Print

Mál nr. 19/2006

Lykilorð
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2006.

Nr. 19/2006.

Brynjólfur Hauksson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Stjórnarskrá.

B, sem varð fyrir líkamstjóni við akstur bifreiðar, taldi að hámarkslaunaviðmið samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem lagt var til grundvallar við útreikning bóta til hans vegna varanlegrar örorku, stangaðist á við stjórnarskrárvarin réttindi hans samkvæmt 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem ákvæðið væri í ósamræmi við 4. mgr. 92. gr. umferðarlaga og nánar tilgreindar tilskipanir Evrópusambandsins. Krafði hann T hf. um bætur fyrir varanlega örorku án tillits til hámarksins samkvæmt umræddu ákvæði. Ekki var fallist á að reikna ætti út bætur vegna líkamstjóns ökumanna öðru vísi en almennt við útreikning bóta vegna líkamstjóns. Þá var talið að þau sjónarmið, sem sett höfðu verið fram í dómi Hæstaréttar frá 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000, og tók til atviks, sem varð áður en skaðabótalögum var breytt með lögum nr. 37/1999, væru enn í fullu gildi um ágreiningsefnið þrátt fyrir fyrrgreinda lagabreytingu. Samkvæmt þessu var ekki fallist á að 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga bryti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi B og kröfum hans því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. janúar 2006. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 15.647.004 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 24. janúar 2002 til 15. apríl 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum samtals 8.823.345 krónum sem greiddar voru 6. apríl 2005 og 27. júní sama ár. Til vara gerir hann þá dómkröfu að stefndi greiði sér 13.616.603 krónur með sömu vöxtum og greinir í aðalkröfu og að frádregnum sömu greiðslum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

                                                    I.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Þau má rekja til þess að áfrýjandi slasaðist er hann ók bifreiðinni TJ 186 út af veginum á milli Egilsstaða og Fáskrúðsfjarðar 24. janúar 2002. Bifreiðin var í eigu Glitnis hf. en vátryggð hjá stefnda. Áfrýjandi hlaut varanlegt líkamstjón í slysinu. Bótaskylda stefnda er óumdeild og hefur stefndi greitt áfrýjanda bætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 32/1998, vegna slyssins á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna.

Aðila greinir ekki á um uppgjör bóta fyrir þjáningar og miska. Áfrýjandi hefur hins vegar ekki fellt sig við greiddar bætur fyrir varanlega örorku, en stefndi miðaði þær í útreikningi sínum við hámarkslaun eins og þau voru ákveðin með 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999. Stefndi er héraðslæknir og hafði sem slíkur mun hærri laun þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, sbr. útreikningsreglu 1. mgr. 7. gr. laganna. Áfrýjandi tók því við bótagreiðslum með fyrirvara vegna launaviðmiðs útreikningsins. Verður málatilbúnaður aðila fyrir Hæstarétti ekki öðru vísi skilinn en að um þetta snúist ágreiningur þeirra og hafi áfrýjandi fallið frá öðrum fyrirvörum, sem hann gerði upphaflega við bótauppgjörið.

Áfrýjandi reisir dómkröfur sínar á því að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, brjóti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi sín samkvæmt 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti og friðhelgi eignarréttar. Jafnframt byggir hann á því að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé í ósamræmi við 4. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, samanber einnig ökutækjatilskipanir Evrópubandalagsins nr. 72/166/EBE, nr. 84/5/EBE og nr. 90/232/EBE, sem gildi hafi á Íslandi samkvæmt EES-samningnum. Stefndi hefur fyrir Hæstarétti vísað til forsendna héraðsdóms og þeirra sjónarmiða sem þar eru sett fram. Þá telur hann að málflutningur áfrýjanda varðandi 4. mgr. 92. gr. umferðarlaga byggi á misskilningi.

                                                    II.

Ákvæði 4. mgr. 92. gr. umferðarlaga varðar hámark þeirra bóta sem vátrygging ökumanns skal tryggja vegna einstaks tjónsviðburðar, en 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga varðar hámark launaviðmiðunar við útreikning varanlegrar örorku allra skaðabóta vegna líkamstjóns. Engar forsendur eru fyrir því að reikna bætur vegna líkamstjóns ökumanna öðru vísi.

Í athugasemdum, sem fylgdu með frumvarpi til skaðabótalaga nr. 50/1993, sagði að rök fyrir því að takmarka bætur við tiltekið hámark væru tvíþætt. Annars vegar þótti eðlilegt að menn með óvenjuháar tekjur bæru sjálfir það tjón sem stafaði af missi þess hluta teknanna sem færu að miklum mun fram úr því sem venjulegt er meðal tekjuhárra manna. Menn með miklar tekjur gætu auðveldlega keypt vátryggingar sem tryggi þeim bætur fyrir tjón er þeir kunni að verða fyrir vegna þessarar takmörkunar. Hin rökin séu þau að leggja verði til grundvallar að því fylgi almennt talsverður ávinningur að almannatryggingabætur og aðrar greiðslur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá bótakröfu.

Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. mars 2001 í málinu nr. 395/2000 blaðsíðu 1169 í dómasafni var vísað til framangreindra athugasemda og sagt að ljóst væri að í ákvæði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem nú er 4. mgr. sömu greinar, um bætur vegna varanlegrar örorku, fælist í raun ákvörðun um hámarksviðmiðun á þeim forsendum, sem kæmu fram í þessum athugasemdum. Síðan sagði í dóminum: „Viðurkennt er að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar getur löggjafinn mælt fyrir um ýmis konar takmarkanir á eignarrétti og eignaskerðingar án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt. Hafa ber í huga að tæpast er unnt að meta aflahæfi einstaklings sem fasta og óumbreytanlega stærð og hlýtur löggjafinn að hafa nokkurt svigrúm er hann mælir fyrir um bætur vegna skerðingar þess. Þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að við setningu reglna um skaðabætur sé í megindráttum miðað við almenna mælikvarða. Er þá meðal annars litið til þess að mikilvægt er að hinir bótaskyldu geti varist bótakröfum með vátryggingum og skipta iðgjöld af slíkum tryggingum máli. Verður að telja að það sé ekki ómálefnalegt að gera ráð fyrir því að þeir, sem í einhverjum mæli falla utan almennra mælikvarða, svo sem vegna hærri tekna, tryggi sig sérstaklega að því leyti. Hér skiptir og máli að samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 átti ekki að draga frá skaðabótakröfum greiðslur, sem tjónþoli kynni að fá frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem greiðslur úr almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi. Líta verður svo á að þessi regla laganna hafi ekki síst verið tjónþolum í stöðu aðaláfrýjanda til hags og til þess fallin að þeir fengju hlut sinn enn frekar leiðréttan þrátt fyrir það að af hálfu löggjafans hafi í upphafi einnig verið vísað til þess að lágur margfeldisstuðull samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, sem reyndar var hækkaður með lögum nr. 42/1996 úr 7,5 í 10, ætti meðal annars rót sína að rekja til hennar.

Að framangreindum atriðum virtum þykir ekki unnt að telja mat löggjafans, sem skýrt kemur fram í margnefndu ákvæði, ómálefnalegt. Það nær á sama veg til allra, sem eins stendur á um og fara yfir það tekjumark, sem það miðast við, og verður það ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Að þessu athuguðu verður krafa aðaláfrýjanda, sem á því er byggð, að 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga brjóti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi hans, ekki tekin til greina.”

Áfrýjandi heldur því fram að framangreindar forsendur tilvitnaðs hæstaréttardóms eigi ekki lengur við. Í fyrsta lagi vegna þess að bætur frá almannatryggingum og þriðja aðila væru nú dregnar frá skaðabótum í ríkara mæli en áður. Í öðru lagi, að læknar og aðrir með svipuð laun og áfrýjandi falli ekki lengur undir fámennan hóp óvenju tekjuhárra einstaklinga, eins og verið hafi þegar lög nr. 50/1993 tóku fyrst gildi. Þróunin undanfarið hafi verið á þá leið, að stór hópur manna hafi verulega hærri laun en þau hámarkslaun sem tilgreind séu í ákvæðinu. Þá eigi 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sér ekki lengur hliðstæðu í dönsku skaðabótalögunum, en til þess hafi verið vitnað í nefndum dómi.

Stefndi vitnar hins vegar til framangreinds hæstaréttardóms og telur þau sjónarmið sem þar koma fram í fullu gildi.

                                                    III.

Slys það sem fjallað var um í hæstaréttardómi 2001 blaðsíðu 1196 átti sér stað 21. desember 1998, en þá giltu skaðabótalög nr. 50/1993 með þeim breytingum sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1996. Áfrýjandi varð fyrir slysi í janúar 2002 og hafði þá skaðabótalögunum enn verið breytt með lögum nr. 37/1999, sem gildi tóku 1. maí 1999. Með þeim lögum voru gerðar breytingar á útreikningi bóta fyrir varanlega örorku. Margfeldisstuðli 6. gr. skaðabótalaganna var þá breytt þannig að í stað fasts margfeldisstuðuls áður var settur nýr stuðull til 75 ára aldurs, sem lækkaði frá 26 ára aldri. Þá var við ákvörðun þessara bóta miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða, en ekki einungis fyrir þá sem nýta vinnugetu sína til þess að afla tekna. Einnig skyldu árslaun til ákvörðunar bóta miðast við meðalatvinnutekjur hins slasaða síðustu þrjú almanaksárin fyrir slys. Ennfremur var tekin upp lágmarkslaunaviðmiðun við útreikning bótanna. Hins vegar var þar mælt fyrir um að draga skyldi frá bótakröfu greiðslur sem tjónþoli fengi frá almannatryggingum og að hluta til frá lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir allar þessar breytingar á útreikningi bóta fyrir varanlega örorku var hámarki viðmiðunarlauna haldið óbreyttu.

Fallast verður á með héraðsdómi að skoða verði áhrif þessara breytinga heildstætt og ljóst er að það var mat löggjafans að hámarki viðmiðunarlauna skyldi haldið þrátt fyrir að öðrum ákvæðum varðandi útreikninginn væri breytt. Verður af þessu ráðið að enn séu í fullu gildi framangreind sjónarmið, sem sett voru fram í  fyrrgreindum hæstaréttardómi þótt frádráttarreglum hafi verið breytt. Þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að það að fleiri en áður njóti nú launa yfir hámarki viðmiðunarlauna eigi að hafa þau áhrif að 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi ekki að gilda um áfrýjanda, enda tekur reglan jafnt til allra sem eru yfir þeim mörkum.

Með allt framangreint í huga verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað.

 Hvor aðila skal bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2006.

                Mál þetta, sem var dómtekið 3. janúar 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Brynjólfi Haukssyni, Hlíðargötu 53, 750 Fáskrúðsfirði, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, 101 Reykjavík, með stefnu birtri 10. október 2005.

                Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi greiði stefnanda 15.647.004 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi 24. janúar 2002 til 15. mars 2005, en frá þeim degi  með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.  Allt að frádregnum 2.500.000 krónum þann 6. apríl 2005 og 6.323.345 krónum þann 27. júní 2005.

                Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að mati dómsins, en í varakröfu að málskostnaður verði felldur niður.

 

Málavextir.

Stefnandi hefur unnið sem læknir frá því hann lauk læknanámi árið 1977.  Hann var í fullu starfi á Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði. Að kvöldið 24. janúar 2002 slasaðist stefnandi í umferðarslysi, sem varð á leiðinni milli Egilsstaða og Fáskrúðsfjarðar. Stefnandi var á ferð í bifreiðinni TJ 186, sem var skráð eign Glitnis hf. og vátryggð hjá stefnda. Stefnandi var á leið austur þjóðveg 96 og mun að sögn hafa ekið á 70 – 80 km hraða, er hann missti stjórn á bifreiðinni vegna hálku og lenti hún út af veginum og niður í fjöru við svonefndan Bolabás.

Stefnandi kvartaði yfir eymslum í hálsi og vinstri öxl og úlnlið og var fluttur á Heilsugæsluna á Egilsstöðum þar sem vakthafandi læknir, Hannes Sigmarsson, tók á móti honum kl. 21:03 og var hann meðhöndlaður þar. Ekki náði stefnandi fullum bata og leitaði í kjölfar slyssins m.a. til læknanna Bjarna Valtýssonar, Snorra Björnssonar, Marinós P. Hafstein og Boga Jónssonar og liggja vottorð þeirra frammi í málinu.

Með beiðni 31. janúar 2005 fór lögmaður stefnanda fram á að Björn Daníelsson hdl. og Sigurjón Sigurðsson læknir myndu meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Matsgerð þeirra er frá 14. mars 2005 og voru helstu niðurstöður þær að varanlegur miski skv. 4. gr skaðabótalaga var metinn 15% og varanleg örorka skv. 5. gr. 20%.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda kröfubréf 15. mars 2005 og gerði kröfur um bætur til  handa umbjóðanda sínum að fjárhæð 18.581.080 krónur auk vaxta.

Viðbrögð stefnda voru þau að hann fór þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur með matsbeiðni dags. 30. mars 2005 að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til þess að meta afleiðingar umferðarslyssins fyrir stefnanda og 6. maí 2005 voru þeir  Torfi Magnússon læknir og Páll Sigurðsson prófessor dómkvaddir til starfans. Matsgerð þeirra er frá 15. júní 2005 og voru helstu niðurstöður þær, að varanlegur miski var talinn vera 15% og varanleg örorka einnig 15%.

Í framhaldi af þessu sendi stefnandi nýja kröfugerð. Sem svar við henni sendi stefndi lögmanni stefnanda tillögu að uppgjöri hinn  27. júní 2005 sem byggðist á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Stefndi var þá reiðubúinn til uppgjörs og greiðslu með 6.323.345 krónum sem kemur til frádráttar í dómkröfunni. Lögmaður stefnanda samþykkti tillöguna með fyrirvara um varanlegu örorkuna og launaviðmið, en tillaga stefnda gerði ráð fyrir hámarkslaunum samkvæmt 4. mgr. 7. gr skaðabótalaganna  og voru umsamdar bætur greiddar samdægurs inn á reikning lögmannsins.

Ágreiningur aðila snýst um hámarkslaunaviðmið skaðabótalaganna.  Stefnandi sér sig  knúinn til málssóknar þessarar til að fá þær bætur frá stefnda sem hann telur að á vanti svo fullnægjandi bætur hafi verið greiddar. 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á 92. grein umferðarlaga, en í málinu er ekki ágreiningur um bótaskyldu, heldur snúist málið um þá bótafjárhæð sem stefnandi krefur um. Byggir stefnandi bótakröfu sína á neðangreindum málsástæðum og lagarökum:

 

I.              Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:

1. Miskabætur: 5.751.500 x 15%                                                                                     kr.                           862.725

2. Bætur fyrir varanlega örorku:

     14.083.279 x 6.932 x 15%                                                                                             kr.                     14. 643.379

3. Þjáningabætur: 90 x 1010                                                                                             kr.                             90.900

4.  Annað fjártjón, sjúkrakostnaður                                                                              kr.                             50.000

 

Samtals bótakrafa: 15.647.004, allt að frádregnum 2.500.000 krónum, þann  6. apríl 2005 og 6.323.345 krónur þann 27. júní 2005. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 15. mars 2005, en þá gerði hann fyrst kröfu á hið stefnda félag á grundvelli undirmatsins. Til grundvallar dráttarvaxtakröfu sinni vísar stefnandi til ofangreindra vaxtalaga og til 24. greinar vátryggingasamningalaga og að yfirmat hafi ekki hnekkt þeirri kröfu sem byggð var á undirmatinu nema að þeirri fjárhæð, sem dómkrafan nemur.

Eru kröfur þessar frekar rökstuddar með neðangreindum hætti:

1)             Bætur fyrir miska eru grundvallaðar á yfirmatsgerðinni og 4. grein skaðabótalaga.

2)             Bætur fyrir varanlega örorku eru byggðar á niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar og launum stefnanda þrjú ár fyrir slysið. Vísað er til 5. og 6. greina skaðabótalaga.  Árið 1999 hafi heildarlaun verið 9.534.749 krónur + reiknað endurgjald 200.000 krónur eða alls 9.734.749 krónur. Hækkun skv. launavísitölu 5710/4013 = 13.851.337 x 106% iðgjaldahækkun eða 14.682.418 + hagnaður af rekstri 76.569 krónur eða heildartekjur árið 1999 14.758.987 krónur. Árið 2000 hafi heildarlaun verið 9.936.546 + reiknað endurgjald 312.460 eða alls 10.249.006 krónur. Hækkun skv. launavst. 5710/4318 = 13.552.993 x 106% = 14.366.173 krónur. Árið 2001 hafi heildarlaun verið 10.239.356 x 5710/4722 = 12.381.771 x 106% = 13.124.677. Meðaltekjur þrjú ár fyrir slys hafi því verið 14.083.279 krónur.

3)             Þjáningabætur eru byggðar á niðurstöðu yfirmatsins og 3. grein skaðabótalaga.

4)             Annað fjártjón og sjúkrakostnaður. Byggt á 1. mgr. 1. greinar, en um er að ræða áætlað tjón vegna ferða frá Fáskrúðsfirði til Reykjavíkur, svo sem vegna undirmatsins og yfirmatsins og annarra ferða í læknisheimsóknir, auk bifreiðar- og símkostnaðar.

 

II.            Stefnandi byggir dómkröfur sínar á, að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, um hámark tekjuviðmiðunar, brjóti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda. Byggir stefnandi á, að 4. mgr. 7. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, leiði til þess að ákveðinn hópur tjónþola, sem að mörgu leyti getur staðið misjafnlega á fyrir, fái ekki tjón sitt vegna varanlegrar örorku bætt að fullu, í samræmi við tilgang skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum.  Sé þetta sá hópur, sem stefnandi teljist til, sem ekki sitji við sama borð og aðrir tjónþolar, þegar kostað er kapps um það með skaðabótalögum, eins og dómstólar höfðu áður reynt við mótun ólögfestra meginreglna skaðabótaréttar, að gera tjónþola sem líkast því setta fjárhagslega, að ekkert tjón hefði borið að höndum.  Byggir stefnandi á, að ofangreint hámarkslaunaákvæði skaðabótalaganna brjóti í bága við 65. og 72. gr. stjskr. um jafnrétti og friðhelgi eignarréttar. Verði ákvæði þetta því að víkja við ákvörðun bóta áfrýjanda í þessu máli, meðal annars einnig af eftirgreindum ástæðum:  i. Að ekki er um almenna eignarskerðingu að ræða, heldur nái skerðingin aðeins til tiltölulega afmarkaðs hóps, sem sannanlega sé skattlagður vegna mikilla tekna og leggi hart að sér. ii. Að ekki er um eignarskerðingu að ræða í þágu almannahagsmuna, heldur verði skerðingin eingöngu til þess að tryggingafélög losni undan eðlilegum bótagreiðslum. iii. Að engin gild rök hafi verið færð fyrir nauðsyn svo mikillar eignarskerðingar, eins og nánar verður rakið hér að neðan undir rómverskum III.

 

III.           Stefnandi byggir á, að forsendur hæstaréttardóms í hæstaréttarmálinu nr. 395/2000, frá 15. mars 2001, eigi ekki lengur við af neðangreindum ástæðum meðal annars: 

i.               Að bætur frá almannatryggingum og þriðja aðila séu nú dregnar frá skaðabótum í ríkari mæli en áður.

ii.             Að 4. mgr. 7. greinar eigi sér ekki lengur hliðstæðu í dönskum skaðabótalögum.

iii.           Að læknar og aðrir, með svipuð laun og stefnandi, falli ekki lengur undir hóp óvenju tekjuhárra einstaklinga meðal tekjuhárra, eins og var þegar lög nr. 50/1993 tóku fyrst gildi.  Þróunin undanfarið hafi verið á þá leið, að stór hópur manna hefur verulega hærri laun en þau hámarkslaun sem tilgreind eru í ákvæðinu.  Þessi hópur hefur stækkað verulega undanfarið bæði vegna þess, að laun hafa almennt hækkað mikið í landinu, vegna góðs efnahags og líka vegna þess, að mörg störf hafa bæst við á markaði, sem eru vel launuð s.s. í verðbréfageiranum og fjármálafyrirtækjum.  Byggir stefnandi á, að hámarkslaunaþakið skerðir í dag bætur til verulega margra launþega, mun fleiri en tilgangur löggjafans var, við setningu laga nr. 50/1993.   Sé því ljóst, að stór hópur manna fái ekki tjón sitt að fullu bætt, þrátt fyrir yfirlýst markmið skaðabótalaganna um að bætt skuli að fullu raunverulegt fjártjón tjónþola.  Byggir stefnandi á, að þessi regla, sem samkvæmt athugasemdum, átti eingöngu að ná til toppanna í tekjuháa hópnum og því aðeins til notkunar í örfáum tilvikum, sé í dag í almennri notkun og auk þess alls ekki í samræmi við tilgang skaðabótalaganna um fullar bætur. Þá bendir stefnandi á, að enda  þótt hámarkslaunaþaksfjárhæðin sé vísitölubundin, þá hafi hún ekki hækkað í samræmi við hækkun hálaunahópanna í þjóðfélaginu. Með lögum nr. 37/1999 hafi fjárhæðinni ekki verið breytt, en það sé skýrt svo í athugasemdum frumvarpsins, að rökin geti falist í því, að ýmsir þeir sem njóti svo hárra tekna, hafi þær aðeins tímabundið. Er líði á starfsæfina færist tekjur manna yfirleitt nær meðallaunum.  Sem dæmi er bent á sjómenn.  Með vísan til þess sé ekki ástæða til að gera tillögur um breytingar á þeirri reglu um hámarkslaun sem lögfest var með skaðabótalögunum. Byggir stefnandi á að hér sé ekki um gild rök að ræða. 

 

IV.           Frekari rökstuðningur stefnanda er, að í ofangreindum hæstaréttardómi (395/2000) sé tekið fram, til stuðnings því, að ekki sé ómálefnalegt að gera ráð fyrir, að þeir sem í einhverjum mæli falla utan almennra mælikvarða, s.s. tekjuháir, tryggi sig sérstaklega. Einnig segir í meirihluta atkvæði dómsins, að „Hér skiptir og máli“ að tekjuháir einstaklingar hafi af því talsverðan ávinning, að bætur frá almannatryggingum og þriðja aðila verði ekki dregnar frá skaðabótum.  Byggir stefnandi á, að þetta séu engan veginn málefnaleg rök, eins og fram kemur í sératkvæði Péturs Kr. Hafstein (í 395/2000), þar sem þetta fyrirkomulag gilti fyrir alla tjónþola, ekki bara þá tekjuháu og var með öðru til réttlætingar á lágum margföldunarstuðli laganna. Stefnandi tekur einnig fram í þessu sambandi, að með lögum nr. 37/1999 hafi frádráttur frá bótum vegna varanlegrar örorku verið aukinn til muna samhliða hækkun á margföldunarstuðli.  Í dag sé það einnig svo, að greiðslur frá þriðja aðila, t.d. greiðslur frá almannatryggingum eru dregnar frá skaðabótum.  Hvorki tekjuháir einstaklingar, né aðrir hafa því lengur nokkurn ávinning af þeim reglum, sem nú gilda við útreikning skaðabóta, hafi þeir haft slíkan ávinning áður.  Í athugasemdum með frumvarpi breytingalaganna nr. 37/1999 er tekið fram, að rökin fyrir breytingunni á margföldunarstuðlinum og frádráttarreglum skaðabótalaganna séu þau, að útreikningur á skaðabótakröfu eigi að miðast við, að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku.  Þess vegna beri að draga frá þær greiðslur af félagslegum toga, sem greiddar eru af þriðja aðila.  Þetta væri gert til þess að tjónþoli fengi ekki tjón sitt ofbætt. Byggir stefnandi á, að slíkt stríði einmitt gegn þeirri meginreglu skaðabótaréttar, að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu fjártjóni hans. 

Byggir stefnandi á, að með hliðsjón af framangreindu eigi þessi rök meirihlutans fyrir því að skilyrðinu um málefnalegar ástæður og jafnræði hafi verið gætt, örugglega ekki við í dag.

Meirihluti ofangreinds hæstaréttardóms (395/2000) vísar einnig til þess að sambærilegt skerðingarákvæði sé í dönsku lögunum og þeim íslensku.  Í því sambandi byggir stefnandi á, að við gildistöku dönsku laganna árið 1984 hafi hámarkslaunaviðmiðið verið  fjárhæðin 350.000 DK en vegna hækkana frá gildistöku laganna hafi fjárhæðin t.d. á árinu 1994 verið orðin 562.000 DK eða um 6.700.000 ísl. kr. Þegar íslensku skaðabótalögin tóku gildi um mitt árið 1993, hafi því hámarksfjárhæðin 4.500.000 kr. skv. íslenskum lögum verið mun lægri en skv. þeim dönsku.  Þannig hafi dönsku og íslensku skaðabótalögin aldrei verið sambærileg að þessu leyti. Þessi mismunur er auk þess ekki skýrður neitt sérstaklega í frumvarpinu.  Bendir stefnandi á að nú sé hins vegar ekki lengur unnt að vísa til þess, að sambærilegt ákvæði sé í dönsku lögunum, þar sem Danir hafi breytt sínum skaðabótalögum árið 2002.  Í staðinn fyrir regluna um hámark árslauna hafi verið tekin upp ákvæðum hámarksfjárhæð skaðabóta sem er um 70.000.000. ísl. krónur (þ.e. nálægt hámarksviðmiði 92. greinar íslensku umferðarlaganna).  Af þessari breytingu leiðir, að í slysum þar sem örorka er ekki mjög veruleg, kemur ekki til þess að danskur tjónþoli þurfi að sæta því, að fá ekki tjón sitt bætt að fullu vegna hámarksins, svo sem eins og í þessu máli.  Hjá Dönum kemur því aðeins til beitingar reglunnar í örfáum tilvikum.

 

V.            Stefnandi byggir og á, að hámarkslaunaþakið í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 sé ekki í samræmi við ákvæði 92. gr. umfl. Stefnandi hafi slasast í umferðarslysi og því beri að fara eftir ákvæðum 92. greinar umferðarlaga við ákvörðun bóta til hans, enda séu umferðarlögin sérlög gagnvart skaðabótalögunum.

                Með 2. gr. laga nr. 32/1998 og síðar 2. gr. laga nr. 26/2003 hafi 92. gr. umferðarlaganna verið breytt og segi nú í 4. mgr. 92. gr. umfl. „Vátryggingin skal tryggja hverjum tjónþola bætur allt að 75 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar.  Vátryggingarfjárhæðin skal breytast í samræmi við reglu 5. mgr. 91. gr.  Vátryggt skal hjá sama vátryggingafélagi og ábyrgðartryggir ökutækið.“  Í athugasemdum við frumvarp laga nr. 32/1998 segir að „með skaðabótalögum nr. 50/1993 hafa hæstu bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkað verulega þannig að vátryggingarfjárhæð skv. 1. mgr. 92. gr. hrekkur ekki til greiðslu hæstu bóta.  Þykir nauðsynlegt að vátryggingarfjárhæð slysatryggingarinnar sé það há að hún nægi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni.“  Það sé því ljóst að tilgangur og ætlun löggjafans með hækkun vátryggingarfjárhæðar slysatryggingarinnar er að hafa fjárhæð slysabóta það háa, að hún nægi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni.  Þegar litið er til aðdraganda og tilgangs slysatryggingarinnar í 92. gr. umfl. má telja ljóst, að ætlun löggjafans hafi verið sú að meta tjón og greiða bætur eftir reglum skaðabótaréttar um bætur fyrir líkamstjón á þann veg að menn tjón sitt bætt að fullu.  Byggir stefnandi á að hámarkslaunaþakið í 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna brjóti samkvæmt ofangreindu í bága við ákvæði 92. gr. umfl. sem tryggja eigi hverjum tjónþola bætur allt að 75 millj. kr. Ef svo sé ekki, þjóni hámark 92. greinar umferðarlaga engum tilgangi.

                Stefnandi byggir einnig á, að 4. mgr. 7. greinar skaðabótalaga brjóti gegn þeim skyldum sem Ísland hefur undirgengist með EBE samningnum um hámarksbætur fyrir líkamstjón vegna umferðarslysa, svo sem 2. grein tilskipunar frá 30. desember 1983, nr. 84/5/EBE.  Bendir stefnandi á, að efni bótakafla umferðarlaga hafi einmitt verið breytt verulega til samræmis við reglur EBE um ökutækjatryggingar.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til 92. grein umferðarlaga nr. 50/1987, samanber ökutækjatilskipanir EBE svo sem nr. 73/239/EBE og  nr. 84/5/EBE. Þá skírskotar stefnandi til eignarverndar- og jafnræðisákvæða stjórnarskrár, sem og til 1. greinar fyrsta viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, samanber 14. grein sáttmálans, samanber lög nr. 62/1994.  Einnig vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1. gr., 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr. og 6. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á  því að með uppgjörinu 27. júní 2005 hafi verið  greiddar fullnaðarbætur vegna þjáninga og varanlegs miska, enda enginn fyrirvari gerður um þá bótaliði af hálfu stefnanda.

Eftir stendur þá ágreiningurinn um varanlegu örorkuna og þá eingöngu varðandi viðmiðunarlaunin, þar sem ljóst er að stefnandi hefur sætt sig við niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna varðandi örorkustigið, enda hefur matsgerð þeirra ekki verið hnekkt.

Eins og fyrr segir miðaðist tilboð stefnda við útreiknuð hámarkslaun samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eins og þau voru ákveðin með 6. gr. l. nr. 37/1999. Hámarkslaunin uppreiknuð til stöðugleikatímapunkts námu 6.007.000 krónum og hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þann  útreikning af hálfu stefnanda miðað við þær forsendur sem lögin gera ráð fyrir.

                Stefnandi telur hins vegar að viðmiðunarlaunin eigi að vera mun hærri eða 14.083.279 krónur sem hann hefur reiknað út miðað við framtaldar tekjur stefnanda  seinustu þrjú árin fyrir slys þ.e. 1999, 2000 og 2001. Tölulegur ágreiningur er um útreikning viðmiðunarlaunanna, en stefndi telur að þau eigi að vera 12.130.197 kr. sé miðað við þær forsendur sem stefnandi gefur sér.

Stefndi er algerlega ósammála aðferðarfræði stefnanda og telur að með greiðslunni 27. júní 2005 hafi stefnandi fengið þær bætur, sem honum ber samkvæmt þeim lögum er giltu í landinu þegar slys það sem hér er til umræðu varð.

Aðalrök stefnanda fyrir kröfu sinni eru þau, að ákvæði 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um hámarkslaun, eins og þau eru þar ákveðin, brjóti í bága við stjónarskrárvarin réttindi hans og þau leiði til þess að ákveðinn hópur tjónþola fái ekki tjón sitt vegna varanlegrar örorku bætt að fullu í samræmi við tilgang skaðabótalaga.

Með þessu séu brotin ákvæði 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti og friðhelgi eignarréttar. Stefndi fellst ekki á rök stefnanda af eftirfarandi ástæðum.

Af hálfu stefnda er lögð áhersla á það að viðurkennt er í íslenskum rétti að löggjafinn hafi ótvíræðar heimildir til þess að setja reglur um ákvörðun bóta vegna líkamstjóns svo fremi þær séu studdar málefnalegum rökum.

                Ákvæði 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna er dæmi um slíkt ákvæði og gildir ákvæðið um alla tjónþola sem eins stendur á um að þessu leyti.

Í dómi Hæstaréttar uppkveðnum 15. mars 2001 í málinu nr. 395/2000 Jón Sigurðsson gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. og gagnsök sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum, var m.a. tekist á um þetta.  Í röksemdum meiri hluta Hæstaréttar fyrir niðurstöðu sinni segir m.a. um þetta álitefni:

„Ljóst er að í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um bætur vegna varanlegrar örorku felst í raun ákvörðun um hámarksviðmiðun á þeim forsendum sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi til laganna og áður hafa verið raktar. Viðurkennt er að þrátt fyrir ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar getur löggjafinn mælt fyrir um ýmis konar takmarkanir á eignarétti og eignaskerðinar án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt. Hafa ber í huga að tæpast er unnt að meta aflahæfi einstaklings sem fasta og óumbreytanlega stærð og hlýtur löggjafinn að hafa nokkurt svigrúm er hann mælir fyrir um bætur vegna skerðingar þess. Þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að við setningu reglna um skaðabætur sé í megindráttum miðað við almenna mælikvarða. Er þá meðal annars litið til þess að mikilvægt er að hinir bótaskyldu geti varist bótakröfum með vátryggingum og skipta iðgjöld af slíkum tryggingum máli. Verður að telja að það sé ekki ómálefnalegt  að gera ráð fyrir því að þeir, sem í einhverjum mæli falla utan almennra mælikvarða, svo sem vegna hærri tekna, tryggi sig sérstaklega að því leyti. Hér skiptir og máli að samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 átti ekki að draga frá skaðbótakröfum greiðslur, sem tjónþoli kynni að fá frá frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem greiðslur úr almannatryggingum, lífeyrissjóði eða frá vátryggingarfélagi. Líta verður svo á að þessi regla laganna hafi ekki síst verið tjónþolum í stöðu aðaláfrýjanda til hags og til þess fallin að þeir fengju hlut sinn enn frekar leiðréttan þrátt fyrir það að af hálfu löggjafans hafi í upphafi einnig verið vísað til þess að lágur margfeldisstuðull samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, sem reyndar var hækkaður með lögum nr. 42/1996 úr 7,5 í 10, ætti m.a. að rekja til hennar. 

Að framangreindum atriðum virtum þykir ekki unnt að telja mat löggjafans, sem skýrt kemur fram í margnefndu ákvæð , ómálefnaleg . Það nær á sama veg til allra, sem eins stendur á um og fara yfir það tekjumark, sem það miðast við og verður það ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Að þessu athuguðu verður krafa aðaláfrýjanda, sem á því er byggð, að 3. mgr. 7. gr.  skaðabótalaga brjóti í bága við stjórnarskrárvarin réttindi hans ekki tekin til greina.“

Stefndi telur þau sjónarmið og röksemdir sem koma  fram í umræddum hæstaréttardómi enn þá í fullu gildi og engin efni til þess að fallast á þær kröfur stefnanda að frá þeim verði vikið.

Stefnandi nefnir í máltilbúnaði sínum þrjú atriði sem að hans mati gera það að verkum að áðurnefndur hæstaréttardómur frá 15. mars 2001 hafi ekki lengur fordæmisgildi í því álitamáli sem hér er til úrlausnar.

                Í fyrsta lagi eru bætur frá þriðja aðila nú dregnar frá skaðabótum í ríkari mæli en áður. Þetta er vissulega rétt.  Með 4. gr. laga 37/1999 var ákveðið að svo skyldi vera, en á móti kemur að í 5. gr. sömu laga var margföldunarstuðull skaðabótalaga hækkaður gríðarlega sem auðvitað skiptir máli varðandi breytt fyrirkomulag frádráttarreglna.

Þá er vilji löggjafans ljós hvað þetta varðar þar sem ekki var hróflað við hámarkslaunaviðmiðinu við þessa endurskoðun skaðabótalaganna, sem vissulega blasti við teldi löggjafinn ástæðu til þess.

Í öðru lagi er fullyrt að ekki sé lengur að finna hliðstætt ákvæði í dönsku skaðabótalögunum. Ekki skal véfengt að svo sé. Það breytir því hins vegar ekki að sé þetta rétt hefur í Danmörku orðið að breyta lögunum til þess að breyta þessu, sem  er vitanlega hin lögformlega aðferð að þessu leyti. Hér er það löggjafinn sem ræður ferð.

Í þriðja lagi er því haldið fram að launaþróun í landinu hafi frá árinu 1993 verið á þann veg að nú falli mun fleiri einstaklingar undir hámarkslaunaviðmiðið, en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.

Hvað þetta varðar er í fyrsta lagi bent á að hér væri eðlilegra að miða við þróunina frá 1999 þegar skaðabótalögin voru endurskoðuð með lögum 37/1999 eins og hér að framan var getið. Fullyrt er að á þeim tíma hafa engar þær breytingar orðið í launaþróun á Íslandi sem réttlætt gætu frávik frá þeirri reglu sem staðfest var með títtnefndum hæstaréttardómi frá 15. mars 2001. Engu breytir að mati stefnda hvort fleiri eða færri falla undir hámarkslaunaviðmiðið. Aðalatriðið er, að það gildi um alla sem eins er ástatt fyrir að þessu leyti og fyllsta jafnræðis sé gætt.

Kjarni málsins að þessu leyti er að í fyrrnefndum hæstaréttardómi var komist að þeirri niðurstöðu að  hámarkslaunaviðmiðið væri ekki ómálefnalegt þar sem það nær til allra sem eins stefndur á um og fara yfir það tekjumark sem það miðast við og verður það því ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Í þeim efnum hefur ekkert breyst. Því verður ekki séð að nein efni séu til þess að fallast á kröfur stefnanda í máli þessu og því hlýtur niðurstaðan að vera sú að sýkna stefnda.

Lækkunarkrafa stefnda lýtur fyrst og fremst að tölulegri útfærslu stefnanda, en með uppgjörinu 27. júní 2005 voru miskabætur og þjáningabætur að fullu greiddar, þannig að eftir stendur aðeins hluti varanlegu örorkunnar, verði fallist á sjónarmið stefnanda að öðru leyti.

Krafist er 14.643.379 króna vegna varanlegrar örorku. Þegar hafa verið greiddar 6.262.297 krónur vegna örorkunnar, þannig að eftir standa þá 8.381.082 krónur miðað við útreikning stefnanda en 6.383.433 krónur miðað við útreikning stefnda.

Sérstaklega er mótmælt að tilvitnaðar tilskipanir EBE nr. 73/239 og 84/5 hafi þýðingu í máli þessu og sama gildir um mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Forsendur og niðurstöður.

                Ágreiningur málsins varðar uppgjör vegna varanlegrar örorku er stefnandi hlaut í kjölfar bílslyss  24. janúar 2002. Örorkustigið er ágreiningslaust milli aðila og snýr ágreiningurinn einungis að uppgjöri bótanna, en stefnandi telur að ekki eigi að miða við hámarksárslaun sem tilgreind eru í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999 en við uppgjör til stefnanda miðaði stefndi við þá fjárhæð.

                Ágreiningur af þessum toga hefur áður verið borinn undir dómstóla samanber dóm Hæstaréttar í málinu nr. 395/2000 frá 15. mars 2001.  Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur þar fram, að það mat löggjafans sem fram kemur í niðurlagsákvæði 7. gr. laga 50/1993 með síðari breytingum sé ekki ómálefnalegt. Það nái á sama veg til allra sem eins standi á um og fari yfir það tekjumark, sem það miðast við og ákvæðið verði ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Þá segir einnig í forsendum Hæstaréttar að þrátt fyrir ákvæði  72. gr. stjórnarskrárinnar geti löggjafinn mælt fyrir um ýmiss konar takmarkanir á eignarrétti og eignarskerðingu án þess að til bóta komi, enda byggist þær á almennum efnislegum ástæðum og jafnræðis sé gætt. Þá verði að hafa í huga að tæpast verði séð að unnt sé að meta aflahæfi einstaklings sem fasta og óumbreytanlega stærð og hlýtur löggjafinn að hafa nokkurt svigrúm þegar hann mælir fyrir um bætur vegna skerðingar þess.

Það slys sem fjallað er um í ofangreindum dómi átti sér stað 21. desember 1998 og giltu þá skaðabótalög nr. 50/1993 með þeim breytingum, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1996.  Það slys sem fjallað er um í þessu máli átti sér stað í janúar 2002 og hafði skaðabótalögunum þá enn verið breytt samanber lög nr. 37/1999 er tóku gildi 1. maí 1999.  Með þeim lögum voru gagngerðar breytingar gerðar á útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku.  Til dæmis kom inn í lögin nýr samfelldur margfeldisstuðull til 75 ára aldurs í stað fasts margfeldisstuðuls áður sem lækkaði frá 26 ára aldri. Þá var við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða, en ekki einungis þá sem nýta vinnugetu sína til þess að afla tekna. Einnig skyldu árslaun til ákvörðunar bóta miðast við meðalatvinnutekjur slasaðra síðustu þrjú almanaksárin fyrir slys en í eldri lögum var miðað við heildarvinnutekjur slasaðra síðustu 12 mánuði fyrir slys. Þá var tekin upp lágmarkslaunaviðmiðun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Þrátt fyrir allar þessar breytingar á útreikningi bóta fyrir varanlega örorku var hámark viðmiðunarlauna látið vera óbreytt. 

Þau atriði er stefnandi tiltekur sérstaklega og telur að eigi að leiða til þess að kröfur hans séu teknar til greina hafa ekki þýðingu að mati dómsins. Varðandi breytt fyrirkomulag á frádráttarreglum laga nr. 37/1999 þá verður að skoða það atriði heildstætt miðað við allar þær breytingar sem gerðar voru á útreikningi bóta fyrir varanlega örorku samanber hér að framan.  Sérstaklega er tilgreint að margföldunarstuðull laganna hækkaði verulega.  Þá hefur að mati dómsins ekki þýðingu að vísa til danskra laga.  Þótt einhverjar breytingar hafi orðið á launaþróun hér á landi undanfarið, þá getur sú breyting ekki réttlætt það að dómkrafa stefnanda verði tekin til greina, því ákvæði 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna nær á sama veg til allra sem eins stendur á um og fara yfir það tekjumark sem lögin miða við.

Tilvitnun stefnanda til tilskipana EBE á ekki við í máli þessu. Tilskipunum er ætlað að tryggja að tjónþolar (þriðji maður) fái úr hendi vátryggjanda greiðslu á bótum, sem hann á rétt á eftir skaðabótareglum. Þá á tilvísun til 92. gr umferðarlaga nr. 50/1987 ekki heldur við, þar sem skaðabótalögin nr. 50/1993 fjalla um útreikning bóta og tilvísun til hámarksbóta í umferðarlögunum hafa því ekki þýðingu.

Þegar á allt framangreint er litið er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

               

DÓMSORÐ

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Brynjólfs Haukssonar.

Stefnandi, Brynjólfur Hauksson, greiði stefnda 200.000 í málskostnað.