Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2021

Þrotabú Kansas ehf. (Hlöðver Kjartansson lögmaður)
gegn
Eignarhaldi ehf. (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Áfrýjun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Staðfestur var dómur Landsréttar þar sem máli þrotabús K ehf. á hendur E ehf. var vísað frá héraðsdómi. Talið var að reifun málsins í stefnu væri óskýr og að verulega skorti á að málsástæður sem þrotabú K ehf. byggði á væru skýrar svo og önnur atvik sem þyrfti að greina til þess að samhengi málsástæðna væri ljóst, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 26. mars 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í Landsrétti í þessum þætti málsins og kærumálskostnað.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.

5. Sóknaraðili höfðaði málið til að fá rift „greiðslu“ einkahlutafélagsins Kansas, sem þá hét Janúar, til varnaraðila að fjárhæð 4.585.920 krónur, sem hann byggir á að fram hafi farið 29. janúar 2015, með afhendingu tækja samkvæmt reikningi útgefnum þann dag. Jafnframt krafðist sóknaraðili endurgreiðslu sömu fjárhæðar úr hendi varnaraðila auk dráttarvaxta frá 29. janúar 2015 til greiðsludags. Til stuðnings kröfu um riftun vísaði sóknaraðili til 131., 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en krafa um endurgreiðslu var reist á 142. gr. sömu laga. Varnaraðili krafðist aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum sóknaraðila. Með úrskurði héraðsdóms 13. september 2018 var frávísunarkröfunni hrundið og með héraðsdómi 12. febrúar 2020 voru kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila teknar til greina. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var málinu vísað frá héraðsdómi.

6. Í málatilbúnaði sínum vísar sóknaraðili til þess að í áfrýjunarstefnu til Landsréttar hafi ekki verið leitað endurskoðunar á fyrrgreindum úrskurði héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. Það hafi hann fyrst gert í greinargerð sinni til Landsréttar og því hafi krafa um endurskoðun úrskurðarins komið of seint fram. Þessa málsástæðu hafði sóknaraðili uppi fyrir Landsrétti en hennar er í engu getið í dómi réttarins.

7. Samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 má við áfrýjun til Landsréttar leita endurskoðunar á úrskurðum og ákvörðunum sem gengið hafa undir rekstri máls í héraði. Þetta tekur til úrskurða héraðsdóms sem sæta ekki kæru til Landsréttar eftir 143. gr. laganna. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 155. gr. laganna skal taka fram í áfrýjunarstefnu til Landsréttar í hvaða skyni áfrýjað er og því ber að geta þess ef leitað er endurskoðunar á úrskurðum sem gengið hafa undir rekstri máls í héraði. Í ljósi þess að í áfrýjunarstefnu varnaraðila til Landsréttar kom fram að gerð væri krafa um frávísun málsins frá héraðsdómi var augljóst að leitað var endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms þar að lútandi þótt að réttu lagi hefði átt að tiltaka það sérstaklega í stefnunni. Þess utan var úrskurðurinn reistur á réttarfarsatriðum sem dómstólum ber að taka afstöðu til af sjálfsdáðum.

8. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur.

9. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Kansas ehf., greiði varnaraðila, Eignarhaldi ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.