Print

Mál nr. 234/1999

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Skilorð
  • Dráttur á máli
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Upptaka

           

Fimmtudaginn 4. nóvember 1999.

Nr. 234/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Tryggva Rúnari Guðjónssyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

                                                        

Ávana- og fíkniefni. Skilorð. Dráttur á rekstri máls. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Upptaka.

T var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni og dæmdur til fangelsisrefsingar. Vegna dráttar, sem varð á því að ákæra á hendur honum væri gefin út, var refsing T skilorðsbundin að hluta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Til þrautavara krefst hann þess að refsing verði milduð og að öllu leyti skilorðsbundin.

Mál þetta var höfðað í héraði gegn ákærða og meðákærða B fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærða gerð refsing ásamt meðákærða, sem unir dómi.

Svo sem greint er í héraðsdómi fylgdust lögreglumenn með ferðum ákærða eftir að þeim hafði borist ábending um sölu hans á fíkniefnum. Fallist verður á með héraðsdómara að með framburði meðákærða, skýrslum lögreglumanna fyrir dómi, ljósmyndum teknum í lystigarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði, umbúnaði fíkniefna sem þar fundust og skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík um niðurstöður samanburðarrannsóknar á pökkum með fíkniefnum og límbandi, sem fannst að Viðarhöfða 2, sé sannað að ákærði hafi haft í vörslum sínum kannabis og ætlað það til sölu í hagnaðarskyni, svo sem honum var gefið að sök í liðum 1. og 2. í I. kafla ákæru. Þar var magn efnisins talið samtals 2.187,5 g. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti var það í reynd 2.179,5 g, en mismunur sagður stafa af ritvillu í fyrrnefndum lið ákærunnar. Með þessari breytingu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákæruliðum.

Í 3. lið I. kafla ákæru var ákærða gefið að sök að hafa haft vörslur og ætlað til sölu 350 g af amfetamíni, sem fundust við leit lögreglu í frystihólfi, sem ákærði hafði á leigu að Gnoðarvogi 44 í Reykjavík. Vitnið Ingi Þorgrímur Guðmundsson bar fyrir héraðsdómi að hann hefði seint á árinu 1996 fengið lykla að herbergi, sem ákærði hafði á leigu, og fengið um leið lykil að nefndu frystihólfi. Vitnið kvaðst hafa tekið hólfið á leigu fyrir kunningja sinn og framleigt honum það. Skýrsla var ekki tekin af þeim, sem sá um útleigu á frystihólfinu. Eins og málið liggur fyrir verður ekki útilokað að fleiri en ákærði hafi haft lykla að því á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Gegn eindreginni neitun ákærða verður því ekki talið sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem greinir í umræddum lið ákærunnar. Verður hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins að þessu leyti.

Með dómi þessum er ákærði sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum verulegt magn fíkniefna. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin í héraðsdómi fangelsi 2 ár og 6 mánuðir, en til frádráttar komi gæsluvarðhald, sem ákærði sætti í 22 daga vegna rannsóknar málsins. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákæra í málinu ekki gefin út fyrr en um tveimur árum eftir að rannsókn lögreglunnar á því lauk. Þessi vítaverði dráttur hefur ekki verið skýrður. Hann brýtur í bága við 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og er í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vegna þessa verður fallist á með héraðsdómara að binda verði refsingu ákærða skilorði með þeim hætti, sem gert var í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað verður óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 1999.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 9. mars sl. á hendur ákærðu, Tryggva Rúnari Guðjónssyni, kt. 080665-2969, Hofsvallagötu 61, Reykjavík, og B, [...], Reykjavík, "fyrir eftirgreind brot gegn lögum um ávana- og fikniefni framin í febrúar 1997:

I.

Ákærði Tryggvi Rúnar með því að hafa haft í vörslum sínum fikniefni, sem hann ætlaði til sölu í hagnaðarskyni svo sem hér greinir:

1. Miðvikudagskvöldið 12. febrúar í atvinnuhúsnæði að Viðarhöfða 2, Reykjavík, 1818,5 g af hassi, flutt efnið í félagi við meðákærða B, í listigarðinn Hellisgerði í Hafnarfirði og falið það í gjótu í garðinum, þar sem lögregla fann efnið og lagði hald á.

2. Fimmtudaginn 13. febrúar í sama húsnæði að Viðarhöfða, 369 g af hassi.

3. Fimmtudaginn 13. febrúar í frystihólfi sem ákærði hafði tekið á leigu að Gnoðarvogi 44, Reykjavík, 350 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit og lagði hald á.

II.

Ákærði B:

[...]

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að framangreind fíkniefni, sem lögreglan lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16,1986".

Málavextir.

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997 hringdi ónafngreindur maður í símsvara lögreglunnar í Reykjavík með ábendingu um að ákærði Tryggvi Rúnar hefði þá að undanförnu verið að selja hass og amfetamín og ekki verið smátækur. Varð þetta til þess að lögreglan fór að fylgjast með ferðum ákærða og sambýliskonu hans og síðar einnig meðákærða, eins og rakið verður. Málið sætti rækilegri rannsókn hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík og verður ekki annað séð en að henni hafi lokið í mars 1997. Mál var þó ekki höfðað fyrr en 9. mars sl., eins og áður segir.

I.

1. Klukkan 20.15 kvöldið eftir tilkynninguna sást hvar ákærðu komu saman út úr veitingastofunni Pottinum og pönnunni í Brautarholti í Reykjavík, sem ákærði B stýrir. Settist B undir stýri í bílnum en Tryggvi Rúnar sótti hvítan plastpoka í bíl sem hann hafði komið á skömmu áður. Settist hann í framsætið hjá meðákærða og óku þeir á brott. Þeir óku að Viðarhöfða 2, þar sem ákærði Tryggvi Rúnar hefur atvinnuhúsnæði á leigu, fóru þar inn og dvöldust þar í um klukkutíma. Óku þeir síðan sem leið lá suður í Hafnarfjörð og að bensínstöðinni við Lækjargötu 46 þar sem B fór inn. Eftir stutta dvöl þar kom hann út aftur. Óku þeir þaðan að bílaplani við Hellisgerði, almenningsgarði þar í bænum. Gengu þeir inn í garðinn en lögreglumenn fylgdust með ferðum þeirra eftir því sem aðstæður leyfðu. Fór einn þeirra í humátt á eftir ákærðu en aðrir höfðu komið sér fyrir í nágrenninu við garðinn. Um 13 mínútum síðar, eða um kl. 22.05 komu ákærðu aftur út úr garðinum og óku til Reykjavíkur. Nokkrir lögreglumenn fylgdust með ferð þeirra þangað en þeir óku að Pottinum og pönnunni og fóru þar inn. Þeir lögreglumenn sem eftir urðu fóru inn í garðinn. Nýleg fótspor lágu af göngustíg í garðinum að flaggstöng sem þar er. Í gjótu sem þar er og undir grjóti og snjó fannst hvítur plastpoki með tveimur pökkum sem innihéldu kannabis sem reyndist vega samtals 1818,5 g. Um pakka þessa var vafið breiðu límbandi, hvoru af sinni gerð, glæru um annan en gráu um hinn og þar undir einnig svörtu límbandi. Ekki fundust fingraför á þessu. Við húsleit sem gerð var í Viðarhöfða 2 fundust límrúllur af sömu gerð og böndin utan um pakkana. Þegar endarnir á þessum rúllum voru bornir saman við endana á límböndunum utan af pökkunum sást að þeir gátu átt saman. Fylgja ljósmyndir af þessu með málinu. Ákærði Tryggvi Rúnar var handtekinn á Keflavíkurflugvelli næsta morgun þegar hann hugðist fara til útlanda.

Við meðferð málsins fyrir dómi hefur ákærði Tryggvi Rúnar neitað sök. Hann gefur þá skýringu á ferð þeirra um kvöldið að hann hafi ætlað að “rúnta” í bílnum með meðákærða eins og þeir hafi oft gert áður. Eins hafi hann farið til þess að líta á bíl sem var í Viðarhöfða, enda hafi hann verið á förum til útlanda til þess að kaupa í hann varahluti daginn eftir. Til Hafnarfjarðar hafi förinni verið heitið til þess að hitta pípulagningamann sem hann þekki og taldi að væri að vinna í húsbyggingu þar í Hlíðunum. Hann hafi ekki reynst vera þar og hafi þeir þá ekið að bensínstöðinni þar sem B hafi farið inn til að kaupa sígarettur. Sjálfur hafi hann farið út úr bílnum og fengið sér frískt loft. Þaðan hafi þeir ekið að Hellisgerði þar sem B hafi farið út til þess að reykja. Þeir hafi svo báðir gengið inn í garðinn og að bekk sem er þar og síðan að bílnum aftur. Þeir hafi svo ekið til Reykjavíkur og að Pottinum og pönnunni aftur. Hann kveðst ekki geta skýrt hvernig hafi staðið á límbandsrúllunum en segir að margir hafi haft lykla að húsnæðinu. Hann segist ekki hafa vitað um pakkana með kannabisefninu og enga skýringu geta gefið á því nema þá að meðákærði hafi haft með það að gera.

Ákærði B hefur skýrt frá því að þeir Tryggvi hafi hist á Pottinum og pönnunni og kveðst hann hafa ekið þeim upp í Viðarhöfða. Þar inni á verkstæði hafi þeir gengið frá pakkanum. Hann segist ekki hafa vitað hvað í pakkanum var en hann hafi þó grunað að það væri hass. Tryggvi hafi svo fengið sig til þess að aka suður í Hafnarfjörð og þeir gengið inn í garðinn “án nokkurra plastpoka”, eins og hann orðar það. Þar hafi þeir gengið um og kveðst hann einnig hafa fengið sér að reykja á meðan Tryggvi Rúnar gekk eitthvað frá. Þeir hafi svo farið úr garðinum og haldið til Reykjavíkur. Annars hefur B sagt að hann muni þetta ekki allt lengur og vísar til skýrslna sinna hjá lögreglunni í Reykjavík í febrúar 1997. Þar kom fram að hann hefði vitað að fíkniefni hefðu verið í pakkanum sem hefði verið falinn undir sturtu­botni í Viðarhöfða 2. Hefði Tryggvi Rúnar verið búinn að gefa það í skyn að hann væri að “vesenast” í fíkniefnum. Kvaðst hann hafa staðið á verði meðan Tryggvi Rúnar gekk frá efninu en einnig hafa hjálpað honum við það. Hefði efninu verið pakkað í þrjá pakka. Einn pakkinn hefði verið skilinn eftir en Tryggvi Rúnar komið með hina tvo út í bílinn sem ákærði hafði verið búinn að gangsetja. Tryggvi Rúnar hefði sagt honum að aka suður í Hafnarfjörð og hvaða götur skyldi ekið. Þegar í Hellisgerði kom hefði Tryggvi Rúnar komið efnunum fyrir og kvaðst hann ekki hafa séð þegar hann gerði það.

Niðurstaða.

Skýrsla ákærða Tryggva Rúnars er með talsverðum ólíkindum. Með skýrslum meðákærða og lögreglumannanna sem komið hafa fyrir dóminn svo og þeim sönnunargögnum, sem færð hafa verið fram, þykir vera sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að hann hafði í vörslum sínum, eins og lýst er í ákærunni, þau 1818,5 g af kannabisefnum sem ákært er fyrir og telja verður að hafi verið ætluð til sölu í hagnaðarskyni. Hefur hann með því brotið þau lagaákvæði sem tilfærð eru í ákærunni.

2. Fyrir liggur að eftir að ákærði Tryggvi Rúnar hafði verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli hafði hann ráðrúm til þess að hringja úr farsíma í meðákærða, kl. 8.18. Þennan morgun var fylgst með Viðarhöfða 2 og sást B koma þangað akandi í bíl sínum og fara þar inn. Eftir um 2 mínútur sást hann koma þaðan út aftur og aka á brott. Var hann handtekinn á vinnustað sínum, Pottinum og pönnunni síðar um morguninn og vísaði hann á 369 g af kannabisefni í bifreiðinni sem hann sagðist hafa sótt í Viðarhöfða 2 fyrr um morguninn. Var efnið í pakka sem vafinn var með breiðu, svörtu límbandi. Þegar endinn á svartri límrúllu sem fannst í Viðarhöfða 2 var borinn saman við endann á límbandinum utan af pakkanum kom í ljós að þeir gátu átt saman.

Fyrir dómi hefur B skýrt frá því að meðákærði hafi hringt þennan morgun og sagt sér að búið væri að handtaka hann og beðið sig að fara í Viðarhöfða og fjarlægja pakkann með kannabisefninu. Kvaðst hann hafa verið með lykil að húsnæðinu til þess að geta þvegið bílinn sinn þar. Hann kveðst svo hafa verið handtekinn og þá vísað á pakkann í bílnum.

Ákærði Tryggvi neitar sök algerlega og segist hann hafa hringt í B og beðið hann um að hafa samband við lögmann.

Niðurstaða.

Telja verður sannað með skýrslu ákærða B og því sem rakið hefur verið hér að ofan um athafnir ákærðu í Viðarhöfða svo og þeim gögnum sem gerð hefur verið grein fyrir að ákærði Tryggvi Rúnar hafði í vörslum sínum í Viðarhöfða 2 þau 369 g af kannabis sem greinir í ákærunni og telja verður að hafi verið ætluð til sölu í hagnaðarskyni. Hefur hann orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilgreind eru í ákærunni.

3. Ákærði Tryggvi Rúnar hafði á þeim tíma sem málið kom upp á leigu frystihólf í Gnoðarvogi 44, Reykjavík, á nafni annars manns. Fannst kvittun fyrir leigugjaldinu í fórum hans og leiddi það til þess að lögreglan leitaði í hólfinu. Fundust þar í gler­krukku 350 g af amfetamíni í sjö 50 g skömmtum. Auk krukkunnar var þarna allstór poki með niðursöguðu kjöti.

Ákærði neitar sök og kveðst ekki vita neitt um þetta fíkniefni. Hann segist hafa tekið frystihólfið á leigu vegna þess að hann hafi ekki haft frystihólf í ískápnum sínum á Skólavörðustíg þar sem hann bjó. Hann kveðst hafa gefið upp nafn vinar síns sem leigutaka þar sem hann hefði verið gjaldþrota á þessum tíma. Hann segir aðra hafa haft lykla að hólfinu. Lyklar að hólfinu hafi fylgt húslyklunum að Skóla­vörðustíg og hafi hann leigt það strák sem kallaður væri I bílasali en ákærði getur ekki sagt nánari deili á. Hafi I þessi spurt sig hvort ekki fylgdi frystihólf með húsnæðinu og ákærði játað því og I þannig fengið lykil að frystihólfinu. Eins hafi B búið á Skólavörðustígnum í um mánaðartíma.

Niðurstaða.

Frásögn ákærða er harla tortryggileg. Þykir dómaranum einsýnt að hún sé ósönn. Þykir verða að hafna henni og slá því föstu að ákærði hafi haft í vörslum sínum þau 350 g af amfetamíni sem greinir í ákærunni og telja verður að hafi verið ætluð til sölu í hagnaðarskyni. Hefur hann þannig orðið brotlegur við þau lagaákvæði sem þar eru tilfærð.

II.

[...]

Refsing, viðurlög og sakarkostnaður.

Ákærða Tryggva Rúnari var refsað 11 sinnum á tímabilinu 1984 til 1993 fyrir ýmisleg brot, aðallega gegn umferðarlögum. Meðal annars hlaut hann tvo dóma fyrir hegningarlagabrot, 1991 og 1992. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi 2 ár og 6 mánuðir. Dráttur sá sem orðið hefur á máli þessu hjá ákæruvaldi og lögreglu er óhæfilegur og verður ákærða ekki kennt um hann. Er af þeim sökum rétt að fresta framkvæmd 2ja ára og 3ja mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frá hinum óskilorðsbundna hluta refsingarinnar ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða, 22 daga.

[...]

Dæma ber ákærðu til þess að sæta upptöku á 2.195,1 g af kannabis og 350 g af amfetamíni samkvæmt þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.

Dæma ber ákærða Tryggva Rúnar til þess að greiða verjanda sínum, Kristni Bjarnasyni hrl., 60.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða B til þess að greiða verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 60.000 krónur í málsvarnaralun. Dæma ber ákærðu til þess að greiða annan sakarkostnað óskipt.

Mál þetta sótti Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuðir. Frestað er framkvæmd 2ja ára og 3ja mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð. Frá hinum óskilorðsbundna hluta refsingarinnar dregst 22 daga gæsluvarðhaldsvist.

[...]

Ákærðu sæti upptöku á 2.195,1 grammi af kannabis og 350 grömmum af amfetamíni.

Ákærði Tryggvi Rúnar greiði verjanda sínum, Kristni Bjarnasyni hrl., 60.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði B greiði verjanda sínum, Erni Clausen hrl., 60.000 krónur í málsvarnaralaun. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.