Mál nr. 2021-15

A (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) gegn B (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Börn.
  • Forsjá.
  • Umgengni.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 7. janúar 2021 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. desember 2020 í máli nr. 356/2020: B gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Mál þetta lýtur að ágreiningi um forsjá og umgengni dóttur aðila. Héraðsdómur tók til greina kröfu leyfisbeiðanda um að hann skyldi fara með forsjána til 18 ára aldurs stúlkunnar. Þá kvað dómurinn jafnframt á um hvernig umgengni hennar við gagnaðila skyldi háttað og um skyldu gagnaðila til að greiða meðlag með henni. Með framangreindum dómi Landsréttar komst meirihluti dómenda að gagnstæðri niðurstöðu og taldi að forsjáin skyldi vera hjá gagnaðila. Dómurinn kvað einnig á um hvernig umgengni stúlkunnar við leyfisbeiðanda skyldi háttað og skyldu hans til að greiða meðlag með henni.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og geti haft áhrif á önnur sambærileg mál sem síðar koma til kasta dómstóla, auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.  Leyfisbeiðandi telur meðal annars að túlkun Landsréttar á hugtakinu stöðugleiki í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé varhugaverð auk þess sem rökstuðningurinn að öðru leyti sé í ósamræmi við þá meginreglu barnaréttar að líta beri til þess sem barni sé fyrir bestu. Þá hafi Landsréttur ekki tekið nægilegt tillit til þess hversu langavarandi og stíf tálmun gagnaðila á umgengni hefur verið og hversu alvarlegt brot sú tálmun sé gagnvart réttindum stúlkunnar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hvorki hann né aðrir í fjölskyldu hans fengið að njóta eðlilegrar umgengni við stúlkuna síðustu tvö ár.

Gagnaðili telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Af hennar hálfu er vísað til þess að litlar líkur séu á því að dómi Landsréttar verði breytt enda byggi dómurinn ekki síst á meginreglum um réttindi barna og hvernig beri að forgangsraða þeim í ákvörðunum sem varði börn samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Þá mótmælir hún því að úrslit málsins muni hafa verulegt almennt gildi varðandi mat á því hvað sé börnum fyrir bestu umfram dómsúrlausnir sem áður hafi gengið. Í því samhengi skipti engu þótt dómur héraðsdóms hafi fallið á annan veg eða dómarar Landsréttar ekki verið einhuga um niðurstöðuna.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á og þá einkum með tilliti til þess hvaða áhrif tálmum á umgengni hefur á niðurstöðu um forsjáhæfni foreldra. Beiðnin er því tekin til greina.