Print

Mál nr. 248/2006

Lykilorð
  • Kærumál
  • Stjórnsýsla
  • Réttaráhrif
  • Rannsókn sakamáls
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu

Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2006.

Nr. 248/2006.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Stjórnsýsla. Réttaráhrif. Rannsókn sakamáls. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

 Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um það aðallega að kveðið yrði á um að sóknaraðila væri skylt að fella niður rannsókn á hendur varnaraðila vegna ætlaðra nánar tilgreindra brota hans á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að mælt yrði fyrir um að ríkislögreglustjóra væri skylt að víkja sæti við rannsóknina. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að fallist verði á framangreindar kröfur hans. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I.

Í hinum kærða úrskurði eru raktir málavextir, eins og þeir horfa við varnaraðila og hefur sú lýsing ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila. Eins og þar kemur fram rannsakaði skattrannsóknarstjóri ríkisins að eigin frumkvæði skattskil varnaraðila og nokkurra lögaðila sem hann tengdist. Rannsóknin hófst 21. febrúar 2002. Í upphafi tók hún til gjaldáranna 1997 til og með 2002, en var síðar að mestu afmörkuð við gjaldárin 1998 til 2002 að báðum árum meðtöldum. Lauk rannsókninni 29. september 2003 og vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins málinu í kjölfarið til rannsóknar ríkislögreglustjóra með heimild í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 um sama efni, með kæru 30. desember 2003. Í tilefni af þeirri kæru var varnaraðili kvaddur til yfirheyrslu 9. mars 2006. Niðurstaða framangreindrar skýrslu skattrannsóknarstjóra varð einnig tilefni þess að ríkisskattstjóri kvað upp úrskurði 30. desember 2003 og 22. september 2004 er vörðuðu skattskil varnaraðila gjaldárin 1998 til og með 2002. Með þeim endurákvarðaði hann nánar tilgreinda skattstofna í skattframtölum varnaraðila og beitti að auki á þá 25% álagi með heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í skriflegum málatilbúnaði varnaraðila í héraði er þess ekki getið að hann hafi vísað síðari úrskurðinum til yfirskattanefndar, en fyrir Hæstarétt hefur verið lagður úrskurður nefndarinnar 26. apríl 2006. Með honum hafnaði yfirskattanefnd kröfum varnaraðila um niðurfellingu framangreinds 25% álags og vísaði jafnframt frá nefndinni kæru hans um niðurfærslu söluhagnaðar tiltekinna hlutabréfa og framsendi hana ríkisskattstjóra til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra 22. september 2004.

II.

Kröfur aðila í málinu og röksemdir eru raktar í hinum kærða úrskurði. Að auki byggir varnaraðili á því fyrir Hæstarétti að með úrskurði yfirskattanefndar hafi í öllu verulegu verið hafnað sjónarmiðum hans um niðurfellingu 25% álags á gjaldstofna þeirra opinberu gjalda, sem ákveðið hafi verið í áðurnefndum úrskurðum ríkisskattstjóra og liggi því fyrir að endanleg ákvörðun um beitingu álags á skattstofna allra þeirra gjaldára sem um hafi verið fjallað.

Aðalkrafa varnaraðila byggir á því að hann njóti ekki réttlátrar málsmeðferðar í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem í fyrsta lagi hafi nánar tilgreind ummæli, annars vegar þáverandi forsætisráðherra og hins vegar dómsmálaráðherra, falið í sér brot á reglunni um að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð. Í öðru lagi hafi rannsókn sú sem hann sætir dregist úr hömlu þannig að í bága fari við málshraðareglur og í þriðja lagi beinist rannsóknin að sakarefni sem honum hafi þegar verið ákveðin refsing fyrir með álagningu fyrrgreinds 25% álags á skattstofna og verði honum því ekki refsað öðru sinni fyrir sömu ætluðu háttsemi vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Varakrafa hans byggir á því að fyrrnefnd ummæli þáverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra leiði til þess að ríkislögreglustjóri geti sem undirmaður dómsmálaráðherra ekki talist hæfur til að stjórna rannsókninni og beri því að víkja sæti.

Í greinargerð sinni til Hæstaréttar lætur sóknaraðili við það sitja að vísa til röksemda og málsástæðna sem hann hafði uppi við meðferð málsins í héraði og krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.

 

III.

Krafa varnaraðila um að ríkislögreglustjóra beri að víkja sæti við meðferð rannsóknarinnar er varakrafa. Þrátt fyrir það verður að taka hana fyrst til umfjöllunar, enda ber að gæta af sjálfsdáðum að sjónarmiðum um hæfi þess sem með rannsókn fer samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er dómsmálaráðherra æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og fer ríkislögreglustjóri með málefni hennar í umboði hans. Getur ríkislögreglustjóri því orðið vanhæfur til meðferðar máls vegna ummæla dómsmálaráðherra, enda varði þau atriði sem ráðherrann getur gefið ríkislögreglustjóra fyrirmæli um eða hefur fullnaðarákvörðun um á stjórnsýslustigi.

Varnaraðili hefur haldið því fram að tiltekin ummæli fyrrverandi forsætisráðherra valdi því að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur til að fara með rannsóknina. Málefni lögreglu heyra ekki undir forsætisráðherra og verður ekki fallist á að ummæli, sem þáverandi forsætisráðherra lét falla um hann, geti valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra í málinu eða leitt til röskunar á rétti varnaraðila til að teljast saklaus þar til sekt sé sönnuð.

Varnaraðili hefur lagt fram í málinu endurrit ræðu sem dómsmálaráðherra hélt á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur 18. desember 2003. Gat hann þess meðal annars í ræðunni að meiri hluti borgarstjórnar hafi ákveðið að kaupa tiltekna fasteign af varnaraðila en hann hafi nú „selt allar eigur sínar á Íslandi í skjóli nætur, eins og frægt er orðið.“  Ummæli þessi um fasteignaviðskipti varnaraðila eru að vísu óvægin en geta ekki valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra til að stjórna opinberri rannsókn á skattskilum varnaraðila, enda verður að líta svo á, þegar hlutverk ríkislögreglustjóra samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er virt í ljósi ákvæða IX. kafla laga nr. 19/1991, að hann lúti ekki fyrirmælum dómsmálaráðherra um rannsóknina.

Þá hefur varnaraðili lagt fram afrit af ummælum sem dómsmálaráðherra viðhafði í pistli á tiltekinni vefsíðu. Tók ráðherrann þar upp í beinni tilvitnun ummæli sem þáverandi forsætisráðherra hafði viðhaft á öðrum vettvangi um varnaraðila, með eftirfarandi hætti: „Í þættinum með Þorfinni Ómarssyni 20. desember var Einar Kárason þeirrar skoðunar, að málfrelsi Davíðs Oddsonar væri of mikið, ef hann mætti segja eftirfarandi orð refsilaust, þegar hann ræddi um viðskipti Kaupþings/Búnaðarbanka og [X] í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 21. nóvember 2003: „Og maður hefur þá tilfinningu að þar með sé auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið eigi miklu erfiðara ef að skattaálagning verður í samræmi við skattrannsókn að ná til sín þeim fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Þetta hafði allt þann brag að þarna væri verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga.“ Raunar kemur mér ekki á óvart, að Einar Kárason telji, að málfrelsi eigi að takmarka, þegar vikið er að þeim sem njóta samúðar hans.“ Hélt ráðherrann áfram og rakti dæmi um skoðanir fyrrgreinds manns á því hvernig ráðherrann sjálfur hafi „farið út á ystu nöf málfrelsisins“ með tilgreindum ummælum í umfjöllun um annað mál, óskylt því sem hér er til umfjöllunar. Virða verður framangreind ummæli dómsmálaráðherra í því samhengi sem þau voru sett fram í umræðu um málfrelsi manna og verður ekki talið að með því að endurtaka tilvitnuð ummæli þáverandi forsætisráðherra á þennan hátt hafi dómsmálaráðherra gert þau ummæli að sínum. Þá lýtur ríkislögreglustjóri eins og fyrr greinir ekki fyrirmælum dómsmálaráðherra um rannsókn mála og geta ummælin því ekki valdið vanhæfi ríkislögreglustjóra til að stjórna henni. Með sömu rökum verður ekki fallist á með varnaraðila að vegna ummælanna hafi verið brotið gegn rétti hans til að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð.

IV.

Varnaraðili byggir einnig á því að hann hafi þegar hlotið refsingu með því að hafa sætt 25% álagi á skattstofna samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981. Vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði rannsókninni ekki haldið áfram og honum refsað að nýju. Beri því að hætta henni nú þegar. Vísar varnaraðili um þennan skilning sinn meðal annars til dóma mannréttindadómstólsins, sem hann telur að fjalli um sambærileg álitaefni, og byggir á að túlkun 4. gr. 7. viðaukans hljóti að taka mið af fordæmum dómstólsins, enda gangi ákvæðið framar 2. mgr. 138. gr. laga nr. 19/1991 ef misræmi reynist vera fyrir hendi.

Í 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu er kveðið á um að enginn skuli sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hafi þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Ljóst er af erlendum texta ákvæðisins að þýðingin á íslensku er ekki í fullu samræmi við hann. Hefur mannréttindadómstóllinn túlkað ákvæðið svo að málsmeðferð fyrir stjórnvöldum og eftirfarandi ákvörðun viðurlaga á stjórnsýslustigi geti fallið undir ákvæðið að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum og að ekki verði áskilið að um meðferð fyrir dómi sé að ræða í öllum tilvikum. Fær sá skilningur stoð í upprunalegum texta ákvæðisins. Eitt af þeim skilyrðum sem ákvæði þetta setur er að endanleg ákvörðun liggi fyrir um viðurlög, sem telja megi refsingu í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Er þá litið til þess að hugtakið refsing skuli skýrt með sama hætti án tillits til þess um hvaða ákvæði sáttmálans er að ræða. Varnaraðili byggir á því að hann hafi verið látinn sæta refsingu í skilningi ákvæðisins þegar honum hafi verið gert að greiða 25% álag á skattstofna. Hvað sem líður réttmæti þeirra fullyrðinga verður samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann að liggja fyrir endanleg ákvörðun þeirra viðurlaga, sem um ræðir svo að komið geti til álita að á ákvæðið reyni. Eins og fyrr greinir endurákvarðaði ríkisskattstjóri með tveimur úrskurðum skattstofna sem hér um ræðir og lagði að auki á þá 25% álag. Síðari úrskurðinum, sem að hluta tók til endurskoðunar niðurstöðu hins fyrri, skaut varnaraðili til yfirskattanefndar, sem hafnaði kröfum varnaraðila að hluta, en taldi þær að hluta fela í sér beiðni um endurupptöku úrskurðar ríkisskattstjóra og framsendi málið honum um þau atriði. Liggur samkvæmt þessu ekki fyrir endanleg niðurstaða innan stjórnsýslunnar um framangreint álag á skattstofna. Breytir þar engu þó kröfu varnaraðila um niðurfellingu álagsins hafi verið hafnað í áðurnefndum úrskurði yfirskattanefndar, þar sem niðurstaða í þeim þætti, sem vísað var að nýju til ríkisskattstjóra, hefði óhjákvæmilega áhrif á nefnt álag, yrði krafa varnaraðila um breytingu á þeim gjaldstofni tekin til greina. Hafa þarf og í huga að samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd er kveðið á um sérstaka heimild til að skjóta til dómstóla úrlausnum nefndarinnar, meðal annars að því er varðar skattstofna. Er frestur skattyfirvalda ákveðinn í 2. mgr. sömu greinar 6 mánuðir. Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að fyrir liggi í máli þessu endanleg ákvörðun stjórnvalds um margnefnt álag sem gæti haft neikvæð réttaráhrif samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt  að fallast á með varnaraðila að yfirstandandi rannsókn sóknaraðila á ætluðum brotum í tengslum við skattskil varnaraðila á umræddu tímabili feli í sér brot á framangreindu lagaákvæði. Verður krafa hans því ekki tekin til greina á þeim grunni.

V.

Eins og að framan greinir byggir varnaraðili á því að fella beri niður rannsókn á hendur honum vegna þess tíma sem hún hefur tekið. Þannig telur hann að þegar hafi verið brotið gegn reglum mannréttindasáttmála Evrópu um málshraða og þar sem ekki verði úr þessum ágalla bætt beri að hætta rannsókninni. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf formlega rannsókn á hendur varnaraðila 21. febrúar 2002 og lauk rannsókn þess embættis 29. september 2003, en kæru var beint til sóknaraðila 30. desember sama ár. Verður ekki fallist á með varnaraðila að gögn málsins beri með sér að rannsókn skattyfirvalda hafi tekið óhæfilegan tíma þegar litið er til umfangs málsins og þess að tafir á rannsókninni mátti að nokkru rekja til atriða er varða varnaraðila og skattrannsóknarstjóra verður ekki um kennt. Hins vegar er til þess að líta að frá því að skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til rannsóknar hjá sóknaraðila og þar til varnaraðili var kvaddur til skýrslutöku 9. mars 2006 liðu rúmlega tvö ár. Sóknaraðili byggir á því að rannsóknin sé viðamikil og tímafrek. Hvað sem réttmæti þeirrar fullyrðingar líður hefur hann í engu lýst í hverju rannsóknaraðgerðir hans hafa verið fólgnar frá því að honum barst kæra skattrannsóknarstjóra. Verður ekki séð af gögnum málsins að nokkuð hafi verið aðhafst af hálfu sóknaraðila frá þeim tíma og þar til varnaraðili var kallaður til skýrslutöku. Vegna þeirra atriða sem um getur í IV. kafla hér að framan verður hins vegar ekki í máli þessu tekin afstaða til þess hvort umræddur dráttur eigi að hafa áhrif á afdrif rannsóknarinnar, enda yrði tekin efnisleg afstaða til þess við dómsúrlausn málsins hverju sá dráttur ætti að sæta verði ákæra gefin út á hendur varnaraðila.

VI.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2006.

Sóknaraðili, X, gerir eftirfarandi kröfur á hendur ríkislögreglustjóra f.h. íslenska ríkisins: 

Aðallega að viðurkennt verði með dómi að skylt sé að fella niður rannsókn á hendur honum samkvæmt kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins 2003 vegna meintra rangra skattframtala X gjaldárin 1998-2002 vegna tekjuáranna 1998-2001, en meint brot X eru talin varða við lög nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú 1. nr. 90/2003, lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Til vara er gerð sú krafa að viðurkennt verði með dómi að ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn máls þessa.

Jafnframt er krafist málskostnaðar alls úr hendi varnaraðila að mati dómsins, þar á meðal þóknunar verjanda X.

Af hálfu varnaraðila, ríkislögreglustjóra, er þess krafist að kröfum úrskurðarbeiðanda verði vísað frá en til vara að þeim verði hafnað og úrskurðað verði að heimilt sé að halda áfram opinberri rannsókn ríkislögreglustjóra á hendur X vegna meintra skattalagabrota.

Málsástæður sóknaraðila, X

Aðalkrafa

Í kröfu sóknaraðila, X, kemur fram að hinn 9. mars 2006 hafi í fyrsta sinn verið tekin fyrir hjá ríkislögreglustjóra kæra skattrannsóknarstjóra ríkisins, dagsett 30. desember 2003, á hendur X, [heimilisfang], Englandi, vegna persónulegra skattskila hans á Íslandi gjaldárin 1999-2002 vegna tekjuáranna 1998-2001.  Ragnar Aðalsteinsson hrl. hafi verið skipaður verjandi X í upphafi fyrirtökunnar.  Í framhaldi af því hafi verjandinn lagt fram bókun þar sem þess var krafist að rannsókn þessi yrði felld niður og í bókuninni hafi verið gerð grein fyrir á hverju krafan væri byggð.  Um heimild til kröfugerðarinnar var vísað til 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Kröfunni hafi verið hafnað með þeim ummælum rannsóknara að bókunin yrði lögð með skjölum málsins en yfirheyrslunni yfir X yrði haldið áfram.  Eftir að X hafði gert grein fyrir að hann myndi ekki svara spurningum rannsóknara fyrr en hann hefði átt þess kost að fá afstöðu dómstóla til kröfunnar um niðurfellingu rannsóknarinnar hafi verið ákveðið að fresta yfirheyrslunni þangað til afstaða dómstóla lægi fyrir.

Málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra

Sóknaraðili kveður formlega rannsókn á hendur X hafa byrjað hinn 21. febrúar 2002.  Þann dag hafi farið fram leit vegna rannsóknarinnar að A og B.  Rannsókninni hafi verið lokið með skýrslunni og segi þar að rannsókninni hafi verið lokið hinn 29. september 2003.  Í gögnum greini að skýrsla skattrannsóknarstjóra hafi verið send sóknaraðila hinn 7. nóvember 2002 og verjanda hans sama dag í því skyni að koma á framfæri athugasemdum við hana. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2002, hafi verjandi óskað eftir öllum gögnum málsins en hafi verið synjað um þau 29. nóvember 2002.  Beiðnin hafi verið ítrekuð 11. desember 2002 og synjað öðru sinni 19. desember 2002.  Jafnframt hafi verið vakin athygli á vanhæfi skattrannsóknarstjóra vegna þess að hann hafi löngu fyrir lok rannsóknar tekið afstöðu um sekt sóknaraðila í svari sínu frá 19. desember 2002.  Sé við það miðað að sóknaraðila sé skylt að afla gagna sem fræðilega séð gætu orðið honum til sakaráfellis og virðist skattrannsóknarstjóri ekki telja sig bundinn af reglunni um að engum sé skylt að fella á sig sök.  Hafa beri í huga að um rannsókn skattrannsóknarstjóra gildi lög um meðferð opinberra mála og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. nú 7. mgr. 103. gr. 1. nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Sóknaraðili hafi lagt fram andmæli sín 12. febrúar 2003.   Að svo búnu hafi verið gerð önnur skýrsla að teknu tilliti til andmæla og var hún send sóknaraðila 12. júní 2003.  Andmæli við þessari gerð skýrslunnar séu dags. 16. júlí 2003.  Hinn 23. september hafi andmæli við viðbótaratriðum verið send.

Rétt sé að geta þess að ágreiningur aðila laut að túlkun skattalaga og heimilisfesti sóknaraðila og þar með skattskyldu hans á Íslandi, en hann hafi búið í Englandi og hafði lögheimili þar á þeim tíma sem skattrannsóknin nái til að öllu leyti eða a.m.k. að öllu verulegu leyti.  Hann hafi og haft lögheimili í Englandi allan þann tíma sem rannsóknin varði og hafi þar lögheimili enn.  Hann hafi verið skattskyldur í Englandi á tímabilinu og hafi talið þar fram til skatts samkvæmt þess lands lögum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra sé hvað eftir annað reynt að koma sök á drætti á málsmeðferð og erfiðri sönnunaraðstöðu embættisins á sóknaraðila, en öllu slíku sé mótmælt og því haldið fram að skattrannsóknarstjóri hafi gert sóknaraðila sem erfiðast fyrir við að koma gögnum á framfæri við embættið undir rannsókn málsins.

Málsmeðferð hjá ríkisskattstjóra

Skattrannsóknarstjóri hafi sent fyrrnefnda skýrslu til ríkisskattstjóra sem endurákvarðaði gjöld sóknaraðila í tveimur áföngum annars vegar fyrir gjaldárin 1998 og 1999 með úrskurði hinn 30. desember 2003 og hins vegar fyrir gjaldárin 1999-2002 með úrskurði 22. september 2004.  Í hinum síðargreinda úrskurði hafi verið endurskoðaður hluti af gjaldabreytingu í fyrri úrskurði um gjaldárið 1999, nánar tiltekið var framtal sóknaraðila enn tekið upp og öðru sinni kveðinn upp úrskurður um fjármagnstekjuskatt vegna gjaldársins 1999.  Hafi hann verið hækkaður úr 3.789.779 kr. í 13.351.007 kr. og séu 25% skattsins refsiálag samkvæmt heimild í 106. gr. 1. nr. 75/1981 (nú 108. gr. 1. nr. 90/2003).

Í samræmi við lagaframkvæmd sé reiknað 25% álag á alla skattstofna sóknaraðila í refsiskyni.  Ekki verði af úrskurðarorðum ríkisskattstjóra ráðið hversu mikill hluti endurákvarðaðra skatta sé refsiálag samkvæmt 108. gr. áður 106. gr. skattalaga.  Samkvæmt útreikningi sóknaraðila nemi hlutdeild álagsins í endurákvörðuninni samtals 92.331.881 kr. fyrir tímabilið 1998-2001.

Á bls. 96 í úrskurðinum frá 30. desember 2003 sé tekið fram að tekjur sóknaraðila séu áætlaðar svo ríflega að ekki sé hætt við að tekjur séu áætlaðar lægri en þær séu í raun og veru.  Á bls. 97 segi að ríkisskattstjóri hafi ákveðið að beita 25% álagi samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. 1. nr. 90/2003, sem hafi reyndar ekki verið í gildi þegar atvik þau urðu eru málið fjallar um.  Sé þetta rökstutt með því að „gjaldandi hefur með margvíslegum hætti dulið tekju- og eignamyndun sína“ og sé augljóst að ríkisskattstjóri sé að refsa sóknaraðila fyrir skattalagabrot framið af ásetningi.  Samskonar ummæli sé að fínna á bls. 96-98 í úrskurðinum frá 22. september 2004.

Rök sóknaraðila fyrir því að fella beri niður rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra. 

Tilgangur hinnar opinberu rannsóknar á hendur sóknaraðila sé að liður í þeirri málsmeðferð sé að afla sönnunargagna til að unnt verði að ákæra hann og refsa honum öðru sinni með dómi fyrir þá hina sömu háttsemi sem honum hafi þegar verið gerð refsing fyrir með álagningu skattaálags þess, sem fyrr sé lýst. Á því sé byggt að ákvæði 2. mgr. 138. gr., skýrt í ljósi 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við MSE, útiloki rannsókn. Ákvæðið hljóði þannig:

Krafa, sem dœmd er að efni til, verður ekki borin undir sama eða hliðsettan dóm að nýju framar en í lögum þessum segir. Nýju máli um slíka kröfu skal vísa frá dómi.

Ákvæði 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 hljóði þannig: 

Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvœmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.

Enski texti samningsins sé þannig:

No one shall be liable to be tried or punished again in criminal proceedings under the jurisdiction of the same State for an offence for which he has already been finally acquitted or convicted in accordance with the law and penal procedure of that State.

Viðurkennt sé að túlka beri hugtakið refsing í 1. mgr. 4. gr. í 7. viðauka á sama hátt og í 1. mgr. 6. gr. MSE, en upphaf hennar hljóði þannig:

Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða umsök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hœfilegs tíma fyrir sjálfstœðum og óvilhöllum dómstóli

Á ensku hljóði ákvæðið þannig:

In the determination of his civil rights and obligations or of any criminal charge against him, everyone is entitled to a fair and public hearing within a reasonable time by an independent and impartial tribunal established by law.

Hugtök eins og „refsing“ (punishment), „brot“ (offence), „sakamál“ (criminal proceedings) eða „sök sem á einhvern er borin“ (crimimal charge) sæti samkvæmt fordæmisrétti MDE sjálfstæðri túlkun án tillits til túlkunar hugtakanna í landsrétti viðkomandi ríkis.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að skattaálag eins og hér sé um fjallað teljist refsing í skilningi MSE.  Dómstóllinn hafi og komist að þeirri niðurstöðu að refsiákvörðun stjórnvalds, svo sem um skattaálag, teljist brot sem sýknað hafi verið fyrir eða sakfellt í skilningi 4. gr. viðauka nr. 7.  Er í þessu sambandi vísað til ákvörðunar um hvort kæra væri tæk til meðferðar í málinu Rosenquist gegn Svíþjóð.

Um greind lagaákvæði og samningsákvæði svo og dóma MDE hafi í norrænum rétti einkum verið fjallað í Hæstarétti Noregs og verði hér látið nægja að vitna til dóms í Rt. 2002 557 uppkveðnum 3. maí 2002 í málinu nr. 2001/1527.  Álitaefnið hafi verið hvort vísa skuli frá refsimáli þegar ákærða hefur þegar verið gert að greiða skattaálag. Niðurstaðan hafi orðið sú að þær ákvarðanir stjórnvalda um refsikennd viðurlög, sem verði taldar falla undir 1. mgr. 6. gr. MSE, falli einnig almennt innan marka 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við MSE og eigi þetta jafnt við hvort sem slík stjórnvaldsákvörðun komi á undan eða eftir dómi í opinberu máli.

Háttsemi sóknaraðila, sem fyrirhugað sé að rannsaka, sé í meginatriðum skýrð eins í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og í skattsvikaákvæði almennra hegningarlaga, en háttsemi sóknaraðila sé samkvæmt bókun hjá ríkislögreglustjóra talin brjóta jafnt gegn þessum refsiákvæðum, enda séu þau efnislega samhljóma. Viðurlögin sem sóknaraðila hafi verið gert að þola séu veruleg í öllum skilningi og nemi tugum milljóna króna í sektargreiðslur.  Ekki sé um það að ræða að rannsóknin hjá rannsóknarlögreglu sé annað en það sem rannsakað hafi verið hjá skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóri gerði honum refsingu fyrir með skattaálaginu.

Samkvæmt framangreindu hafi sóknaraðila þegar verið gerð refsing fyrir þá háttsemi sem fyrirhugað sé að rannsaka og refsa honum fyrir öðru sinni.  Ekki sé aðeins óheimilt að refsa honum fyrir sama brotið tvívegis heldur sé og óheimilt að láta hann undirgangast öðru sinni opinbera rannsókn á háttsemi sem þegar hafi verið refsað fyrir.  Rannsóknin geti ekki leitt til ákæru vegna þess að slík ákæra sé óheimil.  Jafnvel þótt slík ákæra yrði gefin út þá yrði henni vísað frá dómi þar sem dómstólum væri óheimilt að fjalla um efni ákærunnar.

b) Réttur sóknaraðila til réttlátrar málsmeðferðar innan hœfilegs tíma.

Í 70. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um málsmeðferð „innan hæfilegs tíma“ þannig:

Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákœru áhendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hœfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrœgum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvœmt til að gæta velsœmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.

Sambærilegt ákvæði sé í 1. mgr. 6. gr. MSE, en upphaf ákvæðisins sé svohljóðandi:

Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hœfilegs tíma fyrir sjálfstœðum og óvilhöllum dómstóli.

Opinber rannsókn á hendur sóknaraðila hófst formlega hinn 21. febrúar 2002, en hafði staðið þá um hríð en skattrannsóknarstjóri hafi ekki upplýst hversu lengi hún hafði þá staðið.  Sóknaraðili hafi gefið skýrslu fyrir rannsóknara á vegum skattrannsóknarstjóra 5. mars 2002, 11. apríl 2002, 12. apríl 2002 og 30. apríl 2002. Rannsókn hafi síðan lokið  29. september 2003.  Sóknaraðili hafi næst komið fyrir    rannsóknara á vegum ríkislögreglustjóra hinn 9. mars 2006.  Hafi þá verið liðin tæp fjögur ár á milli síðustu skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra og upphafi skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra.  Ekkert hafi gerst í millitíðinni sem hér skiptir máli annað en álagning skattaálagsins 30. desember 2003 og 22. september 2004, en hvort tveggja hafi verið byggt á sömu rannsókninni án nokkurra rannsóknaraðgerða í millitíðinni.

Sóknaraðila verði ekki kennt um drátt þennan, enda þótt bæði skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri reyni að koma ábyrgð á drættinum á rannsókninni yfir á hann.  Sjá megi að sóknaraðili hafi óskað eftir fárra daga fresti til að koma fyrir til skýrslugjafar, en hann búi í útlöndum og skýrist þær beiðnir af því. Verjandi hans hafi stöku sinnum óskað eftir stuttum frestum til að gera athugasemdir við skýrslur rannsóknara, en t.d. hafi liðið meira en hálft ár frá síðustu skýrslutöku yfir sóknaraðila 30. apríl 2002 þar til honum var send skýrsla skattrannsóknarstjóra til athugasemda hinn 7. nóvember 2002.  Andmælin hafi verið send skattrannsóknarstjóra 12. febrúar 2003 eða þremur mánuðum síðar en þá hafi farið fram viðamikil gagnaöflun á vegum sóknaraðila, enda hafði honum ekki verið kynnt hvaða gagna skattrannsóknarstjóri hafði aflað.  Hann viti reyndar ekki enn hvaða ganga var aflað utan þeirra sem séu fylgiskjöl með skýrslunni, enda hafi skattrannsóknarstjóri neitað verjanda um aðgang að öðrum gögnum en embættið hafi sjálft valið.  Endurskoðuð skýrsla hafi verið send verjanda hinn 12. júní 2003 eða fjórum mánuðum eftir andmæli.  Hafi andmælum við hana verið skilað 16. júlí 2003 eða mánuði síðar.

Frá því að skattrannsóknarstjóri kærði sóknaraðila til ríkislögreglustjóra hinn 30. desember 2003 hafi liðið tvö ár og tveir mánuðir þar til sóknaraðili var boðaður til skýrslugjafar og sé sá dráttur tilefnislaus og á ábyrgð rannsóknara.

Sem fyrr segi hófst rannsóknin á hendur sóknaraðila með húsleit í febrúar 2002 að viðstöddum helstu fjölmiðlum landsins, sem höfðu augljóslega fengið vitneskju um fyrirhugaða rannsókn frá þeim sem á henni báru ábyrgð, enda gátu ekki aðrir um hana vitað. Rannsóknin hafi íþyngt sóknaraðila þessi rúm fjögur ár sem hún hefur staðið.  Verði ríkislögreglustjóra heimilað að halda rannsókninni áfram megi búast við, miðað við önnur sambærileg mál, að hún taki tvö til þrjú ár og síðan taki dómsmeðferð önnur tvö til þrjú ár.

Augljóst sé að sóknaraðili sæti ekki réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma eins og honum sé áskilið í stjórnarskrá og MSE.  Vegna þess hversu langan tíma rannsóknin hafi þegar tekið, meira en fjögur ár, og ljóst að rannsóknin hjá ríkislögreglustjóra sé á frumstigi, sé útilokað að lagaskilyrði gagnvart sóknaraðila séu og verði uppfyllt og beri því að fella niður rannsóknina, enda verði dómstólum óheimilt að sakfella sóknaraðila á grundvelli þessarar langvarandi rannsóknar. Síðbúið réttlæti sé ekkert réttlæti.

c) Sakborningur hefur ekki notið reglunnar um að teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð.

Í 2. mgr. stjórnarskrárinnar segi:

Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Í 2. mgr. 6. gr. MSE segi:

Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.

Þessa lögverndaða réttar hafi sóknaraðili ekki notið.  Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi lýst því yfir á borgarstjórnarfundi 18. desember 2003, að sóknaraðili hefði selt allar eigur sínar „í skjóli nætur“.  Ummælin hafi hann ítrekað í ræðu á borgarstjórnarfundi hinn 22. desember 2003 og hafi jafnframt gefið í skyn að tiltekin viðskipti sóknaraðila og Reykjavíkurborgar einkenndust af spillingu og væru þar með refsiverð.  Ummælin hafi Björn einnig birt á vefsíðu sinni eins og skjölin beri með sér þannig að þau kæmu fyrir sjónir sem flestra.  Með ummælunum hafi ráðherrann gefið í skyn, eða öllu heldur beinlínis sagt, að sóknaraðili hefði gerst sekur um refsiverðan verknað.

Hinn 21. nóvember og 22. nóvember 2003 hafi Davíð Oddsson gefið opinberlega þær yfirlýsingar um tiltekin viðskipti sóknaraðila: „Þetta hafði allt þann brag að þarna væri  verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga“ og „ ... að það blasti við að maður nokkur sé mesti skattsvikari Íslandssögunnar... “.

Augljóst sé að dómsmálaráðherra hafi farið í kjölfarið á forsætisráðherra og hafi a.m.k. viljað veita honum siðferðilegan stuðning með því að endurtaka orð hans og auka við þau.  Hafa verði í huga að forsætisráðherra þessi hafi farið með mikil völd.  Hann hafi verið formaður stærsta stjórnmálaflokks í landinu og hafi haft  yfirburðastöðu í samsteypustjórn með miklu minni flokki.  Megi segja að þeir sem með einhverjum hætti hafi heyrt undir ráðherrann hafi orðið að sitja og standa eins og hann vildi.  Dómsmálaráðherra hafi átt ráðherradóm sinn undir geðþótta forsætisráðherra. Dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, sbr. 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.  Undir hann heyri m.a. ríkislögreglustjóri og sé ríkt embættissamband þeirra á milli og hafi dómsmálaráðherra boðvald yfir lögreglustjóra á sumum sviðum.

Ummæli ráðherranna tveggja séu látin falla í beinum tengslum við rannsóknina á hendur sóknaraðila.  Ummæli forsætisráðherra lutu að skattsvikum og þar með hafi verið vísað til rannsóknarinnar.  Dómsmálaráðherra hafi talað um sölu eigna í skjóli nætur og hafi þar átt við að hann ætlaði að koma eignum sínum úr landi svo að hann kæmist undan því að greiða þá skatta og gjöld sem á hann kynnu að verða lögð á grundvelli rannsóknarinnar.  Er í þessu sambandi vísað í dóm MDE, uppkveðnum 10. febrúar 1995, þar sem fjallað sé um ummæli ráðherra og talsmanna lögreglu. 

Ekki sé unnt að ætlast til þess að ríkislögreglustjóri geti annast rannsóknina á hendur sóknaraðila með hlutlægum hætti við þessar aðstæður.  Enn síður sé unnt að ætlast til þess að sóknaraðili geti litið svo á að hann muni njóta réttlátrar málsmeðferðar þegar svo standi á sem að framan sé lýst.  Sóknaraðili njóti því ekki heldur að þessu leyti þeirrar réttlátu málsmeðferðar sem honum sé áskilin í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. MSE.  Grundvallarreglan um réttláta málsmeðferð eigi ekki aðeins við um málsmeðferð fyrir dómstólum heldur, og ekki síður, við málsmeðferð fyrir skattrannsóknarstjóra og ríkiskattstjóra við rannsóknir sem lúti reglum laga um meðferð opinberra mála.

Þá sé og óhjákvæmilegt að geta þess, að sóknaraðili hafi ekki notið þess réttar að teljast saklaus er rannsóknin fór fram hjá skattrannsóknarstjóra. Sem dæmi megi nefna að í bréfi skattrannsóknarstjóra til verjanda, dags. 29. nóvember 2002, segi m.a.:

Sömuleiðis hefur [X] svarað spurningum ýmist með röngum staðhœfingum eða á villandi hátt. ... hefur embœttið ... komist að þeirri niðurstöðu, að hann hafi vantalið tekjur og eignir á stórfelldan hátt.

Í ummælum þessum felist annars vegar sú afstaða eða dómur að sóknaraðili hafi borið ranglega og villandi fyrir skattrannsóknarstjóra í skýrslugjöf.  Augljóst sé að sá sem hafi ákveðið að svo sé geti ekki annast rannsókn á hlutlægan hátt og kannað jafnt það sem sé til sektar og sýknu.  Ekki láti skattrannsóknarstjóri nægja að staðhæfa þetta um framburð sóknaraðila heldur kveði hann upp þann dóm að sóknaraðili hafi „vantalið tekjur og eignir á stórfelldan hátt“. Með þessu taki skattrannsóknarstjóri sér vald sem hann hafi ekki.  Hann fari ekki með dómsvald. Hlutverk hans sé aðeins það að rannsaka skattamál á hlutlægan hátt og gæta jafnt þess sem sé til sektar og sýknu sakbornings. Þessu hlutverki sínu hafi skattrannsóknarstjóri brugðist og hafi kveðið upp dóm og það löngu áður en rannsókninni lauk.  Ríkisskattstjóri hafi greinilega talið sig bundinn af þessum „dómi“ skattrannsóknarstjóra og hafi gert honum refsingu í samræmi við það.

Ríkislögreglustjóri er jafnsettur skattrannsóknarstjóra í stjórnsýslunni og rannsaki mál samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.  Ekki sé unnt að ætlast til að ríkislögreglustjóri rannsaki rannsókn skattrannsóknarstjóra á gagnrýninn hátt, heldur sé unnt að fullyrða að hann muni leggja rannsókn skattrannsóknarstjóra til grundvallar rannsókn sinni og niðurstaðan sé því fyrir fram gefin.  Engin rök hnígi að því að ríkislögreglustjóri fari gegn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, ekki síst að teknu tilliti til yfirlýsinga æðsta yfirmanns lögreglunnar í landinu og yfirlýsinga forsætisráðherra.

d) Sóknaraðili hefur ekki notið réttlátrar málsmeðferðar.

Sóknaraðili hafi samkvæmt framansögðu ekki notið verndar þeirra grundvallarreglna sem gildi um sakborninga samkvæmt stjórnarskrá og MSE og verði því hvorki ákæra né dómur reistur á rannsókninni.

Varakrafa

Fari svo að ekki verði fallist á kröfuna um að fella niður rannsóknina hjá ríkislögreglustjóra sé gerð sú krafa til vara að viðurkennt verði með dómi að ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. 

Svo sem fyrr segi séu rík embættistengsl milli ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra auk þess sem dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóra sé kunnug afstaða dómsmálaráðherra og fyrrum forsætisráðherra til sóknaraðila og að þeir telja hann sakamann, sem fella beri sök á.  Útilokað sé að ríkislögreglustjóri geti við þessar aðstæður gætt þess að rannsóknin á hendur sóknaraðila verði hlutlæg og erfitt sé að sjá hvernig hann geti lagfært rannsókn skattrannsóknarstjóra. Fram hjá þeirri rannsókn verði ekki gengið, enda hafi hún fylgt kæru skattrannsóknarstjóra og henni verði ekki breytt, en í henni felst áfellisdómur en ekki hlutlæg rannsókn svo sem lög mæli fyrir um.  Með hliðsjón af framangreindu sé á því byggt að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur til meðferðar rannsóknarinnar á hendur sóknaraðila og beri honum því að víkja sæti.

Málsástæður varnaraðila, ríkislögreglustjóra

Af hálfu ríkislögreglustjóra er því haldið fram að dómstólar eigi ekki úrskurðarvald um það hvort hætta eigi rannsókn. Lögregla undir stjórn ákæruvalds beri ábyrgð á því að hefjast handa um rannsókn máls hvort sem máli er beint til lögreglu og ákæruvalds eða þau ákveði að hefjast handa af sjálfsdáðum, sbr. einkum 66. og 67. gr. laga nr. 19/1991. Ákvarðanir um að hætta rannsókn og að höfða ekki mál samkvæmt 76. og 112. gr. sé ákvörðun ákæruvaldshafa.  Þrátt fyrir að bera megi einstakar rannsóknaraðgerðir lögreglu undir dómstóla eigi dómstólar ekki mat um það hvort hefja skuli rannsókn eða hætta henni. Með vísan til þessa er þess krafist að kröfu kærða verði vísað frá dómi.

Ef ekki verði fallist á aðalkröfu ríkislögreglustjóra sé þess krafist að kröfu kærða verði hafnað með vísan til eftirfarandi.

Í aðalkröfu sóknaraðila sé rakið í fjórum liðum hvers vegna hann telji að fella eigi niður opinbera rannsókn á hendur skjólstæðingi hans, vegna meints skattalagabrots. Verði hér á eftir vikið að hverjum lið fyrir sig.

a)  Ne bis in idem eða bann við nýrri málsmeðferð eða refsingu fyrir sömu háttsemi.

Sóknaraðili haldi því fram að með nýrri rannsókn standi til að afla gagna til að unnt verði að ákæra og refsa  öðru sinni fyrir sömu háttsemi. Á hann þar við að álagning skattaálags jafngildi í þessu sambandi refsingu og að ákvæði 2. mgr. 138. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, skýrt í ljósi 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu, útiloki rannsókn lögreglu á þessum meintu brotum  hans.

Þetta telur ríkislögreglustjóri vera rangt.  Í kröfu sinni vísi sóknaraðili til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Rosenquist gegn Svíþjóð.  Eins og þar komi fram, hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu, og hafi vísað til fyrri fordæma þar um, að sú meðferð sem leiddi til álags á skattgreiðanda væri „criminal in nature for the purpose of the invoked provision“ sem var tilvitnuð 4. gr. viðauka nr. 7, sem rakin sé í greinargerð úrskurðarbeiðanda.

Það sem sóknaraðili kjósi hins vegar að nefna ekki sé að dómurinn komst síðan að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir þetta varðaði það ekki við umrædda 4. gr. viðauka nr. 7 að málið var síðar rannsakað af lögreglu og umræddur aðili hlaut síðan dóm fyrir skattalagabrotið.  Ástæðan sé sú að meðferð lögreglu á málinu sé á allt öðrum forsendum en fyrri meðferð þess.  Álag skattayfirvalda væri nánast sjálfvirkt þegar rangt væri staðið að framtali og þyrfti ekki að sanna ásetning til brots eða stórfellt gáleysi til að það yrði lagt á, en í refsimáli væri ákært fyrir brot sem framið væri af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og snerist rannsókn m.a. um að sanna það.  Það snerist m.ö.o um allt annað en meðferð skattayfirvalda.  Þá væri tilgangur þess að leggja á álag í slíkum málum allt annar en þeirra refsiákvæða skattalaga sem leitt gætu til opinberrar ákæru.

Niðurstaða dómsins sé því í raun sú að fyrri meðferð skattayfirvalda á máli útiloki það að álag sé aftur lagt á af þeirra hálfu vegna sömu vanskila, en það komi ekki í veg fyrir að opinber rannsókn sé hafin á vegum lögreglu vegna sömu vanskila, enda sé sú meðferð allt annars eðlis.

Þegar litið sé til þessarar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og hún borin saman við íslensk lög og lagaframkvæmd á þessu sviði þá verði ekki annað sagt en að hún falli þar vel að.  Í 2. mgr. 138. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 segi að krafa sem dæmd sé að efni til verði ekki borin undir sama eða hliðsettan dóm að nýju framar en í lögunum greini.  Þar sé að sjálfsögðu ekki átt við óskylda meðferð sem snúist um allt aðra hluti en fyrri meðferð.  Það sé hins vegar annað mál að þegar skattayfirvöld hafi lokið sinni meðferð á máli geti þau ekki byggt annað mál á sömu atriðum.  Sama eigi við um lögreglu og ákæruvald, nema máli hafi verið vísað frá dómi.

Með vísan til þessa telur ákæruvaldið ljóst að ekki beri að fella niður rannsókn málsins á þessum forsendum.

b) Réttur úrskurðarbeiðanda til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma.

 Eins og fram komi í kröfu sóknaraðila séu um það ákvæði, bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, að málsmeðferð beri að ljúka „innan hæfilegs tíma“.  Meðferð þess máls sem hér sé til umfjöllunar hafi tekið allnokkurn tíma og nokkuð langur tími hafi liðið milli þess að skýrslur hafi verið teknar af kærða.  Það megi rekja til þess að hér sé um gríðarlega flókið og efnismikið mál að ræða og þess vegna hafi rannsóknin tekið þennan tíma.  Það sé því alls ekki rétt að ekkert hafi verið aðhafst í málinu milli þess að skýrslur hafi verið teknar af kærða.  Sé það einfaldlega svo að þegar um flókin, efnismikil og sérstæð mál sé að ræða þá taki rannsókn lengri tíma. Hafi því að mati ríkislögreglustjóra alls ekki verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. MSE við meðferð málsins.

Fari svo að rannsókn málsins taki langan tíma megi vera að tillit verði tekið til þess við ákvörðum refsingar, svo sem fordæmi séu fyrir, verði gefin út ákæra í málinu og kærði sakfelldur.  Það sé hins vegar fráleitt að sú töf sem hafi orðið á rannsókn málsins eigi að leiða til þess að hún verði felld niður.  Megi í þessu sambandi benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 112/2003.  Þar hafi ákærði verið dæmdur til refsingar fyrir skattabrot, en þó hafi verið tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar að meira en 6 ár voru þá liðin frá því að Skattrannsóknarstjóri tók málið til meðferðar.  Hafi Hæstiréttur þar sérstaklega tekið fram að málið væri tiltölulega takmarkað og einfalt úrlausnar.  Ljóst sé að í máli því sem hér sé til umfjöllunar sé allt annað uppi á teningnum og meðferð þess hafi tekið mun skemmri tíma en það mál sem fjallað var um í umræddum dómi Hæstaréttar.

c)  Sakborningur hafi ekki notið reglunnar um að teljast saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð.

Í þessu sambandi vísi sóknaraðili til 2. mgr. (sic) stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Telji hann sig ekki hafa notið þess lögverndaða réttar sem rakinn sé í umræddum ákvæðum þar sem dómsmálaráðherra og þáverandi forsætisráðherra hafi látið falla um hann tiltekin ummæli.  Vísað sé í þessu sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. febrúar 1995 varðandi ummæli ráðherra og talsmanns lögreglu í því máli.

Ríkislögreglustjórinn bendi á að þau ummæli sem hinir íslensku ráðherrar hafi látið falla voru almenn og hafi ekki varðað tiltekin atriði málsins á hendur sóknaraðila, svo sem hins vegar hafi verið raunin í tilvitnuðum dómi Mannréttindadómstólsins.  Séu þessi tilvik að því leyti til gjörólík.  Það að dómsmálaráðherra hafi haldið því fram að viðskipti sóknaraðila og Reykjavíkurborgar einkenndust af spillingu varði t.d. á engan hátt rannsókn lögreglu á meintum skattabrotum hans.  Þá sé bent á að sóknaraðili hafi leitað réttar síns fyrir dómstólum vegna ummæla þáverandi forsætisráðherra um sig og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júní 2004 hafi orð ráðherrans verið dæmd dauð og ómerk.  Í þessu sambandi vilji ríkislögreglustjóri einnig benda á dóm Hæstaréttar frá 9. janúar 2006 í máli nr. 537/2005.  Þar hafi verið um það að ræða að dómsmálaráðherra hafði, líkt og í því máli sem hér um ræði, látið falla tiltekin ummæli um aðila sem voru til rannsóknar hjá lögreglu sem þeir töldu lýsa óvild hans til þeirra.  Kröfðust umræddir aðilar þess að hann yrði af þeim sökum úrskurðaður vanhæfur til að setja ríkissaksóknara til að fara með málið.  Í niðurstöðu sinni segi Hæstiréttur að fallist sé á það með héraðsdómi að ýmis ummæla hans hafi verið mjög gagnrýnin í garð sumra sakborninganna og fyrirtækis þeirra, en ekki yrði hins vegar séð að þau tengdust einstökum sakarefnum í málinu.  Hafi dómurinn síðan komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilega sýnt fram á að ráðherrann hefði orðið vanhæfur til að setja ríkissaksóknara í málinu.

Sóknaraðili heldur því einnig fram að hann hafi ekki notið þess réttar að teljast saklaus hjá skattayfirvöldum og vísar í því samhengi til bréfs skattrannsóknarstjóra til sín.

Hvernig skattrannsóknarstjóri hefur kosið að svara úrskurðarbeiðanda skipti ekki máli í þessu samhengi.  Rannsókn ríkislögreglustjóra sé sjálfstæð og við hana verði jafnt horft til þess sem horfi til sektar og sýknu, svo sem vera beri.  Sú fullyrðing að niðurstaðan sé fyrir fram gefin og engin rök hnígi að því að ríkislögreglustjóri fari gegn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra sé einfaldlega röng.  Lögreglan taki málið til sérstakrar rannsóknar á grundvelli 67. gr. laga um meðferð opinberra mála og fylgi þeim reglum um málsmeðferð sem rakin sé í lögum.  Ef ríkislögreglustjóri telji að lokinni rannsókn að ekki sé líklegt að sakfellt verði, t.d. vegna þess að ekki náist að sanna ásetning til brots eða stórfellt gáleysi, verði að sjálfsögðu ekki ákært í málinu.

Í ljósi alls þessa telur ríkislögreglustjóri að ekki hafi verið sýnt fram á að hann geti ekki annast rannsóknina með hlutlægum hætti.

d) Að úrskurðarbeiðandi hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar.

Varðandi þennan lið sé látið nægja að vísa til þess sem að framan sé rakið svo sem gert sé í greinargerð úrskurðarbeiðanda.  Telji ríkislögreglustjóri að ekkert bendi til að sóknaraðili hafi ekki notið eða muni ekki njóta réttlátrar málsmeðferðar.

Til vara krefjist sóknaraðili þess að viðurkennt verði með dómi að ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins.  Sé þessi krafa gerð á þeim forsendum að vegna ummæla ráðherra, og þeirrar afstöðu sem sóknaraðili telur þar koma fram, sé ríkislögreglustjóri vanhæfur til meðferðar málsins vegna ríkra embættistengsla milli ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra auk þess sem dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður ríkislögreglustjóra.

Þessu hafni ríkislögreglustjóri.  Í þessu sambandi sé vísað til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar.  Svo sem þar sé rakið taldi Hæstiréttur að dómsmálaráðherra væri hæfur til að skipa sérstakan ríkissaksóknara til meðferðar þess máls þrátt fyrir að ýmis ummæli hans hafi verið mjög gagnrýnin í garð kærða í málinu.  Hafi ummæli hans í því máli verið um margt svipuð þeim ummælum sem ráðherrann hafi látið falla í garð þess sem til rannsóknar sé í máli þessu og megi ljóst vera í því ljósi að ríkislögreglustjóri sé ekki vanhæfur til að fara með málið þrátt fyrir þessu almennu ummæli ráðherrans um hinn kærða.

Niðurstaða

Fyrir liggur að yfir stendur opinber rannsókn á hendur sóknaraðila, X.  Tilefni rannsóknarinnar er kæra Skattrannsóknarstjóra ríkisins.  Er sóknaraðila gefið að sök að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 1998-2001 og að hafa vantalið eignir sínar, ætlaðan söluhagnað af eignum sínum og launatekjur og hlunnindi vegna starfa hans í þágu C ehf., D hf. og E hf.  Þykja ætluð brot geta varðað við lög um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003, lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við upphaf skýrslutöku hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hinn 9. mars 2006 lagði sóknaraðili fram bókun þar sem þess er krafist, með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að rannsókn á hendur honum verði felld niður þar sem hana skorti lögmætan grundvöll.  Sóknaraðila var tilkynnt að krafa hans hefði veri bókuð og ekki yrði tekin frekari afstaða til kröfunnar og yfirheyrslunni fram haldið.  Sóknaraðili lýsti því þá yfir að hann liti á þessa afstöðu rannsóknara sem synjun á kröfu hans og myndi hann bera þá synjun undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Krafa sóknaraðila var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. mars 2006.  Var hún þingfest hinn 20. mars 2006.  Munnlegur málflutningur um fram komna kröfu fór fram 6. apríl sl. og var málið þá tekið til úrskurðar.

Eins og áður greinir telur sóknaraðili að tilgangur hinnar opinberu rannsóknar á hendur honum miðist að því að afla sönnunargagna svo unnt verði að ákæra hann og refsa honum öðru sinni með dómi fyrir þá hina sömu háttsemi sem honum hafi nú þegar verið gerð refsing fyrir með skattaálagi, sbr. það sem áður er rakið. 

Um heimild til að leita úrlausnar héraðsdóms um kröfu sína vísar sóknaraðili til 75. gr. laga nr. 19/1991.  Samkvæmt ákvæðinu má bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir.  Úrlausn dómara skal vera í úrskurðarformi sé þess krafist. 

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila þannig að ágreiningur sé með aðilum um lögmæti hinnar opinberu rannsóknar á hendur sóknaraðila.  Rannsókn opinberra mála er í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum, sbr. 66. gr. laga nr. 19/1991.  Fallast ber á með varnaraðila að dómstólar eigi ekki mat um það hvort hefja skuli rannsókn eða hætta henni.  Hins vegar verður að telja að á grundvelli nefndrar 75. gr. laga nr. 19/1991 verði  lögmæti einstakra aðgerða rannsóknara borið undir dómara og þá einnig lögmæti rannsóknar í heild sinni.  Er því ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 19/1991 hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir uns hið gagnstæða er sannað.  Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar verður krafa, sem dæmd er að efni til, ekki borin undir sama eða hliðsettan dóm að nýju fremur en í lögunum segir.

Enda þótt skattskil sóknaraðila vegna gjaldáranna 1998-2002 hafi sætt rannsókn skattyfirvalda og honum verið gert að sæta skattaálögum fyrir að telja ekki réttilega fram til skatts verður því ekki jafnað til þess að sóknaraðili hafi sætt opinberri rannsókn og hlotið dóm, sbr. 2. mgr. 138. gr. laga nr. 19/1991.  Aðrar forsendur liggja þar að baki.  Þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á ólögmæti umræddrar rannsóknar þannig að hana beri að fella niður af þeim sökum.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hann sæti ekki réttlátri málsmeðferð eins og honum sé áskilið í stjórnarskrá og MSE.   Samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.  Eins og áður greinir er rannsókn opinberra mála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum, sbr. 66. gr. laga nr. 19/1991.  Fram er komið að rannsóknin er umfangsmikil.  Engin gögn liggja fyrir í máli þessu um rannsóknina og er ekki á færi dómsins að meta hvort rannsókn hefur dregist lengur en eðlilegt má telja.  Sóknaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á að brotið hafi verið gegn nefndu ákvæði stjórnarskrár eða 1. mgr. 6. gr. MSE.

Sóknaraðili byggir á því að tiltekin ummæli forsætisráðherra og dómsmálaráðherra leiði til þess að hann hafi ekki notið reglunnar um að teljast saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð og vísar til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. MSE.

Rannsókn ríkislögreglustjóra er sjálfstæð rannsókn og byggist á öðrum forsendum en sú rannsókn sem fór fram á vegum skattstjóra og ríkisskattstjóra.  Ekki verður séð að tilgreind ummæli forsætisráðherra og dómsmálaráðherra hafi beinst að eða tengst þeirri rannsókn sem hér er til umfjöllunar.  Þykir ekki sýnt fram á að ummæli þessi séu þess eðlis að þau komi í veg fyrir að ríkislögreglustjóri geti annast rannsóknina með hlutlægum hætti.  Er ekki sýnt fram á að brotin hafi verið tilgreind ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu varðandi rannsókn þessa.

Ber samkvæmt framansögðu að hafna aðalkröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að skylt sé að fella niður opinbera rannsókn á hendur sóknaraðila.

Til vara gerir sóknaraðili þá kröfu að  viðurkennt verði að ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn þessa.

Með hliðsjón af því sem áður er rakið um ummæli dómsmálaráðherra þykir ekki sýnt fram á að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur til þess að fara með rannsókn á hendur sóknaraðila og ber því að hafna varakröfu hans.

Í máli þessu gerir lögmaður sóknaraðila kröfu á hendur varnaraðila fyrir hönd íslenska ríkisins um greiðslu alls málskostnaðar, þar á meðal þóknunar verjanda. Eftir úrslitum málsins er þeirri kröfu hafnað.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.  Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, í máli þessu.