Print

Mál nr. 251/2004

Lykilorð
  • Bifreið
  • Vöruflutningar
  • Evrópska efnahagssvæðið
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 251/2004.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

 

Bifreiðir. Vöruflutningar. Evrópska efnahagssvæðið. Refsiheimild. Stjórnarskrá.

X var saksóttur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið vöruflutningabifreið yfir sjö daga tímabil án þess að taka sér„lögboðna vikuhvíld.“ Var þetta í ákæru talið varða við a. lið 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sbr. 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Talið var að sjálfstæða verknaðalýsingu á broti varðandi hvíldartíma ökumanna væri hvorki að finna í 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga né heldur í reglugerð nr. 136/1995 sem sett væri með stoð í lögunum. Væri því ekki um að ræða svo skýra refsiheimild að samrýmanleg væri 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jónatan Þórmundsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2004 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.

Með ákæru 12. febrúar 2004 var ákærði saksóttur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni [...] frá og með laugardeginum 2. nóvember til og með föstudeginum 8. nóvember 2002, eða í sjö daga „án þess að taka sér lögboðna vikuhvíld.“ Var þetta í ákæru talið varða við a. lið 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. „1. undirgrein 1. mgr. 6. gr.“ og 3. tölulið 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sbr. 6. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt þann akstur sem að framan greinir.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995 segir meðal annars að ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 20., 21. og 23. tölulið XIII. viðauka við hann, skuli gilda hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans, svo og þeirri aðlögun sem leiðir af ákvæðum 2.-4. gr. reglugerðarinnar. Er reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3820/85 ein þeirra gerða sem vísað er til í viðaukanum, sbr. a. lið 1. gr. reglugerðar nr. 136/1995. Efnislýsingu þess brots sem ákærða er gefið að sök telur ákæruvaldið vera í ákvæðum sem með réttu eru 2. mgr. 1. töluliðar 6. gr. og 3. töluliður 8. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85. Í 2. mgr. 1. töluliðar 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ökumaður skuli „eftir sex akstursdaga hið mesta taka sér vikulegan hvíldartíma“ eins og skilgreint er í 3. tölulið 8. gr. Í þeirri grein eru einnig ákvæði um svokölluð hvíldartímabil. Þar segir meðal annars að ökumaður skuli á sólarhrings fresti fá daglegan tilgreindan hvíldartíma. Í 3. tölulið greinarinnar segir að í hverri viku skuli framlengja eitt þeirra hvíldartímabila sem um geti í 1. og 2. tölulið með vikulegum hvíldatíma sem sé í allt 45 klukkustundir samfellt. Heimilt sé að stytta þennan hvíldartíma niður í 36 klukkustundir samfellt hið minnsta ef hann er tekinn á bækistöð ökutækis eða ökumanns eða í minnst 24 klukkustundir samfellt ef hann er tekinn annars staðar. Þá er komist svo að orði að sérhverja styttingu beri að bæta upp með jafnlangri hvíld sem tekin sé óslitið fyrir lok þriðju viku eftir þá viku sem um ræðir. 

Reglugerð nr. 136/1995 var sett meðal annars með stoð í þágildandi ákvæði 6. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Í því var hvorki að finna sjálfstæða verknaðalýsingu á broti varðandi hvíldartíma ökumanna né aðrar efnisreglur þar um, heldur sagði einungis að dómsmálaráðherra gæti sett reglur um hvíldartíma ökumanna. Efnisákvæði 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga kemur ekki til álita í máli þessu þar sem ákærða er ekki gefið að sök í ákæru að hafa brotið gegn því lagaákvæði, heldur hinum valkvæðu ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um hvíldartíma ökumanna. Ákvæði 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga hefur að geyma aðgreinda refsireglu sem vísar til verknaðarlýsinga í öðrum ákvæðum laganna og í ákvæðum reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Breytir þetta ákvæði engu um niðurstöðu málsins þar sem sjálfstæða verknaðarlýsingu var hvorki að finna í 6. mgr. 44. gr. laganna, eins og áður segir, né heldur í reglugerð nr. 136/1995 sem sett var með stoð í umferðarlögum. Samkvæmt þessu er hér ekki um að ræða svo skýra refsiheimild að samrýmanleg sé 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða.

Eftir þessum úrslitum skal greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Viðars Lúðvíkssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. apríl 2004.

Mál þetta er með ákæru útgefinni 12. febrúar sl. höfðað gegn X, kt. [...] fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni [...], frá og með laugardeginum 2. nóvember til og með föstudagsins 8. nóvember 2002, eða í sjö daga, án þess að taka sér lögboðna vikuhvíld.

Telst þetta varða við a-lið 1. gr. reglugerðar nr. 136,1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og í flutningum innan Evrópska Efnahagssvæðisins, sbr. 1. undirgrein 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. tl. 8. gr. EBE-reglugerðar nr. 3820/85, um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sbr. 6. mgr. 44. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 82,1998 og 57,1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og gerðar þær kröfur aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara er þess krafist að honum verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að hún verði skilorðs­bundin.  Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hans hrl. Viðars Lúðvíkssonar.

I.  Málavextir

Þann 3. febrúar 2003 var fyrirtækinu Y ehf., sem var skráður eigandi bifreiðarinnar [...], sent bréf þar sem innkölluð voru til eftirlits skráningarblöð og afrit úr akstursdagbók bifreiðarinnar fyrir tímabilið frá 1. október 2002 til 20. nóvember 2002 og bárust gögnin Vegagerðinni 20. febrúar 2003 og leiddi rannsókn þeirra í ljós, að ákærður hafði verið ökumaður bifreiðarinnar tímabilið 2. til 8. nóvember 2002 eða í 7 daga án þess að taka sér lögboðna vikuhvíld svo sem mælt væri fyrir um í reglugerð nr. 136,1995, sbr. 2. mgr. 6. gr. sbr. 8. gr. EBE-reglugerðar nr. 3820/1985 og var málið kært til sýslumannsins í Kópavogi 21. febrúar 2003. Ákærða var í framhaldi af því boðið að ljúka málinu með sektargerð lögreglustjóra, dags. 3. maí 2003 og greiða 50.000 krónur í sekt sem hann sinnti ekki.

Ákærður hefur við skýrslutöku hjá lögreglu og hér fyrir dómi viðurkennt að hafa ekið þessa 7 daga eins og fram komi í akstursdagbók og eins og skráningarblöð ökuritans beri með sér.  Hann vísaði hins vegar til bæklings sem Vegagerðin hafi gefið út um akstur og hvíldartíma í flutningum á vegum, þar sem fram komi að vinnuvikan skuli vera frá mánudegi til sunnudagskvölds.  Hann hafi tekið sér þá frí frá akstri fimmtudaginn 31. október og föstudaginn 1. nóvember, en ekið laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember og þar með hafi lokið þeirri akstursviku.  Mánudaginn 4. nóvember hafi svo byrjað ný vinnuvika og hann þá unnið eðlilega vinnuviku til föstudagsins 8. nóvember og svo tekið sér lögboðna hvíld eins og næstu helgar á eftir.  Hann tók fram að vikuna á eftir þ.e. 11. til 17. nóvember hafi yfirleitt verið mjög stuttur vinnudagur, 3-4 klukkustundir á dag.  Fram kom hjá ákærða að aksturinn 2. og 3. nóvember hafi verið að [...] og aftur til [...], en aksturinn í vikunni 4.-8. nóvember verið á höfuðborgarsvæðinu með biðtímum og hléum.

II.  Niðurstöður.

Ljóst er af framburði ákærða og ökurita bifreiðarinnar [...] og akstursbók ákærða fyrir bifreiðina, að hann ekur henni samfellt í 7 daga frá 2. nóvember til 8. nóvember 2002 án þess að taka sér vikuhvíld, svo sem mælt er fyrir um í EBE reglugerð nr. 3820/1985.  Hinsvegar sýnir akstursbókin, að ákærður hefur eins og hann heldur fram, ekki verið við akstur 2 daga á undan, þ.e. 31. október og 1. nóvember og hann tekur sér 2ja daga hvíld 9. og 10. nóvember.

Samkvæmt þessu hefur ákærður ekið 5 daga í vikunni frá 28. október til 3. nóvember og fengið 2ja daga frí og svo ekur hann í 5 daga í vikunni 4. til 10. nóvember og tekur sér þá 2ja daga frí. Þá staðfesta skráningarblöð ökuritans frásögn ákærða um langan samfelldan akstur 2. og 3. nóvember, svo sem til [...]og aftur til [...], en skráningarblöðin fyrir 4-8. nóvember sýna að þar er um að ræða styttri vinnudaga og aksturstímabilin eru styttri og oft verulegt bil á milli þeirra, sem telja verður biðtíma.  Þannig er vinnutíminn 4. nóvember 8 tímar, þar af biðtímar a.m.k. 2 tímar, 5. nóvember er 8 tímar, þar af biðtímar a.m.k. 2 tímar, 5. nóvember er vinnutíminn um 12 tímar, en þar af biðtímar 6-7 tímar og 8. nóvember er vinnutíminn 7 tímar og biðtímar a.m.k. 2 tímar og miðað við að hann lýkur vinnu kl. 16:00 er tíminn þar til hann hefur akstur aftur 62 tímar.  Samkvæmt þessu er aksturinn þessa 7 daga að frádregnum biðtímum vel innan við 44 tíma, en eftir reglugerðinni nr. 136/1995 er ökumanni heimilt að aka 60 til 64 tíma með þargreindum hléum vikulega.

Í málinu hefur verið lagt fram samkomulag milli Trausta félags sendiferðabifreiðastjóra, Vegagerðarinnar og dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. júlí 1996.

Samkvæmt þessu samkomulagi sem gert er eftir gildistöku reglugerðarinnar og hlýtur að vera til fyllingar henni, skal draga fasta biðtíma frá helgarhvíld.

Þó að fallast megi á það með ákærða að heimildin í 44. gr. umferðarlaga sem ráðherra er fengin til að ákveða hvíldartíma ökumanna, sé án frekari tilgreiningar of víðtækt framsal löggjafarvalds, er til þess að líta, að reglugerð EBE sem kveður á um hvernig hvíldartíma ökumanna nr. 3820/1985 hafði verið samþykkt í ráði Evrópubandalagsins í lok ár 1985 og bar aðildarríkjum bandalagsins sem og þeim ríkjum sem eru aðilar EES samningsins að samþykkja lög og stjórnsýslufyrirmæli, sem nauðsynleg væru til að framfylgja reglugerðinni.  Þessi reglugerð var því til staðar er umferðarlögin nr. 85/1987 voru sett og var Íslenska ríkinu skylt að innleiða hana hér á landi og verður að túlka heimildina í 6. mgr. 44. gr. umferðarlaganna í því ljósi, að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð sem gilti hér á landi í samræmi við reglugerð EBE nr. 3820/1985 og jafnframt á það við um nánari takmarkanir sbr.  11. gr. reglugerðarinnar. Þetta gerði dómsmálaráðherra með setningu reglugerðar nr. 136/1995, þar sem kveðið er á um það m.a. að reglugerð nr. 3820/1985 að teknu tilliti til þeirrar aðlögunar sem getur í 2.-4. gr. reglugerðarinnar nr. 136/1995 skuli gilda hér á landi og brot á reglugerðinni skuli sæta viðurlögum skv. heimild í 44. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga og er það í samræmi við 1. lið 11. gr. reglugerðar EBE nr. 3820/1985.

Reglugerð nr. 136/1995 hefur verið auglýst og birt með lögformlegum hætti og verður á grundvelli þess að telja að fram sé komin nægileg tilgreining til beitingar refsiákvæðum umferðarlaga um brot á ákvæðum reglugerðar EBE nr. 3820/1985 um lágmarkshvíldartíma ökumanna  o.fl.

Í 2.-4. reglugerð nr. 136/1995 og svo í samkomulaginu frá 12. júlí 1993 milli Trausta félags sendiferðabifreiðastjóra, dómsmálaráðuneytisins og Vegagerðarinnar  eru tilgreindar tilhliðranirnar frá reglugerð EBE nr. 3820/1985.

Engin undantekning er þar heimiluð frá 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar um að ökumanni sé skylt að taka vikulegan hvíldartíma eftir sex akstursdaga og verður því að telja að þessi regla gildi nú almennt hér á landi.  Hins vegar þykir verða að túlka þessa reglu eftir þeim aðstæðum sem hún miðast við og í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í reglugerð EBE nr. 3820/1985.  Ljóst er að regla þessi miðast í megindráttum við daglegan langakstur vöruflutninga- og sendiferðabifreiða og þá á þjóðvegum og hraðbrautum milli Suður og Norður-Evrópu, sem er mjög lýjandi og einhæfur akstur, en slíkur samfelldur langferðarakstur kallar örugglega á helgarhvíld að loknum sex dögum, þegar ekið hefur verið allt að 10 tíma á dag og jafnvel 12 tíma, þannig að heildaraksturstími hefur numið 60-64 tímum.  Mikill munur er á þessu og þegar eknar eru stuttar vegalengdir í senn og biðtímar eru á milli og er það engan veginn sambærilegt og öll skynsemisrök mæla gegn því að það sama gildi í báðum tilvikum.  Þá er til þess að líta að oft eru aðstæður í íslensku atvinnulífi mjög sérstæðar og kalla á áhlaupavinnu og er þá litið fram hjá því hvort það er helgi eða ekki og er þá tilhliðrun nauðsynleg eins og gerist í þessu tilviki, að helgarfrí eða helgarhvíld er flutt fram vegna aukaferðar

Í máli þessu sá ákærður fram á mikla vinnu og tók sér því gott tveggja daga frí, en svo um helgina 2.-3. nóvember 2002 ók hann frá [...] til [...] og aftur til [...] og var þetta samfelldur akstur með lögbundinni hvíld og hléum á milli, en eftir það þ.e. 4.-8. nóvember er aksturinn meira slitinn í sundur með biðtímum o.fl., svo aksturstíminn varð ekki svo sem fyrr greinir nema 44 tímar, þó að akstursdagarnir væru sjö, en 22 tímar frá 4. til 8. nóvember.

Það er mat réttarins að 2. mgr. 6. gr. EBE reglugerðar nr. 3820/1985 eigi fyrst og fremst við er um sé að ræða samfelldan akstur með lögboðnum hvíldum, þar sem aksturinn stendur í t.d. 10-12 tíma á dag með nauðsynlegum hléum. Aðeins 2 dagar á umræddu aksturstímabili hjá ákærða falla undir þessa skilgreiningu, en að öðru leyti var um að ræða akstursdaga með miklum biðtímum, sem samkvæmt samkomulaginu frá 12. júlí 1996, skyldi dragast frá helgarhvíld.  Þegar þetta er virt og að ákærður fær rúma helgarhvíld eftir akstursvikuna verður það ekki talið honum til sakar í greint sinn að hafa verið við akstur meira en 6 akstursdaga og skal hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu.  Ákvæðið miðað m.a. að því, að ökumaður fái eðlilega helgarhvíld í hverri viku, sem hann fékk í þessu tilviki. Þá ber að vísa til þess, að ekki er vísað til þessa ákvæðis í ákæru.

Dæma ber að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða hrl. Viðars Lúðvíkssonar sem ákveðast 105.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðmundur Siemsen, fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi.

DÓMSORÐ

Ákærður, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur kostnaður sakarinnar þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða,  Viðars Lúðvíkssonar hrl. 105.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.