Print

Mál nr. 432/2000

Lykilorð
  • Dýraveiðar
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá
  • Réttindasvipting

Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2001.

Nr. 432/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Jóni Agli Sveinssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

                                                   

Dýraveiðar. Refsiheimild. Stjórnarskrá. Réttindasvipting.

T var ákærður fyrir að hafa skotið þrjú hreindýr í Borgarfjarðarhreppi árið 1999 án þess að veiðieftirlitsmaður fylgdi honum, sem var skylt samkvæmt reglugerð sem sett hafði verið með stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ekki var fallist á þá málsástæðu að sá áskilnaður reglugerðarinnar hefði ekki næga lagastoð, enda væri kveðið á um það í lögunum að ráðherra skyldi setja reglur um nánari framkvæmd veiðanna. Talið var að eðli máls samkvæmt yrði reglugerð um framkvæmd veiðanna að fela í sér bæði boð um nánar tiltekna háttsemi við þær og bann við annars konar, auk þess sem tekið væri fram í lögunum að veiðieftirlitsmenn ættu að gegna hlutverki í tengslum við framkvæmd veiðanna. Þá varð ráðið af lögunum að löggjafinn hefði ætlast til þess að refsing lægi við brotum á þeim reglum sem mælt væri fyrir um í reglugerðinni. T var ekki talið stoða að halda því fram að hann hefði skort ásetning til verknaðarins, þrátt fyrir að veiðieftirlitsmaður hefði heimilað honum fyrir sitt leyti að ganga einn til veiðanna, enda hefði T verið af ráðnum hug einn síns liðs við þær. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu T.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 17. nóvember 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.

I.

Mál þetta var höfðað með ákæru 30. desember 1999, þar sem ákærði var borinn sökum um að hafa brotið gegn 14. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo og 2. mgr. og 3. mgr. 11. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 402/1994 um stjórn hreindýraveiða með því að hafa skotið þrjú hreindýr 6. september 1999 í Hraundal í Loðmundarfirði, Borgarfjarðarhreppi, án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns með hreindýraveiðum og án þess að hafa veiðileyfi fyrir einu dýrinu. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var fallið frá síðastnefndu atriði í ákærunni og sakargiftir því bundnar við það eitt að ákærði hafi veitt umrædd dýr án þess að veiðieftirlitsmaður fylgdi honum. Ákærði hefur játað að hafa skotið hreindýrin, svo og að veiðieftirlitsmaður hafi ekki verið með honum þegar það gerðist. Hann kveðst hins vegar hafa fengið munnlega heimild eftirlitsmanns, sem hafi fylgt honum dagana tvo á undan, til að ganga til veiða þennan dag og skjóta ef með þyrfti hreindýr að eftirlitsmanninum fjarstöddum, en þetta staðfesti sá síðastnefndi fyrir dómi.

Í málinu hefur ákærði aðallega borið brigður á að ákvæði laga og reglugerðar, sem vísað er til í ákæru, séu fullnægjandi heimildir til refsingar fyrir þessa háttsemi að gættri 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, 1. mgr. 7. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með síðari breytingum, og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá ber ákærði því og við að hann hafi hvorki haft ásetning til brots né sýnt af sér gáleysi, en þar með bresti skilyrði til sakfellingar.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem greindi í ákæru eins og henni hafði verið breytt. Var hann dæmdur til að greiða 35.000 krónur í sekt og sviptur skotvopnaleyfi og veiðileyfi í fjóra mánuði frá birtingu dómsins, en sýknaður hins vegar af kröfu um upptöku nánar tiltekins skotvopns. Þeirri niðurstöðu er unað af hálfu ákæruvalds.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var 14. gr. laga nr. 64/1994 breytt með 1. gr. laga nr. 100/2000. Þá gaf umhverfisráðherra út 3. júlí 2000 reglugerð nr. 452/2000 um stjórn hreindýraveiða, en með henni var áðurnefnd reglugerð nr. 402/1994 numin úr gildi. Lagabreytingin, sem hér um ræðir, hefur ekki áhrif á efnisatriði í málinu. Þá svara ákvæði reglugerðar nr. 402/1994, sem vísað var til í ákæru, efnislega til 3. mgr. og 4. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 452/2000.

II.

Áður en framangreind breyting var gerð á 14. gr. laga nr. 64/1994 með lögum nr. 100/2000 var mælt svo fyrir í upphafi 2. mgr. hennar að veiðar á hreindýrum væru heimilar öllum, sem hefðu leyfi til þess samkvæmt lögunum og reglum settum samkvæmt þeim. Þá sagði eftirfarandi í 4. mgr. þessarar lagagreinar: „Að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóra setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd á hreindýraveiðum, m.a. um skiptingu veiðiheimilda á milli viðkomandi sveitarfélaga, um veiðieftirlitsmenn, hlutverk og starfssvið hreindýraráðs, svo og skiptingu arðs af leyfisgjaldi og veiðiheimildum sem framseldar eru ráðinu.” Þótt í umræddri lagagrein hafi hvergi verið vikið að því að óheimilt væri að veiða hreindýr án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns, verður ekki litið fram hjá því að í áðurnefndri 2. mgr. hennar kom berlega fram að ráðherra væri ætlað að setja nánari reglur um leyfi til veiðanna. Í 4. mgr. hennar var lagt í hendur ráðherra að setja reglugerð meðal annars um nánari framkvæmd veiðanna og um veiðieftirlitsmenn. Eðli máls samkvæmt varð reglugerð um framkvæmd veiðanna að fela í sér bæði boð um nánar tiltekna háttsemi við þær og bann við annars konar. Var og ráðgert í síðastnefndu lagaákvæði að veiðieftirlitsmenn ættu að gegna hlutverki í tengslum við framkvæmd veiðanna. Af 19. gr. laga nr. 64/1994 er að sjá að til varnaðar slíkum reglum hafi löggjafinn ætlast til að refsing lægi við brotum gegn þeim, enda mælt þar fyrir um viðurlög við brotum gegn lögunum og reglugerðum, sem settar yrðu samkvæmt þeim. Ákvæði reglugerðar nr. 402/1994, sem um ræðir í málinu, tóku í eðlilegu samhengi upp þráðinn þar sem fyrirmæli í settum lögum þraut. Hefur því ekki verið borið við í málinu að þessi ákvæði hafi komið harðar niður á veiðimönnum en málefnalegar ástæður stóðu til. Að öllu þessu gættu verður ekki fallist á með ákærða að skort hafi viðhlítandi lagastoð fyrir þeirri reglu síðari málsliðar 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 402/1994 að veiðileyfishafa væru óheimilar hreindýraveiðar nema í fylgd eftirlitsmanns og fyrir því að refsing lægi við broti gegn þessu samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt framburði ákærða var hann við hreindýraveiðar 6. september 1999 án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns. Sú háttsemi ein og sér var brot á áðurgreindu ákvæði 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 402/1994. Þótt ákærði kunni að hafa talið sér þetta heimilt vegna samþykkis veiðieftirlitsmanns, fær það í engu breytt að hann var af ráðnum hug einn síns liðs við veiðarnar. Stoðar ákærða því ekki að halda fram að skort hafi ásetning til verknaðarins.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða, en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga telst háttsemi hans nú brot gegn 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 452/2000, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 100/2000, og varða refsingu samkvæmt 1. mgr. 14. gr. sömu reglugerðar, sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994, eins og henni var breytt með 214. gr. laga nr. 82/1998. Er fésekt ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Verður ekki hreyft við ákvörðun vararefsingar, enda er af hálfu ákæruvalds krafist staðfestingar héraðsdóms. Varðandi kröfu ákæruvalds um að ákærði verði sviptur skotvopnaleyfi og veiðileyfi er til þess að líta að samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 402/1994 vörðuðu brot gegn henni eingöngu sektum eða varðhaldi. Þótt mælt sé svo fyrir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 að svipting umræddra leyfa liggi við broti gegn reglugerð, sem sett er samkvæmt lögunum, verður þeim viðurlögum ekki beitt hér fyrst sérstök refsiákvæði voru tekin upp í 14. gr. reglugerðarinnar án þess að slíkra viðurlaga væri þar getið. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvalds um þetta efni.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Egill Sveinsson, greiði í ríkissjóð 35.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í sjö daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 13. apríl 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 31. f.m., er höfðað með ákæru sýslumannsins á Seyðisfirði, dagsettri 30. desember 1999, á hendur Jóni Agli Sveinssyni, kt. 200175-6039, Tjarnarlöndum 14, Egilsstöðum.   Eftir niðurfellingu eins ákæruliðar 1. febrúar s.l. er ákært:

„. . . fyrir hreindýrsdráp, með því að hafa seinnipart mánudagsins 6. september 1999, skotið þrjú  hreindýr í Hraundal, í Loðmundarfirði, Borgarfjarðarhreppi, án þess að vera í fylgd eftirlitsmanns með hreindýraveiðum.

Telst þetta varða við 14. gr. sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. 2. og 3. mgr. 11. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 402/1994, um stjórn hreindýraveiða, sbr. auglýsingu í 67. tbl. Lögbirtingablaðsins, sem kom út 25. júlí 1999, um hreindýraveiðar árið 1999.

Krafist er:

I.    Að ákærði verði dæmdur til refsingar, sbr. 19. gr. laga 64/1994.

II.   Að ákærði verði sviptur skotvopna- og veiðileyfi, með vísan til 1. mgr. 19. gr. laga       64/1994.

III.  Að ákærði sæti upptöku á riffli þeim af tegundinni Remington model 700, cal. 243, nr. 6052990, ásamt áfestum sjónauka, sem hann notaði við veiðarnar, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga 64/1994.“

Þá hefur ákæruvaldið krafist þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa.  Í báðum tilvikum krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

II

Í lögregluskýrslu sýslumannsembættisins á Seyðisfirði, sem var gerð af Davíð Ómari Gunnarssyni aðstoðarvarðstjóra, segir að mánudaginn 6. september 1999 kl. 23.15 hafi Stefán Smári Magnússon með dvalarstað að Stakkahlíð, Loðmundarfirði, tilkynnt um hreindýraveiðimann í Hraundal í Loðmundarfirði sem væri búinn að fella þrjú dýr en hefði hvorki veiðikort né eftirlitsmann með sér.  Hann hafi sagt að Skúli Sveinsson hreindýraeftirlitsmaður hafi verið á ferð um Hraundal síðla dags sem eftirlitsmaður með tveimur veiðimönnum.  Þeir hafi þá gengið fram á ákærða í máli þessu þar sem hann hafi verið einn á ferð og verið búinn að fella þrjú dýr.  Ákærði hafi farið þess á leit við Skúla að hann skrifaði upp á veiðina aftan á veiðikort sín en Skúli neitað því þar sem hann hafi ekki verið eftirlitsmaður hans. 

Í skýrslunni greinir frá því að í samráði við sýslumann hafi verið ákveðið að Davíð Ómar ásamt Friðjóni Viðari Pálmasyni varðstjóra færu á móts við ákærða og hefðu tal af honum.  Þeir hafi mætt honum á Borgarfjarðarvegi.  Aðspurður hafi hann sagst vera að koma frá Loðmundarfirði þar sem hann hafi verið á hreindýraveiðum og hafi hann verið með þrjú dýr í bílnum.  Hann hafi framvísað tveimur óútfylltum veiðikortum og eitt hafi hann sagt vera í höndum Skúla Sveinssonar veiðieftirlitsmann en þeir hafi verið búnir að tala um að fara saman til þessara veiða. Þá segir að veiðikortin, sem ákærði framvísaði, hafi verið tekin í vörslu lögreglunnar og að skotvopn og skotvopnaleyfi hafi reynst vera í lagi.

Að lokum er greint frá því að leitað hafi verið upplýsinga frá Hákoni Hanssyni, formanni hreindýraráðs, um það  hvernig útgáfu hreindýraleyfa eigi að vera háttað.  Hann hafi sagt að þeim, sem selji veiðikort til hreindýraveiða, beri að fylla út nafn og heimili veiðimanns, veiðisvæði og hvort veiðimaður kaupi leyfi fyrir kú eða tarf.  Því næst beri veiðimanni að hafa tal af veiðieftirlitsmanni.  Þeir verði að fara saman til veiða og beri eftirlitsmanni að fylla út bakhlið veiðikortsins að lokinni veiði.  Báðir aðlar kvitti síðan undir þær upplýsingar.

Lögreglumennirnir Davíð Ómar Gunnarsson og Friðjón Viðar Pálmason staðfestu framangreinda skýrslu fyrir dómi.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu þ. 7. september 1999 kvaðst ákærði hafa farið til leitar um hádegisbil umrætt sinn þar sem hann hefði orðið var við slóðir úr lofti.  Hann hafi haft “meldingu” frá Þorvaldi B. Hjarðar hreindýraeftirlitsmanni um að hann mætti hringja í hann ef hann fyndi dýr.  Auk þess hafi hann vitað af eftirlitsmanninum Skúla Sveinssyni í Loðmundarfirði og hafi hann verið með eitt veiðikort þeirra dýra sem ákærða var heimilt að fella.  Skömmu áður en hann hafi orðið var við dýrin hafi hann séð hvar Skúli Sveinsson ók inn Hraundal og þar sem símsambandslaust hafi verið hafi hann ekki getað hringt í Þorvald B. Hjarðar.  Skömmu síðar hafi hreindýr komið  æðandi yfir Hraundalsvarp og staðnæmst skammt frá honum.  Þar hafi hann fellt eina kú,  elt síðan hópinn og skotið skömmu síðar kú og tarf.  Þar sem ekki hafi verið um auðugan garð að gresja með eftirlitsmenn á svæði 3 hafi hann talið að Skúli gæti staðfest veiðina þar sem hann hafi ekki verið langt undan þegar hún átti sér stað. Þegar hann hafi ekki treyst sér til þess hafi ákærði látið slag standa og komið bráðinni í bílinn og haft síðan samband við Þorvald B. Hjarðar um leið og símasambandi varð komið á.  Þorvaldur hafi talið málið allt hið besta og sagt ákærða að gera grein fyrir veiðinni hjá hreindýraráði strax að morgni þar sem svo áliðið væri.    

Við aðalmeðferð málsins viðurkenndi ákærði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.   Hann skýrði frá málavöxtum í öllum aðalatriðum á sama veg og við yfirheyrslu hjá lögreglu.  Hann kvaðst oft áður hafa skotið hreindýr á tveimur undanfarandi árum og þá í fylgd veiðieftirlitsmanns.  Hann kvaðst hafa leitað að hreindýrum í fylgd Þorvalds B. Hjarðar veiðieftirlitsmanns laugardaginn 4. september og sunnudaginn 5. september.  Hann hafi veitt sér leyfi til þess síðari daginn að fara til veiða næsta dag, þ.e. mánudaginn 6. september, og ef hann yrði var við dýr skyldi hann  hringja áður en eða eftir að hann skyti og mundi hann þá  koma og aðstoða við að koma dýrunum niður.  Áður en hann hélt á veiðislóðina umræddan dag kvaðst ákærði hafa komið við hjá Stefáni Smára Magnússyni í Stakkahlíð, Loðmundarfirði og fengið “landleyfi”, þ.e. leyfi til  að leita að hreindýrum á landareigninni.

Vitnið Stefán Smári Magnússon kvaðst vera einn eigenda að jörðinni Stakkahlíð, Loðmundarfirði.  Hann kvað ákærða hafa komið þar í hlað um hádegi umræddan dag og beðið leyfis að mega kíkja upp í Hraundal en leiðin liggur þar um.  Kvaðst hann hafa sagt honum að hann mætti ekki skjóta.  Skömmu síðar hafi Skúli Sveinsson komið með tveimur mönnum þar sem heyrst hefði frá gangnamönnum að hreindýr væru í Hraundal.  Hann kvaðst hafa sagt Skúla að ákærði væri farinn í Hraundal og hefði Skúli farið á eftir honum.

Vitnið Skúli Sveinsson er eftirlitsmaður með hreindýraveiðum í Loðmundarfirði og Borgarfirði.  Hann kvaðst hafa komið að Stakkahlíð umræddan dag og talað við Stefán Smára sem hafi sagt sér að ákærði í máli þessu hefði „farið upp“.  Hann kvað ákærða ekki hafa óskað eftir því við sig að hann færi með  honum þennan dag enda hefði það verið “tilfallandi” að hann gat komið því við að fara þá með veiðimönnum.  Hann kvaðst hafa vitað að ákærði var að leita hreindýra og jafnframt að enginn eftirlitsmaður var með honum og hafi sér komið á óvart, er hann kom upp eftir, að heyra skothvell.  Eftir að ákærði hafi skotið öll þrjú dýrin, en vitnið hafi séð eitt þeirra, hafi hann beðið sig að skrifa upp á leyfin en hann  hafi neitað því þar sem það hefði verið lögbrot.

Vitnið Þorvaldur B. Hjarðar er eftirlitsmaður með veiði hreindýra á svæði Loðmundarfjarðar og Borgarfjarðar.  Hann kvaðst hafa verið með ákærða að leita hreindýra dagana 4. og 5. september.  Síðari daginn hafi hann sagt ákærða að hann gæti ekki farið með honum daginn eftir en gefið honum heimild til að veiða án þess að hann væri viðstaddur, þ.e. ef aðstæður væru erfiðar mætti hann fella dýr og hringja til sín og mundi hann þá koma til hans á veiðistað.

III

Með framburði ákærða og vitna er sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.  Auglýsing sú í Lögbirtingablaðinu, sem til er vitnað í ákæru, er um hreindýraveiðar 1999 samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 402/1994 og 14. gr. laga nr. 64/1994.  Þar var mælt fyrir um veiðitímabil, fjölda þeirra dýra sem veiða mátti og skiptingu veiðisvæða.

Reglugerð nr. 402/1994 um stjórn  hreindýraveiða er sett samkvæmt 14. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.  Ákærði braut gegn banni samkvæmt 2. mgr. 11. gr. hennar, sbr. 4. mgr. 14. gr. greindra laga, við því að veiðileyfishafi veiði hreindýr nema í fylgd eftirlitsmanns.  Hann  hafði fengið leyfi eftirlitsmanns til veiðanna en veiting undanþágunnar var löglaus.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði tvívegis gengist undir greiðslu sekta með dómsáttum:  Árið 1992 fyrir brot á 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og árið 1993 fyrir brot gegn lögum nr. 33/1966.  Þá var hann dæmdur 9. september 1997 til greiðslu 40.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. 

Refsing ákærða samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 er ákveðin 35.000 króna sekt og komi varðhald 7 daga í stað sektarinnar verði  hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.

Svipta ber ákærða skotvopna- og veiðileyfi, samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994, í fjóra mánuði frá birtingu dómsins.

Efni verða ekki talin til að fallast á kröfu ákæruvaldsins um að beitt verði heimild 3. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 til að kveða á um að ákærði skuli sæta upptöku á riffli þeim af tegundinni Remington model 700, cal. 243, nr. 6052990, ásamt áfestum sjónauka, sem hann notaði við veiðarnar.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

      Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jón Egill Sveinsson, greiði 35.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja en sæti ella varðhaldi í 7 daga.

Ákærði er sviptur skotvopna- og veiðileyfi í fjóra mánuði frá birtingu dómsins.

Ákærði er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á Remington riffli og áfestum sjónauka.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.