Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2021

Reynir Traustason (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Arnþrúði Karlsdóttur (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

Reifun

R krafðist ómerkingar tveggja nánar tiltekinna ummæla sem A viðhafði í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarp Saga 5. desember 2018. Þá gerði R kröfu um að A yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál nyti aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Ekki væri dregið í efa að ummæli A væru framlag til opinberrar umræðu um málefni er gæti varðað samfélagið miklu og væri henni játað rúmt frelsi til tjáningarinnar. Það leiði af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hefðu haslað sér völl á því sviði kunni að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan teljist eiga erindi við almenning. Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kunni þannig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum. Þá kom fram í dómi réttarins að ummæli A hefðu lotið að störfum R sem fjölmiðlamanns. R hefði verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. R hefði ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem teldi hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum og að R hefði hlotið dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning. Við heildstætt mat á ummælum A væri til þess að líta í hvaða samhengi ummælin hefðu verið viðhöfð og hvernig þau hefðu verið sett fram. Taldi rétturinn að A hefði verið að fella gildisdóm um störf R sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum. Þótt ummælin hefðu verið óvægin var ekki talið að A hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Var A því sýknuð af kröfum R.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2021. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli gagnáfrýjanda, sem féllu í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu 5. desember 2018, verði dæmd dauð og ómerk: „Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“ Einnig: „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“ Hann krefst þess einnig að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 300.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 12. október 2021. Hún krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind ummæli sem gagnáfrýjandi viðhafði um aðaláfrýjanda á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu 5. desember 2018 feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem brjóti gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og friðhelgi einkalífs aðaláfrýjanda sem njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eða hvort ummælin rúmist innan tjáningarfrelsis gagnáfrýjanda sem varið er af 73. gr. hennar.

5. Áfrýjunarleyfi var veitt 31. ágúst 2021 samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi á þessu réttarsviði, einkum um mörk svonefndra gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir.

Málsatvik og meðferð máls fyrir dómi

6. Aðaláfrýjandi hefur starfað við blaðamennsku í tæp þrjátíu ár og hluta þess tíma ritstýrt og rekið fjölmiðla. Nú mun hann starfa við fararstjórn og ritstjórn netmiðilsins Mannlif.is. Hann er eigandi að 14% hlut í fjölmiðlinum Stundinni en gegnir þar ekki neinni formlegri stöðu. Gagnáfrýjandi er stofnandi og eigandi Útvarps Sögu og hefur verið útvarpsstjóri og þáttastjórnandi stöðvarinnar í nær tvo áratugi.

7. Framangreind ummæli sem krafist er ómerkingar á voru höfð uppi í þætti undir dagskrárliðnum „Spjallið“ á Útvarpi Sögu 5. desember 2018. Var þátturinn á dagskrá í kjölfar símatíma þar sem hlustendur stöðvarinnar áttu þess kost að hringja og fjalla um ýmis málefni. Þennan dag sátu gagnáfrýjandi og annar starfsmaður útvarpsstöðvarinnar að spjalli í beinni útsendingu í tæpar 20 mínútur. Ræddu þau um samræðuhefð á Íslandi, aðferðir við fréttaflutning og umræðu á netmiðlum. Sagði gagnáfrýjandi meðal annars:

„Það varð gríðarlegt siðrof í þjóðfélaginu eftir hrun. Alveg ofboðslegt siðrof og það birtist meðal annars í orðræðu fólks ekki hvað síst inni á netmiðlum. Það birtist í athugasemdakerfi og inni á Facebook, það eru sumir þar óstöðvandi en það ná engin lög yfir það. Það er bara í lagalegu tómarúmi sem er mjög alvarlegur hlutur […] en ég er að reyna að sjá þetta heildstætt að hvar þjóðin er stödd mitt í þessari orðræðu og hvernig í ósköpunum það má vera að það hafi verið látið viðgangast allt það sem sagt er og öll sú orðræða sem á sér stað inni á netmiðlum og í athugasemdakerfunum. Netmiðlarnir sem slíkir, DV, Vísir og Stundin hafa átt það sammerkt að þeir eru eins og sko, þeir bara taka fyrir fólk það sem þeim dettur í hug og síðan treysta þeir því að athugasemdakerfið sjái um að afgreiða líf fólks eftir það. Athugasemdakerfið sér um það. Það er ormagryfja.“

Þá sagði viðmælandi gagnáfrýjanda: „Við komum með villandi frétt, með krassandi fyrirsögn og síðan er athugasemdakerfið sem tekur við.“ Svaraði gagnáfrýjandi: „Já það tekur við.“ Því næst sagði viðmælandinn: „Það er þannig sem þessu er stillt upp sko.“ Í framhaldi af þessu viðhafði gagnáfrýjandi ummæli þau sem krafist er ómerkingar á og bætti svo við:

„Hvað heldurðu séu margir sem eru búnir að gráta úr sér augun yfir lygunum í þeim? Ég bara spyr um það. Og við skulum aðeins gæta okkar, við hljótum að vera komin lengra. Við stærum okkur af því að hafa jafnað okkur fljótt eftir hrunið í efnahagslegum tilgangi, hér sé svo mikill hagvöxtur og hér blómstrar allt. Og hvað? Þjóðin er í andlegum sárum. Bara gjörsamlega í tilfinningalegum sárum. Og það sést best á þessari orðræðu að fólk sleppir sér gjörsamlega. Hér eru bara nafnleysingjarnir látnir vaða uppi og þingið segir ekki neitt.“

Samtal þeirra hélt síðan áfram um nokkra hríð og lýsti gagnáfrýjandi þeirri skoðun sinni að löggjafarvaldið þyrfti að taka á þessum málum með lagasetningu.

8. Með héraðsdómi 11. febrúar 2020 voru hin umþrættu ummæli dæmd dauð og ómerk en gagnáfrýjandi sýknuð af kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu á öðrum ummælum eins og þar greinir nánar. Var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 300.000 krónur í miskabætur en kröfu um birtingu dóms á vefsíðunni www.utvarpsaga.is var vísað frá dómi.

9. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu til Landsréttar sem sýknaði hana af kröfum aðaláfrýjanda með dómi 11. júní 2021. Í niðurstöðu dómsins var meðal annars horft til þess í hvaða samhengi ummælin hefðu fallið og talið að gagnáfrýjandi hefði verið að fella gildisdóm og lýsa skoðun sinni og ályktunum um aðaláfrýjanda og störf hans. Þá var vísað til þess að aðaláfrýjandi væri þjóðþekktur maður sem starfað hefði sem blaðamaður og ritstjóri í tæp þrjátíu ár þar sem hann og fjölmiðlar undir hans stjórn hefðu ekki veigrað sér við að fjalla með hvössum og gagnrýnum hætti um menn og málefni líðandi stundar. Hefðu ummælin ekki verið úr lausu lofti gripin. Að því virtu og því að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nyti einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar var talið að með ummælum sínum hefði gagnáfrýjandi ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að með þeim hefði hann farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem lög og réttarframkvæmd hefðu mótað.

Málsástæður og lagarök aðila

10. Af hálfu aðaláfrýjanda er í meginatriðum á því byggt að með framangreindum ummælum hafi verið vegið harkalega að æru hans og starfsheiðri. Í þeim felist fyrirvaralaus staðhæfing um að hann hafi vísvitandi birt ósannar fréttir með það að markmiði að leggja líf fólks í rúst. Ómögulegt sé að skilja þau öðruvísi en svo að aðaláfrýjanda sé borin á brýn háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Gagnáfrýjandi hafi í engu sýnt fram á að staðhæfingar hennar séu réttar. Við mat á ummælum hennar beri að gæta þess að þegar þau féllu hefði aðaláfrýjandi ekki starfað við blaðamennsku frá miðju ári 2014 auk þess sem hann hefði ekki haft ritstjórn netmiðla með höndum. Rangfærslur þessar verði með engu réttlættar með því að þær hafi átt erindi við almenning eða hefðu verið réttlætanlegar sem hluti af þjóðfélagsumræðu. Þess sé að gæta að þótt aðaláfrýjandi hafi eitt sinn verið dæmdur fyrir ærumeiðandi ummæli hafi hann ekki með nokkru móti gefið á sér slíkt færi að hann þurfi að þola ummæli af þessu tagi. Þá hafi gagnáfrýjandi viðhaft ummælin í vondri trú og þau auk þess verið svo meiðandi að ekki rúmist innan tjáningarfrelsis hennar. Aðaláfrýjandi telur ummælin ærumeiðandi aðdróttanir og að í þeim felist brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin hafi jafnframt verið höfð í frammi gegn betri vitund, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. laganna. Ummælin séu röng, særandi og ósmekkleg og til þess fallin að sverta æru aðaláfrýjanda. Réttur hans til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og fyrrgreindra ákvæða almennra hegningarlaga. Í þeim hafi falist ólögmæt meingerð sem skapi skyldu til greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

11. Gagnáfrýjandi byggir á því að umræða um fjölmiðla eigi brýnt erindi við almenning og njóti verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ummælin hafi verið að gefnu tilefni og falið í sér gildisdóm en ekki staðhæfingar um staðreyndir og því þurfi hún ekki að sanna réttmæti þeirra. Leggja verði til grundvallar táknræna eða yfirfærða merkingu ummælanna fremur en bókstaflega merkingu. Þá hafi hún varpað þeim fram í spurnarformi en í því hafi falist fyrirvari. Hún hafi eingöngu verið að lýsa skoðun sinni á störfum aðaláfrýjanda og þeirra fjölmiðla sem hann hefði komið að sem ritstjóri og eigandi. Skoða verði ummæli hennar í samhengi við umræðu í þættinum í heild og þá sérstaklega í tengslum við orðræðu fólks á netmiðlum og athugasemdakerfi fjölmiðla. Fullt tilefni hafi verið fyrir gildisdómi hennar og ummæli sem stuði, móðgi eða trufli njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar þegar um er að ræða málefni sem hafi þjóðfélagslega þýðingu. Þá þurfi að hafa í huga að ummælin hafi beinst að einstaklingi sem hafi starfað í fjölmiðlum í áraraðir. Hann hafi sjálfur skapað sitt eigið orðspor enda hafi hann í áratugi viðhaft talsmáta um menn og málefni og hegðun sem almennt verði að telja lítt sæmandi. Ummælin eigi stoð í staðreyndum en aðaláfrýjanda hafi ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar og friðhelgisbrot og verið dæmdur fyrir ærumeiðingar. Gagnáfrýjandi andmælir því sérstaklega að hún hafi með ummælum sínum sakað aðaláfrýjanda um refsiverða háttsemi. Enn fremur vísar hún til þeirra „kælingaráhrifa“ á frjálsa tjáningu sem dómur í málinu kynni að hafa ef fallist yrði á dómkröfur aðaláfrýjanda. Loks byggir gagnáfrýjandi á því að fjölmiðlamenn hafi rýmra frelsi til tjáningar en aðrir borgarar vegna mikilvægis fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.

Lagaumhverfi

12. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verður að ábyrgjast þær fyrir dómi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Tjáningarfrelsinu má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær takmarkanir nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Tjáningarfrelsið nýtur jafnframt verndar 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

13. Friðhelgi einkalífs nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Æra og mannorð eru þættir í einkalífi manna sem njóta verndar samkvæmt ákvæðunum.

14. Í athugasemdum með 9. og 11. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem færðu ákvæði 71. og 73. gr. stjórnarskrár í það horf sem þau nú eru, var lýst því markmiði að færa ákvæðin til samræmis við efni 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður við skýringu þessara stjórnarskrárákvæða jafnframt litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu um inntak réttindanna og takmarkanir sem þeim eru settar.

15. Í framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga, sem aðaláfrýjandi vísar til, eru fólgnar heimildir til að setja tjáningarfrelsi skorður í þágu réttinda annarra, svo sem tilgreint er í 3. mgr. 73. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í 235. gr. almennra hegningarlaga er því lýst sem refsiverðu athæfi að drótta að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða bera slíka aðdróttun út. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga er refsivert að bera slíka aðdróttun út opinberlega eða gegn betri vitund. Þá er eftir 1. mgr. 241. gr. laganna unnt að dæma í meiðyrðamáli óviðurkvæmileg ummæli ómerk að kröfu þess sem misgert er við. Ekki er skilyrði fyrir ómerkingu að sakfellt hafi verið fyrir brot samkvæmt öðrum ákvæðum XXV. kafla laganna. Loks er í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að finna heimild til þess að gera þeim sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns að greiða miskabætur til þess sem misgert er við.

Forsendur og niðurstaða

16. Eins og áður greinir lýtur ágreiningur þessa máls að því hvort gagnáfrýjandi hefur með umdeildum ummælum sínum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og brotið gegn einkalífsréttindum aðaláfrýjanda. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu hafa mótast viðmið og reglur sem beita ber við úrlausn um álitaefnið. Meta þarf sjónarmið beggja aðila í ljósi þess að hvort tveggja, tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda og æruvernd aðaláfrýjanda, eru meðal mannréttinda sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og sáttmálans og finna þarf jafnvægið milli þeirra.

17. Heimildir til að takmarka tjáningarfrelsið samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu ber að skýra þröngt og þær þurfa að grundvallast á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Þá ber að gæta meðalhófs við úrlausn þess hvort skorður á því frelsi teljist þjóðfélagsleg nauðsyn. Í samræmi við framangreint nýtur umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Eru almennt líkur til þess að efni ummæla um slík mál teljist framlag sem eigi erindi við almenning og hefur heimild til slíkrar umfjöllunar verið túlkuð rúmt. Um þetta vísast til langrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu og má nefna dóma Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 og 28. maí 2009 í máli nr. 575/2008 svo og dóma mannréttindadómstólsins 4. maí 2017 í máli nr. 44081/13, Reynir Traustason o.fl. gegn Íslandi og 10. júlí 2012 í máli nr. 46443/09, Björk Eiðsdóttir gegn Íslandi.

18. Eins og rakið hefur verið fólu ummæli gagnáfrýjanda í sér ádeilu á orðræðu í þjóðfélaginu sem birtist á netmiðlum og hún telur vera „ormagryfju“ þannig að lagasetningarvaldið þurfi að láta til sín taka í þeim efnum. Verður gagnáfrýjanda játað rúmt frelsi til tjáningar um þetta tiltekna málefni og ekki dregið í efa að ummæli hennar séu framlag til opinberrar umræðu um málefni er getur varðað samfélagið miklu.

19. Það leiðir af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hafa haslað sér völl á því sviði kunna að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan telst eiga erindi við almenning, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. desember 2015 í máli nr. 238/2015. Í lýðræðisþjóðfélagi gegna fjölmiðlar og fjölmiðlamenn að þessu leyti lykilhlutverki og njóta ríks svigrúms til tjáningar um málefni sem eiga erindi til almennings og eru hluti af þjóðfélagsumræðu, sbr. til að mynda framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2008. Leiðir af því að gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kann einnig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum.

20. Þótt aðila greini á um hvort aðaláfrýjandi hafi verið stjórnarformaður fjölmiðils, ritstjóri netmiðla, hversu lengi hann hafi verið ritstjóri eða blaðamaður eða hver staða hans var þegar hin umþrættu ummæli féllu liggur fyrir í gögnum málsins að hann hefur starfað sem blaðamaður eða ritstjóri á fjölmiðlum í áraraðir og vegna þeirra starfa hefur hann mikið verið í sviðsljósinu. Lutu ummæli þau sem um ræðir að störfum hans sem fjölmiðlamanns.

21. Einnig hefur verið horft til fyrri háttsemi þess einstaklings sem ummæli lúta að við mat á því hversu óvægna gagnrýni hann verði talinn þurfa að þola, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 25. september 2003 í máli nr. 36/2003.

22. Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að aðaláfrýjandi hafi verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. Þá hefur honum ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem telur hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum. Hann hlaut dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013. Í öðrum meiðyrðamálum gegn honum hafa dómstólar talið að hið rýmkaða tjáningarfrelsi sem fjölmiðlar hafa til að fjalla um samfélagsleg málefni sem eiga erindi í opinbera umræðu ætti að ganga framar friðhelgi einkalífs stefnenda í þeim málum.

23. Þá skiptir ekki síst máli við mat á því hvort ummæli gagnáfrýjanda skuli sæta takmörkunum hvort fremur ber að líta á þau sem gildisdóm en staðhæfingu um staðreynd. Aðila greinir á um það hvernig líta ber á hin umþrættu ummæli í þessu tilliti. Gildisdómur felur venjulega í sér huglægt mat á staðreynd en ekki fullyrðingu um hana öndvert við staðhæfingar er vísa til beinna staðreynda án þess að um sé að ræða huglægt mat. Njóta gildisdómar eðli málsins samkvæmt ótvírætt almennt aukinnar verndar umfram ósannaðar staðhæfingar um staðreyndir. Það birtist meðal annars í því að mönnum verður ekki gert að sanna gildisdóma eða refsað fyrir þá takist ekki slík sönnun, andstætt því sem jafnan gildir um staðhæfingar um staðreyndir, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar 29. janúar 2009, nr. 321/2008. Eru gildisdómar skilgreindir fremur rúmt og þess heldur ef viðfangsefnið telst vera liður í almennri þjóðfélagsumræðu. Það á ekki síst við umræðu er tengja má stjórnmálum, sbr. meðal annars fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2008. Þótt ekki sé gerð krafa um sönnun gildisdóms getur skipt máli hvernig hann er settur fram og í tilviki slíks dóms um einstakling þurfa einhver atvik eða fyrirliggjandi upplýsingar um hann að geta gefið tilefni til að draga ályktanir af því tagi sem um ræðir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2010 í máli nr. 104/2009 og dóm mannréttindadómstólsins 13. nóvember 2003 í máli Scharsach og News Verlagsgeselleschaft gegn Austurríki í máli nr. 39394/98.

24. Við heildstætt mat á ummælum gagnáfrýjanda er til þess að líta að ummæli hennar voru ekki sett fram sem liður í fréttaflutningi heldur skírskotaði hún til almannahagsmuna og tengdi þau stjórnmálum. Lýsti hún andúð á umræðu og ósönnum fréttaflutningi sem tíðkaðist í þjóðfélaginu og taldi að Alþingi ætti að láta málefnið til sín taka. Dró hún ályktanir þar um með því að taka dæmi af aðferðum fjölmiðla og vísaði til framgöngu aðaláfrýjanda sem dæmis um hvernig fjölmiðlaumræða gæti haft áhrif á líf og lífshamingju fólks. Verður ekki annað talið en að tilvísun gagnáfrýjanda, sem sett var fram í spurnarformi, til orðasambandsins að hafa mörg mannslíf á samviskunni hafi verið notuð í yfirfærðri merkingu en ekki falið í sér fullyrðingu um að hann sjálfur hafi beinlínis orðið valdur að dauða fólks, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 405/2017. Með allt framangreint í huga verður ekki annað séð en að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum verið að fella gildisdóm um störf aðaláfrýjanda sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum.

25. Þótt ummælin hafi verið óvægin verður ekki talið að virtu öllu sem rakið hefur verið að gagnáfrýjandi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Heimila lög því ekki ómerkingu ummælanna og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

26. Þegar litið er til alls framangreinds og eftir úrslitum málsins er rétt að dæma aðaláfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Reynir Traustason, greiði gagnáfrýjanda, Arnþrúði Karlsdóttur, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.