Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-103

Félag makrílveiðimanna (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Veiðiheimildir
  • Fiskveiðistjórn
  • Aflahlutdeild
  • Atvinnuréttindi
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 12. júlí 2022 leitar Félag makrílveiðimanna leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní 2022 í máli nr. 114/2021: Félag makrílveiðimanna gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um að viðurkennt verði með dómi að óheimilt hafi verið að takmarka heimildir félagsmanna leyfisbeiðanda til veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 46/2019 sem gerði breytingar á lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og til vara að óheimilt hefði verið að takmarka heimildir félagsmanna til ráðstöfunar á aflaheimildum í B-flokki stofnsins á grundvelli ákvæða sömu laga sem gerðu breytingar á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi byggði á því að ákvæði laga nr. 46/2019 um lengra viðmiðunartímabil en almennar reglur á sviði fiskveiðistjórnunar gerðu ráð fyrir væri andstætt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, 75. gr. um atvinnufrelsi og 72. gr. um friðhelgi eignaréttarins. Varakrafa leyfisbeiðanda var á því reist að takmarkanir á heimild til ráðstöfunar á aflaheimildum hefðu brotið gegn sömu ákvæðum stjórnarskrár, enda féllu heimildir félagsmanna almennt í B-flokk. Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna héraðsdóms þá niðurstöðu hans að hið umþrætta viðmiðunartímabil hefði ekki falið í sér ómálefnalega takmörkun, mismunun eða óréttmætar skerðingar á réttindum félagsmanna leyfisbeiðanda. Varðandi varakröfu hans komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að það væri málefnalegt sjónarmið og rúmaðist innan valdheimilda löggjafans að setja framsali veiðiheimilda úr B-flokki í A-flokk skorður. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af því víðtæka svigrúmi til mats sem íslenskir dómstólar hefðu játað löggjafanum til stefnumótunar á sviði fiskveiðistjórnunar var ekki talið að framangreint fyrirkomulag hefði brotið í bága við stjórnarskrárvarin réttindi félagsmanna leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í málinu reyni á meðferð opinbers valds við úthlutun atvinnuréttinda. Málið hafi jafnframt fordæmisgildi um hvaða kröfur verði að gera til undirbúnings og rökstuðnings við úthlutun á varanlegum veiðiheimildum og þegar sérstakar takmarkanir eru settar á atvinnuréttindi lítils hóps manna umfram takmarkanir sem meginþorri handhafa sömu réttinda þarf að þola. Þá telur hann úrslit málsins varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem bæði rökstuðningur og forsendur réttarins séu augljóslega ófullnægjandi og ekki fjallað um meginmálsástæður hans.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau réttindi sem á reynir í málinu. Umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.