Hæstiréttur íslands

Mál nr. 8/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Ólafur Eiríksson lögmaður), Y (Gestur Jónsson lögmaður) og Z (Ragnar Halldór Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Endurupptökudómur
  • Réttlát málsmeðferð
  • Milliliðalaus sönnunarfærsla
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skriflegur málflutningur
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015 höfðu X, Y og Z verið sakfelld fyrir ýmsa háttsemi í starfsemi A ehf. Með úrskurðum Endurupptökudóms 30. desember 2021 var fallist á beiðni þeirra um endurupptöku málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákæruvaldið tæki undir kröfu X, Y og Z um að vísa málinu frá Hæstarétti. Að gættri þeirri kröfugerð yrði í ljósi málsatvika og dóms Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 að vísa málinu frá réttinum.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma Ása Ólafsdóttir hæstaréttardómari, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.

2. Með úrskurðum Endurupptökudóms í málum nr. 20/2021, 29/2021 og 30/2021, öllum uppkveðnum 30. desember 2021, var fallist á beiðni ákærðu um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 74/2015, sem dæmt var 28. apríl 2016, að því er ákærðu varðar.

3. Ákæruvaldið krefst þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

4. Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að héraðsdómur um sýknu þeirra verði staðfestur.

5. Málið var dómtekið 18. október 2022 að fenginni yfirlýsingu málflytjenda um að ekki væri þörf munnlegs málflutnings í því, sbr. 3. málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

6. Með ákæru sérstaks saksóknara 5. júlí 2013 var sex einstaklingum gefin að sök tilgreind refsiverð háttsemi í tengslum við rekstur A ehf. Ákærða X, fyrrverandi stjórnarformanni A ehf., og tveimur fyrrverandi stjórnendum félagsins voru gefin að sök umboðssvik. Þau voru meðal annars talin felast í því að hafa í sameiningu í fyrrgreindum störfum sínum misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu er þeir létu félagið fjármagna efndir á samningum sem voru því óviðkomandi með nánar tilgreindum hætti. Þessi háttsemi var talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig voru ákærða X gefin að sök meiri háttar brot gegn lögum um bókhald nr. 145/1994 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006 með nánar tilgreindum hætti.

7. Í sömu ákæru voru ákærðu Y, sem fyrrverandi endurskoðanda ársreikninga A ehf., og ákærða Z, fyrrverandi kjörnum endurskoðanda félagsins, gefin að sök meiri háttar brot gegn lögum um ársreikninga nr. 3/2006 og þágildandi lögum um endurskoðendur nr. 18/1997 í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga A ehf. og samstæðureikninga félagsins fyrir árin 2006 og 2007 með því að haga störfum sínum í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju með nánar tilgreindum hætti. Jafnframt voru þeim ásamt B, löggiltum endurskoðanda hjá KPMG ehf., gefin að sök brot gegn þágildandi lögum um endurskoðendur nr. 18/1997 með því að rækja ekki endurskoðendastörf sín fyrir A ehf. í samræmi við góða endurskoðunarvenju.

8. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2014 voru ákærðu ásamt fyrrgreindum þremur öðrum sakborningum málsins öll sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

9. Með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu B. Aðrir sakborningar voru á hinn bóginn sakfelldir og gert að sæta refsingu. Ákærða X var gert að sæta fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærðu Y og Z voru dæmd í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og hvort um sig svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa í sex mánuði frá uppsögu dómsins.

10. Ákærðu leituðu hvert fyrir sig til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í yfirlýsingum íslenska ríkisins, sem lagðar voru fyrir þann dómstól, var viðurkennt að brotið hefði verið á rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Var um það vísað til dóms mannréttindadómstólsins 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, C gegn Íslandi, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Á grundvelli sameiginlegra yfirlýsinga ákærðu og íslenska ríkisins um sættir sem bárust dómstólnum 11. og 18. september 2020 og 27. nóvember sama ár felldi mannréttindadómstóllinn mál þeirra niður 4. mars 2021 með vísan til framangreindra sátta.

11. Með bréfi 14. apríl 2021 fór ákærði X þess á leit við Endurupptökudóm að hæstaréttarmálið nr. 74/2015 yrði endurupptekið að því er hann varðaði og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju fyrir Hæstarétti. Með bréfi 16. júní sama ár fóru ákærðu Y og Z fram á að málið yrði endurupptekið að því er þau varðaði og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju. Til stuðnings beiðnunum var vísað til fyrrgreindra sátta ákærðu og íslenska ríkisins fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Svo sem áður er fram komið tók Endurupptökudómur beiðnirnar til greina með úrskurðum í málum nr. 20/2021, 29/2021 og 30/2021, öllum uppkveðnum 30. desember 2021. Var sú niðurstaða reist á d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir þessari niðurstöðu voru færð eftirfarandi rök í liðum 17 og 18 í úrskurði nr. 20/2021, en samhljóða niðurstöðu er að finna í úrskurðum nr. 29/2021 og nr. 30/2021:

17. Eins og fyrr hefur verið rakið hefur íslenska ríkið viðurkennt í sátt sem lögð var fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að brotið hafi verið gegn rétti endurupptökubeiðanda til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í sáttinni er vísað sérstaklega til máls […] gegn [Íslandi] þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn reglunni um milliliðalausa málsmeðferð. Er þar jafnframt vísað til þess að endurupptökubeiðandi muni eiga kost á að óska eftir endurupptöku á máli nr. 74/2015 sem dæmt var í Hæstarétti 28. apríl 2016. Þá telur ríkissaksóknari, sem fer með lögbundið fyrirsvar vegna beiðna um endurupptöku sakamála samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, sterk rök mæla með endurupptöku málsins.
18. Í ljósi framangreinds verður að líta svo á að ágreiningslaust sé að sömu sjónarmið og lágu til grundvallar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli […] um brot gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans eigi við um meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti. Í því felst meðal annars að leggja verður til grundvallar að óumdeilt sé að Hæstiréttur hafi í máli hans lagt nýtt og víðtækara mat á staðreyndir málsins, meðal annars á grundvelli endurrita munnlegra skýrslna sem gefnar voru fyrir héraðsdómi. Með vísan til þeirrar meginreglu sakamálaréttarfars að sönnunarbyrði um sekt ákærðu hvíli á ákæruvaldinu og að allan vafa um sök hans beri að meta honum í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, þykir rétt með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum máls er háttað, að leggja til grundvallar að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti í máli nr. 74/2015 sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Samkvæmt því verður fallist á beiðni endurupptökubeiðanda um að málið verði endurupptekið fyrir Hæstarétti, hvað hann varðar, á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða

12. Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið tekið undir kröfur ákærðu um að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Því til stuðnings er meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar 5. október 2022 í máli nr. 7/2022. Í því máli hafði Endurupptökudómur heimilað endurupptöku máls, meðal annars með vísan til niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hefði verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og þar með rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í dómi Hæstaréttar er rakið að munnleg sönnunarfærsla geti ekki farið fram fyrir réttinum eftir gildistöku laga nr. 49/2016 og þegar litið væri til þess að með lögum nr. 47/2020 hafi verið lögfest heimild fyrir Endurupptökudóm til að ákveða að máli sem dæmt hefði verið í Hæstarétti yrði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti yrði því slegið föstu að Hæstarétt skorti að gildandi lögum heimild til að láta slíka sönnunarfærslu fara fram fyrir réttinum. Því hafi Endurupptökudómi að réttu lagi borið, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 til að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Endurupptökudómi hafi borið að gæta að þessu af sjálfsdáðum.

13. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar kemur einnig fram að í ljósi þess að málið sé endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hafi verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu verði ekki úr því bætt nema með því að leiða ákærða og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Sé réttinum ókleift að bæta úr því og þá hafi hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Enn fremur er þar vísað til 59. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um að skipan dómsvaldsins skuli ákveðin með lögum. Taki það ekki aðeins til þess að stofnunum þessum sé komið á fót með lögum heldur einnig að þar sé mælt fyrir um málsmeðferðina. Væri því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

14. Ákæruvaldið reisir sem fyrr segir kröfu um frávísun málsins frá Hæstarétti á þeim grunni að endurupptaka þess hvíli á sömu sjónarmiðum og lögð eru til grundvallar í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 7/2022. Því verði ekki hjá því komist að krefjast frávísunar málsins.

15. Til grundvallar endurupptöku máls þess sem síðar var leitt til lykta með dómi Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 lá dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, C gegn Íslandi. Í þessu máli liggja fyrir sáttir milli ákærðu og íslenska ríkisins sem gerðar voru með vísan til fyrrgreinds dóms mannréttindadómstólsins. Að gættri kröfugerð ákæruvaldsins hér fyrir dómi verður í ljósi málsatvika og dóms Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 að vísa málinu frá Hæstarétti.

16. Eftir þessum málsúrslitum greiðist sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015, að öllu leyti úr ríkissjóði.

17. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu Y, Gests Jónssonar lögmanns, 10.592.947 krónur, ákærða X, Ólafs Eiríkssonar lögmanns, 16.172.080 krónur, og ákærða Z, Ragnars Halldórs Hall lögmanns, 10.272.295 krónur.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu Y, Gests Jónssonar lögmanns, 700.000 krónur, ákærða X, Ólafs Eiríkssonar lögmanns, 700.000 krónur, og ákærða Z, Ragnars Halldórs Hall lögmanns, 700.000 krónur.