Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2022

Dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir, Guðmundur Gíslason (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Gísli Finnsson, Elísa Finnsdóttir (Valgeir Kristinsson lögmaður), Sigurður Kristján Hjaltested (Oddur Þórir Þórarinsson lögmaður) og Karl Lárus Hjaltested (Sigmundur Hannesson lögmaður)
gegn
dánarbúi Þorsteins Hjaltested (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Aðild
  • Dánarbússkipti
  • Kröfugerð

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með því að málinu hefði verið vísað frá Landsrétti hefði rétturinn ekki tekið afstöðu til kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að synja úttektarmönnum aðgang að jörðinni V til að gera úttekt á henni eftir ábúðarlögum. Af þeirri ástæðu kæmi ekki til álita fyrir Hæstarétti krafa sóknaraðila þar að lútandi. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að þar sem varnaraðili hefði ekki umráð jarðarinnar hefðu sóknaraðilar ekki hagsmuni af því að fá endurskoðaðan úrskurð héraðsdóms um kröfu þeirra á hendur honum enda yrði slíkum úrskurði ekki framfylgt gagnvart þeim sem nú hefur umráðin. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 12. janúar 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 17. desember 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðilar krefjast þess annars vegar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hins vegar að úttektarmönnum samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 verði heimilaður aðgangur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi til að gera úttekt á henni. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að sóknaraðilum verði óskipt gert að greiða sér kærumálskostnað.

5. Með því að málinu var vísað frá Landsrétti tók rétturinn ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að synja úttektarmönnum aðgang að jörðinni til að gera úttekt á henni eftir ábúðarlögum. Af þeirri ástæðu kemur ekki til álita hér fyrir dómi síðari liður kröfu sóknaraðila um að úttektarmönnum verði heimilaður aðgangur að jörðinni til að gera úttektina, auk þess sem slíkt sakarefni yrði ekki borið undir Hæstarétt án kæruleyfis. Þessi annmarki á kröfugerðinni kemur þó ekki í veg fyrir að leyst verði úr fyrri lið kröfu sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

6. Með úrskurði héraðsdóms 22. október 2021 var hafnað fyrrgreindri kröfu sóknaraðila um að ákvörðun skiptastjóra yrði felld úr gildi. Sóknaraðilar kærðu úrskurðinn til Landsréttar sem vísaði málinu frá réttinum eins og áður getur. Ástæða þess var sú að með úrskurði Landsréttar 16. september 2021 í máli nr. 351/2021 hefði endanlega verið úr því skorið að varnaraðili skyldi afhenda Magnúsi Pétri Hjaltested jörðina á grundvelli sértökuréttar, svo sem nánar er rakið i úrskurðinum. Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt skiptayfirlýsingu 14. janúar 2022 um þá ráðstöfun.

7. Þar sem varnaraðili hefur ekki umráð jarðarinnar hafa sóknaraðilar ekki hagsmuni af því að fá endurskoðaðan úrskurð héraðsdóms um kröfu þeirra á hendur honum enda yrði slíkum úrskurði ekki framfylgt gagnvart þeim sem nú hefur umráðin. Er þess þá að gæta að réttur til umráða jarðarinnar féll aldrei til varnaraðila og því verður aðild málsins ekki reist á þeirri meginreglu sem er að finna í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

8. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested, Gísli Finnsson, Elísa Finnsdóttir, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested greiði varnaraðila, dánarbúi Þorsteins Hjaltested, óskipt 400.000 krónur í kærumálskostnað.