Print

Mál nr. 425/1998

Lykilorð
  • Bifreið
  • Umferðarlög
  • Ökuhraði
  • Svipting ökuréttar
  • Sekt
  • Reglugerð
  • Valdmörk

                                                              Fimmtudaginn 14. janúar 1999.

Nr. 425/1998.                                       Ákæruvaldið

                                                    (Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

                                                    gegn

                                                    Fjölni Þorgeirssyni

                                                    (Tómas Jónsson hrl.)

Bifreiðir. Umferðarlög. Ökuhraði. Svipting ökuréttar. Sekt. Reglugerð. Valdmörk.

F var ákærður fyrir fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið á 64 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klst. Hæstiréttur taldi það ekki varða ómerkingu héraðsdóms þótt ekki hefði sérstaklega verið tekin afstaða til ákvæða 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997, og reglugerðar             nr. 280/1998 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, svo sem efni hefðu verið til. Sakfelling héraðsdóms var staðfest, þó að teknu tilliti til vikmarka við radarmælingar. Talið var eðlilegt að lögregluyfirvöld ynnu samkvæmt föstum og stöðluðum skrám, s.s. þeim sem fram komu í reglugerð nr. 280/1998, við ákvörðun viðurlaga vegna umferðarlagabrota til að gæta samræmis og jafnræðis við ákvarðanir sínar enda samræmdust þær umferðarlögum. Hins vegar leiddi af 2. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar yrðu ekki bundnir við þannig skrár og bæri þeim að meta viðurlög sjálfstætt á grundvelli umferðarlaga og mætti þá m.a. líta til ákvarðana lögregluyfirvalda á þessu sviði. Sektarákvörðun héraðsdóms var staðfest. Því var hafnað að dómvenja stæði til þess að svipting ökuréttar kæmi aldrei til fyrr en ökuhraði færi meira en 50 km fram úr leyfðum hámarkshraða og var ákvörðun héraðsdóms um sviptingu ökuréttar staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 1998 að ósk ákærða og krefst ákæruvaldið staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar, en til vara krefst hann endurskoðunar á ákvörðun viðurlaga og að sér verði dæmd lágmarksrefsing.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins er á því reist að dómurinn uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að því er varðar röksemdir fyrir niðurstöðu og ákvörðun viðurlaga. Telja verður að nægilega komi fram í dóminum, hvað dómarinn telur sannað og á hverju hann byggir niðurstöður sínar um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga. Í dóminum er hins vegar ekki sérstaklega tekin afstaða til ákvæða 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðar nr. 280/1998 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, svo sem efni hefðu verið til miðað við málflutning. Þetta þykir þó ekki eiga að leiða til þess að dómurinn sæti ómerkingu og verður þessi krafa ákærða því ekki tekin til greina.

Á það er fallist með héraðsdómara að ekkert sé fram komið í málinu, er dragi úr gildi radarmælingar lögreglumanna á hraða ákærða á Njarðargötu að morgni föstudagsins 10. júlí 1998, sem sýndi 64 km miðað við klukkustund þar sem lögleyfður hámarkshraði er 30 km. Hins vegar ber að líta til vikmarka við radarmælingar, sem ríkislögreglustjóri hefur mælt fyrir um í bréfi til lögreglustjóra 15. júní 1998, sem í tilviki sem þessu teljast 3 km. Verður því miðað við að ákærði hafi ekið á 61 km hraða á klukkustund. Samkvæmt þessu verður sakfelling hans fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 4. mgr., 37. gr. umferðarlaga staðfest. Ber að ákveða honum refsingu samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 57/1997, segir að sektir allt að 100.000 krónum fyrir brot á lögunum eða reglum samkvæmt þeim, skuli ákveðnar í reglugerð sem dómsmálaráðherra setji að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Gildir nú um þetta fyrrnefnd reglugerð nr. 280/1998, en með henni fylgir sem viðauki „Skrá yfir sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim”. Kemur þessi skrá í stað leiðbeininga ríkissaksóknara, sem lögregluyfirvöld fóru áður eftir við beitingu heimilda sinna til ákvörðunar sekta og annarra viðurlaga. Eðlilegt verður að telja að lögregluyfirvöld vinni samkvæmt föstum og stöðluðum skrám til að gæta samræmis og jafnræðis við ákvarðanir sínar í þessum efnum, enda samrýmist þær umferðarlögum. Hins vegar leiðir það af ákvæði 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að dómstólar verða ekki bundnir við þannig skrár og ber þeim, þegar málum af þessu tagi er skotið til þeirra, að meta viðurlög sjálfstætt á grundvelli umferðarlaga, og má þá meðal annars líta til ákvarðana lögregluyfirvalda á þessu sviði.

Ákærði ók á ríflega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í íbúðahverfi, þar sem götur eru þröngar, gatnamót varhugaverð og leikskóli barna í nánd. Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur hann nokkrum sinnum áður hlotið sektir fyrir of hraðan akstur. Að teknu tilliti til þessa þykir sektarákvörðun héraðsdóms hæfileg.

 Akstur ákærða við framangreindar aðstæður var mjög vítaverður. Hafnað er þeim skilningi ákærða að ákveðin dómvenja sé fyrir því að svipting ökuréttar komi ekki til fyrr en ökuhraði fari meira en 50 km fram úr leyfðum hámarkshraða, án tillits til þess, hver hinn leyfði hraði sé. Verður staðfest ákvörðun héraðsdóms um sviptingu ökuréttar, sbr. 101. gr. umferðarlaga.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar og ákærði verður dæmdur til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Ákærði, Fjölnir Þorgeirsson, greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 80.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 1998.

Ár 1998, þriðjudaginn 11. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 691/1998: Ákæruvaldið gegn Fjölni Þorgeirssyni sem tekið var til dóms hinn 6. þ.m. að lokinni aðalmeðferð.

                Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 16. júlí sl. á hendur ákærða, Fjölni Þorgeirssyni, kt. 270671-3149, Bergstaðastræti 33, Reykjavík „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa þann 10. júlí 1998 ekið bifreiðinni IT-339 á 64 km hraða á klst. suður Njarðargötu í Reykjavík, á vegarkafla frá Bergstaðastræti að Smáragötu, þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km á klst.

                Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 57,1997.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993.“

Málavextir.

                Föstudagsmorguninn 10. júlí sl. um kl. 8.55 voru lögreglumennirnir Arnór Eyþórsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir að mæla ökuhraða bifreiða með ratsjá á mótum Njarðargötu og Hringbrautar í Reykjavík. Höfðu þau lagt lögreglubifreiðinni fyrir sunnan Hringbraut og mældu ökuhraða ákærða sem ók Mazda-bifreið sinni niður Njarðargötu suður að Smáragötu. Samkvæmt færslu lögreglumannanna í ratsjárdagbók mældist ökuhraði ákærða 64 km á klukkustund.

                Ákærði neitar því að hafa ekið á þessum hraða og kveður hann hafa verið 40 - 50 km á klukkustund. Lögreglumennirnir hafa komið fyrir dóm og staðfest mælinguna. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gerir hana tortryggilega og verður því slegið föstu að ákærði hafi ekið með 64 km hraða eftir Njarðargötunni á þessum stað. Samkvæmt samþykkt nr. 388,1985 um breytingu á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík nr. 2, 1930, sbr. 2. gr. auglýsingar nr. 115,1988, er mesti ökuhraði sem heimilaður er um Njarðargötu 30 km á klst. Ákærði hefur því gerst sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 4., mgr. 37. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

                Ákærði hefur verið sektaður sjö sinnum fyrir of hraðan akstur frá árinu 1989 og var þá í eitt skipti einnig sviptur ökurétti. Þykir hæfilegt að dæma hann til þess að greiða 25.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 7 daga varðhald í stað sektarinnar ef hún greiðist ekki innan 4 vikna frá dómsuppsögu.

                Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr, 44,1993, skal svipta þann mann „rétti til þess að stjórna vélknúnu ökutæki sem ökuskírteini þarf til ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan akstur slíks ökutækis...“ Dómurinn álítur það mjög vítavert að aka ríflega tvisvar sinnum hraðar en leyfilegt er og beri því samkvæmt lagagreininni að svipta ákærða ökurétti í einn mánuð frá dómsbirtingu að telja.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur og málsvarnarlaun til verjanda síns Tómasar Jónssonar hrl., 40.000 krónur.

                Mál þetta sótti Ingibjörg Halldórsdóttir fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.

Dómsorð:

                 Ákærði, Fjölnir Þorgeirsson, greiði 25.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 7 daga varðhald í stað sektarinnar ef hún greiðist ekki innan 4 vikna frá dómsuppsögu.

                Ákærði er sviptur ökurétti í einn mánuð frá dómsbirtingu að telja.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun til verjanda síns Tómasar Jónssonar hrl., 40.000 krónur.