177. gr. laganna, sýnist óbreytt frá þeim reglum sem giltu samkvæmt eldri dómstólaskipan, sbr. lög nr. 49/2016, og er hún hliðstæð heimild til gagnáfrýjunar til Landsréttar, sbr. 3. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Að því gættu og með vísan til dóms Hæstaréttar 21. janúar 1999 í máli nr. 411/1997 sætir heimild gagnáfrýjanda til gagnáfrýjunar ekki takmörkunum hvað sem líður heimild til að takmarka áfrýjun í aðalsök við tiltekna þætti máls.

Um efnishlið málsins

39. Við efnislega úrlausn málsins verður fyrst fjallað um fyrri greiðsluna að fjárhæð 85.000.000 króna og að því búnu um hina síðari að fjárhæð 40.946.684 krónur. Í báðum tilvikum reynir á þýðingu þess að greiðsla barst gagnáfrýjanda frá þriðja manni en aðaláfrýjandi byggir, svo sem ítrekað hefur komið fram, kröfur um riftun beggja greiðslna á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Enn fremur telur aðaláfrýjandi það hafa þýðingu, við mat á sex mánaða frestinum til riftunar, samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, hvenær hærri greiðslan var bókuð inn á tilteknar skuldir hjá gagnáfrýjanda en ekki eigi að miða við það tímamark þegar hún barst honum.

40. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verður ráðið að riftanlegar ráðstafanir geta farið fram með margvíslegum og flóknum löggerningum á sviði fjármunaréttar eða öðrum réttarsviðum. Við mat á því hvort riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 verður beitt þarf þannig að líta fram hjá tegund og formi löggerninganna en beina þess í stað sjónum að þeim afleiðingum sem ráðstöfunin hefur haft á fjárhag skuldara og þar með hagsmuni kröfuhafa. Í því sambandi skiptir almennt ekki máli þótt þriðji maður komi við sögu ef skilyrði riftunar eru að öðru leyti uppfyllt enda takmarkast riftunarreglur XX. kafla laganna ekki við ráðstafanir sem þrotamaður framkvæmir. Lög nr. 21/1991 geyma ekki sérstakar leiðbeiningar um það hvort og þá með hvaða hætti riftunarreglum XX. kafla verður beitt þegar að greiðsla berst ekki milliliðalaust frá þrotamanni. Hlýtur þá sem endranær að þurfa að taka mið af því hvort og þá að hvaða marki ráðstöfunin hefur haft áhrif á fjárhag þrotamanns og þar með hagsmuni og jafnræði kröfuhafa. Þá verður að sýna fram á að þau verðmæti sem ráðstöfun lýtur að hefðu ella runnið til skuldara og því til greiðslu skulda hans. Sönnunarbyrði um að framangreindar aðstæður séu fyrir hendi hvílir á aðaláfrýjanda sem rifta vill greiðslunum.

Krafa að fjárhæð 85.000.000 króna

41. Svo sem rakið er í forsendum hins áfrýjaða dóms telst greiðsla peningakröfu alla jafna hafa farið fram þegar hún er komin til kröfuhafa. Eftir að gagnáfrýjandi móttók greiðsluna að fjárhæð 85.000.000 króna 13. janúar 2017 var hún ekki endurkræf greiðanda hvað sem leið endanlegri ráðstöfun inn á tiltekna skuld 18. maí þá um vorið. Verður því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að ekki standi til þess lagaskilyrði að umræddri greiðslu verði rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

42. Liggur því næst fyrir að taka afstöðu til þess hvort framangreindri greiðslu verður rift á grundvelli almennrar riftunarreglu í 141. gr. laga nr. 21/1991. Verður þá fyrst lagt mat á hvort um hafi verið að ræða ráðstöfun skuldara í skilningi 141. gr., svo sem aðaláfrýjandi byggir á, eða þriðja manns og þá þrotabúinu óviðkomandi eins og sýknukrafa gagnáfrýjanda er byggð á.

43. Hér að framan hefur verið gerð ítarleg grein fyrir tilgangi umræddrar greiðslu en ekki er ágreiningur um að umþrættir fjármunir áttu rætur að rekja til hlutafjárhækkunar í Pressunni ehf. í janúar 2017 sem fram fór á grundvelli V. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Greiðslan var innt af hendi 13. janúar 2017 af Aztiq fjárfestingum ehf., fyrir hönd Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf., til lögmannsstofunnar Lögvits ehf. sem síðan ráðstafaði fjármununum til að greiða skattskuldir Pressunnar ehf. og tengdra félaga eins og nánar er rakið í gögnum málsins, þar með talið umræddum 85.000.000 króna vegna DV ehf. Enginn ágreiningur sýnist í sjálfu sér vera um að samkomulag hafi verið um ráðstöfun hlutafjárhækkunarinnar milli þeirra aðila sem þá komu að málum.

44. Til þess að umrædd ráðstöfun geti verið riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 þarf hún, svo sem fyrr greinir, að hafa á ótilhlýðilegan hátt verið gagnáfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra, leitt til þess að eignir DV ehf. hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Þá þarf að liggja fyrir að fjármunirnir hefðu að öðrum kosti verið skuldara til frjálsrar ráðstöfunar. Þannig er ekki hægt að heimta verðmæti í eigu þriðja manns til þrotabús á grundvelli riftunarreglna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. júní 1944 í máli nr. 53/1944. Lykilatriði við mat á því hvort þrotabú getur rift greiðslu sem er greidd af þriðja manni er hvort verðmæti hafa runnið úr því vegna slíkrar ráðstöfunar eða hún leitt til skuldaaukningar og því haft áhrif á stöðu þess. Þá er þess jafnframt að gæta að hvað sem leið ætlaðri samþættingu í rekstri og ráðstöfunum umræddra félaga sem tengdust Pressunni ehf., þar á meðal DV ehf., meðal annars vegna þeirra tengsla sem á milli þeirra voru, sbr. 2. gr. laga nr. 138/1994, verður eftir sem áður að meta þær ráðstafanir sem staðið var að í nafni hvers félags um sig með hliðsjón af því að um sjálfstæða lögaðila var að ræða og þeir og fyrirsvarsmenn þeirra báru ábyrgð á þeim grundvelli.

45. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er unnt að fullyrða að greiðsla að fjárhæð 150.000.000 króna vegna umræddrar hlutafjárhækkunar tilheyrði að lögum Pressunni ehf. Svo sem fyrr segir hefur öðru ekki verið borið við en að ráðstöfun þeirra fjármuna til greiðslu skulda hafi átt sér stað með samþykki þeirra sem þá fóru með lögmælt fyrirsvar þess félags. Á það meðal annars við um umþrætta greiðslu skulda DV ehf. að fjárhæð 85.000.000 króna.

46. Gagnáfrýjandi mótmælir sem of seint fram kominni þeirri málsástæðu aðaláfrýjanda að umrædd greiðsla hafi falið í sér lánveitingu Pressunnar ehf. til DV ehf. Á þessari málsástæðu byggði aðaláfrýjandi ekki skýrlega fyrr en í greinargerð til Landsréttar en með hliðsjón af því sem fyrst kom fram í vörnum málsins í héraði var þá fyrst tilefni til þess að tefla henni fram og telst hún því ekki of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr., 2. mgr. 163. gr. og 187. gr. laga nr. 91/1991.

47. Ekki verður fyllilega ráðið af málatilbúnaði aðaláfrýjanda hvort ætlaður lánveitandi hafi verið móðurfélagið Pressan ehf. eða Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. Hafi raunin verið annað tveggja fæst þess hvorki séð skýrlega staður í gögnum málsins né framburði vitna. Verða takmarkaðar upplýsingar sóttar í bókhald viðkomandi félaga að öðru leyti en því að umrædd greiðsla mun í bókum DV ehf. hafa verið færð sem skuld við Fjárfestingafélagið Dalinn ehf. Sú færsla fær hins vegar ekki samræmst því að umræddir fjármunir voru sannarlega hluti óumdeildrar hlutafjárhækkunar síðarnefnda félagsins í Pressunni ehf. Þá var engum kröfum lýst vegna þessa í búið, hvorki af hálfu Pressunnar ehf. né Fjárfestingafélagsins Dalsins ehf.

48. Ekki hefur verið hnekkt því sem fram kom í hinum áfrýjaða dómi að umrædd greiðsla hafi aldrei borist inn á bankareikninga DV ehf. eða verið félaginu á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Af því leiðir að ekki hefur verið sýnt fram á að hún hafi beint eða óbeint rýrt eignir DV ehf. á umræddum tíma. Þvert á móti virðist ráðstöfunin í reynd hafa leitt til lækkunar skulda DV ehf. þar sem ekki verður séð að kröfu hafi verið beint að DV ehf. í stað þeirrar kröfu sem var greidd með ráðstöfuninni. Af því leiðir einnig að greiðslan var ekki gagnáfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra.

49. Loks verður ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi viðurkennt að riftunarskilyrðum væri fullnægt hvað þessar greiðslu varðar með bréfi sínu 8. október 2018. Sú málsástæða er haldlaus enda er í nefndu bréfi beinlínis hafnað að rifta þeim greiðslum sem deilt er um í máli þessu.

50. Að öllu framangreindu virtu telst aðaláfrýjandi ekki hafa sannað að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.

51. Er því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að hafna riftun greiðslu að fjárhæð 85.000.000 króna og bótakröfu vegna hennar.

Krafa að fjárhæð 40.946.684 krónur

52. Hér fyrr hefur því verið lýst að lægri greiðslan til gagnáfrýjanda sem aðaláfrýjandi krefst riftunar á var að fjárhæð 40.946.684 krónur og innt af hendi 8. september 2017. Um var að ræða hluta af 110.000.000 króna greiðslu Pressunnar ehf. til DV ehf. sem hafði farið fram sama dag. Þá liggur fyrir að í bókhaldi Pressunnar ehf. var greiðslan færð sem skuld DV ehf. við félagið og að 14. sama mánaðar bárust tvær greiðslur af bankareikningi DV ehf. inn á reikninga Pressunnar ehf., samtals að fjárhæð 40.339.542 krónur. Í bókhaldi Pressunnar ehf. er þetta skýrt sem „endurgr. v/Tollstjóra“ og í bókhaldi DV ehf. voru sömu greiðslur færðar til lækkunar á skuld félagsins við Pressuna ehf.

53. Meginvörn gagnáfrýjanda felst sem fyrr segir í því að umræddri ráðstöfun verði hvorki rift á grundvelli 134. né 141. gr. laga nr. 21/1991 enda hafi hún stafað frá þriðja manni og engin áhrif haft á stöðu aðaláfrýjanda og kröfuhafa hans. Verður fyrst tekin afstaða til þeirrar málsástæðu.

54. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að Pressan ehf. hafi lánað DV ehf. 40.946.684 krónur 8. september 2017 til greiðslu á nánar tilgreindum opinberum gjöldum og að DV ehf. hafi endurgreitt stærstan hluta þess láns 14. sama mánaðar með greiðslum samtals að fjárhæð 40.339.542 krónur. Eins og atvikum háttar hér til getur engu máli skipt, svo sem gagnáfrýjandi sýnist byggja á, skammtímafjármögnun móðurfélagsins Pressunnar ehf. og sú tilhögun að greiðslan barst upphaflega af reikningi þess félags. Verður alfarið litið fram hjá þeim aðdraganda við mat þess hvort fallist verður á riftun. Við endurgreiðsluna sex dögum síðar, 14. september 2017, rýrnaði handbært fé DV ehf. um þá fjárhæð sem þá var greidd með tilheyrandi áhrifum á greiðslugetu þess og jafnræði kröfuhafa. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til þess að greiðslunni verði rift. Þá er jafnframt staðfest sú niðurstaða að gagnáfrýjanda verði á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 gert að endurgreiða aðaláfrýjanda „fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins”. Sú fjárhæð getur eðli málsins samkvæmt ekki numið hærri fjárhæð en þeirri sem DV ehf. endurgreiddi Pressunni ehf. 14. september 2017 eða 40.339.542 krónum enda rann ekki hærri fjárhæð frá DV ehf. Loks er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ekki séu skilyrði til greiðslu vaxta af endurgreiðslukröfunni á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 sem og um upphafstíma dráttarvaxta.

55. Niðurstaða málsins verður því á þann veg að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur um sýknu gagnáfrýjanda af greiðslu að fjárhæð 85.000.000 króna sem innt var af hendi 13. janúar 2017 en að rift sé greiðslu 8. september 2017 á skuld aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda að fjárhæð 40.946.684 krónur. Á hinn bóginn verður gagnáfrýjanda ekki gert að greiða þá fjárhæð heldur 40.339.542 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. október 2018 til greiðsludags.

56. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verða staðfest. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Rift er greiðslu 8. september 2017 á skuld DV ehf. við gagnáfrýjanda, íslenska ríkið, að fjárhæð 40.946.684 krónur.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi DV ehf., 40.339.542 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. október 2018 til greiðsludags.

Að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.